Stórstjarna íslenskra fræða í Kanada fallinn frá

Mikið var sorglegt að lesa fréttina um lát Haralds Bessasonar.

Ég fetaði að sumu leyti í fótspor Haralds þegar ég fluttist til Kanada og hóf kennslu við íslenskudeild Manitóbaháskóla. Frá fyrsta skóladegi heyrði ég um Harald. Hann hafði ekki kennt við skólann í fjölda ára þegar ég kom þangað en samt sem áður var mönnum tíðrætt um hann. Kannski var þetta að hluta til vegna þess að þegar ég kom fyrst var skrifstofan mín ekki tilbúin svo ég fékk að nota skrifstofu Skip Coolage sem þá var í rannsóknaferð á norðurslóðum, en Skip var líklega einn besti vinur Haralds í Winnipeg. Þegar Skip kom til baka, og skrifstofan mín ekki enn tilbúin, ræddum við mikið saman og þá sagði Skip mér endalausar sögur af hinu og þessu sem þeir Haraldur höfðu brallað. Nokkrar sögur fékk ég líka frá Gene Walz sem skrifaði söguna af hinum vestur-íslenska Charlie Thorson.

Haraldur þekkti alla og öllum líkaði við Harald. Hann var skemmtilegur og sniðugur og brallaði margt. Frábær fulltrúi Íslendinga á erlendri grund. 

Hann stundaði líka rannsóknir á íslensku eins og hún var töluð í Manitoba og skrifaði um það nokkrar greinar sem að sjálfsögðu eru stórskemmtileg lesning.

Sjálf hitti ég ekki Harald fyrr en ég fór á ráðstefnu á Íslandi veturinn 2001. Þá var ég send til hans með kveðjur frá hérumbil öllum í Kanada. Ég átti eftir að hitta hann nokkrum sinnum eftir það og alltaf var það jafn skemmtilegt. Hann hafði frá svo mörgu að segja og ég sat agndofin og hlustaði á lýsingar hans á fólki sem hann hafði hitt á þeim 30 árum sem hann bjó í Kanada. Landinu þar sem hann ætlaði aðeins að búa í stuttan tíma en sem að lokum eignaði sér stóran hluta af lífi hans.

Eftir góð ár við Háskólann á Akureyri kom Haraldur aftur til Kanada, að þessu sinni til Toronto þar sem flest börn hans búa, og þar átti hann eftir að ljúka sinni ævi.

Ég veit að hans er sárt saknað við Manitobaháskóla þar sem hann mun alltaf vera stórstjarna, og ég vil nota tækifærið og senda samúðarkveðjur til Margrétar og barnanna. Mikill maður er fallinn.


mbl.is Haraldur Bessason látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Ég þekkti Harald og hef aldrei fyrirhitt snjallari ræðumann. Húmor hans var einstakur.

Hans verður sárt saknað.

Hjálmtýr V Heiðdal, 9.4.2009 kl. 18:13

2 identicon

Blessuð sé minnig hans.

Númi (IP-tala skráð) 10.4.2009 kl. 11:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband