Helgin framundan

Páskahelgin er framundan þótt ég hafi reyndar verið komin í páskafrí um miðjan dag í gær. Kanadamenn fá ekki sama langa páskafríið og Íslendingar (vanalega er bara einn frídagur um þessa helgi) en VANOC ákvað að gefa okkur almennilegt frí. Þannig að skrifstofunni var lokað um hádegi í gær.

Ég ætla að gera mér dagamun (eða öllu heldur helgarmun) í fyrsta sinn í mörg ár. Við erum nokkuð stór hópur sem höfum leigt hús á Vancouver eyju og ætlum að dvelja þar um helgina. Húsinu fylgir heitur pottur, grill, billjardborð, kanú, árabátur og fleira. Mér skilst á þeim sem fóru í dag að það megi sitja fyrir utan húsið og horfa á skallaerni og seli fyrir utan. Frábært. Kem heim á mánudaginn.

Ástæða þess að ég fór ekki í dag eins og sumir var sú að ég átti miða á Canucks leik og vildi ekki missa af honum. Þetta var sjöundi leikurinn sem ég fer á í vetur og ég hef verið svo heppin að við höfum unnið alla þessa leiki. Ég held því að Canucks ættu að ráða mig til þess að koma á leiki hjá þeim.

Við vorum búin að tryggja okkur sæti í úrslitakeppninni og nú er mögulegt að ná líka deildartitlinum. Við erum tveim stigum á undan Calgary en þeir eiga leik til góða (tvö stig fást fyrir sigur). Ef Calgary vinnur báða leikina sem eftir eru og við vinnum okkar síðasta leik, þá erum við með jafnmörg stig en þeir vinna deildina af því að þeir hafa unnið fleiri leiki. Við höfum oftar náð jafntefli og síðan tapað í framlengingu eða vítakeppni. Því miður skiptir það ekki máli að við unnum fjóra af sex leikjum okkar gegn Calgary. Nú er að vinna síðasta leikinn okkar og treysta svo á að Edmonton nái að taka alla vega eitt stig af Calgary. Við eigum það inni hjá þeim. Það var einmitt Edmonton sem varð þess valdandi að við misstum af úrslitakeppninni í fyrra!

Miðar á úrslitakeppnina fara í sölu á laugardaginn og vinur minn ætlar að reyna að fá miða. Ég verð úti í eyju og örugglega ekki í netsambandi svo ég get ekki reynt. Vona að hann fái miða svo ég komist á leik. Hef aldrei farið á hokkíleik í úrslitakeppni. Annars er alltaf gaman að fara á pöbb og horfa þar á leikina í sjónvarpinu með öðrum.

En nú er best að fara í háttinn því ég þarf að vakna allt of snemma.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl Kristín ,mér leikur forvitni á því þar sem þú bendir á í fyrri pistli þínum ,,á söguna um Charlie Thorson,,veist þú hvort að Íslensk útgáfa af sögunni um hann sé til.?Hafðu það sem allra best í vesturbyggðum.Gleðilega Páska.

Númi (IP-tala skráð) 10.4.2009 kl. 11:35

2 identicon

Gledilega paska Stina, stadurinn sem thu ferd a til ad maula a paskaegginu thina hljomar aedislega, og ekki er verra ad hafa godan felagsskap lika. Vonandi verdur thetta super!

Rut (IP-tala skráð) 10.4.2009 kl. 12:31

3 Smámynd: Jens Sigurjónsson

Gleðilega Páska.

Og vonandi verður helgin æðisleg á eyjunni.

Kveðja frá Newfounland / Jenni.

Jens Sigurjónsson, 10.4.2009 kl. 14:25

4 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Því miður Númi. Ég veit að Gene talaði við flest íslensku útgáfufyrirtækin fyrir átta eða níu árum með það í huga að láta þýða bókina á íslensku og gefa hana út á Íslandi, en það var enginn áhugi á því.

Takk öll fyrir kveðjuna. Vona að við eigum öll frábæra Páskahelgi. Sendi páskakveðjur til Íslands, Ítalíu og Nýfundnalands!

Jenni býrðu á Nýfundnalandi? Er ekki frábært þar? Það er eina kanadíska provincið sem ég hef ekki komið til. Hef ekki komið í neitt territorianna.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 10.4.2009 kl. 17:20

5 identicon

Sælar Kristín,enn leikur mér forvitni um þessa bók um Charlie Thorsson.Veistu nokkuð enskuheitið á henni og útgáfuár?.Hef mikin áhuga á Íslendingum í Vesturbyggðum,á þar sjálfur ættingja sem ég reyndar þekki ekki en langar mikið til að skrifa til,en kjarkin vantar,er reyndar tiltölulega nýbúinn að finna þá með hjálp mikils Íslandsvinar í Kanada.Kannski kannast þú við hann ,en hann heitir Nelson Gerrard,og talar reiprennandi Íslensku og hefir verið undanfarin sumur á Vesturfararsetrinu á Hofsósi. Hafðu það fínt í fríinu,,kveðja  Númi.

Númi (IP-tala skráð) 10.4.2009 kl. 23:30

6 Smámynd: Kristján P. Gudmundsson

Það er alveg dæmalaust,hvað maður getur orðið spenntur við áhorf á íshokkí ! Þú heldur með Kanúkkunum. Ég skal halda með þeim líka, besta Kristín. Gleðilega Páska !

Kveðja, KPG.

Kristján P. Gudmundsson, 11.4.2009 kl. 19:18

7 Smámynd: Hilmar Gunnlaugsson

Ég óska þér gleðilegra páska Stína mín.

Hilmar Gunnlaugsson, 11.4.2009 kl. 21:01

8 Smámynd: Sigurjón

Sæl frænka.  Bara einn frídag þessa helgi?!  Þá sunnudaginn?  Er unnið á laugardögum líka, í viðbót við flöskudaginn langa?  Ja hérna...

Alla vega, eigðu gleðilega páska og beztu kveðjur til Kanada.

Sigurjón frændi

Sigurjón, 11.4.2009 kl. 21:52

9 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Blessaður Númi. Hér eru upplýsingar um bókina:

Cartoon Charlie: The Life and Art of Animation Pioneer Charles Thorson, by Prof. Gene Walz. Winnipeg, Canada: Great Plains Publications,1998. 222 pages. ISBN 0-9697-8049-4.

Jájá, ég þekki Nelson, þótt hann hafi reyndar ekkert munað eftir mér þegar hann hitti vini mína í fyrra. Og hann sem hafði meira að segja boðið mér í kaffi fyrir nokkrum árum. 

Takk annars allir fyrir kveðjurnar ogKristján, takk fyrir að halda með Kanúkum. Þeir eru einmitt núna að leika fyrsta leikinn í úrslitakeppninni og staðan er 2-1 fyrir okkur. Ég spáði 3-1 svo við þurfum bara að skora einu sinni í viðbót og halda svo hreinu og þá hef ég rétt fyrir mér.

Sigurjón, ég meina að sjálfsögðu einn auka frídagur.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 16.4.2009 kl. 04:18

10 Smámynd: Sigurjón

Ah, ég skil.  Er skírdagur sumsé ekki frídagur í Kanada?

Sigurjón, 16.4.2009 kl. 10:22

11 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Nei, enginn fær frí á skírdag. Og bara sumir fá frí annan í páskum. Vanalega er það bara föstudagurinn langi sem er frídagur.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 16.4.2009 kl. 14:32

12 Smámynd: Sigurjón

Úff...  það sýgur geimverur.

Sigurjón, 16.4.2009 kl. 19:58

13 identicon

Kærar þakkir með bókarheitið ,nú er bara leita og finna.

Númi (IP-tala skráð) 16.4.2009 kl. 23:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband