Um öryggi pósta

Í gær fór fram jarðaför hér á stór Vancouver svæðinu. Það væri svo sem ekki í frásögur færandi nema að sá sem jarðaður var er póstur sem fyrir nokkrum dögum datt á svelli þegar hann var að bera út póstinn. Tveimur dögum síðar lést hann úr heilablæðingu. Þetta hefur auðvitað skapað heilmikla umræðu hér ytra um skyldu fólks til þess að hreinsa hjá sér gangstéttirnar svo pósturinn og blaðaburðarfólkið geti gengt sinni vinnu án þess að þurfa að vera í hættu. Hér í Vancouver eru það eingöngu fyrirtæki og fjölbýlishús sem eru skyldug til þess að hreinsa fyrir utan hjá sér en fólk í einbýli eða tvíbýli þarf þess ekki. Í mörgum nágrannasveitafélögunum er öllum skylt að moka hjá sér og hreinsa stéttina, mismörgum tímum eftir snjókomu. Á sumum stöðum er það innan sólarhrings, á öðrum innan tíu klukkutíma. En þrátt fyrir að hér í Vancouver sé það ekki skylda að hreinsa þá er það að sjálfsögðu talin almenn kurteisi við fólkið sem þjónustar manni. Og póstþjónustan hefur sagt að þeir styðji póstana sína hundrað prósent í því að bera ekki út póstinn til þeirra sem ekki hreinsa hjá sér. Ég verð að segja að ég skil það vel. 

Ég man eftir að það var einhver umræða um þetta á Akureyri fyrir mörgum árum þar sem póstur neitaði að bera út til fólks sem mokaði ekki hjá sér stéttina. Pósturinn sagðist ekki myndu leggja líf sitt í hættu með því að klöngrast þetta að dyrunum.

Ef ég man rétt þá er það ekki skylda á Íslandi að moka hjá sér leiðina að dyrunum en ég vil samt sem áður eindregið hvetja fólk til þess að hugsa um það fólk sem þarf að leggja leið sína þangað hvort sem það vill það eða ekki og moka nú vel. 


Uppgjör við árið 2006

Á einhverri amerískri blogg síðu fann ég lista af spurningum sem varða árið 2006. Af því að mér finnst alltaf svo gaman að svara svona spurningalistum snaraði ég þessu yfir á íslensku og reyndi svo að vera heiðarleg í svörum. Aðrir bloggarar mega gjarnan "stela" spurningalistanum, sjálfum sér til ánægju og yndisauka, og setja á sínar síður.


1. Hvað gerðirðu árið 2006 sem þú hafðir ekki gert áður? Sigldi seglbát

2. Hélstu áramótaheitið og ætlarðu að strengja heit fyrir næsta ár? Ég strengdi ekki áramótaheit og mun örugglega ekki strengja áramótaheit fyrir 2007.

3. Eignaðist einhverri nærri þér barn á árinu? Bíddu nú við...Hilmar frændi eignaðist son, Unnur hennar Ágústu eignaðist dóttur...Ég man ekki hvort fleiri börn fæddust meðal vina eða ættingja. Hins vegar eru bæði Rut og Þyrí ófrískar þannig að alla vega tvö börn eru á leiðinni. 

4. Dó einhver nærri þér á árinu? Nei, sem betur fer.

5. Til hvaða landa fórstu á árinu? Til Spánar, Englands (bara til að skipta um flugvél), Bandaríkjanna (New York, Chicago, Urbana/Champagne) ...og um jólin fer ég til Íslands. Innan Kanada ferðaðist ég til Ontario, Quebec, New Brunswick og Nova Scotia.

6. Hvað langar þig að fá árið 2007 sem þig vantaði 2006? Bíl, en ég mun ekki hafa efni á því.

7. Hvaða dagsetningar frá árinu 2006 standa upp úr hjá þér? 30. júní. Þá fór ég fyrst í siglingu með Martin og vinátta okkar tók skref fram á við.

8. Hver var mikilvægasti áfanginn (eða árangurinn) sem þú náðir á árinu? Ég varð ABD (all-but-dissertation) sem þýðir að ég lauk öllum kröfum til doktorsprófs nema doktorsritgerðinni sjálfri.

9. Hver voru stærstu mistökin hjá þér? Ég hefði átt að vera lengur í Ottawa.

10. Varstu veik eða slasaðist þú á árinu? Ég var býsna heilbrigð en núna undir lok árs var sparkað í lærið á mér og ég get ekki enn gengið almennilega.

11. Hvað var það skemmtilegasta sem þú keyptir? Ekkert kemur í hug. Ég keypti geisladiska, bíómyndir, föt, skó...ekkert stendur uppúr.

12. Gerðist eitthvað hjá þér eða vinum þínum sem er þess virði að halda upp á það? Ýmsir í deildinni vörðu ritgerðir (MA, GP, QP) sem haldið var uppá. Martin fékk stöðuhækkun. Julianna trúlofaði sig og mun giftast milli jóla og nýárs.

13. Hegðun hverra gerði þig sorgmædda eða reiða? Bush, allra Repúblikana, Reykvíkinga sem kusu Sjálfstæðisflokkinn yfir sig, Kanadamanna sem kusu Íhaldsmenn yfir sig...

14. Í hvað fór megnið af peningunum þínum? Húsaleigu og mat.

15. Yfir hverju varstu spennt? Að fara til New York. Mig hafði langað að fara þangað lengi og Stóra eplið klikkaði ekki.

16. Hvaða lag/plata mun ævinlega minna þig á árið 2006? Sennilega lagið Island Way með John Cruz. Martin keypti þá plötu í Hawaii í vor og spilaði mikið. Ég lærði enska hlutann af því og söng með.

17. Miðað við sama tíma í fyrra ertu:
Hamingjusamari eða óhamingjusamari? Hamingjusamari.
Grennri eða feitari? Nokkuð svipuð.
Ríkari eða fátækari? Sennilega heldur fátækari því ég geng á sjóðinn minn

18. Í hvað hefðirðu viljað eyða meiri tíma? Ég segi það nú ekki upphátt.

19. Í hvað hefðirðu viljað eyða minni tíma? Fara yfir heimaverkefni BA nemenda.

20. Hvernig ætlarðu að eyða jólunum? Í faðmi fjölskyldunnar. Jibbí.

21. Við hvern talaðirðu mest í síma? Martin, ekki spurning.

22. Varðstu ástfangin árið 2006? Já.

23. Hversu mörg einnar nætur gaman? Engin.

24. Uppáhaldssjónvarpsþáttur? Hmmm. Allar útgáfurnar af Law and Order eru alltaf í jafnmiklu uppáhaldi. Aðrir frábærir þættir: Veronica Mars, Desperate Housewives, Corner Gas.

25. Hatarðu einhvern núna sem þú hataðir ekki í fyrra? Nei.

26. Hvað var besta bókin sem þú last á árinu? Sennilega The curious incidence of the dog in the night time sem hefur svo illa verið þýdd á íslensku sem Undarlegt háttarlag hunds um nótt. (Má ég benda á að hundurinn hegðaði sér ekki undarlega. Hann var drepinn.) Allar Henning Mankell bækurnar eru líka frábærar. Er búin að lesa nærri því alla seríuna í sumar. Þarf líka að nefna bækur Mary Jane Maffini sem gerast í Ottawa. Meiri háttar bækur.

27. Hver var mesta tónlistaruppgötvunin? Eftir langa pásu fór ég aftur að hlusta á System of a Down og þeir eru jafnvel enn betri en mig minnti. Sennilega út af plötunni Mesmorize sem kom út í fyrra. Nýja Bítlaplatan er frábær en sennilega stendur uppúr öll frábæra tónlistin sem ég heyrði á Bluesfest í sumar, svo og Akadían tónlistin sem Martin kynnti fyrir mér.

28. Hvað langaði þig í og fékkst? Kærasta, hi hi hi.

29. Hvað langaði þig í og fékkst ekki? Bíl, börn og buru. Nýja, flotta myndavél.

30. Uppáhaldsbíómyndin á árinu? Ég held ég verði að segja Little Miss Sunshine.

31. Hvað gerðirðu á afmælinu þínu og hversu gömul varðstu? Ég varð 37 ára. Ég fór út að borða með Marion, fór svo í hljóðkerfisfræði tíma og kenndi íslensku. Eyddi morgninum í að bíða eftir símtölum frá vinum og ættingjum á Íslandi en aðeins mamma og pabbi hringdu (en ekki fyrr en eftir að ég var farin í skólann.)

32. Hvað hefði gert árið enn ánægjulegra? Sjá spurningar 18 og 29.

33. Hver var tískan hjá þér á árinu? Í sumar var ég mikið í pilsi. Var líka vanalega í fleiri en einum bol.

34. Hvað hjálpaði þér við að halda geðheilsunni? Sennilega mamma og pabbi og vinir mínir.

35. Hvaða þekktu persónu girndistu mest? Jesse L. Martin, án efa.

36. Hvaða málefni hafði mest áhrif á þig á árinu? Sennilega allt bröltið í Írak sem engan enda virðist ætla að taka. Og kjarnorkutilraunir Norður Kóreu. Ég er ekkert hissa á því að þeir vilji kjarnorkuvopn. Bandaríkjamenn hafa sýnt að þeir hika ekki við að ráðást á þjóðir sem þeir telja sig geta unnið.

37. Hverra saknarðu? Fjölskyldunnar, vina minna á Íslandi, Ítalíu, Englandi, Bandaríkjunum, Martins.

38. Af nýju fólki sem þú kynntist á árinu, hver stendur uppúr? Martin, auðvitað.

39. Hvað lærðurðu á árinu? Mér finnst ég aldrei læra neitt. Kannski helst það að maður fær óttalega lítið af því sem mann langar í. En ég hafði nú svo sem lært það fyrir löngu.


 


Allt í hinu rólega

Ég hef ekki skrifað mikið undanfarið, aðallega vegna þess að það hefur ekki mikið verið um að vera. Eins og ég nefndi (held ég) varð ég fyrir meiðslum á laugardaginn og er enn býsna slæm. Bólgan hefur reyndað hjaðnað en vinstri lærvöðvi er enn mjög aumur og gefur stundum eftir þannig að ég hálfhrapa þótt ég sé bara að ganga um gólfið heima hjá mér. Og svo er verkur í hné. Útaf þessu hef ég verið heima undanfarna daga; skrifað svolítið, lesið, horft á sjónvarpið, sofið. Býsna rólegt líf. Ég þurfti reyndar að fara yfir helling af heimaverkefnum um helgina en á mánudagskvöldið kláraði ég það þannig að síðan hef ég ekki þurft að vinna eins mikið og hef getað leyft mér að einbeita mér að því að verða betri. Kláraði reyndar grein sem ég var að skrifa og vann svolítið í annarri. Þar að auki hef ég verið að brenna diska fyrir Juliönnu sem hún ætlar að gefa gestum í brúðkaupinu hennar. 

Það byrjaði aftur að snjóa í dag þannig að færðin á vegum hefur ekki skánað. Hins vegar á að hlýna í nótt á morgun og jafnvel fara að rigna aftur þannig að líklega fer snjórinn bráðum. Mér finnst synd að missa af þessu. Í dag haltraði ég út með ruslið því á morgun er rusladagur, og það var æðislegt að vera úti í köldu loftinu. Vildi að ég hefði getað notið þess betur áður en við förum aftur í rigninguna. 


Ástand í Vancouver

Þvílíka ástandið í borginni.

-Vatnið er enn ódrekkandi, aðra vikuna í röð.

- Í gær og í dag hefur snjóað svo mikið að fólk út um allt hefur verið að lenda í árekstrum (eitt dauðaslys í dag).

- Í nótt á hitastig að hrapa niður í níu gráðu frost (vissi ekki að að það færi svo lágt í Vancouver) svo búist er við fjölda slysa í fyrramálið þegar fólk keyrir í vinnu á sumardekkjunum sínum í hálkunni.

-Rafmagn er farið af hluta borgarinnar (þar á meðal hjá fólkinu hinum megin við götuna mína - við erum greinilega á mismunandi línum þar sem við höfum enn rafmagn hérna megin).

- Út af rafmagnsleysinu er kapallinn úti (sennilega rafmagnslaust hjá þeim) svo að það er hætta á að ég sjái ekki Desperate housewifes í kvöld. Annars virðist ég enn þá opnu stöðvunum þannig að það er hugsanlegt að þetta muni ganga. Hey, hér er ég að óttast um að missa af sjónvarpsþætti þar sem aðrir hafa hvorki hita né rafmagn! Ég ætti að skammast mín. 


Rolling Stones verða aldrei þreyttir

Nú finnst mér ég búin að sjá allar hljómsveitir sem ég verð að sjá. Sá Stones í gær. Frábærir eins og búast mátti við.

Ég var komin að BC place  um það leytið sem upphitunaratriðið (Bonnie Raitt) átti að byrja og stóð í röð fyrir utan þegar hún steig á svið. Það tók langan tíma að komast inn því það þurfti að leyta á þúsundum manna. Og það snjóaði. Leiðindakerlingar fyrir aftan mig í röðinni voru að kvarta yfir snjókomunni en ég var guðslifandi fegin að það snjóaði í stað þess að það rigndi. Má ég nú frekar biðja um snjó en rigningu. Kanadamenn stóðu kurteisir í röðinni að venju og lítið var um troðning. Ég komst loksins inn og fór þá í næstu röð - að kaupa stuttermabol á uppsprengdu verði. Eftir það hefði ég getað farið í næstu röð til að fá eitthvað að drekka en ég nennti því ekki og keypti mér því frostpinna í staðinn. Gat það án þess að fara í röð því ekki margir vildu kaupa frostpinna þegar bjór var í boði. 

    Þegar ég komst loksins í sætið mitt var Bonnie Raitt búin með sitt prógram (sem þó tók 50 mínútur) og ég settist við hliðina á fullri kerlingu á sínum fyrstu tónleikum sem vissi greinilega ekki mikið um Stones því hún talaði alltaf um þá sem 'hann'. Þegar ég spurði hvaða 'hann' hún ætti við varð hún voða hneyksluð á mér og sagði: 'Nú, hann sem við komum til að sjá!' Ég spurði hvort hún ætti við Jagger og hún sagði 'já', ennþá hneyksluð á vitleysunni í mér. Ég sagðist nú vera allt eins hrifin af Richards og hún spurði hver það væri. Ég reyndi að vera mjög upptekin við að horfa yfir svæðið svo hún talaði ekki meira við mig. Sérstaklega eftir að hún fór að tala um að Bonnie Raitt hafi verið 'niðurspiluð' svo hún skyggði ekki á 'hann'. Mér þótti það ólíklegt en hún gaf sig ekki.

Tónleikarinir fóru fram á BC place eins og ég sagði áður og er það fótboltahöll BC ljónanna sem unnu Stanley bikarinn (Kanadameistaratitilinn) fyrir aðeins örfáum dögum. Eftir því sem sagt var í blöðunum í morgun voru 51.000 manns á tónleikunum. 

Eftir langa bið var húsið myrkrað. Klukkan var tíu mínútur í níu og Stones komu á sviðið spilandi 'Jumping Jack Flash'. Ég veit ekki hvort það voru léleg hljómgæði eða hvort þeir breyttu útsetningunni en ég fattaði ekki strax hvað þeir voru að spila. Þaðan fóru þeir í 'It's Only rock and roll' og síðan streymdu lögin frá þeim, flest velkunn. Þeir tóku ein tvö lög af nýju plötunni en annars voru þetta meira og minna standardar. Eftir flotta útgáfu af 'She was hot', steig Bonnie Raitt á svið og tók 'Shine a light' með Jagger. Eftir átta lög kynnti Jagger hljómsveitina og þá sem spiluðu með þeim og fór svo af sviðinu. Á meðan tók Keith þrjú lög. Mér fannst hápunkturinn 'Slipping away' frá 'Vodoo lounge' en ég las annars staðar að sumum fannst toppurinn vera 'Connection'. 

Jagger kom til baka og þeir tóku 'Miss you' og sviðið fór allt í einu að hreyfast og pallurinn sem þeir stóðu á var keyrður niður eftir höllinni inn á milli fólksins þar sem þeir sungu 'Get off my cloud' og toppinn á kvöldinu 'Start me up'.  Þar á eftir kom 'Honkey tonk woman' og á meðan það var spilað var pallurinn þeirra dreginn til baka (eða var það á meðan þeir spiluðu 'Sympathy for the devil'?) Þar á eftir kom Paint it black og var ótrúlega flott. Í upphafi steig Richards fram á sviðið og kastljósið á honum. Þar spilaði hann upphafstónana og allt varð vitlaust. Því miður gat ég ekki séð endann á laginu þótt ég hafi heyrt hann. Ég hafði staðið í einum gangveginum uppi á fjórðu hæð vegna þess að ég gat ekki setið (fótboltaslys fyrr um daginn - get ekki beygt hnéð) og í miðju lagi vorum við sem stóðum þar rekin í burtu af öryggisvörðum. ég veit ekki hvað var að en lögreglan var mætt á svæðið og þeir voru að skipta sér af einhverjum. Kannski var búist við ólátum (sem ekki urðu). 

Þar á eftir skelltu þeir sér í 'Brown sugar' en ég gat lítið séð af því vegna þess að ég gat ekki staðið neins staðar annars staðar því allt var fullt af fólki, og ég gat ekki farið í sætið mitt því ég gat ekki setið. Svo ég ákvað að fara bara að haltra mér af stað. Liðnir voru tveir tímar og þetta hlaut því að vera búið bráðum. Ég vissi að ég myndi missa af einhverju góðu því hljómsveitir enda alltaf á topplögum en ég var búin að vera í fótunum enda búin að standa á öðrum fæti í tvo tíma, og ég átti eftir langa göngu að strætó. Ég vissi því ekki fyrr en ég kom heim að uppklappslögin voru 'You can't always get what you want' og , því miður 'Satisfaction'. Mikið hefði ég viljað sjá Satisfaction.

Almennt séð voru tónleikarnir stórkostlegir. Ég þekkti flest lögin, sjóið var flott, sviðið var ótrúlegt (á hæð við átta hæða hús) og þeir gáfu aldrei eftir.Hins vegar var hljóðið slæmt. Ég hef heyrt það áður um tónleika í BC place; höllin er einfaldlega of stór og of hátt til lofts. Mér fannst ég aldrei fá þessa tilfinningu þegar hljóðið fyllir allt. En Guð minn góður, Mick Jagger er í ótrúlegu formi. Hann er kominn yfir sextugt og hann hoppar um sviðið í rúma tvo klukkutíma. Og hver sem er gæti verið stoltur af magavöðvunum. En hvað ætli hann hafi skipt oft um föt?

 Stones blífa.

En þó ég eigi hættu á að reita Stones aðdáendur til reiði verð ég samt að segja að þessi lífsreynsla stenst engan veginn samanburð við Paul McCartney tónleikana tvenna sem ég hef séð. Og þá er ég ekki að segja að Paul hafi verið betri (þótt hljóðið hafi reyndar verið mun betra - minni höll), heldur skiptir það svo miklu máli hvaða tilfinningar maður ber til viðkomandi. Mér finnst Stones frábærir. Þeir hafa samið ótrúlegan fjölda af frábærum lögum og ég mun aldrei efast um hæfileika þeirra. En þótt ég hafi haft nógan áhuga á þeim til að lesa um þá bækur o.s.frv. hef ég aldrei verið heltekin. Mér finnst þeir frábærir og ég er aðdáandi að einmitt því leyti að ég elska tónlistina þeirra en ég er ekki aðdáandi að sama leyti og ég er aðdáandi Bítlanna og Pauls. Þess vegna var það hreinlega miklu viðkvæmari stund þegar ég sá Paul. Ég var búin að elska hann frá því ég var tíu ára, dreyma um að sjá hann á tónleikum. Þegar ég sá hann því fyrst 2002 var að rætast minn elsti draumur. Og það er erfitt að jafna það.

Nú er ég búin að sjá Paul, Rolling Stones, og ég sá Creed áður en þeir hættu. Af núlifandi hljómlistamönnum er því enginn sem ég þarf nauðsynlega að sjá. Og það er gott því það er dýrt að fara á tónleika. Ég vildi gjarnan geta séð Clapton þegar hann kemur hér seinna í vetur en ég er ekki viss um að ég hafi efni á því. Við sjáum til.

Ljósmyndir úr Vancouver Sun


Stórhríð og Rolling Stones í Vancouver

Það er farið að snjóa. Eftir alla rigninguna undanfarið hefur hitastig hrapað nóg til þess að rigningin falli nú í öllu fastara formi. Þetta gerist kannski tvisvar á ári. Gallinn er að þegar snjóar fer allt í köku. Strætó hættir stundum að ganga því þeir eru ekki með nagladekk eða vetrardekk og borgin er hæðótt. Og þeir sem voga sér út kunna ekki að keyra í hálku og lenda í árekstri. Og hvað geri ég ef Strætó hættir að ganga í kvöld? Ég þarf að fara niður í bæ því í kvöld fer ég á tónleika með ROLLING STONES!!!!!!!! Ég segi ykkur frá þeim annað hvort í nótt þegar ég kem heim eða á morgun ef ég er of þreytt þegar ég kem heim!

Icebank! Hvaða vitleysa er þetta eiginlega

Einu sinni voru til lög um að ekki mætti nota erlend fyrirtækjanöfn. Sumum fannst það asnalegt en ég verð að segja að  mér þykir þetta enn asnalegra. Hvers vegna heitir íslenskur banki Icebank? Ef hann ætlaði eingöngu að vera á erlendum markaði gæti ég svo sem séð það, en samkvæmt fréttinni í Mogganum á þetta að vera "banki á fyrirtækjamarkaði með áherslu á langtímalán og gjaldeyris- og afleiðsluviðskipti við fyrirtæki, fagfjárfesta og aðra umsvifamikla viðskiptavini." Og því þá ekki Ísbanki? Ég held að fólk sé að verða klikkað. Þetta er svipað og að allir fjármagnshópar þurfa núna að heita eitthvað-group. Ég hef aldrei haldið að íslenskan sé að fara til andskotans en svei mér þá, um leið og slakað var á lögum um íslenska tungu (mannanöfn, þetta) virðast allir hlaupa upp til handa og fóta og fara að nefna börn og fyrirtæki útlendum nöfnum eða ónefnum. Ég verð að segja að mér þótti staðan miklu betri áður fyrr þegar haldið var í höndina á fólki með þetta. Og hvers vegna? Vegna þess að fólk virðist hreinlega ekki bera nógu mikla virðingu fyrir íslenskri tungu. 
mbl.is Nafni Sparisjóðabankans breytt í Icebank
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þið verðið að sjá þetta

Hafið þið heyrt um McGurk áhrifin? Alveg ótrúleg sjónblekking. Sýnir með óyggjandi hætti hversu mikið við notum sjónina við að hlusta á aðra; þ.e. við notum varalestur.

Ég ákvað að búa til mína eigin McGurk mynd. Hér er það sem þið þurfið að gera. Horfið á mig tala og myndið ykkur skoðun á því sem ég segi. Þegar þið eruð viss um hvað það er sem ég er að segja, lokið þá augunum og hlustið á mig án þess að horfa á mig. Segi ég enn það sama?


 

Ég vona að mér hafi tekist að klippa þetta nógu vel saman til að þið getið séð áhrifin. Hvað er í gangi? Jú, ég tók upp á vídeó sjálfa mig segjandi annars vegar 'map' og hins vegar 'tap'. Síðan setti ég hljóðið frá 'map' yfir myndina af 'tap'. Útkoman verður því samblanda af báðu. Þið heyrið 'map' en sjáið mig segja 'tap'. Það sem gerist í heila ykkar er að þið treystið hljóðinu í því að þið heyrið nefhljóð en þið treystið sjóninni með það hvar hljóðið er myndað. Og af því að þegar ég segi 't' þá er tungan og kjálkinn í sömu stöðu og þegar ég segi 'n' og þess vegna haldið þið að ég sé að segja 'n' en ekki 'm'. 'm' er jú myndað með því að loka vörunum. Þetta þýðir að ef þið hélduð að ég væri að segja 'nap' en ekki 'map' þá voruð þið að lesa af vörum mínum. Það fyndna við þetta er að þetta breytist ekkert þótt þið vitið hvað ég er að segja. Þegar ég horfi á þetta sjálf finnst mér ég vera að segja 'nap' jafnvel þótt ég hafi sjálf tekið þetta upp og þótt ég viti að ég sagði aldrei 'nap'. Eingöngu 'map' og 'tap'. Skemmilegt? Svona getur hljóðfræði verið athyglisverð.

 


Bítlaaðdáendur kætast

Þrátt fyrir að það séu 36 ár síðan Bítlarnir hættu er enn að koma út nýtt efni með þessari bestu hljómsveit allra tíma. Mér skilst reyndar að ekki séu allir jafn sáttir við að farið hafi verið

að krukka í gömlu lögin en ég er búin að hlusta aðeins á nýja diskinn og sýnist mér að George gamli Martin (og sonur hans) hafi gert ótrúlega hluti hér. Þvílík hljómgæði. Ég hafði ekki hugmynd um að hægt væri að hreinsa gömlu upptökurnar svona til. Og samblandan á lögunum er flott.

En þið skulið ekkert vera að lesa það sem ég er að skrifa. Farið heldur og hlustið sjálf á plötuna. Það er hægt að gera hér: http://www.thebeatles.com/hearlove/

Þarna er líka hægt að senda kort. Ég er búin að vera að senda út og suður til allra Bítlaaðdáenda sem ég þekki. 

Og komið svo endilega aftur hingað og segið mér hvað ykkur finnst. 

 

 


Salmonella

Muniði gömlu góðu dagana þegar salmonella var bara í kjúklingum? Nú getur maður aldrei verið öruggur. Það er ekki langt síðan allt spínat frá ákveðnum framleiðanda í Bandaríkjunum var endurkallað og í dag kom út viðvörun um að salmonella hafi fundist í canteloups (appelsínugulu melónunum - hef ekki hugmynd um hvað þær kallast á íslensku) sem dreift hefur verið í Kanada, frá Saskatchewan til BC og í Yukon og Norðvesturfylkjunum líka. Og er ég ekki heppin. Ég keypti einmitt kantelópu í gær og bjó til ávaxtasalatið sem ég borða á hverjum morgni (kantelópa, ananas, vínber og vatnsmelóna). Og að sjálfsögðu borðaði ég fulla skál af þessu í morgun, sem þýðir að ég innbirti töluvert magn af hugsanlega salmonellusýktri kantelópu. Og nú í kvöld er ég með heiftarlegan magaverk. Vona að það tengist bara Rósu frænku sem kom í heimsókn í gær. Vil alls ekki fá salmonellusýkingu (nema að ef ég er lasin í viku þá legg ég helling af fyrir jólin!!!!!!).

En sem sagt, maður er hvergi öruggur lengur. Salmonellan getur leynst hvar sem er. Og þetta kemur allt ofan á vatnsskortinn sem enn ríkir hér. Vatnsból borgarinnar er enn mengað og við megum ekki drekka kranavatnið. Það bragðast illa þótt maður sjóði það en sem betur fer fékk ég tvær flöskur á Starbucks í dag. Fór þangað og naut þess að sötra piparköku latté. Mmmm. En það er nú annað mál.

Hugsið ykkur örlögin að fá salmonellusýkingu á meðan vatnsskortur ríkir í borginni!  

Sem sagt, vona að ávaxtasalatið í morgun hafi verið salmonellulaust. Kannski ég hefði átt að halda mig við súrmjólk og Cheerios (nema hvað hér er ekki hægt að kaupa súrmjólk).

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband