Sko minn

Og við sem héldum að KFed væri vitlaus. Hann virðist nú alveg vita hvernig á að spila úr málum.
mbl.is Federline fer fram á flýtimeðferð í forræðismáli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vetrarfrí

Þessa vikuna er vetrarfrí, eða kannski réttara heldur lestrarfrí, í UBC. Þá fara allir 'undirgráðu' (undergrad) nemendurnir á fyllerí í Mexíkó eða öðrum sólarstöðum. Hef aldrei skilið hvernig fólk í skóla getur ferðast svona mikið. Ég held ég hafi aldrei farið til útlanda á meðan ég var á námslánum á sínum tíma, og varla neitt annað en til Akureyrar. Og þá fékk ég vanalega far með flutningabílunum því ég hafði ekki efni á að borga fyrir flug eða rútu. Núna get ég ferðast aðeins meira því ég á pínulítinn sjóð frá þeim árum sem ég vann. En þau ferðalög eru yfirleitt annað hvort til að fara á ráðstefnur, sem er mikilvægt fyrir námið, eða þá að fara heim og sjá fjölsyldun. Sem ég hef gert tvisvar á fjórunum árum.

Lestrarfríið mitt núna er einmitt það, lestur. Það sem ég hef gert í fríinu hingað til er: læra, klifra... Já, þá er það svona nokkurn veginn komið. En það er líka ágætt því ég þarf að vinna vel. Þar að auki skiptir ekki öllu hvort það er lestrarfrí eða ekki hjá mér því þessa önn er ég hvorki í tímum né að kenna, þannig að frídagar eru nokkurnveginn alveg eins og vinnudagur. Það sama má segja um laugardaga og sunnudaga. Allir eru þeir þannig að ég vinn þegar ég get og tek mér pásu þegar ég er þreytt. Annars fara alveg ótrúlega margir klukkutímar í það að ná nokkurra klukkutíma vinnu. Að skrifa ritgerð er ekki eins og að mála skip (sem ég gerði á hverju sumri í sjö ár). Maður skellir ekki inn átta tíma vinnu og fer svo heim og gerir það sem manni sýnist. Ef maður er ekki í skapi til þess að vinna þýðir líitð að sitja fyrir framan tölvuna og reyna að hugsa. Það einhvern veginn kemur ekkert af viti í hugann. Þess vegna þarf ég oft að dreifa vinnunni niður á daginn og með  því að vinna fram á kvöld næ ég kannski inn hluta af þeim tíma sem venjulegt fólk eyðir í vinnu á hverjum degi. En kannski á ég bara óvenju erfitt með að sitja við. Gallinn við að skrifa doktorsritgerð (og reyndar Masters ritgerð) er að maður er sinn eigin herra og enginn annar ýtir á mann. Tímatakmörkin eru langt í burtu (ég þarf að klára fyrir september 2009, það eru rúm tvö ár í viðbót) og virka því ekki sem nein pressa. Þannig að eina pressan á mig er sú sem ég set á mig sjálf, og það er ekki alltaf auðvelt. Hins vegar er ég á mjög góðu róli. Ég er töluvert á undan hinum á mínu ári (aðeins Marion er byrjuð að skrifa eins og ég, hin eru enn að ljúka öðrum verkum) og er meira að segja búin að ná sumum sem byrjuðu tveimur árum á undan mér. en af því að ég stend svona vel að vígi setja kennararnir ekki á  mig neina pressu. ég var búin að biðja þá um að sparka í rassinn á mér ef ég slægi slöku við en þeim virðist ekki þurfa þess - svo þetta er allt undir mér komið. 

En ég lofa ykkur þessu: Á þessum tíma á næsta ári ætla ég að vera búin að skrifa. 

 


Gott framtak

Góð hugmynd, en það verður gaman að sjá hvernig þeir útfæra hana. Þeir gætu til dæmis lent í því að veita verðlaunin einhverjum sem sýnir frumleika í að nota tungumálið í listrænum tilgangi og svo þegar viðkomandi fer í viðtal í þessu tilefni heyrist þetta:

Ég er alveg ógeðslega ánægður að það var gefið mér svona bikar í verðlaun fyrir íslensku. Pabbi er ekkert að skilja þetta því hann segir að ég sé geðveikt vondur í íslensku en ég er bara að fíla þetta rosalega.

En varla geta þeir hlerað heimili barnanna til að tryggja að þau tali raunverulega gott mál.

Einu sinni talaði ég mjög gott mál. Nú á ég stundum erfitt með að muna íslensku orðin og setningagerðin er farin að litast af enskunni. Þar að auki hefur mér verið sagt að sérhljóðarnir séu farnir að skríða til. Mér finnst það alveg hræðilegt því það er mjög mikilvægt að tala gott mál. Þess vegna held ég að  þetta sé mjög gott framtak hjá borginni. Vona bara að þeir fari vel með þetta og að veitingar verðlaunanna verði sanngjarnar.


mbl.is Efnt til íslenskuverðlauna fyrir reykvísk skólabörn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Efni í L&O

Athyglisverð kenning hjá Birkhed og móður Önnu. Til þess að hún haldi vatni yrði samt eiginlega að sýna fram á að Stern hafi vitað fyrir víst að hann hafi verið faðir barnsins hennar Önnu. Hann færi varla að drepa hana upp á von og óvon um að hann færi faðirinn því hann vildi varla taka slíka áhættu og svo væri Birkhead faðirinn og fengi alla milljarðana.

Kannski megum við eiga von á Law & Order þætti fljótlega þar sem kona, fræg af endæmum, er drepin af elskhuga sínum sem vonast til þess að vera faðir lítillar dóttur hennar, og taka þannig við ríkidæmi. Áður hafði hann drepið táningsson hennar til að tryggja að litla barnið væri einkaerfingi. Svo yrði auðvitað að setja inn flækjur eins og þær að aðrir elskhugar ríku konunnar gætu líka hafa drepið hana í sömu von um að vera faðir barnsins, og vörn lögmannsins er svo sú að þau hafi ætlað að gifta sig og hann hefði því eignast milljarðana sjálfkrafa þannig. Þetta er ekkert ólíklegt (sem efni í L&O þátt, þ.e.) því þeir hafa áður gert þátt sem líkist ótrúlega Britney Spears málinu og svo fjölda mála sem byggjast á öðrum raunverulegum atburðum eða aðstæðum.

Athyglisverð annars að sú kenning að Anna hafi látið gervifrjóvga sig með sæði úr ríka en látna eiginmanni sínum til þess að tryggja erfðamálið sem hún stendur í. Mér sýnist hins vegar að ef það hefði verið málið þá væri hún löngu búin að fara í DNA próf til að sanna þetta. Þýðir lítið að ætla að krefjast arfs síns á þeim grundvelli að hún eigi barn með þeim gamla, án þess að leggja fram sönnun þess efnis.

 

 


mbl.is Erfðaskrá Önnu Nicole send á milli staða áður en hún lést
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Með mótor í puttunum

Í dag skellti ég saman öllum hálfskrifuðu köflunum í doktorsritgerðinni minni (svona að gamni til að sjá) og með línubili 1,5 voru þetta um 130 blaðsíður. Þannig að það gengur bara ágætlega að skrifa. Enda er ég búin að vera með mótor í puttunum að undanförnu og hef líklega skrifað um fjörutíu síður núna á síðustu dögunum, plús gengið frá tveimur greinum til birtingar og skrifað tvo útdrætti fyrir ráðstefnur. Nú er bara að vona að þessi vítamínssprauta (hvaðan sem hún nú kom) endist. En þar sem ég mun varla nota nema um helming af þessu í lokaútgáfu ritgerðarinnar er enn mjög langt í land. Þigg hvatningarorð.

Fyrsti stjórnmálamaðurinn

bonesFornleifafræðingar sem unnið hafa að uppgreftri í Ottawa, Kanada hafa fundið 10,000 ára gamla beinagrind sem er talin vera fyrsti stjórnmálamaðurinn.

 


Hissa

Þessi úrslit komu mér algjörlega á óvart. Ég vildi senda annað hvort Heiðu eða Hafstein en var farin að hallast að því að Eldur myndi vinna því svo margir virtust hrifnir af því lagi. En Eiríkur kom algjörlega eins og skrattinn úr sauðaleggnum!!!! Annars er það svo sem allt í lagi að hann skyldi vinna þetta. Ég hef aldrei getað valið sigurvegara, hvorki í undankeppninni né lokakeppninni þannig að  kannski er lag líklegra til sigurs ef mér líkar það ekki.

Nú segi ég bara: Gangi þér vel Eiríkur. Sýndu Evrópubúum hvað í þér býr. Og ekki móðga alheiminn í viðtölum - það virðist ekki vænlegt til sigurs.


mbl.is Eiríkur Hauksson verður fulltrúi Íslands í Helsinki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki skoðun á neinu

Ég hef ekki um neitt að skrifa í dag. Ég fór á tvo fundi í morgun og fór svo að klifra. Eftir klifrið labbaði ég alla leiðina heim. Þetta er um tveggja tíma gangur, eða rúmlega það. Reyndar stoppaði ég í sænska bakaríinu, fékk mér smurtertu og kaffi og las námsefnið.

Set inn þessa mynd af Gallas af því að mér finnst hún svo flott (lesist: finnst hann svo flottur). 


Evróvisjón lögin

Ég er búin að hlusta aftur á íslensku lögin sem keppast um Evróvisjón tilnefninguna og ég verð að segja að ég vona að við sendum annað hvort Heiðu eða Hafstein Þórólfsson. Mér finnst lögin þeirra langflottust. Ef ég ætti að velja á milli þessa tveggja myndi ég líka velja Hafstein en það er mjótt á munum. Er það á laugardaginn sem keppnin fer fram? Ég verð á þorrablóti þá en ég horfi hvort eð er á þetta á netinu svo það skiptir ekki  máli hvenær.

Kastljós

Ég hef töluvert horft á Kastljós að undanförnu og verð að segja að ég er bara býsna ánægð með þáttinn. Þau taka fyrir athyglisverð málefni og gera þeim þokkaleg skil. Það kemur reyndar stundum fyrir að mér finnst stjórnendur ekki alveg hlusta á svör viðmælendanna og hunsa þar af leiðandi athyglisverð svör sem ætti að fylgja eftir og í staðinn halda þeir sig við fyrirfram ákveðnar spurningar. En þetta hefur alltaf verið nokkuð vandamál í þáttastjórnun. Og ég fyrirgef þeim það vegna þess að þeim hefur tekist að skapa góðan þátt. Og mér finnst frábært að fá tónlistarmenn í lok þáttar. Hef þarna heyrt í ýmsum tónlistarmönnum sem ég vissi ekki einu sinni að væru til.

Takk Kastljós fólk. Þið standið ykkur vel. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband