Frá Vancouver til Afghanistan
8.12.2008 | 07:46
Ég hef eignast marga góða vini í Vancouver en margir þeirra hafa líka flutt í burtu og sambandið er stopult. Mest megnið af því að allir eru svo uppteknir. Ekki skrítið. Flest er þetta fólk nýkomið úr námi og er því á fullu við að koma sér áfram í því starfi sem það hefur valið sér. Af því fólki sem ég umgengst mest fyrstu árin mín í Vancouver er t.d. Leora í Montana þar sem hún fékk prófessorsstöðu, Jeremy er í New Jersey í doktorsnámi (hann tók masterinn hér) og síðast þegar ég vissi af var Leszek í New York að vinna fyrir Sameinuðu Þjóðirnar.
Svo ég ákvað að senda póst á Leszek svo við gætum nú hist á meðan ég er í Stóra eplinu. Fékk póst frá honum samstundis. Hann vinnur enn fyrir Sameinuðu þjóðirnar en er ekki í New York eins og er heldur í Kabul, Afghanistan þar sem hann er að koma upp OCHA (Office for the Coordination of Humanitarian Affairs) skrifstofum í landinu. Ja hérna. Já, málfræðingar fara víða!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Alltaf nóg að gera
8.12.2008 | 03:49
Það hefur verið hljótt um mig að undanförnu. Það er engin sérstök ástæða fyrir því, bara bloggleti.
Það hefur svo sem verið nóg að gera hjá mér. Nóg að gera í vinnunni, nóg utan vinnu. Spilaði fótbolta á miðvikudagskvöldið, slappaði af á fimmtudagskvöldið og fór svo í þrjú partý á föstudagskvöld.
Föstudagurinn var annars skemmtilegur. Byrjaði á því að fara yfir í sjálfboðaliðamiðstöðina þar sem haldið var smá partý fyrir þá sjálfboðaliða sem þegar eru í vinnu hjá VANOC. Eftir hádegið fór ég svo niður í bæ í skoðanaferð um Canada Place (sjá mynd) þar sem blaðamannahöllin verður á Ólympíuleikunum (blaðamenn Mogga takið eftir!). Þetta var fyrsta vettvangsverð okkar sem munum sjá um framkvæmdir í blaðamannahöllinni. Á eftir fórum við á veitingastað til að kynnast nánar.
Um átta leytið fór ég yfir á annan bar þar sem kunningjar mínir úr fótboltanum komu saman, og þaðan á annan stað þar sem hópur VANOC fólks hélt upp á afmæli einnar samstarfskonunnar. Og þrátt fyrir þetta alla var ég komin heim fyrir miðnætti. Ég hélt ég ætti að spila fótbolta á laugardegi og vildi fá almennilegan svefn en leikurinn var víst í dag (sunnudag). Í staðinn notaði ég fyrri hluta laugardags í snatt og um kvöldið fór ég svo í jólapartý hjá Jönu og Óðni. Frábært partý eins og alltaf.
Í dag var svo fótboltaleikurinn og hann tapaðist því miður. Okkur stelpunum hefur ekki alveg gengið nógu vel eftir að við vorum færðar upp um deild. Við erum að spila á móti betri liðunum og það sést.
Eftir nákvæmlega viku mun ég ganga um borð í vél Icelandair á leið til Íslands. Ég flýg til New York með Rauðauganu á laugardagskvöldi og áfram til Íslands á sunnudagskvöldi. Ég ætla að stoppa í Reykjavík í tvo daga en halda svo áfram til Akureyrar þann sautjánda. Sem sagt. Verð á Akureyri eftir tíu daga. Jei!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Hvað skal gera í New York?
1.12.2008 | 14:57
Ég ætla að stoppa í New York í þrjá daga á leið heim frá Íslandi í janúar og hef ekki enn gert nein plön hvað ég ætla að gera þar - með einni undantekningu. Þið mynduð væntanlega fara á söngleik, eða leikrit, eða tónleika...jafnvel þræða söfnin! Ég...ég er búin að kaupa mér miða til að sjá Montreal Canadiens heimsækja New York Rangers í Madison Square Garden. Fyrir ykkur sem ekki vitið hvað það þýðir þá er þetta hokkíleikur. Ég er mjög spennt fyrir leiknum og held að þetta verði æðislegt.
En nú er spurningin hvað annað mun ég gera í New York. Ég hef eitt annað kvöld á staðnum (plús hálfa kvöldið sem ég hef þegar ég kem á staðinn) og tvo og hálfan dag. Ég hef einu sinni áður komið til New York og þá sá ég Spamalot, UN bygginguna, NBC stúdíóið, Ground Zero (þar sem tvíburaturnarnir voru) og fór upp á topp Rockafeller byggingunni.
Hvað ætti ég að gera í þessari ferð?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Pókerandlit - not
30.11.2008 | 21:00
Ég hef alltaf verið eins og opin bók og berað allar tilfinningar utaná mér. Fólk (og þá sérstaklega vinir mínir) hefur alltaf getað séð hvort mér líkar eða mislíkar við einhvern, hvort mér líður vel eða illa, o.s.frv. Ég hef aldrei talið þetta ókost. Ég met fátt meira en hreinskilni og ég þoli ekki þegar fólk spilar sig annað en það er.
En uppá síðkastið er ég farin að halda að ég þurfti að hafa frekari stjórn á því andliti sem ég sýni fólki. Á föstudagskvöldið var pöbbakvöld hjá VANOC og ég skellti mér með öðrum. Ég var í pínulítið fúlu skapi eins og ég hef verið megnið af vikunni og eftir því sem Liza segir mér var það ákaflega augljóst. Brosið náði aldrei til augnanna og þótt ég rabbaði kurteisislega við fólk var augnaráðið alltaf fjarlægt. Liza skammaði mig fyrir þetta á laugardaginn. Sagði að ég yrði að læra að sýna alltaf áhuga á öðrum á opinberum samkomum, hvernig sem mér liði. Ég gæti sýnt mínar réttu tilfinningar þegar ég væri með nánum vinum. Vitiði, ég held að þetta sé rétt. Ef ég fer á samkomu og mér líður ekkert sérlega vel, þá er öruggt að enginn mun koma og láta mér líða betur ef ég sýni þeim engan áhuga og sit útí horni með fýlusvip. En ef ég brosi við fólki og sýni því áhuga þá er aldrei að vita nema skemmtilegt fólk komi og rífi mig uppúr fýlunni. Ég þarf að fara að brosa við speglinum og læra að setja upp viðeigandi svip.
En bara svo þið farið ekki að hafa neinar áhyggjur af mér: það er ekkert að. Ég hef enga sérstaka ástæðu til að vera í fúlu skapi þessa vikuna. Ég hef frábæra vinnu, gott húsnæði, yndislega vini og uppá síðkastið hef ég haft nóg að gera við að skemmta mér og vera með öðrum. Það eru bara smávægis hnökrar sem valda fýlunni; annars vegar flutningar á vinnustað út í dimmt og leiðinlegt horn úr dásamlegu svæði með stórum gluggum og útsýni yfir fjöllin. Hins vegar smávægis karlavandamál, sem þó virðast alltaf vera meira og minna til staðar.
Á föstudaginn kættist ég þegar Bryn og Jason komu á pöbbakvöldið og ég endaði á því að fara með þeim á ítalskan veitingastað þar sem við borðuðum góðan mat. Þessir strákar eru yndislegir félagar og það er alltaf gaman að vera með þeim. Við spilum saman fótbolta með Vanoc en eigum því miður bara einn leik eftir því það er nokkuð ljóst að við munum ekki komast í úrslitakeppnina. Við unnum bara einn leik af fjórum. En það er allt í lagi, aðalatriðið var að vera með og þessir tveir, ásamt Russ, eru bestu vinir mínir meðal karlmanna hjá Vanoc.
En ég hef líka kynnst dásamlegum konum í fyrirtækinu. Liza er sennilega mín nánasta vinkona hjá Vanoc og við sitjum eins og er hlið við hlið. Því miður mun það breytast við flutningana í næstu viku. Þá munum við Kiara sitja með Bas og Francois af því að yfirmönnunum finnst að Protocol og Venue Protocol þurfi að vinna betur saman. Liza stýrir sjálfboðaliðum ICS og það er þess vegna sem ég vinn líka náið með henni. Undanfarnar vikur hefur vinnan fyrst og fremst gengið út á að fá góða sjálboðaliða með tungumálakunnáttu. Áðurnefnd Kiara er líka stórskemmtileg og við vinnum náið saman enda erum við Venue Protocol liðið og eins og er þær einu sem vinna undir Maureen. Ég umgengst líka töluvert Emmu sem vinur fyrir Sustainability og Elli í Workforce. Þá hef ég kynnst Sari hinni finnsku í gegnum Kiöru og Virginiu, Rebeccu og fleiri stelpum úr Workforce í gegnum Elli.
Jólaball fyrirtækisins verður eftir tvær vikur (kvöldið áður en ég flýg til New York) og nú er verið að finna kjól.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Opna íslenska meistaramótið í tennis
29.11.2008 | 20:36
Skemmtinefnd VANOC hefur undanfarið staðið fyrir sýningum á ástralska skemmtiþættinum 'Leikarnir' eða 'The Games' eins og þeir heita á frammálinu. Í hverju hádegi hafa tveir þættir verið sýndir og við liggjum á gólfinu af hlátri. Húmorinn er frábær og það er greinilegt að handritshöfundar hafa annað hvort unnið við undirbúning að Ólympíuleikum eða þeir hafa haft samstarfsmenn sem hafa gert það. Ég hef reyndar heyrt að sumt sem kom fram í þáttunum hafi í raun gerst við undirbúning Ólympíuleikanna í Sydney þannig að ljóst var að einhverjir innanbúðarmenn láku sögum í handritshöfunda.
Þættirnir eru um SOCOG, undirbúningsnefnd Ólympíuleikanna í Sydney árið 2000, og eru það fyrst og fremst þrír starfsmenn sem eru í aðalhlutverki, stjórnandinn John, fjármálamaðurinn Bryan og markaðsstjórinn Gina.
Því miður hef ég átt erfitt með að finna YouTube vídeó af þáttunum en fann þó þetta:
Því miður er þetta myndband langt frá því að vera fyndnasta atriði þáttanna. Veit ekki af hverju ég get ekki fundið atriðið þar sem rætt er um að brautin fyrir 100 metra spretthlaupið er eingöngu 94 metrar á lengd, eða ar sem reynt er að meta hvernig á að bjarga því að hvorki Nelson Mandela né Caroline prinsessa fljúga inn á opinberu flugfélagi, eða þegar á að sýna Samaranch sundhöllina sem ekki er búið að byggja.
Takið sérstaklega eftir umræðunni um það bil fjórar mínútur inn þar sem fjallað er um opna íslenska meistaramótið í tennis. Bráðfyndið. (Ef þið þekkið Ástrala gæti samt verið gott að horfa á þættina með honum/henni og láta þýða fyrir sig. Ekki alltaf auðvelt að skilja framburðinn.)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Ekki fara svangur út í kjörbúð
29.11.2008 | 19:25
Ég lærði fyrir löngu að fara aldrei út í kjörbúð þegar ég er svöng því þá er ég miklu líklegri til þess að kaupa einhverja óhollustu, fulla af fitu, sem róar líkamann tímabundið en bindur ekki enda á hungrið í langan tíma og gerir mig feita að auki.
Einnig lærði ég að tala sem minnst við fólk á meðan ég er reið við það því þá er ég líklegri til að segja eitthvað heimskulegt (ókei, mér gengur ekki alltaf vel að fara eftir þessu).
Að fara út í ESB viðræður, hvað þá þjóðaratkvæðagreiðslu um málið, á meðan Ísland á í fjármálakreppu er eins og fara svangur út í búð eða senda pirringar sms. Maður á aldrei að semja um stórmál þegar maður stendur illa að vígi. Það getur aldrei farið á góðan veg. Ef fólk vill ganga í ESB þá eiga slíkir samningar að fara fram þegar Ísland er sterkt og sjálfstætt. Ekki þegar við skríðum á gólfinu og betlum lán frá nágrönnunum.
Velja tímann vel, plís!
![]() |
Þjóðin fái að kjósa um ESB |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Karlar eru perrar að eðlisfari
28.11.2008 | 21:32
Það er alltaf skemmtilegt að sjá hversu viðhorf fólks hefur breyst og þá sérstaklega ef maður miðar við menningu okkar fyrir hundrað árum. Meðal þess sem breyst hefur einna mest er viðhorf kvenna til kynlífs. Ég snaraði lauslega yfir á íslensku nokkrum skemmtilegum dæmum úr bók Ruth Smyther, Sex Tips for Husband and Wives, frá árinu 1894.
Flestir menn eru perrar að eðlisfari og ef þeir hafa möguleika á taka þeir þátt í viðbjóðslegum athæfum, svo sem þeim að stunda eðlilegt athæfi í óeðlilegum stellingum; nota munninn á kvenkynslíkamshluta, og bjóða konum að snerta með munninum þeirra óhugnanlega líkama.
Uppgerð veikindi, þreyta og höfuðverkur eru meðal bestu vina kvenna...
Rifrildi, nöldur, skammir og leiðindi eru einnig handhæg tæki ef notuð eru seint á kvöldin, sirka klukkutíma áður en eiginmaðurinn vanalega byrjar að táldraga einkonuna.
Á tíu ára brúðkaupsafmælinu hafa margar konur lokið barneignum og hafa því náð því markmiði að enda allt kynlíf við eiginmanninn.
Eiginkonan skal einungis leyfa honum að lyft sáttserknum upp að mitti og aðeins leyfa honum að opna náttfötin að framan til þess að ná tengslum. Hún skal liggja algjörlega kyrr eða rabba um húsverkin á meðan hann másar ofan á henni.
Um leið og eiginmaðurinn hefur lokið sér af skal eiginkonan byrja að nöldra í honum yfir ýmsum smávægilegum verkefnum sem hann þarf að sinna daginn eftir.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Skemmtilegasta liðið í deildinni
28.11.2008 | 00:01
Ég hef af og til spilað með fótboltaliði sem spilar úti í UBC á miðvikudagskvöldum. Þetta er góður hópur karla og kvenna og gott sambland af úhdlendingum (ég, John frá England, Billy frá Skotlandi, Stephan og Rene frá Þýskalandi, Bono frá Mexíkó) og Kanadabúum (allir hinir). Við Billy erum reyndar ekki í liðinu heldur hlaupum undir bagga þegar aðrir komast ekki. Hvorugt okkar var tilbúið til þess að vera fullgildir meðlimir því við höfum of mikið að gera nú þegar.
Síðasti leikur haustsins var í gær og við töpuðum 2-0 í undanúrslitum. En það bætti það upp að við vorum valin skemmtilegasta lið deildarinnar. Það er nefnilega svo að eftir hvern leik gefa liðin hvort öðru stig fyrir skemmtilegheit og heiðarleika. Bongoliðið vann þá keppni og við fengum bikar og tekin var mynd af liðinu, sem sjá má hér á síðunni. Við erum flott.
Þið takið kannski eftir að ég er með húfu og vettlinga á myndinni enda var býsna kalt. Um frostmark . Jon vildi hins vegar fá að vita eftirfarandi: Hvernig stendur á því að stelpan frá Íslandi er með húfu og vettlinga en strákurinn frá Mexíkó hvorugt???
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Hokkíblogg
26.11.2008 | 06:52
Hér kemur eitt af þessum hokkíbloggum sem eru bara fyrir mig sjálfa og örfáa íslenska hokkíáhugamenn eins og Bjarna og Auði og kannski einn eða tvo aðra sem slæðast hér inn. Þið sem hafið engan áhuga á hokkí getið sparað geðheilsu ykkur og hætt að lesa, en þið hin sem eruð skrítin eins og ég viljið kannski lesa áfram.
Í gærkvöldi fór ég á fjórða leikinn minn á árinu og þetta var enginn smáleikur því Vancouver Canucks tóku á móti besta liði deildarinnar, og líklega besta liði í heimi, Detroit Red Wings.
Rauðu vængirnir frá bílaborginni Detroit eru núverandi Stanleymeistarar og vel að því komnir. Það er varla veikur hlekkur í þessu liði, nema ef vera skyldi markmaðurinn Osgood. Vörnin er firnasterk með fimmfaldan Norrismeistara og fyrirliða liðsins í fararbroddi, Nicklas Lidström. Lidström sem er sænskur eins og nafnið bendir til, er besti leikmaður NHL deildarinnar og hefur verið í nokkurn tíma. Lidström verður án efa fyrirliði sænska landsliðsins á Ólympíuleikunum 2010. Sóknarmennirnir eru heldur ekki til að kvarta undan. Svíarnir Henrik Zetterberg og Johann Frazen, Rússinn Datsyk og Slóvakinn Hossa. Þeir sitja nú í öðru sæti vesturriðilsins, þremur stigum á eftir San Jose en eiga leik til góða. Vancouver situr í þriðja sæti, fimm stigum á eftir San Jose en hafa spilað leik meira.
En nú að leiknum. Ég fékk miða á góðu verði og ákvað að skella mér. Ég fór ein því ódýrustu miðarnir eru alltaf stakir miðar. Þar að auki var Mark að vinna og komst ekki með og Emma hafði ekki efni á að kaupa miða því ódýrustu miðarnir eru samt ekki ódýrir. Ég fór beint úr vinnunni og horfði á liðin hita upp fyrir leikinn. Þetta er eina skiptið sem ég hef horft meira á aðkomuliðið en heimaliðið. Það er bara hægt annað en að dást að Detroit. Og sérstaklega Lidström. Ég er pínulítið skotin í honum sem er svolítið fyndið þar sem ég er ekki skotin í neinum minna leikmanna (bara þjálfaranum þeirra). En í alvöru, Lidström er ekki aðeins stór og fallegur Svíi - hann er besti hokkíleikmaður í heimi. Já, betri en Luongo, Ovechkin, Malkin og Iginla, sem þó eru allir stórkostlegir. Hinir þrír síðarnefndu fá meiri athygli því þeir eru sóknarmenn og skora mörg mörk - varnarmenn fá oftast minni athygli.
Leikurinn byrjaði rólega miðað við leikinn gegn Pittsburgh fyrir nokkrum dögum þar sem slagsmál hófust mínútum eftir að pökkurinn féll. Detroit er ekki mikið slagsmálalið. Þeir nota tækni og hæfileika til að komast áfram. Og þeir byrjuðu miklu betur en við - skutu pökknum tvöfalt oftar að marki. Reyndar er ekki alveg að marka þær tölur - Detroit skýtur að marki hvaðan sem þeir eru og vona að pökkurinn fari inn - Vancouver bíður vanalega eftir betri tækifærum.
Rúmum níu mínútum eftir að leikur hófst opnaði Samuelson markareikninginn með stoðsendingum frá tveim öðrum Svíum, Zetterberg og Lilja. Sænska konan fyrir aftan mig komst ekki hjá því að benda á þetta þótt hún væri þarna til að styðja Vancouver. Vancouver þurfti eitthvað til þess að komast af stað og það var Darcy Hordichuck sem sá um það með því að slást við McCarty og berja hann niður á svellið. Við þetta vaknaði Vancouverliðið og tveim mínútum inní síðari hálfleik jafnaði Pyatt metin fyrir Vancouver. Eftir þetta börðust bæði lið nokkuð heiðarlega og fáir voru sendir í brotaboxið þótt nokkrir hefðu átt skilið að fara þangað. Gott fyrir okkur því Detroit er besta lið í heimi þegar þeir eru manni fleiri. Þeir skora úr þriðjungi allra tækifæra sem þeir fá í þeirri stöðu. Gegn Vancouver hafa þeir staðið sig enn betur og skora úr fimmtíu prósentum allra tækifæra. Og þannig rufu þeir líka jafnteflið í þessum leik. Burrows sem hafði ekki staðið sig eins vel og vanalega var sendur í boxið fyrir klaufalegan krók (hook). Pavol Datsyk notaði tækifærið og skoraði með stoðsendingum frá Kronvall og Samuelson. Aðeins rúmar þrjár mínútur voru eftir af leiknum og fjöldi manns yfirgaf bygginguna. Ég varð að viðurkenna að ég taldi líka að þetta væri búið. Detroit færi ekki að gefa eftir unninn leik þegar svo lítið var eftir. En Daniel Sedin var ekki á því máli. Þegar tvær mínútur voru eftir af leiknum skellti Sami Salo pökknum að marki og Daniel náði að breyta stefnunni framhjá Osgood og í mark. Allt varð brjálað í höllinni. Ég öskraði svo að mig verkjaði í raddböndin. Þetta var æðislegt og annað stigið svo gott sem í höfn. Og eftir heilmikinn barning á miðjunni rann leikurinn út og framlenging varð að veruleika. Og strákarnir mínir eru góðir í framlengingu. Þar spila fjórir gegn fjórum og það virðist virka vel fyrir Vancouver. Við töpum næstum aldrei í framlengingu. Hitt er annað mál að ef enginn nær að skora í framlengingu er farið í vítakeppni og þar stöndum við okkur ekki vel.
En vítakeppni reyndist ekki nauðsynleg því Vancouver réð lofum og lögum í framlengingunni. Sedin bræðurnir og Demetra, hin nýskapaða PHD lína Vancouver, var mögnuð og þeir sendu pökkinn fagmannlega á milli sín án þess að Detroit næði að koma nokkrum vörnum við. Eftir sendingu frá Daniel sendi Demetra pökkinn til Salo sem tók slapshot (hef ekki hugmynd um hvað það kallast á íslensku) og pökkurinn söng í marki Detroit. Osgood átti ekki séns. Og hafi allt orðið vitlaust við jöfnunarmarkið þá lyftist þakið við þetta fallega sigurmark frá Finnanum magnaða. Ég hef ekki einu sinni séð liðið sjálft fagna eins innilega. Enda ekki amalegt að sigra Detroit tvisvar í þrem leikjum.
Og það sem er magnaðast við þetta allt saman er það að Vancouver vann þennan leik án besta markmanns í heimi. Roberto Luongo meiddist í leiknum gegn Pittsburgh um helgina og gat ekki leikið með. Enginn veit hversu lengi hann situr í blaðamannaboxinu þar sem meiddir leikmenn halda sig á leikjum. Og af hverju tel ég ástæðu að nefna þetta? Vegna þess að fjöldi manns heldur því fram að Luongo sé eina ástæða þess að Vancouver hefur gengið svo vel í vetur - að aðrir í liðinu geti ekkert. En maður vinnur ekki Detroit nema maður hafi þokkalegt lið. Okkur vantar reyndar einn markaskorara í viðbót til þess að eiga þokkalega möguleika á að tryggja okkur sæti í úrslitakeppninni, hvað þá að komast fram hjá fyrstu umferð. Ég er enn að vona að Sundin komi til okkar en hann er ekki enn búinn að ákveða hvar hann mun spila í vetur eða hvort hann spila. En í gær heyrði ég að mögulegt væri að við munum fá Kovalchuk sem nú spilar með Atlanta. Kovalchuck er einn af bestu sóknarmönnum deildarinnar og er líklega jafngóður og Ovechkin og Malkin. Atlanta er með ömurlegt lið og honum líður illa þar. Hann vill í burtu. Hey, ég slæ ekki hendinni á móti Kovalchuck!!!
Af liðum Bjarna og Auðar er ekki margt gott að segja eins og er.
Edmonton virtist lofa góðu enda hafa þeir marga frábæra leikmenn í liðinu. Og það sem er best er að þeir eru allir ungir og verða betri og betri með hverju árinu. Þeir eiga bjarta framtíð fyrir sér. En eftir frábæra byrjun hafa þeir hægt á sér og sitja nú í ellefta sæti i vesturriðlinum (af 15 liðum) - þremur sætum fyrir utan úrslitasæti. Vonandi eiga þeir eftir að ná sér á strik.
Ottawa hefur frábæra sóknarmenn (Spezza, Heatley, Alfredson) en aðalvandamálið er markvarslan. Eftir að þeir losnuðu við Ray Emery í fyrra fengu þeir fyrrum varamarkmörð Vancouver, Alex Auld, sem hefur staðið sig þokkalega en er samt langt frá því að vera toppklassa markvörður. Mark vill að við sendum Ottawa Cory Schneider sem er markvörður Manitoba Moose, bestur í AHL deildinni og verðandi toppklassamarkvörður í NHL deildinni. Ef við sendum líka góðan varnarmann ættum við að geta fengið Dany Heatley í staðinn. Eins og er virðist ekki nóg fyrir Ottawa að hafa þrjá góða sóknarmenn því allt annað er í köku. Svona skipting gæti hentað báðum liðum vel. Ottawa situr eins og er í 13 sæti austurdeildarinnar, þriðja neðsta sæti.
Ég vona að bæði þessi lið eigi eftir að standa sig vel því ég styð alltaf kanadísku liðin gegn þeim bandarísku.
Hin þrjú kanadísku liðin eru á þokkalegu róli: Calgary er í sjöunda sæti vesturriðils, Montreal er í fimmta sæti austurdeildar og Toronto er í ellefta sæti austurdeildar. Hey, við erum besta kanadíska liðið í deildinni eins og er...frábært!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Góður matur en vond þjónusta
23.11.2008 | 02:00
Það er alveg ótrúlegt hversu margir fá vinnu sem þjónar hér í borg án þess að hafa nokkra hæfileika til starfsins. Á síðustu tveim dögum hef ég farið þrisvar sinnum út að borða (já, ég legg ekki af þessa dagana) og ég myndi dæma þjónana þannig að einn var mjög góður og tveir voru ömurlegir. Leyfið mér að útskýra:
DÆMI 1: GÓÐ ÞJÓNUSTA
Í hádeginu á fimmtudaginn fór ég á hinn fína veitingastað 'Italian Kitchen' ásamt Maureen og Kiöru sem vinna með mér. Ég ætlaði að fá mér risotto en risotto dagsins var sjávarréttarisotto og ég er með ofnæmi fyrir sjávarréttum. Ég lét í ljós vonbrigði með þetta en þjónninn bjargaði málum með því að bjóða mér upp á svepparisotto í stað, sem ekki var á matseðlinum. Síðar ákváðum við þrjár að deila með okkur eftirrétti því engin okkar hafði pláss fyrir heilan rétt. Mig langaði í súkkulaðirétt en ekki Maureen og Kiöru. Svo við ákváðum að fá okkur jarðaberjarétt og þegar þjónninn kom bað ég hann upp að bæta við smá súkkulaðisósu eða súkkulaði með. Þegar rétturinn kom var súkkulaðistöng þvert á jarðaberjakökunni og ég var hamingjusöm.
DÆMI 2: VOND ÞJÓNUSTA NÚMER 1
Á fimmtudagskvöldið fór ég niður í bæ eftir fótboltaleikinn minn og hitti nokkrar stelpur úr vinnunni á nýja Cactus Club á Burrard stræti. Stelpan sem þjónustaði okkur var hræðileg. Í fyrsta lagi þá hvarf hún reglulega og á meðan fékkst engin þjónusta. Það var ekki að hún væri bara upptekin á öðru borði því þegar við báðum annan þjón að finna hana gekk það ekki. Hún ruglaði pöntunum, hún setti matinn minn á reikninginn hennar Rowenu, og svo framvegis. Í eitt skiptið kom hún að borðinu okkar og spurði hvernig maturinn væri. Liza var í miðri setningu að svara henni þegar hún gekk í burtu. Ég kom aðeins á eftir hinum og hún færði mér aldrei matseðil. Þegar hún spurði hvað ég vildi borða benti ég á að ég væri ekki enn búin að sjá matseðilinn, svo hún færði mér eintak. Tveim mínútum síðar kom hún aftur og vildi fá að vita hvað ég ætlaði að panta. Ég benti á að ég væri ekki einu sinni búin að lesa nema hluta matseðilsins. Almennt séð, ömurleg þjónusta. Yfirmaður hennar varð að koma og leiðrétta sum mistökin.
DÆMI 3: VOND ÞJÓNUSTA NÚMER 2
Við vorum um 20 sem fórum saman út að borða á stað sem heitir Sanafir og býður upp á austurlenska rétti (frá Tyrklandi og nágrenni). Í stað þess að hver fengi sinn eigin reikning vorum við átta í kringum mig sem fengum sama reikninginn. Þegar engan veginn gekk að fá dæmið til að ganga upp urðum við að endurreikna allt og fara vel í gegnum hvað hver fékk. Þá kom í ljós að þrjár pantanir á reikningnum okkar voru frá öðru borði. Þá skráði þjóninn að Liza hefði borgað 30 dollara en hún borgaði í raun 36 dollara. Þarna voru fleiri mistök því eftir þetta allt voru enn sjö dollarar á reikningnum sem enginn átti að borga. VIð greiddum það bara og fórum. Fyrir utan þetta þá gerði þjónninn eftirfarandi mistök:
a) allir fengu matinn sinn á sama tíma á mínu borði nema ég. Eftir að aðrir á mínu borði fengu matinn sinn komu þeir með matinn á næsta borð áður en ég fékk minn. Og samt voru allir með það sama því við höfðum takmarkað val.
b) Ég fékk kaffið mitt löngu á eftir eftirréttinum.
c) Liza fékk aldrei vatnið sem hún bað um og teið sem hún bað um með eftirréttinum kom löngu eftir að hún gafst upp á að bíða og borðaði eftirréttinn.
d) Deb ætlaði að panta kaffi þegar ég loks fékk mitt en þjóninn sneri strax baki í okkur eftir að hann kom með kaffið og sneri ekki við þótt við kölluðum á hann.
Sem sagt, góður matur á öllum þessum stöðum en þjónustan slæm í 2/3 tilfella.
En mikið er nú samt alltaf skemmtilegt að fara út að borða!!!!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)