Stríðni í vinnunni

VANOC er skipt niður í deildir og undirdeildir og ég held ég hafi eina fjóra yfirmenn, hvern fyrir ofan annan. Litla grúbban mín sem stjórnað er af Maureen, sér um tungumálaþjónustu ásamt VIP þjónustu á öllum keppnisstöðum, auk Ólympíuþorpanna, fjölmiðlahallanna og flugvallarins. Skiptingin hefur verið býsna einföld, ég sé um tungumálaþjónustuna og Kiara sér um VIP þjónustuna. Núna eftir jólin bættust tveir strákar í hópinn sem báðar vinna beint fyrir Kiöru: Denis mun sjá um keppnisstaði í fjöllunum og Gavin sér um keppnisstaði í borginni.

Það hefur breytt heilmiklu að fá tvo stráka í hópinn og þótt það hafi alltaf verið gaman hjá okkur þá hefur andrúmsloftið verið enn léttara upp á síðkastið. Og oft er heilmikið brallað.

Í hádeginu í dag minntist ég á það við matarborðið að bæði Denis og Gavin voru með símana með sér. Maureen og Sally eru alltaf að skamma okkur Kiöru fyrir það að vera aldrei með okkar síma þegar við förum á fundi eða í hádegisverð. Einhvern veginn varð þetta til þess að við fórum að stríða Kiöru. Við enduðum á því að hringja öll í hana og fylla talhólfið hennar, og síðan festum við ól á símann svo hún gæti haft hann um hálsinn. Henni þótti þetta stórskemmtilegt.

Í gær birtist í blöðunum viðtal við Bas sem vinnur með okkur og þar er hann kallaður slánalegur, ákafur Hollendingur. Við flýttum okkur að búa til skilti með þessari áletrun og stórri ör sem vísaði niður og hengdum fyrir ofan stólinn hans Bas.

Það er líka mikið hlegið og nú tvo þriðjudaga í röð höfum við haldið míní-partý á vinnusvæðinu okkar. Í síðustu viku með rauðvíni og ostum og í dag með súkkulaði. Jamm.


Bakerfjall í Bandaríkjunum

Bandaríkjamenn eiga mörg frábær skíðasvæði og eitt þeirra sem oft lendir fyrir neðan radarinn er Bakerfjall í Washington ríki.

Bakerfjall eða Koma Kulshan eins og það heitir á máli innfæddra er nyrsta virka eldfjallið í Cascade fjallgarðinum og snjórinn/ísinn á fjallinu er meiri en á hinum Cascade fjöllunum samanlögðum (ef Rainerfjall er frátalið). Það er 3280 m á hæð og sést vel frá Kanada. Ég get meira að segja séð það út um svefnherbergisgluggann minn á góðum degi.

Á laugardaginn fór ég á skíði á Bakerfjalli með Denis sem vinnur með mér. Þetta var svona skyndiákvörðun. Var að spjalla við Denis í lok vinnudags á föstudag og einhvern veginn varð það úr að við skelltum okkur til Bakerfjalls. Veðurspá var frábær og við vissum að allir hreinlega ætluðu til Whistler þessa helgi. Þegar það bætist ofan á það að það eru alltaf fleiri í Whistler á laugardögum en sunnudögum þá virtist það skynsamlegt að forðast Whistler og fara eitthvert annð.

Lögðum af stað eldsnemma á laugardagsmorguni og fórum yfir landamærin í Abbotsforth, austur af Vancouver. Það gekk vel og um hálfellefu leytið vorum við komin í lyfturnar. Snjórinn var frábær, veðrið var frábært og brekkurnar magnaðar. Þetta er mun minna skíðasvæði en Whistler en næstum því hver einasta brekka var skemmtileg. 

Á sunnudeginum reyndi ég að bæta upp svefnleysi undanfarinna vikna. Lá í rúminu til tíu, spjallaði við mömmu, fór í hádegisverð með Akemi, lagði mig í tvo tíma, þvoði og ryksugaði bílinn, fór út í búð, borðaði og horfði á sjónvarp.

Enn ein frábær helgi.

Untouched snow   Canuck's Deluxe

Denis and moi at the beginning of the day   Snow-covered trees


Sorglegar fréttir (og mikilvægi þess að vera með hjálm)

Ótrúlegt. Ég las einmitt um þetta slys hér í kanadísku blöðunum þar sem sagt var frá því að ástand hennar væri alvarlegt. Það hvarflaði ekki að mér að hún myndi látast af völdum höfuðáverkanna.

Eins og kemur fram hér í fréttinni á Mogganum þá var hún að læra á skíðum og var því í byrjendabrekkunni. Kona sem sá fallið sagði að það hafi verið sakleysislegt og ég efast um að margir hafi gert sér grein fyrir því hversu alvarlegir áverkarnir voru. Þó hljóta slysavarnarmenn að hafa áttað sig á því að þetta var verra en leit út fyrir því þeir voru víst að hlynna að henni í 45 mínútur áður en hún var tekin niður brekkuna.

En þetta sýnir enn og aftur hversu mikilvægt það er að vera með hjálm. Ég var auðvitað aldrei með hjálm á höfðinu þegar ég æfði skíði, nema þegar við kepptum í bruni, en aldrei annars. Þegar ég fór að fara á snjóbretti keypti ég hins vegar þennan forláta bláa hjálm og er alltaf með hann á brettinu. Lengi vel var ég áfram bara með húfu á skíðum en upp á síðkastið er ég líka með hjálminn þegar ég skíða. Allur er varinn góður.

Hugsanir mínar eru nú með Liam og drengjunum.


mbl.is Natasha Richardson látin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stoðsendingar fleiri en mörkin - en ekki hvað?

Frábært að heyra af góðum árangri íslenska liðsins og almennt frábært að sjá fréttir af íslensku hokkíi. Það gerist ekki svo oft.

Verð þó að segja að ég skil ekki allt í þessari frétt. Lítið á þennan texta úr fréttinni:

"Íslenska liðið spilaði agaðan leik og allir leikmennirnir lögðu sitt af mörkum. Þetta sést best á því að í þetta sinn eru stoðsendingarnar fleiri en mörkin en í íshokkí eru tvær síðustu stoðsendingar fyrir mark taldar."

Stoðsendingar eru fleiri en mörkin og þetta á að sýna að allir leikmenn lögðu sitt af mörkum? Bíddu, stoðsendingar eru hér um bil alltaf fleiri en mörkin. Yfirleitt er það þannig að þrjú stig fást fyrir hvert mark: markið sjálft fær eitt stig og hvor stoðsendingum um sig fær eitt stig. Því eru yfirleitt tvær stoðsendingar fyrir hvert mark. Þetta gerist auðvitað ekki alltaf því stundum stelur markaskorarinn pökknum af hinu liðinu og þá er engin stoðsending talin, og stundum er það einhver annar sem stelur pökknum og sendir á markaskorarann og þá er talin aðeins ein stoðsending. Það er hins vegar mjög sjaldgæft að stoðsendingar séu ekki fleiri en mörkin. Blaðamaður hlýtur að hafa ætlað að segja eitthvað annað.


mbl.is Búlgarar gjörsigraðir á HM
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góður dagur í Whistler - enn og aftur

Ég er búin að vera svo löt við að blogga að ég er ekki búin að segja ykkur frá helmingnum af því sem á daga mína hefur drifið undanfarið. Og ég stórefa að ég muni ná að segja ykkur frá því öllu. Svo í staðinn ætla ég bara að skrifa aðeins um gærdaginn.

Whistler trip, March 8 2009 004 by you.

Ég vaknaði alltof snemma um morguninn (óvenju snemma jafnvel því klukkunni var breytt í fyrra nótt), rauk á fætur, klæddi mig, setti skíðin út í bíl og keyrði niður í Kits að sækja Lizu. Fattaði fljótlega að ég gleymdi skíðaklossunum heima, sótti þá (tapaði 18 mínútum á þessu), keyrði svo niður í bæ og sótti Patriciu og saman keyrðum við þrjár upp til Whistler, með smá morgunverðarstoppi í Squamish.

Veðrið var ótrúlegt. Það var reyndar kalt þegar við komum uppeftir svo ég skalf aðeins fyrstu ferðirnar, en svo fór sólin að skína og dagurinn reyndist dásamlegur. Við eyddum öllum morgninum í 7th Heaven lyftunni á Blackcomb og snjórinn var frábær. Þetta er uppáhaldsskíðasvæðið mitt. Meiriháttar. Eftir hádegið skíðuðum við Whistler.

The girls on the Peak to Peak by you.

Við hættum ekki fyrr en búið var að loka öllum lyftum. Þá fórum við á írskan bar og fengum okkur að borða. Ég drakk þetta dásamlega kakó og fannst það passa vel. Ég held við höfum verið þarna í rúma tvo klukkutíma.

Áður en ég fór heim skaust ég yfir á hótelið þar sem VANOC fólk dvelur þessa dagana, með pakka handa vini mínum sem átti afmæli á laugardaginn. Hann hafði ætlað að koma og borða með okkur en var fastur í vinnu. Ég hálf skammaðist mín fyrir það að hafa átt frí alla helgina á meðan hann greyið var að vinna og það fram á kvöld. En svona er þetta, vinnuálagið er misjafnt.

Keyrslan í bæinn var svolítið stressandi því það var dimmt og illa lýst. Alls staðar var staðið í vegavinnu svo maður þurfti oft að keyra undarlegustu leiðir, og svo eru alltof margir bílar með vanstillt ljós. Svo ég dólaði þetta á löglegum hraða og skilaði okkur heilum á húfi í bæinn.

Góður dagur.

P.S. Rut, vona að þú hafir lesið margt úr þessu.
P.P.S. Þegar ég vaknaði í morgun var snjór á götum. Þótt ég sé þrælvanur snjóökumaður ákvað ég að taka strætó í vinnuna því ég treysti ekki ökumönnum í Vancouver. Hér lenda allir í árekstri um leið og föl þekur jörð.

My car and my house by you.

Íslendingar erlendis fá að kjósa

Ég bloggaði um það fyrir nokkru að þeir Íslendingar sem búið hafa erlendis síðustu átta ár hafa ekki kosningarétt á Íslandi lengur. Þetta er vegna þess að maður þarf að kæra sig inn á kjörskrá fyrir fyrsta desember ári fyrir kosningar. Þar sem boðað var til vorkosninganna með svo stuttum fyrirvara var því ljóst að fjöld Íslendinga erlendis fengi ekki að kjósa.

En fyrir nokkrum dögum samþykkti Alþingi lög sem leyfa okkur útlögum að kæra okkur inn á kjörskrá fyrir lok mars og fá kosningarétt.

http://www.althingi.is/altext/136/s/0564.html

Ég er viss um að frá þessu var sagt í fréttum en það hefur verið mikið að gera hjá mér undanfarið svo ég hef misst af ýmsu. En ég fagna þessari breytingu og þakka þeim sem að henni stóðu. Vil líka þakka þeim sem þrýstu á að málið yrði tekið upp, svo sem þeim sem stofnuðu Facebook síðu um málið.


Doddi líka

Miley Cyrus á greinilega sama draum og Doddi. Hann vill líka að Angelina ættleiði sig...og ruggi sér í svefn! Ekki satt Doddi?
mbl.is Vill að Jolie ættleiði sig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endaslöpp skíðaferð til Whistler

Ég skellti mér á skíði um helgina þótt sumt hafi reyndar farið öðruvísi en ætlað var.

Ég fór á fætur um hálf sex leytið og var að borða morgunverð þegar ég fékk sms frá Akemi sem ætlaði að koma með mér. Hún hafði komið heim af djamminu klukkan þrjú og var ekki alveg í ástandi til þess að fara á skíði. Nú voru góð ráð dýr. Klukkan var bara sex að morgni og allt of snemmt að vekja einhvern upp bara til að spyrja hvort þeir vildu koma á skíði. Ég hafði því úr tvennu að velja: Fara ein eða hætta við. Ein ástæða þess að ég keypti bílinn var svo ég gæti farið á skíði þegar mér sýnist en ekki þegar öðrum þóknast svo það var eiginlega fáránlegt að hætta við bara af því að ég hafði ekki skíðafélaga. Ekki eins og ég hafi ekki farið hundrað sinnum ein á skíði áður. Þar að auki var ég búin að mæla mér mót við vinn minn í kaffi rúmlega átta og vildi alls ekki sleppa því. Svo ég kom dótinu fyrir í bílnum og lagði af stað.

Maður er svo miklu fljótari að keyra til Whistler þegar maður leggur svona snemma af stað. Engin umferð á leiðinni. Ég var bara tvo tíma til Whistler og það án þess að keyra eins og vitleysingur. Ég hafði góðan félagsskap af fimm diska safni íslenskrar tónlistar í hundrað ár. Söng heilmikið með.  

Kom til Whistler rétt rúmlega átta, hitti vin minn og við drukkum kaffi í klukkutíma áður en ég þurfti að koma mér í brekkuna og hann þurfti að sinna vinnunni.

Veðrið var fallegt en spáði þó rigningu. Nema hvað, rigning kemur oft sem snjór í fjöllum og það var sem betur fer þannig í þetta sinn. Ég hef einu sinni skíðað Whistler í mígandi rigningu og það var ekki skemmtilegt. En gallinn er að mikil hríð getur líka verið vandamál. Og það hríðaði svo sannarlega þegar ég kom hærra upp í fjallið. Og hríðin jókst stöðugt. Það var orðið svo að ég þurfti að stoppa nokkrum sinnum á hverri ferð og hreins snjóinn af skíðagleraugunum. Stundum sá ég varla snjóinn fyrir framan mig og einu sinni lenti ég með annan fótinn í skafli (sem ég hafði alls ekki séð í hríðinni). Sá fótur sat fastur á meðan hinn hélt áfram niður brekkuna og ég komst nær því að fara í splitt en ég hef gert síðan ég var barn. Ekki þægilegt, svona ykkur að segja.

Ég gafst upp um tvö leytið. Mér var orðið kalt og ég sá lítið og þetta var ekkert skemmtilegt lengur. Þar að auki bílinn á sumardekkjum og með þessu áframhaldi yrði færðin all svakaleg innan margra klukkustunda. Svo ég fór niður í bíl sem var þakinn snjó. Vegurinn var líka settur snjó en snjórinn var þokkalega troðinn. Bíllinn stóð sig svo alveg súper vel í snjónum og það var eins og ég væri á nöglum. En líklega var ekki mjög hált. Ég var hins vegar ekki komin langt út úr Whistler þegar snjórinn var orðinn að rigningu og vegur auður það sem eftir var af ferðinni í bæinn.

En þótt skíðaferðin hafi orðið endaslöpp þá var hún vel þess virði. Svei mér þá, það er aldrei að vita nema ég fari aftur um næstu helgi.


Smá hokkíblogg

Það er orðið langt síðan ég hef bloggað um hokkí en ég má ekki alveg hætta því.

Liðið mitt, Vancouver Canucks er á svaka ferð þessa dagana og hefur unnið átta af síðustu níu leikjum. Þar á undan voru þeir reyndar á hraðri niðurleið og töpuðu níu af tíu leikjum. En vonandi var það eini öldudalurinn og vonandi eiga þeir eftir að standa sig vel það sem eftir er af leiktíðinni. Við sitjum nú í fimmta sæti vestur riðils. Átta lið úr hvorum riðli komast í úrslitakeppnina. Þetta lítur því vel út.

Lengi hafði verið beðið eftir leiknum í dag því hann markaði heimkomu Mats Sundin til Toronto þar sem hann spilaði síðastliðin 13 ár. Rétt eftir jól gekk hann hins vegar til liðs við Vancouver Canucks og margir Torontobúar sjá hann sem svikara. Mikið var því spáð í það hvort aðdáendur Toronto liðsins myndu púa á Mats eða fagna honum. Í ljós kom að Torontoaðdáendur eru smekklegri en flestir bjuggust við og þótt nokkrir asnar hafi púað þá fagnaði fjöldinn. Sýnt var myndband á stórum skjá þar sem afrek Sundins voru undirstrikuð og fjöldinn stóð upp og klappaði.

En hvernig þakkaði Sundin fyrir sig? Hann skoraði sigurmark Vancouver í vítakeppni. Þetta var því eins og Hollywood endir: Sundin kemur til baka til Toronto sem Kanúki og skorar sigurmarkið gegn sínu gamla liði! Klassi. Hver myndi leika hann í bíómynd?

Af mér er það helst að frétta að ég er á leiðinni til Whistler á skíði. Ætla að leggja af stað klukkan sex í fyrramálið og komast snemma í brekkurnar. Reyndar er spáð rigningu. Vona að það gangi ekki eftir. Akemi ætlar með mér og uppfrá munum við hitta Karen. Akemi og Karen eru báðar Presto stelpur (lesist: spila fótbolta með mér). Ég ætla líka að nota tækifærið og skreppa í kaffi með vini mínum sem vinnur hjá VANOC. Hann er búinn að vera uppi í Whistler meira og minna síðan um jól út af öllum íþróttakeppnum sem við höfum staðið fyrir þar. Síðast þegar ég talaði við hann var hann ekki búinn að fá frídag síðan fyrstu vikuna í janúar. Ég hef verið heppin hvað það snertir - hef ekki þurft að vinna nándar nærri því svo mikið. En ég mun þurfa að vinna um næstu helgi því ég þarf að þjálfa sjálboðaliða sem munu túlka fyrir keppendur í skíðaskotfimi. Það ætti að vera skemmtilegt. Gallinn er að ég mun missa heilan skíðadag út af því! O jæja.


Snjóbrettaferð endaði sem snjósleðaferð

Ég fór á snjóbretti í gær. Snjórinn var ekki alveg eins góður og ég hefði viljað, laus snjór ofan á hörðum, svo ég fór heldur varlega. En eftir nokkrar ferðir var ég farin að ná betri tökum á þessu og skellti mér niður brekkuna.

En ég var varla búin að renna mér nema 60 eða 70 metra þegar ég missti nokkurn veginn stjórn á aftari fæti. Oh oh. Ég á hausinn. Í ljós kom að ein skrúfan á bindingunum losnaði og fóturinn varð laus. Ef ég hefði verið á skíðum hefði ég bara haldið á skíðinu sem ekki virkaði og rennt mér niður á öðru. En ég er langt frá því að vera nógu góð á snjóbretti til þess að fara niður með annan fótinn lausan. Möguleikarnir voru tveir. Labba niður brekkuna með brettið í höndunum, eða labba upp brekkuna og taka stólinn niður.

Ég var miklu nær toppnum en botninum svo ég ákvað að fara heldur upp. Nema hvað, í Cypress eru stífar reglur um það að ekki megi fara niður með lyftunni. Strákurinn á lyftunni var viss um að það væri nú í lagi en talaði samt við yfirmann sinn sem þvertók fyrir það að nokkur færi niður með lyftunni. Skil ekkert í þessu, veit ekki hversu oft ég fór niður með stólnum í Hlíðarfjalli. Það er ekkert hættulegra að fara niður lyftuna en upp hana. Og ekki ætti að vera mikið mál að koma sér í og úr.

En yfirmaðurinn gaf sig ekki og í staðinn sendi hann náunga á snjósleða upp fjallið að sækja mig. Hefði átt að labba bara niður í stað upp.

Snjósleðaferðin var eins og rússíbanaferð. Pínulítið spennandi þrátt fyrir að ég væri að pissa á mig úr hræðslu. Hann fór nefnilega alltaf yst í brekkuna svo við vorum alltaf á brúninni. Og þverhnípt niður á sumum stöðum. Sleðinn var þar að auki hár svo ég hélt alltaf að við ættum eftir að velta. Mér létti því heilmikið þegar við komum niður og ég gat farið af sleðanum.

Svo ég stað þess að bretta meira fór ég bara á pöbbinn og fékk mér að borða. Emma kom fljótlega og Elli, Becky og Virginia ekki löngu síðar. En nú þarf ég að fara með brettið í viðgerð. Það er allt í lagi, ég ætla á skíði í Whistler um helgina og þarf ekki á brettinu að halda þar til næsta fimmtudag þegar næsta ferð til Cypress verður farin.

Mikið rosalega er ég ánægð með að eiga bíl. Ég fer á skíði og bretti þegar mér sýnist. Um helgina fer ég í fjórða skiptið á innan við mánuði. Undanfarin fimm ár hef ég farið þrisvar til fimm sinnum á ári! Þetta er svo miklu skemmtilegra.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband