Þrír leikir
12.10.2008 | 18:36
Enn ein íþróttahelgi. Hmmm, eigum við ekki bara að vera hreinskilin hérna. ALLAR helgar hjá mér eru íþróttahelgar.
Í gær spiluðu Family Ties, innanhússliðið mitt, gegn Crabs. Veikindi og meiðsli hrjá liðið og við höfðum aðeins fimm stráka og þar af spilar Joe Resendes í marki. Benita spilaði því sem strákur og því var það svo að helming leiksins voru fleiri stelpur á vellinum en strákar, ef frá er talinn markvörður. Þreyta var farin að hrjá liðið undir lokin en samt náðum við jafntefli eftir að hafa lent tveim mörkum undir. Lokastaða 6-6 og annað jafnteflið í röð staðreynd.
Stuttu eftir að okkar leik lauk Spiluðu Canucks sinn annan leik í hokkíinu gegn Calgary Flames. Þrátt fyrir að skora fyrsta mark leiksins lentu
þeir tveim mörkum undir (eins og við) í 1-3 en með ótrúlegri seiglu náðu þeir að jafna, 4-4 og í framlengingu skoraði Demetra sitt fyrsta mark sem Canuck og sigur minna manna staðreynd. Við höfum því unnið tvo fyrstu leiki vertíðarinnar og sitjum á toppi deildarinnar.
Í dag er svo stærsti leikur helgarinnar. Vancouver Whitecaps, fótboltaliðið sem Teitur Þórðar þjálfar, leikur úrslitaleikinn um bikar USL deildarinnar. Ég ætla á leikinn og öskra strákana áfram. Segi ykkur í kvöld eða morgun frá því hvernig fór. Annars ætti Mogginn eiginlega að segja ykkur það.
Í ekki-íþróttafréttum er það helst að ég keypti loksins nýja Sigurrósar diskinn og mér finnst hann frábær. Það besta sem þeir hafa gert síðan fyrsti diskurinn kom út fyrir níu árum.
Ég keypti líka nýja diskinn með Emiliönu Torrini og hann er ÆÐISLEGUR. Ég hreinlega elska lagið Me and Armani. Frábært lag. Þvílík snilld að nota reggítakt í laginu. Og skemmtilegt að geta farið út í næstu tónlistarbúð í Vancouver og keypt íslenskar plötur.
Athugasemdir
Það var líka eins gott fyrir þig að festa kaupum á disk Emilíönu Torrini - hann er alveg æðislegur og verður alltaf betri og betri með tímanum!
Róslín A. Valdemarsdóttir, 12.10.2008 kl. 23:32
Ég vissi ekki að Emilíana væri komin með nýja plötu, kúl! :) Ps. bara til að vera með smámunasemi, þá kom fyrsta platan með Sigur Rós út 1997, fyrir 11 árum ;)
Helga Fanney (IP-tala skráð) 13.10.2008 kl. 10:37
Ja hérna, ég hélt alltaf að Ágætis byrjun væri fyrsti diskurinn.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 13.10.2008 kl. 20:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.