Pókerandlit - not
30.11.2008 | 21:00
Ég hef alltaf verið eins og opin bók og berað allar tilfinningar utaná mér. Fólk (og þá sérstaklega vinir mínir) hefur alltaf getað séð hvort mér líkar eða mislíkar við einhvern, hvort mér líður vel eða illa, o.s.frv. Ég hef aldrei talið þetta ókost. Ég met fátt meira en hreinskilni og ég þoli ekki þegar fólk spilar sig annað en það er.
En uppá síðkastið er ég farin að halda að ég þurfti að hafa frekari stjórn á því andliti sem ég sýni fólki. Á föstudagskvöldið var pöbbakvöld hjá VANOC og ég skellti mér með öðrum. Ég var í pínulítið fúlu skapi eins og ég hef verið megnið af vikunni og eftir því sem Liza segir mér var það ákaflega augljóst. Brosið náði aldrei til augnanna og þótt ég rabbaði kurteisislega við fólk var augnaráðið alltaf fjarlægt. Liza skammaði mig fyrir þetta á laugardaginn. Sagði að ég yrði að læra að sýna alltaf áhuga á öðrum á opinberum samkomum, hvernig sem mér liði. Ég gæti sýnt mínar réttu tilfinningar þegar ég væri með nánum vinum. Vitiði, ég held að þetta sé rétt. Ef ég fer á samkomu og mér líður ekkert sérlega vel, þá er öruggt að enginn mun koma og láta mér líða betur ef ég sýni þeim engan áhuga og sit útí horni með fýlusvip. En ef ég brosi við fólki og sýni því áhuga þá er aldrei að vita nema skemmtilegt fólk komi og rífi mig uppúr fýlunni. Ég þarf að fara að brosa við speglinum og læra að setja upp viðeigandi svip.
En bara svo þið farið ekki að hafa neinar áhyggjur af mér: það er ekkert að. Ég hef enga sérstaka ástæðu til að vera í fúlu skapi þessa vikuna. Ég hef frábæra vinnu, gott húsnæði, yndislega vini og uppá síðkastið hef ég haft nóg að gera við að skemmta mér og vera með öðrum. Það eru bara smávægis hnökrar sem valda fýlunni; annars vegar flutningar á vinnustað út í dimmt og leiðinlegt horn úr dásamlegu svæði með stórum gluggum og útsýni yfir fjöllin. Hins vegar smávægis karlavandamál, sem þó virðast alltaf vera meira og minna til staðar.
Á föstudaginn kættist ég þegar Bryn og Jason komu á pöbbakvöldið og ég endaði á því að fara með þeim á ítalskan veitingastað þar sem við borðuðum góðan mat. Þessir strákar eru yndislegir félagar og það er alltaf gaman að vera með þeim. Við spilum saman fótbolta með Vanoc en eigum því miður bara einn leik eftir því það er nokkuð ljóst að við munum ekki komast í úrslitakeppnina. Við unnum bara einn leik af fjórum. En það er allt í lagi, aðalatriðið var að vera með og þessir tveir, ásamt Russ, eru bestu vinir mínir meðal karlmanna hjá Vanoc.
En ég hef líka kynnst dásamlegum konum í fyrirtækinu. Liza er sennilega mín nánasta vinkona hjá Vanoc og við sitjum eins og er hlið við hlið. Því miður mun það breytast við flutningana í næstu viku. Þá munum við Kiara sitja með Bas og Francois af því að yfirmönnunum finnst að Protocol og Venue Protocol þurfi að vinna betur saman. Liza stýrir sjálfboðaliðum ICS og það er þess vegna sem ég vinn líka náið með henni. Undanfarnar vikur hefur vinnan fyrst og fremst gengið út á að fá góða sjálboðaliða með tungumálakunnáttu. Áðurnefnd Kiara er líka stórskemmtileg og við vinnum náið saman enda erum við Venue Protocol liðið og eins og er þær einu sem vinna undir Maureen. Ég umgengst líka töluvert Emmu sem vinur fyrir Sustainability og Elli í Workforce. Þá hef ég kynnst Sari hinni finnsku í gegnum Kiöru og Virginiu, Rebeccu og fleiri stelpum úr Workforce í gegnum Elli.
Jólaball fyrirtækisins verður eftir tvær vikur (kvöldið áður en ég flýg til New York) og nú er verið að finna kjól.
Athugasemdir
Aðventukveðjur frá Íslandi, hafðu það rooosagott!!!! Voðalega kannast ég við þetta með svipbrigðin:) ég var líka þannig hérna á árum áður en er komin með þvíííílíkt pókerfeis á seinni árum.
alva (IP-tala skráð) 30.11.2008 kl. 22:17
Vonandi kemur goda skapid bara fljott aftur, tha tharftu ekkert ad vera ad setja upp pokerandlit fyrir okunnuga! Smile..without a reason why...love, as if you were a child...
Rut (IP-tala skráð) 1.12.2008 kl. 19:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.