Debitkortið mitt hefur ógurleg völd
11.5.2008 | 17:55
Ég skil ekki bankakerfið. Ég held að kannski fái bankastjórar svona há laun fyrir að sitja og flækja málin svo fólk eins og ég skilji ekki hvað er í gangi. Minnst af öllu skil ég hvernig debitkortið mitt virkar. Þetta ætti ekki að vera flókið. Ég set ákveðna upphæð inn á reikninginn minn og síðan get ég tekið þá upphæð en ekki meir útaf reikningnum mínum. Virkar einfalt, ekki satt?
En þannig virkar þetta alls ekki, alla vega ekki ef maður ætlar að nota hraðbanka.
Undanfarna mánuði hef ég fengið launin mín greidd inn á íslenskan reikning en þar sem ég þarf að borga húsaleigu og aðra reikninga hér í Kanada, og af því að millifærsla kostar andskotanum meira, þá hef ég notað þá aðferð að taka út peninga í hraðbankanum hérna og leggja þá samstundis inn á kanadískan reikning. Nema hvað debitkortið mitt virðist hafa sjálfstæðan vilja og leyfir mér aldrei að taka út þá upphæð sem ég vil, næstum því sama hversu mikið eða lítið ég vil taka út. Það er t.d. útilokað að taka út 1000 dollara. Líklega hefur bankinn minn einhver takmörk um að það megi ekki. Þetta þýðir að ég verð annað hvort að fara í bankann tvo daga í röð eða þá að ég get tekið út helminginn af vísakortinu og hinn helminginn af debitkortinu. Það er vanalega það sem ég geri. Gallinn er að debitkortið leyfir mér stundum að taka út 600 dollara, stundum fimm hundruð, stundum fjögur hundruð og nú um daginn bara tvöhundruð. Ég hélt að kannski væri svona lítið á reikningunum mínum að ég ætti einfaldlega ekki fyrir þessu, en nei...það var nógur peningur inni.
Einu sinni fór ég og talaði við konuna í bankanum hér hjá mér og spurði hvort það væru einhver takmörk á því hversu mikið mætti taka út úr hraðbankanum hjá þeim, en hún sagði nei nei, enda get ég alltaf tekið þessar upphæðir út af vísakortinu þannig að það er ekki eins og hraðbankinn hafi orðið uppiskroppa með peninga. Og þar að auki kemur letur á skjáinn þar sem stendur að beiðninni hafi verið hafnað af mínum eigin viðskiptabanka.
Já, ég segi nú bara fuss og svei. Bölvað debitkortið mitt er að neyða mig til þess að nota vísakortið meira sem er algjört happadrætti þessa dagana þar sem gengið er eins og rússíbani.
Í öðrum fréttum er helst frá því að segja að við spiluðum fantavel í fótboltaleiknum í gærkvöldi og unnum 12-4. Við sitjum nú á toppi þriðju deildar en liðið sem var á toppnum á leik til góða. Sjálfri þótti mér það býsna erfitt að hlaupa 10 kílómetra um morguninn og spila svo fótbolta um kvöldið - en ég lifði það af. Núna er ég reyndar með svo mikla strengi að ég átti erfitt með að labba stigann í morgun til þess að ná í blaðið út á tröppur. En þetta lagast! Einhvern tímann!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Mæður, til hamingju með daginn!
11.5.2008 | 08:10
Elsku mamma. Innilega til hamingju með daginn!
Og mínar bestu kveðjur til allra mæðra! Vonandi fáið þið nóg af súkkulaði frá börnunum ykkar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Bætti tímann minn - jey!!!
10.5.2008 | 18:02
Lifði klifrið af og var nógu hress til að hlaupa 10 kílómetra í Skógarhlaupinu í morgun. Bætti mig um rúmar fjórar mínútur - hljóp á 55,08 og er bara ákaflega stolt af því. Reyndar alveg ótrúlegt hversu erfitt það er að bæta sig um fjórar mínútur. Síðast skokkaði ég fyrsta helminginn rólega og hljóp ekki nema síðustu þrjá kílómetrana, en núna hljóp ég þetta frá byrjun, var á öndinni allan tímann, og sneið bara fjórar mínútur af. Fuss og svei.
Annars er þetta undarlegt með íþróttir. Ég man á skíðunum í gamla daga að maður gat hreinlega séð hver myndi ná góðum tíma og hver ekki, og kannski var bara sekúndumunur á fólki. Stundum skildi hundraðasti úr sekúndu fólkið að en það gat maður svo sem ekki séð. Auðvitað tók bara um mínútu að skíða niður lengstu brekkurnar þannig að það er svo sem ekki skrítið að lítið skildi að.
En nú ætla ég í heitt og gott bað og svo ætla ég að skríða upp í kojs aftur í einn eða tvo klukkutíma því afgangurinn af deginum er vel skipulagður!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Veslings höndin á mér
9.5.2008 | 19:54
Ég held að einhver eða eitthvað vilji ekki að ég klifri í þessari viku. Árskortið mitt er um það bil að renna út og ég þori ekki að kaupa nýtt fyrr en ég sé hvernig vinnan mín nýja raðast á daga og klukkustundir.
En ætlunin var að klifra þrisvar sinnum í þessari viku og fara þannig út með trompi. Nema hvað, í fótboltaleiknum á þriðjudaginn var ýtt á bakið á mér (og ekkert dæmt auðvitað) svo ég flaug á hausinn og lenti á vinstri hendinni. Ekkert brotnaði en ég var mjög sár og hafði lítinn mátt í litla fingri og að auki slæman verk rétt ofan við úlnliðinn. Ég kom við á svona 'walk-in' læknastofu en þar var biðtíminn einn og hálfur klukkutíma svo ég nennti ekki að standa í því og fór heim. Enda vissi ég að ekkert alvarlegt væri að, ég þyrfti bara að taka því rólega með höndina. Það þýddi hins vegar enga klifurferð hvorki á miðvikudaginn né í gær.
Í dag er höndin betri og ég gerði mig klára til að fara og klifra. Þurfti bara að þvo eina vél af þvotti fyrst. Tek dótið út úr þurrkaranum og hristi svona aðeins úr því hrukkurnar enda nenni ég yfirleitt ekki að strauja. Nema hvað, ég á þessar fínu kvartbuxur sem eru með sylgjur að neðan. Þegar ég hristi úr buxunum flýgur önnur skálminn upp og sylgjan beint í höndina á mér. Þá sömu og meiddist á þriðjudaginn, og staðurinn næstum því sá sami. Ég öskraði upp enda var þetta hrikalega sárt. Núna er ég marin og flott en ég held að þetta sé ekki nógu alvarlegt til að stoppa mig af. Ég seinka klifurferð kannski um klukkutíma en svo held ég ótrauð áfram. Við sjáum til hvort eitthvað annað gerist.
Og ef ég dett og brýt mig í klifursalnum þá vitum við öll að hér voru æðri máttarvöld að reyna að halda mér í burtu þaðan - og ég hlustaði ekki.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Fundir og verslunarferð
8.5.2008 | 05:31
Þessi vika hefur verið tiltölulega rólega hingað til. Ég hef átt erfitt með að læra heima hjá mér svo ég hef farið út úr húsi með tölvuna í bakpokanum og fundið mér staði til þess að setjast niður á og skrifa. Yfirleitt felst í því að hafa kaffibolla hliðina á mér - nema í dag, þá ég át Rollo McFlurry. Súkkulaði og ís, alltof þungt í maga. Gott á bragðið samt. Alltaf gott á bragðið.
Í gær fór ég á tvo fundi. Fyrst á fund með ritgerðarnefndinni minni og ráðgjafa framhaldsnema. Þessir fundir eru tvisvar á ári - á haustin og á vorin. Farið er yfir stöðu hvers nemanda og fjárhagsmálin eru líka rædd. Þeir þurfa ekki að hafa áhyggjur af mér næsta vetur - ég þarf ekki á fjárhagsaðstoð frá þeim að halda (sem betur fer). Þar á eftir fór ég á fund með Lisu, öðrum umsjónarkennara mínum, og við ræddum um kafla í ritgerðinni sem ég vann fyrir löngu og hef ekkert litið á í marga mánuði. Af fundinum fórum við beint í partý því annar ritara deildarinnar var að fara á eftirlaun. Svo keyptar voru pizzur og rauðvín og svo týpísk norður amerísk sykurkaka borðuð á eftir. Ég hálfmóðgaði ameríska postdocinn þegar ég hafði orð á því að ekki væru nú kakan góð og samt væri alltaf boðið upp á þessar kökur við öll tilefni. Hún tók þetta greinilega til sín.
Í dag fór ég í verslunarleiðangur. Mig vantar enn aðeins meira af vinnufötum. Það má ekki koma í gallabuxum og bol í vinnuna og þar sem það hefur verið einkennisbúningur minn í mörg ár þá verður maður að fjárfesta aðeins. Ég keypti eina bláa þunna peysu og aðra svona ljósrauða hneppta stuttermapeysu. Það er voðalega mikið í móð eins og amma sagði alltaf.
Ég er annars alltaf þreytt á kvöldin þessa dagana. Undanfarna mánuði hef ég átt erfitt með að draga mig í háttinn fyrr en eftir miðnætti en undanfarið er ég orðin dauð fyrir níu. Hef haldið mér vakandi aðeins lengur því ég þarf eitthvað að gera svo margt (horfa á þætti seint í sjónvarpinu, blogga, leggja kapal). Það eru alltaf góðir þættir í sjónvarpinu klukkan tíu á kvöldin og nú er ég farin að skella bara vídeóin á. Þannig get ég komið mér í ró fyrir ellefu. Ég held að þetta sé góð breyting. Nú er bara að fara að vakna snemma á morgnana í samræmi. Annars var ég komin á ról rétt eftir átta í morgun. Var nú bara ánægð með það ef satt skal segja.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 05:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sýkingahætta
6.5.2008 | 20:30
Átján ára gömul dóttir vinkonu minnar fékk sér pinna í tunguna fyrir nokkrum mánuðum. Mamma hennar var ekki ánægð en gat í raun ekkert sagt því stelpunni er frjálst að láta gata hvað sem er. En það leið ekki langur tími þar til hún varð að leita til mömmu sinnar því það var komin svo mikil sýking í gatið, þrátt fyrir að hún hafi fylgt öllum þeim reglum sem henni voru settar. Mamma hennar grátbað hana um að taka pinnann úr svo þetta gæti gróið almennilega en hún var nú ekki á því. Enda ekki gott að ganga í gegnum svona þjáningar og enda svo á byrjunarreit. En að lokum tók hún pinnann úr því hún var gjörsamlega kvalin. Man líka alltaf eftir atriði í Malcolm in the Middle þar sem Malcolm gat ekki lengur talað vegna sýkingar frá tungupinna.
Ég er ekki að segja að svona gerist oft og sjálf er ég með húðflúr á ökkla og hef aldrei lent í vandræðum með það. Ég þarf hins vegar reglulega að taka úr mér eyrnalokkana og þrífa allt vel í nokkra daga í röð því ég á það enn til að fá sýkingar þar. Göt á líkamann...ákveðin áhætta!!! En hey, þetta er þó alla vega áhætta með eigin líkama en ekki annarra!
![]() |
Húðgötun veldur áhyggjum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Hvaðan koma nafn og litur?
6.5.2008 | 16:22
![]() |
Lestur á 24 stundum heldur áfram að aukast |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Hvernig er hægt að læra í góða veðrinu?
5.5.2008 | 18:05
Stóra spurning dagsins er þessi: Er sumarið komið? Hitinn á að fara upp í nítján gráður í dag með tilheyrandi sólskini. Samkvæmt vefsíðum er reyndar bara þrettán stiga hiti eins og er (klukkan er ellefu) en ég skaust út á tröppur að kanna málið og það var orðið býsna heitt. Ég stóð reyndar ekki lengi þar því ég er enn á náttfötunum (jájá, stundum fer ég ekki úr þeim fyrr en klukkan fimm á daginn - ef ég ef ekkert út að gera) og það eru enn vinnumenn í nýja húsinu við hliðina.
Ég er að reyna að koma með plan fyrir daginn. Ég er að hugsa um að setja bæði tölvu og klifurbúnað í bakpokann og fara svo bara út og spila þetta eftir hendinni. Ég hugsa að ég labbi niður í Kits, setjist á eitthvert kaffihús, vinni um stund, haldi svo áfram austureftir og klifri í klukkutíma eða svo. Svo þyrfti ég reyndar að koma við í Costsco því ég er búin með asíska salatið mitt svo ég þarf nýjar birgðir. Ég ét þetta eins og sælgæti. Það er náttúrlega fínt. Hvort er betra fyrir líkamann, súkkulaði eða niðurskorið grænmeti?
Í morgun las ég fréttir um það að alls kyns hópar séu þegar farnir að útbúa ítarleg plön um mótmæli gegn Vancouver Ólympíuleikunum. Sumir hafa reyndar hafið starfsemi nú þegar með því að henda málningu á Ólympíuklukkuna og fleira, en miklu stærri mótmæli eru plönuð. Þarna er um að ræða hópa anarkista, herskárra indjána (first nations warriors), samtök gegn fátækt, stúdenta, ofl. hópa. Mér finnst allt í lagi að fólk mótmæli og þetta er auðvitað ágætur vettvangur en ég vona að ekki verði gripið til mjög alvarlegra eða hættulegra aðgerða. Þetta verður vonandi innan skynsemdamarka.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Mögnuð skíðaferð á Blackcomb
5.5.2008 | 07:07
Við Lína skelltum okkur til Blackcomb á skíði í dag. Fyrir þá sem ekki vita er Blackcomb hluti af Whistler skíðasvæðinu. Whistler skíðasvæðið samanstendur af tveim fjöllum, Whistler og Blackcomb, sem standa hlið við hlið og við rætur beggja liggur Whistler þorpið. Á þessum tíma árs þykir ekki lengur þess vert að halda báðum fjöllum opnum og vanalega er það Blackcomb sem lokar, en að þessu sinni er búið að loka Whistler því þar eru framkvæmdir fyrir Ólympíuleikana í fullum gangi. Verið er að byggja kláf á milli fjallanna tveggja.
Í dag var því skíðað á Blackcomb. Liðin er ein og hálf vika síðan ég fór síðast og mikið hefur bráðnað af snjó. Enda kannski ekki skrítið - hitinn í dag fór upp í 15 stig. Sól skein og það var hreinlega yndislegt að vera úti. Glacier Express t-lyftan var opin í dag, ólíkt því sem var síðast, svo ég dró Línu með mér á jökulinn. Þetta er ný leið sem opnaði bara í fyrra held ég. Þegar maður er kominn efst með T-lyftunni þarf maður að labba nokkra metra upp að stórum kletti og síðan eftir örmjóum stíg undir klettinum. Fyrir neðan er brött brekka. Þetta hefur aldrei verið neitt vandamál fyrir mig en í dag var ástandið öðruvísi. stígurinn var mjórri en vanalega og ekki eins djúpur. Mér fannst ég aldrei hafa almennilegt grip með skíðaklossunum, og á sumum stöðum var verulega hált. Ég sem hafði haft skíðin á öxlunum tók þau niður og notaði skíðin til að halda jafnvægi öðru megin og stafina hinum megin. Ég fór mér hægt yfir og passaði mig á að líta ekki niður. Á myndunum hér til
hliðar má sjá þá sem á eftir mér komu, m.a. Línu í fjólubláum jakka og ég lofa ykkur því að þótt þetta virðist ekkert svakalegt á myndunum þá var þetta býsna bratt þarna.
Stuttu eftir að Lína kom yfir datt náungi framaf og hann rann niður í hálf brekkuna áður en hann náði að stoppa sig. Það var nú allt í lagi með hann. Það hefði verið verst ef hann hefði fengið skíðin í höfuðið eða eitthvað svoleiðis. Eins og sjá má á myndinni missti hann fyrst stafina og svo skíðin en hélt sjálfur áfram aðeins neðar. Hann varð síðan að rölta upp hluta brekkunnar og setja á sig skíðin en gat svo rennt sér bara niður þarna. Hann missti þá bara af útsýninu dásamlega.
Hér má sjá okkur Línu hrikalega flottar uppi á brúninni (ekki alveg uppi á brún reyndar, það er hægt að fara heldur hærra) áður en við skíðuðum niður. Færið var ekki slæmt en það voru nokkuð margir búnir að skíða þarna undanfarna daga og ekkert hafði snjóað þannig að við þurftum í gegnum hálfgerða ruðninga. En þetta var nú samt þokkalega skemmtilegt.
Þegar við komum niður í dalinn stoppuðum við til þess að njóta náttúrunnar. Þetta svæði er uppáhaldssvæðið mitt á öll Whistlersvæðinu. Ekki af því að það séu betra að skíða þarna heldur vegna umhverfisins.
Annars verð ég að viðurkenna að við enduðum á því að hanga þarna í jökuldalnum heldur lengur en kannski æskilegt var. Við vorum náttúrlega búnar að borga hellings pening til að skíða og svo endum við bara á því að finna okkur bekk og sitja í sólbaði. En vitiði það, það var bara allt í lagi. Við vorum úti hreinu fjallaloftinu og dásamlegri náttúrunni og skemmtum okkur konunglega þótt við værum ekki á skíðum allan tímann. En sem sagt á myndunum hér fyrir neðan má sjá hvað við vorum að gera.
Við komum okkur að lokum á lappir, renndum okkur niður þessa 4,8 kílómetra leið niður að nálægustu lyftu, fórum upp aftur og yfir að 7th heaven lyftunni og renndum okkur þar nokkrar ferðir, fengum okkur að borða, renndum okkur meira og fórum svo niður klukkan hálf fjögur þegar hærri lyfturnar lokuðu. Við hefðum eflaust getað farið eina ferð í viðbót í neðri brekkunum en snjórinn þar var blautur og við vorum í raun orðnar þreyttar. Vorsnjórinn er miklu þyngri og erfiðari en sjórinn yfir háveturinn.
Við vorum því hamingjusamar og heilsusamlegar þegar við komum niður í þorp og verðlaunuðum sjálfar okkur með pönnukökum.
Við vorum komnar í bæinn klukkan átta og þá tók við maraþonhokkíáhorf hjá mér. San Jose Dallas fóru í fjórar framlengingar sem enduðu með sigri Dallas. Dallas mun því spila við Detroit um sigur í vesturdeildinni og Pittsburgh spilar við Philadelphia. Það er því ljóst að hvorugt liðanna sem ég spáði í úrslitaleiknum verður þar og því ætla ég að endurskoða spá mína og segja Detroit-Pittsburgh. Annars er Dallas búið að plata mig nú í tvær seríur þannig að þeir gætu svo sem allt eins haldið því áfram og unnið Detroit - nah!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Skíði, hokkí og Sprengjuhöllin
4.5.2008 | 15:01
Veðrið er dásamlegt á Stórvancouversvæðinu og við Lína ætlum að skella okkur til Whistler. Þar á að vera sól og hiti líka þannig að búast má við blautari snjó en verið hefur undanfarið en það ætti að vera allt í lagi. Aðalatriðið er að fara á skíði og skemmta sér.
Í gær slógu fantarnir í Philadelphia Flyers síðasta kanadíska liðið, Montreal, úr Stanleybikarkeppninni. Það er því ljóst að það verður ekki kanadískt lið sem hampar titlinum í ár (frekar en undanfarin ár). Og ég hafði rangt fyrir mér um það hvaða lið myndu spila til úrslita. Ég sagði að það yrðu Montreal og San Jose. Nú er Montreal úti í kuldanum og San Jose verður að vinna Dallas í kvöld bara til að halda sér í baráttunni. Ég virðist því ekki mjög sannspá. Ég mun annars missa af megninu af leiknum þar sem við verðum ábyggilega að keyra niður frá Wistler á þeim tíma. Ég treysti á að Mark hringi í mig eftir hvert mark sem skorað er (...hmmm....Mark hringir eftir hvert mark...hljómar undarlega) og láti mig vita hvernig gengur. Við viljum endilega fá sjöunda leikinn í þessari seríu.
Ég las annars í gær að Sprengjuhöllin væri að koma hingað til Vancouver og yrði með tónleika sem hluta af NewMusicWest tónlistarhátíðinni. Ég hef eiginlega aldrei hlustað á þá...eru þeir þess virði að fara og hlusta? Hvað segið þið?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)