Áskorun til Morgunblaðsins
18.2.2008 | 07:11
Ég skora hér með á Morgunblaðið að birta úrslit úr leikjum í íslensku íshokkídeildinni. Þessi íþrótt er alveg jafnrétthá og aðrir íþróttir sem leiknar eru á landinu og það er algjör skandall að maður skuli ekki geta farið á heimasíðu stærsta blaðs landsins og fengið að vita úrslitin. Um helgina voru leiknir að minnsta kosti tveir leikir, ef ekki fleiri, en ég get hvergi fundið úrslitin á síðu blaðsins. Í staðinn má finna ítarlegar fréttir af formúlu 1 sem að mér vitandi er ekki íþrótt sem stunduð er á landinu.
Og þetta á ekki bara við um hokkí - margar íþróttir virðast ekki hljóta náð fyrir augum íþróttafréttamanna og mér skilst að t.d. sé yfirleitt ekkert sagt frá þeim akstursíþróttagreinum sem stundaðar eru í landinu. Þá er lítið sagt frá skíðaíþróttum, nema kannski helst frá heimsmeistaramótinu.
Það er eins og að ekki megi segja frá neinu sem ekki hefur með bolta að gera (nema formúlunni).
(Ókei, ég geri mér grein fyrir að ég hef minnst á þetta áður, en í kvöld horfði ég á netinu á leikinn milli SA og Bjarnarins sem RÚV sendi út í beinni útsendingu, en einhverra hluta vegna gat ég bara hlaðið niður fyrstu tveim leikhlutunum. Svo ég vildi auðvitað sjá hversu mörg mörkin urðu, enda staðan 10-2 eftir tvo leikhluta. Það var hins vegar ekki auðvelt að finna upplýsingar um hvernig leikurinn fór. Þess vegna fór ég að pirra mig á þessu enn og aftur.)
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Ég er að reyna að reikna þetta út...
17.2.2008 | 22:55
Ég var á málabraut í menntó og er því kannski enginn sérfræðingur í stærðfræði en mér finnst reiknisdæmið í þessari frétt um Marley ekki alveg ganga upp:
Scorsese verður ekki á flæðiskeri staddur með efni í myndina, því auk þess að senda frá sér hið gríðarlega vinsæla lag No Woman No Cry og gefa út yfir tuttugu plötur, þá lifði Marley af morðtilraun árið 1976 og feðraði yfir þrettán börn. Þrjú með eiginkonu sinni Ritu, tvö ættleidd og átta börn sem hann átti með mismunandi konum. Samkvæmt Ziggi Marley mun myndin endurspegla líf föður hans á áhrifamikinn hátt.
Reiknisdæmið er svona:
Börn með eiginkonu = 3
Ættleidd börn = 2
Börn með öðrum konum = 8
Dæmið er sem sagt 3+2+8= 13
Rétt?
Samkvæmt þessu átti Marley 13 börn. Hvernig stendur þá á því að í fréttinni segir að hann hafi átt yfir 13 börn?
![]() |
Heimildarmynd um Bob Marley |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Loksins fótbolti
17.2.2008 | 08:02
Það lítur út fyrir að ég fái loksins að spila fótbolta á morgun. Við höfum ekki leikið nema einn leik á nýja árin því ýmist hefur verið allt á kafi í snjó, allt rennandi blautt af rigningu eða svo frosin jörð að ekki má leika. Nú hefur hins vegar verið sól og blíða og stefnir í að það haldi áfram á morgun.
Það er líka kominn tími til. Leikurinn á morgun er okkar fyrsti leikur í úrslitakeppninni þar sem við munum leika þrjá leiki í von um að komast áfram. Það er því mikilvægt að vinna. Ég er náttúrulega nýskriðin upp úr bólinu og lungun ekki alveg upp á það besta eftir kvefsóttina, en ég verð bara að passa mig. Ég veit að ég mun geta tekið góða spretti en þarf svo að blása úr nös inn á milli.
Það eina slæma við þetta er það að ég missi af skíðaferð í staðinn. Lína hringdi í dag og bauð mér með til Whistler en ég varð að afþakka út af fótboltanum. Óheppni að svona illa hitti á. En það koma dagar eftir þessa daga og ég verð komin á skíði áður en ég veit af. Kannski meira að segja í vikunni því það er miðsvetrarfrí hjá okkur í næstu viku og því engin kennsla. Ég fæ því frí frá krökkunum og get einbeitt mér að ritgerðinni, en það þýðir líka að ég get farið á skíði ef tækifæri gefst.
Og nú er ég farin í háttinn því ég þarf að vakna snemma og koma mér austur í bæ fyrir níu.
P.S. Vona að liðið mitt standi sig eins vel og Canucks gerðu í kvöld þar sem þeir sigruðu Edmonton 4-2 í hörkuleik. Með sigrinum komust þeir aftur upp í úrslitasæti. En ekkert má út af bregða í þeim leikjum sem eftir eru því keppnin á toppnum er hörð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Vinir
16.2.2008 | 08:07
Ég hef oft hugsað um það hvernig maður eignast vini og hvaða vinir það eru sem eru til lífstíðar. Ég hef stundum sagt að maður eignist einn góðan vin á hverju æviskeiði aðrir svona komi og fari. Og ég held það sé nokkuð til í þessu því þótt maður eigi yfirleitt nokkuð marga vini á hverju tímabili þá eru það mjög fáir sem koma með manni inn í hið næsta.
Yfirleitt er það þannig að vinirnir breytast í kunningja þannig að maður fylgist kannski með þeim úr fjarlægð, skrifar tölvupóst af og til, hittir fólk þegar báðir eru á landinu eða í bænum... og þótt í raun kalli maður þetta fólk vini mans, þá er staðan öðruvísi en hún var þegar vináttan var náin.

Hér í Vancouver myndi ég segja að Marion, Rosemary og Julianna væru mínir nánustu vinir en margir aðrir hafa komið og sumir farið. Leszek og Jeremy sem voru mínir bestu vinir hér fyrstu tvö árin kláruð sitt mastersnám og fluttu í burtu, Kim sem ég klifraði með á tímabili flutti í burtu, og nú er Marion að fara að flytja í burtu.
En svona er lífið einfaldlega og ég held að það kryddi bara tilveruna þegar leiðir manns liggja saman við leiðir annarra í ákveðinn tíma. Og í raun er svo ákaflega auðvelt að kynnast nýju fólki svo framarlega sem maður er opinn fyrir slíku. Og mér hefur fundist ég eiga auðveldara með það undanfarið. Ég fer t.d. reglulega á kaffihús með Akimi sem ég kynntist í gegnum fótboltann, við Mark skrifumst á mörgum sinnum í viku þótt við hittumst ekki oft, ég hef átt margar góðar stundir með nýju Íslendingunum á svæðinu, nýlega endurnýjaði ég kynnin við Stefan sem ég hafði ekki rekist oft á síðastliðna tvo vetur og í gegnum hann kynntist ég Robert sem er ákaflega geðugur náungi. Þar að auki á ég fjölmarga kunningja sem ég hitti þegar ég fer og klifra, svo sem Dave, Colin, Scott, Zeke... Þetta fólk gerir líf mitt ánægjulegra og þótt ég taki aðeins einn náinn vin með mér inn í næsta tímabil þá er það allt í lagi, því þar mun ég eingast nýja vini.
Og nú á ég líka fjöldann allan af bloggvinum!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fyrrverandi nemendur
15.2.2008 | 00:45
Vorið 1994 var mér boðið að koma til Akureyrar og kenna íslensku við MA í einn vetur í fjarveru míns gamla kennara Erlings Sigurðarsonar sem hafði tekið sér frí til þess að skrifa leikrit um Davíð Stefánsson. Ég var þú búin með alla kúrsa í mastersnáminu og var rétt byrjuð að skrifa mastersritgerðina. Þetta var of gott boð til þess að taka því ekki svo ég setti ritgerðarskrif á hilluna í eitt ár og fór norður og kenndi íslensku og tjáningu þennan vetur.
Ég kenndi aðallega fyrsta og öðrum bekk svo nemendur mínir voru þetta sextán og sautján ára. Í dag (14. febrúar) á einn nemenda minna úr þáverandi 1B þrítugsafmæli. Ég trúi því ekki að þessir sextán ára krakkar sem ég kenndi þennan vetur séu nú á þrítugasta aldursári og annars-bekkingarnir mínir urðu allir þrítugir í fyrra. Ef manni finnst maður ekki gamall við svona fréttir þá veit ég ekki hvað.
Vil þó taka það fram að ég var ekki mikið eldri en nemendur mínir (24 ára) og man ég sérstaklega eftir því þegar ég fór með 2X niður í Brynju að kaupa ís. Það var venja að umsjónarkennari færi með bekkinn sinn í Brynju einu sinni að vori og ég hafði þegar farið með 1B. En umsjónarkennari 2X varð veikur um páskana og hætti svo krakkarnir báðu mig um að koma með sér í staðinn. 2X, sem var eðlisfræðibekkur, var samansettur af sautján ára gömlum strákum og þremur fremur hávöxnum stúlkum. Ég var langminnst og leit ekki út fyrir að vera degi eldri en þau hin. Það var venjan að kennarinn fengi ókeypis ís frá Brynju, svona í þakklætisskyni fyrir að koma með heilan hóp af viðskiptavinum inn í búðina, en þegar ég mætti á svæðið með krökkunum mínum kom fát á afgreiðslukonuna. Að lokum klappaði einn strákanna á kollinn á mér og sagði: Þetta hérna er kennarinn. Það er hún sem á að fá ókeypis ís!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Að gefa til baka
14.2.2008 | 07:29
Það er alltaf gott þegar vel stætt fólk ákveður að leggja sitt af mörkum til að hjálpa öðrum. Ég hef áður nefnt hvernig hokkíleikmenn í Vancouver safna peningum til krabbameinsrannsókna, en þeir gera einnig mjög margt til stuðnings veikum og fátækum börnum. Sumt gera þeir af sjálfsdáðum og með eigin peningum (Cook foundation for kids er styrktarsjóður Matt Cook og eiginkonu hans, Markus Naslund borgar fyrir svítu á vellinum og fyllir hana af fátækum börnum á hverjum leik), annað gera þeir sem lið, svo sem að heimsækja börn á spítölum, safna peningum fyrir langveik börn, o.s.frv. og annað er hluti af Canucks Place sem er heimili fyrir foreldra veikra barna sem þurfa að koma langt að. Þar getur fjölskyldan dvalið ókeypis á meðan barnið er á spítala. Húsið er í eigu Canucks Sports and Entertainment sem aftur er í eigu Francesco Aquilini og bræðra hans. Eigendur, þjálfarar og leikmenn liðsins eyða í raun ótrúlegum tíma í góð málefni.
Í gær var haldin svokölluð Ice and dice hátíð þar sem leikmenn reka spilavíti og rennur allur ágóði til veikra barna. Fólk kemur ekki þarna til að vinna peninga heldur til þess að fá tækifæri til þess að hitta leikmenn og þjálfara dressaða upp. Ég hefði alveg getað hugsað mér að fara en ég á enga peninga til að spila með og ég á ekki einu sinni föt sem hæfa tilefninu. Læt mér í staðinn nægja myndir. Og mér finnst þeir eitthvað svo krúttlegir að ég verð að setja inn mynd. Dúllan hann Vigneault minn er annar frá vinstri í röð þjálfaranna (fremst).
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hokkímaður skorinn á háls
14.2.2008 | 07:05
Pabbi sagði mér frá því að sjónvarpið hefði sýnt frá hokkíslysinu þar sem Richard Zednik hjá Florida Panthers var skorinn á háls af skauta samherja. Ótrúlegt að hann stóð upp og skautaði sjálfur að bekknum.
Ég veit ekki hvort það kom fram í fréttum að hann var kominn á skurðarborðið á innan við klukkutíma og í raun var það röð tilviljana sem gerði það að verkum að hægt var að taka á þessu svona snemma.
1. Læknir sat við hliðina á bekknum og gat rokið til samstundis og sett þrýsting á sárið.
2. Nálægasti spítali var í aðeins tveggja mínútna fjarlægð frá vellinum.
3. Starfsmaður spítalans sem var að horfa á leikinn í beinni útsetningu hringdi umsvifalaust á skurðstofuna svo hægt var að undirbúa aðgerð.
4. Aðeins einn skurðlæknir var á vakt en annar skurðlæknir var á leiknum og hann rauk umsvifalaust upp á spítala til að hjálpa til.
Ef maður meiðist á annað borð er kannski best að meiðast þegar nógu margir eru að horfa.
Hér má sjá hvernig þetta gerðist ef einhver missti af því í fréttunum.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mæli með Spamalot
13.2.2008 | 23:18
Ég var svo heppin að sjá Spamalot með samasem upphaflegum leikurum í New York fyrir tveim árum. David Hyde Pierce og Hank Azaria voru þá báðir í sínum hlutverkum og ég er ákaflega ánægð með að hafa fengið að sjá þá tvo.
Pierce var alltaf svo yndislegur í hlutverki Niles í Fraser og Azaria þekkja flestir úr Friends sem David, kærasta Phoebe sem fór til Minsk. Rödd hans má svo auðvitað heyra frá ýmsum karakterum í Simpson. Eiginlega fór ég á Spamalot út af þessum tveim. Ég hafði ekki ætlað mér á Broadway sýnginu en ég var að labba um leikhúsahverfið í New York þegar ég sá auglýsinguna um Spamalot og þessi tvö nöfn upplýst á skiltinu. Ég fór beint og keypti mér miða.
Sem betur fer vissi ég ekki fyrr en eftir á að Tim Curry hafði upphaflega leikið hlutverk Arthurs konungs en eins og fyrir alla aðdáendur Rocky Horror Picture Show og Clue hefði það auðvitað fullkomnað sýninguna að fá að sjá Curry á sviði.
Spamalot er hreint út sagt frábær sýning. Lögin eru skemmtileg, línurnar drepfyndnar fengnar úr upphaflegu myndinni og útsetning atriða sniðug (t.d. fyndið að sjá hvernig þeir fara með svarta riddarann sem er brytjaður niður heldur auðveldara að eiga við í bíómynd en á sviði.)
Það hlýtur að koma að því að einhver setji þetta upp á Íslandi.
![]() |
Monty Python gerir ekki grín að Spears |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fyrirlestur
13.2.2008 | 18:13
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Nýr sjónvarpsþáttur
13.2.2008 | 06:52
Ég er dottin í nýjan sjónvarpsþátt. Hann er ekkert sérlega góður en samt algjörlega ómögulegt að hætta að horfa. Eins og ávanabindandi eiturlyf. Þessi þáttur kallast MVP (sem í íþróttamáli stendur fyrir 'most valuable player') og fjallar um eiginkonur og kærustur hokkímanna.
Aðalstjarnan er fyrirliðinn Gabe sem er góði gæinn. Hann er nýbyrjaður að vera með ungum ljóshærðum leikskólakennara sem þangað til í þættinum í kvöld var hrein mey.
Damon er vondi strákurinn sem berst við djöfla úr fortíðinni. Konan hans og barn létust þegar hann keyrði fullur. Í staðinn sefur hann hjá öllu sem hreyfist.
Trevor er nýliðinn úr hjólhýsahverfinu og kærastan hans á fremur erfitt með að passa inn í hóp fínu eiginkvennanna. Þar að auki þarf hún að berjast við hinar svokölluðu 'puckbunnies' (nafn yfir hokkí grúppíur) sem sitja um leikmennina.
Auk þess spila stórar rullur ekkja og dóttir fyrirliðans fyrrverandi sem deyr í fyrsta þættinum. Sú eldri er að reyna að koma undir sig fótum eftir að eiginmaðurinn lét allar eigur sínar renna til liðsins en ekki til fjölskyldunnar, og sú yngri, sem saknar ríkidæmisins, gerir allt til þess að komast yfir nýliðann svo hún nái aftur stöðu prinsessunnar.
Ég veit ekki af hverju ég horfi en ég get bara ekki hætt. Kannski það hafi eitthvað að gera með vonda strákinn sem sjá má hér á síðunni!
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 07:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)