Það sem allir tala um....
31.12.2006 | 23:47
Skaupið var lélegt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Bloggari fæddur
31.12.2006 | 12:42
Fyrir tveimur dögum, 29. desember, fæddist á Ítalíu Óskar Polselli, fyrrverandi XY-sergioson sem hefur bloggað mikið úr móðurkviði. Krílið er ekki farið að blogga eftir að það kom úr móðurkviði en þess verður vart langt að bíða. Enda ætti það að vera þægilegra fyrir hann nú þegar hann er fæddur. Kíkið hér á bloggsíðu krílisins: http://xy-sergioson.blogspot.com/
Rut og Sergio, innilega til hamingju með soninn. Ég óska líka öfum og ömmum, íslenskum sem ítölskum til hamingju. Við skulum vona að einhver hafi líka samband við Íslensk-Ítalska (er það ekki annars til?). Alltaf gott að hafa kríli til að halda góðum samskiptum þjóða.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Harry Potter
27.12.2006 | 22:32
Harry Potter að láta þá báða deyja, hann og Voldemort, þá get ég ekki
ímyndað mér að Rowling þori að leggja það á unga aðdáendur bókanna sem
fæstir hver kunna að vinna úr málefnum eins og dauðanum. Bretar eru
reyndar öllu líklegri til þess að drepa aðalhetjur sínar en t.d.
Bandaríkjamenn en þegar tekið er tillit til hversu ungir lesendur
bókanna eru (þótt við hin eldri laumumst til að lesa þærlíka) verð ég
að telja það mjög ólíklegt að Harry láti lífið. Hins vegar tel ég að ef
hann lifi þetta af hljóti hann að fá ógurlega krafta því eðlilegt væri
að hann fengi alla krafta Voldemorts til sín ef Voldemort deyr og hann
lifir. Og spurningin er hvort það er nú gott fyrir hann. En það verður
gaman að lesa síðustu bókina.
![]() |
Veðjað um andlát Harry Potter |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þorláksmessa á Akureyri
23.12.2006 | 17:56
Það er svartamyrkur enda klukkan rúmlega hálf sex á Þorláksmessu. Draumur minn um fallandi snjóflyksur á Þorláksmessu virðist ekki ætla að rætast sem er auðvitað mikið synd en mitt fullkomna Þorláksmessukvöld er að fara niður í miðbæ Akureyrar, labba um, kaupa síðustu jólagjafirnar og setjast svo inn á BLáu könnuna og horfa á snjóinn falla hæglega til jarðar fyrir utan. Þetta verður ekki slíkt kvöld því að í fyrsta lagi er ekki snjókoma og í öðru lagi mun ég örugglega ekki fara niður í bæ því að ég er full af kvefi og vil helst húka inni og undir sæng.
Ég náði mér í einhverja pest á leiðinni til Íslands. Það var nú reyndar meira ævintýrið. Ég flaug frá Vancouver til Boston á sunnudaginn og ákvað að gista eina nótt í Boston. Þá gæti ég 1) skoðað Boston, sem ég hef ekki farið til í 12 ár, 2) skipt ferðinni í tvö hluta og 3) ekki átt á hættu að missa af tengiflugi þótt til seinkunnar kæmi á fyrsta hluta leiðarinnar. Sem sagt, öryggisráðstafanir. Ég kom til Boston seint á sunnudagskvöldi, lenti fyrst á vitlausu hóteli (fleiri en eitt með sama nafni) og fór ekki að sofa fyrr en um tvö leytið um nóttina. Eyddi deginum á eftir í það að labba um miðbæinn, niður á höfn og svoleiðis. Þegar ég var þarna 1994 vorum við aðallega í Harvard á ráðstefnu og síðan á einhverju ráðstefnuhóteli þar sem LSA ráðstefnan var. 'Eg hafði því í raun aldrei séð miðbæinn almennilega. Ég skildi farangurinn minn eftir á hótelinu og fór svo og sótti hann síðdegis og kom mér á flugvöllinn.
Ég tékkaði mig inn um sex leytið fyrir flug sem áætlað var klukkan hálfníu. Nema hvað, konan fyrir aftan mig í röðinni segir mér að það sé búið að fresta fluginu. Nýr tími var tíu mínútur í tólf. Ja, hver fjandinn. Ég tékkaði mig, fór og fékk mér kvöldverð og labbaði svo um flugstöðina þar til ég fékk nóg af því (lítil og leiðinleg). Settist niður og beið eftir brottför. Samkvæmt tölvuskjám voru tvær vélar áætlaðar til Íslands þetta kvöld. Hin fyrri átti að fara einum og hálfum tíma á undan okkur. Allt í einu var búið að fresta henni líka og svo var henni frestað þannig að hún átti að fara á eftir okkur. Líður og bíður og fer að nálgast miðnætti. Ekki enn búið að kalla út í vél. Loks kemur tilkynning og þar var sagt að flug 634 (hin vélin) ætti að fara þarna rétt eftir miðnætti en flugi 630 (okkar vél) væri frestað um 24 klukkutíma!!!!!!! Je minn góður. Síðan sögðu þeir eitthvað um að við ættum að sækja töskurnar okkar á belti númer 1 hjá Northwest og fá miða á hótel. Það var allt of sumt. Ekkert meira sagt. Fólk hópaðist að til að reyna að fá fleiri upplýsingar og við fengum loks að vita að önnur vélin væri biluð og hefði verið biluð frá því deginum áður. Þeir hefðu reynt að gera við hana en ekki tekist í fyrstu tilraun og nú mætti ekki prufa lengur það kvöldið. VIð urðum sem sagt að fara og sækja farangurinn okkar og fara á hótel. Ég var auðvitað með þeim síðustu að fá töskurnar mínar til baka og var í síðasta hópnum að komast á hótel. Við stóðum þarna úti í kuldanum klukkan tvö að nóttu og biðum eftir að verða sótt. Ég fann hvernig ég var að veikjast. Og auðvitað vaknaði ég um miðja nótt við það að ég var komin með hálsbólgu. Um morguninn fór ég í morgunverð en skreið svo upp í rúm aftur og svaf fram að hádegisverði. Svaf svo aftur þar til við urðum að tékka út af hótelinu klukkan fjögur. Fór þá beint á flugvöllinn og beið þar þangað til við komumst loks af stað klukkan átta.
Vorum komin til Íslands um klukkan hálfsjö að morgni, nema hvað, númerinu á fluginu okkar var breytt þannig að við vorum nú 634 en ekki 630. Vélin sem fór um tveimur tímum á eftir okkur var nú 630, sem þýddi að þegar mamma og pabbi athuguðu hvenær ég ætti að lenda var þeim tilkynnt um seinkun á fluginu. Þau voru því ekki á vellinum þegar ég kom heldur varð ég að hringja í þau og biðja þau að koma strax vestureftir. Á meðan ég beið sat ég og borðaði skyr, ópal og drakk íslenskt vatn. Góður morgunverður!!!
Við stoppuðum aðeins um tvo tíma í Reykjavík, og keyrðum svo norður enda var spáð vondu veðri. Það var gott að við fórum ekki degi seinna því þá var orðið erfitt að komast á milli.
Síðan ég kom norður hef ég svo sem ekki gert margt. Hitt bræður mínar og fjölskyldur, farið aðeins í bæinn og sofið og borðað. Hálsbólgan breyttist í hnerra og svo í kvef og með kvefinu kom ógurleg þreyta þannig að ég hef verið hálf vofuleg. En ég vona að þetta fari nú að skána.
Bloggar | Breytt 25.12.2006 kl. 20:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Ferðin hálfnuð - er í Boston núna
18.12.2006 | 06:47
Ég veit ekki hvað það er með mig og ferðalög en það er eins og það fari alltaf eitthvað úrskeiðis þegar ég ferðast. Stundum er það mér að kenna en stundum er ég alsaklaust. Ég er núna hálfnuð með leiðina til Íslands. Er á hóteli í Boston og horfi á sjónvarp (nú er auglýsingahlé) þótt klukkan sé að verða tvö að staðartíma. En ég er enn á Vancouver tíma og þess vegna ekki orðin nógu syfjuð.
Fyrsti hluti ferðarinnar gekk vel. Marion keyrði mig á flugvöllinn, vélin var á réttum tíma, þokkalega gekk að skipta um vél í Montreal og svo lenti ég í Boston. Í fyrsta lagi, á leiðinni uppgötvaði ég að ég var ekki með útprentun á e-miðanum til Íslands heldur bara með staðfestingu á pöntunninni. Ég varð geysilega stressuð en vonaðist eftir að geta leyst vandann þegar ég kæmi á hótelið. Hins vegar gekk það ekki svo vel. Á flugvellinum voru tveir símar merktir Courtyard Mariott, annar sagði 'Courtyard Marriot airport' og hinn sagði 'Courtyard Marriot Boston'. Svo ég tók upp símann á hið síðarnefnda, var stótt af hótelrútunni og komst loks á staðinn. Nema hvað, þar var engin pöntun undir mínu nafni. Ég var á vitlaustu hóteli. Það er sem sagt annað hótel í Boston með sama nafni. Og hvað þurfti ég að gera? Taka hótelrútuna aftur á flugvöllinn og hringja í hitt hótelið. Svo beið ég í rúman hálftíma í kuldanum eftir réttu hótelrútunni. Allt þetta tók um tvo tíma. Þegar ég loks komst á rétt hótel fór ég inn á netið og fanns em betur fer rétta skjalioð, prentaði út og gat loksins slappað af.
Á morgun ætla ég bar að dunda mér; sofa frameftir, fá mér góðan morgunverð, synda kannski... Svo er hugsanlegt að ég fari niður í bæ áður en ég þarf að mæta á flugvöllinn seinni part dags. Á þriðjudagsmorgunn ætti ég að vera í Keflavík.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Á kaffihúsi
16.12.2006 | 00:02
Ég held ég hafi verið í menntaskóla þegar ég fór fyrst á kaffihús og það var á Kaffitorgið á Akureyri. Bárður Halldórsson, eigandi staðarins var sögukennarinn minn og í lok einnar annarinnar bauð hann öllum bekknum í kaffi á torginu. Kaffihúsaferðum mínum fjölgaði ekki mjög árin þar á eftir enda drakk ég ekki kaffi og hafði ekki enn uppgötvað hvað það er gaman að sitja á kaffihúsi, drekka eitthvað heitt og gott og lesa að skrifa, nú eða spjalla, ef maður er svo heppinn að vera ekki einn.
Eftir að Bláa kannan opnaði á Akureyri hef ég lagt það í vana minn að koma alltaf þar við þegar ég heimsæki heimabæinn og fá mér ýmist heitt kakó eða góðan bolla af latté. Í Winnipeg fórum við Tim stundum á Second Cup sem var í götunni okkar, eða þá á smákaffihús þar beint á móti, sem rekið var af einum fyrrverandi nemanda Tims. Eftir að ég flutti til Vancouver fjölgaði kaffihúsaferðunum stórum enda komin í skóla á nýjan leik og loksins orðin nógu þroskuð til að uppgötva hversu gott það er að læra á kaffihúsi. Stundum þegar ég á erfitt með einbeita mér skelli ég mér á kaffihús og sit þar og skrifa eða les eins lengi og ég get.
Það eru fyrst og fremst þrjú kaffihús sem ég vel á milli hér í hverfinu mínu. Think (Hugsað) er góður staður, mjög vingjarnlegur við háskólanemendur. Eigandinn opnaði staðinn meðal annars með það í huga að skapa gott unhverfi fyrir háskólafólk sem ekki ætti oft mikinn pening og hefði því ekki efni á að versla mjög mikið. Maður getur því auðveldlega komið hingað, keypt sér einn bolla af kaffi og setið svo það sem eftir er dags og dundað við þennan eina bolla. Veggirnir eru skreyttir bókum, fyrst og fremst heimspeki, sálfræði og bókmenntafræði, og skemmtileg málverk eru á þeim veggjum sem ekki eru fullir af bókum. Baðherbergið er málað eins og krítartafla og maður má skrifa á veggina það sem manni sýnist. Þar að auki er hér frí internetþjónusta þannig að maður getur komið hingað með fartölvuna og lært án þess að missa tengslin við háskólabókasafnið og annað sem maður tegnist í gegnum netið. Eini gallinn er að kaffið er ekki mjög gott. Allt of þunnt. Ég þarf eiginlega að panta latté því venjulegt kaffi er hér ódrekkandi.
Mun betra kaffi er á Starbucks. Margir eru á móti þeima f því að þeir eru risakeðja sem hefur opnað kaffihús út um allan heim en ég verð að segja tvennt þeim til málsbóta. Í fyrsta lagi, megnið af norður Ameríku kunni ekki að drekka gott kaffi fyrr en Starbucks opnaði. Gæði baunanna var lágt og kaffið lafþunnt (eins og ærmiga í sólskyni, eins og afi Geir hefði sagt). Eftir að Starbucks opnaði hefur orðið auðveldara með hverju árinu að fá almennilegt kaffi því aðrir hafa brugðist við með því að leggja meiri metnað í kaffið. Ég er búin að vera í Kanada í sjö ár og ég sé mikinn mun á þeim tíma, og þó er orðið nokkuð langt síðan Starbucks opnaði. Hitt sem ég segi Starbucks til málsvarnar er að þeir fara vel með starfsfólk sitt, ólíkt öðrum keðjum eins og Walmart sem hegða sér eins og bavíanar. Ég fer sem sagt nokkuð oft á Starbucks enda fæ ég alltaf gott kaffi (og fyrir jólin bjóða þeir upp á alls konar skemmtilega drykki), andrúmsloftið er yfirleitt mjög gott og af því að staðurinn er nokkuð stór truflast maður ekki við það að nágrannarnir tali ofan í hálfsmálið á manni. Mér finnst því gott að sitja þar og læra.
Þriðji staðurinn heitir Bean around the world (búin að fara í kringum hnöttinn/baun í kringum hnöttinn). Þar er hægt að fá gott kaffi og gott bakkelsi, lítið hverfiskaffihús, en fá sæti og ekki nokkur leið að lesa þar því maður heyrir allt sem aðrir eru að tala um. Þetta er því góður staður til að fara á með vini en ekki til að læra.
Nú sit ég inni á Think og skrifa. Ætla að fara að rölta heim og halda áfram að undirbúa heimferðina.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Verstu fjöldamorð í sögu Kanada
14.12.2006 | 08:35
Hér á Vancouver svæðinu er nýbúið að velja í kviðdóm fyrir hið svokallaða Picton réttarhald. Robert Picton er grunaður um að vera versti fjöldamorðingi í sögu Kanada. Hann er nú ákærður fyrir að hafa myrt sex vændiskonur en grunur leikur á að hann hafi drepið margfalt fleiri. Greyið fólkið í kviðdómi. Ekki aðeins þarf það að horfa upp á ógeðslegar myndir af líkunum sem grafin voru upp á svínabæ Pictons heldur getur réttarhaldið tekið allt að ári. Og hvað fær fólkið í laun fyrir að sitja í kviðdómi? Sirka þúsund kall á dag. Margir urðu að biðjast undan setunni á þeirri forsendu að þeir hefðu ekki efni á því að sitja í kviðdómi. Hver getur lifað af þúsund krónum á dag, nema þeir sem þegar eru á götunni.
Hér heldur veðrið áfram að haga sér eins og andskotinn. Eftir allar rigningarnar, nóvembersnjókomu, og spillt vatnsból höfum við nú síðustu daga þurft að þola mikið hvassviðri. Á mánudaginn var veðrið svo slæmt að rafmagn fór af stórum hluta borgarinnar. Þar á meðal hjá mér. Ég var hins vegar í skólanum megnið af deginum og rafmagnið fór ekki þar að þessu sinni. Þegar ég kom heim var rafmagnið aftur komið á. Þúsundir manna voru ekki svo heppnar. Þið veltið því ábyggilega fyrir ykkur af hverju rafmagnið fer alltaf af ef eitthvað er að veðri hér. Það er vegna þess að rafmagnslínur eru allar ofanjarðar eins og var heima í gamla daga. Línur liggja þvers og kruss og í hvert skipti sem hér kemur almennilegur stormur þá fellur slatti tjráa á línurnar og rafmagn fer af á mismunandi stöðum. Væri nú ekki gott að fara að hætti Íslendinga og grafa þetta í jörð.
Nú styttist í að ég fari til Íslands. Flýg til Boston á Sunnudaginn og svo áfram til Keflavíkur á mánudag. Mun að öllum líkindum halda áfram til Akureyrar seinni part þriðjudags. Þetta verður sem sagt heilmikið ferðalag. Ég hlakka til að fara heim en kvíði fyrir ferðinni. Fæ yfirleitt töluverða þotuþreytu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26 ár frá dauða Johns
8.12.2006 | 08:42
Í dag eru liðin tuttugu og sex ár síðan John Lennon var skotin fyrir utan heimili sitt í New York. Ég var ekki nema rétt orðin ellefu ára en ég man samt eftir þessum degi. Ég var tiltölulega nýorðin Bítlaaðdáandi og var búin að vera að hlusta á rauðu safnplötuna (árin 63-66) nær stanslaust í einhverja mánuði. Þarna um kvöldið var ég að leika mér niðri í kjallara og þegar ég kom upp voru kvöldfréttirnar á. Það fyrsta sem ég heyrði var að John Lennon hefði verið skotinn. Ég varð alveg miður mín. Hver gæti gert svona? Ég held ég hafi ekki hugsað út í það þá að þetta þýddi að John ætti aldrei eftir að semja meiri músík, að ég myndi aldrei fá tækifæri til þess að sjá hann á tónleikum, að heimurinn hefði misst einn mesta snilling samtímans. Ég var ellefu ára og hreinlega hugsaði ekki svo langt. Þar að auki var Paul í uppáhaldi alveg frá upphafi og það hefur kannski slegið aðeins á. En ég hugsa enn til þessa dags með sorg í huga og ég man að ég grét þegar ég horfði á myndirnar frá sorgmæddum aðdáendum, bæði í New York og í Liverpool. Og fólkið safnaðist saman og söng og grét. Einstaka sinnum koma til sögunnar jafnmiklir snillingar og John eða Paul, en ég held það muni aldrei aftur verða til tónlistarpar sem jafnast á við þá tvo þegar þeir komu saman. Það gerðist eingöngu á sjöunda áratugnum og ég missti af því.
Tenglill á frétt frá þessum degi: http://news.bbc.co.uk/olmedia/cta/events2000/lennon/chapman06.ram

Tónlist | Breytt s.d. kl. 08:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hið pólitíska munstur
8.12.2006 | 08:21
Stjórnmálin eru allt í kring um mann þessa dagana. Ekki er hægt að kíkja á moggann án þess að sjá eitthvað um prófkjörin heima, bloggsíður Íslendinga eru fullar af því sama, hér í Kanada voru miðjumenn að kjósa sér nýjan fulltrúa sem á að reyna að ná ríkistjórninni til baka úr höndum íhaldsmanna...
Ég var eitthvað að þvælast um netið og fann síðu Gests Svavars sem var með mér í íslenskunni á sínum tíma, rétt eins og Svandís systir hans. Svavar og Guðrún voru svo mínar hjálparhellur fyrst þegar ég flutti til Kanada. Alla vega, ég var að lesa bloggið hans Gests (http://gammur.blogspot.com/index.html) og sá þá tengil á þessa síðu: http://www.politicalcompass.org/index. Maður svarar fjölda spurninga og síðan er manni sagt hvar maður stendur í pólitíska litrófinu. Ég vissi það nú svona nokkurn veginn en ákvað samt að taka prófið. Í ljós kom að ég er vinstrisinnaður sjálfræðissinni og er nokkurn veginn á nákvæmlega sama stað í litrófinu og Dalai Lama. Hins vegar ekki eins langt til Vinstri og Nelson Mandela og Gestur Svavars.
Það sem mér fannst athyglisverðast var að Steven Harper, forsætisráðherra Kanadamanna fyrir íhaldsflokkinn, er talinn vinstrisinnaðri en Tony Blair. Ég vissi svo sem að Tony Blair er ekki mjög vinstrisinnaður, en að hann skuli vera talinn hægrisinnaðri en hægri menn í Kanada!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Íslenskur matur
8.12.2006 | 03:12
Í hádegisverð í dag borðaði ég skyr og rúgbrauð með rúllupylsu. Það væri ekki í frásögur færandi nema að ég bý í Vancouver og þetta voru ekki íslenskar vörur heldur vesturíslenskar. Rúgbrauðið var bakaði af gamalli konu hér í borginni, rúllupylsan var væntanlega úr Jolly food versluninni í Norður Vancouver og skyrið var búið til af öðrum gömlum Vestur-Íslendingi. Ég keypti þetta allt, ásamt íslenskum lakkrís (frá Íslandi) á jólabasar Íslendingafélagsins um síðustu helgi. Ég er búin að vera að maula á þessum íslenska mat af og til síðan þá. Af lakkrísnum er aðeins eftir ein bingókúla. Búin með tvo litla poka af lakkrísreimum og einn af lakkrískonfekti. Hvernig er það, er Appolólakkrís öðruvísi en hann var? Mér fannst þessi eitthvað bragðlausari en ég man eftir þeim.
Ég hlakka til að koma heim og borða alvöru íslenskan mat. Mest hlakka ég til að borða saltkjötsstöppuna hennar mömmu (veit ekki um neinn annan sem býr til svoleiðis - ótrúlega gott samt) en það verður æðislegt að fá slátur, salkjöt og baunir, íslenska kjötsúpu, slátur, hangikjöt, kjötbollur, slátur... Finnst ykkur vanta fiskinn á þennan lista? Ég er með ofnæmi fyrir fiski og get ekki borðað hann. Ætla samt að borða graflax.
Svo er það nammið. Rúsínusúkkulaði, lakkrís, bland í poka (betra en það sem maður fær hér), stjörnusnakk, kartöfluflögur með osti og lauk (frá Maarud - norskir en samt góðir), Þykkvabæjarsnakk, Lindubuff, Staur, krembrauð, bananastykki, bingóstykki, Þristur..... svo margt margt meira. Íslendingar eru snillingar þegar kemur að nammi og kartöfluflögum. Ég sver það, aðrar þjóðir komast ekki með tærnar þar sem við höfum hælana. Vitiði hvað er vinsælt í kartöfluflögum í Bandaríkjunum? Tómatsósubrað. Jakk, ógeðslegt.