Frábært hjá stelpunum

Það er alveg magnað að heyra hversu vel íslensku stelpunum gengur í hokkíinu. Aðeins tvö kvennalið eru í landinu og því má gera ráð fyrir að sirka helmingur allra hokkíkvenna á Íslandi leiki með landsliðinu. Þegar mið er tekið af þessu verður að segja að árangur þeirra er stórkostlegur. Nú er bara að vona að þær brilleri í síðasta leiknum og taki heim gullið.

Það er líka gaman að sjá að RÚV ætlar að sýna beint frá leik SA og SR á morgun. Ég ætla að reyna að horfa á byrjunina en verð svo að rjúka yfir í New Westminster því ég ætla á leik með Vancouver Whitecaps í knattspyrnunni en eins og þið vitið væntanlega er þjálfari liðsins enginn annar en Teitur Þórðarson. Planið er að hann komi við í Íslandshúsi eftir leikinn og kynnist aðeins Íslendingagenginu hér.

En aftur að hokkíinu. Það gengur ekki nógu vel hjá mínum mönnum (Vancouver Canucks) þessa dagana. Við erum um það bil að tapa fjórða leiknum í röð en áður fyrr höfðum við ekki tapað fleiri en tveim leikjum í röð. Þetta er versti mögulegi tími til að hrynja. Við fórum úr sjötta sæti niður í áttunda á einni viku og með tapinu í kvöld (sem nú er orðið staðreynd) förum við líklega niður í níunda sætið en það sæti nægir ekki til þess að komast í úrslitakeppnina. Aðeins fjórir leikir eru eftir og sem betur fer eru þeir allir á heimavelli.

Markvörðurinn okkar, sem annars er einn besti markmaður í heimi, hefur verið hreint skelfilegur undanfarna þrjá leiki. Hann hefur hleypt inn skotum sem hann á vanalega ekki í vandræðum með að verja. Ástæðan fyrir þessu er einföld - hann hefur ekki verið með hugann við leikinn. Konan hans eignaðist barn í gær og síðustu tvo leiki var hann með hugann við fæðinguna sem gat farið af stað hvenær sem var. Það sem flækti málið var að eiginkonan var í Florida og Luongo þurfti því meira en að skreppa upp á spítala um leið og hríðir hófust - hann varð að hoppa upp í einkaflugvél sem flutti hann þvert yfir landið. Hann dvaldi á spítalanum í nótt og flaug svo til Minnesota í morgun og spilaði í tapleiknum í kvöld. Þegar hann var búinn að fá á sig fjögur mörk (tíunda markið í tveim leikjum) var hann tekinn af velli og varamarkmaðurinn Sanford fór inn. Að mínu mati hefði Sanford átt að spila síðustu þrjá leiki og Luongo hefði átt að fá að vera hjá konunni allan þennan tíma. En hann vildi það ekki (Luongo þ.e. - Sanford hefði auðvitað viljað það). Og Luongo gerði samning við þjálfarann nú eftir jólin sem er þannig að Luongo fær að spila þegar hann vill spila. Og hann vildi spila.

Þetta þýðir að við eigum erfitt verk fyrir höndum. Við verðum helst að vinna alla fjóra síðustu leikina til að tryggja okkur sæti í úrslitunum. Ouch. Ég er ein taugahrúga. 


mbl.is Ísland upp í 3. deildina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Andsk. íþróttirnar

Síðustu tveir dagar hafa ekki verið góðir fyrir íþróttirnar mínar. Ég var eitthvað ógurlega veikluleg í dag og klifraði ekki vel. Canucks töpuðu fyrir Calgary í gær og Colorado í dag og eru í síðasta úrslitasætinu eins og er þegar fimm leikir eru eftir. Nashville andar á bakið á þeim og á eftir að leika við miklu lélegri lið. Og til að toppa þetta af þá töpuðum við stelpurnar í Presto í gær fyrir liði sem við áttum að vinna, og erum þar með úr leik í fótboltanum. Sigur hefði komið okkur í úrslitaleikinn.

Ég kenni dómaranum um. Stelpurnar í hinu liðinu voru algjörar tíkur sem brutu á okkur allan leikinn en dómarinn kallaði akkúrat ekki neitt. Þær voru að ýta í bakið á okkur, þær lömdu, þær spörkuðu (í okkur, ekki bara í boltann)...ekkert dæmt. Ég var tvisvar sinnum laminn í handlegginn og einu sinni fékk ég hné í magann. Asninn hann Roy hefur oft verið slæmur en aldrei eins og í gær. Ég veit ekki á hverju hann er. Ég vildi óska að þeir notuðu almennilega dómara í kvennadeildinni. Þegar ég spila með blandaða liðinu innanhús þá fáum við mörgum sinnum betri dómgæslu. 

Ég spilaði reyndar ekki síðustu tuttugu mínúturnar. Ég var að berjast um boltann innan vítateigs Coasters þegar ég lenti á hnakkanum og við höggið beit ég í tunguna og ég held ég hafi hreinlega bitið svolítinn bita af. Það var ekki þægilegt. Endaði á því að sofa með grisju í munninum. Og þið vitið hvernig það er þegar eitthvað er að í munninum á manni. Þá lætur tungan staðinn ekki í friði. Eins er það þegar eitthvað er að tungunni...hún er stanslaust að nuddast eitthvað utan í tennurnar. Ég hef enga stjórn á kvikindinu. 

Engar íþróttir á morgun. Kannski verður það þá betri dagur. 


Hinn íslenski skattgreiðandi

Mér fannst ég ekkert smá dugleg í dag. Nei, ekki við að skrifa ritgerð (hvað er nú það?) heldur gerði ég skattskýrslurnar mínar fyrir Ísland og Kanada. Sú íslenska var ólíkt einfaldari sem er fyndið því ég fékk engar tekjur frá Kanada síðastliðið ár því ég var á íslenskum styrk. Gallinn er að styrkir eru skattskyldir á Íslandi en ekki í Kanada sem þýðir að ég þarf að borga Íslandi háa skatta fyrir enga þjónustu (ég fæ ekki persónuafslátt af því að ég bý ekki á landinu) en Kanada, sem veitir mér alla þjónustu, ætlar að borga mér hluta af virðisaukaskattinum til baka fyrir það hve fátæk ég er og samt greiði ég þeim enga skatta í ár. Já lífið er stundum undarlegt.

Börn með Down syndrom í hópíþróttum

Í september á síðasta ári fékk ellefu ára gömul stúlka í Vancouver, Sadie Gates, að heyra það frá fótboltaþjálfaranum sínum að ekki væri not fyrir hana í liðinu. Hún var ekki nógu góð til þess að geta hjálpað liðinu að vinna leiki! Sadie Gates er með Down Syndrom. Móðir hennar fór í viðtal í Vancouver Province og hvatti þar alla fótboltaþjálfara til þess að opna hugann gagnvart þeim börnum sem minna mega sín og hugsa ekki svo mikið um sigur að ekki sé not fyrir þessi börn. Hún benti á að öll börn ættu að eiga kost á því að stunda hópíþróttir. Sérstaklega börn eins og Sadie, þar sem félagsskapurinn einn getur hjálpað þeim meir en flest annað.

Viðtökurnar við viðtalinu voru ótrúlegar og það sem gerðist í kjölfarið var einfaldlega það að nýtt lið var stofnað—lið sem hefur pláss fyrir börn sem eru kannski aðeins öðruvísi. Ekki endilega börn með downs, heldur börn sem hafa ekki komist að annar staðar eða sem hafa ekki einu sinni reynt fyrir sér af ótta við höfnun. Allir eru velkomnir, hvort sem þeir eru góðir í fótbolta eða ekki. Íþróttabúðir og félög hafa gefið nýja liðinu bolta, búninga og annan útbúnað sem til þarf. Börnin í nýja liðinu eru orðin 27 og fimm þjálfarar hafa boðið fram aðstoð sína og þeir hafa verið á námskeiði að læra um það hvernig þeir eiga að koma fram við börn sem þurfa á sérstakri að stoða að halda. Þá er hópur sjálfboðaliða boðinn og búinn að hjálpa til hvenær sem þörf er á.

Mér fannst bara svo gaman að heyra eitthvað svona jákvætt svo ég ákvað að segja ykkur frá því.  


Gýpa

Haldiði ekki að ég hafi borðað hangikjét í páskamatinn. Gunnar og Suzanne áttu vestur-íslenskt hangikjöt og það var eldað með öllu fíneríinu sem með fylgir: kartöflum, uppstúf, grænum baunum, rauðkáli... Það eina sem vantaði var laufabrauð og bland. Í eftirrétt voru pönnukökur með bláberjasultu og rjóma. Og auðvitað leifar af páskaeggi (frá Nóa Siríusi - mmmmmmmmmm).

Yrsa var í essinu sínu og sýndi leikfimi út um allt gólf. Hún var reyndar ekki hrifin af hangikjötinu, sem hún borðar þó alltaf þegar hún kemur til Íslands. Ég held hún sé bara svona klár að hún hafi áttað sig á því að þetta var ekki íslenskt lamb. Hún vildi ekki einu sinni borða kartöflurnar og grænu baunirnar en ég tók að mér verkið og sagði Búkollu á meðan ég mataði hana. Lærði það af eigin reynslu að matur bragðast miklu betur þegar maður fær sögu með honum. Suzanne spurði mig hvort ég gæti komið í heimsókn á hverju kvöldi. Ég sagðist skyldu koma næst þegar væri fiskur því þá gæti ég sagt henni söguna "Ýsa var það heillin" og fyrir pabba myndi ég auðvitað hafa Nomma og Guðmund á Selárbakka í aðalhlutverkum. Eða var Guðmundur ekki annars á Selárbakka? Og hvar bjó Nommi? Ég er greinilega farin að ryðga í þessu öllu. Man þó að Helga gamla bjó í Hillnakofanum. Eða er ég farin að rugla því líka? Nei, það er ekki furða þótt þið vitið ekkert um hvað ég er að tala. Þetta er Þverholtstal.  

Þegar ég var að kveðja og var búin að þakka kærlega fyrir allar veitingarnar - að því ég hélt - kallaði Yrsa til mín: Þú átt eftir að þakka fyrir páskaeggið. Já, hún veit hvað hún syngur hún Yrsa enda orðin fullra þriggja ára. 

En bara svo þið vitið það þá gerði ég sama og ekkert nema að borða í allan dag. Ég sem var svo ánægð með það að ég væri komin niður í sömu þyngd og ég var í þegar ég var í menntaskóla. En ég held ég hafi bætt við einum tíu kílóum í dag. Páskaegg, amerískar pönnsur og pylsur, páskabollur, hangikjöt, rjómabollur, meira páskaegg... Já, svona eiga páskarnir að vera!


Keypti mér þessa fínu páskalilju

Aðfangadagur páska er senn allur og er óhætt að segja að dagurinn hefur verið nokkuð átakalaus. Svaf til níu, borðaði morgunverð í rólegheitunum og las Vancouver Province, las síðan moggann á netinu og nokkur blogg, spjallaði aðeins við mömmu og pabba, horfði á Edmonton vinna Colorado í hokkí, fór á Starbucks og skrifaði í þrjá klukkutíma, kom við á vídeóleigu á leiðinni heim og leigði mér myndir fyrir kvöldið. Ég myndi segja að þetta hafi bara verið hinn ágætasta dagur.

Ég vil óska ykkur öllum gleðilegra páska. Borðið ekki yfir ykkur af páskaeggjum! 

 

E.S. Tók smá forskot á sæluna og opnaði eggið mitt í kvöld, enda allt of stórt til að borða á einum degi. 
Málshátturinn var þessi: Yfir sjálfum sér, yfir líkama sínum og anda á hver maður einfaldsráð.


Ósamræmi í fréttaflutningi

Ég veit auðvitað ekkert hvað er rétt í þessu máli en þessi frétt á Mogganum er töluvert ólík fréttinni eins og hún var í blaðinu hjá mér í morgun. Þar kom fram að þótt konan hafi látist af höfuðhöggi þá væri líklegast að hún hafi rekið höfuðið í borðstokkinn á bátnum þegar hún féll eftir að skatan lenti á henni. Það var sem sagt ekki krafturinn á skötunni sem drap hana heldur það að hún skyldi reka höfuðið í við fallið.

Þá segir líka í Mogganum að ekki sé algengt að skötur ráðist á fólk á þennan hátt. Mér skyldist hins vegar á  fréttinni í morgun að skatan hafi alls ekki ráðist á konuna heldur hafi hún (skatan) stokkið upp úr sjónum, líklega vegna þess að hún var á flótta undan annarri grimmari skepnu, og að konuræfillinn hafi einfaldlega verið fyrir.

En ég er ekki að segja að þetta sé rangt hjá Mogganum. Fréttin gæti allt eins verið röng í blaðinu mínu, en þetta sýnir samt hversu ónákvæmur fréttaflutningur er; að tvö blöð skuli geta tekið sömu stuttu fréttina og samt greint á í tveimur atriðum. 


mbl.is Lést eftir högg frá arnarskötu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Klifurklám

Það eru komin göt á klifurskóna mína–þar sem stóru tærnar eru. Það er ekki beinlínis gott og í gær rak ég aðra tána í veginn og varð að setjast niður og nudda hana svolítið. Patrick settist hjá mér en hann er einn klifraranna sem ég sé þarna af og til. Ég sagði honum að ég neyddist til að fá mér nýja skó og að ég hefði verið að skoða nýja vörulistann frá MEC (stærsta útivistarbúðin í Vancouver) svo ég gæti valið mér nýja skó.

"Aaaaahhh", stundi hann. "Klifurklám!" 

"Klifurklám?"

"Já, maður fær nýjan vörulista frá MEC og situr svo og slefar yfir öllum klifurbúnaðinum sem hægt er að kaupa. Nýju beltin eru t.d. æðisleg"

Mér fannst þetta gott orð og ætla framvegis að nota það. Eftir smá umræðu um hvaða skór eru góðir og hvernig nýju beltin virka mælti Patrick með skónum sem hann notar sem eru þægilegir skór frá Mad Rock. Ódýrir en þrælgóðir sagði hann. Hann bætti svo við: "Og þeir eru vel harðir."

Svo ég svaraði auðvitað: "Sem leiðir beint til baka að klifurklámi!" 


Skíðamót á föstudaginn langa

Samkvæmt reglum Skíðasambands Íslands verður maður fullorðinn sautján ára gamall; það er þá sem maður færist úr unglingaflokki og yfir í fullorðinsflokk. Hægt var að keppa á Skíðalandsmóti Íslands fyrr ef maður hlaut nægilega mörg stig í flokki fimmtán til sextán ára. Ég náði þessum stigum sextán ára og fór þá á mitt fyrsta landsmót. Landsmótin mín urðu reyndar ekki nema þrjú því ég hætti keppni átján ára þegar hnén á mér voru farin að kvarta í hvert sinn sem ég fór á skíði.

Þá hafði andrúmsloftið líka breyst mikið á skíðunum. Við vorum með júgóslavneskan þjálfara sem skildi ekki af hverju við vorum að vesenast í skóla þegar við gætum verið á skíðum. Hann var því farinn að bjóða upp á dagæfingar klukkan eitt og þeir sem voru til í að skrópa í skólann eða vinnuna gátu komið þá og fengið sérstaka æfingu. Ég var í MA og var ákveðin í að klára stúdentinn með sóma. Þar að auki vissi ég alltaf að skíðin ættu ekki eftir að verða lífsviðurværi mitt, hvorki sem keppandi né þjálfari, svo ég var ekki tilbúin til þess að fórna skólanum til þess að fá aukaæfingu. Ég var því óánægðari og óánægðari og þegar sársaukinn í hnjánum bættist við þá varð ákvörðunin um að hætta ekki svo erfið. Jafnvel þótt ég væri að hætta einhverju sem hafði verið líf mitt frá því ég var átta ára.

En ég ætlaði að tala um landsmótin. Á þessum árum fóru þau alltaf fram um páskana. Þá var vanalega keppt í svigi og stórsvigi á Skírdag og svo á laugardeginum, og liðakeppnin og síðar samhliða svigið var  á páskadag. Á föstudeginum langa var eingöngu keppt í göngu og við sem vorum í alpagreinunum höfðum því ekkert að gera þennan dag. Allar búðir voru lokaðar enda mátti ekki hnerra á föstudeginum langa á þessum árum, og við vorum stödd í ókunnum bæ úti á landi (annars vegar á Siglufirði og hins vegar á Ísafirði - þriðja árið mitt var á Akureyri svo ég gat bara haldið mig heima þegar ég var ekki að keppa). Þetta voru leiðinlegust dagar sem ég man eftir. Ég man sérstaklega eftir skíðamótinu á Siglufirði. Við gistum í skálanum inni á Dal og höfðum ekkert að gera. Ég fór aðeins á skíði því mér leiddist svo ógurlega, en þegar maður keppir þrjá daga af fjórum þá langar mann ekkert sérstaklega á skíði þennan eina frídag. Ég man líka að ég labbaði út að göngubraut og horfði aðeins á keppnina, en einhverra hluta vegna hefur mér aldrei fundist skemmtilegt að horfa á skíðagöngu þótt það sé alveg ágætt að labba sjálfur á gönguskíðum.

Ekki var neitt gagn af því að fara niður í bæ því allt var lokað og þar að auki þó nokkur spölur niðreftir og ekkert reglulegt far að fá. Maður sat því í skálanum og lét sér leiðast. Reyndar voru nokkrir strákar úr Reykjavík með gítar (Einar Úlfs og strákarnir hans  Valdimars Örnólfssonar) og eitthvað var sungið, en almennt ráfaði fólk um skálann og lét sér leiðast. Við skildum aldrei af hverju allt þurfti að vera lokað á þessum degi.

Annars var kannski bara ágætt að búðir voru lokaðar þegar hópur ungmenna kom í bæinn. Á unglingameistaramótum var aðalsportið hjá sumum að stela úr búðum og sjá hvort þeir/þær kæmust upp með það. Man eftir að fólk var að stela alls konar hlutum sem það vantaði ekki einu sinni - bara upp á sportið. Annars vil ég nú trúa því að þessum sautján ára og eldri hafi fundist minna varið í búðarhnupl en þessum 13-16 ára.

Er þetta virkilega það sem mér dettur helst í hug þegar ég hugsa um föstudaginn langa? 


Skriftir og skautar

Ég var í skriftarstuði í dag. Var á flugi þegar ég varð að fara í skólann svo ég flýtti mér til baka um leið og tíminn var búinn, greip fartölvuna og labbaði út á Starbucks þar sem ég sat og skrifaði. Ég sleppti fyrirlestri uppi í skóla því ég taldi betra fyrir mig að skrifa þegar andinn væri yfir mér.

Í kvöld fórum við Marion svo á skauta. Það er fín skautahöll í Kitsilano svo við skelltum okkur þangað. Marion hefur ekki farið á skauta í mörg ár og ég hafði ekki farið síðan ég fór á námskeiðið þarna fyrir jólin. Ég var aðeins stirðari en þá en var fljót að ná tökum á tækninni aftur. Óskaplega er annars hressandi að fara á skauta. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband