Vorhreingerningar

Þeim mun skítugra sem baðherbergið er þeim mun lengur tekur að þrífa það.

Búið var að skíta upp um alla veggi og það verður ekki þrifið á einum degi.

Við gáfum Sjálfstæðisflokknum 18 ár til að drullumalla svo við hljótum að geta gefið ríkisstjórninni nokkra mánuði til að þrífa upp eftir þá.


mbl.is Krónan veikst með nýrri stjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Helgin framundan

Páskahelgin er framundan þótt ég hafi reyndar verið komin í páskafrí um miðjan dag í gær. Kanadamenn fá ekki sama langa páskafríið og Íslendingar (vanalega er bara einn frídagur um þessa helgi) en VANOC ákvað að gefa okkur almennilegt frí. Þannig að skrifstofunni var lokað um hádegi í gær.

Ég ætla að gera mér dagamun (eða öllu heldur helgarmun) í fyrsta sinn í mörg ár. Við erum nokkuð stór hópur sem höfum leigt hús á Vancouver eyju og ætlum að dvelja þar um helgina. Húsinu fylgir heitur pottur, grill, billjardborð, kanú, árabátur og fleira. Mér skilst á þeim sem fóru í dag að það megi sitja fyrir utan húsið og horfa á skallaerni og seli fyrir utan. Frábært. Kem heim á mánudaginn.

Ástæða þess að ég fór ekki í dag eins og sumir var sú að ég átti miða á Canucks leik og vildi ekki missa af honum. Þetta var sjöundi leikurinn sem ég fer á í vetur og ég hef verið svo heppin að við höfum unnið alla þessa leiki. Ég held því að Canucks ættu að ráða mig til þess að koma á leiki hjá þeim.

Við vorum búin að tryggja okkur sæti í úrslitakeppninni og nú er mögulegt að ná líka deildartitlinum. Við erum tveim stigum á undan Calgary en þeir eiga leik til góða (tvö stig fást fyrir sigur). Ef Calgary vinnur báða leikina sem eftir eru og við vinnum okkar síðasta leik, þá erum við með jafnmörg stig en þeir vinna deildina af því að þeir hafa unnið fleiri leiki. Við höfum oftar náð jafntefli og síðan tapað í framlengingu eða vítakeppni. Því miður skiptir það ekki máli að við unnum fjóra af sex leikjum okkar gegn Calgary. Nú er að vinna síðasta leikinn okkar og treysta svo á að Edmonton nái að taka alla vega eitt stig af Calgary. Við eigum það inni hjá þeim. Það var einmitt Edmonton sem varð þess valdandi að við misstum af úrslitakeppninni í fyrra!

Miðar á úrslitakeppnina fara í sölu á laugardaginn og vinur minn ætlar að reyna að fá miða. Ég verð úti í eyju og örugglega ekki í netsambandi svo ég get ekki reynt. Vona að hann fái miða svo ég komist á leik. Hef aldrei farið á hokkíleik í úrslitakeppni. Annars er alltaf gaman að fara á pöbb og horfa þar á leikina í sjónvarpinu með öðrum.

En nú er best að fara í háttinn því ég þarf að vakna allt of snemma.


Stórstjarna íslenskra fræða í Kanada fallinn frá

Mikið var sorglegt að lesa fréttina um lát Haralds Bessasonar.

Ég fetaði að sumu leyti í fótspor Haralds þegar ég fluttist til Kanada og hóf kennslu við íslenskudeild Manitóbaháskóla. Frá fyrsta skóladegi heyrði ég um Harald. Hann hafði ekki kennt við skólann í fjölda ára þegar ég kom þangað en samt sem áður var mönnum tíðrætt um hann. Kannski var þetta að hluta til vegna þess að þegar ég kom fyrst var skrifstofan mín ekki tilbúin svo ég fékk að nota skrifstofu Skip Coolage sem þá var í rannsóknaferð á norðurslóðum, en Skip var líklega einn besti vinur Haralds í Winnipeg. Þegar Skip kom til baka, og skrifstofan mín ekki enn tilbúin, ræddum við mikið saman og þá sagði Skip mér endalausar sögur af hinu og þessu sem þeir Haraldur höfðu brallað. Nokkrar sögur fékk ég líka frá Gene Walz sem skrifaði söguna af hinum vestur-íslenska Charlie Thorson.

Haraldur þekkti alla og öllum líkaði við Harald. Hann var skemmtilegur og sniðugur og brallaði margt. Frábær fulltrúi Íslendinga á erlendri grund. 

Hann stundaði líka rannsóknir á íslensku eins og hún var töluð í Manitoba og skrifaði um það nokkrar greinar sem að sjálfsögðu eru stórskemmtileg lesning.

Sjálf hitti ég ekki Harald fyrr en ég fór á ráðstefnu á Íslandi veturinn 2001. Þá var ég send til hans með kveðjur frá hérumbil öllum í Kanada. Ég átti eftir að hitta hann nokkrum sinnum eftir það og alltaf var það jafn skemmtilegt. Hann hafði frá svo mörgu að segja og ég sat agndofin og hlustaði á lýsingar hans á fólki sem hann hafði hitt á þeim 30 árum sem hann bjó í Kanada. Landinu þar sem hann ætlaði aðeins að búa í stuttan tíma en sem að lokum eignaði sér stóran hluta af lífi hans.

Eftir góð ár við Háskólann á Akureyri kom Haraldur aftur til Kanada, að þessu sinni til Toronto þar sem flest börn hans búa, og þar átti hann eftir að ljúka sinni ævi.

Ég veit að hans er sárt saknað við Manitobaháskóla þar sem hann mun alltaf vera stórstjarna, og ég vil nota tækifærið og senda samúðarkveðjur til Margrétar og barnanna. Mikill maður er fallinn.


mbl.is Haraldur Bessason látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Morð á hlaupastíg

PA240010Morðin hafa verið óvenjumörg í Vancouver undanfarna mánuði en flest öll hafa þau verið hluti af stríði milli glæpagengja. Nú um helgina var hins vegar heldur betur hrist upp í fólki í borginni.

57 ára gömul konu sem hafði verið úti að hlaupa í skóginum hérna við hliðina á mér fannst látin á hlaupastígnum. Myrt. Lögreglan hefur ekki ennþá gefið upp neitt um dánarorsök en sagt er að hún hafi verið barin í höfuðið.

Þetta gerðist um hábjartan dag, um tvö leytið, á fjölförnum hlaupastíg í skóginum. Ég var vön að hlaupa þennan sama stíg fyrst þegar ég flutti til Vancouver. Hljóp alltaf ein og með tónlist í eyrunum.

Nú er varað við því að fólk fari eitt inn í skóginn og alls ekki má hlusta á tónlist á meðan maður hleypur. Þar að auki er hvatt til þess að allar konur séu með piparúða, flautu og farsíma.

Ég er döpur yfir þessu tilgangslausa morði en að auki ösku ill því það er hvergi betra að hlaupa en inni í skóginum. 'Eg sem ætlaði einmitt að fara að taka fram hlaupaskóna þar sem ég virðist loksins hafa losnað við kvefið. Og nú þarf ég að hlaupa á hörðu malbikinu.

Innst inni eru allir að vona að konan hafi verið myrt af ásettu ráði, af því hver hún er, því annars var þetta að öllum líkindum handahófskennd árás og þá gæti hver sem er verið í hættu.

Mamma, það er ástæðulaust að vera hrædd. 'Eg passa mig og lofa að fara ekki ein inn í skóg fyrr en málið er upplýst.


Travis í Vancouver

Ég fór á tónleika með Travis í gær. Þeir voru æðislegir. Ég hafði séð þá spila hér fyrir einum þremur eða fjórum árum en þá spiluðu þeir í nokkurs konar leikhúsi. Að þessu sinni spiluðu þeir á Commodore sem er frábær hljómleikasalur hér í Vancouver. Dansgólfið er risastór og maður getur staðið örfáa metra frá hljómsveitinni. Ég sá Muse spila hér tvisvar.

Ég fór með Lizu og Matthew og við skemmtum okkur konunglega.

Upphitunarhljómsveitin, The Republic Tigers, var virkilega góð og Travis voru hreint út magnaðir Það verður að segjast að Francis Healy er frábær á sviði. Hann kom nokkrum sinnum alveg að okkur (kom allt að hálfum metra í burtu frá mér) og í eitt skiptið stökk hann hreinlega út í þvöguna og söng á meðan hann labbaði í gegnum fólksfjöldann. Hann hélt því fram að það hafi aldrei verið káfað eins mikið á honum áður! Sagðist ætla aftur þarna út á meðal áhorfenda.

Toppurinn (fyrir mig) var þegar strákarnir söfnuðust allir í kringum Francis og á meðan hann spilaði einn á gítar, sungu saman Flowers in the window. Ég tók það upp (eins og allir aðrir á staðnum sennilega) og set það hér inn (sjá neðst á síðunni). Það er auðvitað svolítið hreyfing á bandinu af því að ég þurfti að halda vélinni hátt yfir höfði mínu til þess að hausar strákanna fyrir framan mig væru ekki inn á. Og svo var fólk alltaf að rekast á mann þegar það vaggaði sér.

Ef þið hafið einhvern tímann tök á því að sjá Travis á sviði - skellið ykkur!

 


Whiskey Jack

Við neðri enda Harmony lyftunnar í Whistler er alltaf fjöldi fugla af þeirri tegund sem enskumælandi kalla ýmist Gray Jay eða Whiskey Jack. Þessar fuglar eru góðu vanir og ekkert hræddir við skíðafólk, enda fá þeir yfirleitt eitthvað í gogginn því það er lítill söluturn við hliðina á lyftunni þar sem fátt er boðið upp á nema sítrónubrauð og kartöfluflögur. Maður getur ekki borðað mikið af sítrónubrauði og endar því alltaf á því að gefa fuglunum með sér.

Í síðustu viku stoppuðum við þarna í einar tuttugu mínútur og skemmtum okkur með fuglunum á meðan. Ég náði nokkrum frábærum myndum en þessar tvær eru í uppáhaldi.

 

img_2092.jpg
 
img_2086_823467.jpg

 


Tilviljanir geta verið svo skrítnar

Ég fór út að borða í gær með Lizu og Deb sem vinnur með mér. Liza og Deb eru góðar vinkonur og hafa verið síðan þær fóru að vinna saman fyrir rúmu ári.

Einhverra hluta vegna nefndi ég að Akemi vinkona mín hefði verið að kaupa sér íbúð í Burnaby. Deb sem býr í Burnaby spurði hvar og ég sagði að þetta væri nálægt Brentwood verslunarmiðstöðinni. Deb sagðist þá búa rétt þar hjá líka og nefndi göturnar tvær sem mætast við húsið hennar.

Ha, sagði Liza, ég bjó á þessu sama horni þegar ég var nítján ára! Eftir nokkrar umræður (sem lengdust aðallega vegna þess að Deb var ekki viss um áttirnar í Burnaby) komust þær að þeirri niðurstöðu að Deb býr í sama húsi og Liza hafði búið í fyrir tuttugu árum.

Deb sagðist búa á efstu hæð en Liza bjó í kjallaranum. 'Það er núna náungi í kjallaranum sem heitir Greg', sagði Deb. 'Hann er einn af mínum bestu vinum'. Liza hló. 'Fyndið, þegar ég bjó þarna bjó ég nefnilega með manni sem hét Greg. En hann er ábyggilega löngu fluttur í burtu.'

Svo Deb nefndi ættarnafnið og Liza fékk hláturkast. Kom ekki í ljós að besti vinur Deb í kjallaranum er einmitt náunginn sem Liza bjó með þegar hún var nítján ára. Og hann býr enn á sama stað.

Stór-Vancouversvæðið er um 3 milljónir manns. Ekki beinlínis eins og um fá hús sé að ræða.


Hinn fallegi (en ofbeldisfulli) leikur (nei, ekki fótboltinn)

Skyldi það segja eitthvað um eðli þjóða hvaða íþróttir eru vinsælastar í hverju landi? Fótboltinn hefur augljóslega vinninginn á Íslandi, svo og í flestum öðrum Evrópulöndum, svo og Suður-Ameríku og nokkrum fleiri stöðum. Í Bandaríkjunum er það ameríski fótboltinn með körfubolta og hafnarbolta fast á hælunum. Í Kanada er það hokkíið sem ber höfuð og herðar (ef svo má segja um íþrótt) yfir aðrar íþróttir.

Hokkí er hraður leikur er nokkuð ofbeldisfullur því leyfilegt er að hrinda og ýta öðrum leikmönnum. Það er heldur ekki tekið of alvarlega í það ef leikmenn taka af sér hanskana og berjast. Þeir fá reyndar brottvísun en yfirleitt ekki nema í tvær til tíu mínútur, eftir aðstæðum.

Í leik Vancouver og Chicago í dag varð allt brjálað þegar einn leikmanna Chicago hrinti markmanni Vancouver. Markmenn eru nokkurs konar súkköt. Það má yfirleitt ekki snerta við þeim, sem reyndar er góð regla. En alla vega, út brutust heilmikil slagsmál og mér datt í hug að þið hefðuð gaman af að sjá hvað leyfist í hokkí. Ætti kannski að taka fram þó að þetta á fyrst og fremst við norður amerískt hokkí. Minna er um slíkt í Evrópu.

 


Ah, svona eiga helgar að vera

Á þessum tíma í fyrra sat ég og skrifaði á daginn og horfði á sjónvarpið á kvöldin. Vinir mínir voru dreifðir um heiminn og þeir sem ég átti hér í Vancouver voru flestir giftir og eyddu kvöldunum með eiginmönnum eða eiginkonum.

Nú er staðan ólík og það liggur við að ég andi léttar þegar ég næ að eyða kvöldi eða helgi heima hjá mér. Ekki misskilja, þetta er miklu skemmtilegra svona, en stundum þarf ég hreinlega á hvíld að halda. 

Í dag gerði ég ekkert. Ég svaf til níu, hélt áfram að lúlla um stund, náði mér svo í bók og las. Fékk mér að borða, las svolítið meira. Skaust svo niður á Arbutus í sænska bakaríið og keypti mér bollu sem svipar til gerbollanna okkar á bolludaginn, fór með hana heim og át í mesta yfirlæti á meðan ég horfði á lélega barnamynd í sjónvarpinu. Fékk símtal frá einum vini og hringdi svo í tvo aðra þar á eftir. Nú hnyklar mamma líklega brýrnar því hennar kynslóð skilur venjulega orðið 'vinur' sem 'kærast'. Og nei, ég ekki þrjá kærasta - kannski tvo og hálfan, haha. En alla vega, eftir símtölin horfði ég meira á sjónvarp og át hina bolluna.

Í kvöld fæ ég svo loksins hreyfingu því ég þarf að spila fótbolta. Það er líka ágætt, maður má ekki vera of latur.

Á morgun ætla ég svo til Whistler. Á enn tvo daga eftir á kortinu mínu svo um að gera að nota það. Spáin lofar sólskini. Akemi, Denis og Matthew ætla að koma með og Liza, Tim og Patricia eru nú þegar uppfrá. Mmmmmmm...skíði.

Ég er búin að fara tíu sinnum á skíði eða snjóbretti í vetur. Það er næstum helmingi meira en í fyrra. Og vertíðin er ekki búin.  C'est la vie!


Beint flug til Seattle - Jibbí

Í dag fékk ég tilkynningu frá Icelandair um það að þeir muni brátt hefja beint flug til Seattle í Washingtonríki. Fyrsta flugferðin verður frá Keflavík 22. júlí í sumar.

Boðið verður upp á fjögur flug á viku, á þriðjudögum, fimmtudögum, laugardögum og sunnudögum. Flogið verður frá Seattle klukkan hálf fimm á daginn og lent í Reykjavík 6.45 að morgni. Floigð verður frá Reykjavík klukkan fimm á daginn og komið til Seattle korter í sex samdægurs.

Þvílíkur munur fyrir okkur sem búum á vesturströndinni. Beint flug. Þetta þýðir að við komumst heim á styttri tíma fyrir minni pening.

Nú vona ég að allir skelli sér til Seattle (eða Vancouver eða Portland) svo að flugið reynist vel og haldið verði áfram með það.

Ég er í sjöunda himni!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband