Kosningarétturinn í raun tekinn af Íslendingum erlendis

Kosningareglur Íslands kveða á um það að þeir sem hafa verið búsettir erlendis lengur en átta ár verða að kæra sig inn á kjörskrá og verða að gera það fyrir 1. desember fyrir kosningar. Vegna þess að ekki var boðað til kosninga fyrir þann tíma að þessu sinni þýðir þetta að þeir Íslendingar sem búið hafa erlendis lengur en fjögur ár og kærði sig ekki inn á kjörskrá í haust upp á von og óvon um að við losnuðum við bölvaða stjórnina, fá ekki að kjósa í næstu Alþingiskosningum. Til þess að breyta þessu þarf að breyta lögum.

Ég legg til að þessum lögum verði breytt asap svo að við sem búum erlendis fáum að taka þátt í kosningunum eins og aðrir íslenskir ríkisborgarar. 

Á Fésbók hefur verið búinn til hópur um þetta málefni og má finna síðuna hér: http://www.facebook.com/home.php#/group.php?gid=65012319016&ref=mf

Þar má lesa þessa yfirlýsingu:

 
Nýlega var boðað til Alþingiskosninga með óvenjulega skömmum fyrirvara og fara þær fram þann 25. apríl 2009.

Venjulega hafa Íslendingar búsettir erlendis vitað af kosningum með dágóðum fyrirvara og haft nægan tíma til að tryggja það að þeir séu á kjörskrá fyrir tilsettan tíma, sem er 1. desember ár hvert. Það er ljóst að í þetta skiptið er ekki mögulegt að virða þau tímamörk, ekki var ljóst í nóvember að boðað yrði til kosninga í ár.

Þessar kosningar eru mjög mikilvægar því óumdeilanlega eru miklir umbrotatímar á Íslandi einmitt núna. Það eru því mikil vonbrigði þeim sem komast að því að þeir verði að sitja hjá í þetta skiptið.

Við undirrituð óskum því eftir því að samþykkt verði bráðabirgðalög sem geri íslenskum ríkisborgurum kleift að komast á kjörskrá fyrir þennan óvænta kjörfund í apríl.
http://www.petitiononline.com/hqnv3bb/petition.html

Ég hvet alla til þess að skrifa undir þessa áskorun og ef einhver Alþingismaður les þetta þá hvet ég þá til þess að taka þetta mál upp á Alþingi sem fyrst. Manni finnst sem réttur manns sem Íslendings hafi verið tekinn frá manni þegar kosningarétturinn hefur verið tekinn í burtu. Og þessar kosningar eru líklega þær mikilvægustu sem haldnar hafa verið síðan ég fékk kosningarétt fyrir .... nokkrum árum!

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl Kristín,

 Af hverju viltu kjósa á Íslandi?  Þú býrð ekki á Íslandi, borgar væntanlega ekki skatta á Íslandi.  Hvers vegna viltu ráða því hvernig íslensku þjóðfélagi er stjórnað?  Hvernig fara hagsmunir þínir saman við þá sem nú búa á Íslandi?  Brottfluttir Reykvíkingar hafa ekki kosningarétt til borgarstjórnakosninga.

Heimir Hermannsson (IP-tala skráð) 17.2.2009 kl. 11:49

2 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Í fyrsta lagi þá borga ég skatta á Íslandi því í fyrra var ég á launum frá Rannís. Þannig að ólíkt öðrum Íslendingum þá borga ég skatta án þess að fá sérlega mikið fyrir þá.

Í öðru lagi þá er ég í tímabundinni vinnu hér sem líkur að ári. Þá er aldrei að vita nema ég flytji heim og ef það gerist þá eru enn þrjú ár eftir af tímabilinu.

Í þriðja lagi þá hef ég ekki kosningarétt í Kanada af því að ég er ekki ríkisborgari og ef ég missi réttinn á Íslandi þá hef ég hvergi neinn kosningarétt og þar af leiðandi neinn rétt til þess að hafa áhrif með atvkæði mínu.

Í fjórða lagi þá er ég ennþá Íslendingur þótt ég sé tímabundið erlendis og þar af leiðandi skiptir það mig heilmiklu áli hverjir stjórna landinu.

Í fimmta lagi þá skulda ég ennþá námslán á Íslandi og á þess vegna hagsmuna að gæta.

Ég gæti ábyggilega haldið áfram...

Kristín M. Jóhannsdóttir, 17.2.2009 kl. 14:43

3 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Ó, og ég vil bæta enn einu við. Ég hef aldrei flutt burtu til framtíðar. Í fimm af þessum árum sem ég hef verið erlendis hef ég verið í námi. Það hefur alltaf verið framtíðin að flytja aftur heim. Hvort sem það verður að ári eða síðar. Þess vegna skiptir það mig miklu máli hvernig þjóðfélagið er heima. Og til að vera algjörlega hreinskilin þá hafa líkurnar á því að ég komi heim að ári orðið næstum engar. Það er að engu að snúa. Í raun er það brjálaði að koma heim núna eða eftir ár. Það er því von mín að eftir taki stjórn (vonandi sú sem nú hefur tekið við) sem getur komið landinu í samt lag aftur svo fólk erlendis hafi áhuga á því að snúa til baka.

Ef ég væri alfarin flutt frá Íslandi væri þetta kannski öðruvísi en það er ekki svo. Það hefur alltaf verið planið að koma til baka.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 17.2.2009 kl. 14:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband