Allt að falla í gamla farið

Ég er nú búin að vera fimm daga heima og það hefur nú ekki margt gerst. Á sunnudaginn stóð ég í þvotti og tók upp úr töskunum o.s.frv. Á mánudaginn fundaði ég bæði með Lisu og Hotze og var ekki skömmuð fyrir það hvað lítið ég gerði í ritgerðinni minni í sumar. Líklega vegna þess að ég náði nokkurn veginn að klára atviksorðagreinina sem ég ætla að reyna að fá birta og þar að auki las ég töluvert. Þannig að ég var ekki beinlínis löt.

Í gærkvöldi var enn ein flugeldasýningin í Vancouver. Fjórar þjóðir keppa um bestu flugeldasýninguna. Þetta var önnur sýningin sem ég sá og var pottþét betri sen sú á laugardaginn - sem var held ég Kína. Í gærkvöldi voru það Tékkar sem sýndu snilli sína. Ég fór niður á strönd með Marion og Ryan og við höfðum með okkur mat og héldum pikknikk. Maður verður að mæta þokkalega snemma til að fá góð sæti og við sátum upp á risastórum tréklumpi. Svei mér þá, ég held að tréð hafi verið alla vega tveggja metra breitt, sem var mjög hentugt því við sátum upp á því  og svo fór að falla að. Sumir fyrir neðan okkur urðu að færa sig.

Nú er löng helgi í Kanada eins og heima, þó ekki verslunarmannahelgi. Ég ætla í útilegu með Brynjólfsson fólkinu - frændfólki mínu. Fer annað kvöld með Gerry, manni Díönu frænku minnar. Flestir fóru í dag en ég vildi vera heima og vinna. Og svo vann ég næstum ekkert. Ég fór reyndar upp í skóla og sótti ýmislegt. Fór svo og faxaði skattframtalið mitt til LÍN svo ég þyrfti ekki að borga námslánin mín til baka strax, en svo hef ég bara verið að brenna geisladiska handa Martin. Ég talaði aðeins við hann í síma í dag en hann var búinn að vera í útilegu með krökkunum sínum síðan á mánudag eða þriðjudag og batteríin í símanum hans voru að deyja. Svo við náðum aðeins að tala saman í nokkrar mínútur áður en batteríin dóu algjörlega.

Á mánudag eða þriðjudag get ég sagt ykkur frá útilegunni að Peter Hope vatni og kannski sýnt ykkur eina eða tvær myndir. 


Komin til Vancouver

Martin á rauðri strönd

Vá, ég er komin aftur til Vancouver eftir ótrúlega dvöl í austur Kanada. Ég ætlaði ekki að vilja fara en þessi ferð reyndist eitt það besta sem hefur komið fyrir mig í langan tíma. Það er auðvitað fyrst og fremst því út af Martin. 

Ég yfirgaf Ottawa á þriðjudagskvöld eftir vinnu. Það tók okkur um tvo tíma að gera allt klárt þannig að klukkan var orðin sex þegar við lögðum af stað. Við höfðum ákveðið að keyra eins langt þetta fyrsta kvöld og við gætum svo við keyrðum í gegnum Montreal án þess að stoppa, sem var allt í lagi því ég hafði verið þar um tveimur vikum áður. Við keyrðum svo fram hjá Quebec borg sem var heldur síður því þangað hef ég aldrei komið en hef verið sagt að þar sé fallegt. Hins vegar var orðið dimmt þegar við komum þangað þannig að ég hefði hvort eð er lítið séð. Við hefðum því þurft að gista þar og eyða einhverjum tíma þar um morguninn og það hefði einfaldlega tekið of mikinn tíma. Ég verð bara að fara þangað einhvern tímann seinna. Í stað keyrðum við alla leið til Rivére du Loup þar sem við áttum frátekið stæði á tjaldsvæðinu. Þegar við komum þangað, hins vegar, laust eftir miðnætti, var enginn vörður, hliðið var lokað og enginn svaraði í símann. Við eyddum næstum því klukkutíma í að reyna að finna einhvern og komast inn en ekkert gert svo við enduðum á því að fara bara á mótel.

Við tókum það fremur rólega morguninn eftir, lögðum ekki af stað fyrr en um ellefu leytið og keyrðum þá áfram meðfram St. Laurent ánni  sem breikkaði óðum. Það var eiginlega ekki hægt að sjá hvernær áin endaði og hafið tók við. Atlantshafið. Haf okkar Martins beggja. Við stoppuðum á nokkrum stöðum, löbbuðum eftir ströndinni, borðuðum, réttum úr okkur o.s.frv. Ferðin var fremur hæg á þessum slóðum því það er bær við bær og því ekki hægt að keyra mjög hratt. Þar að auki var allt fullt af bílum með tengivagna o.s.frv. sem hægði ennfremur á. Það var orðið dimmt þegar við komum í Forillion þjóðgarðinn í Quebec. Þar tjölduðum við, borðuðum kvöldverð og slöppuðum af. Um nóttina fór að mígrigna. Ja, eiginlega um það leyti sem við fórum að sofa. Ég var ekki sofnuð þegar ég heyrði í rigningunni. Spáð hafði verið þrumustormi en ég varð nú aldrei vör við þrumur, en það rigndi alveg nóg. Undir morgun hafði regnið náð að komast undir regntoppinn og þá fór að leka inn í tjaldið. Ég vaknaði upp við að stórar regnslummur féllu á andlit mér.  

Eftir morgunverð fórum við í gönguferð niður á strönd og sáum töluvert af fuglum; máva, dílaskarfa, teistur. Við héldum áfram að keyra eftir Gaspé ströndinni og héldum til Percé sem er algjör túristastaður. Þar var þokan svo svört að við sáum sama og ekkert. Percé er fyrst og fremst þekkt fyrir risastóran klett sem stendur langt út í vatnið, en við sáum hann aldrei. Við vorum ábyggilega svona hundrað metra frá honum en sáum ekkert. Þarna er líka stærsta súlnubyggð í Norður Ameríku en maður verður að fara þangað með bát og við höfðum ekki tíma til þess. Við vissum að við yrðum að keyra til Nova Scotia þennan dag svo við þyrftum ekki að vakna eldsnemma daginn eftir til að ég næði flugi. Svo við héldum áfram ferðinni. Í Carlton fundum við götu sem hét Rue Comeau. Það er nafnið hans Martins svo hann tók auðvitað myndir af skiltinu og sér með því. Síðar sáum við Martin's götu þannig að hann er greinilega mjög frægur. Þarna voru engar Kristínargötur, hvað þá Jóhannsdóttirgötur. Við keyrðum hratt í gegnum New Brunswick. Við höfðum upphaflega planað að keyra eftir Acadian ströndinni í New Brunswick en það hafði verið mun seinlegra að keyra eftir ströndinni í Quebec en við héldum þannig að við sáum að það yrði allt of seinlegt að fara ströndina í NB. Í stað keyrðum við inn í Nova Scotia og gistum þar á Super8 móteli. 

Daginn eftir, föstudag, vorum við mætt á flugvöllin í Halifax klukkan ellefu. Þar komst ég að því að flugvélinni minni til Montreal (ég ætlaði að fljúga til Ottawa í gegnum Montreal) hefði verið seinkað um tvo tíma þannig að ég myndi aldrei ná vélinni til Ottawa en önnur vél til Ottawa var um það bil að fara. Verið var að senda fólk út í vél. Ég varð því að flýta mér. En það var ekki allt, einnig kom í ljós að flugið mitt til Vancouver var alls ekki þennan dag eins og ég hafði alltaf haldið heldur daginn eftir. Ég fríkaði næstum því út því ég var búin að gefa eftir herbergið mitt í Ottawa og þar að auki var ég með hellings farangur sem ég yrði allt í einu að fara að draga eitthvert. Ég vissi að ég gæti ábyggilega fengið að gista hjá Auði en hún væri ábyggilega í skólanum þar til um sex leytið og þótt ég væri með númerið hennar í skólanum skrifað niður hafði ég ekki hugmynd um í hvaða tösku það var eða neitt. En ég hafði engan tíma til að reyna að skipuleggja neitt því ég varð að hlaupa að hliðinu. Ég hafði því bara rétt tíma til að faðma Martin að mér og varð svo að hlaupa. ég vissi ekkert hvað ég ætlaði að gera þegar ég kæmi til Ottawa. Ég ákvað að fara bara og athuga hvort ég gæti fengið fluginu mínu breytt þannig að ég flýgi heim þennan dag í stað þess að bíða til morguns. En þegar ég lenti og kveikti á símanum hringdi Martin og sagði mér að Neil vinur hans væri á flugvellinum að sækja mig og ég gæti gist hjá honum og Melanie í Wakefield þá nóttina. Þvílíkur léttir.  Í stað passaði ég strákana þeirra á meðan Neil var að taka upp tónlist fyrir einhverja hljómsveit og Melanie var í vinnunni. Það var ágætt að hitta þau aftur og ég náði að tala meira við þau. Þegar ég hitti þau fyrst stoppuðum við ekki lengi hjá þeim og ég kynntist þeim því ekki svo vel.

Daginn eftir keyrði Melanie mig á flugvöllinn og ég var komin heim um níu leytið að staðartíma. Klukkutíma áður en flugeldasýning hófst í Vancover.

Í dag hef ég verið að þvo þvott, versla í matinn og reyna almennt að ganga frá hérna. Það er alltaf leiðinlegt að taka upp úr töskum eftir ferðalag. Næstum því jafnleiðinlegt og að pakka.

Ég sakna Martins en við höfum símann og tölvupóst og Skype, msn og hvað þau heita nú öll þessi forrit sem gera manni það kleift að vera í sambandi við vini sína á öðrum stöðum.


Sigling á Ottawa vatni

Martin að sigla

Hitbylgjan er búin. Veðrið er orðið þolanlegt og hitastig komið niður í 25 sem er afskaplega þægilegur hiti. Fyrir viku fór hitinn í 34 stig og hélst yfir þrjátíu í nokkra daga og það er hreinlega of heitt. Sérstaklega þegar rakastig er hátt í þokkabót. 

Eini gallinn er að það kólnaði á röngum tíma. Við Martin sigldum burt frá Aylmerbryggju á föstudagskvöld og inn í nóttina. Sigldum alla leið út að Baskin's beach sem ég man ekki alveg hversu marga kílómetra er í burtu. En við höfðum góðan mótvind alla leiðina og bar hratt yfir. Við sigldum svona fram að miðnætti og köstuðum þá ankerum. VIð höfðum einhvern tímann um kvöldið (þegar vindur var enn sterkur) ákveðið að reyna að fara að Constance bay, en svo dó vindurinn niður (virðist alltaf gera það á kvöldin) og því notuðum við mótorinn til að komast til Baskin's bay. Það hefði tekið um klukkutíma í viðbót að komast til Constance bay með mótornum og enn lengur að sigla. Ég hef aldrei áður sofið um borð í bát (bara skipi) og það var því ofsalega skrítin tilfinning að liggja þarna inni í lúkar og finna hreyfinguna á vatninu. Báturinns snerist í hringi alla nóttina og það er ótrúlegt að maður skyldi ekki hafa orðið ruglaðri. Við höfðum ákveðið þegar við köstuðum ankerum að halda áfram til Constance bay þegar við vöknuðum en svo enduðum við á því að sofa frameftir og taka okkur svo tíma við að búa til morgunverð o.s.frv. þannig að það var komið undir hádegið þegar við loks settum upp seglin. Það var því augljóslega orðið of seint að halda áfram upp ána ef við ætluðum að vera komin til baka til Ottawa fyrir kvöldmat. Það var líka býsna kalt (ekki þó á íslenskan mælikvarða) og ég var meira að segja í minni íslensku flíspeysu. Þess vegna segi ég að það hafi kólnað á röngum tíma. Það kólnaði þegar ég ætlaði að vera að sóla mig á bátnum og að synda í vatninu - sem er ótrúlega heitt. En af hvorugu varð og við sigldum bara til baka. Vorum með sterkan vind aftur og gátum siglt á einu "attack"i (veit ekki hvað það kallast á íslensku). Ég var ótrúlega þreytt þegar við komum til baka, og svöng líka. Við skelltum okkur á víetnamískan veitingastað og ég borðaði á mig gat. ÞEgar ég kom heim hringdi ég í Auði, íslensku stelpuna hér í Ottawa, og við skruppum niður í bæ.

Nú er ég svona smámsaman að pakka niður dóti sem ég ætla að senda bara með rútu heim til Vancouver í stað þess að draslast með það til Nova Scotia. Enda verður bíllinn ábyggilega fullur af útilegu dóti. Hmmm. Var ég ekki búin að minnast á ferðina? Ég hreinlega man það ekki. En sem sagt, Martin ætlar að keyra til Nova Scotia á þriðjudaginn og taka fjóra daga í ferðina, stoppa á ýmsum stöðum, keyra eftir hægari en fallegri leiðum en þjóðveg 1 o.s.frv. Hann bað mig að koma með og ég ákvað að skella mér. Þetta verður ábyggilega mjög skemmtilegt. En það þýðir að ég á bara eftir að kenna í tvo daga og svo held ég austur eftir. Ég mun svo fljúga frá Halifax til Ottawa á föstudaginn (með viðkomu í Montreal) og síðan áfram til Vancouver. Þannig að eftir viku verð ég heima hjá mér. Skrítið.

 


leti

Eg skammast min fyrir hvad eg hef skrifad litid her upp a sidkastid. En eg hef litid haft adgang ad tolvum og svo hef eg bara verid of upptekin.

Nuna er eg i Bisson, sem er hin tungumalabygging Utanrikisthjonustu Kanadamanna. Thad er haegt ad setja inn islenska stafi en thetta er pesi og eg er ekki svo god a them so eg akvad ad standa ekkert i thvi og reyna bara ad skrifa islENSKU.

Eg hef haft thad mjog gott undanfarid. A manudaginn for eg ut ad borda med Ninu og Dennis, vinum minum fra Manitoba sem voru her i nokkra daga. A thridjudagskvold for eg ut ad sigla og a midvikudagskvold for eg til Wakefield sem er litill baer i Quebec, ekki langt hedan i fra. Eg myndi syna ykkur mynd af yfirbyggdu brunni thar (eins og i Bryrnar i Madisonsyslu) en eg er ekki med myndirnar a thessari tolvu. I gaer var afsloppunarkvold hja mer. Eg setti i thvottavelina og horfdi svo a Vini megnid af kvoldinu. Eg hef ekki verid ad laera serlega mikid upp a sidkastid.

I kvold verdur gaman. Eg aetla med Martin ut ad sigla og vid aetlum ad taka med okkur svefnpoka og sofa um bord i batnum og koma svo til baka einhvern timann a morgun. SPennandi. Segi fra thvi seinna.


Montréal

Montreal

Í gær var frí í vinnunni hjá mér af því að nemandinn fór úr bænum, og ég notaði því tækifærið og skellti mér til Montreal. Ég vaknaði um sex leytið, greip eitthvert dót og rauk út. Var komin á umferðamiðstöðina vel í tæka tíð fyrir brottför klukkan sjö. Ég reyndi að sofa aðeins á leiðinni en það var erfitt. Ég fékk þó einhverja hvíld því ég var þokkalega vakandi allan daginn.

Ég kom inn í Montreal um klukkan hálftíu og síðan tóku við átta tímar af göngu. Þegar ég ferðast ein þá á ég það helst til að labba og labba, stoppa aðeins þegar ég er svöng, og þá gríp ég eitthvað, skelli því í mig og held svo áfram að labba. Þannig að ég náði að sjá ýmislegt. Gekk niður í gegnum latínuhverfið niður í gamla Montreal þar sem ég skemmti mér um stund. Síðan labbaði ég upp St. Laurent, sem sagt aftur í gegnum latínuhvervið og í gegnum Plateau Mont Royal, hvaðan ég labbaði upp fjallið, sem reyndar er ekki nema þokkaleg hæð. Þaðan er gott útsýni yfir borgina. Ég labbaði um "fjallið" um stund og gekk síðan niður að sunnan, í gegnum McGill háskólasvæðið og niður í miðborgina. Þar kíkti ég aðeins í búðir en labbaði svo niður að ráðstefnuhöllinni, jazzhátíðarsvæðinu og svo aftur að lestarstöðinni.

Montreal er býsna falleg borg, en nokkuð blandin. Miðbærinn sjálfur er lítið meira spennandi en Toronto, og ég er ekki mikill Toronto aðdáandi. En gamli bærinn er fallegur og mér skilst að það sé mjög gaman í bæði latínuhverfinu og Plateau Mont Royal. Ég labbaði þar í gegn og fannst gaman en ég held að það séu svæðin til að búa í ef maður býr í Montreal.

Þið vitið hversu lítill heimurinn er. Mér finnst ég alltaf vera að lenda í því að rekast á ólíklegasta fólk á ólíklegustu stöðum. Eins og þegar ég rakst á Trish og Richard frá Victoru í Rideau center í Ottawa fyrsta daginn minn hér. Þau voru á ráðstefnu. í Montreal var ég að labba norður St. Laurent þegar fram hjá mér gengur maður sem vinnur með mér í Asticou. Ég veit ekki hvað hann heitir, við höfum aldrei talað saman en við höfum alltaf brosað hvort til annars þegar við mætumst á göngunum eða sagt hæ. Hann hefur ekki verið í vinnunni undanfarið. Ég held að hann hljóti að búa í Montreal því þegar ég sá hann í strætó þá var hann yfirleitt með tösku með sér á föstudögum og mánudögum, sem benti til þess að hann byggi annars staðar en í Ottawa og kæmi þangað til vinnu. Það er alls ekkert óalgengt. En sem sagt, mér fannst það mjög ótrúlegt að ég skyldi mæta honum þarna á götu í svona stórri borg (1.5 milljón í Montreal sjálfri en um 3.6 í Stórmontrealsvæðinu).

Ég set eina mynd með hér en ef þið viljið sjá fleiri kíkið þá á myndasíðuna mína sem er hér: http://www.flickr.com/photos/stinamagga/

 


Wilbrod

Wilbrod 455

Ég er loksins búin að taka mynd af húsinu þar sem ég bý. Mér fannst ég yrði endilega að sýna ykkur. Húsið er frá því um 1890, stórt og mikið múrsteinshús með stigum og rangölum út um allt. Ég var kannski búin að segja ykkur það. Húsið er í skemmtilegu hverfi þar sem blandast saman háskólanemendur í Ottawa háskóla og hin ýmsu sendiráð. Á móti mér er til dæmis brasilíska sendiráðið, við hliðina er austurríska sendiráðið og í hverfinu eru Ghana, Mali, Króatía, Rússland og svo framvegis. 

Herbergið mitt er í risinu þar sem gerfi uglan situr. Hún á víst að hræða burtu dúfurnar en ég held að enginn hafi sagt dúfunum það. Tvær búa við gluggann minn. Sem betur fer höfum við samkomulag þar sem þær mega vera þar svo framarlega sem þær þegja. Ef þær byrja að mala þá sussa ég á þær og þær þegja. 

Í gær fór ég aftur á blúshátíðina og horfði að þessu sinni á Michael Franti, Maraccas og Ani DeFranco. Það var mjög gaman. Ani DeFranco er mjög góð. Svolítið eins og blanda af Alanis Morisette og Chantal Kreviatzuk. Michael Franti er svona reggí rokkari og við dönsuðum eins og vitleysingar allan tímann sem hann spilaði. Ég var ekki komin heim fyrr en um ellefu sem var of seint fyrir sunnudagskvöld þar sem ég þarf að vakna klukkan hálfsjö. Enda er ég þreytt í dag. Ég mun hins vegar ekki fá neitt sérstaklega hvíld í nótt því ég ætla bráðum að fara niðureftir og horfa á Sam Roberts og svo verð ég að vakna í fyrramálið fyrir sex því ég ætla að taka rútuna klukkan sjö til Montreal. Hef aldrei komið þangað og er spennt að fara.  Segi ykkur frá Montreal þegar ég kem til baka.


Ottawa Blues Festival og fleira

Je minn hvað það er heitt úti. Það hefur reyndar hrunið niður í sautján stiga hita enda er klukan langt gengin í þrjú að nóttu til. Þegar ég athugaði veðrið um klukkan átta í kvöld var hitinn 27 stig. Á morgun á að fara upp í 29 stig með háum útfjálubláum geislum í kringum hádegið. Ég hef reyndar ekkert brunnið lengi enda aldrei of lengi í sólinni en ég er orðin nokkuð útitekin og komin með góðan lit á handleggina og andlitið. Það er bara á því að labba. Ég hef ekkert verið í sólbaði. Enda er það þannig þegar maður býr í landi þar sem sólin er mikil og heitt er úti, þá nennir maður kannski ekkert að vera eitthvað að sóla sig sérstaklega. Það er óþarfi að drekka upp hvern einasta dropa af sól sem fæst, eins og þegar maður býr heima á Íslandi þar sem hver einasta sólstund er dýrmæt.

En sem sagt, það er ógurlega heitt í herberginu mínu, sem er ástæða þess að ég er vakandi núna. Ég ætlaði upphaflega að fara til Montreal á morgun og eyða deginum þar en ég þyrfti að vakna um sex leytið og ef ég sofnaði strax þá fengi ég aðeins um þrjá og hálfan tíma af svefni og það er bara ekki nógu gott. Það þýddi líka að ég sofnaði líklega í lestinni og missti þá að því að virða fyrir mér landslagið á milli Ottawa og Montreal. Það er hugsanlegt að ég fari annað hvort á þriðjudaginn eða miðvikudaginn en þá mun ég eiga frí úr vinnunni.

Í kvöld fór ég á fyrstu tónleika á Ottawa Blues hátíðinni. Sá brot af einhverjum reggí gæja og svo kúbverskri hljómsveit en hlustaði aðallega á band sem kallast Broken Social Scene. Martin heldur því fram að þetta sé besta kanadíska hljómsveitin í dag. Þeir spila alternative pop/rock og nota ýmis óvenjuleg hljóðfæri (fyrir svona tónlist, þ.e.a.s.), fiðlur og trompet. Þetta býr til mjög spennandi hljóm og hljómsveitin er athyglisverð. Við misstum af Great Big Sea sem spilaði á stóra sviðinu á sama tíma en það er augljóslega ekki hægt að heyra allt. Það eru vanalega fjórar hljómsveitir að spila á sama tíma.

Annars hefur allt bara gengið fínt síðan ég bloggaði síðast. Anna, nemandinn minn, komst ekki í skólann í gær né eftir hádegið í fyrradag en John maðurinn hennar kom í staðinn svo ég vann töluvert með honum. Þau hjónin nota mjög mismunandi aðferðir til þess að læra málið, svo það er býsna spennandi fyrir mig að fylgjast með þeim. 

Í dag var potluck hjá FLIO (Foreign Language Institute of Ottawa), sem er vinnunveitandi minn, og þar komu saman nemendur og kennarar og átu góðan mat. Nokkrir voru svo með skemmtiatriði. Þetta var mjög skemmtilegt.

Í gærkvöldi fór ég aftur í siglingu. Að þessu sinni vorum við sjö á bátnum. Paul, sem á bátinn með Martin, tók alla sína fjölskyldu með (konu og tvö börn) og vin sinn Derek þar að auki. Það var mjög skemmtilegt. Þetta var allt hið fínasta fólk. Við sigldum að eyju á Ottawa á, köstuðum þar akkerum og héldum veislu. Reyndar fór á sömu leið og síðast. Vindurinn dó á heimleiðinni og við urðum að nota mótorinn. Reyndar var meiri vindur en þegar við Martin sigldum um daginn, en krakkarnir voru orðnir of þreyttir til þess að hægt væri að eyða of löngum tíma í heimferðina.

Jæja, ég ætla að reyna að sofa í þessum hita. Ég ætla að sofa út á morgun - ef dúfurnar á svölunum leyfa mér það. Ég held þær séu að reyna að koma sér upp fjölskyldu. Það er reyndar nokkuð seint í ári til að verpa en sumar fuglategundir verpa tvisvar á ári og þá myndi seinna varp einmitt vera um þetta leytið. Og dúfur eru nógu leiðinlegar til þess að vera vísar til þess að verpa tvisvar. En sem sagt, stefni að því að sofa út. Og svo ætla ég að rölta um, læra kannski eitthvað ef ég helst við inni. Svo kíkí ég kannski niður á Blues svæðið og hlusta á einhverja tónlist þar. Ég ætla líka að fara og leita að vídeóleigu niðri á Bank stræti þar sem er víst gott úrval af erlendum kvikmyndum. Ég vonast eftir því að finna íslenskar myndir svo ég geti sýnt þær í tíma. Það er gott fyrir nemendurnar að hlusta á málið og lesa textann með. En sem sagt, rólegur dagur framundan.


Kanadadagur

1. júlí í Kanada

1. júlí er þjóðhátíðardagur Kanada og að þessu sinni fagnaði landið 139 ára afmæli. Við Auður Atla, Íslendingur í námi hér í Ottawa, vorum mættar niður í bæ rétt eftir klukkan tíu og ætluðum að sjá verðina skipta um stöður (eins og fyrir framan Buckinghamhöll) en fjöldinn var þá þegar orðinn svo mikill að við hefðum þurft að horfa á það frá risastórum skjám fyrir framan þinghúsið. Við nenntum því ekki svo við löbbuðum bara um, skoðuðum fólkið, hlustuðum á tónlist sem flutt var út um allan miðbæinn, horfðum á listamenn leika listir sínar, o.s.frv. Þrjú aðalsvæðin voru Parliament Hill, eða þinghússhæðin, Majors Hill Park -garður sem er rétt við þinghúshæðina - og svo Jacques-Cartier Park, sem er hinum megin við ána, þ.e. í Gatinau, Quebec. Þetta er um 20 mínútna gangur þangað, yfir Interprovential brúna (millifylkjabrúna). Við löbbuðum um öll svæðin. Í Jacques-Cartier settumst við niður enda búnar að labba í marga klukkutíma, og hlustuðum meðal annars á keltneska tónlist, fyrst frá Norður-Vancouver og síðan frá Nýfundnalandi. Þaðan löbbuðum við síðan að Þjóðmenningarsafninu og fengum okkur að borða þar á kaffiteríunni. Þegar við vorum þar hringdi Martin og var kominn í bæinn, svo hann slóst í hópinn. Næstu klukkutímana héldum við áfram að labba um og sjá það sem í boði var í bænum. Settumst meðal annars niður í Majors Hill Park og horfðum á indjánakonur syngja og dansa. Mjög skemmtilegt. Þegar við vorum aftur orðin svöng (aðallega Martin sem hafði ekki borðað með okkur á kaffiteríunni enda vorum við búnar að borða þegar hann kom), fundum við veitingastað með ekki of langa biðröð (á flestum stöðum þurfti að bíða í alla vega hálftíma) og slöppuðum þar af í um klukkutíma. Að því loknu fórum við uppá þinghúshæð á nýjan leik og hlustuðum á kvöldtónleikana þar, fólk eins og Colin James, Michel Pagliaro og Stars. Þið Íslendingar þekkið þetta fólk sjálfsagt ekkert. Á mínútunni tíu hófst svo flugeldasýningin sem var býsna góð. 

Erfiðast var að komast út af hæðinni því aðeins þrjú lítil hlið voru til að hleypa út yfir hundrað þúsund manns (um 300 þús. voru víst í bænum en ekki allir þeirra inni í garðinum). Það tók því nokkurn tíma að skríða út og þegar við komum út á Wellington, sem síðan breytist í Rideau, var þvílíkt mannhaf að ég held ég hafi aldrei séð slíkan fjölda. Alveg ótrúlegt. Og að komast í gegnum miðbæinn tók hreinlega heillangan tíma. Auður hélt svo heim enda á hún heima rétt við miðbæinn en við Martin fórum að leita að bílnum hans sem var í einni af litlu hliðargötunum í Byward market hverfinu. Þá tók að mígrigna svo við urðum holdvot. Það hafði rignt allt kvöldið en vanalega bara lítið svo við höfðum bara setið í grasinu með regnhlíf yfir okkur, og um tíma með tarpet yfir fótunum (það sem maður setur á tjaldbotna til að halda sér þurrum). Þessi rigning var margafalt verri. En flugeldasýningin var búin svo það mátti rigna. Og þótt maður yrði holdvotur var það allt í lagi því þetta var í lok kvölds og ekkert annað að gera en að fara heim og skríða undir sæng. 

En sem sagt, fínn Kanadadagur - pottþétt sá besti sem ég hef upplifað, enda Ottawa höfuðborgin og hér er víst alltaf meira um að vera en annars staðar í Kanada.  


Sigling

Stína í siglingu

Í kvöld sigldi ég á Ottawa ánni í um átta klukkutíma. Martin, sem er tölvumaðurinn okkar, er mikill siglingamaður og hafði boðið mér að koma með og var áætlunin að fara strax eftir vinnu. Það leit hins vegar ekki vel út um fjögur leytið því það var alveg mígandi rigning og rok. En við keyrðum samt niður að Aylmer höfninni í Quebec og fórum inn á veitingahúsið við höfnina. Enda bráðsnauðsynlegt að fá sér kvöldmat áður en lagt yrði af stað - ef hægt væri að fara. Það var hins vegar heldur svo að veðrið versnaði eftir að við komum þangað svo starfsmenn veitingahússins urðu að rjúka til og lokum öllum gluggum því það hellti úr fötu og allt kom inn. En á meðan við sátum þarna og spjölluðum lægði veðrið og sólin braust í gegn. 

Klukkan var ábyggilega farin að nálgast hálfsjö þegar við loksins lögðum af stað og við tóku yndislegir klukkutímar í kvöldsólinni. Í júlí sest sólin seint svo við náðum býsna mörgum tímum áður en fór að dimma eitthvað af alvöru svo við sigldum bara upp í vindinn, upp  með ánni. Uppúr ellefu var orðið nokkuð dimmt og svo fljótlega eftir það ákváðum við að fara að halda til baka. En þá voru þeir Þór og Njörður búnir að vera að bralla eitthvað og datt sama sem í dúnalogn. Það var varla að báturinn hreyfðist. En okkur var eiginlega alveg sama. Við vorum dúnklædd (bættum fleiri og fleiri fötum á eftir að nóttin lagðist yfir) og því lítið sem ekkert kalt, félagsskapurinn var frábær og góð músík um borð (þar á meðal Sigur Rós). Martin var búinn að skipta um segl, hífa seglin upp eins og hægt var en ekkert gekk. Um hálf eitt leytið var orðið ljóst að það myndi taka hálfa nóttina að komast til baka með þessu áframhaldi svo mótorinn var settur í gang og við stímdum í land.

Mikið var þetta gaman. Nú erum við að ræða um að taka heilan dag og sigla eitthvað í sólinni, synda í ánni, borða pikknikk einhvers staðar á skemmtilegum stað og njóta sjómennskunnar (ármennskunnar). Ég hef alltaf sagt að það væri sjómannsblóð í æðum mér!


Fleiri myndir

455 Wilbrod

Í kvöld flutti ég mig um set. Yfirgaf 360 Templeton og fór yfir á 455 Wilbrod, sem er í sama hverfi. Þetta er risastórt rautt múrsteinshús frá því um 1890. Ég er með herbergi í risi, sem hér er þriðja hæð. Hér uppi er lítið eldhús og baðherbergi og auka klósett. Herbergin eru þrjú en við erum bara tvær hérna þannig að  ég þarf bara að deila þessu með einni. Sem er auðvitað súperfínt. Það var svolítið rykugt hér en ég hef svona verið að þvo aðeins. Týpískur Íslendingur. Þoli ekki of mikinn skít. Kanadamenn hafa almennt miklu hærri skítaþröskuld en við Íslendingar. Og samt finnst mömmu ég alls ekki þrífa nóg. Alla vega ekki þegar ég bjó mín fyrstu ár í Reykjavík. Hún hefði átt að sjá íbúðina mína stundum í vetur þegar vinnuálagið var sem mest. Þá blöskraði mér sjálfri stundum.

Á morgun er ætlunin að fara í siglingu eftir vinnu. Tölvumaðurinn á tungumálastofnuninni, Martin, bauð mér að koma með sér og félögum sínum. Það er reyndar spáð rigningu og sjálfsagt verða þrumur og eldingar, en það sakar varla of mikið. Maður er ekki með sjómannsblóð í æðunum fyrir ekki neitt.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband