Fullt af frábærum tónleikum í boði
2.4.2008 | 17:16
Ég hef ekki farið á neina tónleika síðan ég sá Velvet Revolver/Alice in Chains í haust. Þetta er að hluta til vegna þess að ég hef verið að reyna að spara pening en einnig vegna þess að það hafa ekki komið hingað nein bönd sem mig langaði alveg ægilega að sjá. Reyndar var Brúsi Springsteen hér í gær en ég hef eiginlega ekkert hlustað á hann síðan á níunda áratugnum þannig að ég lét ekki freistast.
Núna á einni viku frétti ég hins vegar að því að á næstunni yrðu hér:
1. Oasis með Ryan Adams og The Cardinals
2. REM með Modest Mouse og The Nationals
3. Queens of the Stone Age með Mugison
Ég vildi gjarnan fara á alla þessa tónleika en er ekki viss um að ég hafi efni á því.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Hvernig snerting hjálpar til við 'heyrn'
2.4.2008 | 05:10
Um kerlingaálftir og tryggingamál
1.4.2008 | 20:43
Ég hef verið að hugsa svolítið um að kaupa bíl. Það verður ákaflega langt í vinnuna mína þegar hún hefst í júní og þar að auki þarf ég alltaf á fótboltaleiki í hinum hluta bæjarins. Ég mun því eyða ótrúlegum tíma í strætó og lestum og enn meiri tíma í að bíða eftir strætó og lestum.
En ég ætla ekki að fara mér óðslega. Ég þarf helst að reikna út allan kostnað, sjá hvort ég hef efni á þessu, reikna líka út tímatap. Og svo kemur líka til greina að flytja frekar í austurbæinn en að kaupa bíl. Það væri ódýrara en á móti kæmi að ég yrði að yfirgefa mitt dásamlega hverfi, missa útsýnið, garðinn, ströndina...það væri erfitt.
En einn liður í að kanna málið var að finna út úr því hversu mikið ég þyrfti að borga í tryggingar. Í hverfinu mínu eru tveir tryggingaaðilar, sem segir reyndar ekki margt því Autopac hefur einokun á bílatryggingum. Ég fór inn á fyrsta staðinn og spurði hversu mikið ég þyrfti að borga í tryggingar.
-Það fer eftir því hvaða bíl þú ætlar að kaupa. Hvaða árgerð, hvað gerð...
-Ég veit ekki hvað ég mun kaupa, ég er að reyna að reikna út hvort ég hafi efni á að kaupa bíl.
-Ég get ekkert sagt þér nema ég viti hvaða bíl þú ætlar að kaupa.
-Það er ekki mjög gagnlegt, er það?
-Ég get ekkert gert að því.
-En skilurðu ekki að ég get ekki ákveðið hvaða bíl ég ætla að kaupa fyrr en ég veit hversu dýran bíl ég hef efni á að kaupa, og þar spila tryggingarnar inn í.
-En tryggingarnar fara eftir því hvaða bíl þú kaupir.
-Ekki mjög hjálplegt er það?
-Aðrir eiga ekki í vandræðum með þetta.
Eftir svolítið meira þjark yppti ég öxlum og gekk út. Þakkaði ekki einu sinni fyrir mig enda ekki fyrir neitt að þakka. Þar að auki var manneskjan fúl og leiðinleg og bauð ekki einu sinni góðan daginn þegar ég kom inn. Hvorug okkar kvaddi.
Ég fór hinum megin við götuna. Undirbjó spurninguna aðeins og betur og sagðist hafa flókna spurningu. Svo væri nefnilega mál með vexti að ég þyrfti að reikna út hvort ég hefði efni á að kaupa bíl og því þyrfti ég að vita hversu miklu sirka ég þyrfti að eyða í tryggingar, og að ég ætlaði ekki að eyða tíma mínum í að finna út nákvæmlega hvaða bíl ég gæti keypt fyrr en ég vissi hvort ég hefði efni á tryggingunum.
Þessi manneskja var miklu hjálplegri. Hún gaf mér áætlaða upphæð fyrir grunnlínuna, benti svo á hvað gæti hækkað gjöldin og hvað gæti lækkað. Ef ég keypti t.d. gamlan notaðan bíl þyrfti ég bara að borga gruninn, mínus afsláttinn sem ég fengi (fæ næstum því fullan af því að ég er búin að vera með kanadískt bílpróf í næstum átta ár). Ef ég keypti nýrri bíl vildi ég væntanlega hafa hann í kaskó.
Ég kom út af þessari tryggingastofnun með mun betri hugmynd um hvað það kostar að koma bíl á götuna. Ef af þessu verður veit ég við hvern ég mun eiga og þá sérstaklega hvar ég kem ekki aftur inn fyrir dyr.
Annars langaði mig pínulítið að fara aftur á fyrri staðinn, heimta að fá að tala við yfirmann og kvarta undan kerlingarálftinni. Það væri gott á hana. Svona fólk á ekki að vinna í þjónustustörfum. En kannski átti hún erfiðan dag ræfilinn. Verður maður ekki að reikna með því að hún hafi ekki fengið neitt í nótt!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Ég hljóp fyrsta apríl svo illa að ég er draghölt
1.4.2008 | 19:09
Ég er svo trúgjörn að það er ógeðslegt. Algjörlega bláeyg! Það þarf ekki einu sinni að vera hrikalega trúlegt til þess að ég falli fyrir blekkingunni.
Í dag kom tölvupóstur á fótboltaliðið mitt frá þjálfaranum. Hann segir þar að þótt hann sé búinn að njóta tímans hjá Presto þá sé nú kominn tími til þess að færa sig um set og gera eitthvað nýtt. Það sé búið að bjóða honum þjálfarastöðu hjá North Shore Saints (sem við hötum framar öðrum liðum) og hann ætli að taka henni, og með honum fari Benita og Lucy (báðar ákaflega mikilvægar fyrir liðið).
Ég var niðurbrotin. Ekki væri það bara erfitt að missa Dave heldur Lucy og þá sérstaklega Benitu. Og við þrjár eigum það sameiginlegt að vera meðal þeirra fjögurra síðustu sem eftir eru af upphaflega liðinu fyrir fimm árum. Og við vorum á æfingu í gær. Dave sagði ekkert! Ekkert benti til þess að hann væri óánægður (nema með síðasta leikinn). Óskiljanlegt. Og það sem meira er, ég spila innanhússknattspyrnu með Dave, Lucy og Benitu og yrði því að halda áfram að sjá þau í hverri viku!
Fyrst ætlaði ég ekki að segja neitt en sendi svo póst um að ég ætti ekki til orð. Fékk skilaboð frá Akimi um að hringja í Dave. Hélt hún meinti að hann gæti útskýrt þetta fyrir mér. Dave hins vegar hló og spurði mig hvaða dagur væri í dag. Ég sagði þriðjudagur. En hvaða mánaðardagur? Fyrsti ap.... Ó!
En þetta var ágætt. Ég viðurkenndi að ég væri alltof trúgjörn og að þetta hefði verið fínt gabb. En ótrúlega illgjarnt!!! Dave hló aftur og sagði: Heldurðu virkilega að ég færi að þjálfa Norrh Shore Saints? Af öllum liðum? Nei, mér fannst það undarlegt en eins og ég segi. Það er ekki svo erfitt að ljúga mig fulla. Spyrjið bara Rut!!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Tveggja ára afmælið
1.4.2008 | 17:24
Vil óska blog.is til hamingju með daginn og þar með öllum moggabloggurum, hvort sem þeir hafa bloggað hér allan tímann eða ekki. Hér er gott að vera hvað svo sem hver segir.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Frekari fréttir af Dziekanski málinu
1.4.2008 | 06:59
Munið þið ennþá eftir Robert Dziekanski málinu, pólska manninum sem lést á flugvellinum í Vancouver? Eitt af því sem maður skildi aldrei var hvernig stóð á því að hann var á flugvellinum í marga klukkutíma áður en hann lést. Nú hafa yfirvöld birt myndbönd úr eftirlitsvélum flugvallarins og þar má fylla svolítið inn í myndina þótt aldrei verði hægt að skýra til fulls hvað fór fram í huga mannsins þennan síðasta dags hans. Svo virðist sem hann hafi aldrei skilið almennilega hvað hann átti að gera. Hann kom inn í flugvallarbygginguna með öðrum en var sendur í innflytjendaeftirlitið þar sem hann var að flytja til landsins. Líklega hefur hann aldrei almennilega skilið það því hann fór í áttina að innflytjendaeftirlitinu (hefur líklega verið bent þangað) en fer aldrei inn. Þannig líða margir klukkutímar þar sem hann heldur sig í nágrenninu en fer aldrei inn. Að lokum reynir hann að fara út í gegnum tollinn en er þar bent á að hann eigi eftir að fara í gegnum innflytjendaeftirlitið. Starfsmaður labbar með honum þangað. Það tekur um tvo klukkutíma að ganga frá pappírum og honum er leyft að fara. Hann fer í gegnum tollinn og út í almenninginn, en snýr svo til baka og fer aftur inn á öryggissvæðið. Það er þar sem hann gengur af göflunum með hinum velþekktu endalokum.
Vancouver Sun hefur gert skýringarmyndband þar sem atburðarrásin er rakin. Ég reyndi að setja myndbandið inn hér en annað hvort er eitthvað vesen með hlekkinn hjá þeim eða moggabloggið vill ekki önnur myndbönd en þau sem koma frá Youtube. Hver svo sem ástæðan er þá gekk þetta ekki. Þið getið hins vegar farið hingað til að sjá þetta.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Bara svona venjulegur dagur
1.4.2008 | 06:41
Það var eitthvað voðalega lítið um að vera í gær en Arnar skammar mig ef ég blogga ekki reglulega þannig að það er best að ég láti aðeins vita af mér.
Ég var voðalega þreytt í morgun enda var ég svo tjúnuð eftir leikinn í gær að ég ætlaði aldrei að komast í rúmið. Var meira að segja að spjalla við Rut á Skype um tvö leytið. Það var reyndar ágæt, með tímamismuninn á Ítalíu og Kanada er það ekki oft að við rekumst inn á sama tíma.
Fór í skólann, fór svo á fund með umsjónakennara, þaðan til læknis. Fékk að vita að ég þarf í ristilspeglun. Er strax farin að hlakka ógurlega til. Sérstaklega laxeringunni og svo því að fá heila myndarvél upp um afturendann. Já, ekkert smá spennandi tímar framundan! Reyndar er heilsugæslan þannig að ég fæ ekki að njóta þessa fyrr en í júní. Eftir tímann hjá lækninum fór ég heim, borðaði svolítið og fór svo á fótboltaæfingu. Við æfðum þótt vetrarvertíðin væri búin en það var aðallega vegna þess að við vildum spjalla aðeins um veturinn og plana fyrir sumarið. Fyrsti leikur sumarvertíðar verður í byrjun maí. Þangað til mun ég halda mér í þjálfun með því að spila innanhúsboltann en þar verður keppt klukkan þrjú á sunnudaginn. Fyrsti alvöru leikurinn. Og fyrsta skipti sem ég spila í þriðju deild. Hef spilað í fjórðu deild með stelpunum og spilaði einn leik með Þór í þáverandi fyrstu deild (kallast víst meistaradeild núna - eða hvað?).
Mig langar að segja eitthvað skemmtilegt eða athyglisvert en það kemur ekkert upp í hugann. Nema hvað ég öfunda ógurlega Carly og Gaylu sem spila fótbolta með mér. Gayla vinnur sem klippari fyrir Canucks hokkí og var nýlega að klippa til heimildarmynd um elskuna mína hann Vigneault. Mikið hefði ég viljað hafa það verkefni!!! Og Carly fékk VIP passa fyrir leikinn í gær og hitti alla sem til einhvers teljast. Ég á eftir að draga upp úr henni smáatriðin.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Frábær leikur
31.3.2008 | 08:19
Sigur Vancouver á Calgary var stórkostlegur í kvöld. Og ég var á staðnum.
Ég hafði ekki ætlað á leikinn enda aðeins þrír leikir eftir og ekki auðvelt að fá miða. En í gærkvöldi fékk ég tölvupóst frá stelpu í málvísindadeildinni sem átti tvö miða en komst ekki. Hún bauð mér að kaupa miðana af sér. Ég hringdi í nokkra sem ég þekkti sem hefðu mögulega áhuga á að fara en fólk var ýmist að vinna, átti ekki pening, eða fékk skilaboðin ekki nógu snemma. Það varð því úr að ég tók bara annan miðann og stelpan náði að losna við hinn miðann í gegnum netið. Ég þurfti bara að borga rúmlega hálfvirði sem var mjög fínt.
Einhvern tímann lofaði ég því að blogga ekki meira um hokkí en ég er búin að komast að því að örfáir hafa gaman af að lesa hokkíblogg og fyrir þá ætla ég aðeins að skrifa um leikinn.
Það byrjaði ekki vel hjá okkur. Calgary kom út á fullu og skoraði fyrsta markið þegar rétt rúmlega mínúta var liðin af leiktímanum. Þeir héldu áfram að koma harkalega að okkur og það var eins og það tæki Vancouver nokkrar mínútur að átta sig á því hvar þeir væru staddir. Sko, málið er að þegar við mættumst síðast, fyrir tæpri viku, þá spilaði Vancouver góðan fyrsta leikhluta en hrundi svo eins og spilaborg og Calgary hreinlega át þá. Þeim var hent til hliðar, þeim kastað í glerið og svo voru þeir notaðir til að sópa gólfið með. Það var eins og Vancouver myndi allt í einu eftir þessu og þeir ákváðu að gera eitthvað í málunum. Þegar leikið er gegn Calgary þarf að leika að hörku. Ekki bara með pökkinn heldur almennt. Calgary þjálfarinn Mike Keenan er kallaður járn Mike. Hann er harðhaus og hundur. Ég þoli hann ekki. Fæ grænar bólur í hvert sinn sem ég sé hann. Ég held að hann sé ömurlegur karakter og þetta segi ég ekki af því að hann þjálfar Calgary. Almennt séð hef ég ekkert á móti þeim. En sögurnar sem ég hef heyrt af Keenan frá því hann þjálfaði hér í Vancouver eru ömurlegar. En nóg um það. Hér kemur að næsta hluta leiksins - sá hluti hófst fyrir alvöru sjö mínútur eftir að leikur hófst.
Í NHL hokkí er vanalega spilað með fjórar línur framherja. Fyrsta línan hefur að skipa bestu leikmönnunum, önnur lína á líka að geta skorað, þriðja línan er aðallega send út á móti fyrstu línu andstæðingsins og þeirra hlutverk er að stoppa þá, og fjórða línan er aðallega skipuðu stórum og sterkum slagsmálahundum sem ætlað er að tuska aðeins til leikmenn hins liðsins. Þriðja línan hjá Vancovuer hefur verið alveg mögnuð í vetur. Þeir Ryan Kesler og Alex Burrows, og hver sem spilar með þeim í hvert sinn, hafa náð að stoppa hér um bil alla bestu leikmenn andstæðinganna. Þeir lokuðu á Sidney Crosby, Henrik Zetterberg, Ilya Kovalchuk, Alexander Ovechkin, og þeir hafa sama sem lokað á Iginla - hann hefur aðeins eitt mark gegn þeim í sjö leikjum. Þessir strákar eru snillingar og eitt af því sem þeir gera er að atast í markaskorurum andstæðinganna og reita þá til reiði. Alexandre Burrows er víst snillingur í því og fer víst oft yfir strikið samkvæmt samherjum hans. Hann fékk meira að segja Vincent Lecavalier til að slást við sig í vetur og báðir fengu fimm mínútna brottvísun. Þið sem fylgist ekki mikið með hokkí skiljið kannski ekki hvað er svona aðdáunarvert við þetta en lítið á mennina sem fara út af. Alex Burrows er búinn að skora 11 mörk og hefur 19 stoðsendingar. Lecavalier hefur 40 mörk og 50 stoðsendingar. Punktarnir 30 hans Burrows eru því öllu lægri en þessir 90 sem Lecavalier hefur.
Og þess vegna skiptir það miklu minna máli hvort Burrows er á svellinu eða Lecavalier. Þetta er það sem þessir strákar gera, þeir æsa upp bestu leikmenn hins liðsins þar til þeim verður hent út af og þar með er sú ógn farin af svellinu um stund. Í kvöld voru þeir magnaðir. Þeir náðu að losa okkur við Iginla í alls 16 mínútur og Phaneuf í 4 mínútur. Iginla er með 94 punkta (49 mörk og 45 stoðsendingar) og Phaneuf hefur 58 punkta (17 mörk og 41 stoðsendingu). Mestu munaði auðvitað að losna við Iginla. Gallinn er að tíu mínúturnar sem hann fékk fyrir óheiðarlega framkomu nýttust illa því það voru ekki eftir nema rúmar þrjár mínútur þegar hann fékk þær en samt. Iginla er ekki slagsmálahundur og það er því ekki hver sem er sem fær hann til við sig.
En aftur að leiknum. Eftir að Iginla var sendur af velli sjö mínútur inn í leikinn var eins og Vancouver hafi tekið við sér. Þeir komu út af fítonskrafti og nokkrum mínútum síðar jafnaði Sami Salo leikinn með svaka skoti út við bláu línuna. En rétt fyrir leikslok kom annað mark frá Calgary, nokkuð óheiðarlega að mati flestra í höllinni. Calgary hafði fengið powerplay og þeir spiluðu því fimm gegn fjórum. Ryan Kesler fékk pökkinn harkalega í fótinn og gat fyrst ekki staðið í lappirnar, hann komst loks á fætur og byrjaði að haltra af velli og allir voru farnir að öskra á dómarana um að stoppa leikinn, en þei gerðu það ekki og Calgary spilaði því í raun fimm á þrjá - og þeir náðu að skora. En Vancouver sýndi karakter og innan við mínútu síðar jafnaði Naslund leikinn aftur inn með því að fylgja pekkinum vel eftir.
Við áttum það sem eftir var leiksins. Tveimur mínútum inn í annan leikhluta skoraði gamli jaxlinn Trevor Linden við mikinn fögnuð áhorfenda, enda Linden líklega vinsælasti leikmaður liðsins fyrr og síðar. Hann hefur setið mikið á bekknum í vetur enda orðinn 37 ára sem þykir býsna aldrað í hokkí. En Linden var ekki hættur, tæpum fimm mínútum síðar bætti hann við öðru marki sínu og staðan orðin 4-2 Vncouver í vil. Sex mínútum síðar bætti Matt Pettinger við fimmta markinu og Brad Isbister innsiglaði sigurinn tæpa mínútu inn í þriðja leikhluta. Staðan 6-2 fyrir Vancouver og sigur í höfn.
Leikurinn var glettilega skemmtilegur og mikil orka, bæði á svellinu og í salnum. Fjöldi Calgary aðdáenda var á svæðinu og þeim var ekki skemmt. Tveir þeirra sátu við hliðina á mér en ég lét vera að atast í þeim. Læt karlana um það.
Hér má sjá mörkin (athugið að það þarf að smella á 'open video portal'):
http://canucks.nhl.tv/team/launch.htm?type=fvod&id=15384&catid=201
Og hér er viðtal við hann Vigneault minn:
http://canucks.nhl.tv/team/launch.htm?type=fvod&id=15385&catid=201
Það versta er að við erum svo langt frá því að vera örugg með sæti í úrslitakeppninni. Við sitjum nú í áttunda sæti, síðasta úrslitasætinu, og Nashville er aðeins stigi á eftir okkur eftir tap í vítakeppni gegn Detroit. Calgary hefur tveimur stigum fleira en við og Colorado þremur stigum fleira, en Colarado hefur leikið einum leik meira. Í raun verðum við að vinna alla leikina þrjá sem eftir eru. Þá fyrst getum við andað. Ég vildi helst komast upp fyrir hvort tveggja Calgary og Colorado og enda í sjötta sæti því þá leikum við gegn Minnesota í úrslitunum og þá ættum við að geta unnið. Ef við lendum í áttunda sæti leikum við gegn Detroit og þá getur allt gerst. Við lékum tvisvar við þá í vetur og unnum annan leikinn en töpuðum hinum. Það skiptir engu máli þótt þeir séu í efsta sæti vesturriðilsins. Þeir eru að hluta til þar af því að þeir leika í auðveldasta undirriðlinum. Hin liðin fjögur í miðvesturriðlinum eru ekki í úrslitasæti eins og er. Versta staðan fyrir okkur er að lenda í sjöunda sæti. Þá leikum við gegn San Jose og ég get ekki séð okkur vinna þá.
En aðalatriðið er að tryggja sér sæti í úrslitunum og svo verðum við að einbeitta okkur að andstæðingnum, hver svo sem það nú er.
Við þetta má svo bæta að í dag skrifaði Aquilini Investment Group, eigandi Canucks, undir samning við Vanoc (nýja vinnuveitandann minn) um samstarf við Ólympíuleikana 2010. Carly sem leikur fótbolta með mér var á staðnum og hitti allt aðalliðið hjá Canucks og ég dauðöfunda hana. Hún hitti þó held ég ekki þjálfarann minn svo ég þarf ekki að verða algjörlega græn á litinn. Á myndinni hér til hliðar má sjá frá vinstri: Paolo Aqulini, John Furlong, CEO of Vanoc, Francesco Aquilini og Roberto Aquilini. Þeir Aquilini bræður keyptu Canucks fyrir fjórum árum og Francesco lenti í málaferlum út af þeim kaupum þar sem hann var ásakaður um að hafa hálfpartinn rænt félaginu frá tveim kaupsýslumönnum sem voru að reyna að ná samningum, Gagliardi og Beady. Úr urðu heilmikil málaferli sem tóku meira og minna allt sumarið og illilega var höggið að mannorði Francesco, en sem betur fer komst dómarinn að þeirri niðurstöðu sem mér sýndist alltaf augljós - að hann hafði ekki gert neitt af sér og keypti liðið á algjörlega löglegan hátt. Ég var ánægð með það, mér sýnist þessir bræður hin ágætustu grey.
Og áður en ég fer að sofa verð ég endilega að setja inn gamalt myndband með Trevor Linden frá þeim tíma þegar glerið í kringum völlinn var ekki eins sterkt og það er nú. Trevor er sá sem missir hjálminn:
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Íslenskur fnykur af fótboltanum
30.3.2008 | 08:34
Í morgun fór ég á leik með knattspyrnufélaginu Vancouver Whitecaps en þjálfari þess er enginn annar en Teitur Þórðarson. Þetta var sýningarleikur gegn SFU háskólaliðinu og Whitecaps tóku þá algjörlega í nefið. Lokatölur voru reyndar ekki nema 3-0 en það segir ákaflega lítið um gang leiksins. Ég held að SFU hafi ekki átt neitt gott skot að marki. Varnarmenn Whitecaps héldu þeim algjörlega niðri. Whitecaps áttu hins vegar fjölmörg frábær tækifæri. Þeir hafa býsna góða framherja.
Við vorum nokkrir Íslendingarnir sem mættum á leikinn, með íslenskan fána, og hvöttum liðið áfram. Þetta voru mjög íslenskar aðstæður þar sem það var fremur kalt svo maður var vafinn í húfu og vettlinga, og svo stóð Óðinn hluta af leiknum eins og góðum Íslendingi sæmir (þótt hann sé reyndar Vestur-Íslendingur). Ég man að það voru alltaf karlar á Akureyrarvelli sem stóðu fremur en að sitja á leikjum.
Eftir leikinn var hádegisverður í Íslandshúsi og Teitur kom í mat ásamt einum fjórum eða fimm öðrum starfsmönnum Whitecaps, þar á meðal aðstoðarþjálfaranum. Það var þrælgaman að tala við þá og ég spjallaði t.d. lengi við upplýsingafulltrúann þeirra og við ræddum um nýja völlinn sem þeir ætla að byggja og almennt um stefnuna. Það var líka skemmtilegt að hitta Teit og hann viðurkenndi að aðstæður hér væru vissulega öðruvísi en hann ætti að venjast.
Mér fannst magnað þegar aðstoðarþjálfari liðsins kom til mín og óskaði mér til hamingju með nýju vinnunna. Ég var orðlaus og fannst þetta ógurlega sætt af honum. Í ljós kom að Jana hafði sagt honum frá þessu.
Um kvöldið lék ég ásamt innanhússliðinu mínu í Burnaby (þar sem við leikum alltaf). Leikur klukkan tíu á laugardagskvöldi. Ouch. Við unnum leikinn 10-5. Dave var orðinn svo hræddur um að við yrðum sett í aðra deild að hann gerði allt sem hann gat til þess að leyfa hinu liðinu að skora. Hann var í marki í stað Joe sem var í veislu, og Dave var farinn að færa sig út úr markinu og sendi boltann á hitt liðið en það var alveg sama hvað hann reyndi. Þeim gekk ekki vel að koma boltanum í markið. Hann var búinn að banna okkar liði að skora fleiri mörk þegar við vorum tveim mörkum yfir, en það er ekki hægt að stoppa þessa stráka.
Þetta var síðasti 'tiering' leikurinn og eftir hann talaði Dave við mótstjórann. Hann viðurkenndi að hann hafi ætlað að setja okkur í aðra deild þar sem við unnum tvo af þremur leikjum svona stórt en ákvað svo að halda okkur í þriðju deild. Svo við getum andað léttar. Við eigum þá fyrir höndum skemmtilegt tímabil þar sem leikirnir geta farið á hvaða veg sem er. Í annarri deild hefði mátt búast við því að okkur yrði slátrað í hverri viku og það er ekkert sérlega gott fyrir sjálfstraustið.
Í næstu viku hefst því keppnin fyrir alvöru.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Klifurmyndir
29.3.2008 | 04:18
Ég hef stundum minnst á klifrið í bloggpistlinum mínum. Ég klifra aðallega innanhúss. Helsta ástæðan fyrir því er sú að það er ekki hægt að klifra mikið utanhúss á veturna því klettarnir eru of blautir, þar að auki á ég ekki bíl og kemst því ekki auðveldlega á klifurstaði og í þriðja lagi þá ég ekki útbúnaðinn sem er nauðsynlegur til þess að klifra úti. Þ.e. ég á ekki reipi, ekki karabínur, ekki bouldering mottu...
Innanhúss er aðallega um þrjár klifuraðferðir að ræða. Tvær þessar aðferðir hafa með reipi að gera og 14 metra háa veggi. Maður er með belti um mittið sem fer utan um mittið en einnig utan um lærin. Reipið er fest við beltið, liggur síðan upp veginn, er fest í miðjunni í lykkju efst uppi, og hinn endinn er svo í höndum þess sem maður klifrar með. Sá kallast tryggir eða tryggjari (held ég - belayer á ensku). Hann dregur inn reipið þannig að það sé alltaf nokkuð sterkt og ef maður dettur þá sér tryggirinn um að grípa mann. Og já, útbúnaðurinn er þannig að það er ekkert mál. Það er hægt að halda 90 kílóa manneskju auðveldlega með annarri hendinni. Ja, það er hægt að halda þyngri manneskju en ég hef aldrei klifrað með neinum þyngri. Þessi aðferð kallast á ensku toproaping.
Einnig er klifrað leiðarklifur (??? - lead climbing). Þá er reipið ekki fest að ofan heldur klifrar maður upp með reipið og festir það á sirka metra fresti í lykkjur á veggnum. Ég hef aldrei klifrað svona en hef oft hugsað mér það.
Utanhúss er líka um að ræða hefðbundið klifur þar sem engar lykkjur eru til staðar, en að hef ég aldrei prófað heldur.
Þriðja aðferðin finnst mér skemmtilegust. Það er svokölluð grjótglíma (bouldering). Þá klifrar maður miklu lægri vegg sem yfirleitt slútir meira fram og myndar hálfgerðan helli þannig að maður klifrar eftir loftinu. Maður er ekki festur í reipi og ef maður dettur þá lendir maður bara á mjúkri dýnu fyrir neðan. (Já ég veit, algjör ofnotkun á orðinu maður.)
Við Marion erum algjörir grjótglímufíklar og klifrum þannig miklu oftar en í reipinu. Þetta er einfaldlega skemmtilegra. Set hér inn nokkrar myndir frá því í dag. Myndir af mér og Marion en einnig Zeke sem oft klifrar á sama tíma og við. Hann er frábær klifrari og hefur kennt okkur ýmislegt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)