Spilavíti
17.3.2011 | 06:40
Margir ólöglegir spilaklúbbar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
Ángæð með fréttaflutning
15.3.2011 | 07:40
SA í góðri stöðu eftir sigur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Útsláttarkeppni í boltanum
14.3.2011 | 05:37
Það virðist sem hver einasti fótboltaleikur sem ég spila þessa dagana fari fram í mígandi rigningu. Enda hefur ekki mikið stytt upp í Vancouver undanfarna tvo mánuði. Gallinn er að þegar rignir svona eru leikirnir færðir á gervigras og einhverra hluta vegna spilar liðið mitt aldrei eins vel á gervigrasinu. Við unnum held ég alla leikina í vetur sem leiknir voru á grasi, en töpuðum flestum leikjum á gervigrasi.
Keppnin er þannig að fyrst er farið í riðlakeppni, svokallaðan Round Robin, og efsta liðið í hverjum riðli heldur í lokakeppnina um bikarinn. Hin liðin þrjú fara svo í hálfgerða aukakeppni og leika nokkurn veginn um bikar tapliða. Eitt liðið í okkar riðli hætti keppni svo þrjú lið voru eftir. Unnum fyrri leikinn og töpuðum þeim síðari. Það sama gerðist hjá hinum liðunum tveim svo öll lið voru jöfn með þrjú stig. Því miður var markatala okkar ekki svo besta svo við lentum í keppni tapliða en ekki í keppninni um bikarinn.
Og svo vorum við látnar spila aftur gegn liðinu sem í raun sló okkur út í síðustu viku. Sá leikur hafði verið ótrúlegur. Heppnin var ekki með okkur. Við áttum ábyggilega 20 skot að marki en ekkert fór inn. Við hittum stöng og slá og bjargað var á línu oftar en einu sinni. Það var eins og ósýnilegt net væri fyrir markinu. Í dag var þetta aðeins betra. Við áttum reyndar færri skot að marki en tvö fóru inn svo staðan var 2-2 í lok venjulegs leiktíma. Þá var farið beint í vítakeppni. Ég þoli ekki vítakeppnir. Alltof stressandi. Fer á taugum. Við fimm sem valdar vorum til að taka vítin fengum að ráða sjálfar í hvaða röð við færum svo ég bað um að fá að fara fyrst - minna stress en síðar. Það dugði og ég skoraði örugglega. Liðin héldust í hendur - þær skoruðu, við skoruðum, þær brenndu af, við brenndum af... svo skoruðu bæði lið og svo brenndu bæði af. Komið í fimmtu umferð. Þær skutu fyrst og skutu framhjá. Allt stressið á varnarmanninn Meghan. Og hún skýtur...beint á markmanninn. NEMA, markmaðurinn náði ekki að halda boltanum, hann skoppaði í jörðina...innan við marklínu. Við stóðum allar svekktar og horfðum á þar til Meghan byrjaði að hoppa upp og niður og fagna. Dómarinn hafði dæmt mark.
Við erum þá komnar í fjögurra liða úrslit í keppni tapliða. Eða eins og við segjum: We want to be the winners of the loosers!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Skólinn minn í 31. sæti
10.3.2011 | 16:19
Skólinn minn, University of British Columbia, er þarna í 31. sæti - á eftir bæði Toronto og McGill. Það er merkilegt fyrir þær sakir að á nýlegum lista um hvaða skólar eru bestir (þessi könnun var um hverjir væru virtastir) er UBC ofar hinum báðum. Hins vegar voru Toronto og McGill lengi taldir bestu skólarnir í landinu og aðeins á síðustu árum sem UBC hefur verið að síga fram úr þeim. Þannig að líklega er það þannig að virtustu skólarnir tengjast beint því hvaða skólar eru taldir bestir, en svo þegar það breytist hverjir eru bestir þá tekur einhvern tíma fyrir almenningsálitið að breytast. Samkvæmt því ætti UBC að síga fram úr hinum tveim að lokum.
Annars væri mjög spennandi að sjá hvað það er sem ræður úrslitum um álit fólks á skólum. Það hefur t.d. alltaf hjálpað Harvard að þeir þykja hafa eina bestu lögfræðideild í heimi. Og af því að lögfræðingar eru vinsælir í sjónvarpi þá er því oft flíkað að hinn eða þessi hafi próf frá Harvard. MIT er þó t.d. miklu betri skóli þegar kemur að alls kyns tækni (enda hafa snillingarnir í Big Bang Theory held ég flestir próf frá MIT) og þeir eru einnig betri í málvísindum, þar sem Noam Chomsky kenndi sem lengst. Gömlu Ivy league skólarnir munu sjálfsagt alltaf hafa gott orðspor líka, út af fornri frægð, og vegna þess hversu fólk flíkar oft prófum sínum hafi þeir lært þar.
Í Kanada gefur tímaritið McLeans út lista á hverju ári yfir bestu skóla landsins og einhvern tímann lagðist ég yfir það til að kanna hvernig þeir reiknuðu út gæði skólanna. Þar kom mér margt á óvart. Það sem mér þótti kannski merkilegast var að eitt af því sem veitti háan stuðul var einkunn innkomandi nemenda. Þ.e. hversu góðir voru nemendur þegar þeir hófu nám í skólanum. Ég get skilið að það skipti einhverju máli í USA þar sem nemendur ferðast oft landshorna á milli til að fara í betri skóla, en það er mjög sjaldgæft í Kanada. Alla vega á B.A. stiginu. Þar fara flestir í skóla í sinni heimabyggð. Að því leyti er ekki um neitt val að ræða og bestu nemendurnir sækja því ekki í ákveðna skóla eins og þeir gera í Bandaríkjunum.
En nú er ég orðin svöng og ætla að fá mér morgunverð.
Harvard virtasti háskóli heims | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Lítið skipulagt fram í tímann
9.3.2011 | 21:02
Ég er búin að vera að kíkja á leiguauglýsingarnar á netinu undanfarið og það er undarlegt hvað Íslendingar virðast skipuleggja lítið fram í tímann. Í lok febrúar var fjöldi íbúða á leiguskrá, allar annað hvort lausar samstundis eða lausar fyrsta mars. Sumar auglýsingar buðu fólki að koma og skoða 27. og 28. febrúar íbúðir sem voru til leigu fyrsta mars. Þetta er alveg stórfurðulegt. Er ekkert auglýst svona tveim mánuðum áður en það er laust? Ég hef ekki séð eina einustu íbúð til leigu fyrir fyrsta maí, og ég held ég hafi séð eina sem er laus fyrsta apríl. Þetta pirrar mig ógurlega því ég vil helst geta tryggt mér íbúð sem fyrst svo ég geti farið að plana í kringum búsetuna.
Ég er hrædd um að þetta verði ekki það eina sem sjokkerar mig þegar ég flyt heim. Er til stuðningshópur fyrir Íslendinga sem koma heim eftir að hafa verið lengi erlendis?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Casey er bestur
25.2.2011 | 21:18
Það er hræðilegt ef Casey Abrams dettur úr keppni vegna veikinda því hann er bestur þeirra 24 sem eftir eru. Sjáið hérna: http://www.youtube.com/watch?v=vyPHi4DY4fk (af hverju get ég ekki lengur sett Youtube vídeó beint inn á síðuna?)
En ég skil ekki af hverju hann þarf að syngja í kvöld. Það er enginn American Idol þáttur í kvöld. Í gærkvöldi lauk valinu á 24 bestum og strákarnir fara svo upp á svið á þriðjudaginn og stelpurnar á miðvikudaginn. Er þá ekki nóg fyrir hann að vera tilbúinn á þriðjudaginn? Eða er þetta tekið upp svona löngu áður en það er sýnt? Ég hélt að þegar komið væri í 24 manna úrslit þá væri tekið upp samdægurs. Eða kannski er það bara topp tíu.
Idol-keppandi á sjúkrahúsi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Á leið heim
23.2.2011 | 17:49
Fjölskyldan, vinir og vinir á Feisinu hafa nú þegar heyrt fréttirnar en þeir sem bara fylgjast með mér í gegnum þetta blogg ekki. Og því er tími kominn að segja ykkur hvað gerðist í síðustu viku.
Undir lok síðasta árs byrjaði ég á því að líta á auglýstar prófessorsstöður, sem þá voru fyrst og fremst auglýstar í Bandaríkjunum. Lítið var í boði á mínu sviði, merkingarfræði.Kannski einar þrjár stöður í fræðunum auk nokkurra í almennum málvísindum. Ég held ég hafi sótt um sjö. Búin að fá þrjú nei og hef ekki heyrt neitt frá hinum. Sumir eru enn að velja, aðrir láta mann bara ekkert vita. Líkurnar á að fá stöðu voru litlar frá upphafi. Vel yfir hundrað manns sóttu um hverja stöðu, og því miður er það staðreynd að í akademískum fræðum er töluvert um snobb og það skiptir máli frá hvaða skóla þú útskrifast. Ef þú ert með próf í málvísindum frá MIT er t.d. nokkuð öruggt að þú fáir vinnu. Allir vilja bólstra deildir sínar með prófessorum frá þeim virta skóla - jafnvel þótt Chomsky sé að mestu hættur að kenna.
Margir spurðu mig hvort ég ætlaði til Íslands að námi loknu. Ég taldi það ekki líklegt. Vegna fjárhagsstöðu landsins hefur mikið verið skorið niður til menntamála og HÍ hefur varla ráðið kennara í hugvísindum síðastliðin fimmtán ár. Sá niðurskurður gerðist sem sagt löngu fyrir hrun. Eitt sinn voru a.m.k. fjögur stöðugildi innan málvísindadeildar, nú er þar held ég einn fastur kennari. Íslenskudeildin hefur staðið sterkar en þar er ekki heldur mikið ráðið. Og lausar stöður virtust ekki heldur vera innan íslensku fyrir erlenda stúdenta eða kennarasviðs. Og íslenskukennarar við Háskólann á Akureyri eru yngri en ég og eru því ekki beinlínis á leið á eftirlaun. Þannig að ég sagði alltaf nei. Ég væri ekki á leið til Íslands.
En á einni nóttu breyttist allt. Fyrrverandi umsjónarkennari minn og núverandi vinur, Eiríkur Rögnvaldsson, stýrir um þessar mundir íslenska hluta samevrópsks málvísindaverkefnis þar sem til stendur að skrásetja nákvæmlega stöðu evrópsku tungumálanna og hann bauð mér vinnu við verkið. Ég þurfti ekki mikið að hugsa mig um. Þarna gafst mér tækifæri til að koma aftur heim.
Lengst af langaði mig ekkert til Íslands. Þ.e. það stóð alltaf til að koma heim að lokum, en lengst af var ég ekki tilbúin. Mér líður vel í Kanada, hér á ég góða vini og Vancouver er eins og allir vita sem lesa blöðin, besta borgin að búa í. Hefur nú verið kosin það fimm ár í röð. Hér er reyndar dýrt að búa en veðurfar, náttúra og tækifæri gera borgin dásamlega. Það tekur mig tíu mínútur að ganga niður á strönd þar sem ég syndi í sjónum á sumrin. Það eru skíðasvæði beint fyrir ofan borgin og Whistler í tveggja tíma fjarlægð. Það er hægt að skjótast til Seattle á þrem tíum. Kletta fjöllin eru í nokkurra tíma keyrslu. Hér spila ég fótbolta og klifra í klettum.
En í vetur sat ég í tíma hjá einum kennara mínum. Ég var aðstoðarkennari og sá um að fara yfir próf og verkefni. Stundum reikaði hugurinn út úr tímum, enda kunni ég efnið vel. Einn daginn varð ég heltekin lönguninni að fara heim. Ég fylltist hreinlega heimþrá eins og þeirri sem ég hef ekki haft síðan fyrsta árið mitt erlendis. Mig hreinlega langaði að flytja aftur heim. Sjá fjölskyldu mína oftar en annað hvort ár. Borða slátur þegar mig langar. Helst langaði mig til Akureyrar. Þessi tilfinning kom til baka þegar ég kom heim um jólin. Mér fannst ég vera tilbúin til þess að flytja til baka. En þrátt fyrir það óraði mig ekki að það myndi gerast svo fljótt.
Núna eru tilfinningar blendnar. Ég hlakka til þess að flytja heim, en ég kvíði líka fyrir því að yfirgefa þessa paradís sem Vancouver er. Ég kvíði fyrir að kveðja vini mína en mest kvíði ég fyrir því að borga Eimskip reikninginn fyrir því að flytja dót mitt heim.
En sem sagt, á leið heim til Íslands eftir tæplega tólf ár í Kanada. Ef einhver veit um góða en ekki mjög dýra tveggja herbergja íbúð sem verður laus annað hvort í maí eða júní þá má sá hinn sami gjarnan láta mig vita. Sérstaklega ef má hafa gæludýr, því mig dreymir um að eignast aftur kött. Hef ekki átt kött í tæp tuttugu og tvö ár en elska þessi litlu kríli.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Doktorstitillinn hérumbil í höfn
15.2.2011 | 03:47
Jæja, það er víst kominn tími til að ég skrifi aðeins um atburð síðustu viku. Á þriðjudaginn var varði ég nefnilega doktorsritgerð mína, Aspects of the Progressive in English and Icelandic. Vörnin var löng og erfið enda mikið spurt og dómnefndin misjafnlega óvægin. En mér skilst á vinum mínum sem voru þarna að ég hafi staðið mig vel og ekki látið setja mig út af laginu. Mér var líka sagt að fyrirlesturinn hafi verið skýr og vel fluttur og það sögðu jafnvel þeir sem ekki eru í málvísindum. Það þótti mér gott að heyra. Til að gera langa sögu stutta þá stóð ég prófið en fékk heim með mér lista af athugasemdum frá dómnefndarmönnum sem vilja láta gera ýmsar breytingar. Við því var að búast - það er undantekning ef ekki er beðið um breytingar. Athugasemdirnar voru reyndar fleiri en ég bjóst við en þá er bara að bretta upp ermar og skella sér í lokahnykkinn. Aðalatriðið er að ég stóð vörnina og er því svona hérumbil orðin doktor. Enda hafa vinir mínir verið að prófa hvað fer best saman: Dr. Jóhannsdóttir, Dr. Stína, Dr. Kristín, Dr. J. Ég er hrifnust af Dr. J og myndi þar með feta í fótspor körfuboltasnillingsins Julius Erving.
Myndin hér á síðunni er tekin þegar ég er nýkomin út af vörninni og með mér er Peter vinur minn sem varði sína ritgerð fyrir jólin. Ég er svo úrvinda að ég náði ekki einu sinni að brosa fyrir myndina svo það mætti halda að ég væri ekkert ánægð með að ljúka þessu prófi.En það er nú öðru nær. Það er mikill léttir að vera búin með þetta en mér mun líða enn betur þegar ég er búin að skila inn ritgerðinni.
Á laugardaginn var liðið ár frá því Ólympíuleikarnir voru settir, 12. febrúar 2010. Í því tilefni var heilmikið partý í borginni og meðal annars var Ólympíueldurinn tendraður á ný. Reyndar var mígandi rigning allan daginn sem gerði það að verkum að ég nennti ekki út en um kvöldið fór ég svo í heljarinnar partý þar sem komu saman þeir fyrrum starfsmenn sem enn eru í borginni. Þar hitti ég fjölda félaga. Suma hefur maður ekki séð í heilt ár, aðra hitti ég reglulega enda breyttust þeir úr vinnufélögum í vini. Mikið var þetta skemmtilegur tími þarna í fyrra.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Spjaldaglaður dómari eyðileggur möguleika okkar á sigri í deildinni
31.1.2011 | 18:50
Við stelpurnar í Presto spiluðum okkar athyglisverðasta leik um helgina. Fyrir leikinn vorum við í fyrsta sæti okkar riðils en liðið sem við spiluðum á móti var í öðru sæti og átti leik til góða. Við urðum að vinna þennan leik til að vinna deildina. Við töpuðum 3-1 fyrir liðinu síðast og spiluðum þá ekki mjög vel.
Fyrir leikinn lagði þjálfarinn mikið upp úr því að við byrjuðum vel því liðið hefur átt það til að vera lengi í gang og stundum vöknum við ekki alveg fyrr en við erum komin einu eða tveim mörkum undir og þurfum þá að berjast til baka. Það hefur vanalega tekist en á móti eins sterku liði og þessu er slíkt ekki gott. Þetta tókst og við byrjuðum af kappi. En undir lok fyrri hálfleiks dró til tíðinda.
Hitt liðið, Mudslide, var í harðri sókn og boltinn skoppar af vellinum (lélegum gervigrasvelli) og í hendur varnarmanns okkar. Dómar flautar umsvifalaust og kallar á vítaspyrnu, en að auki gefur hann varnarmanninum rautt spjald. Ég hef spilað í þessari deild í sjö ár og hef aldrei áður séð rautt spjald gefið. Ekki einu sinni fyrir verstu brot, og aldrei fyrir hendi. Það er rétt að dómarinn hefur rétt til þess að gefa rautt spjald en hann þarf þess ekki. Enginn annar dómari í deildinni gefur rautt fyrir hendi. Þetta er fjórða deild kvenna. Geymið rauðu spjöldin fyrir brot. Hann tautaði eitthvað um að honum þætti fyrir því en hann yrði að gera þetta. Bull. Þær skoruðu úr vítaspyrnu og staðan 1-0. Við þar að auki manni færri.
Við héldum hins vegar áfram að spila frábæran leik en komumst ekki í margar sóknir þar sem miðjan þurfti að spila hálfgerða vörn og því var erfitt að koma boltanum til framherja, sem þar að auki voru tveir á móti fjórum varnarmönnum í hinu liðinu.
Þegar um tíu mínútur voru eftir að leiknum skaut Adrienne í okkar lið fallegum bogabolta að markinu sem stefndi í bláhornið hægra megin. En einhvern veginn náði markmaðurinn að koma hönd á boltann og þar sáum við flottustu markvörslu í fjórðu deild kvenna síðastliðin sjö árin. Ótrúlegt að hún skyldi ná þessu. En þar með var ekki búið. Einn af okkar miðjumönnum hafði komið hlaupandi að markinu þegar Adrienne skaut og var að reyna að stoppa sig á rennblautum vellinum. Var hálfdettandi þegar markmaðurinn hleypur að henni á eftir boltanum sem hún hafði þá rétt varið, og miðjumaðurinn okkar dettur beint fyrir framan markmanninn sem þá dettur um liggjandi miðjumanninn. Það var augljóst okkur öllum sem horfðum að miðjumaðurinn okkar var að reyna að stoppa sig og rann. Hún var ekki að reyna að taka markmanninn. En dómarinn sá þetta ekki svo og aftur fór rauða spjaldið á loft. Skil ekki af hverju. Ég veit ekki hversu oft hefur verið verr brotið á mér en þetta án þess að nokkuð spjald sé gefið. Og ef hann vildi senda skilaboð hefði hann getað gefið gult spjald. Í staðinn sendi hann okkur tvo menn niður og með níu leikmenn gegn ellefu varð erfiðara að verjast og hitt liðið náði að skora. 2-0 tapaður leikur, allt fíflinu dómaranum að kenna.
Og hér er það sem gerir þetta merkilegt. Í sjö ára sögu liðsins höfum við nú fengið tvö rauð spjöld og fjögur gul. Rauðu spjöldin tvö og tvö af fjórum gulum spjöldum komu frá sama dómaranum. Og hann hefur aðeins dæmt leikina okkar tvisvar. Sem þýðir að hann hefur gefið að meðaltali tvö spjöld í leik á meðan aðrir dómarar hafa gefið tvö spjöld samtals á sjö árum. Er ekki eitthvað að þessum reikningi?
En með þessum leik duttum við niður í annað sætið og vonin um sigur í deildinni að engu. Reyndar hefst núna úrslitakeppnin sjálf og þar munum við spila gegn lélegri liðum þar sem við vorum í fyrsta sæti þegar raðað var í riðla, og eigum því þokkalega möguleika á að komast langt. NEma hvað við þurfum að spila án þeirra tveggja leikmanna sem fengu rautt.
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 19:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Jafnrétti til náms
26.1.2011 | 19:09
Í dag las ég sorglega frétt um einstæða móður í Ohio, Bandaríkjunum, sem nýlega var dæmd í tíu daga fangelsi og þriggja ára skilorðsbundinn dóm fyrir það eitt að senda börnin sín í skóla utan síns hverfis. Hún býr í fátæktarhverfi í Akron, Ohio, hinum svokölluðu 'projects', og skólinn sem þjónar hverfinu er einn þessa skóla þangað sem börnin eru send yfir daginn án þess að nokkur metnaður sé lagður í að mennta þau. Við höfum öll séð bandarískar kvikmyndir sem taka þesslags skólakerfi fyrir. Hver man ekki eftir Michelle Pfeiffer í Dangerous Minds. Framtíð barnanna í þessum skólum er dökk og kraftaverk þarf helst að gerast til að fólk á þessum svæðum nái að flytjast úr þessum hverfum.
Þessi kona, Kelley Williams-Bolar, þráði betri framtíð fyrir börnin sín. Sjálf vann hún að kappi ásamt því sem hún gekk í skóla til að verða kennari. Hún skráði börnin sín til heimilis hjá föður sínum sem bjó í öðru og betra skólakerfi. Þegar þetta komst upp var hún handtekin, send til dómara og sagt að hún hafi svikið $30,500 US út úr skólakerfinu í formi skólagjalda. Faðir hennar var einnig dæmdur fyrir þjófnað.
Ofan á þetta er Kelley nú með óhreint sakavottorð og mun aldrei fá að nota kennaramenntun sína (sem hún var nærri búin með) því í Bandaríkjunum fá kennarar ekki að kenna ef þeir eru ekki með hreint sakavottorð.
Framtíð Kelley og dætra hennar er því nær að engu orðin og hún er dæmd til þess að komast aldrei út úr þeirri félagslegu stöðu sem rak hana til þess að grípa til þessara ráða.
Ég veit ekki hvernig Bandaríkjamenn ætla að leysa félagslegu vandamál sín og þá sérstaklega skólamál, en það er nokkuð ljóst að þar í landi ríkir ekki jafnrétti til náms.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)