Kjörgengi

Er einhver hér sem þekkir vel kosningareglurnar? Eftir að Reykjavík var skipt í tvö kjördæmi er ég algjörlega rugluð yfir því í hvoru kjördæminu ég fæ að kjósa. Það er vanalega þannig að Íslendingar erlendis eiga kosningarétt í átta ár í því kjördæmi þar sem þeir áttu síðast lögheimili. Um síðustu kosningar sagði mér einhver að Íslendingum erlendis sem búsettir voru síðast í Reykjavík hafi öllum verið hent saman í annað Reykjavíkurkjördæmið (vissi aldrei hvort) en mér þykir það alveg með ólíkindum ef satt er. Hefði talið eðlilegast að maður kysi bara í því kjördæmi sem gamla lögheimilið manns lendir í. Og kannski er það líka þannig.

Ef einhver veit hvernig þessu er farið, segið mér endilega frá því svo ég geti farið að skoða framboðslistana. Nú eru þrír mánuðir í kosningar en utankjörfundaratkvæðagreiðslan hefst eftir um það bil mánuð. Vil kjósa snemma til þess að tryggja að atkvæði mitt komist til skila. Ég er búin að missa réttinn í sveitastjórnarkosningum, vil ekki missa þennan alveg strax.


Frábært

Mikið rosalega er ég ánægð með að heyra þetta. Og sko Fredda, rétt kominn til baka og strax farinn að skora. Og gott að heyra að ekki hafi verið um nein stór vafaatriði eða rangstefnumörk að ræða (nema sú umfjöllun eigi eftir að koma). En hvernig fóru þeir að því að brenna af tveimur vítaspyrnum? Hver tók vítaspyrnurnar?

Verst að ég sá ekki leikinn. Hér í Kanada takmarkast enski boltinn við tvo leiki á laugardagsmorgnum (alla vega hjá fátækum námsmönnum sem ekki hafa efni á fullum kapli), og sá fyrri fer fram fyrir allar aldir. Þar að auki er annar leikurinn næstum því alltaf Manchester United þannig að líkurnar á að hinn leikurinn sé Arsenal leikur eru ekki svo miklar. 

En sigur er alltaf sætur, hvort sem maður sér leikinn eða ekki. 


mbl.is Arsenal lagði Bolton í framlengingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alltaf erfiðar svona fréttir

Mér er hrikalega illa við svona fréttir. Jeppinn þarna á myndinni er ekkert ósvipaður þeim sem mamma og pabbi eiga og ég sé á myndinni að þetta er í um tveggja mínútna keyrslu frá húsinu þeira. Og þar sem ég þekki ekki bíla mjög vel í sundur þá gæti þetta alveg eins verið þeirra bíll. Myndi ekki vilja fá að vita á Mogganum að foreldrar mínir hefðu lent í bílslysi. 

Það gerðist líka í fyrra að ég las á Mogganum að sjómaður á Akureyrinni hefði látist í bruna um borð í skipinu og tveir væru alvarlega slasaðir. Ég hringdi umsvifalaust heim því bróðir minn er á Akureyrinni. Þar náði ég ekki í neinn, enda kom í ljós að mamma og pabbi voru á minningarathöfn í kirkjunni. Sem betur fer náði ég loks í annan bróður og fékk staðfest að bróðir okkar væri ómeiddur. En þvílíkur tími. 

Það er augljóslega betra fyrir aðstandendur þeirra sem deyja að nöfnin skuli ekki birtast í blöðunum strax, en það getur líka verið mjög erfitt fyrir aðstandendur allra hinna sem til greina koma á meðan maður veit ekkert.


mbl.is Harður árekstur á Akureyri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinir?

Bíddu, eiga Íranir og Írakar nú allt í einu að vera orðnir vinir? Það vantar greinilega eitthvað í söguskilning minn.

mbl.is Bush sannfærður um að íranskar úrvalssveitir útvegi uppreisnarmönnum vopn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar voru þeir?

Mér fannst vanta í þessa frétt hvar nákvæmlega mennirnir voru. Þ.e.a.s. ég þarf eki að vita lengdar og breiddargráðu en það hefði verið gott að vita hvort þeir voru á merktu skíðasvæði eða utan þeirra. Hér í Kanada kemur alltaf af og til fyrir að skíða- og brettamenn lenda í snjóflóðum og í flestum tilfellum þegar það gerist eru þeir utan merktra skíðabrauta. Hér er fylgst mjög vel með hver snjóflóðahættan er hverju sinni og staðan metin. Þegar óvenju mikill snjór er á ákveðnum svæðum er þeim lokað og fólk varað við að vera þar á ferð. Þeir sem fara síðan út á þessi svæði eru þar á eigin ábyrgð og eru því að stofna eigin lífi í hættu. Ég er viss um að snjóflóðakerfið er svipað í Ölpunum og því hefði verið gott að vita í þessu samhengi hvort mennirnir voru utan öryggissvæða.

Ég er viss um að það er rosalega skemmtilegt að renna sér utan merktra skíðasvæða, úti í óspilltri náttúrunni, en þá verða menn líka vera vel undir það búnir.  Sumir skíðamenn er vel þjálfaðir; vita hvað á að gera ef til snjóflóðs kemur, hafa rétta búnaðinn og svo framvegis. Hvað með þessa menn sem núna létust?

Það er auðvitað alltaf sorglegt þegar fólk ferst en mér finnst það mun alvarlegra ef slíkt gerist inn á merktum skíðabrekkum en þegar fólk er eitthvað að hálvitast út fyrir það sem er merkt sem öruggt svæði ef þeir hafa ekki þjálfun til þess að vera þar.


mbl.is Tveir Svíar og Þjóðverji létust í snjóflóðum í Austurríki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Guði sé lof

Mikið er það huggandi að heyra að Sjálfstæðisflokkurinn skuli vera að bakka með það að stytta framhaldsskólann um eitt ár. Ég hef verið á móti því frá því ég heyrði fyrst af þessu en eftir að ég fór að kenna á háskólastigi í Kanada varð ég enn harðari í afstöðu minni. Hér byrja nemendur átján ára í háskóla og eru langt frá því að vera búnir að taka út þroskann. Fyrsta árinu, og hjá mörgum fyrstu tveimur árunum, er eytt í fyllerí og skemmtanahöld sem íslenskir krakkar taka vanalega út í menntaskóla. Það er alfrægt að nemendur í framhaldsnámi geta ekki verið á sömu stúdentagörðum og þeir sem eru á BA/BS stigi, vegna þess að það eru stöðugt drykkjulæti á vistum yngri nemenda, og hinir eldri vilja frið til þess að læra. Ég hef kennt fjórum árgöngum fyrsta árs nema í háskóla í Kanada og það var mjög áberandi hversu illa þeir voru undir það búnir að vera komnir í framhaldsskóla. Þetta voru átján ára grey sem ekki voru búin að ákveða hvað þau vildu læra, sem ekki voru búin að taka út nema brot þroskans og sem hreinlega voru á þeim aldri þar sem krakkar vilja fyst og fremst skemmt sér. Enda var það ekki oft sem allur hópurinn kom undirbúinn í tíma. Þar að auki má benda á að hér er BA/BS námið vanalega fjögur ár, og fyrsta árið fer í það að taka áfanga úr ýmsum greinum til þess að kynna sér hvað þau vilja nú læra. Þannig að  þegar til kemur eru þau aðeins ári yngri en íslensku ungmennin þegar þau útskrifast úr háskóla og sennilega með verra nám því þau hafa almennt færri einingar í aðalfagi og lærðu hvort eð er minna fyrstu tvö árin. 

Ég er alveg hörð á því að kerfið er betra heima á Íslandi. Þegar íslensk ungmenni byrja í háskólanum tvítug að aldri hafa þau tekið út mun meiri þroska en fyrsta árs nemar vestra (enda þroskast fólk mikið á milli átján og tuttugu ára), taka námið alvarlegra og fá þar af leiðandi miklu meira út úr háskólanáminu. 

Mér finnst allt í lagi að nemendur geti tekið menntaskólann á styttri tíma ef þeir eru tilbúnir til þess að leggja þannig vinnu á sig, enda held ég að þeir sem eru tilbúnir til að leggja harðar að sér til að klára menntó fyrr hafi sennilega þann aga sem þarf til þess að standa sig vel í háskóla, en það ætti ekki að vera gert að neinu keppnikefli fyrir hinn almenna nemanda, né ætti það að verða almenn breyting. Og hvað um það að grunnskólinn hafi lengst um tvö ár og framhaldsskólinn um eina önn? Það þýðir bara að við menntum börnin okkar betur. 


mbl.is Menntamálaráðherra: Stytting námstíma til stúdentsprófs ekki markmið í sjálfu sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ást til ykkar allra

14. febrúar er Valentínusardagurinn, dagur ástar og elskenda. Ég er búin að fá alveg æðislega bambusplöntu í tilefni dagsins. Bambus er talinn lukkutákn í asískri menningu (svona eins og skeifan hjá okkur) og hefur vegna þess og vegna skemmtilegrar lögunar orðið mjög vinsæll. Gaman að fá svona skemmtilega Valentínusargjöf, ekki bara blómvönd sem visnar og deyr. Reyndar þarf ég nú að halda bambusnum lifandi. Ekki veitir mér af lukkunni. 

Og í tilefni dagsins sendi ég ástarkveðjur til allra sem villast inn á þessa síðu.


Stærðarmunur barna

stína á palliBörn stækka mjög mikið og misfljótt. Ég hef alltaf verið stutt í annan endann en það var kannski mest áberandi á barnsaldri þegar jafnaldrar mínir voru farnir að taka vaxtakippi unglingsáranna og minn vaxtakippur kom seint (og illa). Á þessari skemmtilegu mynd, sem er tekin fyrir 25 árum í Hlíðarfjalli á Akureyri, erum við Þóra og Hulda allar 12 ára gamlar. 

Gamla myndin

Einhvern tímann í fyrra setti ég mynd á netið af öllum barnabörnum ömmu Stínu. Það er orðið langt síðan og kominn tími á aðra gamla mynd. Að þessu sinni set ég inn mynd af afa Geir með Hauk bróður á fyrsta ári. Með með er ein af kindunum í Steinholti en ekki veit ég nú hvað þessi var kölluð. Þessi mynd er væntanlega orðin 47 ára, tekin einhvern tímann sumarið 1959.

haukur og afi2


Gott að heyra

Æ ég vona nú að Freddi greyið sé orðinn skaplegur og geti spilað. Ég var ekkert hrifin af honum fyrst þegar hann kom til Arsenal en hann hefur vaxið í áliti hjá mér. Ég er viss um að Henry verður sárt saknað en það er gott að karlinn fær svolitla hvíld. Nú er bara að vinna Bolton svo möguleiki sé á einhverjum titlum í ár. Og ég vona að þeir geri það hreint og örugglega og þurfi ekki að treysta á vafasama dómgæslu. Ekkert gaman að skora úr rangstæðu.

Thierry Henry hefur viðurkennt að Arsenal sé ekki að leika góða knattspyrnu þessa dagana og sagði meðal annars: “We’ve got hammered sometimes for playing good football and not winning games. At the moment we are coming back into games when maybe we are not playing the best that we can play but who cares? We are getting points."

 

Það er annars merkilegt hvernig fjölskyldan mín skiptist á milli rauðu liðanna:

Arsenal: Ég, Geiri bróðir, Haukur bróðir, bræðursynirnir Sverrir og Arnar, bræðradæturnar Svala og Kolbrún (alla vega keypti pabbi þeirra Arsenaldót á þær). Ég held líka að pabbi myndi styðja Arsenal ef hann væri neyddur til að velja, hann hefur alla vega ýjað að því.

Manchester: Gunni bróðir og bræðrasynirnir Árni, Einar og Jóhann.

Liverpool: Íris mágkona

Sem sagt, veit ekki til þess að neinn í fjölskyldunni styðji annað lið en eitt þessa þriggja en ég þekki ekki til þess hvort mamma, Dísa mágkona, Erna mágkona, Stebbi hans Hauks eða Guðrún Katrín eiga sér uppáhaldslið.


mbl.is Ljungberg aftur með Arsenal - Henry hvíldur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband