Veðrið í Bandaríkunum
22.1.2011 | 21:04
Veður í Bandaríkjunum sýnir vel hversu stórt landið er og hversu ólíkir landshlutarnir. Í þessari frétt er sem sagt sagt frá því að frostið á austurströndinni er um tuttugu gráðu og um fjörtíugráður í miðvesturríkjunum. Þetta á þó væntanlega aðeins við um nyrðri ríki miðvesturríkjanna. Hitinn í Kansas City er t.d. um ein gráða þessa stundina. Sömu vetrarhörkur ríkja ekki á vesturströndinni. Hiti í Seattle er níu gráður og sól. Í Los Angeles er 21 gráðu hiti. Það eru fjórtán gráður í Houston.
Ég fann vel fyrir þessu þegar ég flutti frá Winnipeg til Vancouver. Frost er mikið í kringum tuttugu gráður í Winnipeg í janúar og fer gjarnan niður fyrir þrjátíu. Í Vancouver er hiti vanalega fyrir ofan núllið. Á móti kemur að sumrin í Winnipeg eru funheit en svalari hér á vesturströndinni. Sjórinn jafnar út hitann og því eru öfgarnar minni við sjóinn en þeir eru inni í miðju land. Mér fannst t.d. alltaf merkilegt í Winnipeg að hiti var mestur um fjögur leytið þótt sólin væri hæst á lofti um hádegi. Maður fattaði þá ekki heldur að líkur á bruna voru mestir um hádegi. Einhvern veginn tengdi maður það við hitann.
Annars hef ég aldrei upplifað aðra eins hita eins og fyrsta sumarið mitt í N-Ameríku þegar við keyrðum frá Winnipeg til San Francisco og til baka. Leiðin suðvestureftir var ekki of erfið. Við keyrðum í gegnum Kanada til Lethbridge í Alberta, þaðan til Vancouver og síðan beint í suður í gegnum Seattle og Portland. Á leiðinni heim fórum við hins vegar í gegnum Nevada og síðan upp Idaho og Montana til Lethbridge. Hitinn í Nevada var ógurlegur og engin loftkæling í bílnum. Ég keypti plöntuúðara, fyllti hann af vatni og sprautaði svo yfir mig sem mest ég gat til að kæla skinnið. Einu sinni stoppuðum við á svona 'reststoppi' sem eru alls staðar meðfram þjóðvegum í Bandaríkjunum. Þetta var í eyðimörkinni miðri og ég var skíthrædd við að rekast á eðlur, snáka og sporðdreka en þurfti að pissa og að kæla mig. Ég fór undir vatnsbunu og rennbleytti mig. Fór svo á klósettið og aftur út. Ég var orðin þurr áður en við settumst aftur inn í bílinn. Varð að bleyta mig aftur. Fyrst eftir að ég settist rennblaut í bílinn og áður en hitinn þurrkaði mig á ný var þægilegasti tími ferðarinnar.
Ég lærði af því að keyra aldrei í gegnum þennan hluta Bandaríkjanna aftur að sumri til án þess að vera í loftkældum bíl.
En nú er ég komin langt út fyrir efnið.
Fimbulkuldi í Bandaríkjunum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Kínverjar á móti deyjandi fólki
19.1.2011 | 17:13
Nú liggur fyrir áætlun um að byggja svokallað 'hospice' á svæði Háskólans í Bresku Kólumbíu, en 'hospice' er nokkurs konar sjúkraheimili ætlað dauðvona sjúklingum. Á undanförnum dögum hafa komið fram hörð mótmæli gegn þessari áætlun frá kínverskum íbúum svæðisins, sem allir búa í stórri blokk við hliðina á hinu áætlaða byggingasvæði. Þeir segja að það sé gegn menningu þeirra að hafa fólk deyjandi í bakgarði sínum. Þeir vilji ekki sjá drauga á sveimi. Kínverska menningarfélagið í borginni hefur nú staðið upp til að gagnrýna þessa fyrrum landa sína og segja að í kínverskri menningu sé einmitt mikið lagt upp úr því að fara vel með sjúka og aldraða og það sé því alls ekki gegn kínverskri menningu að byggja þarna hospice. Þetta er því orðin ein hringavitleysa, og margir vilja trúa að eigendur íbúða blokkarinnar séu fyrst og fremst að hugsa um söluverðmæti íbúða sinna og noti draugana sem fyrirslátt.
Eins og gefur að skilja hafa komið frammargar gagnrýnisraddir á þessi viðhorf íbúanna, og meðal annars verið bent á að þetta fólk er enn lifandi og á að eiga kost á bestu mögulegu umönnun. Þetta er ekki kirkjugarður eða líkbrennsla. Viðbrögð þessa fólks eru í raun þau sömu eins og þegar byggja á áfangaheimili fyrir fanga, eða meðferðarstofnanir fyrir eiturlyfjasjúklinga. Maður getur skilið, svona ef maður reynir, af hverju fólk vill ekki eiturlyfjaneitendur eða fyrrum glæpamenn í kringum börnin sín - en veikt fólk inni á sjúkrastofu????? Þetta er fáránlegt. Hugsið ykkur að vilja ekki búa við hliðina á sjúkrahúsi því fólk deyr þar inni?
Annars er þetta vandamál sem aldrei hefði átt að koma upp, því háskólinn hefði aldrei átt að láta eftir svæði undir blokkir, aðrar en þær sem tilheyra háskólanum. Á sama tíma og ekki er hægt að bjóða nemendum upp á niðurgreitt húsnæði er verið að fylla lóðirnar af fólk sem ekkert hefur með háskólann að gera. Ég skil ekki einu sinni af hverju þetta fólk vill búa þarna. Ég meina, þetta er háskólalóð og allt fullt af nemendum. Aðeins ein kjörbúð er á svæðinu og hún kom bara í fyrra. Ég geng í skólann en hef aldrei viljað búa á svæðinu. En nei, þeir hafa verið að selja hverja lóðina á fætur annarri og upp hafa risið rándýr húsnæði sem eingöngu eru ætluð þeim sem nóg hafa á milli handanna. Og það er oft fólkið sem hefur keypt sér ríkisborgararétt í landinu. Aðallega fólk frá Hong Kong. Fólk þaðan hefur streymt til landsins á undanförnum árum og svo framarlega sem það fjárfestir í borginni fyrir ákveðna upphæð eru engin takmörk sett á hversu margir koma inn. Á sama tíma er verið að takmarka geysilega innflutning fólks, t.d. frá Evrópu, af því að það hefur ekki eins mikið á milli handanna. Ég þekki eitt dæmi þar sem stór hópur nemenda sóttu um landvistaleyfi til að hefja nám í ákveðnu fagi. Hópurinn var fremur einsleitur, einn Íslendingur, einn Þjóðverji og afgangurinn asískur. Þegar til kom var báðum Evrópubúunum hafnað en allir Asíubúarnir fengu leyfið. Skrítið.
Ég er ekki að skrifa þetta útaf einhverjum rasisma - ég á góða vini af asískum uppruna. En það er ekki eðlilegt hversu miklu auðveldara það virðist vera fyrir fólk frá Asíu að fá landvistarleyfi en fólk frá öðrum stöðum. Í þessari umtöluðu blokk á UBC, t.d., eru 80% íbúanna frá Asíu. 80% í einni blokk á háskólasvæði. Í Richmond, sem er svona Kópavogur sunnan við Vancouver er talið að um 60% allra íbúa borgarinnar sé af asískum uppruna. Ég hef heyrt hærri tölur. Flest skilti borgarinnar eru bæði á ensku og kínversku, þótt franska sé hitt opinbera tungumálið. Á sama tíma fær t.d. fólk frá Póllandi ekki einu sinni leyfi til að heimsækja landið, því yfirvöld eru svo hrædd um að fólkið ætli sér að setjast bara að. Já, svona er nú hringavitleysan.
Mér finnst innflutningur fólks eðlilegur, sérstaklega í eins stóru landi og Kanada þar sem nóg er af landsvæði og vitað er að landið þolir ekki bara fólksfjölgun heldur þarf á henni að halda. En það verður að hafa einhvers konar samræmi í því hverjir fá að flytjast til landsins. Svona bland í poka dæmi. Það gengur ekki að einn menningarhópur fái að streyma inn á meðan öðrum er bannað að koma. Jájá, það kemur landinu vel að fá inn fólk með mikla peninga, en peningar eru ekki allt. Það verður líka að huga að svo mörgu öðru.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Árið á feisinu
19.1.2011 | 03:14
Það er forrit á Feisinu þar sem maður getur fengið stutt yfirlit yfir statusana sína á árinu. Hér er árið 2010 hjá mér samkvæmt Facebook:
Fyrsti blaðamannafundurinn með ensku/frönsku var haldinn í dag. Bíðum þar til á föstudag og þá fer allt á fullt með fimm tungumál! langir dagar... Wooooooooooooo...Ólympíuleikarnir eru hér. Og þvílík sýning!!! Sá Danaprins (elska hann), Noregsprins og Svíaprinsessu!!!! sá tvo hokkíleiki í kvöld og í báðum var farið í vítakeppni. Þvílíkur dagur!!! Og að sjá Demetra vinna Rússana... Guð minn góður, þvílíkur dagur. Kanada vann Ólympíugullið, frábær lokaathöfn með Neil Young, og síðan partý, partý, partý. Partýið í sjónvarpshöllinni fær fyrstu verðlaun! Tók allt dótið úr blaðamannahöllinni og lokaði ICS skrifstofunni. Eftir sex vikur var erfitt að segja bless...en UBC Thunderbird Arena, hér kem ég!!!! sá (í sjónvarpinu) Nasri skora fyrir Arsenal eitt flottast mark sem skorað hefur verið!!!! Þvílíkir hæfileikar. Og nú erum við að gera þetta allt saman aftur. Ólympíuleikar fatlaðra! Frábær tími í Whistler á síðasta degi Ól fatlaðra. Buffalo Bill's breyttist í Toby's. er að gera kanadísku skattskýrsluna. Kanadamenn þyrftu að læra af Íslendingum hvað þetta snertir. Frábær sigur Canucks. las ástandskaflann í heilu lagi án þess að taka pásu (hey, hann er 50 blaðsíður og mjög flókinn), og gerði heilmargar athugasemdir. Ég hlýt að hafa ferskt útlit á þetta núna. Fram allir verkamenn/og fjöldinn snauði/því fáninn rauði/því fáninn rauði. heyrði náunga (merkingarfræðing) segja að hann hafi 'got volcanoed' í Póllandi. Ég geri ráð fyrir að það þýði að hann hafi orðið tepptur í Póllandi vegna ösku í loftinu er að hugsa: Proto-Events! Ef maður borðar íslenska kjötsúpu með kanadísku lambi, er maður á að borða íslenska kjötsúpu??? Flestir enskumælandi segja að 'I'm loving X' sé tímabundnara ástand en 'I love X'. Ætli McDonalds viti þetta??? i'm loving it. hjólaði 40 kílómetra í dag með Elli skilur ekki hvað hefur komið yfir Íslendinga. Fór skynsemin með peningunum? Stína er bæði anagram fyrir Saint og Satin! Wiiið mitt hefur hætt að segja mér að ég sé of feit. Það er nú gott (það segir núna að ég sé eðlileg!!!) Til hamingju Kanadamenn. Vonandi njótið þið dagsins. álítur Alan Rickman frábæran leikara. á stefnumót við Ringo! Guð minn góður, Chris Isaak er æðislegur. Í hvert sinn sem ég sé hann á tónleikum skemmti ég mér frábærlega. Ótrúlega fyndinn náungi. Og magnað band sem hann hefur. Því eru kenningar um generics alltaf svoooooo flóknar? is progressivizing a habitual. Jæja, mér tókst það. Kláraði hálf maraþon á tíma sem ég er ánægð með!!! Jei!!! Gallinn var að það sjokkeraði bílinn minn svo svakalega að hann dó. Í PoCo. Að skrifa doktorsritgerð er að gera mig að betri gítarleikara. Athyglisvert að uppáhaldsþjálfararnir mínir eru AV og AW. skrifa skrifa skrifa. Vill einhver veðja á hvaða dag ég verð brjáluð? Búin að skila ritgerðinni til External. Farin að klifra til að halda upp á það.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Rangur titill á Coe - held ég
12.1.2011 | 16:55
Rooney í Ólympíulið Breta? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Almennilegt vetrarveður
6.1.2011 | 22:15
Nú er almennilegt illviðri á Akureyri. Snjóar og skefur svo vart sér út úr augum. Við pabbi létum það reyndar ekki stoppa okkur frá göngutúr. Klæddum okkur bara vel, settum upp skíðagleraugu og óðum svo snjóinn. Mér þykir svona auðvitað bara skemmtilegt enda sjaldan að ég komist í almennilegan snjóstorm. Þetta snjóar aldrei neitt neitt í Vancouver. Reyndar þarf bara nokkur korn svo allt lokist þar enda engir með almennileg snjódekk og borgin ekki viðbúin ófærð. En hér á Akureyri kippir maður sér lítið upp við svona veður.
Reyndar var ég að verða svolítið skapvond í dag á því að geta ekki hreyft mig. Ég er vön að vera á sífelldum þönum, fer út að hlaupa, spila fótbolta, geng mikið. Ég reyndi að fara út að hlaupa fyrir nokkrum dögum en það var svo mikil hálka að ég varð sífellt að vera að passa mig. Hljóp smávegis, tiplaði svo á ís, hljóp svo smá, tiplaði á ís... Fór í mat til bróður míns í kvöld og ætlaði að labba annað hvort þangað eða heim, en veðrið var svo vaðvitlaust að ég lagði ekki í það. Þess vegna fór ég í göngutúrinn í kvöld. Svo ég fengi einhverja hreyfingu.
Ég hef stundum hugsað um það hvað myndi koma fyrir mig ef ég fótbryti mig. Ég held svei mér þá að ég yrði klikkuð. Ég yrði feit og skapvond. Hef alltaf verið svona. Amma sagðist einu sinni myndu gefa mér pening ef ég gæti setið kyrr í fimm mínútur. Þá var ég sirka tíu ára. Mér tókst að sitja kyrr í tilætlaðan tíma en það var rosalega erfitt. Vanalega var ég alltaf að fara kollhnís eða í handahlaup, eða bara hlaupa eitthvað um. Fór í fimleika og á skíði, stundaði svo frjálsar og fótbolta. Er enn að.
En sem sagt, snjókoma og skafrenningur á Akureyri í kvöld. Svona rétt til að minna mig á veðrið á Íslandi. Stuð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Góð byrjun á nýju ári
3.1.2011 | 13:22
Nú er kominn þriðji janúar og ég hef ekki enn notað þennan miðil til að óska öllum gleðilegs nýs árs svo ég nota tækifærið nú og óska ykkur öllum velfarnaðar á árinu sem nú er gengið í garð.
Árið 2010 var yfir höfuð gott ár. Það byrjaði með vinnu við Ólympíuleikana og þegar Ólympíuleikum fatlaðra lauk í mars tóku við skriftir. Ég eyddi næstu níu mánuðum fyrir framan tölvuna, ýmist heima hjá mér eða á kaffihúsum og lauk við doktorsritgerðina. Skilaði henni loks í byrjun desember og á svo að verja núna í febrúar.
Utan við Ólympíuleikana var árið svo sem ekkert sérlega skemmtilegt því ég átti ekki tök á því að taka mér neitt frí, ferðast eða gera mikið til að lífga upp á lífið, en það var nauðsynlegt að taka á ritgerðinni með öllu því sem ég átti svo ég gæti loksins lokið námi. En auðvitað fékk ég tækifæri á einstaka skemmtilegum dögum.
Ég fór t.d. niður til Seattle á tónleika með Ringo Starr, sem var ákaflega gaman. Ég hljóp mitt fyrsta hálfa maraþon og náði að hlaupa undir þeim tíma sem ég setti mér. Þá gekk ég nær vikulega á Grouse fjall sem hjálpaði við að koma mér í gott form og losna við aukakílóin sem bættust á í Ólympíutörninni. Ég hjólaði líka meira en ég hef gert og spilaði fótbolta tvisvar til þrisvar í viku.
Talandi um fótbolta. Liðið sem ég spila með, Presto, hefur nú í haust gert betur en nokkru sinni í sjö ára sögu félagsins. Við höfum unnið níu leiki og tapað tveim. Það eru tveir eða þrír leikir eftir áður en úrslitakeppnin hefst og ef við stöndum okkur vel í þeim ættum við alla vega að ná öðru sæti deildarinnar. Mig minnir að við höfum einu sinni lent í þriðja sæti en það var fyrir tveim árum.
Það gengur líka vel í hokkíinu. Liðið sem ég fylgist með þar, Vancouver Canucks situr nú í fyrsta sæti deildarinnar, en það er í fyrsta sinn síðan ég byrjaði að fylgjast með hokkíi fyrir nokkrum árum. Enda hefur gengið ótrúlega vel og liðið hefur unnið 10 af síðustu 12 leikjum.
Ég var líka ánægð með áramótin. Svo mikið betri en í fyrra. Enda fékk ég að halda upp á þau á Akureyri en ég vil hvergi vera um áramót en hér. Jólin eru alltaf ágæt, alveg sama hvar ég er, en áramót eru aldrei skemmtileg nema heima í heiðardalnum. Mér fannst annars alveg ótrúlegt hversu mikið var skotið upp af flugeldum og var ekki að sjá á að enn væri kreppa í landinu. Og áramótaskaupið fannst mér bara býsna gott þótt ég þyrfti að fá útskýringar á einstaka atriðum enda vita svona útlendingar eins og ég ekki um allt sem gerist á landinu þótt ég lesi netmoggann daglega.
En árið 2011 lofar sem sagt góðu. Byrjunin er alla vega frábær. Flugeldar og brenna á Akureyri, afmæliskaffi pabba á nýársdag, skotferð til Húsavíkur að heimsækja Húsavíkurarm fjölskyldunnar þann annan, Canucks á toppi NHL deildarinnar...ég get ekki beðið um betra upphaf nýs árs. Við skulum vona að þetta sé vísir að því sem koma skal.
Megi 2011 verða magnað ár!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Réttað yfir morðingja
14.12.2010 | 08:21
Þessa dagana hér í Vancouver er verið að rétta yfir manni sem er ákærður fyrir að hafa drepið ófríska eiginkonu sína. Þessi náungi er með heimskari morðingjum og virðist lítið hafa gert til að fela slóð sína og samt heldur verjandi hans því fram að saksóknari hafi á litlu að byggja.
Ég man þegar málið kom fyrst í fréttum fyrir fjórum árum. Fyrst var tilkynnt um hvarf konunnar en síðan fannst brunnið lík hennar í fjörunni, fimm dögum eftir hvarfið. Ég man að það fyrsta sem mér kom í hug þegar ég heyrði þetta var að eiginmaðurinn væri sekur. Það mætti kannski halda að ég hafi hugsað það vegna kynþáttafordóma - hjónin voru bæði síkar - en málið er að það er algengast að lík séu brennd (og þá meina ég ekki á líkstofu) þegar um heiðursmorð er að ræða, og slíkt gerist fyrst og fremst innan ákveðinni trúarhópa.
Hér eru nokkur málsatriði.
- Konan hvarf eftir að hafa farið í jógatíma. Eiginmaðurinn tilkynnti ekki um hvarf hennar fyrr en um 36 tímum eftir að hún átti að hafa verið komin heim.
- Hann beið svona lengi þrátt fyrir að vinkonur eiginkonunnar og sumir vinir hans hafi hvatt hann til að hringja á lögregluna miklu fyrr.
- Eftir að hún hafði verið horfin í rúman sólarhring fór eiginmaðurinn á bar og sat þar að drykkju með vinum sínum.
- Bíll konunnar fannst í hverfi þar sem eiginmaðurinn hélt að jógastúdeó eiginkonunnar væri, en ekki þar sem það var í raun.
- Konan notaði símann sinn á meðan hún var í jógaferðinni, en daginn eftir var SIM kort eiginmannsins í síma konunnar, og var þar í þrjá mánuði eða þar til lögreglan tók símann.
- Daginn sem konan hvarf fór maðurinn hennar í búð og keypti dagblað og kveikjara - hann náðist á vídeó. Munið að lík konunnar fannst brunnið.
Það er kannski rétt hjá verjanda að engar sannanir liggja fyrir. En ég held að enginn sem fylgist með þessu máli geti efast um sök eiginmannsins. Það er eins og hann hafi ekki einu sinni reyn að hylja slóð sína - nema með því að brenna líkið. Sem er að sjálfsögðu gagnslaus - ef brunnið lík finnst nokkrum dögum eftir að kona er tilkynnt týnd, þá er að sjálfsögðu eitt af því fyrsta sem lögreglan gerir að athuga hvort líkið er af týndu konunni.
Morð eru almennt ekki algeng í Vancouver, og þegar þau gerast er yfirleitt um að ræða glæpagengi að drepa liðsmenn annarra glæpagengja. En af og til gerast eitthvað eins og þetta hræðilega morð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Að keyra fullur
12.12.2010 | 22:01
Eitt af því sem sjokkeraði mig þegar ég flutti til Kanada var hversu mikið áfengi fólk drekkur áður en það sest upp í bílinn sinn og keyrir heim. Áfengismörkin voru reyndar hærri en á Íslandi (og eru kannski enn), því þau lágu við 0,08 þangað til nú í ár þegar þeim var breytt í 0,05. Síðan þeim var breytt hefur lögreglan verið á nornaveiðum. Ef einhverjir mælast yfir mörkunum þá er bíllinn þeirra tekinn og honum haldið í þrjá daga. Gallinn er að mælingar hafa sín skekkjumörk en lögreglan hefur ekki tekið það í reikninginn og mér skilst að þetta þýði að þeir taki stundum bílinn af fólki sem er rétt yfir mörkunum en innan skekkjumarka, og gæti því í raun verið rétt undir markinu. En það sem er kannski verst er að enginn veit fyrir víst hversu mikið hann má drekka án þess að falla á mælingunni. Sumir geta kannski drukkið einn bjór og lent yfir, á meðan aðrir drekka þrjá eða fjóra án þess að mælast yfir mörkunum. Það þýðir að sjálfsögðu að það eina örugga er að drekka ekki neitt en þá væri líka allt eins hægt að setja mörkin á núllið.
Fjórir blaðamenn á dagblaðinu Vancouver Province ákváðu að gera smá tilraun. Þeir fengu lánaðan hágæða mæli og tóku svo til við drykkju. Konan í hópnum sem var í kringum 1.50 á hæð og um fimmtíu kíló slagaði upp í mörkin eftir einn bjór. Hún mældist 0,045. Eftir tvo bjóra var hún ekki bara komin yfir mörkin heldur upp í gömlu mörkin, 0,08. Karlmennirnir þrír gátu allir drukkið eina þrjá drykki áður en þeir féllu a nýju mörkunum en það sem var hrikalegast var hversu mikið þeir gátu drukkið áður en þeir náðu gömlu mörkunum. Sá elsti í hópnum drakk yfir tíu drykki og náði mest upp í 0,077. Annar fór ekki yfir 0,08 fyrr en hann var búinn með tíu drykki. Þá sagðist hann hafa verið farinn að slaga um gólf, gat varla talað og átti erfitt með að skrifa skýrslu á tölvuna. Og samt var hann undir gömlu drykkjumörkunum. Ótrúlegt.
Niðurstaða rannsóknarinnar var að það hafi verið rétt ákvörðun stjórnvalda að lækka drykkjumörkin niður í 0,05. Hvað eru þau annars á Íslandi, 0,04?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Ritgerðin búin - nóg annað að gera
11.12.2010 | 19:48
Á föstudaginn í síðustu viku kláraði ég doktorsritgerðina og og skilaði af mér til dómara. Þetta er ekki lokagerðin heldur sú gerð sem notuð verður við vörnina. Í mínum skóla er vörnin ekki byggð á lokaútgáfu heldur fær kandidatinn tækifæri til þess að taka athugasemdir við vörn til greina og gera lokaútgáfu ritgerðarinnar þannig betri.
En þvílíkur léttir þegar þetta var búið og ég var búin að senda ritgerðina til FOGS (Faculty of Graduate Studies). Ég fór beint í Cliffhanger að klifra með Marion. Við vorum þar í tvo tíma og ég naut þess að geta tekið mér tíma án þess að þurfa að hafa áhyggjur af því að ég ætti að vera að skrifa.
Síðan hefur þetta svona verið að síast inn. Þ.e. að ég þurfi ekki að vera að vinna öllum stundum. Í mörg ár hefur þetta verið þannig að mér finnst ég eigi alltaf að vera að gera eitthvað annað en það sem ég er að gera - nema þegar ég hef verið að læra náttúrulega. Meira að segja í þessi tvö ár sem ég tók mér frí og vann fyrir Ólympíuleikana. Þegar ég kom heim á kvöldin fannst mér að ég ætti að vera að vinna við ritgerðina, þrátt fyrir að vera dauðþreytt eftir langan vinnudag. Nú get ég ekki að því gert að mér finnst ég eigi að vera að undirbúa vörn, en það er auðvitað ekki rétt. Það er nógur tími til þess. Vörnin verður ekki fyrr en í febrúar.
Annars er ég búin að vera á fullu síðan ég skilaði fyrir viku. Búin að þrífa íbúðina, þvo þvotta, kaupa þrjár jólagjafir, fara á hokkíleik, horfa á sjónvarp, hanga á netinu, fara út að borða með vinkonu minni, horfa á jólasveinaskrúðgönguna með annarri vinkonu minni, klifra, spila fótbolta, lesa skáldsögur. Ég er meira að segja búin að vera að færa vídeó yfir á dvd form. Það tekur ógurlegan tíma en ég veit að ég mun ekki kaupa annað vídeótæki þegar þetta deyr svo ég verð að koma öllu því sem ég hef tekið upp í gegnum árin yfir á dvd.
Ég er líka búin að vera að spila jólalög. Loksins. Ég þvertók fyrir það að komast í jólafílinginn fyrr en ég væri búin að skila ritgerðinni. Og hvað hef ég verið að spila? Í bílnum er það jóladiskur Chris Isaak sem er dásamlegur. Mest held ég upp á lagið Washington Square sem fjallar um fólk sem er aðskilið um jól og hvernig hann ætlar að geyma pakkana þar til hún kemur til baka. Heima hef ég mest hlustað á jóladisk kántrísöngkonunnar Martinu McBride. Ég er yfirleitt ekki hrifin af kántrí en fyrrum mágkona mín gaf mér þennan disk fyrir mörgum árum og hann er virkilega góður. Enda er þetta bara venjuleg jólaplata en ekki nein kántríplata. Og að sjálfsögðu spila ég alltaf jóladiskinn með Þremur á palli. Sígildur.
Í kvöld er svo jólapartý fótboltaliðsins míns. Ég hef misst af þessu partýi þrjú síðastliðin ár af ýmsum ástæðum svo það er gott að ég fæ loksins að taka þátt.
Og nú ætla ég að fara og dunda mér við eitthvað skemmtilegt. Kannski ætti ég að skríða aftur upp í rú með bók. Af því að ég get það.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Æsispennandi hokkíleikur
10.12.2010 | 06:30
Í gærkvöldi fór ég á minn annan hokkíleik á vertíðinni. Ég myndi fara oftar ef ekki væri svona dýrt á leiki. Reyndar finnst mér að liðið mitt, Vancouver Canucks, ætti að gefa mér ársmiða á leiki sína, og helst taka mig með á útileiki, því ég hlýt að vera nokkurs konar lukkudýr. Ég hef ekki séð tapleik með liðinu síðan ég sá þá tapa fyrir Nashville 3-0, fyrsta nóvember 2007. Síðan þá hef ég séð eina níu eða tíu leiki og þeir hafa allir unnist. Í gær leit út fyrir að ég væri búin að missa hokkíheppnina því liðið var einu marki undir þegar um tuttugu sekúndur voru eftir af leiknum en þeir náðu að jafna og unnu svo í vítakeppni.
Fyrir þá fáu hokkíaðdáendur sem hugsanlega lesa þetta ætla ég að segja aðeins frekar frá leiknum.
Leikið var gegn Anaheim Ducks, fyrrum Mighty Ducks of Anaheim (eins og í Disney myndinni), og þeir hafa alltaf verið erfiðir viðureignar. Liðið er skipað stórum og sterkum nöglum sem lengi hafa vaðið yfir mína menn. Þeir unnu 4-1 í fyrstu viðureign fyrr í haust og þeir komu sterkir til leiks í gærkvöldi, þrátt fyrir að hafa leikið kvöldið áður í Edmonton. Aðeins voru liðnar fimm mínútur að leiknum þegar hinn ógurlegi Corey Perry skoraði fyrir Anaheim. Hann er einn þeirra sem mest hafa slengt mínum mönnum til og frá og er alltaf ógn. Þetta mark kom reyndar gegn gangi leiksins því Vancouver lék virkilega vel í fyrsta leikhluta og ég held þeir hafi átt tvöfalt fleiri skot á mark en Anaheim. En markmaðurinn hjá Anaheim lék vel, og líka var einhver ónákvæmni hjá mínum mönnum.
Sem betur fer lét mitt lið þetta ekki á sig fá og Ryan Kesler sem sífellt verður betri skoraði jöfnunarmark þegar einn leikmaður Anaheim sat í boxinu. Við erum efst eins og er hvað snertir mörk skoruð manni fleiri. Það var ekki búið að setja markið upp á töfluna eða tilkynna hver skoraði þegar Jeff Tambellini, sonur fyrrum aðstoðarframkvæmdastjóra liðsins skoraði annað markið. Ég held það hafi verið ellefu sekúndur á milli marka. Svona getur hraðinn verið mikill í hokkí. Þannig var haldið í fyrsta hlé.
Í öðrum leikhluta hélt stórsókn Vancouver áfram en því miður dugði það ekki til því Joffrey Lupul, nýkominn til baka eftir bakaðgerð, skoraði jöfnunarmark Anaheim og sautján sekúndum fyrir annað leikhlýt skoraði Selanne þriðja mark Anaheim. Luongo hefði átt að hafa þetta. Hann á að vera einn besti markmaður deildarinnar en hefur ekki verið upp á sitt besta undanfarið. Því er kannski um að kenna að hann vinnur nú með nýjum markmannsþjálfara sem hefur verið að breyta stöðu hans ofl. Kannski lagast þetta þegar hann er búinn að venjast breytingunni.
Í þriðja hluta kom Anaheim að Vancouver úr öllum áttum. Ég held að Vancouver hafi varla átt skot að marki fyrstu tíu mínúturnar. Og á þeim tíma náði varnarmaðurinn Cam Fowler að skora fjórða mark Anaheim og staðan orðin 4-2. Ekki leit þetta vel út. Ég var farinn að halda að ég þyrfti að horfa á minn fyrsta tapleik í rúm þrjú ár. En þá kom skrítið mark. Þjóðverjinn CHristian Ehrhoff, einn fárra Þjóðverja í NHL deildinni, skaut þrumuskoti að marki, beint í grímu markmannsins, McElhinney. Þetta var þvílíka skotið að markmaðurinn greip um andlitið (ja, eða eiginlega grímuna) og beygði sig niður, nema hvað pökkurinn lenti hjá Daniel Sedin sem vippaði honum yfir markmanninn og staðan orðin 4-3. Kannski ekki gaman að skora þannig en ekkert því að gera. Ég veit ekki hvaða reglum hokkíið fylgir á Íslandi. Í alþjóðlegum reglum sem t.d. gilda á Ólympíuleikum og öðrum stórmótum er leikurinn stoppaður ef markmaður fær hart skot í höfuðið en NHL reglur eru ekki þannig. Þar er það dómarans að ákveða hvort á að stoppa eða ekki. Í þessu tilfelli fékk dómarinn ekki einu sinni tækifæri til að stoppa leikinn því mark Daniels kom varla nema sekúndubrotum eftir að pökkurinn hitti markmanninn. Þetta gerðist svo hratt.
Markmaðurinn fór út af og nýr kom inná. Sá var reyndar aðalmarkmaður liðsins, Jonas Hiller, en honum hafði líklega verið gefið frí þetta kvöld til að hvíla hann þar sem þeir spiluðu kvöldið áður. Varamarkmaðurinn spilar oft annan leikinn þegar spilað er tvö kvöld í röð enda er álagið miklu meira en t.d. í fótboltanum. Oftast eru t.d. spilaðir þrír til fjórir leikir í viku og stundum kannski fjórir leikir á sex dögum.
En sem sagt, staðan var orðin 4-3 en ekki nema kannski átta mínútur eftir af leiknum. Vancouver sótti hart en Anaheim barðist vel. Þegar um tvær mínútur voru eftir fór maður að fylgjast með Luongo í markinu en í svona stöðu tekur þjálfarinn markmanninn vanalega út af til að hafa sex sóknarmenn taka sénsinn á því að skora jöfnunarmark. Þetta gekk þó ekki vel því Anaheim pressaði á og ekki er hægt að taka markmanninn út þegar pökkurinn er á eigin helmingi. Loks náðu mínir menn pökknum og ruku upp ísinn. Luongo rauk útaf og sóknarmaður kom inn. Ekki var nema um mínúta eftir. Þeir pressuðu vel en varnarmaður Anaheim náði pökknum og sendi hann endilangan niður eftir ísnum. Hann missti af markinu og dæmd var ísing. Feisoff var tekið á helmingi Anaheim. Þrjátíu sekúndur. Sem betur fer erum við með besta feisoff liðið í deildinni, vel yfir 60%, og náðum því pökknum. Hann er sendur fyrir markið, þar er barist og Kesler skorar sitt annað mark kvöldsins. Staðan er 4-4.
Farið er í framlengingu sem ekki var mjög markverð og loks í vítakeppni. Ekki gott mál. Vancouver hefur aldrei staðið sig sérlega vel í vítaskotum. Vigneault velur vanalega þá sem eru búnir að standa sig vel í leiknum svo Tambellini fékk að fara fyrstur og hann skorar fallegt mark. Og það var allt sem gerðist í vítakeppninni. Daniel Sedin og Ryan Kesler klikkuðu báðir fyrir okkur og enginn Anaheim manna náði að skora. Svo við fengum fullt hús stiga og sigurganga mín gengur áfram.
Ég veit ekki hvort þetta virkar en hér má sjá mörkin tvö sem komu með ellefu sekúndna millibili: http://video.canucks.nhl.com/videocenter/console?catid=0&id=86677
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)