Meira um þjóðsönginn
25.3.2007 | 20:18
Ég hef verið að hugsa meira um þjóðsönginn okkar í dag, sérstaklega eftir að hafa lesið athugasemdir Sigurjóns Vilhjálmssonar og Valdimars Gunnarssonar við síðustu færslu mína. Sigurjón bendir þar á að þjóðsöngurinn okkar sé í raun ekkert um landið heldur aðallega lofssöngur um guð. Valdimar bætir við og segir það í raun misstök að þetta lag var valið sem þjóðsöngur okkar.
Ég verð að segja að ég veit óskaplega lítið um söguna í kringum þjóðsöng okkar og hafði ekki hugsað svo mikið út í þetta áður.
Mér finnst lagið ákaflega fallegt en það er augljóst að það missir marks sem eiginlegur þjóðsöngur því einungis brot þjóðarinnar getur sungið lagið. Aðrir lenda í því að komast ekki nógu hátt eða ekki nógu lágt. Og svo eru sumar nóturnar dregnar svo út að þeir sem náðu nótunni eiga það til að falla út af henni áður en henni lýkur. Það hlýtur að vera mikilvæg að fólk geti sungið þjóðsöng þolanlega. Alla vega svona venjulegt fólk (sumir eru náttúrulega laglausir hvað sem tautar og raular). Ég verð svo mikið fyrir þessu hérna í Kanada. Á þorrablótum, sautjánda júní, þjóðræknisþinginu o.s.frv. eru þjóðsöngvar landanna sungnir og venjulega er röðin sú að fyrst er sunginn sá kanadíski, þá sá ameríski og að lokum á íslenski. Almennt gengur vel að syngja fyrstu tvö söngvana. Allir geta sungið með og lögin eru ekki sérlega erfið. Eina vandamálið er að kanadíski þjóðsöngurinn hefur mismunandi lokanótur þar sem annars vegar er endað uppi og hins vegar niðri. En sem sagt, þetta gengur almennt vel. Svo kemur að íslenska þjóðsöngnum, og þvílíkur hroði. Eingöngu Íslendingarnar (og örfáir Vestur-Íslendingar) gera tilraun til að syngja og jafnvel þótt í hópnum séu góðir söngmenn gengur þetta aldrei upp. Helmingurinn getur ekki sungið nógu hátt í "sem þúsund ár", "eitt eilífðar smáblóm" seinna "íslands þúsund ár", seinna "eitt eilífðar smáblóm" og hinn helmingurinn kemst ekki nógu lang niður í "fyrir þér er einn dagur" að minnsta kosti helminguri getur svo hvorki komist niður né upp. Ég svona hálfskammast mín í hvert skipti sem reynt er að syngja þjóðsönginn, því hversu sem fallegt lagið er þá er ekki gaman að hlusta á það illa sungið.
Ég verð hins vegar að vera ósammála Valdimar í því að hafa Ísland ögrum skorið sem þjóðsöng. Mér finnst lagið bæði ljótt og leiðinlegt. Nei, það er nú of sterklega til orða tekið. En mér finnst það ekki sérlega fallegt. Þar að auki virðist fólk alltaf fara út af laginu þegar það er sungið (nema þegar fagfólk syngur það). Miklu fallegra er "Land míns föður" en það er ekki auðvelt að syngja heldur. Margir hafa talað um að "Ísland er land þitt" ætti að vera þjóðsöngurinn okkar en....æi...ég held það væri ekki góð hugmynd. Kannski ætti ekki að velja lag sem þegar er til heldur hafa keppni um nýtt þjóðlag. En þegar eftir er á hyggja....þjóðin er nú ekki mjög góð að velja lög. Dæmi: Eurovision flest árin!!!
Kannski er best að hafa bara "Guð vors lands"
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Spaugstofan og þjóðsöngurinn
25.3.2007 | 00:14
Mér brá óneitanlega þegar Spaugstofumenn sungu þjóðsöng okkar Íslendinga undir nýjum texta. Ekki að það pirraði mig neitt. Ég er ekkert viðkvæm fyrir því að þjóðsöngurinn sé notaður til að gera grín að þjóðinni, rétt eins og mér finnst allt í lagi að gera grín að forseta, forsætisráðherra, þjóðtrúnni o.s.frv. En þó ég þekkti ekki lögin um þjóðsönginn (veit nú hver þau eru eftir að hafa lesið þessa frétt á visir.is) var ég nokkuð viss um að þetta ætti eftir að valda fjaðrafoki. Ég man enn vesenið eftir páskaþátt Spaugstofumanna fyrir allmörgum árum. Þetta getur varla verið talið mikið betra. Velti líka fyrir mér hver ábyrgð Sjónvarpsins er í þessu.
Ég er nú að hálfvona að ekkert verði frekar úr þessu því mér fannst nú atriðið bara fyndið. Það er mikið til í því sem þarna var sagt. Íslendingar virðast dá og dýrka fyrirtæki eins og Alcan. En á hinn bógin eru lögin til þess að fylgja þeim og annað hvort verður því að taka á þeim sem brjóta lögin eða breyta lögunum ef þau eru úrelt. Ég er sem sagt svolítið á báðum áttum.
Verð að segja að mér fannst líka fyndið atriðið um náungann sem var með verðbréfamarkaðinn á heilanum. Ekki að atriðið sem slíkt hafi veirð svo hrikalega fyndið heldur einmitt vegna þess að það lýsti í ýktri mynd því sem mér hefur einmitt fundist þegar ég hef komið heim síðustu tvö skipti eða svo. Allt í einu er fólk orðið heltekið af fjármálabraski og fjármálamönnum. Bankamenn eru orðnir nýjustu stórstjörnur Íslendinga (búnir að henda leikurum og tónlistarmönnum aftur fyrir sig) og sumir segja að þeir séu farnir að stjórna landinu.
En nú er ég komin út fyrir efnið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Dropar detta oní poll...
24.3.2007 | 18:31
...dropar detta á minn koll
dropar detta all í kring
og dinga linga ling.
Þessi litla vísa sem mamma kenndi mér fyrir ....hmmm...mörgum árum á vel við Vancouver og nágrenni þessa dagana í mars hefur rignt í 20 daga af 23 (nú er sá 24. og spáð er rigningu). Við höfum aðeins fengið 43 klukkutíma af sólskini. Þetta hefur sem sagt verið tvöfalt meiri rigning í venjulegu ári og aðeins tæpur helmingur af sólskininu. Búist er við um 120 mm af regni á Vancouver eyju og 50-110 hér í kringum mig. Samkvæmt spám er hugsanlegt að þurrt verði á mánudag og þriðjudag en svo ætti að fara að rigna á ný.
Annars skilst mér að það sé belgingur heima.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Í nálægð Camarro
24.3.2007 | 17:46
Eina skiptið sem ég hef komið til Napoli var þegar fjórði bekkur MA ferðaðist um Ítalíu fyrir tæpum tuttugu árum. Við vorum lengst af í Sorrento, í nágrenni Napoli en fórum einu sinni í dagsferð til borgarinnar. Okkur var skipað (af kennurum okkar) að ferðast saman í stórum hópumhelst með strák í hverjum hópog við máttum alls ekki taka passana okkar með okkur. Þar að auki var ákveðið svæði borgarinnar sem við máttum ekki fara til. Við fylgdum öllum þessum reglum og enginn lenti í vandræðum, nema jú við að reyna að skipta ferðatékkunum sem allir voru með í þá daga. Það reyndist erfitt þegar maður var passalaus.
Í annað skiptið vorum við að keyra frá Sorrento to Vesúvíusar og Pompei og keyrðum þá framhjá brunnu bílflaki. Fararstjórinn sagði okkur að þessi bíll hefði verið sprengdur upp af mafíunni vikunni áður.
Við fundum sterklega fyrir nálægð mafíunnar þennan tíma sem við vorum á svæðinu án þessa að nokkuð gerðist í raun sem að okkur sneri. Það var bara þessi tilfinning sem maður fær þegar maður er á svæðinu, heyrir sögurnar og sér vitnisburðin!
![]() |
Borgarstjóri Napólí íhugar að óska eftir aðstoð hersins vegna glæpaöldu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Alltaf óheppin
24.3.2007 | 07:06
Um síðustu helgi varð ég fyrir þeirri ógæfu að veskið mitt datt út úr bakpokanum mínum þegar ég fór út úr strætó. ég hafði ekki lokað pokanum almennilega. Ég var á leið í klifurhúsið og áttaði mig á hvað hafði gerst þegar ég átti að stimpla mig inn. Með hjartað á fimmföldum hraða hljóp ég að strætóstöðinni en fann ekki veskið. Dró því þá áætlun að það hafi dottið út inni í strætó. Við tók klukkutími af stressi með því að reyna að ná sambandi við strætó fyrirtækið (sem var lokað af því það var laugardagur), tala við lögreglumann (sem gat ekkert gert), vekja pabba til að biðja hann um að láta loka vísa og debetkortinu mínu (af því að ég var ekki með þessi númer) og síðan að fara upp í næsta strætó, annars vegar til að komast heim (enda í um tveggja tíma gang frá heimili mínu í mígandi rigningu) og að biðja hann um hjálp við að koma skilaboðum til strætóstjórans í vagninum sem ég tók austur eftir. Hann var mjög hjálplegur, lét senda skilaboð til allra vagnstjóra á þessarri leið um að leita í vögnum sínum og gaf mér svo upp ýmis símanúmer sem ég gætihringt í til að fá frekari aðstoð. Veskið datt úr töskunni um fimm leytið og um sex leytið var ég komin heim, rennblaut, þreitt og áhyggjufull. Á símsvara mínum voru skilaboð frá manni að nafni Sergei sem fann veskið á stoppistöðinni. Hann hefur því verið innan við tíu mínútum á eftir mér þar. Öll kort voru á sínum stað (Guði sé lof) en allir peningar horfnir. Vanalega er ég í mesta lagi með eitt eða tvö þúsund krónur á mér í reiðufé, en af því að ég er nú á Rannís styrk koma peningar mínir inn á reikning á Íslandi og ég þarf svo að millifæra reglulega. Yfirleitt geri ég það með því að taka út peninga úr hraðbanka og leggja svo inn á kanadíska reikninginn minn. Að þessu sinni hafði ég nýlega tekið út 10.000 krónur og var ekki búin að leggja það inn. Sem sagt, um tíu þúsund krónur í veskinu akkúrat þegar ég týni því. Og nú, tíu þúsund krónum fátækari. Og ég mátti alls ekki við því vegna þess að ég fæ aðeins áttatíuþúsund krónur á mánuði og húsaleigan er tæplega fimmtíu þúsund. Það er því ekki mikill peningur afgangs.
Það er ánægjulegt að til skuli vera fólk eins og hjálplegi strætóstjórinn, og maðurinn sem skilaði mér veskinu mínu, en leiðinlegt að líka skuli vera óheiðalegt fólk eins og sá sem tók peninginn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Verður að ljúga trúlega
22.3.2007 | 17:05
Ég er að reyna að vera jákvæð út í Heather Mills en hver haldiði að trúi því að hún hafi verið betur sett fjárhagslega áður en hún gifti sig? Og hver ætli að trúi því að hún hafi haft 30.000 til 50.000 dollara Á TÍMANN fyrir að halda fyrirlestra? Hún var nobody áður en hún hitti Paul. Jú, hún kom fram og hélt fyrirlestra sem fötluð kona sem var talsmaður mannúðarhóps (geng jarðsprengjum) en eingöngu stórstjörnur fá svona pening fyrir að koma fram og tala. Bullið verður nú að vera aðeins trúlegra.
Kannski hafði hún heldur betri fjárhagsstöðu þá en hún hefur akkúrat í augnablikinu á meðan hún stendur í skilnaði. Viss um að hún hefur ekkert ógurlega mikinn vasapening frá Makka eins og stendur. En hvernig sem hún kemur út úr skilnaðinum er ljóst að hún mun fá miklu meiri pening en hún hefði nokkurn tímann getað unnið sér inn sem fyrirlesari á samkomum.
Ég er að reyna að láta mér líka við hana en hún gerir það ekki auðvelt fyrir mann með svona heimskulegum yfirlýsingum.
![]() |
Mills: Ég var betur sett áður en ég gifti mig |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mikilvæg uppgötvun tengd brjóstakrabba
21.3.2007 | 16:35
Vísindamenn við UBC (skólann minn) hafa nýverið gert mikilvæga uppgötvun sem tengist meinvörpum úr brjóstakrabba. Í ljós hefur komið að í öllum æxlum brjóstakrabba sem dreifa sér til annarra líkamshluta er ákveðið prótein á yfirborðinu. Talið er að þetta prótein sé valdurinn að því að krabbinn dreifir sér og því er nú hægt að einbeita sér að því að finna lyf sem ræðst sérstaklega á þetta prótein. Lyfið myndi þá annað hvort eyða próteininu eða nota það sem nokkurs konar ekkeri til þess að drepa krabbann sjálfan. Þar sem ég er enginn læknir eða líffræðingur ætla ég bara að vísa ykkur á greinar þar sem þið getið sjálf lesið meira um þetta:
Greinin úr The Vancouver Sun.
Grein af vef UBC.
Spáin um topp tíu hópinn
21.3.2007 | 04:32
Fyrir nokkrum vikum bloggaði ég um það hvaða keppendur í American Idol ég teldi líklegasta til að ná eitthvað. Þar nefndi ég þessa:
Fyrst stelpurnar
Melinda Doolittle - enn inni
Jordan Sparks - enn inni
Lakisha Jones - enn inni
Stephanie Edwards - enn inni
og hugsanlega Sabrina Sloan - dottin út
Sem sagt, ég stóð mig nokkuð vel með stelpurnar.
Þá sem ég valdi af strákunum:
Chris Richardson - enn inni
Blake Lewis - enn inni
og hugsanlega
Jared Cotter - dottinn út
AJ Tabaldo - dottinn út
Brandon Rogers - dottinn út
Ekki eins sannspá með strákana.
Þetta voru mínir topp tíu. Ég veit ekki fyrr en á morgun hverjir verða á topp tíu listanum í ár þannig að einhver þeirra sem hér eru enn inni gæti dottið út. Merkilegt þó að þau sem ég var viss um eru öll enn inni, og hin sem ég sagði að kæmust hugsanlega áfram eru öll dottin út. Ég vanmat hins vegar nokkur sem enn eru í keppninni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Dansarinn Heather
20.3.2007 | 21:37
Dómararnir sögðust ætla að meta hana alveg á sama hátt og aðra og ekki taka með í reikninginn að hún væri fötluð á neinn hátt. En ég held það hafi verið alveg ljóst að þeir gerðu það ekki. Þeir gáfu henni mun betri dóma en sumum öðrum sem dönsuðu langtum betur (en stigin voru svo sem í samræmi). Það verður gaman að sjá hvort það helst.
Ég horfi vanalega ekki á dansþætti en horfði nú á þennan út af Heather. Vildi sjá hvernig hún stæði sig. Mér fannst Joey Fatone úr NSync standa sig best en hann hefur nú forskot á hina. Var í strákabandi sem gerði mikið af því að danssa (þótt ekki hafi það nú verið góður dans) langt verstur var Billy Ray Cyrus, one-hit-wonder á tónlistarsviðinu (með Achy Breaky Heart) og núverandi sjónvarpsstjarna. Hann var svo stirður að ég er viss um að ég hefði verið betri, og er þó hrikalegur dansari.
En aftur að Heather. Hún minntist ekki orði á Paul, sem mér fannst nú gott hjá henni. Hún ætlar greinilega að reyna að komast áfram á eigin nafni (enda orðin aftur Heather Mills). Ég skil samt ekki alveg hvernig hún ætlar að fara að þessu ef hún tollir eitthvað í keppninni. Hún æfði greinilega heima í Englandi fram að keppninni en nú er keppt vikulega þannig að hún hlýtur að þurfa að vera í Bandaríkjunum. Efast um að Paul hafi leyft henni að taka Beatrice með sér. Ætlar hún að vera í burtu frá barninu sínu í einhverja mánuði (ef vel fer)? Get ekki ímyndað mér að það sé gott á meðan hún stendur í forræðisdeilu.
![]() |
Mills lofuð fyrir dansinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fuglar læra erlend tungumál
20.3.2007 | 16:13
Í dag las ég skemmtilega frétt þar sem segir að fuglinn Nuthatch hafi lært tungumál Chickadee fuglanna. Chickadee er lítill og fallegur fugl með skemmtilegan söng sem stundum hljómar eins og nafn fuglsins, chick-a-dí-dí-dí. Hver söngur hefur ákveðna þýðingu og þannig er með varnaðarköllin. Þar kemur fram hjá fuglinum hvort rándýrið er stórt eða lítið og hvort það flýgur eða gengur á jörðinni. Líka má greina á milli þess hvort eigi að forða sér hið snarasta eða ráðast á rándýrið (svokallað mobbing).
Í ljós hefur komið að Nuthatch, sem er allt önnur fuglategund, virðist skilja Chickadee fuglana og bregst við á réttan hátt. Þetta var reynt með því að spila köll Chickadee úr hátalara þannig að ljóst væri að Nuthatch færi eftir kallinu sjálfu en ekki hegðun alvöru Chickadee fugls á svæðinu. Og í ljós kom að hann brást algjörlega rétt við í hvert skiptið.
Þeir sem efast um niðurstöðurnar benda helst á að valdir hafi verið tveir söngvar sem væru mjög ólíkir og að kannski hefði verið betra að hafa líkari köll til þess að sýna að fuglinn gæti virkilega greint á milli. En mér finnst þetta ferlega sniðugt, jafnvel þótt köllin tvö í rannsókninni væru mjög ólík.
Ekki hefur verið kannað hvort Chickadee skilur Nuthatch enda hefur Nuthatchinn ekki eins margbreytileg varnaðarköll og Chickadee.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)