Hrekkjavaka
31.10.2006 | 19:20
Í dag er hrekkjavakan, eða Halloween eins og dagurinn kallast hér vestra. Margir fara yfir um og skreyta garðana sína úr hófi þannig að út um allt má sjá grafir og drauga og hin verstu kynjadýr. Krakkarnir klæða sig í alls kyns búninga (eins og heima á öskudaginn) og ganga hús úr húsi og hóta hrekkjum ef þau fá ekki nammi. Sum eru beinlínis vanþákklát ef þau fá nammi sem þau langar ekkert í.
Í tilefni þessa hélt ég fyrirlestur á laugardaginn um innflutning íslenskra drauga til vesturheims. Annars hef ég ekkert tekið þátt í þessu núna í ár. Jú annars, ég skar út grasker. Læt fylgja myndir af því.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Rolling Stones
30.10.2006 | 18:48
Nú eru aðeins fjórir dagar þar til ég fer að sjá Mick, Keith, Ronnie og Charlie spila á BC Place leikvanginum í Vancouver. Það er hér sem BC ljónin spila sinn kanadíska fótbolta og völlurinn tekur tæplega 60.000 manns. Ég veit ekki hvort uppselt er á tónleikana en Rollingarnir hafa verið að selja um 50.000 sæti víða um Norður Ameríku, svo sem í Halifax, sem er miklu minni borg en Vancouver, þannig að þeir ættu að geta selt nokkur tugþúsunda sæta hér.
Sem sagt, á föstudagskvöld verð ég umkringd þúsundum manna að öskra "I can't get no, satisfaction"
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fótbolti
29.10.2006 | 06:36
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Umhverfisvernd
28.10.2006 | 05:01
Fylkisstjórnin í Bresku Kólumbíu hefur lofað að bjarga fjallahreindýrum (mountain caribou) frá því að verða útdauða. En hvernig ætla þeir að gera það? Með því að drepa úlfa, fjallaljón, elgi og jafnvel grizzly birni. Og eftir því sem umhverfisverndarsinnar segja væri í raun nóg að vernda skóginn þar sem fjallahreindýrin búa. En nei, það má ekki gera það því að það er verið að höggva þann skóg. Hér er mikið um skógarhögg. Svo skilst mér að líka sé eitthvað um námur á svæðinu og það hefur sín áhrif. En þetta skapar velmegun og er því mikilvægara en dýrin. Hér getið þið séð meira um þetta mál: http://www.mountaincaribou.ca/
Bloggar | Breytt s.d. kl. 05:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Un sundlauga- og klósettmenninguna
26.10.2006 | 05:22
Ég argast oft yfir því sem pirrar mig við okkur Íslendinga, en stundum finnst mér menningin heima standa öðrum langt framar. Þar á meðal sundlaugamenningin. Ég hef aldrei þolað sundlaugamenninguna hér í Kanada, né raunar á flestum stöðum annars staðar en á Íslandi. Í gær fór ég í sund eftir langa fjarveru frá laugunum og lét það auðvitað fara í taugarnar á mér að konur hér eru svo spéhræddar að þær fara í sundbolina sína strax í búnginsklefanum sem þýðir að þær þvo sér ekki almennilega áður en þær fara út í lögina. Mig langar stundum að garga á þær að ég hafi engan áhuga á að synda í skítnum af þeim. Hvað veit ég um það hversu vel þær skeina sér. Sumar fara svo ekki einu sinni í sturtu. Þá er málið ekki bara það að þær þvoi sér ekki í klofinu heldur þvo þær sér bara akkúrat ekki neitt. Það liggur við að manni klígi við. Og svo þurrkar sér enginn almennilega við sturturnar heldur vaða þær rennblautar inn í búningsklefann þar sem allt er á floti og erfitt er að komast í sokkana án þess að standa á einum fæti og þurrka sér og skella sér svo í annan sokkinn og síðan skóinn án þess að stinga fætinum nokkurn tímann niður.
Og fyrst ég er byrjuð að nöldra þá get ég bætt við þetta nokkrum velvöldum orðum um klósettmenninguna hér vestra. Svo virðist sem margar konur setjist ekki á klósett þegar þér létta á sér heldur hokra þær einhvern veginn yfir skálinn og pissa svo án þess að vita nákvæmlega hvar bunan hittir. Þetta þýðir að helminginn af tímanum pissa þær út alla setuna. Og hreinsa þær þetta eftir sig? Ó nei. Að minnsta kosti ekki allar því það gerist yfirleitt alltaf þegar ég fer á almenningssalerni að ég þarf að leita að klósetti sem ekki er búið að míga yfir. Ógeðslegt, er það ekki? Og þær geta ekki einu sinni lyft upp setunni eins og við þó ætlumst til af karlmönnum. Og karlarnir eru vanalega þokkalegir með það. Julianna hefur þá kenningu að þetta séu fyrst og fremst asísku konurnar sem gera þetta og ég held það geti verið rétt hjá henni. Þetta er ekki byggt á almennum kynþáttafordómum heldur eftirfarandi:
a) Þegar maður fer inn á almenningssalerni í Richmond verslunarmiðstöðinni er þetta enn meira vandamál en til dæmis í miðbæ Vancouver. Íbúar Richmond sem eru asískir eru um það bil 60% allra íbúa borgarinnar á meðan hlutfallið er miklu miklu lægra fyrir Vancouver.
b) Í vert skipti sem önnur hvor okkar hefur farið inn á klósett beint á eftir annarri konu, og sætið hefur verið útmigið, hefur konan verið asísk.
c) Í mörgum asískum löndum eru ekki klósett eins og okkar heldur gat á gólfinu og því er ekki hægt að setjast þar. Það fólk sem elst upp við slíkt er því ekki vant að setjast á klósettið og er því ekki líklegt til þess að taka upp á því þegar það flytur hingað.
d) Þegar ég bjó í Winnipeg, þar sem eru miklu miklu færra fólk af asískum uppruna en hér í Vancouver, var þetta aldrei vandamál. Kom fyrir en mjög sjaldan.
Þannig, að af öllu þessu finnst mér alla vega hægt að styðja kenningu Juliönnu með þokkalegum rökum. En alla vega, hverjar þær nú eru sem pissa á setuna þá pirra þær mig óendanlega. Maður verður ýmist að finna annað laust klósett eða að þrífa upp eftir þær. Oj bara. Eins og það sé mitt verk. Þetta lið ætti að skammast sín.
Og við þetta má bæta að ég man ekki eftir því nokkurn tímann á Íslandi að hafa lent í svona.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Íslenski þjóðbúningurinn
24.10.2006 | 07:00
Ég var að fara í gegnum nokkrar gamlar myndir í kvöld og fann þar á meðal þessa mynd af mér á íslenska þjóðbúningnum. Myndin var tekin 1. desember 1988 heima hjá ömmu og afa, rétt áður en við Guðrún Helga fórum á árshátíð MA. Mikið er ég ung þarna. Nítján ára og virðist yngri. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan. Myndin var fremur gráleit enda bakgrunnurinn hvítur svo ég lagaði hana aðeins í Photoshop. Ég kann reyndar ekki nógu vel á forritið en samt nógu vel til þess að gera myndin betri en hún var áður.
Ég man vel eftir þessum degi. Mamma hafði fengið búninginn lánaðann hjá vinkonu sinni og hann passaði alveg súpervel. Við frænkur vorum svo dressaðar upp og þá var við hæfi að taka myndir. Mamma tók myndirnar og á meðan stóð amma á bak við hana og glennti sig og geiflaði til þess að fá okkur til að hlæja. Hún tók meira að segja út úr sér tennurnar svo hún gæti nú litið virkilega hlægilega út. Og svo rak hún tunguna upp að nefi. Og við hlógum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um flotta flugvelli
20.10.2006 | 06:53
Ég er ekki alveg búin að fjalla nóg um flugvelli. Mér fannst ég verða að bæta við síðasta blogg og segja að ákveðnir hlutar af flugvellinum í Chicago er alveg ótrúlegir. Þar eru meðal annars löng göng sem maður þarf að fara eftir og veggirnir eru allir úr hálfgagnsæu pastel plastefni og ljós á bakvið þannig að þetta kemur út sem veggirnir séu lýsandi pastel. Í loftinu eru svo endalausar ljósaperur sem skipta stöðugt um lit og í stað pastelsins á veggjunum eru þetta neonljós. Þið getið fengið einhverja hugmynd um þetta á meðfylgjandi mynd.
Ég verð líka að segja að sá hluti Vancouver flugvallar sem þjónar Ameríkuflugi er ótrúlega flottur. Þetta hlýtur að vera nýjasti hluti vallarins. Þegar maður kemur heim gengur maður t.d. í gegnum hálfgerðan ævintýraheim sem hefur verið settur saman úr listaverkum í stíl indjána. Eitthvað annað en bölv. innanlandsflugið sem er ljótt og leiðinlegt. Nei, það er alls ekki rétt. Þetta er alveg þolanlegasti flugvöllur svona almennt og þeir hafa meira að segja nokkur listaverk eftir Bill Reid þarna.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 06:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um stundvísi flugvéla
18.10.2006 | 06:15
Ég veit ekki hvort það er bara ég sem er svona óheppin eða hvort það er alltaf vesen með flugvélar. Flugið mitt frá Chicago var áætlað klukkan hálfníu í gærkvöldi. Um fimmtán mínútum eftir að við áttum að vera komin út í flugvél var tilkynnt að vélin myndi ekki fara fyrr en klukkan hálftíu. Um hálftíu var tilkynnt að vélin sem við ættum að fara með væri um það bil að lenda og þeir þyrftu bara að hleypa úr henni og svo gætum við farið.Hleypt yrði um borð um það bil korter í tíu. Vélin kom, fólkið fór úr henni....en við fórum ekki inn. Ekki fyrr en um korteri yfir tíu. En það var ekki nóg. Þarna sátum við í flugvélinni og biðum, og biðum, og biðum... Klukkan var orðin ellefu áður en farið var í loftið. Þá vorum við orðin þremur og hálfum tíma og sein og ég heyrði aldrei neina útskýringu á því.
Þetta þýddi auðvitað að þegar ég kom loksins til Vancouver var klukkan orðin rúmlega eitt um nóttu að staðartíma, hraðleiðir strætisvagnanna voru hættar að ganga og það hefði tekið mig rúman klukka tíma að komast heim. Lengur ef ég var óheppin með tengingar og hefði þurt að bíða eitthvað. Þannig að ég endaði á því að taka leigubíl og var loksins komin heim til mín klukkan tvö.
Annars var ég heppnari en margir. Á svipuðum tíma og ég lenti í Chicago kom þangað flugvél frá Connecticut. Ég veit ekki hvernig það gerðist nákvæmlega en einhvern veginn fór það svo að farþegar voru sendir með einni vél og farangurinn þeirra með annarri. Þannig að enginn farþega fékk farangurinn sinn. Einn farþeganna var á sömu ráðstefnu og ég og á laugardagskvöldinu - tveimur dögum eftir flugið - var hann ekki enn búinn að fá farangurinn sinn. Og hann flaug til baka á sunnudag. Ég veit ekki hvort hann fékk farangurinn áður en hann fór aftur heim.
Já, það getur verið flókið að fljúga.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ekki bolar a Capone
16.10.2006 | 06:26
Eg er buin ad vera i Chicago sidan um fimm i dag og hef ekki enn sed Al Capone. Her er ekki tangur ne tetur af honum. Mer skilst ad Chicago buar vilji bara ekkert af honum vita. Ein skyringin er talin su ad stjornin her i borginni er jafnspillt og hun var a bannarunum og ad thvi tyki betra ad tengja borgina ekki skipulogdum glaepasamtokum meir en naudsynlegt er.
Hins vegar rakst eg a tvo malfraedina sem voru a radstefnunni i Urbana/Champaign, uti a gotu. Thetta er sex milljona manna borg og eg rakst a folk sem eg thekki. Heimurinn er svo litill. Eg er alltaf ad lenda i sliku.
Vid Matt forum ut ad borda a indverskan veitingastad (eg elska indverskan mat) og forum svo i bio. Saum 'Little Miss Sunshine' sem er alveg yndisleg mynd. Maeli eindregid med henni. Eg aetladi alltaf ad sja hana thegar hun var i Vancouver en einhvern veginn vard aldrei neitt af thvi.
A morgun aetla eg bara ad labba um Chicago og reyna ad kynnast borginni betur. Sidast thegar eg var her var eg lasin allan timann og gat thvi litid sed. En eg hef svo sem ekki tima fyrir mikid labb. Eg flyg heim a morgun.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Í miðvesturríkjunum
14.10.2006 | 04:35
Það tekur fjóra tíma að fljúga frá Vancouver til Chicago og maður kemur í nýjan heim. Sem betur fer hafði Matt sent mér tölvupóst og sagt mér að hitastig hafi hrapað í miðvesturríkjunum svo ég tók kápuna mína með. Hún hefur komið að góðum notum. Hér var um frostmark í gær þegar ég kom og varla mörgum gráðum hlýrra í dag. Ég hrapaði sem sagt niður um sirka 23 gráður.
Ráðstefnan hefur gengið vel. Ég var með mitt verkefni klukkian hálf fimm og fékk nokkrar erfiðar spurningar en ekkert í líkingu við útreiðina á Spáni. Í kvöld fór ég út að borða með fólki hér. Það er svo miklu betra að gista heima hjá nemendum en á hóteli. Ekki er það bara að það er ódýrara heldur kynnist maður miklu fleira fólki þannig. Ef ég hefði verið á hóteli hefði ég sennilega farið eitthvert ein að borða og síðan heim á hótelherbergi og horft á sjónvarp eða farið yfir verkefni allt kvöldið. Þetta var miklu skemmtilegra.
Ég talaði við Martin í kvöld. Á morgun ætla þeir að ganga frá bátnum fyrir veturinn. Ég hugsa hlýlega til þessa báts. Ég veit líka að Martin á eftir að sakna þess að geta ekki farið út að sigla eftir vinnu. En það þýðir líklega að hann mun eyða meiri tíma í stúdíóinu að taka upp plötuna hans Brunos. Ég hef líklega ekkert sagt ykkur frá Bruno. Geri það kannski seinna. Hann er mikill Bjarkar aðdáandi. En söngurinn hans er ekkert í líkingu við Björk. Mér finnst hann hljóma einna helst eins og hann sé með hægðartreppu. Sem er sorglegt því hann er góður lagasmiður. En nóg um það.
Nú er best að koma sér í háttinn því ég þarf að sitja yfir fyrirlestrum allan morgundaginn. Var á fyrirlestrum í dag frá níu til hálfátta sem var nú eiginlega meira en nóg.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)