Útlitið er svart

Það lítur ekki vel út eftir fyrsta hluta sjöunda leiks í hokkíinu. Dallas hafa skorað og það hefur verið nær undantekningarlaust í þessari útsláttarkeppni að liðið sem skorar fyrst vinnur leikinn (5 af 6 leikjum hingað til). Það góða er að Vancouver hefur spilað mun betur í þessum fyrsta hluta en þeir gerðu í síðasta leik þannig að enn er von. Mikið rosalega er þetta samt stressandi. Ég er algjörlega á tauginni—svona eins og þegar ég horfi á íslenska landsliðið í handbolta. Þetta er stórhættulegur andskoti.

Og ég sem sleppti fótboltaæfingu svo ég gæti horft.

Verst er að þeir eru að spila í gamla búningnum sínum. Mér finnst hann miklu ljótari en sá nýju en hefur víst tilfinningagildi fyrir suma.  


Ómetanlegt tjón ef af verður

Þetta eru hræðilegar fréttir. Bryggjuhverfið í Bergen er alveg ótrúlega fallegt og sjarmerandi svo ekki sé talað um sögulegt. Það væri ómetanlegt tjón ef þessi hús skemmdust. Ég vona að hægt sé að finna leiðir til að bjarga þeim því ekki treysti ég mannskepnunni til þess að snúa þróuninni við.
mbl.is Hækkandi sjávarborð ógnar sögufrægum byggingum í Bergen
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hreiður

Ég held að glóbrystingur sé búinn að búa sér til hreiður ofan á strompnum í húsinu við hliðina á mér. Alla vega tók ég eftir því í fyrsta sinn að það er hrúga af stráum ofan á strompnum. Ég get ekki séð þetta vel því strompurinn er hærri en glugginn minn. Greyið glóbrystingurinn ef þetta er rétt því ég held að það eigi að rífa þetta hús. Það er alla vega búið að tæma það og girða tréin fyrir framan, sem vanalega er aðeins gert þegar á að rífa eða gera heilmiklar endurbætur. Ég vona að það gerist ekki og að ég fái að fylgjast með litlum goggum heimta mat fyrir framan gluggann minn.

Svolítið um verkefnið mitt

Þetta er einn af þessum rólegu dögum þar sem allt gerist nokkurn veginn á sama hátt. Vakna klukkan átta. Borða morgunverð (kaffi, beyglu, eina skál af niðurskornum ávöxtum) og lesa blaðið. Þetta tekur ýmist hálftíma eða klukkutíma. Í morgun var það klukkutími. Vinna í einhvern tíma á meðan ég læt renna í bað (elska bað - miklu betra en sturta). Fara í bað. Halda áfram að vinna fram að hádegi. 

Á föstudaginn fundaði ég með umsjónakennara mínum um það sem ég hafði verið að skrifa í ritgerðinni. Hann var mjög ánægður með það, sem er gott því honum hefur fundist ég ekki nógu fókuseruð upp á síkastið. Það hefur ekki vantað að ég skrifaði, en honum fannst ég eyða of miklum tíma í að velta mér upp úr smámerkingarmun á milli setninga. Mér finnst hins vegar þessi fíni merkingarmunur mjög mikilvægur. Hvers vegna er það til dæmis að þegar maður segir, Jón er alltaf lærandi, þá er ákveðin neikvæðni þrungin í setningunni? Neikvæðara en ef maður segir Jón er alltaf að læra. Málið er hins vegar að ef ég ætla að útskýra öll smáatriði þá verður þessi ritgerð mörg hundruð síður og tekur þá væntanlega mörg ár að skrifa. Þannig að ég reyni að einbeita mér að því sem ég á að vera að gera; útskýra framvinduhorf. 

Fyrir þá sem ekki vita, en eru enn að lesa þetta, þá er framvinduhorf það þegar ákveðinn atburður er í gangi, svona eins og þegar við segjum Jón var að borða epli þegar ég sá hann. Hér sjáum við tvo tíma. Tímann þegar ég sá Jón, sem er kallað 'reference time', hugsanlega 'tilvísunartími' á íslensku. Svo er það tíminn þegar Jón er að borða, 'atburðartíminn'. í framvinduhorfi er tilvísunartíminn innan atburðartímans, þ.e. Þegar ég sá Jón var hann þegar byrjaður að borða epli og að öllum líkindum hélt hann áfram að borða epli eftir að ég sá hann. Er þetta flókið? Kannski ekki skrítið, merkingarfræði er aldrei auðveld. 

En ef ykkur finnst þetta flókið þá get ég sagt ykkur að það versnar þegar maður fer svo að nota formlega rökfræði til þess að lýsa setningum. Hér fyrir neðan getið þið séð hluta af afrekstri morgunsins. Þetta er setningin John is kissing Mary (Jón er að kyssa Maríu):

 


 

Formlega rökfræðin er enn minn veikasti punktur í merkingarfræði. Sem er ástæða þess að ég ætla að taka sumarnámskeið í rökfræði hjá heimspekideildinni. Gallinn er að ég óttast að ég græði ekkert á því vegna þess að þeir kenna aðallega það sem kallast propositional logic og predicate logic og síðan fara þeir út í sannanir á þeim formúlum. Það sem mig vantar fyrst og fremst, hins vegar, er rökfræðin sem kemur þar á eftir. En það sakar ekki að sitja kúrsinn og sjá hvort ég læri eitthvað.

Ég hef sem sagt setið í morgun og skrifað upp formúlur eins og þessar. Það sem ég þarf að útskýra núna er hvers vegna a) ástandssagnir eru vanalega ekki í framvinduhorfi, og b) hvers vegna það er að aukast (Ég er að elska þetta lag). Það eru ýmsar skýringar til á fyrri spurningunni en enginn hefur getað svarað báðum spurningunum almennilega með einni kenningu. Allar kenningar sem geta svarað a lenda í vandræðum með b. Ég hef ákveðna hugmynd og nú verð ég að skella mér í að sjá hvort hún gengur upp.

Eftir hádegið mun ég sem sagt gera það sama og ég geri alltaf eftir hádegi ef ég fer ekki að klifra, þ.e. skrifa skrifa skrifa, og taka svo pásur inn á milli og kannski fara út að labba. Veðrið er alveg yndislegt núna og sumarið í nánd. Það væri því ekki amalegt að sleikja upp svolítið af D vítamíni.

 
 
 

 


Skattatími

Ég er á síðasta snúningi með skattskýrsluna mína eins og oft áður. Málið er að íslenskar skattskýrslur eru eins og reikningsbók þriðja bekkjar miðað við skýrslurnar sem við þurfum að fylla út í Kanada. Ekki er það aðeins að við þurfum að reikna út bæði landsskatt og fylkisskatt, heldur þurfum við í orðsins fyllstu að reikna þetta allt út sjálf (margalda með mismunandi prósentum, draga frá tölur sem maður veit ekki einu sinni hvað tákna o.s.frv.). Þannig eru línurnar sem þarf að fylla mörg hundruð, formin fjölda mörg (ég þarf að fylla út 5—10 blaðsíður—og mín skýrlsla er líklega eins einföld og hægt er) og allt er þetta hvert öðru flóknara. Þetta er sennilega sjöunda árið sem ég þarf að fylla út skattskýrslu hér og ég held ég hafi aldrei gert það rétt. Vanalega reiknast mér svo að ég skuldi skattinum svo ég skrifa tékka og sendi með en fæ hann næstum alltaf til baka því ég gerði eitthvað vitlaust og í raun skuldar skatturinn mér. Sem er auðvitað mjög gott. Að þessu sinni reiknast mér svo að skatturinn skuldi mér en ég er næstum sannfærð um að það sé rangt því hluti af peningum mínum á síðasta ári var námsstyrkur og þar er skatturinn ekki sjálfkrafa dreginn af manni. Þannig að ég hlýt að skulda. Nema ég hafi loksins talið frádráttarliði rétt fram. 

Annars var erfitt að komast af stað með skýrsluna. Fyrst vegna þess að þetta er ömurlegt verk og tekur langan tíma svo ég tímdi ekki tímanum sem færi í það. En svo þegar loksins ég ákvað að taka tíma í þetta þá fann ég ekki skýrsluna mína, né miðann frá skólanum um hvað ég hefði fengið í laun. Ég leitaði um allt. Fór í gegnum alla pappírsbunka sem ég fann en...ekkert. Ég varð loks að fara upp í skóla og fá útprent frá þeim, og síðan niður á pósthús og ná í aðra skýrslu. Það góða sem þetta hafði í för með sér var að ég lagaði til hjá mér og henti fullt af pappír sem ég þarf ekki á að halda. Það var auðveldara en að reyna að finna skýrsluna með því að færa til bunka. Á hinn bóginn dugði þetta ekki því ég hef aldrei fundið þessa skattpappíra. Ég setti þá greinilega á einhvern mjög góðan stað.

Nú á meðan ég skrifa þetta er ég að reyna að ljósrita skýrsluna til að eiga eintak en það gengur ekki mjög vel. Bölv. HP prentarinn minn er ömurlegur og er alltaf að flækja pappírinn. Ég veit ekki hversu oft ég hef látið falla ill orð um þennan prentara. Ég ætti í raun að kaupa nýjan en það er þægilegt að hafa skanna og ljósritara í sama pakkanum og þeir sem eru þannig og eru ódýrir virðast jafnmikið drasl.

 


Stjörnurnar unnu og sjöundi leikurinn staðreynd

Leikur númer sex tapaðist og nú er staðan í seríunni 3-3. Sjöundi leikurinn fer fram á morgun hér í Vancouver og sigurvegari leiksins kemst áfram í næstu umferð og spilar þar við Anaheim Mighty Ducks. Anaheim er talið besta liðið í deildinni í dag og eins og Canucks spiluðu í gær þá eiga þeir ekki séns í Anaheim. Það væri samt gaman ef þeir ynnu á morgun og við fengjum alla vega fjóra leiki í viðbót. Það er hins vegar ljóst að til þess að það gerist þá verða þeir að fara að spila betur. Þeir hafa ekki skorað mark í síðustu tveimur leikjum og eitt helsta vandamálið er að vönu  mennirnir, Trevor Linden, Markus Naslund og Sedin-bræðurnir, hafa ekki staðið sig. Sameiginlega hafa þeir fengið eitt stig síðan í fyrsta leiknum. 

Það var þungt andrúmsloft á Nevermind veitingastaðnum í gær þar sem ég sat ásamt fjölda Vancouverbúa og fylgdist með leiknum í sjónvarpinu. Ekkert virtist ganga og kanúkarnir héldu þeim upptekna hætti að láta reka sig allt of oft af velli. Í viðtalinu við Vigneault þjálfara eftir leikinn mátti loks sjá að honum var brugðið. Hann hefur alltaf verið svo léttur í skapi eftir leiki, jafnvel tapleiki, en nú var honum ekki skemmt. Hann sagði þunglega að aðeins eitt lið hafi verið á vellinum og það voru Stjörnurnar.

Málið er að eftir tvo tapleikii í röð er þetta farið að fara í skapið á liðinu, eins og sjá mátti á vellinum, og Vigneault verður að finna leið til þess að telja þeim trú um að þeir geti þetta. Ekkert nema 100% leikur dugar á morgun.


Spennó

Skemmtilegar fréttir. Við skulum vona að úrslitin í deildinni ráðist ekki fyrr en í síðasta leik þannig að allir sitji límdir í sætum sínum og engist af spennu. Svona eins og þegar Arsenal varð að vinna Liverpool með tveggja marka mun...hva...1989? Ég veit að Manchester og Chelsea spila ekki hvort gegn öðru í síðasta leik þannig að við fáum ekki slíka endurtekningu, en mikilvægt er að síðasti leikur hvors liðs ráði úrslitum. Og skemmtilegast væri ef Arsenal og Liverpool háðu svipaða keppni um þriðja sæti. Þá loks væri deildin aftur orðin virkilega spennandi.

Í kvöld verður leikinn sjötti leikur í viðureign Vancouver Canucks og Dallas Star og annan leikinn í röð eiga Cancuks möguleika á að gera út um seríuna. Ég ætla að fara á einhvern pöbb með öðru fólki og horfa á leikinn þar. Vonandi förum við ánægð heim. 


mbl.is Ferguson: Hleyptum Chelsea inní baráttuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Morðkanínan

Ég fann þessa mynd á netinu og finnst hún alveg frábær. Vildi deila henni með ykkur.
 
Killer Rabbit

Skunkafjandi

Einhvern tímann síðastliðna nótt dreymdi mig að hræðileg fýla fyllti loftið og ég reyndi að komast burt án árangurs.

skunkar
Ég vaknaði loks og uppgötvaði þá að lyktin kom inn í drauma mína vegna þess að ég fann hana í alvörunni. Þetta var lykt af skunki. Ég veit ekki hvort hann var eitthvað að hanga fyrir utan svefnherbergisgluggann minn eða hvort hann spreyjaði eitthvað fyrir utan en mikið var lyktin hræðileg. Ég stakk höfðinu undir sængina og reyndi að sofna aftur enda klukkan ekki orðin sex, en það dugði ekki til. Mundi loks að ég átti Vicks krem...svona sem maður ber á brjóstkassann þegar maður hefur kvef. Ég bar þetta á andlitið á mér, fyrir neðan nasaholurnar og eftir það fann ég enga aðra lykt. Ég náði sem sagt að snúa á skunkinn og sofna.

Mikið eru þetta annars leiðinlegar skepnur. Ég held ég hafi sagt það áður.


Áframhaldandi hokkíhugleiðingar

í gær sleppti ég píanótónleikum Víkings vegna þess að þeir voru á sama tíma og fimmti leikurinn í Canucks-Stars einvíginu. Ef Canucks hefðu unnið þá hefðu þeir unnið seríuna. En leikurinn fór 1-0 fyrir Stjörnunum í framlengingu og serían heldur því áfram. Staðan í heildina er nú 3-2 fyrir Vancouver og þeir hafa því annað tækifæri á morgun til þess að vinna. Ég, Marion og Ryan höfum talað um að fara niður í bæ á einhvern bar og horfa þar á leikinn með öðru fólki. Það gæti verið skemmtilegt. Ég hef komist að því að ég á engan uppáhalds leikmann. Sem Skandinavi er ég auðvitað stolt af Svíunum, Markus Naslund, Henrik Sedin og Daniel Sedin, en það eru margir góðir leikmenn í liðinu. Í staðinn held ég upp á þjálfarann, Alain Vigneault. Kannski er það vegna þess að hann er frá Gatineau, þar sem Martin býr og þar sem ég eyddi megninu af sumrinu í fyrra...kannski er það vegna þess að hann er svoítið bangsalegur (grennri útgáfa af Erni Árnasyni)...eða bara vegna þess að hann er besti þjálfari sem Vancouver hefur átt! Set hér inn myndband með honum, svona rétt til að sjá hvort mér tekst það.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband