Nýjar kvikmyndir
18.11.2006 | 07:12
Ég er búin að fara þrisvar sinnum í bíó á síðustu tveimur vikum eða svo, sem er órúlegt miðað við að bíómyndirnar þrjár sem ég sá þar á undan dreifðust á eina fimm mánuði. Það var aðallega vegna þess að það var ekkert áhugavert í kvikmyndahúsunum í langan tíma. Ég ætla að segja ykkur frá þessum þremur myndum, svo og einni sem ég sá ekki fyrir löngu.
Stranger than fiction
Í gær sá ég 'Stranger than fiction' sem var allt sem ég hafði búist við. Will Ferrel í sínu allra besta formi. Þótt mér hafi alltaf fundist hann frábær sem gamanleikari þá var hann enn betri í þessari mynd. Að því leyti stendur þessi mynd við hlið Eternal Sunshine of the spotless mind (önnur frábær mynd) þar sem Jim Carey sýndi að hann getur gert meira en að glenna sig. Reyndar minnir STF á þá mynd að mörgu öðru leyti, rétt eins og aðrar Kaufmann myndir, því það sem gerir myndina sérstaka er fyrst og fremst söguformið. Það að sköpunarverk höfundar skuli ekki aðeins vera lifandi heldur og einnig heyra rödd sögumanns er auðvitað frábært, og það að höfundur hefur ekki hugmynd um þetta gerir þetta enn skemmtilegra. Mig langar mikið að ræða einstaka þætti en það er eiginlega ekki hægt nema segja of mikið frá og ég held að það sé betra fyrir fólk að vita ekki of mikið.
Auk Will Farrel eru þarna Emma Thompson, sem alltaf hefur verið í miklu uppáhaldi hjá mér, og hún er frábær í myndinni (ekta keðjureykjandi rithöfundur með ritstíflu) og Dustin Hoffmann sem klikkar ekki. Jú, og við þetta má bæta Tony Hale sem var Buster í þáttunum Arrested Development. Frábærir þættir, veit ekki hvort þeir voru sýndir á Íslandi.
En sem sagt, frábær myndir. Farið endilega að sjá hana. Fjórar stjörnur.
Borat
Fyrst þegar ég sá brot úr Borat sýndist mér þetta of ósmekklegt til að nenna að sjá myndina. En þegar ég frétti að það væru aðeins tveir leikarar í myndinni, aðrir væru venjulegir Bandaríkjamenn sem Borat hitti á ferðum sínum var ljóst að ég mætti ekki missa af þessu. Það er alltaf svo skemmtilegt að hlæja að Bandaríkjamönnum. Og það fór svo. Je minn góður. Það sem sumt fólk sagði. Og þetta lið skrifaði undir samning um að það mætti sýna þetta. Nú segir það auðvitað að það hafi verið blekkt. Kannski sýnir það bara enn og aftur að maður á aldrei að skrifa undir neitt án þess að lesa það yfir vel og vandlega.
Ég hló heilmikið en auðvitað er myndin ósmekkleg. Þrjár stjörnur.
Flushed away
Teiknimynd framleidd af Ardman films sem gerðu Wallace and Gromit en er samt ekki Nick Parker mynd. Þessi mynd er gerð með töluvtækni en ekki úr leir eins og fyrri Ardman myndir en karakterar eru gerðir í sömu mynd. Sömu tennurnar og sami munnsvipurinn almennt. Og svei mér þá ef hún er ekki bara jafn fyndin og Wallace and Gromit. Myndin er um rottu (eða mús - var aldrei viss) sem eru gæludýr lítillar stúlku en er einn daginn sturtað niður um klósettið og lendir í rottuheimum undir Lúndúnaborg. Þar kynnist gæludýrsrottan alvöru rottum og þar á meðal sætri stelpurottu sem er 'one tough cookie'. Þetta er svona nokkurs konar James Bond rottuheima.
Ég skemmti mér konunglega. Þrjár og hálf stjarna.
Little miss sunshine
Verð að minnast á þessa mynd sem ég sá einhvern tímann í haust. Myndin er um litla stelpu sem tekur þátt í fegurðasamkeppni barna, og um hennar ófullkomnu fjölskyldu. Bróðirinn er í þagnabindindi, faðirinn (Greg Kinnear) er með einhvers konar fullkomnunaráráttu á heilanum og er búinn að hanna einhvers konar tólf þrepa prógram um það hvernig maður eigi að fá það sem maður vill. Móðurbróðirinn (Steve Carell) þarf að vera undir eftirliti vegna sjálfmorðsáráttu og mamman (Toni Collette) á erfitt með að gera öllum til geðs. Að lokum er það afinn (frábærlega leikinn af Alan Arkin) sem er létt klikkaður. Saman keyrir þetta lið frá Arizona til Californiu (sem er svo sem ekkert ógurlega langt) og margt gerist á þeirri ferð.
Frábær mynd. Mæli eindregið með henni. Fimm stjörnur.
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 07:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Rigning
18.11.2006 | 01:30
Íslendingum finnst alltaf gaman að tala um veðrið. Það breytist ekkert þótt maður flytji í burtu. Hér kemur t.d. mynd af veðrinu eins og það er í Vancouver í dag:
Og hér kemur veðurspáin.
Laugardagur:
Sunnudagur:
Mánudagur:
Þriðjudagur:
Miðvikudagur:
Fimmtudagur:
Föstudagur:
Á slíkum tímum saknar maður hins breytilega veðurs á Íslandi. Miklu betra en endalaus rigning.
Og þetta hefur líka sín aukaáhrif. Á miðvikudaginn fengum við hrikalegan storm með allri rigningunni og vatnsból borgarinnar urðu fyrir áföllum sem þýðir að nú er fólki ráðlagt að drekka ekki vatnið úr krönunum. Við þurfum því að sjóða allt vatn sem drukkið er. Lítið þýðir að fara og kaupa vatn því það kláraðist víst allt í morgun. Kaffihús voru meira og minna auð því vatn kláraðist og fæstir kaffistaðir hafa aðstöðu til að sjóða mikið magn af kaffi. Þannig að ekkert hreint vatn var til reiðu til kaffigerðar. Ég er viss um að það voru fleiri árekstrar í umferðinni út af skapvondu kaffifólki sem fékk ekki skammtinn sinn. Ég vona að Íslendingar fari vel með vatnsbólin. Vatnið okkar er eitt það mikilvægasta sem við eigum og ég held að við hugsum ekki nógu miið um það.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 06:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sexiest man alife
17.11.2006 | 08:15
People Magazine hefur útnefnt George Clooney kynþokkafyllsta mann í heimi og ég held bara að Goggi sé vel að titlinum kominn. Hann var sjarmör á ER hér í gamla daga og hefur bara haldið sér ótrúlega. Annars sakaði Marion vinkona mín mig um það um daginn að vera gefna fyrir súkkulaðið. Ég var eitthvað að slefa yfir Taye Diggs og Shemar Moore, og þegar það bætist við standlaust slef yfir Jesse L. Martin...kannski hún hafi bara rétt fyrir sér. En er það ekki skiljanlegt? Lítið á þessa gaura! They're mighty fine!
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 08:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Hann á afmæli í dag
16.11.2006 | 07:59
Af því að það eru enn eftir tvær mínútur af fimmtánda nóvember hér á vesturströndinni er ekki of seint að segja: Til hamingju með afmælið Sam (Waterston - Law and Order)!
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 08:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fleiri glæpamenn í pólitíkina, takk.
12.11.2006 | 21:03
Hvað er eiginlega að Sjálfstæðismönnum? Árni Johnsen er glæpamaður sem hefur setið í fangelsi fyrir að misnota sjóði almennings. Og fólk vill setja hann á þing? Endilega. Reyndum að koma honum í stöðu þar sem hann getur haldiið áfram að bruðla með fé almennings til eigin nota. Það virðist hreinlega vera kostur hjá hægrimönnum að hafa nógu lágan siðferðisstandard. Þess betra. Þá er hægt að treysta þessu liði til að troða á almannafé og færa það í hendur þeirra sem þegar eiga nóg. Allar ákvarðanir ríkisstjórnarinnar hafa hvort eð er stuðlað að því að gera þá fátæku fátækari og hina ríku ríkari. Árni Johnsen er líklega þokkalega ríkur og hann var því að sjálfstöðu bara að halda uppi merkjum Sjálfstæðismanna þegar hann reddaði sér smá aukapening frá Þjóðleikhúsinu. Hann hefur líklega fengið hrós fyrir hjá ráðamönnum þótt það hafi ekki verið gert opinberlega.
Gert grín að Bush
9.11.2006 | 18:15
Þessi mynd var í Vancouver Sun í dag. Mér finnst hún fyndin.

Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Varið ykkur Íslendingar. Ég er að koma heim !!!!
9.11.2006 | 17:19
Í gær keypti ég flugmiða til Íslands (18. des - 17. janúar). ÉG VERÐ Á ÍSLANDI UM JÓLIN!!!!!!!!!!!
Upphaflega ætlaði ég að vera hér í Vancouver. Planið var að Martin kæmi í heimsókn og við eyddum jólunum saman, en síðan hafa fjölskyldumál og vinnan skorðað hann fastan um hátíðarnar og ég ákvað að ég vildi ekki vera ein í Vancouver fjórðu jólin í röð. Vanalega er enginn vina minna í bænum (Marion fer til Chilliwack, Julianna til Winnipeg, Yoko til Þýskalands eða Japans, Doug og Anne-Marie til Nanaimo -alla vega í fyrra-, Gunnar og Suzanne til Íslands eða Saskatchewan, Leszek til Póllands, og Jeremy er enn í Thalandi). Ég hef eytt jóladegi með Brynjólfsson fólkinu sem er fjarskylt mér en það er einfaldlega ekki það sama og að vera með fjölskyldunni eða með góðum vinum.
Þannig að, ég fór á vef Icelandair, fann flug fyrir tæpa $500 US frá Boston, og keypti það. Nú þarf ég að komast til Boston. Annað hvort flýg ég þangað beint eða ég flýg til Ottawa og heimsæki Martin á leiðinni til Íslands. Eða ég heimsæki hann á bakaleiðinni. Nú er orðið ekkert mál að kaupa flug aðra leiðina án þess að þurfa að borga hærra verð en fyrir fram-og-til-baka-flugið. Það er því lítið mál að fljúga Vancouver-Boston-Ísland-Boston-Ottawa-Vancouver.
En sem sagt, ef ég var ekki búin að segja það nógu skýrt: ÉG ER AÐ FARA TIL ÍSLANDS!!!!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Kosningarnar í Bandaríkjunum
8.11.2006 | 18:33
Trú mín á Bandaríkin hefur eflst mikið í dag. Þeir sýndu með kosningasigri Demókrata í gær að Repúblikanar geta ekki hagað sér eins og fífl án þess að það komið niður á þeim.
Nú verður gaman að sjá hvort Íslendingar sýna sömu gáfur og hegna Ríkisstjórn Íslands fyrir ömurlega stjórn undanfarin ár með því að sniðganga Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk. Ef ekki, verð ég því miður að lýsa því yfir að Bandaríkjamenn hafa meiri gáfur og meiri manndóm en Íslendingar og það væri nú sorglegt?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fræga fólkið á göngu
4.11.2006 | 17:11
Það er alltaf eitthvað við það að sjá frægt fólk úti á götu; þekkt andlit sem maður getur tengt við ákveðna bíómynd, sjónvarpsþátt eða lag. Ég held að fyrsta reynsla mín af einhverjum frægum hafi verið að hitta Ómar Ragnarsson þegar hann kom og skemmti á Andrésar andarleikunum á Akureyri þegar ég var níu eða tíu ára og ég hjálpaði honum með því að halda á töskunni hans út í bíl. Mörgum árum síðar vann ég með honum. Ég man líka eftir því hvað ég var hrifin þegar ég hitti Svavar Gestsson í fyrsta sinn. Þá var ég á svipuðum aldrei, sjálfsagt í kringum tíu ára, og mér fannst hann stórkostlegur. Kynntist honum líka vel síðar. Ég hafði alltaf haft gaman af að fylgjast með pólitík frá því ég var býsna ung. Reyndar var það Vilmundur Gylfason sem ég dáðist að framar öðrum og þó kaus ég aldrei Alþýðuflokkinn, Bandalag jafnaðarmanna eða nokkurn arftaka þessa flokka.
Annars sá ég aldrei mikið af frægu fólki á Íslandi, jafnvel þau tíu ár sem ég bjó í Reykjavík. Ég fór reyndar í leikfimi á sama stað og Björk þegar hún kom heim einhvern tímann í afslöppunarferð og hef síðan sagt að mín 'claim-to-faim' sé að hafa verið í sturtu með Björk. Ég talaði einhvern tímann við Einar Örn Benediktsson sem gaf mér sódavatn með sítrónu og einu sinni sá ég Jarvis Cocker, söngvara Pulp úti á götu. Svo sá ég auðvitað slatta af liði sem er bara frægt á Íslandi.
Hér í Vancouver sé ég af og til fræga fólkið enda er Vancouver mikil kvikmyndaborg og því koma hingað margar stjörnur. Hins vegar sé ég auðvitað fæstar þeirra enda þyrfti ég að hanga meira niðri í bæ og fara meira á fínu veitingahúsin og skemmtistaðina. Þannig að ef ég hef séð einhvern þekktan þá er það bara úti á götu - og næstum alltaf niðri í bæ.
Listinn er reyndar ekki langur en ég reyni að halda honum saman - bara svona til gamans.
1. Fyrstu vikuna sem ég bjó í Vancouver fór ég í Oakridge verslunarmiðstöðina og sá þar Gregory Calpakis sem var einn aðalleikarinn í Cold Squad. Cold Squad er sjónvarpsþáttur gerður í Vancouver þar sem lögreglumenn eiga við gömul mál. Ég horfði mikið á þennan þátt í kringum 2002 og 2003, sérstaklega vegna Steve McHattie sem mér finnst góður, en Calpakis var Nicco, aðalsjarmörinn í þáttunum.
2. Á Robson, aðalverslunargötu Vancouver sá ég George Hamilton. Sá er aðallega frægur fyrir að vera alltaf með ljóta gervibrunku. Annars er hann leikari og var meðal annars í einni Godfather myndinni og í yfir hundrað öðrum mynda. Hann kemur líka oft fram í sjónvarpsþáttum sem hann sjálfur. Og mér skilst að hann hafi verið í Dancing with the Stars - Dansað með stjörnunum.
3. Á Granville brúnni mætti ég David Eigenberg sem er fyrst og fremst þekktur fyrir að vera Steve Brady í Sex and the city (Beðmál í borginni).
4. Á Granville stræti nyrðra mætti ég Jeremy Piven sem nú er þekktastur fyrir hlutverk sitt í Entourage (veit ekki hvort er verið að sýna að það á Íslandi) en hann hefur líka verið í myndum eins og Old School, Serendipity, Rush Hour 2 og Singles. En margir muna líka eftir honum úr þáttunum með Ellen þar sem hann var einn af vinum hennar sem héngu í bókabúðinni.
5. Í Richmond hitti ég Chris Isaak, en það var ekki alveg að marka því ég fór á tónleika með honum og hann spjallaði við fólk eftir á. Hann sagði mér þar að það væru lagavandamál með það að gefa út sjónvarpsþættina hans á dvd en verið væri að vinna í því. Svo fékk ég eiginhandaráritun sem sagði "Be Good".
6. Á Burrard stræti mætti ég Gil Billows, sem var Billy í þáttunum um Ally McBeal.
Ég sá líka einhvern tímann eina af þessum ungu stjörnum (Ekki Hillary Duff en eina svipaða) hér úti á tíundu en ég man ekki lengur hvað hún heitir, né er ég hundrað prósent viss um að það hafi verið hún. svo hún telst ekki alveg með. En hvað þessa kalla snerti þá er ég alveg pottþétt.
Hmmm. Þetta er nú ekki svo mikið, svona miðað við hversu margar stjörnur koma hingað. Eftir netinu að dæma eru nú í borginni að kvikmynda: Sarah Michelle Gellar, Ice Cube, Renee Zellweger, Jesica Alba, Michael Chiklis, Pierce Brosnan, Rachel McAdams, Wesley Snipes og Mark Wahlberg, svona til að nefna bara þá allra þekktustu. Hef ekki séð neinn þeirra. Er ekki nógu mikið á réttu stöðunum. Annars skiptir það engu máli. Það er gaman þegar maður séð einhvern þekktan því þá er ég stolt af því að vita hver viðkomandi er, en að öðru leyti gerir það ekkert fyrir mig. Alla vega ekki þar til ég hitti einhvern sem ég er virkilega hrifin af.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Rollingarnir allt of gamlir
1.11.2006 | 06:22
Ég var að frétta að Rolling Stones væru búnir að fresta tónleikunum í Vancouver vegna þess að Jagger væri eitthvað sár í hálsinum. Honum hefur verið ráðlagt að hvíla sig í nokkra daga. Þvílík óheppni fyrir mig. Síðustu tónleikar sem ég ætlaði á voru með Pavarotti en þeim tónleikum var fyrst frestað og síðan var þeim aflýst. Það var auðvitað af heldur alvarlegri ástæðu - Pavarotti fékk krabbamein. Ég vona að veikindi Jaggers séu ekki of alvarleg og að hann haldi áfram að syngja í mörg ár, en það verður að viðurkennast að þeir Rollingar eru orðnir gamlir og það er auðvitað hætta á að veikindi fari í auknum mæli að standa í vegi fyrir tónleikahaldi.
Búið er að flytja tónleikana til 25. nóvember. Ég vona að þeir fari fram þá. Og ég sem var búin að hlusta á Stones í allan dag og ætlaði að halda því áfram fram á föstudag.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)