Glæpaborgin Vancouver

Í dag var framið sjöunda morðið á StórVancouversvæðinu á einni viku. Tólfta skotárásin á sextán dögum. Allar þessar árásir virðast vera tengdar glæpaklíkum. Talið er að UN glæpaklíkan (nei, held það séu ekki Sameinuðu Þjóðirnar) sé að reyna að útrýma félögum í Rauðu sporðdrekunum. Í gær horfði fjögurra ára drengur upp á móður sína skotna við hliðina á sér í fjölskyldubílnum. Sú hafði verið tekin fyrir eiturlyfjasölu og var einmitt félagi í Rauðu sporðdrekunum.

Hingað til hafa saklausir samborgarar sloppið en það hlýtur bara að vera spurning um tíma hvenær einhver er svo óheppinn að vera rangur maður á röngum stað. Sérstaklega þar sem sumar þessa skotárása hafa átt sér stað um miðjan dag og jafnvel á bílastæðum verslanamiðstöðva. 

Margir eru víst orðnir hræddir um sjálfa sig og börnin sín og það virðist sérstaklega eiga um norðurhluta Surreyborgar þar sem ástandið virðist einna verst. Sjálf hef ég ekki miklar áhyggjur enda örugglega meiri líkur á því að drepast í umferðaslysi en að lenda í skotárás, en það er ljóst að lögreglan verður að fara að gera eitthvað í málinu.

Winnipeg var áður fyrr talin glæpaborg landsins þegar miðað er við höfðatölu en það virðist sem Vancouver hafi nú tekið við þeim vafasama titli. Hmmm...alltaf virðist ég vera í glæpaborgunum!!!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband