Paraskevideskatriaphobia
13.4.2007 | 16:14
Í dag er föstudagurinn þrettándi (ég ætla að horfa á Jason vs. Freddy) sem þýðir að fólk sem þjáist af paraskevidekatriaphobia er líklega vitstola. Og nei, paraskevidekatriaphobia er ekki hræðsla við löng orð heldur hræðsla við föstudaginn þrettánda! Já, það er til orð yfir það. Og það er til fólk sem er hrætt við föstudaginn 13.
Við þetta skal bæta að Margaret Thatcher fæddist föstudaginn 13. október 1925 og Olsen tvíburarnir fæddust föstudaginn 13. júní 1986. Það er kannski ástæða til að óttast þennan dag.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Unnusta eða ekki unnusta
12.4.2007 | 16:02
![]() |
Konunglegri trúlofun spáð í Danmörku |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hokkí hokkí alls staðar
12.4.2007 | 07:39
Næstu vikurnar munu Vancouver búar anda að sér hokkíi. Það verður varla rætt um annað. Í kvöld var fyrsti leikurinn í sextán liða útslitum NHL keppninnar. Ekki er um einfalda úrsláttakeppni að ræða heldur vinnur liðið sem fyrr vinnur fjóra leiki. Vancouver spilaði í kvöld fyrsta leikinn við Dallas Star liðið frá Texas. Staðan var 4-4 að loknum venjulegum leiktíma og úrlit réðust ekki fyrr en í fjórðu framlengingu. Það var Henrik Sedin sem skoraði fimmta markið - sigurmarkið - fyrir Vancouver. Þetta þýðir að sala á Vancouver Canucks hokkískyrtum mun aukast gífurlega á morgun.
Ottawa Senators sigraði einnig í sinnu viðureign í kvöld, 6-3. Man ekki við hverja þeir léku. Eitt af péunum held ég. Pittsburg, Philadelphia, eitthvað svoleiðis.
Tveir kanadískir hermenn létust í Afganistan í dag. Tala látinna Kanadamanna í Afganistan er þá komin upp í 53.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Hraði á þeim gömlu
11.4.2007 | 23:11
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Týpískt
11.4.2007 | 19:34
Kannski er Ronnie bara svona hrikalega leiðinlegur þegar hann er edrú! Annars er svo sem ekkert nýtt að þeir sem eru drukknir eða dópaðir þoli ekki að aðrir séu edrú. Ég man nú bara þegar ég var unglingur - mér var boðið oftar í glas en nokkrum öðrum í kringum mig vegna þess að svo margir áttu erfitt með að sætta sig við að einhver væri ekki að drekka.
Ég sá annars Stones síðastliðið haust og þar var ekkert um ofbeldi á sviðinu. Kannski var Ronnie ekki hættur að drekka þá!
![]() |
Richards sparkaði í Wood á sviði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðja eða fjórða sæti?
10.4.2007 | 00:03
Það hefur ekki verið neitt sérlega skemmtilegt að vera Arsenal aðdáandi í vetur en sem betur fer heldur ekkert leiðinlegt. Þótt þeir séu liðið mitt þá þoli ég það vel að vera ekki alltaf í toppbaráttunni enda veit ég að okkar tími mun aftur koma.
Nú er stefnan bara sú að reyna að komast upp fyrir Liverpool.
Það er hins vegar skemmtilegt að Chelsea skuli vera komið á hælana á ManUtd. Ekki það að ég vilji frekar að Chelsea vinni deildina - þar er mér eiginlega alveg sama - heldur vegna þess að það setur svolítið fútt í keppnina. Ekkert skemmtilegt ef ManUtd. er búið að vinna þegar enn eru nokkrar umferðir eftir.
![]() |
Wenger: Ég trúi þessu ekki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Kærasti Mörthu
9.4.2007 | 22:47
Samkvæmt slúðurritunum, og sumum alvarlegri dagblöðum líka, er Martha Stewart ekki bara vinur Simonyis heldur einnig kærasta hans. Hér vestra er Stewart hálfgerður dýrlingur fyrir sjónvarpsþætti sína og vörurnar sem framleiddar eru undir hennar nafni. Þessi dýrlingur féll reyndar af stalli fyrir nokkrum árum þegar hún fór í fangelsi fyrir fjármálabrask en að fangelsisvist lokinni kom hún aftur í sjónvarp og lítið virtist hafa breyst.
Ég á Mörthu Stewart borðbúnað. Hann er bara nokkuð laglegur og var mjög ódýr í þokkabót. Ekki allt slæmt sem að kellingunni kemur þótt ekki sé nú kærastinn fríður.
![]() |
Geimferðalangur kominn til alþjóðlegu geimstöðvarinnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Stríð og friður
9.4.2007 | 17:26
Í dag halda Kanadamenn upp á að 90 ár eru liðin frá baráttunni við Vimy Ridge í Frakklandi þar sem fjórar herdeildir kanadíska hersins gersigruðu Þjóðverja. Þessi bardagi er talinn stærsti sigur Kanada í stríði og margir telja hann marka upphaf Kanada sem þjóðar. Þessi hátíðahöld koma degi eftir að sex kanadískir hermenn létust í Kandahar í Afganistan og 51 kanadískur hermaður hefur nú látist síðan stríðið hófst þar fyrir fimm árum. Það er kannski ekki hár tollur í stríði en hermennirnir eru þarna sem friðargæsluliðar og Kanadamenn eru almennt á móti því að halda herliði í landinu. Almenningur vill herdeildirnar heim og ekki sjá fleiri kanadísk mannslíf tekin í baráttu sem kemur landinu ekkert við.
Ég á sjálf mjög erfitt með að skilja allt sem viðkemur hernaði. Kannski er það afleiðing þess að vera alin upp í herlausu landi þar sem enginn hefur ógnað okkur í hundruði ára. Ég á ekki afa eða langafa sem börðust fyrir Ísland og enginn í minni fjölskyldu hefur fallið fyrir byssu. Fólk hér hefur beinni tengsl við stríð og flestir eiga ættingja sem börðust í annarri hvorri heimstyrjöldinni. Það hefur því frekari ástæðu til þess að láta sig slíkt varða. En samt sem áður hafa Kanadamenn nokkrar áhyggur af því að fólk er farið að gleyma. Þeir sem börðust í fyrri heimstyrjöldinni eru flestir dánir og börnin þeirra sem börðust í síðari heimstyrjöldinni eru yfirleitt komin yfir áttrætt. Ungt fólk í dag hefur lítinn áhuga á styrjöldunum og nýleg könnun sýndi að aðeins rúmlegur helmingur Kanadmanna gat nefnt baráttuna við Vimy Ridge sem mikilvægustu orrustu kanadíska hersins. Aðeins um fjórðungur gat nefnt helstu hetju þeirrar baráttu. Af því að ég hef almennt áhuga á sögu skil ég af hverju fólk hefur áhyggjur af því að þessi saga gleymist og ég er viss um að ef Ísland hefði barist í styrjöld þá hefði ég meiri áhuga á einstökum baráttum. En almennt séð verð ég að viðurkenna að fátt sem styrjöldum kemur heillar mig eða vekur mér áhuga. Kannski vegna þess að fæst stríð er hægt að réttlæta. Það þarf ekki nema að nefna nýjustu dæmin í Afganistan og Írak.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Skíðaferð og súkkulaði
9.4.2007 | 06:46
Í gær fór ég á skíði í Whistler. Veðrið var yndislegt og það var frábært að skíða þarna uppfrá. Whistler svæðið er mjög skemmtilegt og nóg af brekkum. Það voru ekki einu sinni svo margir þarna að maður þurfti aldrei að bíða lengi eftir lyftunum. Við fórum meðal annars yfir á nýjasta svæðið sem opnaði núna í vetur og þar voru býsna fáir þannig að við gátum rennt okkur beint í lyftuna. Helsti gallinn var að það er búið að vera of hlýtt undanfarið þannig að snjórinn var nokkuð blautur, sérstaklega í neðri brekkunum.
Í morgun voru ekki margir vöðvar í líkamanum sem voru ekki sárir. Bakið að drepa mig, bakvöðvarnir í lærunum sárir og meira að segja vöðvar í brjóstkassanum sem létu af sér vita. Ég hef skakklappast um í dag án þess að geta rétt almennilega úr mér. Svona er það þegar maður kemst sjaldan á skíði - þá er líkaminn ekki tilbúinn.
Átti annars góðan páskadag. Þvældist um á náttfötunum fram að hádegi, las blaðið, horfði á vídeó, slappaði almennt af. Verslaði í matinn (hér eru matvörubúðir opnar flesta hátíðardaga). Um fjögur leytið fór ég til Rosemary og Doug í mat og borðaði hjá þeim grillað svínakjöt. Það var mjög gott. Kom heim um hálfníu og talaði við Martin í rúman klukkutíma. Sem sagt, afslöppunarhelgi. Það eina sem vantaði var NóaSiríus páskaegg. Fékk ekkert slíkt í ár. Borðaði Purdy's egg en þótt það sé gott þá er það ekki eins og að borða ekta íslenskt páskaegg með málshætti og nammi innan í. Verð sennilega að plata mömmu til að senda mér egg á næsta ári.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 06:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Skunkar og bruni
7.4.2007 | 06:47
Í kvöld labbaði ég niður tíundu götu að 10-11 búð til þess að kaupa dagskort fyrir Whistler svæðið. Ég ætla á skíði á morgun og það er ódýrara að kaupa dagskort í Vancouver því borgin niðurgreiðir kortin fyrir íbúa sína. Þau eru ekki niðurgreidd neins staðar annars staðar og því er dýrara að kaupa kortið á svæðinu.
Þetta varð nokkuð athyglisverður göngutúr. Þótt þetta sé ekki mjög langt, um hálftími hvora leið náði ég að verða á vegi þriggja skunka. Og tvisvar sinnum var ég óþægilega nærri þessum illa lyktandi dýrum. Í fyrra skiptið var brotin pera í einum ljósastaur og því nærri svartamyrkur á um 60 metra svæði. Eina ljósið sem sjást var frá stjörnunum og frá nærliggjandi húsum. Ég sá því ekki skunkinn fyrr en hann var aðeins í nokkra metra fjarlægð frá mér. Ég hraðaði för minni en hljóp ekki því ég vildi ekki styggja hann. Næsti skunkur var í garði á upplýstu húsi svo ég sá hann í tæka tíð og labbaði eftir götunni á meðan ég fór framhjá. Sá þriðji olli mér næstum hjartaáfalli. Hann var inni í garði og kom út úr runna beint fyrir framan mig. Aðeins um metri var á milli okkar og ég sá rassgatið á helvítinu vel. Hjartað sökk niður í buxur og ég hélt hann ætlaði að spreyja mig. En sem betur fer sá hann mig ekki sem ógn og lét það vera að gusa á mig. Sem betur fer, mér þykir vænt um fötin sem ég var í og hefði ekki viljað henda þeim. Þið sem hafið fundið lyktina af skunki vitið hins vegar að fötum er ekki bjargað ef maður lendir í að vera spreyjaður. Ég hef heyrt að ekkert dugi. Og hárið maður. Hvað ætli maður þurfi að sápa það oft til að ná lyktinni úr? Skunklykt er virkilega með ógeðslegri fýlum sem ég hef nokkurn tímann fundið. Einu sinni ældi ég næstum því vegna þess að svo sterk skunklykt kom inn um svefnherbergisgluggann. Þegar ég bjó í kjallara þurfti ég að loka glugganum oft í viku vegna þess að skunkur var fyrir utan. Jakk. Þvílíkur viðbjóður.
Annað athyglisvert gerðist á leiðinni. Ja, gerðist ekki beint. Ég gekk framhjá hárgreiðslustofunni minni og sá að þar var búið að loka og á hurðinni var skilti sem á stóð að lokað væri vegna bruna. Ég mundi ekki eftir neinum bruna en leit svo á lóðina við hliðina þar sem átti að standa hús. Þar var bara spýtnabrak. ég mundi að ég hafði séð þetta fyrir nokkrum dögum en það er búið að rífa svö mörg hús á svæðinu á undanförnum þremur árum að ég hafði ekki hugsað mikið um það. Þegar ég kom heim leitaði ég á netinu að fréttum af bruna í hverfinu og í ljós kom að fyrir akkúrat mánuði var stórbruni þar sem þrjár verslanir brunnu og Éliane hárgreiðslustofan varð fyrir verulegum skemmdum. FYRIR MÁNUÐI!!! Hvar var ég? Hvers vegna tók ég ekki eftir þessu? Þetta er ekki svo langt frá þar sem ég bý. Og ég hef mörgum sinnum farið þarna framhjá í strætó síðan þá. Og ég sem les meira að segja blöðin á morgnana. En þetta fór alveg fram hjá mér. Ég þarf greinilega að finna nýja hárgreiðslustofu þegar ég neyðist til að láta klippa mig. Ég reyni að láta líða eins langt á milli og hægt er til að spara peninga.
En nú ætla ég að fara að sofa því ég þarf að vakna snemma til að komast til Whistler á þolanlegum tíma.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)