Heim í heiðardalinn

Ég er komin heim eftir fimm vikna útlegu. Var fyrst í mánuð á Íslandi og síðan viku í Ottawa. Fólkið hér trúir því að ég hafi komið með góða veðrið með mér því það er víst búið að vera alveg ömurlegt hér síðan ég fór - þrír snjóstormar með rafmagnstruflunum og þvíumlíku. Núna er hins vegar átta stiga hiti og sól.

Ég er búin að taka upp úr töskunum, búin að versla í matinn, en ekki farin að þvo þvotta. Allt glerdótið sem mamma bjó til komst óskaddað alla þessa leið sem er ótrúlega vel af sér vikið. Þessu var svo vel pakkað inn. Myndirnar í pappa og plasti og kertastjakinn í kaðlapeysu sem amma prjónaði á mömmu fyrir mörgum árum. Hún hefur ekki notað hana lengi þannig að ég tók hana með. Annars er hún með rúllukraga (peysan, þ.e., ekki mamma) og ég þoli aldrei neitt upp í hálsinn. Verð að reyna að teygja aðeins á kraganum.

En þótt það sé notalegt að vera komin heim og allt það, er það líka erfitt. Ég sakna mömmu og pabba og fólksins heima á Íslandi, og ég sakna Martins. Vona að hann fái frí úr vinnunni fljótlega svo hann geti komið hingað til Vancouver í vetur. 


Í Ottawa

Ottawa áin að vetri

Það er skrítið að sjá Ottawa ána þessa dagna - svona einhvern vegin hálfa í klakaböndum. Eins og veðrið hefur verið óvenjuslæmt í Vancouver hefur það verið óvenjugott í Ottawa. Reyndar hefur frostið farið niður fyrir tuttugu gráður yfir nóttina núna undanfarið, en svo hefur bara verið þokkalega hlýtt á daginn. Alla vega ekki nóg til að frysta ár og síki svo vel sé. Ísinn á Rideau síkinu er ekki nema um 15 sentimetrar en þarf að vera alla vega 40 sm svo hægt sé að skauta. Og ég sem ætlaði að rifja upp gamla takta.  Í staðinn fór ég í göngutúr eftir Ottawa ánni, Gatineau megin, og tók nokkrar myndir. Kíkti svo á Rideau fossana sem voru flottir.

Hef annars ekki hreyft mig mikið undanfarna daga. Smakkaði Rapure sem er Acadian réttur og er samansettur úr kartöflum og kjöti. Býsna gott. Sérlega gott þegar maður setur helling af molasses ofan á. Hlustaði á Bruno plötuna sem Martin er að vinna að. Strákurinn er góður lagasmiður og getur spilað á öll hljóðfæri en varla sungið. Alltaf eins og hann sé með harðlífi. Á morgun snæði ég hádegisverð með Auði og Vigdísi - Íslendingagenginu í Ottawa. 


Að finna íslenska geisladiska í búðum

Af því að ég var eitthvað að tala um það áðan að ég hefði keypt nokkra íslenska diska þegar ég var heima, finnst mér rétt að bæta því við að ég reyndi mikið að finna diskana með Dikta og The Core. Fór í margar tónlistarverlsanir en fann hvorugan diskinn. Suma diska var reyndar almennt erfitt að finna. Diskinn með Úlpu fann ég aðeins í einni verslun, sama með Lights on the highway og Pétur Ben var nokkuð erfitt að finna líka. Og svo voru aðrir diskar í tugum eintaka í hverri verslun. Velti því fyrir mér hvað ræður því hvaða diskum er slegið upp o.s.frv. 

Íslensk tónlist

Áður en ég flaug af landi brott keypti ég nokkra íslenska geisladiska, marga þeirra hafði Martin beðið mig um að kaupa fyrir sig. Hafði verið að rannsaka MySpace t il að sjá hvað var spennandi í íslenskri tónlist. Ég hafði reyndar fengið tónleikadiskinn með Bubba í jólagjöf og var aðeins búin að vera að hlusta á hann en þegar ég lagði af stað með listan undir hendinn var það ekki til að kaupa svona þessa tónlist sem ég vanalega hef hlustað á. Ég hef síðan verð að hlusta á þessa diska í gær og í dag og líkar almennt vel. Reyndar eru diskarnir svolítið líkir hver öðrum, alla vega svona við fyrstu hlustun. Kannski eru áhrif Sigurrósar svona sterk.

Bestur, enn sem komið er, finnst mér nýi diskurinn með Ampop. Er einmitt að hlusta á hann núna. Hafði ekki heyrt í þeim áður enda lítið fylgst með nýrri íslenskri tónlist síðan ég flutti erlendis. Mér finnst þeir reyndar minna mig svolítið á Leaves, til dæmis lagið sem er á akkúrat núna, Two directions. Hins vegar finnst mér Leaves svo góðir að það er bara gott að líkjast þeim. Og þar að auki líkjast þeir þeim ekkert of mikið. Hafa líka sinn eigin stíl. 

Hinir diskarnir sem ég keypti eru Shadow Parade sem er mjög góður; Lights on the highway, sem fékk ekki góða umfjöllun í Mogganum (tvær stjörnur held ég) en sem mér finnst bara alveg ágætir; Pétur Ben sem ég þarf að hlusta á oftar. Ég hafði eitthvað pínulítið með honum og líkaði vel en fyrsta hlustun á nýja disknum var ekkert sérstök. Mér sýnist hins vegar þetta vera einn af þessum diskum sem maður þarf að hlusta á nokkrum sinnum þannig að ég hef engar áhyggjur. Ég keypti líka diskinn með Hafdísi Huld eftir að hafa heyrt smá brot af disknum. Mér finnst hann góður en verð samt að segja að bæði hún og Lay Low (sem mér finnst líka mjög góð og nældi mér líka í eintak af þeim diski) minna mig svolítið á Emiliönu Torrini. Það er ekkert vont í sjálfu sér því allar eru þær góðar en ég vildi heyra meir mun á þeim. Held það muni koma þegar ég hlusta oftar á plöturnar.

Heima voru líka allir að hlusta á Baggalút. Ég held ég hafi séð eintak af þeim diski á næstum hverju heimili sem ég heimsótti um jólin. Fannst það svolítið fyndið hvernig þeir hafa slegið í gegn og velti fyrir mér hversu mikið ég myndi spila þá. Fékk reyndar alltaf sent jólalagið þeirra á hverjum jólum og hafði gaman af, en veit ekki hvort ég myndi hafa þá lengi á fóninum.

Gleymdi einum diski. Keypti líka diskinn með Úlpu. Martin vildi endilega þann disk. Ég hafði heyrt brot af honum og fannst ekkert sérstakt en er búin að hlusta á diskinn núna tvisvar og verð að segja að ég hef bara gaman af. Ég hlakka til að kynnast þessum hljómsveitum öllum betur.

Martin minntist reyndar á að það væri alveg ótrúlegt hversu mikið af góðri tónlist kæmi frá Íslandi, þessu litla landi.

Er núna að hlusta á Temptation með Ampop og það er nú flott lag. Sama má segja um lag númer fimm men ég get ómögulega lesið hvað það heitir. Kem þeim skilaboðum hér með til Ampop að það er ekkert gagn af því að skrifa nafn laga á diskinn, né láta texta fylgja með, ef maður getur ekki lesið það sem stendur. Og ég bendi á að ég hef samt einn áfanga í handritalestri frá HÍ. Kannski þyrfti ég bara að nota gleraugun mín oftar.

Vil í lokin segja að ég sá bæði Mýrina og Börn þegar ég var í Reykjavík og fannst báðar alveg frábærar. Við eigum orðið mjög góða leikara. Strákurinn sem leikur Sigurð Óla í Mýrinni (Björn Hlynur?) er mjög góður og mér fannst flestir leikararnir í Börnum alveg frábærir. Alltaf stendur hann Ólafur Darri nú fyrir sínu. 


Ísland yfirgefið

Ég er búin að segja bless við Ísland í bili og þótt mér þykir margt orðið rotið á fróni þá sakna ég þess alltaf ógurlega að fara þaðan. Fyrst og fremst sakna ég fjölskyldu og vina og ég fer alltaf að gráta þegar ég kveð mömmu og pabba. Greinilega allt of mikil mömmu- og pabbastelpa.

Ég var nokkra daga í Reykjavík áður en ég hélt vestur um haf. Fór þangað fyrir viku og byrjaði á því að halda fyrirlestur í Nýja Garði. Þar var alveg fullt út úr dyrum og ég var bara býsna ánægð að sjá það. Skemmtilegast var að sjá allt fólkið sem ég kynntist á námsárum mínum þar. Suma hafði ég ekki séð lengi.  Fyrirlesturinn gekk held ég bara ágætlega. Ég var reyndar svolítið stirð enda hef ég aldrei talað um þessi mál á íslensku en það sköpuðust líflegar umræður og ég frétti utan að mér að fyrirlesturinn hefði mælst vel fyrir.

Ég fór í kvöldverðarboð á hverju kvöldi. Borðaði megnið af íslenskum húsdýrum:Fékk lambakjöt hjá Siggu, folaldakjöt hjá Guðrúnu Helgu og Friðriki, nautakjöt hjá Eiríki og Gunnu og svínakjöt hjá Borghildi. Geiri og Erna ætluðu að bjóða mér í mat en urðu hreinlega of sein - öll kvöld upp bókuð. Svo ég fór í hádegisbrunch hjá þeim á sunnudaginn. Inn á milli þessa alls borðaði ég íslenskar pylsur með öllu enda sakna ég svoleiðis gæðamatar.

Ég náðir reyndar að borða flest allt sem mig langaði í á Íslandi: slátur, saltkjöt og baunir, saltkjötsstöppu, íslenska kjötsúpu, kjötbúðing, skyr, súrmjólk (með púðusykri og cheerios), ananasborgara, djúpsteikta pylsu með osti og kryddi (að hætti Akureyringa), venjulega pylsu með öllu, úrval af íslensku nammi... Ég hljóp í spik. Þarf að fara á fullt við að ná þessu af mér aftur.

Frá Keflavík flaug ég til Boston og gisti þar eina nótt þar sem mér fannst of tæpt á áframhaldandi flugi til Kanada. Innan við tveir tímar á milli sem þýðir að seinkun hjá Icelandair hefði sett mig í klípu. Þar að auki fékk ég ódýrara flug daginn eftir sem var jafnvel ódýrara þótt við verðið væri bætt einni nótt á hóteli.

Flaug sem sakt í gær hingað til Ottawa þar sem ég er nú. Ætla að vera hér í nokkra daga áður en ég fer heim og byrja að skrifa á fullu. Hef reyndar lítið gert í gær (eftir að ég kom) og í morgun. Hef verið að lesa Tíma Nornarinnar eftir Árna Þórarinsson sem ég hef mjög gaman af (kannski af því að bókin gerist á Akureyri) og svo hef ég prjónað aðeins. Þarf núna að fara að skrifa útdrátt fyrir fyrirlesetur sem ég ætla að halda í Saskatoon í vor ef ég kemst inn.

Mun reyna að blogga oftar en ég hef gert síðustu daga. 


Konungsbók

Ég fék tvær bækur eftir Arnald í jólagjöf. Bókina frá því í fyrra (sem ég fékk í kilju og ætla því að taka með mér út og lesa þar, svona til að halda íslenskunni) og Konungsbók. Byrjaði á Konungsbók enda stór og þung bók og ég vil ekki taka hana með mér út því ég verð ábyggilega með allt of mikinn farangur. Enda mun ég varla lesa hana aftur í bráð og get því vel geymt hana hér hjá búslóðinni minni sem er niðri í kjallara hjá mömmu og pabba á meðan ég er í útlegð.

En aftur að Konungsbók. Ég var mjög spennt fyrir bókinni þar sem ég lærði nú einhvern tímann eitthvað í handritalestri og efnið höfðaði því vel til mín. 'Eg hafði líka nokkuð gaman af bókinni. Hún er ágætlega skrifuð og flettan er áhugaverð þótt ég verði að segja að mér finnst hún standa nokkuð að baki Erlendsbókum Arnalds, sérstaklega hinum nýrri. Einhvern veginn náði hún aldrei sama flugi og til dæmis Mýrin og Röddin gerðu. Ég veit eiginlega ekki af hverju. Kannski af því að mér fannst alltaf eins og bókin væri skrifuð í gömlum stíl (eins og hjá höfundum sem voru að skrifa um og eftir aldamótin 1900). Ég er alls ekki viss um að Arnaldur hafi verið að reyna að láta bókina hljóma gamla en það var samt þessi bragur á henni. Sem passaði auðvitað ekki við bókina þar sem hún átti bara að gerast fyrir fimmtíu eða sextíu árum. Annars get ég eiginlega ekki fett fingur út í neitt sérstakt, mér bara fannst hún ekki alveg eins sterk og margar aðrar bækur Arnalds. 

En ef einhver les þessa síðu sem er Arnaldsaðdándi og er búinn að lesa allar bækurnar hans og vantar eitthvað meira í sama dúr þá mæli ég eindregið með bókunum eftir Henning Mankell. Frábær sænskur rithöfundur sem ég veit að hefur verið eitthvað þýddur á íslensku.


Köld slóð

Ég fór að sjá Kalda slóð í dag og hafði bara gaman af. Skemmtilegt að sjá hversu íslenskri kvikmyndagerð hefur fleytt fram. Ég var sérstaklega hrifin af Briem stelpunni. Hef aldrei séð hana leika áður en finnst hún mjög efnileg og svo er þetta bráðhugguleg stelpa. Mér fannst hún líka eitthvað svo eðlileg. Það var reyndar nokkur munur á yngri og eldri leikurunum. Þótt eldri leikararnir séu færir þá var greinilegt á nokkrum þeirra að þeir ólust upp í leikhúsinu en ekki í kvikmyndum og því fannst mér framburðurinn eins og gerður fyrir leikhúsið. Þið vitið hvernig leikarar tala svo mál þeirra berist sem best. Ekki vottaði fyrir þessu hjá yngstu leikurunum. Þessi svona á fimmtudagsaldri voru svo einhvers staðar í miðjunni.

Mér fannst sögusviðið bæði undurfallegt og óhugnalegt, sagan var spennandi og áhugaverð og fléttan kom mér á óvart. Ég fór með mömmu og pabba sem ég hef ekki farið með í bíó í áraraðir og mamma sofnaði næstum því í byrjun en um miðjan fyrri helming var hún orðin glaðvakandi og fylgdist með af áhuga.

Mér fannst tónlistin flott og var sérlega hrifin af lokalaginu. Ambo eitthvað...eða nei, ég man það ekki.  Hvað hét þessi hljómsveit?  Verð að athuga með plötur frá þeim.

Það versta við þessa bíóferð var að hljóðið í auglýsingunni sem kom á undan var að æra mann. Ég var mjög fegin þegar í ljós kom að myndin sjálf var ekki eins ógurlega hátt stillt.

Ó já, eitt annað. 'A tíma fóru tal og mynd alls ekki saman. Veit ekki hvort það voru mistök í sýningu eða klippingu.

En ég mæli eindregið með þessari mynd.

Nú verð ég að fara og sjá Mýrina. Það var hætt að sýna hana á Akureyri þegar ég kom til Íslands en ég fer suður síðar í vikunni og mér skilst að hún sé enn í kvikmyndahúsum þar. 

 

 


Læknaþjónusta á Íslandi og framkoma við Íslendinga erlendis

Í dag fór ég til læknis. Ég er búin að vera með slæmt kvef síðan ég kom heim fyrir tveimur vikum og það virtist ekkert vera að skána. Græn skítadrulla í nefinu sem lekur svo niður í kok. Þetta er búið að koma í veg fyrir hinar daglegu sundferðir sem ég hafði planað. Ég fór reyndar einu sinni, ákvað að láta mig hafa það, en versnaði þá svo ógurlega að ég hef ekki þorað aftur. En sem sagt, í dag heimtaði pabbi að ég færi til læknis svo ég lét mig hafa það. Og hvað þurfti ég að borga? Yfir fjögur þúsund krónur. Bara fyrir að láta hlusta mig og síðan fá ávísun á síklalyf. Einhvern veginn finnst mér það eins og að fá kalda tusku framan í mig að þurfa að borga svona ógurlega fyrir að fara til læknis á Íslandi, bara af því að ég er í námi erlendis. Hérna er staðan:

1. Ég fæ enn að kjósa í alþingiskosningum (enn um sinn) en ekki í sveitastjórnakosninum.

2. Það er búið að taka af mér persónuafsláttinn þannig að ég borga hærri skatta en aðrir á Íslandi, þótt ég njóti almennt engrar þjónustu hér, annars en að hafa bankareikning. Reyndar mun ég ekki borga skatta hér fyrr en næst því nám mitt hefur alfarið verið styrkt af kanadískum peningum, en nú síðast fékk ég Rannís styrk þannig að ég mun fara að borga skatta á Íslandi aftur.

3. Ég fæ ekki lengur neina sjúkraþjónustu nema borga himinháar upphæðir. 'Eg er með sjúkratryggingu á vísakortinu mínu sem ætti að greiða þetta, en þar er sjálfábyrgðin svo há að það borgar sig ekki. Sjúkratryggingin mín í Kanada gæti einnig borgað þetta, en til þess þyrfti ég auðvitað að sýna kvittun á ensku og það kostar um 5000 krónur að fá kvittunina þýdda yfir á ensku af löggiltum skjalaþýðanda. Þannig að ég verð bara að borga minn fjögurþúsund kall fyrir það að fá sýklalyf (sem að auki kosta 1800 krónur).

Mér líður eins og eins og ég sé ekki Íslendingur lengur. Búið að taka af mér velflest réttindi íslenskra þegna.

Ég kannaði það aðeins hvort ég gæti ekki átt lögheimili á Íslandi á meðan ég er í námi, þannig að ég gæti haldið ákveðnum réttindum, en af því að ég fór ekki í nám beint frá Íslandi, heldur hafði verið að kenna ytra, þá var það ekki hægt. Þannig að íslenskur námsmaður erlendis sem flytur út til að læra heldur öllum réttindum á Íslandi en námsmaður sem bjó ytra fyrir hefur engin réttindi. Mér finnst það satt að segja ekki rétt. Ég hafði verið að kenna íslensku í Manitoba, og þannig að þjóna Íslandi á vissan hátt, og hefði ég ekki farið í framhaldsnám hefði ég komið heim til Íslands eftir að ég hætti kennslu. Og vonin er að fá vinnu heima þegar námi lýkur. En sem sagt, nú er þannig komið að ég nýt sama og engra réttinda á Íslandi lengur þótt ég sé íslenskur ríkisborgari.


Ágreiningur Steingríms og Ingibjargar

Alveg er það ótrúlegt með fólk í pólitík hvernig það getur horft
kolrangt á málefnin. Ég var að lesa nýjasta bloggið hjá Birni Inga
Hrafssyni (http://bingi.blog.is/blog/bingi/?nc=1#entry-96364) þar sem
hann slæst í hóp með þeim sem setja út á Steingrím J. Nú er hann í
nokkrum bloggum að skammast yfir því (eins og aðrir - m.a. Fréttablaðið
og Egill Helgason) að Steingrímur skuli ekki tilbúinn til þess að
samþykkja Ingibjörgu Sólrúnu sem forsætisráðherraefni sameiginlegrar
vinstri stjórnar. Ég skil ekki alveg hugsun þessa fólks. Af hverju
þurfa vinstri grænir að samþykkja það fyrirfram að Ingibjörg Sólrún
verði forsætisráðherra ef þessir flokkar ná að mynda ríkisstjórn? Af
hverju ekki ákveða það þegar tíminn kemur? Ekki ákváðu Framsóknarmenn
og Sjálfstæðismenn hver ætti að vera forsætisráðherra fyrir síðustu
kosningar þótt allir hafi vitað að þeir myndu halda áfram í ríkisstjórn
ef Framsókn yrði ekki þurrkuð út. Hvað er öðruvísi núna? Ég veit að
Steingrímur hefur sagt að hann vilji kosningabandalag, og það er
kannski þess vegna sem fólk vill vita fyrirfram að Ingibjörg Sólrún
verði forsætisráðherra, en ég get ekki séð að það sé nauðsynlegt.
Reyndar er ég viss um að hún stæði sig vel og það væri sjálfsagt
eðlilegt að Samfylkingin fengi stólinn ef þannig ríkisstjórn yrði
mynduð, en að þetta skuli þurfa að vera aðalmálið núna og að fólk skuli
telja það minnka líkur á að þessir flokkar muni vinna samann þótt
Steingrímur sé ekki alveg tilbúinn til þess að gefa stólinn eftir núna
í upphafi árs... Er ekki verið að búa til ósamstöðu sem ekki er til
staðar? Sjálfsagt langar Steingrím í forsætisráðherrastólinn (langar
ekki flesta stjórnmálamenn í hann?) en ég er líka þess sannfærð að hann
léti Ingibjörgu hann fúslega eftir ef þessir tveir flokkar ættu þess
kost eftir kosningar að mynda ríkisstjórn-svo framarlega sem 
Samfylkingin væri töluvert stærri en Vinstri grænir eftir kosningar.
Mér sýnist málið fyrst og fremst vera það að hann vill halda
möguleikanum opnum ef svo færi að Vinstri grænir kæmu sterkir út í vor.
Þá væri forsætisráðherrastólinn að sjálfsögðu öflugra samingatól en ef
búið væri að semja hann af sér áður en til kosninga er haldið. Ég er
hvorki félagi í Samfylkingunni né Vinstri grænum en ég vona að þessir
tveir flokkar myndi ríkisstjórn eftir kosningarnar í vor.Og ég trúi því
hreinlega ekki að Ingibjörg og Steingrímur muni láta
forsætisráðherrastólinn eyðileggja möguleikana á því. Og ég held að
blaðamenn viti það og vegna þessa eru þeir ekki að gera sér meiri rellu
yfir þessu. En að sjálfsögðu vilja Framsóknarmenn gera meira úr þessu
máli en ástæða er til - þeir vilja ná manni inn í vor.

Gleiðilegt nýtt ár

Ég óska öllum gleðilegs nýs árs og farsældar á árinu.

Pabbi er sjötugur í dag. Hann er sá eini í fjölskyldunni sem fær alltaf flugeldasýningu á afmælisdaginn og veislu að auki. Alltaf. Mamma ætlaði reyndar ekki að hafa neina veislu að þessu sinni. Hún verður nefnilega sjötug í sumar og planið er að hafa stóra sameiginlega veislu þá. En getiði ímyndað ykkur að mamma hafi enga veislu. Auðvitað hefur hún staðið í bakstri að undanförnu og búist er við að fólk fari að koma svona seinni part dags. Engum var svo sem boðið en fólk veit að hér verður kaffi á könnunni. 

Við krakkarnir og mamma ætlum að gefa honum skíði. Hann er núna á gömlum skíðum frá Hauki bróður og veitir ekkert af að fá ný. Svo við keyptum fínar græjur handa þeim gamla. Ég gaf reyndar mömmu og pabba líka sameiginlega bók sem ég hafði sett saman með myndum úr fjölskyldunni. Bjó hana til á iPhoto og lét svo Apple prenta út fyrir mig á fínan pappír og binda inn. Það er rosalega sniðugt og ég mæli eindregið með þessu. Alltaf er nú makkinn jafn sniðugur.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband