Hvað skal gera við gróðann?
29.1.2007 | 17:54
Hvernig væri að bankarnir notuðu hluta þessa hagnaðar til þess að bæta líf fólksins...til dæmis hinna fátæku sem eru stækkandi stétt í nútíma Íslandi bankaveldisins? Mér finnst alltaf skuggalegt þegar þjónustufyrirtæki græðir mikla peninga. Það þýðir að við erum að borga alltof mikið fyrir þjónustuna.
Í fyrra fór ég niður á skrifstofur Shaw í Vancouver. Shaw er fyrirtæki sem býður upp á kapalsjónvarp og internet tengingu. Ég fékk sjokk þegar ég kom á staðinn og sá að turninn þeirra var niður við norðurhöfn í Vancouver (eitt dýrasta byggingaland borgarinnar) með útsýni yfir flóann. Þetta hefðu þeir ekki getað reist nema af því að þeir heimta allt of há gjöld af viðskiptavinum. Þannig verða menn ríkir.
![]() |
Spáir metafkomu bankanna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Kynlíf kennara og nemenda
28.1.2007 | 21:50
Hvenær er það saknæmt að sofa hjá nemanda sínum og hvenær er það bara ósiðlegt? Þetta er ein þeirra spurninga sem hafa leitað á fólk í Vancouver þessa síðustu mánuði. Það sem kom þessarri umræðu af stað eru málaferlin yfir Tom Ellison, fyrrverandi kennara við Prince of Wales miðskólann í Vestur Vancouver. Ellison hefur verið sakaður um að hafa samfarir við fjölda nemenda sinna fyrir rúmum tuttugu árum. Stúlkur sem þá voru allar undir lögaldri. Samkvæmt lögum dagsins í dag er það saknæmt en þannig voru lögin hins vegar ekki fyrir tuttugu árum. Margir telja því að ekki sé hægt að dæma hann fyrir að hafa þá brotið núverandi lög. Nú í vikunni féll dómur í málinu og hefur Ellison verið dæmdur í tveggja ára fangelsi sem hann fær að sitja af sér heima hjá sér. Hægt er að lesa fréttina hér: Tom Ellison í Vancouver Sun
Samkvæmt lögum dagsins í dag er engin spurning um að það sé saknæmt þegar kennari sefur hjá nemanda sínum í grunnskóla eða yngri bekkjum framhaldsskóla. En hvernig er það þegar nemandinn hefur náð lögaldri? Í háskóla er alltaf eitthvað um það að kennarar sofi hjá nemendum og sýnist þá hverjum sitt. Þegar ég var við Háskóla Íslands var þó nokkuð um þetta og þótt það hafi komið slúðri af stað þá var aldrei neitt gert í málum og ég man ekki til að fólk hafi meira en hneykslast á slíku - ef svo. Þegar ég var að kenna í Manitoba vissi ég um tvö tilfelli þar sem kennari svaf hjá nemanda. í öðru tilfellinu fór lítið fyrir því og við vorum aðeins örfá sem vissum af þessu, í hinu tilfellinu leiddi athæfið til tveggja skilnaða, kennarans og nemandans, og það var auðvitað rætt mjög. Þar sá ég líka skýra greiningu eftir aldri. Eldri prófessorum þótti ekkert athugavert við það enda margir þeirra sofið hjá nemendum sínum í gegnum tíðina. Yngri prófessorunum, hins vegar, þótti þetta alger hneisa og sumir gengu svo langt að heimta að prófessorinn segði af sér ábyrgðarstöðum fyrir skólann. Í þessu tilfelli var eingöngu um siðlegt brot að ræða þar sem báðir aðilar voru fullorðnir, en jafnvel þar voru ekki allir sammála um að neitt væri athugavert við slíka hegðun.
Ég hef megnan hluta ævinnar verið í skóla, annað hvort sem kennari eða nemandi, og mér finnst að taka ætti alvarlega á slíkum tilfellum. Það að kennari eigi í ástarsambandi við nemanda veldur ákveðnu ójafnvægi, bæði innan sambandsins en einnig innan bekkjarins.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Strákarnir samt frábærir
28.1.2007 | 18:55
Leikurinn við Þjóðverja fór greinilega snemma fram í dag því þegar ég vaknaði var hann þegar búinn svo ég gat ekki einu sinni reynt að hlusta á slitrótta útsendingu. Mér til varnaðar skal nefnt hér að það er átta tíma munur á Vancouver og Íslandi og níu tíma munur á Vancouver og Þýskalandi þannig að það er ekki eins og ég hafi sofið fram yfir hádegið.
En það sem ég vildi segja var að hvað sem gerist núna er samt sem áður ljóst að Íslendingar hafa staðið sig frábærlega. Ef þeir lenta í áttunda sæti er það allt í lagi því þeir eru æðislegir og hafa gert okkur stolt. Ef þeir vinna fleiri leiki og komast í hærra sæti en hið áttunda, hvað þá verðlaunasæti, er það auka bónus og auðvitað verðum við ánægðari og ánægðari þeim mun hærra sem þeir lenda. En sem sagt, til hamingju strákar! Tilhugsunin um að eiga eitt af bestu handboltaliðum í heimi yljar hjarta landans.
Verst er að hér vestra halda allir að handbolti sé veggsport þar sem menn slá bolta með hendinni en ekki spaða, og þeim þykir ekkert til þess koma. Þannig að lítið gengur að monta sig yfir því hér hversu góðir Íslendingar séu í handbolta.
![]() |
Ólafur: Mætum brjálaðir til leiks |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Nýjar græjur í vélum Icelandair
28.1.2007 | 06:44
Það er svo fyndið við þessa frétt að hún hljómar svolítið eins og þessi tækni sé alveg ný af nálinni, sem er auðvitað ekki staðreyndin. Alla vega hafa ýmsar flugvélar haft skjái við hvert sæti þar sem fólk getur valið hvað það vill horfa á. Í fyrra flugum við Marion t.d. til Toronto á sama tíma en hvor í sinni vélinni. Hún flaug með WestJet en ég með AirCanada (enda alltaf að safna punktum hjá þeim). Ég skammaðist mikið yfir því þegar við hittumst aftur að ég hefði verið í einni af stóru gömlu vélum AirCanada sem hafa stóra skjái yfir miðröðinni. Ég sat svo í gluggasæti og af því að ég er stutt í annan endann sá ég ekkert yfir sætaröðina fyrir framan mig og gat því ekki séð á skjáinn í miðröðinni (þetta eru svona 2-4-2 sæta vélar). Marion fannst það skemmtileg og lýsti því fjálglega yfir hvernig hún hefði haft sinn eigin skjá fyrir framan sig þar sem hún gat valið á hvað hún horfði. Ég hef aldrei flogið með WestJet og því aldrei notið slíks munaðar en þeir hafa nú haft þessa tækni í einhvern tíma.
Hins vegar fagna ég því mjög ef Icelandair ætlar að fara að taka þetta upp. Núna eftir jólin flaug ég til dæmis fyrst frá Íslandi til Boston, síðan eftir smá stopp í Ottawa flaug ég frá Ottawa til Vancouver. Og hvað haldiði - í báðum vélum var verið að sýna The Queen! Og þetta er ekki einu sinni sérlega skemmtileg mynd þótt hún sé tilnefnd til Óskarsverðlauna.
![]() |
Allir farþegar fá sinn eigin skjá |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 06:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Ekki klikkar Álafosslopinn
28.1.2007 | 06:35
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Og Ísland vann...
27.1.2007 | 19:40
![]() |
Frábær markvarsla tryggði Íslandi sigur á Slóveníu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Prjónaskapur
27.1.2007 | 18:31
Þegar ég var tólf eða þrettán ára prjónaði ég peysu á litla frænda minn. Þetta var voðalega falleg blá peysa með hvítum kanínum. Prjónaði líka húfu í stíl. Síðan hef ég ekki prjónað mjög mikið. Reyndar tókum við okkur einu sinni til stelpurnar í Skíðaráði Akureyrar og prjónuðum röndóttar húfur á allan unglingaflokk skíðaráðsins og þá prjónaði ég einar þrjár. Síðan hef ég kannski prjónað eina húfu - þar til núna um jólin.
Mitt vandamál við prjónaskapinn var alltaf að ég var svo léleg við allt sem ekki var venjulegt slétt prjón. Mér fannst erfitt að prjóna snúið, kunni ekki almennilega að auka út, fannst hræðilegt að fella af, o.s.frv. Svo þegar kom að hlutum eins og að setja í ermar var ég ómöguleg. Ég ákvað um jólin að ég yrði að bæta úr þessu og fyrst ég eyddi jólunum á Akureyri gæti ég haft mömmu við hendina. En í þetta sinn ætlaði ég ekki að láta gera hlutina fyrir mig þegar þeir gerðust flóknir (eins og í gamla daga) heldur læra þetta almennilega. Þannig að, vopnuð léttlopa, prjónum og prjónablaði eftir Kristínu Harðardóttur settist ég að verki og prjónaði húfu. Smitaði mömmu í leiðinni þannig að hún fór að stelast í mína prjóna. Hvítu vettlingarnir á myndinni áttu að veramínir en ég hef varla prjónað margar umferðir í þeim sjálf. Svo ég byrjaði bara á nýjum vettlingum, þessum svörtu. Fékk hjálp við að auka út og þumalinn (gerði reyndar ekkert í þumlinum) en var svo tilbúin til að gera þetta allt sjálf þannig að ljósbrúnu vettlingana prjónaði ég sjálf. Alveg ein. Engin hjálp. Enda var ég komin til Ottawa þegar ég prjónaði þá og því enga hjálp að fá. Prjónaði aðra húfu í millitíðinni og hef nú byrjað á enn einni húfunni. Þessi á að vera stór og ég ætla að gefa Martin hana. En sem sagt, mín orðin prjónakona. Fór vestur um hafa vopnuð nokkrum léttlopahnotum, bambusprjónum númer 4.5 og hringprjónum í 4, 5 og 6. Gallinn er að ég prjóna enn of fast, sérstaklega þegar ég hef fleiri en einn lit. Þrílitu bekkirnir á svörtu og brúnu vettlingunum er miklu fastara en aðrir partar. Kann einhver gott ráð til þess að draga ekki of mikið saman í fleirlitu prjóni????? Hjálp hjálp hjálp.
P.S. Mamma bjó til þennan kertastjaka sem er líka á myndinni. Ferlega sniðugur, má líka nota sem ídífuskál.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Kanadamenn biðjast afsökunar en ekki Kaninn
27.1.2007 | 06:53
Mogginn skrifaði í dag frétt um að kanadísk yfirvöld hafi beðið Maher Arar afsökunar á því að hann skuli hafa verið handtekinn í Bandaríkjunum og sendur til Sýrlands, þaðan sem hann er ættaður. Talið er hugsanlegt að Bandaríkjamenn hafi gert þetta vegna upplýsinga frá kanadísku leyniþjónustunni um að Arar tengist hryðjuverkum. Nokkuð sem síðar kom í ljós að er ekki rétt. Ekker hefur fundist sem bendlar hann við hryðjuverk af nokkru tagi. Það vantaði hins vegar í fréttina að Kanadamenn hafa gagnrýnt Bandaríkjamenn fyrir að framselja Arar til Sýrlands en ekki til Kanada þar sem hann býr nú og þar sem hann er ríkisborgari, en hann ber tvö ríkisföng. Í Kanada eru mannréttindi almennt í góðu lagi, en svo er ekki í Sýrlandi. Ennfremur hlýtur að vera eðlilegt þegar maður hefur tvö ríkisföng að ef honum er vísað úr einu landi verði hann sendur til þess lands þar sem hann er búsettur en ekki til fæðingarlandsins. Kanadamenn hafa einnig farið fram á það við Bandaríkjamenn að þeir biðjist afsökunar á því hvernig þeir komu fram við Arar en því hafa Bandaríkjamenn alfarið neitað. Þeir hafa einnig neitað að taka Arar út af listanum yfir hryðjuverkamenn, sem getur skapað vandamál fyrir hann, t.d. við það að ferðast, en Kanadmenn þurfa iðulega að fljúga í gegnum Bandaríkin þegar ferðast er til fjarlægra landa. Það er auðvitað skref í rétta átt að Kanadamenn hafi beðið hann afsökunar en í raun er brot Bandaríkjamanna miklu stærra.
![]() |
Kanadísk yfirvöld greiða manni sem var vísað úr landi bætur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Klettaklifur
26.1.2007 | 16:46
Ég fór að klifra í gær í fyrsta skiptið í tvo mánuði. Það sást alveg, mér fannst jafnvel auðveldustu leiðirnar ekkert auðveldar. Reyndar klifraði ég 5.10c hreint (án þess að detta og án þess að taka pásu) sem er þokkalega gott því það erfiðasta sem ég hef klifrað hreint er 5.11a, sem er aðeins tveimur stigum fyrir ofan 5.10c (aðeins 5.10d á milli). En krafturinn var lítill og ég held ég hafi ekki klifrað nema um sex eða sjö leiðir sem er auðvitað fremur lélegt. Marion hafði heldur ekki klifrað neitt svo við vorum alveg í stíl.
Klettaklifur er ofsalega skemmtileg íþrótt. Ég byrjaði á þessu fyrir um tveimur árum og til að byrja með klifraði ég mjög mikið - að minnsta kosti þrisvar í viku og stundum fjórum sinnum í viku. Enda rauk ég áfram og á fjórum mánuðum var ég farin að klifra meira og minna það sem ég get klifrað núna. En svo fór ég til Íslands og Noregs í sex vikur, og svo til Kispiox, og svo tók við erfiður vetur með mikilli vinnu, og síðan sex vikna dvöl í Ottawa, aftur til Kispiox...Þetta þýddi allt að það komu margar vikur þar sem ég klifraði ekkert og svo langur tími þar sem ég klifraði einu sinni til tvisvar í vikur. Í haust klifruðum við þannig að við klifruðum leiðir einu sinni í viku og stunduðum svo grjótglímu einu sinni. En það er bara ekki nóg til að bæta sig almennilega þannig að ég hef mikið til staðið í stað síðan fyrsta vorið í klifrinu. Reyndar er tæknin orðin miklu betri og ég geri þetta yfirleitt fyrirhafnalausara (nema þegar ég er nýkomin úr langri pásu) en ég hef ekki beinlínis náð að komast upp um stig. Ja, ekki alveg satt því ég hef síðan þá klifrað 5.10d og 5.11a hreint en áður náði ég aðeins að gera það með stoppum á leiðinni.
Ég held samt að mitt stig núna sé 5.10c. Ég næ oftast að klára þá leið en á hins vegar oft erfitt með stigið fyrir ofan.
Ef ég hefði verið orðin enn öruggari á c-inu hefði ég getað unnið við uppsetningu á sviðinu hjá Rolling Stones. Þeir auglýstu eftir fólki sem gæti "comfortably climb 5.10c". Annars hefði ég kannski sótt um það ef ekki hefði verið sú staðreynd að hæðirnar sem þetta klifur færi fram í var kannski efsta hæð ellefu hæða blokkar. Mín er lofthrædd. Hefur ekki farið hærra en sirka 13 metra.
En nú þarf ég að byrja aftur að krafti á klifrinu, og fara að hlaupa, og vonandi spila meiri fótbolta (sem hefur verið bannað í tvo mánuði vegna kanadískra veðurguða - alltaf rennblautir vellirnir).
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Handboltaraunir
25.1.2007 | 20:42
Ég og íslenska handboltalandsliðið áttum sameiginlega í vandræðum með handboltann í dag. Ég öllu meir en þeir því þótt þeir hefðu tapað þá spiluðu þeir geysivel eftir því sem mér skilst. Mínar raunir voru líka handboltaraunir en fyrst og fremst snerust þær um tilraunir til að fylgjast með leiknum.
Ég var áður búin að komast að því að ég gæti ekki horft beint í gegnum íslenska sjónvarpið á netinu þar sem þeir hafa ekki leyfi til að sjónvarpa því utan Íslands. Svo ég ákvað að kaupa mér aðgang í gegnum þýsku sjónvarpsstöðina sem býður upp á slíkt, en þegar ég reyndi kom í ljós að ég var ekki með réttan spilara og ekki rétt stýrikerfi. Líklega styðja þessir asnar ekki makkann. Það er komið verr fram við okkur makkamenn en reykingarmenn, og finnst mér tími til kominn að þessum yfirburðartölvum sé sýndur ákveðinn sómi. Alla vega, ég gat ekki horft á útsendinguna þannig. Næsta skref var þá að hlusta á útsendinguna á Rás2, sem gekk að takmörkuleyti því þetta varð allt of slitrótt. Ég veit ekki hvort álagið var svona mikið en ég hef fremur trú á að ADSL tenginin mín, sem á að vera hraðatengin, sé einfaldlega of hæg. Sennilega eru alltof margir á kerfinu. Alla vega gekk þetta mjög illa og ég var alltaf að missa úr. Að lokum hringdi ég í mömmu og pabba í gegnum Skæpið og þau settu heyrnartólin upp að sjónvarpinu og ég hlustaði á síðustu fjórar mínúturnar þannig. Fékk því að svekkjast með landanum yfir úrslitum.
En við erum samt með fjögur stig og maður verður bara að vera fullur bjartsýni á að hlutirnir gangi upp gegn Slóvenum.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)