Við töpuðum fyrir Rússum
18.5.2008 | 19:58
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Kvenmaður handtekinn í bakgarðinum
18.5.2008 | 17:51
Það var heilmikið stuð hér í bakgarðinum í nótt. Ég vaknaði upp um hálffjögur í morgun við öskur í kvenmanni nokkrum. Hún var greinilega að rífast við kærastann sinn. Þegar hún linnti ekki látunum fór ég á stúfana, einangraði hvaðan hljóðið kom (frá húsinu á ská á bakvið) og greindi stöðuna. Svo virtist sem þessi kona hefði komið að heimsækja kærastann sinn sem býr í kjallara hússins, en þau hljóta að hafa verið að rífast eða eitthvað því hann neitaði greinilega að hleypa henni inn. Hún stóð því fyrir framan einn gluggann, lamdi húsið allt að utan og öskraði á hann. Ýmist var þetta garg um það að hún væri kærastan hans og hann ætti að hleypa henni inn, eða þá að henni væri svo kalt að hún myndi deyja þarna úti. Mér þótti það nú heldur ólíklegt þar sem það var ennþá ótrúlega heitt úti, en þessi dama var greinilega gefin fyrir drama. Hún ýmist kveinaði og bað eða bölvaði og hótaði manninum öllu illu. Ekki hefði ég viljað hleypa henni inn ef ég hefði verið þessi karl.
Ég reyndi nokkrum sinnum að sofna en það var erfitt með svona garg fyrir utan. Það hefði verið hægt að loka gluggum til þess ég heyrði ekki eins vel í henni en þá hefði orðið ólíft í íbúðinni og ég hefði ekki getað sofið vegna hita.
En allt í einu heyrði ég samræður og kvensan hætti að garga. Ég settist fram í stofu til að kanna málið. Já já, ekkert að dæma mig, ég vildi vita hvort þetta væri lögreglan. Og svo reyndist vera. Ég heyrði lögreglukonu reyna að ræða við kvensniftina sem allt í einu öskraði: Ég trúi ekki að þú hafir sigað lögreglunni á mig, Aaron. Og svo byrjaði hún að öskra aftur á sama styrk og fyrr. Og eins og hendi væri veifað stökk lögreglan á konuna og þær skullu í grasið. Eftir það sá ég ekkert en heyrði gargið. Kvensa skipti á milli þess að garga á kærastann og kvarta við lögregluna undan harðhentum aðgerðum. Svo fór hún að gráta undan handjárnunum sem hún sagði að meiddu sig. Ég sá svo ljósið færast til og gat mér til um að nú væri verið að drösla konunni í lögreglubílinn, enda varð allt hljótt eftir þetta.
Og ég gat loksins farið að sofa aftur.
P.S. Annað er helst í fréttum að Kanada er yfir gegn Rússlandi í heimsmeistarakeppninni í hokkí eftir fyrsta leikhluta. Staðan er 3-1.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þvílíkur dagur
18.5.2008 | 06:26
Veðrið í dag var algjörlega yndislegt. Það fór upp í 30 stiga hita sem er býsna gott fyrir maí í Vancouver. Ég er ekki viss um að við höfum fengið slíkt veður fyrr en í júlí í fyrra. Þetta var akkúrat svona dagur þar sem maður á ekki að gera neitt nema liggja í leti og njóta góða veðursins.
Ég hitti Mark niðri á strönd um hálftólf leytið, við fundum okkur góðan stað að liggja á og svo hreyfðum við okkur ekki þaðan, fyrir utan þegar ég fór á klósettið og þegar Mark fór og keypti handa okkur pylsur og síðan ís. Annars lágum við bara á okkar IKEA teppum og nutum þess að vera til.
Það var erfitt að þurfa að fara en ég þurfti að spila fótbolta í Burnaby klukkan átta og þurfti fyrst að fara heim og sækja dótið mitt. Og af því að við fórum á ströndina í English Bay en ekki á Locarno þá tók þetta nokkurn tíma. Ég komst á völlinn rétt áður en leikur hófst en var í svo miklu stuði að ég skoraði tvö fyrstu mörkin okkar og kom okkur í 2-1. Leikurinn endaði 10-7 og við sitjum enn á toppi þriðju deildar.
Á morgun á að kólna heldur en veðrið ætti samt að vera þokkalegt. Ætli maður horfi ekki á Kanada vinna heimsmeistaratitilinn í hokkí (they better) og svo verður eitthvað skemmtilegt gert á eftir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Sumarið er komið - loksins
17.5.2008 | 06:18
Sumarið kom til Vancouver í gær og á að vera hérna alla vega fram á annað kvöld. Það á reyndar að rigna aftur á sunnudaginn en spurning er hvort það verður svona létt sumarrigning eða týpískt Vancouverrigning.
Ég hef reynt að njóta veðurins aðeins. Fór í klukkutíma göngutúr í góða veðrinu í gær. Í dag fór ég í nokkra göngutúra. Labbaði fyrst áleiðis að klifursalnum (áður en ég varð að hoppa upp í strætó svo ég yrði ekki of sein) og eftir klifrið fékk ég mér annan göngutúr niður á Broadway þar sem ég kíkti í skóbúð. Kom heim með tvö pör af skóm. Annað parið fyrir vinnuna og hitta svona meira fyrir ströndina.
Planið er nefnilega að fara á ströndina á morgun. Ekki alveg komið í ljós á hvaða strönd. Við Mark ætlum að skella okkur saman og hann fer vanalega niður að English Bay og ég fer oftast á Locarno. Þegar við ræddum plön í kvöld vorum við bæði svo dipló að okkur var alveg sama á hvora ströndina við færum. Ætlum við ræðum það ekki í fyrramálið. Ég er búin að lofa að hringja og vekja hann en ég varð að lofa að hringja ekki fyrr en klukkan hálftíu. Það er allt í lagi. Kannski ég sofi svolítið út sjálf. Ætli við skellum okkur ekki í brönns á undan.
Annað kvöld er svo leikur. Liðið mitt situr á toppnum eins og er og liðið sem við eigum að spila við annað kvöld er í þriðja eða fjórða sæti þannig að við verðum að spila almennilega til að halda toppsætinu. Við vitum hvern þarf að stoppa - sami strákurinn er búinn að skora nærri öll mörkin fyrir þetta lið.
Og nú ætla ég í háttinn. Býð ykkur hinum góðan dag enda klukkan orðin rúmlega sjö að morgni á Íslandi og morgunhanar komnir á fætur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Stundum er það ódýrara betra en það dýra
15.5.2008 | 18:50
Ég var komin hátt á þrítugsaldur þegar mér fannst ég loksins þurfa að fara að nota rakakrem. Þá fyrst fór húðin að verða þurr. Fram að því hafði ég sparað mér stóran pening með því að sleppa öllum kremum, hvort sem það voru rakakrem, hrukkukrem eða eitthvað annað. Mér var stundum sagt að ég þyrfti að bera á mig alls kyns krem til að fyrirbyggja alls konar húðskemmdir en málið er að ég mun í raun aldrei vita hvort krem hefðu breytt nokkru.
En þegar að því kom að húðin fór að verða þurr þá ákvað ég að vera ekkert að spara þar og fjárfesti í sumum af þessum merkjum sem eiga að vera betri: Lancome, Christian Dior, Clinique... Ég fann eitt frá Lancome sem ég alveg elskaði og keypti sama kremið upp aftur og aftur, en svo hættu þeir að framleiða það. Síðan þá hef ég ekki fundið neitt frá þessum merkjum sem hentar mér fullkomlega. Og fyrir um tveim árum fór húðin á mér að kvarta undan þessum kremum. Mér fannst ég gera ill verra með því að bera þetta á mig. 5000 króna dollan varð allt í einu hluti vandans en ekki lausnin.
Mér varð það hins vegar til happs einu sinni á fótboltamóti á Saltspring Island að ég keypti rakakrem frá Burt's Bees, sem eru alveg dásamlegar vörur. Ég keypti reglulega frá þeim varasalva og handkrem. Hafði aldrei prófað andlitskremið áður en þetta snöggvirkaði. Ekki aðeins heldur það húðinni rakri heldur skapar kremið engin vandamál. Það virkaði meira að segja svo vel að þegar ég bara það á flekkótta húðina eftir fína Lancome kremið þá lagaðist allt á tveim dögum. Nú ber ég bara á mig Burt's Bees og er ákaflega ánægð með húðina á andlitinu. Þetta kemur reyndar ekki í veg fyrir sólarexem ef ég er of lengi í sólinni en lagar það fljótt á eftir.
Og til að gera dæmið ennþá betra, þetta krem kostar bara þriðjunginn af fínu kremunum.
Ég veit ekki hvort þessar vörur fást á Íslandi en ég mæli eindregið með þeim.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Dropar detta oní poll
15.5.2008 | 06:39
Þótt ég sé ekki mikill aðdáandi rigningar þá verð ég að segja að það er alveg yndislegt að fá sér göngutúr eftir vorrigningu. Gróðurlyktin magnast algjörlega og maður gengur hnusandi um, dregur andann eins djúpt og hægt er að lyktina þar með langt ofan í lungu. Og gróðurinn hér í Vancouver er alveg dásamlegur.
Ég fékk mér reyndar ekki langa göngu því ég er hálfhölt eftir að hafa teygt á náravöðva í fótboltanum í gær. En ég held ég hafi þó rölt um hverfið í sirka klukkutíma.
Dallas hélt sér í baráttunni um Stanley bikarinn með sigri á Detroit í kvöld. Staðan er því 3-1 fyrir Detroit og þeir taka þetta á heimavelli á laugardagskvöldið. Pittsburgh slátrar svo Philadelphiu á morgun.
Ég ætlaði annars að tala um American Idol eftir þáttinn í gærkvöldi, en dróg það of lengi. Nú veit ég hverjir fara í úrslitaþáttinn svo ég ákvað að segja ekki orð svo þið hin getið notið þess á mánudaginn. Annars hef ég lítið horft í vetur. Ég held reyndar að David Cook muni vinna þetta. Kommon, eins og þið hafið ekki vitað að hann kæmist í úrslitaþáttinn. Spurningin var alltaf hver færi með honum.
Og nú ætla ég ekki að hafa þetta lengra og taka mér frekar bók í hönd og fara svo að sofa. Ég er að lesa bók eftir einn höfunda Sex and the City og mér segir svo hugur að bókin sé ömurleg. Spurningin er bara hvort ég gefst upp eða hvort ég læt mig hafa það að lesa hana alla.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Teitur vann Beckham
14.5.2008 | 07:01
Góðar fréttir frá Edmonton, Alberta: Vancouver Whitecaps, lið Teits Þórðarson vann LA Galaxy, lið Davids Beckhams, í kvöld 2-1. Eduardo Sebrango skoraði sigurmark leiksins á 66. mínútu
Leikurinn var haldinn í Edmonton til þess að gefa fólki þar tækifæri til þess að sjá almennilegan fótboltaleik en Edmonton hefur ekkert alvöru fótboltalið í borginni. Rúmlega 37000 manns mættu á leikinn en það sem var undarlegast var að meirihluti áhorfenda studdi LA liðið. Það er líklega vegna Beckham en samt skrítið að kanadískir áhorfendur skuli fremur hvetja bandarískt lið en kanadískt. Stundum held ég að Kanadamenn séu gjörsneiddir allri þjóðrækni!
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Góðar fréttir
14.5.2008 | 06:40
Ég fékk góðar fréttir fyrr í kvöld. Þið munið vesenið með Ritu á miðhæðinni - hún vill að við Alison í kjallaranum borgum hærra hlutfall af rafmagns- og gasreikningunum. Við viljum meina að þegar við gerðum leigusamninginn hafi okkur verið sagt okkar hlutfall og það eigi að standa. Hún vildi ekki samþykkja það og hefur valdið okkur leiðindum. Meðal annars með því að halda hitanum í húsinu niðri, kvarta undan öllum fjandanum o.s.frv. Í dag hringdi Alison í húseigandann og hann hafði samband við lögfræðinginn sinn og kom með þær niðurstöður í kvöld að það sem okkur var sagt við undirskrift samningsins ætti að standa. Ef Rita er ekki ánægð með það er eina leiðin sem hún getur gripið til sú að fara með málið í dómstóla. Vonandi er hún ekki svo klikkuð að hún geri það, en maður veit svo sem aldrei.
Aðrar góðar fréttir eru þær að við stelpurnar spiluðum fótbolta í mígandi rigningu á gervigrasi í kvöld og unnum leikinn 5-0. Benita skoraði þrjú mörk og ég tvö. Liðið spilaði almennt frábærlega og ég var sérlega ánægð með miðjuna sem vanalega hefur verið okkar veiki punktur. Í kvöld voru þær ótrúlegar. Og vörnin stóð sig með afbrigðum vel líka því ég held að hitt liðið hafi ekki átt nema eitt skota að marki. Í síðustu viku spiluðum við gegn besta liðinu í riðlinum og töpuðum 0-2. Við spiluðum býsna vel þar líka en fengum á okkur vítaspyrnu seint í leiknum (hendi, það var alveg réttilega dæmt) og það breytti öllu. Markið sem stelpan skoraði var ótrúlega flott. Það var alveg uppi í þverslánni. Ekki séns fyrir markmanninn að verja.
Ég hef góða tilfinningu fyrir sumarboltanum. Við eigum eftir að standa okkur ágætlega. Á laugardaginn er svo annar leikur í innanhússboltanum. Þar sitjum við á toppnum eins og er og höfum hugsað okkur að vera þar áfram.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Brad og Albert - nýjasta parið?
12.5.2008 | 17:40
Bíddu, mætti Albert prins í afmælið með Brad Pitt? Vissi ekki einu sinni að þeir þekktust. Hins vegar verður að skilja fréttina þannig því þar segir að Angelina Jolie hafi ekki mætti með Pitt í afmælið en það hafi Albert prins hins vegar gert. Kannski átti það eingöngu að vísa í að hafa mætt í afmælið, en þar sem forsetningarliðurinn 'með Pitt' er innan sagnliðarins þá er eingöngu hægt að skilja þetta þannig að Albert hafi mætt með Pitt í afmælið. Og hey, hver veit nema þeir hafi komið saman!
Ég vil annars benda á að á íslensku segir maður að fólk haldi upp á afmæli með vinum en ekki við vinum. Og fyrst ég er byrjuð þá get ég líka nefnt það að ekki þykir fallegt að hafa forsetningarliðinn um helgina tvisvar sinnum í fyrstu málsgrein.
Annars ætti ég ekkert að vera að kvarta. Enskan er farin að lita allt sem ég segi og skrifa.
![]() |
Bono með afmælisboð í Mónakó |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Hvers konar húsnæði getur maður keypt fyrir 60 millur?
11.5.2008 | 21:54
Hvers konar húsnæði getur maður keypt sér fyrir um 60 milljónir króna? Þetta er spurning sem blaðamaður Vancouver Province spyr sig í dag.
Í Vancouver er hægt að kaupa 157 fermetra, þriggja herbergja íbúð í þríbýli í Kitsilano fyrir þennan pening.
Í Calgary er hægt að kaupa þriggja ára gamalt fjögurra herbergja hús með tveim baðherbergjum og eldhúsi með eldhúsbekkjum úr graníti.
Í Ottawa er hægt að kaupa sexherbergja hús með þremur baðherbergjum.
Í Halifax er hægt að kaupa 355 fermetra hús með fjórum svefnherbergjum, þremur og hálfu baðherbergi (hálfu?) og tíu hektara lóð. (Ég ætla að flytja til Halifax!!!!!)
Í New York er hægt að kaupa stúdíóíbúð í Manhattan.
Nú spyr ég ykkur: Hvers konar húsnæði getur maður keypt í Reykjavík fyrir 60 milljónir?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)