Sumarvertíðin að hefjast
23.4.2008 | 06:13
Við stelpurnar í Presto spiluðum æfingaleik í kvöld gegn liði sem spilar í deildinni í fyrsta sinn í sumar. Þær voru sambland af virkilega góðum spænskumælandi stelpum (líklegast frá Mið- eða Suður-Ameríku) og svo stelpum sem kunnu eiginlega ekki reglurnar. Þær voru virkilega grófar og það tók okkur smá tíma að berja bara á móti. Við spiluðum býsna vel saman og unnum leikinn 5-0. Ég skoraði ekkert markanna og þetta er í fyrsta skipti sem við skorum fimm mörk án þess að neitt þeirra sé mitt. Ég spilaði reyndar vel, átti góðar hornspyrnur (ein þeirra leiddi til marks) en átti erfitt með að hitta markið. En hey, það skiptir ekki hver skorar mörkin svo framarlega sem við spilum vel og vinnum leikinni. That's my story and I'm sticking to it.
Set inn mynd sem Akimi tók af mér þar sem ég er að taka hornspyrnu. Og nei, ég er ekki svo feit að maginn lafi yfir buxnastrenginn. Nýju treyjurnar okkar eru bara fremur stórar svo ég girti niður í buxurnar og togaði treyjuna svo til baka. Það er þægilegt að spila þannig en myndast ekki vel.
Set líka inn mynd af Akimi, Benitu og mér með númerin okkar öll í röð. Þegar Akimi sá að við Benita vorum númer 12 og 13 þá valdi hún treyju númer 11. Við erum flottar svona.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 06:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Árangurinn "miklu betri" en ég hélt!!!!!
22.4.2008 | 22:59
Hér koma nákvæmar upplýsingar um Sólarhlaupið mitt. Ég hafði giskað á að ég væri í átjánþúsundasta sæti (af 59.750) með handahófskenndu úrtaki, en ég var miklu betri en það. Ég varð í tólfþúsundfjögurhundruðfimmtugastaogsjötta sæti (12.456). Ekkert smá gott, BARA 12.455 á undan mér. Og ég varð númer 3951 af konum og númer 430 í mínum aldursflokki.
Ég held það nú. Maður komst á topp fimmhundruð listann.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Nokkur svör til þeirra sem heiðrað hafa gestabókina undanfarnar vikur
22.4.2008 | 22:41
Það er eiginlega slæmt að það skuli ekki vera hægt að svara fólki sem skrifar í gestabókina hér á moggablogginu. Ekki nema með því að skrifa sjálfur í eigin gestabók, nú eða gera það sem ég ætla að gera núna og svara bara í sérstöku gestabókarbloggi.
Ég ætla að svara nýjustu færslu fyrst og feta mig svo afturábak um nokkrar vikur.
pítusósa
Jóna, ég held ég hafi að minnsta kosti tvisvar fengið uppskrift af pítusósu. Önnur var ekkert sérstök en hin var nokkuð lík því sem maður getur keypt heima. Ekki eins að sjálfsögðu en ekki langt frá því. Ég man að trikkið lá í kryddjurtunum sem maður setti út í. Ég man ekki hvar ég setti uppskriftina sem mér líkaði.
Fékk einu sinni líka uppskrift af kokteilsósu sem var miklu betri en þessi einfalda mayo-tómatsósublanda sem ég gerði alltaf. Málið var að setja líka sinnep og worchestershire sósu út í.
Kveðja frá Vancouver
Ásta, hér er slatti Íslendinga. Það má finna okkur á Facebook undir 'Íslendingar í Vancouver'. Hafðu endilega samband við okkur. Það er planið að gera eitthvað skemmtilegt með reglulegu millibili. Hey, og svo er Mugison að spila hér í lok mánaðar.kveðja frá norðfirði
Jói Tryggva, blessaður. Gaman að heyra frá þér. Þú veist að við erum skyld (fjórmenningar eða svo)? Pabbi sagði mér að þú hefðir áhuga á sjálfboðavinnu við Ól 2010. Hafðu endilega samband við þá strax því þúsundir manns hafa þegar boðið fram aðstoð sína. Hér er síða Vanoc: http://www.vancouver2010.com/en og hér má finna upplýsingar um sjálfboðavinnu: http://www.vancouver2010.com/en/Participation/VolunteerOpportunitiesHæ Stína
Arnar, ég vona að ég komist heim fljótt. Stefni að því að koma heim um jólin.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Kaldbaksferð (nei, ekki mín)
22.4.2008 | 07:16
Vanalega er bloggið mitt fullt af bulli um það hvað ég er að gera af mér en nú ætla ég að breyta út af vananum.
Mamma og pabbi skelltu sér a Kaldbak um helgina og sögðu að það hefði verið æðislegt. Veðrið lék við þau og Eyjafjörðurinn virkilega sýndi sitt besta andlit. Ég fékk að sjá fullt af fallegum myndum úr ferðinni og set þær hér inn. Sjáið bara hversu fallegt landið okkar er.
Þarna má sjá m.a. Hrísey, Grenivík, Akureyri, mömmu og pabba og frændfólk mitt sem mamma og pabbi hittu af tilviljun í ferðinni.
Að lokum set ég svo mynd sem mamma tók af svifflugu og það virðist sem hún ætli að fljúga inn í sólina. Mér verður hugsað til Íkarusar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Gamlar kerlingar hlaupa hratt
22.4.2008 | 05:45
Tímarnir í hlaupinu voru birtir í Vancouver Sun í dag svo ég fékk loks að sjá opinbera tímann minn - 59.41. Fínt, tíu sekúndum betra en á skeiðklukkunni minni. Hins vegar sá ég hversu ótrúlega lélegur tími þetta er í raun og veru þegar ég skoðaði síðuna með tíu bestu tímum í hverjum aldursflokki. Ég þyrfti að vera 85 ára eða eldri til þess að vinna hlaupið. Já, í alvöru, það var ein kona í aldurshópnum 80-84 ára sem hljóp á betri tíma en ég. Í flokki 70-74 ára hefði ég orðið í þriðja sæti og í flokki 60-64 ára hefði ég ekki komist á topp tíu listann. Mikið andskoti hlaupa þessar gömlu kerlingar hratt.
Hitt er annað mál að miðað við meðaltíma var ég ekki svo slæm. Í tilviljanakenndu úrtaki kom í ljós að af 100 hlaupurum voru sirka 30 á undan mér. Það þýðir væntanlega að af 59.750 hlaupurum var ég einhvers staðar í kringum átjánþúsundasta sæti. Hehe, hljómar vel, ekki satt? Ég var í átjánþúsundasta sæti í Vancouver Sun hlaupinu.
Ó, og ég gleymdi að taka fram að þetta hlaup var annað stærsta hlaup í heimi. Veit ekki hvaða hlaup er stærst!
Að lokum, 1200 fyrirtæki tóku þátt í hlaupinu, og Vanoc, væntanlegur vinnuveitandi minn, varð í fyrsta sæti í sínum flokki og í fjórða sæti í heildina. Greinilega íþróttasinnaður hópur sem ég eftir að verða hluti af. Það kemur nú ekki beinlínis á óvart - ég meina, þetta eru Ólympíuleikarnir.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 06:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Náði markmiðinu
21.4.2008 | 05:05
Nú er helgin næstum liðin og ég er að mestu leyti ánægð. Tvennt stendur uppúr, annars vegar sigur Family ties (innanhússfótboltaliðsins míns) í gær og hins vegar Sólarhlaupið í dag.
Við unnum leikinn 10-3 og ég skoraði eitt markanna. Eitt mark af tíu er reyndar ekki mjög merkilegt og þetta var eiginlega ekki mitt mark hvort eð var. Fil Sousa átti mest í því vegna þess að hann dró til sín markmanninn og tvo varnarmenn sem hreinlega gleymdu mér. Hann gleymdi mér hins vegar ekki, sendi boltann til mín og ég var ein og yfirgefin með markið sama sem óvarið. Þurfti bara að breyta stefnu boltans og hann lá í netinu. Við spiluðum þennan leik eins og lið og enginn einspilaði boltann eins og stundum vill verða. Þess vegna var leikurinn miklu opnari og skemmtilegri. Hitt liðið var reyndar ekki mjög sterkt. Stelpurnar voru góðar en af strákunum voru aðeins tveir þokkalegir. Eftir leikinn fórum við nokkur upp á barinn og fengum okkur pizzu. Það er alltaf skemmtilegt að slappa af í góðum félagsskap eftir leik. Það eina sem skyggði á gleðina var að í sjónvarpinu vann Boston Montreal og því verður að spila hreinan úrslitaleik um það hver fer áfram í næstu umferð.
Í morgun var svo Sólarhlaupið og þetta var stærsta Sólarhlaup til þessa - 59.179 manns. Það var reyndar engin sól og skítakuldi þar að auki (þriggja stiga hiti) svo ég hljóp í buxum og peysu. Við Lína hittumst niðrí bæ (eftir smá leit hvor að annarri) og hlupum fyrri hlutann fremur rólega. Það var mjög þægilegt. Við kjöftuðum megnið af leiðinni. En þegar ég leit á klukkuna eftir fimm kílómetra og sá að það hafði tekið okkur 33 mínútur að hlaupa helming leiðarinnar þá sá ég að ég varð að spretta úr spori. Svo við bættum í. Markmið mitt hafði nefnilega verið að hlaupa undir 60 mínútum. (Í fyrra hljóp ég á 60,20 sek.) Það tókst því samkvæmt skeiðklukkunni minni hljóp ég þetta á 59 mínútum og 51 sekúndu. Veit ekki enn hver opinberi tíminn er en fæ að vita það á morgun. Hey, hálfri mínútu betra en í fyrra og ég hef farið tvisvar sinnum út að hlaupa í allan vetur. Ég er bara þokkalega ánægð með það. Aðalatriðið var að ég setti mér markmið og náði því. Ekki merkilegt markmið en markmið samt sem áður.
Í kvöld slógu svo strákarnir í Dallas núverandi Stanleybikarmeistara, Anaheim, út úr keppninni. Mark var svo ánægður að hann sendi mér skilaboð frá Winnipeg sem sagði nokkurn veginn: YEEEEEEEESSSSSSSSSSSSS! Og svo komu nokkur vel valin orð um hvað Chris Pronger gæti gert við sjálfan sig en ég mun ekki hafa það eftir (Mark hatar Pronger meir en nokkurn annan í hokkí). Ég verð að biðja Sigga Ice sem kom hér inná síðuna mína fyrir nokkru afsökunar. Hann sagði að Dallas myndi vinna Anaheim (reyndar sagði hann í fjórum) og ég sagði að það væri ekki séns. Hann hafði rétt fyrir sér, ég rangt.
Það eina sem skyggði á helgina var helv. hún Rita á miðhæðinni. Já, hún er byrjuð aftur. Hún er að reyna að þvinga okkur Alison til þess að borga stærri hluta í rafmagns og vatnsreikningunum (eins og er er farið eftir stærð íbúða) og hún hefur fundið leiðina til þess. Ef við förum ekki eftir því sem hún vill þá mun hún segja við eigendurna að hún hafi ofnæmi fyrir köttum og Alison yrði því annað hvort að flytja eða losa sig við köttinn. Rita hefur reyndar ekki sagt beint út að hún muni gera þetta en hún hefur ýjað að því. Ég nenni ekki að segja ykkur frá þessu í smáatriðum núna. Klukkan er orðin tíu og ég mun aldrei sofna ef ég skrifa meir um kerlingarfíflið.
En sem sagt, fyrir utan smárifrildi þá hefur þetta verið góð og vel heppnuð helgi.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 05:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Eftirtektarpróf
20.4.2008 | 05:34
Sá þetta hjá Ellen um daginn og finnst of gott til þess að deila ekki með öðrum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 05:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Undarlegt veður
19.4.2008 | 07:28
Þótt ótrúlegt sé þá er snjókoma hér í Vancouver........í apríl!!!!! Við fáum snjó kannski tvisvar þrisvar á ári og aldrei á þessum tíma. Veit ekki alveg hvað hefur gerst. Veðurguðirnir fóru væntanlega á fyllerí.
Fótboltaleikur klukkan fimm á morgun (í dag, það er komið fram yfir miðnætti) og Sólarhlaupið á sunnudaginn. Nóg um íþróttir þessa helgina.
Verð að halda mér upptekinni næstu vikurnar. Annars verð ég einmana. Mark fór til Winnipeg að heimsækja foreldra sína og systur, Marion er búin að vera í Lilloet undanfarið og er nú í Chilliwack, verður í Vancouver í mesta lagi í einn dag í næstu viku. Fer alflutt til Victoria í lok mánaðar. Rosemary er með fullt danskort (ég heimsótti hana þó í dag) og Julianna er svo upptekin af því að vera ófrísk að hún má ekkert að því vera að tala við mann, hvorki í síma né á tölvunni. Mér finnst nú allt í lagi að muna eftir vinum sínum þótt maður sé með barn í mallanum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Barist gegn hryðjuverkum síðan 1851
18.4.2008 | 18:02
Einn kennarinn minn gengur oft í stuttermabol með mynd af Geronimo (meðfylgjandi á þessu bloggi) og öðrum Apache indíánum og undir myndinni stendur eftirfarandi fyrirsögn: Fighting terrorism since 1851. (OK, það er hugsanlegt að ég muni árið ekki rétt.)
Mér hefur alltaf fundist þetta frábær bolur því allir sem hafa nennt að lesa eitthvað um sögu Bandaríkjanna vita hvernig þeir fóru með indíánana. Þarna var um ekkert annað að ræða en þjóðarmorð og þeir hafa gert allt of lítið til þess að þvo blóðið af höndum sér. Það er enn illa komið fram við indíána Norður Ameríku. Og Kanadamenn eru lítið skárri. Þeir drápu reyndar ekki eins marga á nítjándu öldinni en þeir hafa ekki gert nærri nógu mikið til þess að bæta ástand þessara þjóða sem þeir hafa svo illilega skitið á í áratugi. Hér í Vancouver er t.d. stór hluti heimilislausra af indíánaættum. Engin lausn hefur fundist ennþá.
Mér finnst gott hjá páfa að ítreka þetta. Bandaríkjamenn telja sig oft hálfgerða guði og það verður að minna þá á það af og til hvað þeir sjálfir hafa gert sínu eigin fólki.
![]() |
Páfi minnir á dökkar hliðar bandarískrar sögu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Spennandi tímar framundan
18.4.2008 | 02:55

Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)