Strákarnir hans Teits standa sig vel
6.10.2008 | 22:57
Strákunum hans Teits Þórðar gengur heldur betur vel þessa dagana. Eftir að Teitur tók við þeim hafa þeir verið á siglingu og í gær unnu þeir Montreal Impact 2-0 sem nægði þeim til þess að vinna sæti í úrslitaleiknum sem leikinn verður á sunnudaginn.
Vancouver hafði tapað fyrri leiknum í Montreal 0-1 eftir að markmaður liðsins, Jay Nolly, var rekinn af vell þegar 40 mínútur voru eftir af leiknum. Dómarinn sakaði hann um að hafa slegið leikmann Montreal. Vídeó af atburðinum virðist nú ekki staðfesta það. Vegna þessa fékk Nolly eins leiks bann og markmaðurinn sem spilaði síðari leikinn var græningi sem aldrei hafði áður leikið í deildinni. En strákarnir spiluðu eins og englar og unnu leikinn 2-0.
Á sunnudaginn munu þeir því taka á móti Puerto Rico í leik um sigur í deildinni.
Flott hjá þér Teitur.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Góð og fjölbreytt helgi hjá mér
6.10.2008 | 02:23
Þessi helgi var býsna fullkomin. Svona bland í poka þar sem finna mátti sitt lítið af hverju.
Föstudagur
Helgin byrjaði í raun um þrjú leytið á föstudaginn þegar við Liza og Matthew yfirgáfum Vanoc bygginguna og skruppum yfir í PNE forum þar sem búið er að útbúa sjálfboðaliðamiðstöð fyrir Ólympíuleikana. Við fengum kaffi og tertu í tilefni dagsins.
Þaðan fórum við Liza á kaffihús og svo á Toby's barinn þar sem haldinn var fyrsti pöbbadagur haustsins hjá Vanoc. Ég hugsa að það hafi verið rúmlega 100 manns á staðnum og því margir sem maður gat rabbað við. Ég þekki orðið ótrúlega marga í vinnunni, aðallega útaf fótboltanum og hafnarboltanum. Síðar um kvöldið fór ég niður í bæ með Bryn sem vinnur í samskiptadeildinni. Þar hittum við Russ, sem vinnur með honum - og sem ég þekki úr hafnarboltanum, og nokkrar konur sem einnig vinna með þeim en sem ég hafði ekki hitt áður. Við skemmtum okkur konunglega og ég kem ekki heim fyrr en um þrjúleytið. Það þykir kannski ekki mikið á Íslandi en það er langt síðan ég hef komið svona seint heim. Þar að auki voru Bryn og Russ svo mikil sjentilmenni að ég eyddi varla krónu allt kvöldið!!! Þar að auki voru þeir herramann svo fyndnir að við hlóum allt kvöld. Í eitt skiptið dansaði Russ striptease fyrir okkur Bryn sem endaði með því að Bryn tróð fimm dollara seðli niður um buxurnar hjá honum!!! Ó já.
Laugardagur
Svaf út á laugardagsmorguninn en fór svo í fótbolta. Presto var að spila sinn fimmta leik á árinu og endaði þessi með 1-1 jafntefli. Við höfum unnið einn leik, tapað einum og gert þrjú jafntefli. Þar sem við færðumst upp um deild erum við býsna sáttar við þetta. Hefðum reyndar átt að vinna því við vorum betri aðilinn.
Eftir fótboltann fór ég heim, slappaði af í heitu baði og horfði svo á einn þátt af Dark Angel en ég fékk nýlega lánaði þáttaröð númer tvö af þessum frábæru þáttum. Ég gat ekki horft á fleiri því tími var kominn til að halda í fótboltaleik númer tvö, að þessu sinni innanhússboltann. Annað jafntefli, 6-6. Við vorum tveim mörkum undir þegar þrjár mínútur voru eftir af leiknum og náðum að jafna með frábæru marki frá Will.
Búið var að bjóða mér í partý niðri í bæ um kvöldiðen ég var allt of þreytt og alltaf löt til að nenna því. Hvað ætli maður geti verið að dandalast fram eftir öllum nóttum komin á þennan aldur! Svo ég fékk mér bara kvöldverð með fótboltaliðinu og fór svo heim að sofa um ellefu leytið.
Sunnudagur
Sunnudagurinn var svo af allt öðru tagi. Tim hringdi í mig um níu leytið og við spjölluðum í rúman klukkutíma. Það eru liðin fimm ár síðan við hættum saman en við erum alltaf í góðu sambandi. Ég myndi sakna samtalanna við hann ef þau hættu. Eftir símtalið fékk ég mér morgunverð, las blaðið, spjallaði við mömmu og fór svo að læra. Tók mér pásu, horfði á annan þátt af Dark Angel, lærði meira skrapp út að versla, þvoði þvott, fór á Tim Hortons og fékk mér kleinuhring, lærði enn meira. Blogga.
Eftir rúman hálftíma hefst Amazing Race, síðan eru það Eiginkonurnar (hvað kallast þær aftur á íslensku? Örvæntingarfullu? Nei, það er eitthvað annað), og að lokum Law and Order: Criminal Intent. Þannig að það er best að ég nái hálftíma af lærdómi í viðbót því svo verður bara horft á sjónvarp í kvöld. Jamm, sunnudagskvöldin eru góð hér vestra.
Niðurstaða
Þetta var dásamleg helgi.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Bakverkir og plön
2.10.2008 | 20:02
Ég eyddi gærdeginum liggjandi á gólfinu með fæturna uppi á stól og ýmist kældi eða hitaði á mér bakið. Mjaðmagrindin virðist hafa færst til á mánudaginn og einhver fjandinn ýtti á taug sem gerði það að verkum að bakið var að drepa mig. Ég gat ekki setið, helst ekki i staðið og aðeins legið í fyrrnefndum stellingum. Sem betur fer sýndist mér á þriðjudaginn að í þetta stefndi svo ég tók vinnutölvuna með mér heim þannig að ég gat unnið liggjandi á gólfinu með tölvuna á maganum. En ég get nú ekki sagt að ég hafi gert mikið.
Ég komst sem betur fer að hjá chiropractor sem skellti mjaðmagrindinni í sína réttu stöðu og það lagaði mikið. Í dag er ég miklu miklu betri og komst í vinnu.
Fór að velta því fyrir mér hvort þetta væri þursabit! En þegar ég hugsaði meir út í það áttaði ég mig á því að ég veit ekkert hvað þursabit er. Veit bara að það hefur með bakið að gera. Getur einver frætt mig?
Hokkíið er annars að byrja. Yfir standa æfingaleikir þar sem liðin spila hver á móti öðru með það í huga að prófa ungu strákana sína. Það verður að segjast eins og er að ungu strákarnir hjá Canucks lofa góðu því í gær spiluðum við án fjögurra bestu varnarmannanna og þriggja bestu sóknarmannanna gegn Calgary Flames (sem vantaði aðeins tvo áf sínum bestu) og við rúlluðum þeim upp, 6-1. Þetta var fimmti sigur minna manna í þessari forkeppni og vonandi halda þeir uppteknum hætti því ég á miða á leikinn í kvöld (vona að ég geti setið). Frábærir miðar, beint fyrir aftan bekkinn. Var ég búin að segja ykkur frá því? Ojæja, góð vísa er aldrei of oft kveðin eins og spakur maður sagði eitt sinn.
Annað kvöld verður fyrsta pöbbakvöld haustsins hjá Vanoc og á laugardagskvöld er leynipartý í tilefni af afmæli eins samstarfsmannanna. Allir eiga að mæta í fötum frá níunda áratugnum. Ouch. Mér finnst ég búin með þann kafla í lífi mínu. Ég á annars að vera að spila fótbolta það kvöld svo ég er ekki viss um hvort ég kemst. Annars er ég ekki viss um það eins og er hvort ég get spilað. Bakið ekki orðið gott ennþá.
Nóg af þrasi, vinna vinna vinna.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Slagorð Ólympíuleikanna 2010 afhjúpað
25.9.2008 | 18:12
Lesið fyrst hér: Slagorð Ólympíuleikanna 2010 var afhjúpað í dag að viðstöddum helstu fjölmiðlum landsins og stórum hluta starfsmanna VANOC. Eins og margir muna sjálfsagt var slagorð Ólympíuleikanna í Beijing, Einn heimur - einn draumur, og í Torino á Ítalíu var slagorðið Ástríða býr hér.
Nýja slagorðið okkar í Vancouver er tekið beint úr þjóðsöng landsins og er....trommusláttur...
With Glowing Hearts
Des Plus Brilliants Exploits
Þeir sem kunna þjóðsöng landsins þekkja að sjálfsögðu línurnar:
With glowing hearts we see thee rise
The true north strong and free.
From far and wide, Oh Canada,
we stand on guard for thee.
Nú er vonin að þessar línur fái að hljóma um allan heim næstu sextán mánuðina. Á Íslandi má þá líklega heyra: Með skínandi hjörtum (eða glóandi hjörtum en mér finnst það ekki eins flott).
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Sport Idol og slökkviliðsmenn
25.9.2008 | 05:32
Í gær var öllum starfsmönnum VANOC smalað saman í stóran sal og haldin Sport Idol keppni, í stíl við American Idol. Þrír dómarar sátu uppi á sviði og framkvæmdarstjórar hverrar vetraríþróttagreinar fengu fjórar mínútur til þess að sannfæra liðið um að þeirra íþrótt væri best. Var þetta allt saman gert í léttum dúr og sérstaklega fór liðið sem sér um listdans á skautum á kostum. Sleðaliðið stóð sig líka vel og hokkí var nokkuð fyndið. Sumar greinar var erfiðara að kynna á skemmtilegan hátt, svo sem gönguskíði, alpagreinar, snjóbretti og skíðafimi. Frábærar greinar í snjó en nokkuð erfiðari uppi á sviði. En við skemmtum okkur konunglega og sigurvegurinn var að lokum Mark Hatton, framkvæmdastjóri luge, enda ákaflega vel máli farinn og skemmtilegur náungi. Búið var að búa til vídeó um hann þar sem hann skautaði um Stanley Park í afkliptum gallabuxum, og stundaði svo tai chi á ströndinni. Við grétum úr hlátri.
Í dag var svo annað skemmtiefni á dagskrá í lok alltof langs deildarfundar hjá okkur í Alþjóðaþjónustunni (International Client Services). Kiara, sem vinnur með mér, var svo fúl yfir því að hún fékk ekki að fara ti l Beijing, að stelpurnar sem fóru tóku með sér útklippta mynd af Kiöru og síðan voru teknar myndir af Kiöru á hinum ýmsu stöðum, svo sem að drekka bjór í flugvélinni, á Kínamúrnum, á opnunarhátíðinni, á körfuboltaleik með Kobe Bryant. Þarna var meira að segja mynd af John Furlong, CEO hjá VANOC þar sem hann hélt á mynd af Kiöru. Og svo reyndar önnur þar sem hann var búinn að henda henni í ruslið. Mjög skemmtilegt.
Góðu fréttirnar eru þær að Warren, sem er tæknimaðurinn sem ég hef ráðið til þess að sjá um tækjamálin okkur á Ólympíuleikunum, gaf mér tvo miða á Canucks leik í næstu viku. Og ekki á slæmum stað, beint fyrir aftan Canucks leikmennina, eða eins og ég sé málið, beint fyrir aftan þjálfarann. Ég veit ekki hversu mikið ég mun sjá af leiknum. Ég mun bara horfa á Vigneault.
Annars ætla ég á hokkíleik núna á föstudaginn með stelpum úr vinnunni. Að þessu sinni ætlum við reyndar ekki á Canucks leik heldur ætlum við að sjá Vancouver Giants sem spila í næstu deild fyrir neðan. Það verður ekki það sama en ætti samt að vera skemmtileg. Á eftir er hugsanlegt að við förum á útgáfuhátíð í tilefni af nýútgegnu slökkviliðsmannadagatali. Jamm, slökkviliðsmennirnir verða þarna að kynna dagatalið. Ætti ekki að vera amalegt.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sitt lítið af hverju
22.9.2008 | 05:35
Þetta var hin ágætasta helgi. Hófst opinberlega á föstudaginn með kvöldverði í Bátaskýlinu (The Boathouse) sem er fínn veitingastaður niður við English Bay í Vancouver. Þarna var saman kominn matarklúbbur Vanoc en um er að ræða félagsskap sem hefur það eitt að markmiði að velja spennandi veitingarhús einu sinni í mánuði og fara saman út að borða. Góð leið til þess að kynnast vinnufélögunum nánar. Og sérlega skemmtilegt að kynnast fólki sem maður sér ekki dags daglega, eða sem maður á engin samskipti við í vinnunni. Þarna kemur saman áhugaverður hópur og ég kynnist nokkrum nýjum sem ég hafði aldrei hitt áður og styrkti kunningsskapinn við aðra. Einn vinnufélaganna var svo riddaralegur að labba með mér að strætóskýlinu og bíða með mér þar til vagninn kom. Alvöru herramennska.
Á laugardaginn var mikill fótboltadagur. Spilaði með Presto klukkan eitt í mígandi rigningu. Það var ekki hundi út sigandi en samt vorum að við að sparka tuðrunni. Ég skoraði þrjú mörk í 4-4 jafntefli. Eitt markanna skoraði ég þannig að ég fékk boltann á miðjum eigin vallarhelming og hljóp með hann upp allan völlinn. Það var þrisvar sinnum brotið á mér á leiðinni en ég náði að halda jafnvægi og tók boltann alla leið og skoraði örugglega fram hjá markmanninum sem kom of seint út úr markinu. Ég er mjög stolt af þessu marki.
Tveimur klukkutímum eftir að Presto leiknum lauk spilaði ég annan leik með innanhússliðinu mínu. Því miður vorum við bara tvær stelpurnar, ég og Meaghan svo við urðum að spila allan leikinn og það er býsna erfitt innanhúss. Enda var ég dauð á eftir. Eftir leik fékk ég mér að borða með nokkrum úr liðinu (flestir voru á leið í afmæli eða aðrar veislur) og eftir það heimsótti ég Emmu sem vinnur með mér og við horfðum á Into the Wild sem er alveg dásamleg mynd. Mæli með henni ef þið hafið ekki séð hana. En munið eftir vasaklútnum.
Í dag fórum við Rosemary niður til Surrey að sjá hann Kai litla hennar Jóhönnu. Ég hafði ekki séð hann þrátt fyrir að hann væri orðinn rúmlega tveggja vikna, vegna þess að það tekur um klukkutíma að keyra heim til þeirra - ef maður er á bíl - um tvo klukkutíma í strætó. Hann er alveg dásamlegur og ég fékk að halda á honum. Mynd hér að neðan til sönnunar. Verð að fá mér einn svona. Vantar bara pabbann.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Af hverju er alltaf verið að skipta um sendiherra í Kanada?
17.9.2008 | 13:47
Ótrúlegar breytingar alltaf á sendiherrum í Kanada. Mér sýnist þeir vera hér að meðaltali í tvö ár. Alla vega er Sigríður Anna fjórði sendiherrann hérna vestra og sendiráðið var ekki stofnað fyrr en 2001 eða svo. Ég hélt að sendiherrar væru vanalega á sama stað í fjögur til fimm ár.
Sama má reyndar segja um konsúlatið í Winnipeg. Ég bjó þar í fjögur ár og á þeim tíma voru þrír konsúlar. Sá fjórði kom innan við ári eftir að ég fór. Sem sagt, fjórir konsúlar á fimm árum. Ég bara fatta þetta ekki alveg.
Ég veit að innan kanadísku utanríkisþjónustunnar eru sendiherrar stundum bara tvö ár á sama stað, en það er fyrst og fremst þegar þeir eru í sérlega hættulegum löndum. Varla getur það verið ástæðan hér. Jafnvel þótt maður geti stundið verið hræddur við birni, riddaralögregluna, hokkíleikara, kurteisa Kanadamenn og kuldann í Ottawa.
![]() |
Sigríður Anna afhendir trúnaðarbréf í Kanada |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Komin á biðárið
14.9.2008 | 17:38
Hér í Kanada er maður á biðári (holding year) þegar maður er orðinn 39 ára. Kannski er það vegna þess að eftir það hættir fólk að eldast og er 39 ára í mörg ár, eða kannski vegna þess að þá er aðeins eitt ár eftir í stóru töluna. Hver sem ástæðan er þá er það ljóst að í dag komst ég á þetta biðár.
Það er svo sem engin stór dagskrá framundan. Eftir hálftíma fer ég í brunch með Marion og um þrjú leytið er kaffi hjá Gunnari og Suzanne. Vanalega býð ég í kaffi hjá mér en af því að við Gunnar eigum afmæli svo nálægt hvort öðru þá ákváðu þau Suzanne að í þetta sinn biðu þau bara í fína veislu fyrir okkur bæði.
Það var annars tekið smá forskot á sæluna í gær. Við stelpurnar í Presto unnum leik númer tvö 3-0 í gær og ég vona að sigurinn hafi verið fyrir mig og fyrir Carly sem var að gifta sig á sama tíma. Um kvöldið spilaði ég með innanhússliðinu mínu. Við töpuðum leiknum, sem var gott (ótrúlegt en satt) því þetta var leikur notaður til að ákveða hvort við ættum að fara upp í aðra deild eða spila áfram í þriðju deild. Markmaðurinn okkar er með cerebral palsy og gæti ekki spilað í annarri deild svo við viljum vera áfram í þriðju. Eftir leikinn fórum við flest á veitingahúsið á vellinum og borðuðum, og þar var sunginn fyrir mig afmælissöngurinn og maturinn borgaður fyrir mig. Og í vinnunni á miðvikudaginn var borðuð stór terta fyrir okkur Kiöru sem báðar eigum afmæli (hún fjórum dögum á undan mér) og Lelitu sem var að gifta sig.
Sem sagt, nóg að gera.
Og nú ætla ég að klæða mig og koma mér út á Enigma þar sem ég ætla annað hvort að borða Eggs Benedict (egg á enskri múffu með hollandaise sósu) eða dæmigert egg og beikon. Hmmmm... hvort vil ég nú í dag? Þetta verður erfiðasta ákvörðun dagsins.
Set afur inn gömlu myndina úr þriggja ára afmælinu mínu af því að mér finnst hún svo skemmtileg.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Fótbolti, gestir og Jimmy Choo
9.9.2008 | 05:19
Vetrarboltinn er hafinn á ný. Liðið mitt, Presto, færðist upp í haust og við spilum nú í gull hluta fjórðudeildar (skipt er í gull og silfur eftir getu). Við þekkjum flest liðin sem við spilum á móti því þetta eru öll liðin sem hafa valdið okkur vandræðum á undanförnum árum. Góðu fréttirnar eru þær að við spilum yfirleitt betri bolta þegar við spilum á móti betri liðum.
Við gerðum jafntefli í fyrsta leiknum sem leikinn var í gær. Spiluðum á móti Kits Saints (sem eru nú engir englar). Komumst í 2-0 (bæði mörkin frá mér) en lentum svo undir 2-3. Jöfnuðum 3-3, lentum undir í 3-4 en náðum svo að jafna úr víti á síðustu mínútu leiksins. Ég var spörkuð niður af varnarmanni sem gat ekkert annað gert þegar ég komst inn fyrir hana. Það fór reyndar illa hjá henni því ekki var nóg með að ég fengi víti út á þetta heldur datt hún á úlnliðinn og braut hann. Stelpuræfillinn grét og grét en ég gat ekkert að þessu gert. Það var hún sem kallaði þetta yfir sig með fruntaskap. Ég bað Benitu um að taka vítið því hún er öryggið uppmálað og hefur aðeins brennt af einu eða tveim vítum á síðastliðnum fimm árum. Við vorum ánægðar með úrslitin en Kits Saints voru hundfúlar. Þær hafa líklega talið að þær færu létt með okkur.
Um kvöldið fór ég á leik með Vancouver Whitecaps sem eru í öðru sæti deildarinnar. Hvernig stendur á því að íslensku blöðin tala aldrei um gengi Whitecaps? Það er sagt frá næstum því hvaða liði í Englandi sem inniheldur Íslending, þótt hann sé á varamannabekknum, en ekkert er minnst á Whitecaps sem þó hafa íslenskan þjálfara, Teit Þórðar. Ég vil bara benda á að þeir voru ömurlegir í fyrra og náðu ekki einu sinni í úrslitakeppnina, en eftir að Teitur tók við hafa þeir verið ýmist í fyrsta eða öðru sæti í deildinni. Það er bara býsna gott. Talið um það.
Ég er annars orðin ein aftur eftir að hafa haft íslenska gesti hjá mér í nokkra daga. Stína Sigfúsar og Ólafur Odds voru á ferð um vesturhéruð og stoppuðu hjá mér í Vancouver. Við áttum voðalega notalega daga saman. Fórum meðal annars á Libra Room og hlustuðum á Monicu Lee, leigðum bíl og keyrðum aðeins um o.s.frv. Alltaf gaman að fá góða gesti.
Maureen, yfirmaður minn kom í dag til baka frá Beijing (Peking eins og borgin er enn kölluð á Íslandi). Hún færði okkur stelpunum eftirlíkingar af Jimmy Choo töskum. Mín er rauð og alveg æðisleg. Nú vantar mig skó við!!!
Og nú er ég farin að sofa. Morgunverður með deildinni klukkan átta í fyrramálið svo ég verð að leggja af stað að heiman klukkan sjö. Þarf minn svefn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Tvö börn, hvort í sinni heimsálfunni
4.9.2008 | 05:09
Annar september var mikill dagur hjá storknum því tvær vinkonur mínar, Rut og Julianna, eignuðust barn - báðar tiltölulega skömmu fyrir miðnætti. Reyndar var um átta klukkutíma munur á fæðingunum þar sem annað barnið fæddist á Ítalíu og hitt í Kanada. Rut og Sergio eignuðust dóttur, Irene, og Julianna og Tim eignuðust son, Kai (eða það var alla vega nafnið sem þau voru búin að ákveða síðast þegar ég heyrði í Juliönnu). Irene kom á hefðbundinn hátt en Kai var tekinn með keisara. Bæði börn eru heilbrigð.
Til hamingju með börnin stelpur mínar.
Hjá mér fæddist ekkert barn og ekkert er á leiðinni. Ég spilaði hins vegar fótbolta í gær og í dag gekk ég upp á Akurhænufjall sem er svo merkileg gönguleið að hún hefur fengið nafnið Grouse Grind, í daglegu tali The Grind. Þetta er um þriggja kílómetra leið og hæðarmunur er um 800 metrar - sem sagt, beint uppá við. Fór með fólki úr vinnunni. Alltaf gott að víkka sjóndeildarhringinn og kynnast fleirum.
Bloggar | Breytt 5.9.2008 kl. 21:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)