Skemmtileg afslöppunarhelgi

Helgin sem er að líða var voðalega notaleg og skemmtileg eins og síðasta helgi.

Í gær, laugardag, fór ég í siglingu með Akemi vinkonu minni og vinum hennar, Brad (eða hét hann Brent?), Paul og Nicole. Brad á bátinn, þessi fíni seglbátur, svipaður á stærð og bátur Martins (míns fyrrverandi) og rúmaði hann okkur fimm ágætlega.

English Bay  The bridges of False Creek 

Það var reyndar ekki mikið siglt. Við tókum smá túr inn í False Creek og héldum svo vestureftir en fórum ekki langt áður en ankeri var kastað og marraði báturinn bara út fyrir ströndinni og við gæddum okkur á veitingum sem við Akemi höfðum komið með. Sumir þömbuðu bjórinn en þar sem ég er ekki mikil bjórdrykkjumanneskja þá lét ég nægja að borða osta og vínber og sötraði á púnsi, lítið sterkara en maltöli. Er ekki sérlega gefin fyrir áfengið eins og vinir mínir vita.

Akemi and Nicole  Yep, relaxing

 

Við héldum til baka um kvöldmatarleytið, ætluðum að skutla Nicole af okkur og fara svo eitthvert áfram en enduðum á því að sitja í bátnum fram í myrkur. Skruppum upp á bryggju og fengum okkur almennilega að borða á veitingastað á Granville island en sátum svo áfram niðri í bát í klukkutíma í viðbót eða svo. Þetta varð því um 12 tíma ferð þótt ekki væri öllum þeim tíma eytt í siglingu...ok, engum tíma var í raun eytt í siglingu. Alla vega ekki með segli.

 Me relaxing as well.  Akemi with...

Í dag tók ég morgninum rólega heima hjá mér og eftirmiðdagurinn varð svo enn rólegri. Hitti Mark niðri í English Bay og við lágum þar til klukkan sjö og ýmist spjölluðum, lásum eða dottuðum. Ja, ég dottaði kannski ekki en það lá við. Um kvöldmatarleytið fór Mark til fundar við kunningja sinn og ég fór heim og hélt áfram að slappa af. 

Mark  IMG_3836

 
Sannkölluð afslöppunarhelgi. Enda kannski eins gott, um næstu helgi verð ég á ráðstefnu og á mánudaginn þar á eftir byrja ég að vinna. 

IMG_3844  IMG_3854


Þvílík snilld sem YouTube er

Internetið er dásamlegt og YouTube er eitt það sniðugasta sem þar hefur komið. Maður getur fundið næstum því allt þarna. Og þetta virkar dásamlega þegar maður er að reyna að útskýra eitthvað fyrir fólki.

Í kvöld lá ég í símanum - meira og minna allt kvöldið. Var í miðri Ljótu Bettýju þegar Marion hringdi frá Vicoriu og við spjölluðum heillengi saman. Við höfum alltaf hist tvisvar í viku, að minnsta kosti, undanfarin tvö ár, þannig að það er svolítið skrítið nú þegar hún er flutt yfir í eyju. Maður verður að láta símann duga. En það er eins gott að hún fái sér Skype því langlína er ennþá dýr.

Á eftir henni hringdi Mark og eftir langar umræður um hvaða leikmenn Vancouver ætti að fá í skiptum fyrir Sedin bræðurna sendi ég hann í háttinn eftir fyrirlestur um Eurovision. Hann lofaði að kíkja á íslenska lagið á YouTube. Stuttu seinna hringdi hann aftur og vildi vita hvaða íslenska lag hann ætti að horfa á. Við leit komu nefnilega líka upp ýmis lög úr undankeppninni. Þetta leiddi til langrar Eurovisionumræðu og nú veit Mark allt um stigagjöfina, kalkúnann Dustin frá Írlandi, Pál Óskar frá 1997 og ísraelska sigurlagið frá 1978, Hallelujah. Og af því að hann var kominn í kennslustund um evrópska menningu þá fékk hann líka að horfa á brot úr handbolta (Kanadamenn hafa ekki hugmynd um hvað handbolti er), hafði aldrei séð þá íþrótt áður. Ég hafði einhvern tímann áður reynt að útskýra fyrir honum út á hvað handbolti gengur en það var miklu gagnlegra þegar hann gat bara skoðað þetta á YouTube. Sjón er sögu ríkari segja þeir.

Auðvitað leiddi þetta til hokkígláps og hápunkturinn var þegar Brad May skoraði vinningsmarkið gegn Boston í framlengingu 1993 og sá sem lýsti leiknum varð svo geggjaður að hann gargaði upp yfir sig May day, May day. Hlustiði bara:

 Ja það sem tíminn getur liðið. Við hættum loks þessu kjaftæði og ég fór og horfði á afganginn af Ljótu Bettýju (sem ég tók auðvitað upp svo ég missti nú af engu). Og svo...í stað þess að fara í háttinn...þá fór ég að blogga. Væri nú ekki nær að fara að sofa? 


Þriggja landa Júróvisjónpartý

Ég var í súper Júróvísjón partýi. Sat fyrir framan tölvuna og horfði á keppnina á meðan ég talaði við pabba og mömmu í símanum og skrifaðist á við Rut á sama tíma (hvort tveggja í gegnum Skype). Ég lít því svo á að ég hafi verið í fínu fjögurra manna Júrópartýi. Rut sendi meira að segja kartöfluflögur á liðið, eða mynd af kartöfluflögum, og svo þegar þær dugðu ekki þá náði ég mér í kók og kínverska smárétti og borðaði á meðan ég fylgdist með úrslitunum.

Til hamingju Ísland. Nú er bara að sjá hvernig fer á laugardaginn (nema ég ætla að sleppa því og fara frekar á seglskútu um sundið). 


mbl.is Ísland áfram í Eurovision
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fékk ósk mína uppfyllta

Ég er svo hamingjusöm í dag. Á blaðamannafundi í morgun tilkynnti Mike Gillis, nýi framkvæmdastjóri Vancouver Canucks, að hann hafi framlengt samninginn við Alain Vigneault þjálfara til ársins 2010. Við fáum því að hafa AV áfram í tvö ár í viðbót. Ég er í skýjunum yfir þessu enda hafa margir talið undanfarið að Gillis hafi viljað ráða sinn eigin þjálfara í stað þess að halda Vigneault sem ráðinn var af Dave Nonis, fyrirrennara Gillis. En Gillis er greinilega greindarnáungi og ákvað að halda Vigneault sem auðvitað er frábær þjálfari þrátt fyrir að liðið hafi ekki náð að komast í úrslitakeppnina. Þar má um að kenna endalausum meiðslum varnarmanna og því að sóknarmennirnir voru einfaldlega ekki nógu góðir. Nú er að vona að Gillis fái tvo til þrjá góða sóknarmenn í liðið og þá munum við gera usla í deildinni næsta vetur.

Ég á annars von á rólegum degi hjá mér. Hann hefur svo sannarlega byrjað rólega. Las Vancouver Province við morgunverðarborðið, las svo moggann á netinu, síðan spjallsíðu Canucks til að sjá viðbrögðin við þjálfaramálum (sumir eru jafn hamingjusamir og ég, aðrir brjálaðir - það eru hálfvitarnir). Nú ætla ég að læra og reyna að klára undirbúning fyrir ráðstefnuna sem haldin verður hér eftir rúma viku. Ég ætla að reyna að funda einu sinni enn með Hotze vegna þessa. Er búin að ræða málin ítarlega við Lísu.

Plön eru annars um áframhaldandi skemmtilegheit. Ég ætla að draga Mark með mér á fótboltaleik á morgun. Við ætlum að fara og sjá Vancouver Whitecaps spila á móti Seattle Sounders. Á laugardaginn fer ég svo í siglingu. Einn vinur Akimi á seglbát og hann ætlar að sigla með okkur um svæðið. Það ætti að vera yndislegt enda umhverfið ekkert smá dásamlegt. Ég mun pottþétt hafa myndavél með í för (með eða án skjátu) og svo mun ég sýna ykkur afraksturinn.


Myndir úr kajakferð

Ég þyrfti að eignast vatnshelda skjátu fyrir myndavélina mína svo ég geti tekið hana með á ströndina, í kajaka og á aðra báta án þess að þurfa að hafa áhyggjur af því að hún blotni. En af því að ég á ekki svoleiðis þá lét ég nægja að taka litla einnota filmumyndavél með mér í kajakferðina um helgina. Ekki eru nú gæðin mikil. Svo er heldur ekki hægt að fókusa almennilega og myndirnar virðast sumar hreyfðar. Annars er ekki alltaf auðvelt að taka myndir í kajak, sérlega ef maður ætlar að taka þær afturfyrir sig.

Ég set samt sem áður nokkrar myndir hérna inn, þar á meðal eina mynd af Mark þar sem hann er alls ekki í fókus en umhverfið er svo flott að ég varð að hafa hana með.

 

 
stinainkayak
 
markinfrontofscienceworld

   

Ég verð að taka fram að þótt Mark sé mjög stór og ég hálfgert kríli þá er nú stærðarmunurinn á okkur ekki sá sem virðist vera á þessum myndum. Rosalega virðist ég annars lítil þegar ég stend þarna innan um alla bátana og ekki hjálpar að myndin er tekin niður á við. En það þýðir ekkert að kvarta. Ég er bara ekki stærri en þetta. 

P.S Skil ekki af hverju síðustu myndirnar tvær eru svona óskírar. Þær eru ekki svona í öðrum forritum, og hinar myndirnar eru ekki svona. Ég er búin að setja þær inn nokkrum sinnum en fæ þetta ekki til að virka. Þið verðið bara að giska á smáatriðin sem sjást illa.


Icelandair mun ekki fljúga til Toronto í vetur

Ég var að frétta að Icelandair væri hætt við að fljúga á milli Íslands og Toronto í vetur. Ég er hrikalega svekkt. Ég er að vonast til þess að fara heim um jólin og ætlaði pottþétt að fljúga í gegnum Toronto. Hvernig stendur á þessu? Þeir eru nýfarnir að fljúga þangað og það er varla komin mikil reynsla á flugið. Ættu þeir ekki að gefa fólki kost á að uppgötva þessa flugleið áður en þeir taka ákvarðanir um áframhaldið? Fuss og svei.

Enn einn sigurinn

Sigurgangan heldur áfram í boltanum. Ég skoraði tvö mörk í 3-1 sigri gegn Vancouver Coasters í kvöld. Liðiðin mín tvö hafa nú unnið samanlagt sjö leiki af níu spiluðum. Ég hef skorað sex mörk í þessum níu leikjum. Þrjú fyrir Presto í þremur leikjum og þrjú fyrir Family Ties í sex leikjum. Family Ties er á topp þriðjudeildar en ég er ekki viss um hvar Presto situr nú. Við erum sjálfsagt einhvers staðar ofan við miðju. Við vitum oft ekki úrslit leikja fyrr en viku eftir að þeir eru spilaðir.

Dagurinn var annars rólegur. Ég fundaði með Lísu kennara mínum í morgun og það var góður fundur. Þaðan fór ég og verslaði fyrir heimilið (ýmislegt farið að vanta í ísskápinn) og það tók langan tíma því ég þurfti að fara niður í bæ til að kaupa sumt. Þannig hvarf bara dagurinn og áður en ég vissi af þurfti ég að koma mér í boltann.

En þrátt fyrir að ég hafi ekki gert ógurlega margt þá var þetta samt góður dagur. Ég hef verið býsna ánægð undanfarið.


Viktoríudagur klikkaði ekki

Vá, þvílík þruma núna rétt áðan. Ég snarhrökk við og samt er ég býsna vön þrumuveðri frá því ég bjó í Manitoba. Þar voru þrumur og eldingar daglegt brauð yfir sumartímann. Hér í Vancouver rignir mikið en sjaldan fáum við þrumuveður.

Ég var tiltölulega nýkomin heim. Hafði hlaupið heim úr strætó því úti var eins og hellt væri úr fötu. Hélt ég hefði regnhlíf með mér en það var ekki svo. Alla vega, ég settist við tölvuna og las blogg og hlustaði á regnið dynja á húsþakinu. Allt í einu sá ég mikinn blossa fyrir utan og vissi að þetta hefði verið elding. Þruma var því á næsta leyti. En ég var alls ekki búin undir hávaðann sem fylgdi. Það var eins og húsið skylfi, og samt gat þruman ekki hafa verið svo nálægt því nokkur tími leið á milli eldingarinnar og þrumunnar. Og það var bara þessi eina. Svo var það búið. Það rignir reyndar ennþá og á að halda áfram næstu daga. En það er allt í lagi. Undanfarnir dagar hafa verið svo dásamlegir.

Í dag var annars Viktoríudagur sem er frídagur í Kanada og þetta var því löng helgi. Dagurinn í dag var enn einn dásamlegi dagurinn. Ég tók það mjög rólega, lærði næstum því ekkert og hafði ekkert samviskubit yfir því. Ég á rétt á frídögum eins og aðrir.

Ég talaði lengi við Rut á Skype. Skype er ein dásamlegasta uppfinning síðari tíma. Maður getur verið í stöðugu sambandi við vini og ættingja erlendis án þess að þurfa að borga neitt. Við Rut höfum hist aðeins einu sinni á síðustu níu árum en ég veit miklu meira um hvað er að gerast í hennar lífi en flestra vina minna. Og hún veit miklu meira um mig. Þegar ég var búin að tala við Rut talaði ég við mömmu. Líka á Skype. Við tölum miklu oftar saman í síma núna en þegar maður þurfti að borga fyrir langlínusamtal. Og svo ég tali nú ekki um hversu mikið oftar ég heyri í pabba. Honum var aldrei vel við síma og það var erfitt að halda honum á tali. Enda síminn dýr. En núna...allt annað líf.

Eftir spjallið við Rut og mömmu horfði ég á tveggja tíma lokaþátt af Desperate Housewives. Þátturinn var á dagskrá í gærkvöldi en af því að ég fór í bíó með Mark þá hafði ég stillt myndbandið á upptöku. Þátturinn var magnaður. Passið ykkur að missa ekki af honum. Við fáum loks að vita um söguna á bakvið Dylan og af hverju hún man ekki eftir því að hafa búið á Wisteria Lane. Og Lynette lendir í fangelsi...ta da.  

Seinni partinn kom Akimi við hjá mér. Við sátum heima í nokkurn tíma en svo langaði okkur báðar svo í eitthvað sætt að við fórum á veitingastað í nágrenninu og fengum okkur kökur. Jamm jamm. Þær voru æðislegar. Við þurftum líka að ræða svo margt að okkur veitti ekkert af fitu og sykri.

Um kvöldið fór ég svo í mat til Línu og Alex. Þau eru pizzusnillingar og kvöldið var yndislegt. Ég hafði ekki komið áður í nýju íbúðina þeirra svo ég hafði ekki séð flotta útsýnið. Það var býsna magna.

Já, þetta var alveg hinn fínasti dagur. 


Sjáið borgina mína

Mig langar að eyða smá tíma í það að sýna ykkur borgina. Þið sem komið til Vancouver getið fengið prívat túr, en þið hin verðið að láta ykkur nægja myndirnar sem ég ætla að setja inn.

Ég tók þessar myndir á fimmtudag eða föstudag þegar ég fékk mér smá göngutúr um hverfið mitt. Það tekur mig bara um tíu mínútur að labba niður á strönd.  Þetta er auðvitað bara brot af fallegu umhverfi Vancouverborgar - bara það sem ég gat séð í klukkutímagöngutúr.

 Playing on the beach  The lone tree.

Contrastive colours  The moon

Relaxing by the ocean  Downtown

Romantic encounter  Open window

 7th Avenue  Into the sun

Myndin af bleiku gangstéttinni er tekin beint fyrir utan húsið mitt. 


Enn einn frábæri dagurinn

Annar magnaður dagur í dag. Hitinn var reyndar ekki eins mikill og í gær en það var allt í lagi. Aðalatriðið var að veðurspáin var röng og það rigndi ekki eins og átti að gera.

Eftir að hafa horft í sjokki á Kanada tapa fyrir Rússum í baráttunni um heimsmeistaratitilinn þá hitti ég Mark niðri á Granville og við fórum á Granville Island og leigðum okkur kajaka. Dóluðum okkur síðan niður eftir False Creek, niður að Science World og til baka. Við tókum þessu rólega enda hafði Mark aldrei á ævinni í kajak komið áður og þurfti því svolítið að finna sig. Það var annars svolítið mál að finna bát fyrir hann því hann er stór, um 1.88 cm, og var því í einum hnút í fyrstu tveim bátunum sem hann fékk. Sá þriðji dugði vel en var kannski ekki nógu góður kajak. Þegar við komum til baka sagði strákurinn sem var að vinna þar að næst skyldum við hringja fyrirfram og panta kajak til að tryggja að hann fengi gæðabát sem væri nógu langur fyrir hann. Ég aftur á móti fékk fínan plexíglaskajak enda stutt og komst í hvaða bát sem var.

Þetta var annars yndislegt. Svolítil traffík reyndar því vatnaleigubílarnir voru stanslaust á ferðinni og svo og ríka fólkið á spíttbátunum. Þetta er löng helgi hér í Kanada vegna Viktoríudags sem er á morgun, og því var óvenjumikið um að vera.

Eftir bátsferðina fengum við okkur að borða á Granville Island og tókum svo vatnaleigubíl yfir í Yaletown og löbbuðum þar um í klukkutíma eða svo. Enduðum svo í bíó á mynd sem heitir The Visitor. Alveg mögnuð mynd. Mæli eindregið með henni.

Sem sagt hinn allra skemmtilegasti dagur. Ég tók myndir á einnota myndavél sem mér var eitt sinn gefin (vildi ekki taka fínu stafrænu vélina í bátinn) og ég þarf því að láta framkalla myndirnar áður en ég get sýnt ykkur þær. En þær munu koma hér á síðuna að sjálfsögðu.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband