Hvenær er hægt að segja að mynd sé byggð á bók?
18.4.2008 | 00:12
Ég fór í bíó í dag sem svo sem er ekki í frásögur færandi, nema hvað ég fór að sjá Hina Boleyn stelpuna (The other Boleyn girl) eftir að hafa lesið bókina. Je minn góður. Á hverju voru handritshöfundar? Ég veit að vanalega er kvikmyndahandrit ekki alltaf mjög trútt upphaflegu bókinni (þegar kvikmynd er byggð á bók) en það var ekkert ógurlega margt þarna sem fylgdi bókinni. Skil ekki af hverju þeir sögðust ekki bara vera að gera mynd byggða á lífi Önnu og Maríu Boleyn (sem hefði líka verið nokkuð frjálslegt því staðreyndum er stanslaust breytt. Hér koma nokkur dæmi:
Í upphafi bíómyndarinnar búa Boleyn systkinin hamingjusamlega í Rochford heima hjá foreldrum sínum. Í bókinni eru börnin öll send í burtu í nám mjög ung, Mary fjögurra ára gömul og hin væntanlega á svipuðum aldri. Stelpurnar eru báðar aldrar upp meira og minna í frönsku hirðinni og síðar í ensku hirðinni, en ekki úti í sveit eins og í myndinni.
Í myndinni ákveður fjölskyldan að Anna verði ástkonan Henrys áttunda, jafnvel áður en hann hefur hitt hana, en hann velur síðan Maríu. Í bókinni er það svo að þegar Henry fer að sýna Maríu áhuga þá gerir fjölskyldan allt til þess að ýta undir það en það er ekki þeirra verk að Henry fær áhuga á henni. Önnu er aldrei ýtt fram fyrr en eftir að María er ófrísk og konungur fer að leita að nýrri ástkonu á meðan María liggur í rúminu.
Í myndinni eignast María son í fyrstu tilraun en konungur lítur ekki einu sinni á son sinn því hann hefur lofað Önnu því að tala aldrei aftur við Maríu. Í bókinni eignast María fyrst dóttur, Catherine og síðan son. Anna lætur konung aldrei lofa því að tala ekki við Maríu framar. Hún veit að hún hefur sigrað systur sína án þess.
Í myndinni lætur Anna reka Maríu í burtu eftir fæðingu sonar hennar, en í bókinni vill Anna hafa hana hjá sér og sendir börnin hennar í staðinn í burtu, og notar svo börnin sem tálbeitu í hvert sinn sem María vill ekki gera eins og henni er sagt.
Í myndinni nauðgar konungur Önnu þegar hann er þreyttur á að bíða eftir henni en í bókinni velur Anna sjálf stað og stund fyrir fyrstu samfarir hennar og konungs.
Í bæði bók og bíómynd giftist María William Carey áður en hún verður ástkona konungs. Í bókinni deyr hann í plágunni en í myndinni er eins og hann hverfi bara. María virðist allt í einu vera einstæð móðir án þess að nokkuð sé frekar minnst á eiginmanninn.
Í myndinni er William Stafford, síðari eiginmaður Maríu þjónn fyrir fjölskylduna sem hefur þekkt Maríu frá barnæsku og þjónar henni. Þau eru einu sinni eða tvisvar sýnd tala saman og svo allt í einu upp úr þurru segir hann henni að hann ætli að kaupa bóndabæ og hún geti komið með sér og orðið konan sín. Í bókinni eru ástir Maríu og Williams besti kaflinn í bókinni og dásamlegt hvernig hann vinnur hana með því að vera einfaldlega dásamlegur maður. Það er ekkert í myndinni sem útskýrir af hverju hún ætti að vilja hafa nokkuð með hann að gera.
Í myndinni er Anna látin missa fóstur sem enginn fær að sjá (sem passar við fyrstu tvö fósturlát hennar). Í bókinni var það hins vegar þriðja fósturlátið sem fór með hana, þegar hún ól barn sem lýst var sem skrímsli. Konungur hafði sent sína eigin ljósmóður á staðinn og sama hvað Anna reyndi að múta henni, ekkert gekk. Konungur fékk að vita að Anna hefði eignast skrímsli sem benti til þess að hún hefði lagst með djöflinum.
Í bókinni er Anna látinn biðja bróður sinn um að barna sig, og kona bróðurins verður vitni að þessu og segir frá. Þegar konungur lætur hálshöggva Önnu þá er hann því að fara eftir því sem honum hefur verið sagt. Í bókinni, og í samræmi við það sem sagnfræðingar telja, þá voru þetta upplognar ásakanir vegna þess að konungur vildi losna við Önnu. Hún gat ekki gefið honum son og hann vildi nýja konu.
Í lokin kemur fram að þótt konungur hafi ekki eignast son þá hafi hann eignast erfingja því rauðhærð dóttir Önnu, Elísabet, ríkti sem drottning yfir Englandi í 45 ár. Þetta er auðvitað bull því Henry eignaðist son, Edward, ásamt Jane Seymour sem hann giftist á eftir Önnu, og Edward þessi varð konungur á eftir föður sínum. Þegar hann dó þá tók við María drottning, dóttir Henry's og Kathrine drottningar, og Elísabet tók svo við eftir lát hennar, þriðja í röð frá föður sínum.
Ég skil ekki svona bull. Ég veit að ekki er allt í bókinni í samræmi við það sem sagnfræðingar trúa núna, en ef maður byggir mynd á bók, þá mætti fara eftir bókinni í fleiri atriðum en allra stærstu dráttum. Þessir tveir tímar í bíói voru ekki sérlega skemmtilegir.
Það gæti vel verið að myndin sé áhugaverð fyrir þá sem ekki hafa lesið bókina, en þið hin sem hafið lesið bókina, ekki eyða pening í bíómiða. Ekki þess virði.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Maður þarf víst að setja fyrirsögn
17.4.2008 | 16:11

Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Sólarhlaupið framundan
16.4.2008 | 19:46
Ég er búin að fara tvisvar sinnum út að hlaupa í vikunni. Hef reyndar hvorki hlaupið langt né lengi en þar sem ég hef ekki hlaupið neitt í allan vetur (nema í fótboltanum) þá var ég nú bara sátt við úthaldið. Í bæði skiptin hljóp ég í hálftíma og ég átti meira inni.
Ástæðan fyrir því að ég dreif í þessu var ekki sú að mig langaði allt í einu svo mikið að hlaupa, heldur vegna þess að einhvern tímann í janúar skráði ég mig í Sólarhlaupið og allt í einu uppgötvaði ég að það er nú á sunnudaginn. Og ef ég á að geta hlaupið tíu kílómetra án þess að verða mér algjörlega til skammar, þá verð ég alla vega að viðra hlaupaskóna aðeins.
Upphaflega planið var að hlaupa alla vega tvisvar í viku. Þess vegna skráði ég mig í þetta hlaup, hélt það myndi ýta á mig. En nei, einhvern veginn varð ekkert úr því. Ég er því hrædd um að ég muni ekki ná að bæta tímann minn frá því í fyrra. O jæja, það er ekki hundrað í hættunni. Aðalatriðið er að skella sér niður í bæ á sunnudaginn og skokka þessa tíu kílómetra með þúsund öðrum hlaupurum. Þetta var skemmtilegt í fyrra og verður vonandi ekki síðra núna.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Nonis rekinn
15.4.2008 | 05:09
Líf atvinnumanna í íþróttum er erfitt. Ef árangur lætur bíða eftir sér fá höfuð að fjúka. Í kvöld komu fréttir um það að Dave Nonis, framkvæmdastjóri Vancouver Canucks, hafi verið rekinn. Liðið stóð sig ekki eins vel og búist hafði verið við - að mínu mati og margra vegna þess að varnarmennirnir voru flestir meiddir megnið af vetrinum - og nýju eigendurnir vilja sjá árangur. Það var greinilega þeirra mat að Nonis væri ekki rétti maðurinn í starfið. Þetta kom mér algjörlega á óvart því þegar rætt var við Francesco Aquilini fyrir nokkrum dögum, eftir að liðið komst ekki í úrslitakeppnina, þá var að heyra á honum að hann treysti Nonis fullkomlega. En Francesco er aðeins einn þriggja eigenda...og hvað veit maður hvað fólk er í raun að hugsa.
Nú hef ég áhyggjur af því að þetta haldi áfram niðurá við og Alain Vignealt þjálfari verði látinn fara líka enda var það Nonis sem réð hann. Ég verð fokill ef það verður raunin. Ég held að hann sé frábær þjálfari en hann fékk ekki margt að vinna með í vetur. Okkur vantar góða framlínu og eins og ég nefndi var vörnin meira og minna á spítalanum. Þar að auki spilaði Luongo hundilla síðust tíu leikina og var tekinn af velli í næstum helmingi þeirra.
Ég vona bara að eigendurnir viti hvað þeir eru að gera og að þeir hafi nú þegar einhvern í huga sem næsta framkvæmdastjóra. Sjálf er ég ekki viss um að þetta hafa verið góð ákvörðun.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fyndin auglýsing
14.4.2008 | 01:39
Hér kemur ein af mínum uppáhaldsauglýsingum.
Kia Sedona: There's no safer minivan!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Aðþrengdar eiginkonur að hefjast á ný
13.4.2008 | 18:23
Jibbý, nýr þáttur um örvæntingarfullu eiginkonurnar í kvöld. Undanfarna viku hefur þátturinn verið auglýstur á hverju kvöldi og brotin sem sýnd hafa verið lofa góðu.
Hér kemur smá yfirlit um stöðu mála þegar við síðast skildum við eiginkonurnar og svo skal ég segja ykkur við hverju má búast í þeim sjö þáttum sem eftir eru fyrir sumarfrí.
Staðan þegar þættirnir fóru í frí vegna verkfalls rithöfunda
Susan: Var búin að fá nóg af Mike og pilluátinu hans og sendi hann því í meðferð.
Bree: Bree og fjölskyldan fluttu inn til Susan og Julie. Susan hafði átt von á því að þetta yrði erfitt en var fljót að átta sig á því hversu þægilegt það var að hafa Bree inni á heimilinu að þrífa og elda.
Lynette: Heilsa Lynette er á batavegi og fjölskyldan slapp ómeidd frá fellibylnum svo hún getur ekki verið annað en þakklát.
Gaby: Orðin laus við eiginmann sinn, Victor (sem fékk girðingu í gegnum sig), og hefur nú snúið sér alfarið að fyrrum eiginmanni, Carlos.
Katherine: Hið "fullkomna" líf Katherine virðist vera að falla um koll þar sem dóttir hennar, Dylan, finnur mikilvægan bréfsnepil í ruslinu (ef ég man rétt þá var það miðinn sem amman skrifaði á dánarbeðinu).
Það sem búast má við í næstu sjö þáttum:
Mike uppgötvar að það ar Orson sem keyrði á hann í annarri þáttaröð.
Orson, sem býr hjá Susan ásamt Bree, fer að ganga nakinn í svefni.
Gabrielle kemst að því að Carlos er blindur "á fyndinn hátt" eftir að þau giftast á ný. Til að vinna sér inn aukapening þá leigja þau út herbergi (til Justine Bateman), sem að sjálfsögðu á sitt eigið leyndarmál.
Lynette kemur Bree á óvart með hegðun sinni í kirkju Bree. Hún þarf einnig að eiga við Rick (kokkinn sem hún var skotin í) þegar þau tvö lenda í samkeppni á veitingahúsamarkaðnum.
Bree og Katherine keppast um það hvor er betri húsmóðir þegar þær sjá um bæjardansleikinn. Má búast við eitruðu andrúmslofti.
Edie fer víst langt yfir strik siðsemdar og mun það líklega leiða til endaloka hennar á Wisteria Lane.
Eins og þið sjáið er margt spennandi framundan. Jibbí. Ég fæ að sjá nýjan þátt í kvöld, vonandi þurfið þið hin ekki að bíða lengi.
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 21:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Ég er óheillakráka
13.4.2008 | 17:05
Ég er komin með plan um það hvernig ég get unnið mér inn svolítinn aukapening. Ég held nefnilega að ég sé algjör óheillakráka fyrir þau íþróttalið sem ég styð. Hér eru nokkur dæmi:
Vancouver Canucks náðu ekki að vinna sér sæti í úrslitakeppninni um Stanley bikarinn (og hafa aldrei unnið bikarinn).
Arsenal hefur endanlega gert út um allar vonir um nokkurn bikar þennan veturinn.
Vancouver Presto, mitt eigið lið í fótboltanum, hefur aldrei unnið neinn titil.
Þór Akureyri hefur aldrei unnið nokkurn titil í fótboltanum.
Eini leikurinn sem ég sá í kanadíska fótboltanum með BC Lions var þegar þeir féllu úr úrslitakeppninni.
Ég ætla að fara til Teits Þórðar og benda á að ef Vancouver Whitecaps á að eiga nokkurn möguleika á sigri í deildinni í sumar þá verða þeir að borga mér fyrir að halda ekki með liðinu. Ef það gengur eftir mun ég tala við BC Lions í sumar og síðan Canucks og Arsenal í haust. Ef gengur hjá þeim líka þá mun ég tala við Þórsara næsta vor. Þetta gæti þýtt fína titla fyrir þessi lið og aukapening handa mér.
Er þetta ekki fín hugmynd hjá mér? Einhvern veginn verður maður að nýta neikvæðu hliðarnar.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Strákarnir hans Teits byrja vel
13.4.2008 | 05:11
Fyrst smá um veðrið
Hitinn í dag fór upp í 19 stig samkvæmt veðurfréttum en ég húkti inni og vann við fréttabréf Norræna félagsins í Kanada. Það þarf að koma út núna í apríl og ég ákvað því að drífa í þessu. Sá strax eftir því þegar ég fór loks út úr húsi og áttaði mig á því hversu frábært veðrið var í raun og veru. Maður getur ekki dæmt það bara með því að horfa út um gluggann því oft getur sólin platað mann. En á móti kemur að ég er langt komin með fréttabréfið og þarf ekki nema eins dags vinnu í viðbót, ef það.
Innanhússboltinn
Þegar ég loksins kom mér út úr húsi var það til þess að halda yfir í Burnaby til að spila fótbolta. Leikur númer tvö í deildinni. Við byrjuðum æðislega og yfirspiluðum hitt liðið algjörlega, en hitt liðið var gróft og komst upp með það. Það sem gerðist þá var að bestu leikmennirnir í okkar liði létu það pirra sig og leikurinn hrundi niður. Miðjan hætti að nenna að hlaupa og pakkaði aldrei í vörn svo það kom fyrir aftur og aftur að hitt liðið náði að spila þrír á tvo. Þannig fengu þeir þrjú mörk í röð og staðan sem hafði verið 5-2 fyrir okkur varð allt í einu 5-5. Þá urðu framverðirnir okkar ennþá pirraðri, hættu að senda boltann og reyndi að komast einir í gegn (sendu aldrei á okkur stelpurnar til að mynda), og þetta varð til þess að staðan varð allt í einu 5-7. Við náðum að minnka muninn í 6-7 þegar einn þeirra manna fékk rauða spjaldið (sem hann átti skilið þótt fyrr hefði verið) en það var ekki nóg. Við spiluðum vel í fyrri hálfleik en svo tók skapið hjá sumum yfir og leikurinn hrundi niður. Phil, einn framherjanna okkar (sem aldrei gefur boltann ef hann mögulega kemst hjá því), átti í stöðugu samstuði við einn leikmanna hins liðsins og missti loks stjórn á sér og hálfpartinn lamdi til náungs. Fékk gula spjaldi, og dómarinn bað hann um að fara af velli og kæla sig aðeins niður. Phil fór af velli en hélt svo áfram að skammast og að mínu mati var hann heppinn að fá ekki rautt spjald. Hefði átt að fá það. Þegar hann lýsti þessu eftirá sagði hann að dómarinn hafi ekki hætt að öskra á sig og sjálfur hafi hann ekki sagt neitt. Það var bull. Það var hann sjálfur sem ekki þagnaði. Það þarf rennilás á rifuna á svona mönnum. Dómarinn hefði reyndar mátt standa sig betur í leiknum. Við söknum Angelo, hann er besti dómarinn í deildinni.
Vancouver Whitecaps
Vancouver Whitecaps spilaði sinn fyrsta leik í USL deildinni í kvöld gegn erkiféndunum í Montreal Impact og unnu þeir sigur, 1-0. Það byrjar því vel hjá Teiti Þórðar og félögum. Ég ætla að reyna að fara á nokkra leiki í sumar. Stemningin er víst frábær og ég á von á að liðið verði betra í sumar en það var í fyrra.
Stanleybikarinn
Keppnin um Stanley bikarinn er komin vel af stað og flest lið hafa nú þegar leikið tvo leiki:
Montreal Canadians hafa unnið tvo leiki gegn Boston Bruins (í samræmi við mína spá).
Washington hafa unnið einn leik gegn Philadelphia Flyers (ég átti erfitt með að velja hér)
Red Wings hafa unnið tvo leiki gegn Nashville (í samræmi við mína spá)
Minnesota Wild og Colorado Avalance eru jöfn með einn sigur hvort lið (í samræmi við mína spá - spáði að sjö leiki þyrfti til)
Pittsburgh Penguins hafa unnið tvo leiki gegn Ottawa Senators (i samræmi við mína spá)
NY Rangers hafa unnið tvo leiki gegn New Jersey Devils (í samræmi við mína spá)
San Jose Shark og Calgary Flames eru jöfn með einn leik hvort lið (ekki í samræmi við mína spá, ég hélt að San Jose myndi rúlla upp Calgary í fimm leikjum...það getur reyndar enn gerst)
Dallas Stars hafa unnið tvo leiki gegn Anaheim Ducks (ekki í samræmi við mína spá. Var viss um að Anaheim færi létt með þetta. Verð að segja að ég er ánægð með að hafa haft rangt fyrir mér. Vona að Dallas slái þá út).
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um óskipulagt fólk
11.4.2008 | 16:50
Hópvinna getur verið ógurlega erfið vegna þess að maður þarf að treysta svo mikið á annað fólk, og þegar einhver gerir ekki það sem ætlast er af þeim lenda allir í vanda.
Í vetur hef ég verið aðstoðarkennari í grunnáfanga í málvísindum, einn fimm aðstoðarkennara. Við fimm höfum unnið nokkuð vel saman en prófessorinn hefur verið vandamál. Hún gerir allt á síðustu stundu sem bæði þýðir að við hin þurfum að gera okkar hluta undir pressu, og hvenær sem henni hentar, og það þýðir líka að við vorum stundum í stresskasti yfir því hvort náist að klára hlutina eða ekki.
Á hverjum mánudagsmorgni hafa nemendur þurft að taka próf og uppkast af prófinu lá vanalega fyrir eftir tíu á sunnudagskvöldum. Endanlegt próf þurfti að vera tilbúið ekki síðar en klukkan níu á mánudagsmorgnum, helst fyrr því þá þurfti að ljósrita það í 150 eintökum. Það sýnir að við hin höfðum ekki mikinn tíma til að lesa prófið yfir og koma með athugasemdir. Stundum náði ekkert okkar að lesa yfir og stundum fóru því villur í gegn. Ég segi alla vega fyrir mig að ég les ekki mikið póstinn minn eftir klukkan tíu á sunnudagskvöldum. Og vanalega byrja ég ekki að vinna fyrr en klukkan níu á morgnana. Þetta var því ekki sérlega gott kerfi.
Við aðstoðarkennararnir sáum svo um kennslu á föstudögum. Oft þurftum við þá að fara yfir fyrirfram ákveðið efni en stundum lá ekki fyrir hvert það efni var fyrr en á fimmtudagskvöldum. Ekki var því mikill tími til þess að undirbúa það sem maður átti að kenna. Ég segi alla vega fyrir mína parta að ég vil helst vita fyrr en á fimmtudagskvöldi hvað ég á að kenna á föstudagsmorgni. Þetta var einmitt verst fyrir mig því ég var eini aðstoðarkennarinn sem hafði ekki kennt þennan áfanga áður.
Og af hverju er ég að tala um þetta núna? Af því að í dag er síðasti kennsludagur og það sem ég þarf að gera í tímanum er að afhenda einkunnir fyrir síðasta prófið og fyrir veggspjaldaráðstefnuna fyrir viku. Við settumst öll niður strax eftir ráðstefnuna og gáfum nemendum einkunnir fyrir veggspjaldið sitt og prófessorinn skráði einkunnirnar í tölvu. Hún lofaði að senda okkur síðan einkunnirnar því við þurfum að láta nemendur fá þær. Nú er rétt rúmur klukkutími þar til kennslutími byrjar, ég þarf að fara út úr húsi eftir hálftíma, og engar einkunnir komnar. Við minntum kennarann á þetta í vikunni, sendum annað bréf í gær og ég sendi svo ítrekunarbréf í morgun - en ekkert komið. Ég veit ekki alveg hvað ég á að segja nemendum sem koma í tímann til að fá einkunnirnar sínar.
Aaargggghhhhhhh. Svona fólk á ekki að hafa rétt til þess að vinna með öðrum!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Spurning hvort maður ætti að leggja gildrur
11.4.2008 | 07:11
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)