Á leiðinni heim

Jæja, þá er heimferðin hafin. Síðustu dagar hafa verið algjörlega brjálaðir. Ég mæli með því að fólk sem er að flytja ákveði að gefa sér nokkra daga í það og á þeim tíma flytji það út úr íbúðinni sinni og inn til vina eða ættingja. Þegar maður er að reyna að flytja og að búa á staðnum líka verður þetta allt of flókið.

Það tók langan tíma að pakka öllu sem ég ætlaði að taka með, selja það sem ég gat selt, gefa það sem ég gat gefið og henda því sem ekkert betra var hægt að gera við. Og það var ekki hægt að þrífa almennilega fyrr en mest allt var farið út úr íbúðinni. Ég var ekki búin að þrífa gólfteppin fyrr en rúmlega átta í gærkvöldi og átti þá að vera komin í afmæliskvöldverð vinkonu minnar. Ég skaust til hennar í mat, fór svo til baka íbúðina til að ganga frá tveim hlutum, fór svo aftur til vinkonu  minnar til að borða eftirrétt og ég sat svo hjá þeim til um klukkan ellefu. Þá keyrði ég niður í bæ þar sem vinkonur mínar höfðu tekið hótelherbergi og þar vöktum við svo mestalla nóttina og horfuðum á brúðkaupið hans Villa. Klukkan sex keyrði Liza mig út á lestarstöð og nú er ég í lestinni á leið til Seattle þaðan sem ég mun fljúga til Keflavíkur.

Ferðin er öllu flóknari en ég ætlaði því þegar ég fór með farangurinn minn á flutningafyrirtækið gleymdist kassinn með hjólinu, svo nú er ég með tvær ferðatöskur, tölvuna í stórum kassa og hjólkassann. Það gekk þolanlega að koma þessu á lestina en nú verð ég að koma öllu í leigubíl og út á flugvöll og koma þessu svo í flug. Og ekki nóg með það, þegar heim er komið verður allt draslið einhvern veginn að komast til Reykjavíkur.

Ég verð annars að segja að ég hefði ekki getað reddað öllu ef ekki hefði komið til hjálp góðra vina. Doug og Rosemary hjálpuðu mér að losna við dót sem ég ætlaði ekki að taka með mér. Mark Freeman og Noriko komu á miðvikudaginn og hjálpuðu mér að bera dótið mitt út í sendlabíl. Mark kom svo aftur í gærmorgun og fór með mér til Surrey og hlóð með mér dótinu  mínu á bretti og svo vöfðum við allt með plasti. Alison í kjallaranum hjálpaði með þrif og einnig Julianna og mamma hennar. Liza kom svo og hjálpaði til líka. Ég hefði ekki getað þetta án þeirra. Það er gott að eiga góða vini.


Brynjolfson fólkið

Þegar ég bjó enn í Winnipeg frétti ég af því að ég ætti frændfólk á Vancouversvæðinu - Brynjólfsson fólkið. Þau eru afkomendur Sigurðar Brynjólfssonar sem, ef ég man rétt, var systursonur Ívars langafa míns. Frændi minn á Íslandi reddaði mér heimilisföngum þessa frændfólks míns og ég sendi þeim bréf og sagði þeim að ég væri að flytja á svæðið. Þau tóku mér ákaflega vel og fyrstu eða aðra helgina sem ég var í Vancouver var mér boðið með þeim í útilegu að Logan vatni hér í Bresku Kólumbíu. Þar hitti ég hreinlega alla fjölskylduna eða svo sem. Börn Sigurðar urðu sex og þau giftust öll og eignuðust börn. Þarna hitti ég sem sagt fólk af öllum ættbogum nema þeim sem flutti til Bandaríkjanna.
 
Upp frá þessum degi var alltaf komið fram við mig sem eina af fjölskyldunni og ég hef eytt með þeim mörgum jólum, páskum og þakkagjörðardögum. Sérstaklega hef ég umgengist börn Brynjólfs, eða Bens eins og hann kallast hér. Hann á fjórar dætur sem allar eru nokkuð eldri en ég, og eru þær systur mjög nánar. Ég hef líka farið í mat til Sigurðar - sem ýmist er kallaður Sig eða Sam - og hans konu Ginny, svo og í boð og veislur til fleiri ættmenna.Þetta fólk er alls ekki náskylt mér en þau eru eina fjölskyldan sem ég hef á svæðinu og þau hafa staðið sig vel í að bjóða mér með.
 
Ég lét þau vita fyrir stuttu að ég væri að flytja aftur heim og að ég myndi kveðja þau þessa páskana. Þegar ég mætti heim til Kathy, yngstu dóttur Bens, voru þar ekki bara þær systur og fjölskyldur þeirra heldur höfðu þau líka boðið Sig og Ginny, svo og systkinunum George og Vicky ásamt þeirra mökum. Þetta var því heilmikil veisla og mér þótti ákaflega vænt um að þau skyldu gera þetta fyrir mig. Ég fékk líka alveg að vita að ég væri heiðursgesturinn og fékk meira að segja fallegt kort sem allir skrifuðu undir. Ég sé þau ekki oft á ári því þau búa í klukkutíma fjarlægð, en ég á samt eftir að sakna þess að fara ekki í mat til þeirra reglulega, borða kalkún og styrkja ættarböndin.
 
Myndin hér var tekin af kvenpeningnum en því miður var Vicky farin því hún og John maðurinn hennar búa hinum megin við landamærin, í Bellingham, svo þau fóru fyrr heim.
 
 IMG_9703

Lögmaður á rölti

Ég fer ákaflega sjaldan niður í miðbæ Vancouver enda ekki margt þangað að sækja fyrir mig. Hér í mínu hverfi finn ég flest það sem mig vantar. Ég skaust þó aðeins niður í bæ á laugardaginn á leið minni að sjá Teit Þórðar og strákana hans spila á móti Chivas USA í MLS deildinni norður amerísku. Ég þurfti að taka tvo strætisvagna og eina lest sama hvaða leið ég færi svo ég ákvað að fara í gegnum miðbæinn og leita í leiðinni að Adidas hlaupaskóm fyrir bróður minn.

Þar sem égeng eftir Granville götu ganga hjón framhjá mér og var maðurinn mjög kunnuglegur. Ég vissi að hann var leikari og mundi að hann hafði verið í vinsælum sjónvarpsþáttum sem sýndir voru í langan tíma en mundi ekki hvaða þáttum. Datt helst í hug Law and Order Special: Victims Unit, því mér fannst hann hafa verið lögga, en var þó ekki viss.Þegar ég kom heim skoðaði ég myndir úr nokkrum lögguþáttum en fann ekki þennan. Rótaði og tætti í minninu og mundi allt í einu hvar ég hefði séð hann - sem lögmann. Mundi ekki heitið á þáttunum en mundi að þeir voru fyrirrennarar Boston Legal með James Spader. Fletti upp á þeim þætti, fann heitið á fyrirrennaranum, The Practice, og þar fann ég nafnið á þessum sem ég sá úti á götu, Michael Badalucco. Hann var Jimmy í The Practice.


Halldór Laxness

Frá Winnipeg

Málið sem kenndi þér hún amma þín,
það sem var áður goðamál í hofum
og geymt var einsog gamalt helgiskrín
- gullið í mörgum fátæklegum stofum, -
kallað í háska; kveðin oft við vín,
kveinað í Nýja Íslands bjálkakofum;
það mál sem ég hef tveggja ára talað
í trú og von á barnagullin mín,
og hvíslað minni fyrstu ást í eyra
einn aftan síðla um vorið, hvílíkt grín!
Það hefur hljóðin þægileg og fín.
Þyrstir mig laungum óminn þess að heyra.

-Halldór Laxness 


Svona gerist

Þeir hjá Applebee's eru nú ekki einir um svona mistök. Þegar ég var sirka fimm ára var ég í gullbrúðkaupsveislu afabróður míns og konu hans þar sem þjónað var til borðs. Mamma bað um kók handa mér og Gunna bróður sem þá var tólf ára. Ég drakk fyrst og kvartaði um að drykkurinn væri ógeðslegur og þegar Gunni smakkaði sagði hann að þetta væri brennivín. Þetta reyndist nú ekki brennivín en áfengur drykkur var það og margbaðst þjóninn afsökunar. En það breytti því samt ekki að við systkinin fengum áfengi að drekka í veislunni.
mbl.is Ungbarn fékk Margarítu í stað eplasafa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Með röngu hugarfari

Wild at heart er náttúrulega snilldarmynd en ég man þegar ég sá hana í bíó á sínum tíma var ég hálf pirruð allan fyrri hlutann vegna þess að ég var á þeim tíma mikill aðdáandi Willem Dafoe og var alltaf að bíða eftir honum, enda var hann auglýstur sem einn af þremur aðalleikurum myndarinnar. Málið er hins vegar að Willem kemur ekki fram fyrr en eftir hlé, og þá í fremur litlu hlutverki. Ég var orðin mjög skapvond yfir því að þurfa að horfa á Nicholas Cage allan tímann og gat ekki fyrirgefið honum þetta í mörg ár þar á eftir. Þannig að eiginlega verð ég að horfa aftur á þessa mynd með öðru hugarfari.

Ég get annars bætt því við hérna að það var þessari mynd að þakka að Chris Isaak sló í gegn. Platan hans Heart Shaped World hafði komið út tveim árum áður en ekki hlotið mikla athygli. David Lynch valdi eitt lag plötunnar til að spila í myndinni. Þetta var lagið Wicket Game og eftir að myndin kom út komst lagið í sjötta sæti Billboard listans og reyndist vera stærsti smellur Chris og sá sem kom honum á kortið.


mbl.is Wild at heart
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Strætósögur

Það er eiginlega ótrúlegt hversu margt merkilegt gerist í strætó. Ef ég væri smásagnahöfundur myndi ég sitja í strætó marga tíma á dag til að viða að mér efni. Maður heyrir undarlegust samtöl, sér undarlegasta fólk og svo lendir maður í alls kyns lífsreynslu.

Annan eða þriðja mánuðinn sem ég var í Winnipeg lenti ég í því að það kviknaði í strætisvagninum sem ég var í. Ég var í vagni númer 60 sem keyrði frá miðbænum eftir Pemberton highway og út í Manitobaháskóla. Þetta var á laugardegi og ég var á leið á sjálfsvarnarnámskeið sem ég tók þarna fyrstu önnina í Kanada. Allt í einu fer ég að finna hálfgerða brunalykt og fólkið í kringum mig greinilega líka því fleiri fóru að hnusa og líta í kringum sig. Enginn segir samt neitt því á veturna er alltaf brunalykt í Winnipeg. Allir að kynda arininn. En allt í einu tók einhver eftir þykkum, svörtum reyk sem lagði frá afturdekki hægra megin í vagninum. Bílstjórinn var látinn vita, vagninn stoppaður og við þurfum öll að fara út og bíða eftir næsta vagni. Sem er aldrei skemmtilegt í frosthörkunum í Winnipeg. Ég kom of seint á æfingu.

Og til að reyna að toppa strætisvagninn sem brann lenti ég í öðru strætisvagnaævintýri á föstudaginn. Var á leið í kvöldmat með vinkonum mínum og tók vagn 99 sem er hraðvagninn úr háskólanum. Vorum á leið niður langa brekku á tíundu götu og ég stóð við aftari dyrnar á vagninum og hafði því gott útsýni. Allt í einu virðist bílstjórinn ætla að skipta yfir á hægri akrein og ég hugsa með mér: Bíddu, er ekki bíll við hliðina á okkur? Og jújú, allt í einu heyrist þetta hræðilega hljóð þegar tveir bílar skrapast saman. Og ég veit ekki hvað var í gangi því strætóinn heldur áfram að þrýstast yfir á hægri akreinina og reyrir jeppann við hliðina fastan við staur. Mikil mildi var að enginn meiddist í jeppanum því bíllinn kramdist á milli strætósins og ljósastaursins. Að lokum kom annar strætó og tók eins marga og hægt var, en þetta gerðist á föstudagseftirmiðdegi stutt frá UBC þegar UBC vagnarnir eru allir fullir af þreyttum námsmönnum. Ég komst í fyrsta vagn og var ekki mjög sein í matinn en hafði alla vega sögu að segja.

Eitt sinn sat ég í strætó á leið úr miðbænum út í Horseshoe Bay þar sem ferjurnar fara yfir í nálægar eyjur. Stelpan fyrir aftan mig var í símanum við vinkona sína og fór að segja henni frá einnar nætur gamni sem hún hafði notið nóttinni áður. Ekki beinlínis samtal sem maður á að hafa í síma. Í enn annað skiptið var heimilislaus maður við hliðina á mér að tala við stelpu (sem hann þekkti ekkert) og fór að segja henni frá því hvernig hann hefði eyðilagt líf sitt með eiturlyfjum og heimsku.

Svo var það skiptið sem ég sat fyrir framan heimilislausan mann með tvo stóra poka af illa lyktandi drasli. Hann lyktaði sjálfur svo illa að allir kúguðust í kringum hann.

Sem sagt, alltaf nóg af söguefni í strætó.


Ekkert samræmi í stafsetningu

Hér vantar samræmi í stafsetningu. Í fréttinni segir:

"Sjö ríki Bandaríkjanna selja marijúana í lækningarskyni á opnum markaði. Það eru ríki Kalifornía, Colorado, Michigan, Montana, Washington, Oregon og New Mexico. Í fjórum öðrum ríkjum Arizona, Rhode Island, New Jersey og Maine auk Washington D.C. munu sölustaðir fyrir þessa vöru opna síðar á árinu. Varan er leyfileg í Havaí, Nevada, Alaska og Vermont, en í þessum ríkjum eru ekki opnir sölustaðir."

Takið eftir að stafsetningu Hawaii er breytt hér í Havaí, væntanlega samkvæmt íslenskum stafsetningarreglum þar sem við notum hvorki w né tvöfalt i. En hvers vegna er þá Washington skrifað með tvöföldu vaffi? Varla er w í Hawaii meira á móti íslenskum reglum en w í Washington. Er ekki lágmark að viðhalda sömu stöðlum innan sömu málsgreinar? Og því ekki bara nota ensku stafsetninguna í þessu tilfelli. Það er engin hefð fyrir því að kalla Hawaii Havaí eftir því sem ég best veit.


mbl.is Sala á marijúana verði meiri en á Viagra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alveg magnaður leikur

Ég var þarna á leiknum eins og reyndar margir aðrir Íslendingar enda þurfum við að styðja Teit og strákana hans.

Ég var einmitt á síðasta leik liðsins í USL deildinni, sem einnig var síðasti leikurinn á Swangard vellinum, en þegar liðið komst upp um deild var Swangard ekki nógu stór enda tók hann held ég ekki nema um 5000 manns. Þessi nýi völlur, Empire Fields, er bara til tímabundinnar notkunar á meðan verið er að breyta BC Place þannig að leikvangurinn sé með opnanlegu þaki. Reyndar þarf slíkt ekki fyrir fótboltann því flestir leikir eru vor, sumar og haust, og þá rignir ekki svo  mikið, en kanadíski fótboltinn mun nota sama völl og þeir

leika vel inn í vetrarmánuðina og þá er gott að geta skellt þakinu yfir svo ekki verði allir blautir.

Það var heilmikil opnunarhátíð fyrir leikinn og myndin með moggafréttinni sýnir m.a. körfuboltasnillinginn Steve Nash ásamt Christie Clark, nýjum fylkisstjóra BC. Ekki kom hins vegar fram að ástæða þess að Nash var þarna var sú að hann á hlut í Whitecaps liðinu. Hann er sem sagt bossinn hans Teits, ef svo má segja.

Liðið byrjaði ekkert sérlega vel. Virtust svolítið hægir og Toronto virtist líklegri til að taka þetta, en eftir fyrsta mark Whitecaps færðist líf í leikmenn og þeir tóku við stjórn leiksins. Eftir það virtist sigurinn aldrei í hættu enda náðu þeir að komast í 4-1 áður en Toronto minnkaði muninn í tvö mörk. Jay Nolly stóð í marki Whitecaps en hann hefur verið aðalmarkvörður liðsins undanfarin þrjú eða fjögur ár, en ég er nokkuð viss um að honum er ætlað að vera varamarkvörður því mig minnir að Teitur hafi fengið til sín nýjan markmann.

Skemmtilegur leikur og alltaf gaman að vinna Toronto, sama hver íþróttin er. Vonandi er þessi sæti sigur von um það sem koma skal og vonandi nær Teitur góðum árangri með strákunum. Sumir eru svo bjartsýnir að halda að þeir komist alla leið í sumar en það er kannski óþarfa bjartsýni. Þeir hafa að mestu leyti nýjan mannskap og strákarnir eiga eftir að spila sig saman. Ég myndi segja að ef þeir komast í úrslitakeppnina þá megi það teljast viðundandi árangur fyrsta árið í efstu deild.


mbl.is Frábær byrjun Teits í MLS-deildinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Undarlega tekið til orða

Væri ekki betra að fækka mistökum en bara að minnka þau? Þótt að sjálfsögðu sé mikilvægt að gera engin stór mistök.
mbl.is Margrét Kara: Reynum að minnka mistökin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband