Við stóðumst fyrsta prófið

Dagurinn í dag var sá mikilvægasti hjá mér síðan ég byrjaði að vinna fyrir Vanoc. Tveir sjálfboðaliða minna fengu það mikla verkefni að túlka á blaðamannafundi. Blaðamannafundurinn var haldinn í tilefni þess að á föstudaginn hefst heimsbikaramót í skautahlaupi hér í Vancouver og ég verð með sex sjálfboðaliða þar sem munu aðstoða við túlkun; tveir tala mandarín kínversku, tveir kóresku, einn  japönsku og  einn rússnesku. Í dag voru það Jenny og Mingson sem ég henti út í djúpu laugina, eða kannski ég ætti að segja að ég henti fyrir hákarlana - þ.e. fjölmiðlamenn!!!

Við háborðið á blaðamannafundinum voru tveir bestu skautahlauparar Kanada, Jennifer Hewitt og margfaldur heimsmeistari Charles Hamelin, ásamt Ólympíuverðlaunahöfunum Apolo Ohno, Meng Wang og Catriona Me Lay Doan. Meng Wang er kínversk og talar sama og enga ensku. Mingson var til staðar til þess að túlka fyrir hana. Hann stóð sig frábærlega og um hálftíma síðar fékk Jenny tækifæri þegar blaðamaður Vancouver Sun bað um einkaviðtal við kóreska þjálfarann og Jenny sá um túlkun. Hún stóð sig einnig með prýði. 

Við fengum líka að fara inn á æfingasvæðið og horfa á æfingar kóreska og kínverska liðsins af hliðarlínu. Mjög áhugavert. Og Michael sem einnig kom með okkur á svæðið fékk mynd af mér með Catriona Me Lay Doan sem hann er yfir sig hrifinn af (en sem ég vissi ekki einu sinni hver var).

Ég var ákaflega stolt af mínu fólki og hef engar áhyggjur af föstudeginum þegar alvaran hefst - þrír dagar uppfullir af skautakeppni og túlkun. Mikið rosalega verður skemmtilegt!

Læt fylgja með mynd af Mingson að túlka.

 

 


Styttist í fyrstu stóru keppnina

Í dag gerði ég nokkuð sem almennt reynist mér erfitt - ég sleppti fótboltanum. Allir í kringum mig eru búnir að vera veikir og sumir lagst í rúmið hundlasnir. Ég er búin að vera að berjast gegn þessari pesti alla vikuna og ég veit að með því að fara vel með mig á ég að geta það. Vanalega spila ég fótbolta þótt þannig standi á. Jafnvel þótt ég viti að stundum versnar mér kvefið við það, sérstaklega þegar kalt er úti og maður andar köldu lofti ofan í lungun. Þegar ég vaknaði í morgun og sá að sólin skein fallega ákvað ég að spila. Svo ég fór í fótboltagallann og lagði af stað út á strætóstöð. Nema ég var ekki nema hálfnuð upp brekkuna þegar ég var orðin þreytt og þá sá ég greinilega að ég yrði ekki fótboltaliðinu mikil hjálp ef ég gæti ekki labbað upp smábrekku, ef brekku skyldi kalla. Svo ég sneri til baka.

En ég verð að viðurkenna að undir öðrum kringumstæðum hefði ég spilað jafnvel þótt ég væri lasin. En þetta er svolítið viðkvæmur tími í vinnunni Á mánudaginn mun ég þjálfa sex sjálfboðaliða í túlkunartækni og á miðvikuaginn munu tveir þeirra taka þátt í blaðamannafundi. Ég, og allir sjálfboðaliðarnir sex munum svo vinna við heimsbikarmótið í skautahlaupi sem hefst á föstudaginn og stendur í þrjá daga. Þetta verður í fyrsta sinn fyrir okkur öll sem við gerum eitthvað svona. Ég hef aldrei unnið við svona keppni og ég hef aldrei áður haft umsjón með sjálfboðaliðum. Og þau hafa aldrei áður túlkað á opinberum vettvangi. Og við höfum ekki hugmynd um hvers konar vandamál munu koma upp þannig að ég verð að vera frísk. Á þriðjudaginn fengum við að vita að Ottavio Cinquanta, forseti Alþjóða skautasambandsins verður viðstaddur keppnina og það kemur í hlut minn og minna sjálfboðaliða að sjá um hann. Orðsporið sem af honum fer er það að hann sé býsna erfiður umgengni, þannig að við verðum að vera tilbúin hverju sem er. Þá er líka hugsanlegt að borgarstjóri Vancouver komi á keppnina og hann er í hjólastól. Því miður er byggingin ekki upp á það besta þegar kemur að hjólastólaaðgengi. Það eru hjólastólapallar víða en enginn í VIP sætunum þannig að hann mun ekki geta setið með öðrum fyrirmennum. Þá er ekki auðvelt að komast í hjólastól í VIP setustofuna. Ég gekk þar um um daginn og við þurfum að fara með hann í gegnum herbergi sem nú er notað sem geymsla. Það þarf að færa allt út eða stafla því kyrfilega út í horn ef við eigum að geta komið hjólastól í gegn. Á Ólympíuleikunum verður þetta ekki vandamál vegna þess setustofan verður á betri stað. En sem sagt, aðalmálið er að næsta helgi verður ekki auðveld og ég þarf að halda mér heilbrigðri eins og hægt er. Þannig að fótboltinn varð að víkja fyrir vinnunni. Gallinn er að ég missi líka af fótboltanum næstu helgi út af skautakeppninni.

Lífið heldur annars áfram að vera skemmtilegt. Svo margt dásamlegt fólk sem ég hef kynnst í vinnunni. Fór út að borða með hóp fólks úr ýmsum deildum og á eftir fórum við Emma niður í bæ og hittum Russ og Bryn og vini þeirra úr samskiptadeildinni. Jason bættist í hópinn síðar. Ég elska þessa náunga. Þeir eru frábærir. Og stelpurnar sem þeir vinna með eru býsna skemmtilegar líka. Við fjögur, ég, Russ, Bryn og Jason munum spila saman í fótboltakeppni Vanoc. Fyrsti leikur á föstudaginn (já þegar ég á að vera að vinna við skautakeppnina). Jason er sannfærður um að við munum tapa öllum leikjum því að afgangurinn af liðinu sé svo lélegur! Hehe, ég sagðist sjá um það. Ég þekki dómarann og hann er einhleypur!!!!!!Devil


Leiðrétting

Bara smá athugasemd. MLS deildin er ekki bandarísk heldur norður-amerísk deild. Toronto spilar nú þegar í deildinni og Vancouver og Montreal stefna bæði að því að kaupa sig inn í hana. Svona eru flestar íþróttadeildir í Norður-Ameríku byggðar upp, svo sem hokkí og hafnarbolti.

En talandi um MLS deildina, ætli Beckham finnist ekki skrítið að vera allt í einu í tapliði eftir Manchester og svo Madrid (var hann ekki annars í Madrid?). LA Galaxy sem hann spilar með situr á botni deildarinnar með örfá stig. Þeir eru alveg skítlélegir. Vancouver sem spilar deild neðar spilaði tvisvar gegn þeim á undanförnu ári og vann þá einu sinni og gerði eitt jafntefli.


mbl.is Barcelona að kaupa lið í MLS
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kosið í Kanada

Í dag var kosið í Kanada. Þetta var ekki sérlega spennandi kosningadagur vegna þess að:

a) Ég vissi að íhaldið yrði áfram í ríkisstjórn og að Stephen Harper yrði áfram forsætisráðherra.
b) Ég vissi að við hefðum áfram minnihlutastjórn.
c) Ég fæ ekki að kjósa af því að ég er ekki með ríkisborgararétt.
d) Hér er aldrei almennilegt kosningakaffi.

Ég fylgdist lítið með úrslitum en mér sýndist á ræðu Harpers núna áðan, og því sem ég hafði séð fyrr í kvöld að ég hafi haft rétt fyrir mér með liði a) og b) hér að ofan. Það lítur því út fyrir óbreytt ástand í landinu. Nú verð ég bara að vona að Bandaríkjamenn geri það rétta og við fáum alla vega demókrata við völd syðra. Úff, aldrei gott að þurfa að treysta á Bandaríkin.


Við Teitur á spjalli

Vegna fjölda áskorana (ja, frá mömmu og pabba alla vega) þá ákvað ég að bæta þessari mynd við. Svipurinn á okkur Teit er óborganlegur.

 


Frábær leikur - frábær sigur

ÁÁÁÁÁÁÁÁFRAM WHITECAPS!!!!!!!! ÁFRAM TEITUR!!!!!!!!!

The Southenders    Russ getting ready for the game to start

Ég var á vellinum og hvatti strákana áfram til sigurs og verðskuldaður var hann. Mér fannst reyndar Puerto Rico Islanders byrja heldur betur og þeir voru sterkari í loftinu. En um miðjan fyrri hálfleik tóku strákarnir hans Teits sig saman í andlitinu og voru sterkari aðilinn eftir það. En Puerto Rico strákarnir börðust vel og gáfu ekkert eftir.

Winger the Whitecaps mascot   Happy supporters  

Staðan var 0-0 í hálfleik en stuðið magnaðist í síðari hálfleik. Fyrsta mark leiksins kom á fimmtugustu og fimmtu mínútu þegar Gbeke, sóknarmaðurinn sterki skallaði boltanum í markið eftir hornspyrnu. Rúmum tíu mínútum síðar jafnaði Gbandi fyrir Puerto Rico, einnig með skalla. En Whitecaps voru ekki á því að fara í framlengingu og á 73 mínútu mátti sjá þá í sínu besta formi. Martin Nash, bróðir körfuboltamannsins fræga, Steve Nash, kastaði boltanum til Moose (uppáhaldsleikmannsins míns) sem sendi boltann hátt fyrir markið þar sem Gbeke stökk hæstur manna og skallaði boltann fram hjá Gaudette, markmanni Puerto Rico. Staðan 2-1 og áhorfendur á vellinum að ganga af göllunum. Puerto Rico sótti stíft eftir þetta en Whitecaps náðu að halda markinu hreinu og þegar komið var fram yfir venjulegan leiktíma byrjaði áhorfendaskarinn að söngla sigursönginn og hélt því áfram þangað til dómari flautaði leikinn af. Um leið og það gerðist var bláum og hvítum strimlum skotið upp í áhorfendastúkuna og allt ætlaði að ganga af göflunum. 

Happy victors    The final score, 2-1 Whitecaps

Russ vinur minn frá Vanoc kom með mér á leikinn og þetta var hans fyrsta reynsla af atvinnufótbolta. Þvílíkur leikur sem hann fékk að sjá. Við héngum áfram á leikvellinum því við vildum fagna með strákunum og ég vildi líka fá tækifæri til að óska Teiti til hamingju. Þar að auki tók Russ það ekki í mál að við færum fyrr en hann fengi mynd af mér með uppáhaldsleikmanni mínum, Moose, sem átti stóran þátt í báðum mörkum Vancouver. Hvort tveggja tókst og má sjá árangurinn hér á síðunni.

Me and Moose    Teitur and I cheer at the end

Ég vil nota tækifærið og óska Teit innilega til hamingju með sigurinn. Þetta er frábær árangur hjá honum á fyrsta ári sem þjálfari liðsins. Eins og hann sagði sjálfur - hvert skal stefna nú? Toppnum er náð. Þeir komast ekki hærra fyrr en liðið nær að kaupa sig inn í MLS deildina. Kannski er það helst að þeir geti stefn að Ameríkubikarnum næst! Til þess þurfa þeir að vinna Toronto og Montreal næsta sumar svo þeir geti keppt fyrir hönd Kanada, og síðan er bara að fara alla leið. Hey, ekkert að því að stefna hátt.

P.S. Óska Mogganum til hamingju með það að hafa fylgst með úrslitunum. Þegar ég kom heim af leiknum, eftir reyndar stopp á veitingastað til að borða kvöldmat, þá var búið að setja upp þessa frétt sem ég tengi á. Frábært. Teitur á það skilið að sagt sé frá hans góða árangri heima á Íslandi. Ekki veitur svo sem af að segja frá góðum hlutum eins og ástandið er almennt heima þessa dagana.

Me cheering

 
 

mbl.is Teitur meistari á sinni fyrstu leiktíð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þrír leikir

Enn ein íþróttahelgi. Hmmm, eigum við ekki bara að vera hreinskilin hérna. ALLAR helgar hjá mér eru íþróttahelgar.

Family ties.jpgÍ gær spiluðu Family Ties, innanhússliðið mitt, gegn Crabs. Veikindi og meiðsli hrjá liðið og við höfðum aðeins fimm stráka og þar af spilar Joe Resendes í marki. Benita spilaði því sem strákur og því var það svo að helming leiksins voru fleiri stelpur á vellinum en strákar, ef frá er talinn markvörður. Þreyta var farin að hrjá liðið undir lokin en samt náðum við jafntefli eftir að hafa lent tveim mörkum undir. Lokastaða 6-6 og annað jafnteflið í röð staðreynd.

Stuttu eftir að okkar leik lauk Spiluðu Canucks sinn annan leik í hokkíinu gegn Calgary Flames. Þrátt fyrir að skora fyrsta mark leiksins lentu

þeir tveim mörkum undir (eins og við) í 1-3 en með ótrúlegri seiglu náðu þeir að jafna, 4-4 og í framlengingu skoraði Demetra sitt fyrsta mark sem Canuck og sigur minna manna staðreynd. Við höfum því unnið tvo fyrstu leiki vertíðarinnar og sitjum á toppi deildarinnar.

Í dag er svo stærsti leikur helgarinnar. Vancouver Whitecaps, fótboltaliðið sem Teitur Þórðar þjálfar, leikur úrslitaleikinn um bikar USL deildarinnar. Ég ætla á leikinn og öskra strákana áfram. Segi ykkur í kvöld eða morgun frá því hvernig fór. Annars ætti Mogginn eiginlega að segja ykkur það.

Í ekki-íþróttafréttum er það helst að ég keypti loksins nýja Sigurrósar diskinn og mér finnst hann frábær. Það besta sem þeir hafa gert síðan fyrsti diskurinn kom út fyrir níu árum. 

Ég keypti líka nýja diskinn með Emiliönu Torrini og hann er ÆÐISLEGUR. Ég hreinlega elska lagið Me and Armani. Frábært lag. Þvílík snilld að nota reggítakt í laginu. Og skemmtilegt að geta farið út í næstu tónlistarbúð í Vancouver og keypt íslenskar plötur.


Hvað er eiginlega að gerast?

Það er pínulítið eins og ég hafi horft á það sem hefur verið að gerast á Íslandi undanfarið í ruglaðri útsendingu. Ég hreinlega skil ekki almennilega ástandið og ég skil ekki hvernig þetta gat orðið svona slæmt. Mig vantar afruglara.

Við hér í Kanada höfum lítið orðið vör við ástandið enn sem komið er en áhrifanna er rétt farið að gæta. Kanadadollar lækkaði eitthvað í dag. Almennt er þó talið að við munum ekki fara nærri því eins illa út úr þessu og svo mörg önnur lönd, meðal annars vegna þess að kanadísku bankarnir eru býsna íhaldssamir og höfðu ekki tekið mörg erlend lán. Annars skil ég yfirleitt ekkert sem kemur að fjármálum.  

Eitt skil ég þó vel. Ef ég hefði enn verið í skóla og enn fengið greitt frá Rannís þá væri ég í vondum málum. Kanadadollarinn var rúmlega 60 krónur þegar ég fékk Rannísstyrkinn. Núna í vikunni fór hann í rúmlega 114 krónur. Það þýðir að styrkurinn lækkaði um helming og það var nógu erfitt að lifa af honum þegar hann var upphaflega veittur. Einhvern tímann í vetur, þegar dollarinn var kominn í rúmar 70 krónur, skammaðist ég yfir því hér á blogginu að krónan væri í vondum málum, því ég fann ógurlega fyrir þessari gengisbreytingu. Einhver náungi skrifaði athugasemd á bloggið þar sem hann ásakaði mig um sjálfselsku af því að ég óttaðist fall krónunnar. Sagði að ég væri bara að hugsa um sjálfa mig og ekki um Íslendinga. Hvar ætli sá náungi sé núna? Ætli fall krónunnar hafi snert hann?

Ég hef mikla samúð með öllum námsmönnum erlendis sem nú þurfa að treysta á íslensku krónuna. Það er ekki gott að fjárhagsstaðan heima verði hugsanlega til þess að þetta fólk hrökklist frá námi og þurfi kannski að snúa heim í ástandið þar. Vonandi finnst á þessi lausn sem fyrst. Ekki bara fyrir námsmenn erlendis heldur alla þá Íslendinga sem nú horfa upp á svartnætti.


mbl.is Námsmenn erlendis í vanda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hokkíið hafið á ný

Hokkíverðtíðin er hafin og Canucks komu út á völlinn af fullum krafti - þeir möluðu höfuðandstæðinginn, Calgary Flames, 6-0. Henrik Sedin skoraði fyrsta mark ársins, þriðjulínumaðurinn Burrows skoraði tvö mörk, Bernier skoraði sitt fyrsta sem Canuck, Rypien skoraði þvert á hrakspár margra sem halda að hann sé gagnslaus, nýskipaður fyrirliði Luongo hélt markinu hreinu... Frábær leikur.

Áður en pökknum var kastað var haldin minningarathöfn um Luc Burdon, unga Canucksleikmanninn sem dó í mótorhjólaslysi í sumar. Það var sorglegt athöfn og fyrir vikið voru mínir menn býsna máttlitlir í fyrsta leikhluta, en svo tóku þeir við sér og hjóluðu yfir andstæðinginn. Gott á Calgary.

Hef þetta ekki lengra að sinni þar sem fæstir nenna að lesa hokkíblogg hvort eð er.

 


Ísland í auglýsingu

Ég var að horfa á sjónvarpið áðan og sá allt í einu Reynisdranga, lopapeysur og annað álíka íslenskt. Ég sat opinmynnt og horfði á. Þetta reyndist vera auglýsing frá Dentyne tyggigúmmí. Gerðu Íslendingar þessa auglýsingu eða skruppu einhverjir útlendingar til Íslands og mynduðu? Hvort sem er, gaman að sjá brot af landinu sínu í erlendu sjónvarpi!

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband