Sá hann úti á götu um daginn
20.11.2008 | 07:28
Ég sá einmitt Hugh Jackman úti á götu um daginn. Hann kom gangandi á móti mér ásamt öðrum manni og mér fannst hann strax kunnuglegur. En ég var ekki viss um hver hann var fyrr en við mættumst og ég sá andlit hans vel. Það var engin spurning, þetta var Hugh Jackman. Ég hélt hann væri kannski að vinna við nýjustu X-men myndina er samkvæmt IMDB er sú mynd ekki tekin upp hér í Vancouver eins og hinar fyrri. Kannski á hann bara vini hérna. Hann hefur leikið í nokkrum myndum hér í borg og hefur því eytt hér miklum tíma.
Ég hringdi í Lizu og sagði henni að ég hefði séð Hugh Jackman í hverfinu hennar. Hún kom nærri því að hlaupa um allt hverfi til að leita að honum en af því að hún var pínulítið veik lét hún það eiga sig. Enda er hann auðvitað bara venjulegur maður. Óvenjufallegur venjulegur maður.
![]() |
Hugh Jackman kynþokkafyllstur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Whistlerferð
19.11.2008 | 07:19
Yfirþýðandi vetrarólympíuleikanna 2010 er í bænum og af því að Sally og Maureen voru báðar á kafi á fundum allan daginn var ákveðið að ég færi með Bill upp til Whistler og að við skoðuðum keppnisstaðina fyrir Ólympíuleikana. Ég bókaði VANOC bíl (Saturn hybrid bíl, vá) og við skelltum okkur uppeftir.
Það var skýjað þegar við lögðum af stað en þegar við komum til Whistler var veðrið dásamlegt. Það eina sem olli mér áhyggjum var algjört snjóleysi. Það átti að opna skíðabrekkur eftir tvær vikur. Það mun ekki gerast nema það fari að snjóa verulega einhverja næstu daga. Annars kólnaði svo snögglega í dag að það er ekkert ólíklegt að það sé einmitt það sem gerist. Kannski blogga ég eftir tvær vikur og segi ykkur frá fyrstu skíðaferð vetrarins.
Við byrjuðum á Whistler Olympic Park þar sem fram fara keppnir í skíðastökki, á gönguskíðum og í norrænni tvíkeppni (eða hvað kallar maður biathlon?). Nýju stökkpallarnir eru dásamlegir. Það er alltaf eitthvað svo magnað við almennilega stökkpalla. Annars er Holmenkollen enn uppáhaldspallurinn minn. Hann er svo magnaður.
Næst lá leiðin í Whistlerþorpið þar sem við fengum okkur hádegisverð en þaðan fórum við upp í sleðabrautina þar sem fram munu fara keppnir á bobsleðum, luge og skeleton. Vitiði annars að orðið 'luge' er ekki í stóru ensk-íslensku orðabókinni og undir orðinu 'skeleton' er ekkert minnst á sleða. Þessar íþróttir eru ungar en ekki svo ungar.
Síðast lá leiðin til Whistler Creekside, nánar Timing Flats, þar sem keppni í alpagreinum mun fara fram. Ég skil ekki alveg hvernig þeir ætla að koma öllu fyrir þarna. Svæðið er pínulítið og þeir þurfa að koma fyrir markinu og svæðinu þar sem íþróttamennirnir stoppa, auk áhorfendapalla og skálans fyrir Ólympíufjölskylduna. Creekside svæðið á eftir að valda vandræðum.
Fín ferð. Gott að skoða öll svæðin í einni ferð. Maður fær betri tilfinningu fyrir vegalengdunum.
Og það góða er eða ég skráði bílinn út þar til klukkan níu í fyrramálið þannig að ég get keyrt í vinnuna á morgun og þarf ekki að strætóast.
Ég mæli annars með að þið kíkið vel á þessa síðustu mynd. Þið ættuð að sjá línu sem liggur rétt yfir trjálínuna og litlar punktar hanga niður úr línunni. Þetta er nýi toppur-til-topps kláfurinn okkar sem tengir saman Whistlerfjall við Blackcombfjall. Þetta er lengsti kláfur af þessu tagi sem ekki hefur neinn stuðningsstaur á leiðinni. Staurarnir sem halda kláfnum uppi eru eingöngu á endunum. Ég verð nú bara lofthrædd við það að horfa á vagnana frá jörðu niðri - held ég væri svolítið stressuð ef ég væri þarna uppi.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Nýr borgarstjóri
18.11.2008 | 04:18
Í gær voru sveitastjórnarkosningar í Bresku Kólumbíu. Í Vancouverborg var mikil sveifla til vinstri og frambjóðandi vinstrimanna, Gregor Robertson, vann stórsigur á frambjóðanda hægri manna, Peter Ladner. Þetta voru ákaflega ánægjulegar niðurstöður og sigurinn var stærri en menn þorðu að vona.
Þetta þýðir að hægrafíflið Sam Sullivan mun víkja sem borgarstjóri. Ég held að eina ástæða þess að hann vann á sínum tíma hafi verið sú að hann er hreyfihamlaður og er í hjólastól. Fólk vorkenndi honum og dáðist að dugnaði hann en lét sér engu varða að hann er ekki sérlega góður stjórnmálamaður. Og hann fór illa með borgina á þessum þremur árum sem hann hefur verið við stjórn. Enda var hann ekki einu sinni í framboði að þessu sinni; flokkur hans lét hann víkja.
Gregor Robertson kemur inn með loforð um að bæta húsnæðisvandann í borginni og ég ætla svo sannarlega að vona að honum takist það. Hann virðist fullur af orku. (Svo er hann líka svo assgoti myndarlegur.)
Ég er annars á leið til Whistler í fyrramálið. Yfirtúlkur okkur á Ólympíuleikunum er í bænum og ég ætla með hann til Whistler svo hann geti skoðað nýju byggingarnar; sérstaklega stökkpallinn og sleðabrautina. Set inn myndir á morgun.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Bobsleðaliðið frá Jamaica og ýmislegt annað
17.11.2008 | 07:52
Hlynslaufin falla til jarðar
Það er fátt sem hokkíáhugamönnum í Vancouver finnst eins skemmtilegt og að vinna Toronto Maple Leafs. Í gær fékk ég að upplifa þá tilfinningu ásamt þúsundum samborgara minna. Ég fór á leik Canucks og Maple Leafs með Mark. Uppselt var á leikinn svo við urðum að kaupa miða af konu sem á ársmiða og auðvitað þurftum við að borga meira fyrir miðana en hún borgaði upphaflega. En við borguðum örugglega töluvert minna en ef við hefðum keypt miðana af skölpurum.
Leikurinn var æðislegur. Ég hef aldrei upplifað aðra eins stemningu í höllinni. Liðið byrjaði að öskra og hrópa frammi á gangi, löngu áður en komið var í sætin. Ýmist var kallað 'Go Canucks Go' eða 'Leafs suck!'. Um þriðjungur var í Maple Leafs treyjum. Það er greinilegt að margir frá Toronto hafa flust á vesturströndina. Mark var hálfpirraður yfir fjölda stuðningsmanna Maple Leafs en ég benti á að það gerði sigurinn bar sætari. Og það gekk eftir. Við unnum leikinn 4-2 og fyrsta markið skoraði Kyle Wellwood sem við fengum í sumar frá Toronto. Þeir töldu hann ekki nógu góðan en hann er nú markahæsti leikmaður Canucks.
Við sitjum nú í fjórða sæti deildarinnar eftir slaka byrjun og er það mun betra en flestir þorðu að vona.
Fótbolti enn og aftur
Ég spilaði sjálf tvo fótboltaleiki í gær. Fyrri leikinn, með Presto, unnum við 2-1. Ég og Melissa skoruðum mörkin. Ég skoraði reyndar tvö mörk; það fyrr með skalla eftir hornspyrnu en dómarinn var svo illa staðsettur að hann sá ekki boltann fara inn og dæmdi því ekki mark. Sjálf sá ég ekki hvort boltinn fór inn en nokkrar stelpur sem stóðu nær sögðu að það hefði ekki verið spurning. En það er ekkert hægt að gera ef dómari sér ekki markið. Við unnum samt. Síðari leikurinn tapaðist. Einhverra hluta vegna gengur okkur ekki nógu vel innanhúss þessa dagana. Ég veit ekki af hverju.
Afslöppun
Dagurinn í dag (sunnudagur) var afslöppunardagur. Ég svaf fram til 11 og tók svo deginum rólega. Það eina sem ég gerði fyrir utan afslöppun var að þvo þvott og ryksuga. Hvort tveggja var nauðsynlegt. En mikið er gott að fá af og til svona daga þar sem maður lætur sér bara líða vel.Dja
Bobsleðaliðið frá Jamaica til Pemberton
Muniði eftir bobsleðaliðinu frá Jamaica sem skellti sér á Ólympíuleikana í Calgary þrátt fyrir mörg ljón á veginum? Disney gerði mynd um liðið sem var alveg stórskemmtileg. Þeir kepptu ekki á leikunum 2006 en nú hafa þeir sett markið á Ólympíuleikana 2010 og munu að öllum líkindum flytja til Pemberton fyrir norðan Whistler svo þeir geti æft reglulega í nýju sleðabrautinn í Whistler. Fólk í Pemberton hefur boðist til að útvega frítt húsnæði og ferðir. Kannski er annað ævintýri í uppsiglingu hjá bobsleðastrákunum frá Jamaica.
P.S. Finnst ykkur myndin ekki flott? Pökkurinn á leið í netið.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Drulluhali undir stýri
15.11.2008 | 06:29
Sumt fólk er svo tillitslaust (eða illgjarnt) að maður skilur ekki hvað gengur á. Núna í kvöld stóð ég ásamt um tuttugu öðrum á horni Broadway og Commercial Drive og beið eftir strætó. Búið var að rigna í nokkra klukkutíma og pollar miklir á götum. Kemur ekki drulluhali undir stýri og keyrir á fullu framhjá stoppistöðinni, ofan í poll og eys svoleiðis bleytunni yfir viðstadda að við vorum holdvot.
Það tekur mig um hálftíma heim í strætó og ég var farin að skjálfa af kulda þegar ég loksins komst inn, gat farið úr blautu fötunum og klædd mig í flís. Og ég sem er enn að berjast við kvef sem langar ógurlega að yfirtaka mig. Ég hef hins vegar engan tíma fyrir kvef svo ég berst á móti. Ég ætla mér EKKI að verða veik, bara svo þið vitið það. Það verður mikið að gera í vinnunni í næstu viku svo ég verð að hafa fulla krafta. Hmmm. Mér finnst ég hafa skrifað þetta áður.
Á morgun verður þeytidagur. Það er, ég mun þeytast á milli staða. Spila fótbolta klukkan eitt, fer á hokkíleik klukkan fjögur og spila annan fótboltaleik klukkan átta. Mun líklega fá lánaða vespuna hennar Emmu svo ég geti komist á milli staða á réttum tíma.
Hokkíleikurinn verður spennandi því við munum spila á móti Toronto. Höfum ekki spilað við þá í tvö ár en mér skilst að keppnir milli þessa tveggja liða séu alltaf æsispennandi. Fer með Mark. Sé hann alltof sjaldan eftir að ég byrjaði að vinna. Hans vinna er líka brjálaðri en hún var í sumar svo hann kemur oft ekki heim fyrr en seint á kvöldin. En það er svo sem allt í lagi. Góðir vinir eru vinir þótt þeir sjáist ekki alltaf. Við ættum að skemmta okkur vel á leiknum.
Jæja, ætla að horfa á þátt af Medium sem ég tók upp í kvöld á meðan ég var á pöbbakvöldi VANOC. Þar var skemmtilegt og þetta var svona breski stíllinn á þessu. Allir fóru beint á pöbbinn strax eftir vinnu svo maður var kominn heim á skikkanlegum tíma. En sem sagt, ætla að horfa á Medium og fara svo að sofa. Góða nótt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Strákarnir með skeggin
14.11.2008 | 00:49
Margir karlmannanna sem ég vinn með hafa tekið sig saman og eru að safna yfirvararskeggi þennan mánuðinn til styrktar baráttunni gegn blöðruhálskrabbameini. Sumir láta sér nægja svona venjulegt yfirvararskegg en flestir hafa farið þá leiðina að fá sér eitt svona villta vesturs skegg þar sem það beygir niður með vörunum og niður á höku. Væri hrikalega óaðlaðandi undir öðrum kringumstæðum en það er svo sætt af þeim að gera þetta svo þeim er algjörlega fyrirgefið.
Sumir hafa greinilega betri skeggvöxt en aðrir og eru komnir með flott og fínt skegg en hjá sumum er þetta óttalegur hýjungur. Greyin.
Set kannski inn mynd við tækifæri ef ég næ að smella af.
Bloggar | Breytt 15.11.2008 kl. 06:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Fimmtán punktar frá mér
8.11.2008 | 08:17
Ég blogga orðið svo sjaldan að ég gleymi helmingnum af því sem ég gæti sagt ykkur. Ykkur er sjálfsagt alveg sama enda flestir löngu hættir að nenna að kíkja inn. En fyrir þessa fáu sem enn koma í heimsókn þá er frá þessu helst að segja:
1. Nú er orðið hægt að fá góðar mandarínur í búðum. Það hefur verið hægt að kaupa mandarínur í sirka mánuð en fyrstu mandarínur vetrarins eru aldrei góðar. En nú eru þessar góðu sem sagt komnar í búðir og maður finnur fyrir því að jólin nálgast.
2. Búið er að breyta klukkunni vestanhafs og tímamunurinn á mér og ykkur er því núna sjö klukkutímar (er það ekki annars?)
3. Kanadadalur er núna 108,67 krónur. Hann var um 50 krónur þegar ég flutti út 1. september 1999.
4. Ég er að hlusta á NýBylgjuna í gegnum iTunes podcast.
5. Ég mun spila utanhússfótbolta á morgun og innanhússfótbolta á sunnudaginn. Ætlast til sigurs í báðum leikjum.
6. Fór á Canucks leik í gær og sá mína minn vinna Phoenix Coyotes, lærissveina Waynes Gretzkys, 1-0. Sigurinn hefði getað verið miklu stærri því við vorum miklu betri.
7. Á þriðjudaginn er frídagur hjá okkur (Remembrance day) og við höfum verið hvött til þess að taka okkur frí líka á mánudaginn (launalaus) svo við fáum fjögurra daga helgi.
8. Mér er boðið í Ground Zero party á morgun hjá Jason Alleyne sem vinnur með mér hjá Vanoc. Ætlunin er að horfa á skíðamyndir og vonast eftir því að snjói sem mest í Whistler svo við komumst á skíði sem fyrst.
9. Ég á nýjan skíðajakka - loksins.
10. Elli, sem vinnur með mér, er fúl við mig núna því fyrir tveim vikum fékk ég koss á kinnina frá draumaprinsinum hennar. Þar sem hún á einn og hálfan kærasta finnst mér ástæðulaust af henni að vera að öfundast út í mig.
11. Í gær var hátíðadagur í vinnunni og lukkudýrin okkar komu á svæðið. Ég vildi fá mynd af mér og Quatshi, sem er uppáhaldslukkudýrið mitt, saman, en Sumi horfði á mig svo eymdarlega svo hann fékk að vera með á myndinni. Ég held því fram að þetta sé trekantur. Sumi er hrifinn af mér en ég er hrifin af Quatshi. Hverjir ætli séu í búningunum? Ég get komst af því af því að lukkudýrapabbinn er vinur minn.
12. Komst að því í kvöld að Doddi og Veiga eiga von á barni. Til hamingju krakkar!
13. Var í fúlu skapi á mánudaginn af því að ég komst að því að deildin mín þarf að flytja innan byggingarinnar Verðum áfram á fimmtu hæð en í stað bjarts svæðis með frábært útsýni flytjum við yfir í dimmt og ömurlegt horn með útsýni yfir bílasölu.
14. NýBylgjan er að spila lag eftir Megas (eitthvað um að droppa við hjá dópmangaranum). Megas alltaf flottur.
15. Ætla að leggja einn kapal í tölvunni og fara svo að sofa. Skjáumst síðar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Obama og Alanis
5.11.2008 | 08:28
Hinn fjórði nóvember er mikill gleðidagur og það er notalegt að hafa aftur öðlast trú á nágrönnum mínum í suðri. Reyndar kusu 48% Repúblikana, sem er í sjálfu sér skelfilegt, en meiri hlutinn kaus samt sem áður Obama og loksins finnst mér ég geta treyst forseta Bandaríkjanna.
Ég horfði með aðdáun á þennan glæsilega og gáfaða mann flytja ræðu sína eftir að ljóst var að hann hefði borið sigurorð af McCain hinum aldraða, og gladdist ákaflega. Mikið vildi ég að hún Ellen frænka mín hefði lifað nógu lengi til að sjá Barak Obama kosinn næsta forseta landsins hennar en hún hataði Bush meir en nokkur önnur manneskja sem ég þekki. En það gekk ekki eftir því Ellen lést fyrir mánuði. En hún hefði alla vega orðið ánægð með að ríkið hennar, Oregon, kaus demókrata (held reyndar að Oregon kjósi alltaf demókrata).
Ég var á tónleikum með Alanis Morissette þegar ég heyrði af sigri Obama. Það var náunginn sem hitaði upp fyrir hana sem tilkynnti sigurinn og umsvifalaust fóru allir að texta vinum og vandamönnum og enginn hlustaði á strákinn. Það var líka allt í lagi, við komum öll til að hlusta á Alanis.
Tónleikarnir voru magnaðir. Um helmingur laganna voru af snilldarplötunni Jagged Little Pill sem mér finnst vera besta kanadíska plata allra tíma og ein bestu platna sem gerðar hafa verið. Ég hlustaði á hana daginn út og inn þegar ég var að skrifa mastersritgerðina mína og ég mun aldrei fá leið á þessum lögum. Platan er fullkomin. Það var því magnað að hlusta á lögin flutt á sviði hins dásamlega Orpheum leikhúss í Vancouver og Alanis var svo sannarlega í essinu sínu. Þvílík orka sem stúlkukindin hefur. Eini gallinn er að lögin sem hún samdi eftir Jagged Little Pill eru ekki nálægt því eins góð.
Og til að fullkomna kvöldið frétti ég eftir tónleikana að Canucks hefðu unnið Nashville 4-0 þannig að það má segja að allt sé þá þrennt er: Canuckssigur, frábærir tónleikar og Barak Obama næsti forseti Bandaríkjanna. Ég get ekki beðið um betra kvöld.
![]() |
Obama kjörinn forseti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Heimsbikarmót í skautahlaupi
3.11.2008 | 06:30
Um síðustu helgi var haldin heimsbikarkeppni í skautahlaupi, stuttum vegalengdum, hér í Vancouver. Ég var á staðnum með hóp sex túlka sem allir voru að þreyta frumraun sína á þessum vettvangi. Mingson og Michael tala mandarín kínversku, Jenny og Sun kóresku, Yuna talar japönsku og Alexandra talar rússnesku.
Föstudagurinn var rólegur hjá okkur enda fór eingöngu fram riðlakeppni þann dag. Ég var einu sinni beðin um að senda kóreskumælandi manneskju til þess að fullvissa sig um að stór borði sem hengdur var upp segði ekkert móðgandi. Það var allt og sumt. Okkar hlutverk var einnig að sjá um VIP sætin og að meðaltali sat einn í þeim sætum allan föstudaginn.
Fyrri hluti laugardags var svipaður en um leið og lokaumferðir hófust fór allt á fullt hjá okkur. Fólkið mitt sem talar kínversku og kóresku var meira og minna á hlaupum um leið og úrslitakeppnirnar hófust enda eru Kóreumenn og Kínverjar langbestir í þessari íþróttagrein og tóku iðulega fyrstu þrjú sætin. Og því reyndi á mitt fólk.
Við stóðum við enda íssins þar sem skautafólkið kom út af eftir keppni og þá þurfti að segja þeim frá því hvað gerðist næst. Verðlaunaafhendingar fóru fram jafnóðum og því varð liðið að taka strax af sér skautana og halda beint að verðlaunapöllunum. Allir vildu hins vegar fyrst fara í búningsherbergin, losa sig við skautana, fá sér eitthvað að borða, fara í utanyfirföt, o.s.frv. Mitt fólk varð að reyna að koma í veg fyrir að það gerðist.
Síðan þurfti að aðstoða við verðlaunaafhendinguna og svo var farið beint í lyfjapróf sem tók sinn tíma.
Einu sinni kom það fyrir að önnur Kóreukonanvar með íþróttamanni við verðlaunaafhendingu, hin var að hjálpa til við lyfjapróf, annar íþróttamaður var að koma af svellinu í verðlaunasæti og blaðamaður vildi fá viðtal við kóreskan íþróttamann. Ég þurfti fjóra Kóreumenn en hafði bara tvo.
Á meðan var ekkert að gera fyrir Japanann minn og Rússann, nema að fylgjast með VIP genginu sem hegðaði sér ákaflega vel.
Sunnudagurinn var endurtekning á laugardeginum með álíka hlaupum Kóreukvennanna og mandarínkarlanna. Nema hvað nú fékk Japaninn minn hlutverk. Hún fékk að segja sigurglöðu japanska liðinu í boðhlaupi að þeir hefðu verið dæmdir úr keppni. Greyin, þeir sem voru svo ánægðir með þriðja sætið sitt.
Gallinn var sá að Japaninn minn átti alls ekki að hafa þetta hlutverk og þetta er eitt af því sem ég mun þurfa að taka upp á fundi á morgun þegar farið verður yfir hvað fór vel og hvað hefði betur mátt fara. Sjálfboðaliðarnir mínir eru nefnilega túlkar sem eiga að túlka það sem A segir við B og öfugt. Einhver frá íþróttadeildinni hefði því átt að segja Japönunum að þeir væru úr leik og Japaninn minn hefði svo túlkað. Í staðin var hún bara send með fréttirnar. Ef liðið hefði viljað vita af hverju þeir voru úr leik hefði mín manneskja þurft að fara og finna einhvern til að útskýra þetta. En þetta er jú eitt af því sem allir þurfa að læra - hvað það er nákvæmlega hvað við gerum.
Í heild sína gekk keppnin alveg frábærlega, minn hópur var magnaður og stóð sig æðislega vel og við fengum endalaus hrós frá þeim deildum sem þurftu á aðstoð okkar að halda: íþróttadeild, lyfjaprófunardeild, fjölmiðladeild...
Næst er það listdans á skautum í febrúar. Því miður fæ ég ekki að stýra okkar liði þar. Kiara þarf að fá sína reynslu líka. Það góða er alla vega að ég er búin að berjast fyrir okkar hönd fyrir nokkrum málefnum þannig að hún þarf ekki að gera það. Hún er ánægð með það.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þegar þýðingar misfarast
2.11.2008 | 09:33
Í löndum þar sem tvítyngi er opinbert þarf venjulega að hafa allt sem kemur frá opinberum stofnunum á báðum tungumálum. Þetta á við merkingar á matvælum, upplýsingaskilti, o.s.frv. Í Kanada þarf allt t.d. að vera á frönsku og ensku, þótt víðar sé pottur brotinn.
Í Wales þarf að birta allt á ensku og velsku en yfirleitt er minna haft fyrir velska textanum en hinum enska. Þetta skemmtilega skilti, t.d. sýnir það:

Eins og sést segir enski textinn: 'No entry for heavy goods vehicles. Residential site only'. Ætlunin var að velski textinn segði hið sama. Það er hins vegar ekki málið heldur segir þarna á welsku: Ég er ekki á skrifstofunni eins og er. Vinsamlega sendið efni til þýðinga'.
Málið var nefnilega það að enski textinn var sendur með tölvupósti til þýðingar og svar barst umsvifalaust. Þeir sem létu prenta skiltið gerðu ráð fyrir því að um væri að ræða velsku þýðinguna og létu prenta skiltið og setja það upp. En auðvitað var þetta ekki þýðingin heldur sjálfkrafa svar frá netþjóni þýðandans sem lét vita að hann væri ekki viðlátinn.
Já, þetta gerist stundum ef fólk passar sig ekki.
P.S. Nú ætla ég að fara að sofa en ég mun fljótlega finna tíma til að segja ykkur aðeins frá skautamótinu um síðustu helgi og frá öðru sem á daga mína hefur drifið síðan þá.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)