Ljóskan og páskarnir

Ég hefði líklega átt að setja þennan inn fyrir tveimur vikum. 

Þrjár ljóskur dóu í bílslysi og héldu því á fund Lykla-Péturs. Hann sagði þeim að til þess að komast inn í himnaríki yrðu þær að segja honum út á hvað páskarnir ganga.

Fyrst ljóskan til að svara var bandarísk og hún sagði: "Páskarnir eru hátíð þar sem fjölskyldur koma saman og borða kalkún og segja fyrir hvað þær eru þakklátar." "Neeeiii", sagði Pétur og sendi hana niður til helvítis.

Næsta ljóska var bresk og hún sagði: "Á páskum fögnum við fæðingu Jesú og skiptumst á gjöfum". "Nei nei nei", sagði Pétur og sú breska fór sömu leið og sú bandaríska.

Þriðja ljóskan var kanadísk og hún sagði: "Páskarnir eru kristin hátíð sem haldið er uppá á sama tíma og gyðingar halda upp á Passover. Jesú var að halda uppá Passover með lærissveinum sínum þegar Júdas sveik hann og Rómverjar handtóku hann og hengdu hann á krossi þar sem hann lést. Þeir lögðu hann til hvílu í helli og settu stóran stein fyrir..."

"Mjög gott", sagði Lykla-Pétur.

En þá hélt ljóskan áfram: "...og á hverju ári koma gyðingarnir og velta steininum frá gröfinni, og Jesú kemur út. Ef hann sér skuggann sinn þá fáum við sex vikur í viðbót af hokkíi!!!" 


Björk á Saturday Night Life

Vek hér með athygli á því að Björk verður gestur á Saturday Night Life á laugardagskvöldið. Scarlett Johannson (sem augljóslega er bróðir minn) verður kynnir.

Gott gengi kanadísku liðanna í NHL

Leikurinn í kvöld fór 2-1 fyrir Canucks og þeir leiða núna seríuna 3-1, þurfa aðeins einn sigur í viðbót til að komast í næstu umferð. Ottawa er í nákvæmlega sömu stöðu, vann líka í dag og leiða 3-1 á móti mörgæsunum. Gott gengi þar. Ég er ánægð hér heima í Vancouver og ég er viss um að Auður situr heima hjá sér í Ottawa (nei sennilega sefur - klukkan hálf þrjú þar), hæstánægð með sína menn.

Það hefur ekki gengið eins vel hjá Calgary en þeir unnu þó Detroit í dag og staðan í þeirri seríu er því 2-1 fyrir Detroit. Þeir geta ábyggilega unnið þetta ef þeir ná að spila að getu.


Íslandsmyndir

Í gærkvöldi hlóð ég töluvert mörgum myndum frá Íslandi inn á flickr síðuna mína: http://www.flickr.com/photos/stinamagga/

Einar í fótboltaKíkið endilega á. Ég er enginn sérstakur ljósmyndari og þegar ég valdi myndir til að setja inn þarna blandaði ég saman myndum sem mér finnst flottar og myndum af stöðum sem ég hélt að útlendingar vildu kannski sjá. Þannig að þarna eru til dæmis myndir frá Þingvöllum sem eru ekkert sérlega merkilegar nema hvað staðurinn er merkilegur. En ég vona að alla vega sumar myndirnar séu nokkuð sniðugar.

Uppáhaldsmyndin mín er þessi sem ég set inn með þessum pistli og er af Einari bróðursyni mínum að spila fótbolta við Árna bróður sinn á Kljáströnd við Eyjafjörð. Þar eiga bróðir minn og fjölskylda konu hans sumarhús. 

 


Sigur í kvöld

Það dugði að vera í peysunni. Canucks unnu þriðja leikinn 2-1 og staðan í keppninni er því sú sama, 2-1 fyrir Canucks. Næsti leikur er væntanlega á þriðjudaginn í Dallas. Ottawa er einnig 2-1 yfir gegn Pittsburg en einhverra hluta vegna fylgist ég ekki eins með því hvernig Calgary gengur. Staðan var 1-1 eftir fyrstu tvo leikina en ég veit ekki hvernig þriðji leikurinn fór. Þeir hafa hingað til verið öfugir miðað við Canucks og Senators (unnið þegar þeir tapa og svo öfugt) þannig að eftir því ættu þeir að vera 1-2 undir!

Leikurinn í kvöld var æsispennandi og úrslit réðist ekki fyrr en í fjórðu lotu. Mér fannst Dallas Star spila betur lengst af en Canucks komu sterkir inn um miðja þriðju lotu og börðust þá eins og ljón enda voru þeir búnir að vera einu marki undir lengst af. Þeir slökuðu ekki á eftir að þeir jöfnuðu og uppskáru því sigur þegar 7:47 mínútur voru liðnar af framlengingunni. Bráðabani er ansi skemmtilegur. Í raun mun meira spennandi en fyrirfram ákveðin framlenging. Ætti að taka hann upp í fótbolta.

Það var Taylor Pyatt sem skoraði sigurmarkið og var það hans fyrsta mark í úrslitakeppni.


Leikur 3

IMG_8080Leikur 3 milli Vancouver Canucks og Dallas Star í NHL hokkídeildinni fer fram í Dallas klukkan hálfsjö í kvöld. Eins og sést á  meðfylgjandi mynd þá er ég þegar komin í Canucks peysuna mína og vona að það færi lukku. (Reyndar er Cold Squad í sjónvarpinu klukkan sex og ég er ekki nógu mikill hokkí-aðdáandi til að sleppa Cold Squad, en það er allt í lagi. Ég horfi bara þegar þátturinn er búinn klukkan sjö.) Vonandi fara mínir menn með sigurinn í kvöld. Margir hafa veðjað á að Canucks taki þetta í sex leikjum en Dallas sýndi í fyrradag að þeir eru geysilega góðir þannig að það borgar sig ekki að telja eggin strax. Þetta verður tvísýnt.

Ég bendi fólki annars á að ég er bæði komin með fleiri freknur (fékk þær þegar ég fór á skíði um síðustu helgi) og síðara hár (berið saman við myndina í prófílnum). Hef ekki efni á klippingu. 


Búin að hlaupa 10 kílómetrana

Ég er komin heim úr hlaupinu og stóð mig bara vel að mínu mati. Ég hafði upphaflega skráð mig í flokkinn sem áætlaði að klára hlaupið á 60-65 mínútum en var orðin sannfærð um að ég myndi aldei ná því vegna þess að ég væri búin að hlaupa allt of lítið upp á síðkastið. En einhvern veginn hafði ég nóga orku og hjóp þetta á sirka 60 mínútum. Það er um þremur mínútum betur en í hitt skiptið sem ég hef hlaupið tíu kílómetra (sem var fyrir fjórum árum í Winnipeg). Ég var því bara ánægð. Það eina sem skyggði á gleðina var það að ég hefði getað verið undir klukkutímanum ef ég hefði átt auðveldara með síðustu tvo kílómetra. Gallinn var að eftir um átta kílómetra urðum við að hlaupa yfir Cambie brúna og þar var geysilega erfitt að komast áfram. Fjöldi manns labbaði upp og fór ekkert eftir reglunum um að ganga hægra megin og hlaupa vinstra megin. Ég var því að sviga í gegnum liðið og einu sinni átti ég erfitt með að komast í gegnum þvöguna því einhverjir kallar gengu hlið við hlið og mynduðu hálfgerða línu sem ég komst ekki í gegnum. Þetta var svolítið pirrandi því ég vissi að stutt var í lokin og ég átti töluvert eftir að orku. 

Þetta var annars alveg ótrúlegt. Rúmleg 54.100 manns tóku þátt í hlaupinu og það tók vel yfir klukkutíma að byrja. Ég byrjaði um miðjan hóp og fyrstu hlauparar voru þegar komnir í mark áður en ég lagði af stað. Það var líka kalt og biðin leiðinleg. En um leið og ég komst yfir ráðslínu fékk ég orku sem ég vissi ekki af og það hjálpaði mikið. Eftir um sjö kílómetra var ég orðin nokkuð þreytt og ákvað að labba aðeins þegar ég sæi átta kílómetra merkið en ég sá það aldrei og fór hvort eð er að hugsa um eitthvað annað þannig að ég hljóp meira og minna alla leiðina. Ég labbaði smá hluta í brekkunni upp að Burrard brúnni og einnig við vatnsstöðvar því ég vildi drekka nóg, en að öðru leyti hljóp ég allan tímann. Og ég hljóp meira að segja mun hraðar en ég geri þegar ég er að dóla mér sjálf í skóginum. En það er auðvitað eðliegt og á við alla. 

Á morgun fæ ég að vita nákvæmlega tímann minn. 


Hlaup að hefjast

Klukkan er sjö að morgni og eftir tvo klukkutíma hefst sólarhlaupið (SunRun). Ég þarf að borða eitthvað og komast svo niður í bæ. Gallinn er að það er aðeins tveggja stiga hiti og ég get ekki tekið neitt með mér aukalega. Ég er hins vegar kuldaskræfa og mun aldrei þola það að vera á stuttbuxum og bol í tveggja stiga hita þangað til hlaupið hefst þannig að ég verð að taka með mér einhver föt sem ég mun síðan skilja eftir á ráspól. Sem sagt, einhverja ræfla sem ég er hætt að nota.

Ég segi ykkur síðar hvernig gengur að hlaupa þessa tíu kílómetra. 


Tap í leik tvö

Í kvöld var annar leikurinn í viðureign Vancouver Canucks og Dallas Stars og var nokkra þreytu að sjá á mönnum. Canucks gerðu tvisvar sinnum mistök í upphafi leikhluta (upphafi fyrsta og annars hluta) og úrslitin urðu 2-0 fyrir Dallas. Staðan er því 1-1 eftir tvo leiki.

Það hlýtur að hafa verið nokkur blóðtaka fyrir Canucks að missa þrjá menn meidda eftir síðasta leik en Alain Vigneault, aðalþjálfari Canucks, sagði að tapið hefði ekkert með það að gera að þrjá leikmenn vantaði. Hann sagði að þeir hefðu hreinlega ekki spilað nógu vel. Vigneault þessi er annars athyglisverður náungi. Hann er frá Gatineau í Quebec, þar sem Martin býr, og þjálfaði Montreal Canadiens í ein þrjú ár. Í fyrra tók hann við þjálfun Manitoba Moose í AHL deildinni en var síðan kallaður til Vancouver Canucks nú í haust. Hann hefur staðið sig alveg ótrúlega vel með liðið í vetur. Í fyrra komust Canucks ekki einu sinni í útsláttakeppnina en nú í vetur unnu þeir vesturdeildarriðilinn. Það verður gaman að sjá hvort Vigneault kemst lengra með Canucks en hann gerði með Montreal Canadiens en besti árangur hans þar var að falla út í átta liða úrslitum.


Manitoba Moose er nokkurs konar þjálfunarlið fyrir Canucks. Þeir leikmenn Canucks sem ekki eru alveg nógu góðir til að spila í NHL deildinni spila með Moose einni deild neðar. Ef þeir verða nógu góðir til að spila í hæstu deild eru þeir síðan sóttir til Manitoba og fá tækifæri með Canucks. Eftir að þrír leikmenn Manitoba meiddust í síðasta leik urðu Canucks að sækja danskan leikmann til Manitoba, sem í kvöld spilaði sinn fyrsta leik í NHL deildinni (einhver sagði að hann væri fyrsti Daninn í NHL en ég veit ekki hvort það er rétt). Það hýtur að hafa verið stressandi fyrir hann. Þetta er auðvitað  mjög gott kerfi fyrir Canucks því varamennirnir þeirra spila alvöru leiki í hverri viku með Moose. En þetta er ekki sérlega gott fyrir Winnipeg því þetta þýðir vanalega að ef einhver leikmaður verður mjög góður þá er hann vanalega kallaður upp um deild. Sama gerist með þjálfara. Vigneault stóð sig vel með Manitoba í fyrra og að launum fékk hann stöðuhækkun og tók við þjálfun Canucks en Manitoba missti góðan þjálfara. Þegar ég bjó í Winnipeg fannst mér þetta einstaklega skítt að allir góðu leikmennirnir væru kallaðir í burtu.

En nú er að bíða þar til á sunnudaginn og sjá hvernig næsti leikur fer. Við getum ekki látið bölvaða kúrekana frá Dallas vinna þetta. 

Á morgun spila senetorarnir í Ottawa við Pittsburg mörgæsirnar (takk Auður) og það er vonandi að þeir taki leikinn eins létt og í fyrrakvöld. Við getum ekki látið þessa Bandaríkjamenn vaða yfir okkur. Þriðja kanadíska liðið í úrslitunum, Calgary, virðist vera á heldur erfiðara róli og þeir skíttöpuðu fyrsta leiknum. Vonandi ná þeir sér á strik.

Hvernig stendur annars á því að mogginn skrifar ekkert um hokkí? Þeir skrifa um NBA körfuboltann sem er miklu leiðinlegri íþrótt. 


Frábær árangur

Þetta er magnaður árangur hjá Sigurgeiri. Ef ég man rétt er hann farinn að nálgast fertugt og það er ekki amalegt að sjá þessa "gömlu" vinna krakkana. Sérstaklega í göngu þar sem þarf ógurlegt úthald.

Ég man ekki betur en öldungamótið á skíðum miðist vanalega við þrítugt. Kannski ætti að hækka þann aldur fyrst þeir sem eru hátt á fertugsaldri geta enn tekið landsmótið. 


mbl.is Sigurgeir fagnaði Íslandsmeistaratitli í 15 km. göngu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband