Góður dagur í Whistler - enn og aftur
9.3.2009 | 21:06
Ég er búin að vera svo löt við að blogga að ég er ekki búin að segja ykkur frá helmingnum af því sem á daga mína hefur drifið undanfarið. Og ég stórefa að ég muni ná að segja ykkur frá því öllu. Svo í staðinn ætla ég bara að skrifa aðeins um gærdaginn.
Ég vaknaði alltof snemma um morguninn (óvenju snemma jafnvel því klukkunni var breytt í fyrra nótt), rauk á fætur, klæddi mig, setti skíðin út í bíl og keyrði niður í Kits að sækja Lizu. Fattaði fljótlega að ég gleymdi skíðaklossunum heima, sótti þá (tapaði 18 mínútum á þessu), keyrði svo niður í bæ og sótti Patriciu og saman keyrðum við þrjár upp til Whistler, með smá morgunverðarstoppi í Squamish.
Veðrið var ótrúlegt. Það var reyndar kalt þegar við komum uppeftir svo ég skalf aðeins fyrstu ferðirnar, en svo fór sólin að skína og dagurinn reyndist dásamlegur. Við eyddum öllum morgninum í 7th Heaven lyftunni á Blackcomb og snjórinn var frábær. Þetta er uppáhaldsskíðasvæðið mitt. Meiriháttar. Eftir hádegið skíðuðum við Whistler.
Við hættum ekki fyrr en búið var að loka öllum lyftum. Þá fórum við á írskan bar og fengum okkur að borða. Ég drakk þetta dásamlega kakó og fannst það passa vel. Ég held við höfum verið þarna í rúma tvo klukkutíma.
Áður en ég fór heim skaust ég yfir á hótelið þar sem VANOC fólk dvelur þessa dagana, með pakka handa vini mínum sem átti afmæli á laugardaginn. Hann hafði ætlað að koma og borða með okkur en var fastur í vinnu. Ég hálf skammaðist mín fyrir það að hafa átt frí alla helgina á meðan hann greyið var að vinna og það fram á kvöld. En svona er þetta, vinnuálagið er misjafnt.
Keyrslan í bæinn var svolítið stressandi því það var dimmt og illa lýst. Alls staðar var staðið í vegavinnu svo maður þurfti oft að keyra undarlegustu leiðir, og svo eru alltof margir bílar með vanstillt ljós. Svo ég dólaði þetta á löglegum hraða og skilaði okkur heilum á húfi í bæinn.
Góður dagur.
P.S. Rut, vona að þú hafir lesið margt úr þessu.
P.P.S. Þegar ég vaknaði í morgun var snjór á götum. Þótt ég sé þrælvanur snjóökumaður ákvað ég að taka strætó í vinnuna því ég treysti ekki ökumönnum í Vancouver. Hér lenda allir í árekstri um leið og föl þekur jörð.
Athugasemdir
Meira lúxuslífið þá þér þarna. Skvísuleg gleraugu.
Marinó Már Marinósson, 9.3.2009 kl. 22:53
Takk fyrir bloggid, nu set eg mig i stellingar og byrja ad lesa...
Rut (IP-tala skráð) 10.3.2009 kl. 09:29
Það hlýtur að vera gaman á skíðasvæðum í Kanada um þessar mundir.
Hilmar Gunnlaugsson, 10.3.2009 kl. 18:21
Takk Marinó. Rut, þegar búin að fá söguna. Hilmar, já svo sannarlega. Það mætti reyndar vera meiri snjór en mikið rosalega er samt skemmtilegt að skíða fjöllin hér í vesturhluta Kanada.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 10.3.2009 kl. 22:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.