Nágrannaerjur - Annar hluti

Stríðið milli Alison og Ritu heldur áfram og það verður erfiðara að leiða þetta hjá sér enda beinast nýjustu aðgerðir að mér jafn mikið og að Alison. Svo er mál með vexti að íbúðirnar þrjár eru mjög misstórar og ég held að Rita hafi 1200 ferfet og Alison 400. Hef ekki hugmynd um hvað ég hef - aðeins meira en Alison en mikið minna en Rita. Vegna þessa hefur rafmagns og gasreikningunum alltaf verið skipt miðað við stærð íbúða þannig að Rita borgar um helminginn og við Alison hinn helminginn. Þannig hefur þetta verið í húsinu í áraraðir. Þetta er ekki skráð í leigusamningana en bæði mér og Alison var tilkynnt þetta þegar við fluttum inn.

Rafmagnsreikningurinn kom í dag og Rita skrifaði á miða töluna sem ég á að greiða og setti undir hurðina hjá mér. Ég rétt svona leit á miðann og setti hann svo í bunkann með öðrum reikningum án þess að hugsa frekar um það. Í kvöld hringdi svo Alison í mig. Rita hafði skilið eftir skilaboð á símsvaranum hennar um það að framvegis yrði reikningum skipt jafnt í þrjá hluta enda notaði hún ekki mikið rafmagn þar sem hún væri ekki með netið (eins og það eyði svona miklu) og hún notaði heldur ekki mikið vatn (samkvæmt Alison er hún 20 mínútur í sturtu á morgnana - ég veit ekkert um það, heyri aldrei vatnið renna fyrir neðan mig).

Alison er alveg vaðvitlaus og ætlar að hringja í eigendurna sem ekki hafa enn svarað kvörtun hennar frá því í síðustu viku. Málið er að ég get ekki látið Alison sjá um þetta eina því nú er Rita farin að heimta að ég borgi líka meira í reikningunum. Það er kannski hægt að verja þetta með rafmagnið en hvað hitann snertir kemur ekki til greina að borga eins mikið og Rita. Hennar íbúð er helmingi stærri en okkar. Það tekur miklu meira að hita hana en okkar íbúðir. Og þar að auki virðist alltaf heitara hjá henni. Þvílíkt bull.

Það er best að sjá hvort Alison nær á Goldman genginu á morgun og hvað þau segja. Mikið leiðist mér svona. 


To PhD or not to PhD

Ég gæti ekki lýst lífi mínu betur en hér er gert.


Taugarnar þandar yfir spennandi leik

Þið sem nennið ekki að lesa hokkílýsingu, kíkið samt á myndbandið neðst. Ótrúlega flott vítaskot sem tókst betur í kvöld en það gerði þarna.

Ég horfði á leikinn í kvöld með Mark sem er vinur minn úr Íslendingahúsi. Hann er frá Winnipeg en flutti hingað fyrir einu og hálfu ári vegna vinnu. Mark er mikill Canucks aðdáandi og við fórum upphaflega að tala saman þegar ég var að kenna yfir í Íslendingahúsi (þar sem hann leigir herbergi) af því að ég var með hálsmen með merki Vancouver Canucks. Síðan þá höfum við mikið rætt um hokkí. 

Við fórum á stað sem heitir The Frog and the Firkin og fengum okkur mat á meðan við horfðum á leikinn og spjölluðum saman. Canucks léku miklu betur í kvöld en í gær en gekk þó illa að skora. Þeir komust þó í 1-0 með marki frá Burrows í fyrsta leikhluta en snemma í þriðja leikhluta jöfnuðu Chicago Blackhawks. Alla setti hljóða á pöbbnum enda þurftum við virkilega á báðum stigunum að halda út úr þessari viðureign. En þetta átti eftir að versna. Rúmum fjórum mínútum fyrir leikslok skoruðu Blackhawks ótrúlegt mark. Pökknum var skotið að marki en hann lenti á kylfunni hjá Kesler, okkar leikmanni, og hentist þaðan upp í loft og eiginlega hvarf sjónum. Luongo í markinu horfði upp í loftið en sá ekki pökkinn sem datt niður fyrir aftan hann og inn í markið. Við Mark föttuðum ekki einu sinni að mark hefði verið skorað fyrr en við sáum leikmenn Blackhawks fagna. Vá, það mátti heyra saumnál detta á barnum. Allir voru í sjokki. Mark setti hljóðan og hann stundi varla upp orði þegar ég minntist á að það væri orðið býsna langt síðan Vancouver hefði náð að koma til baka á síðustu mínútu þannig að það væri nú alveg kominn tími til.

Þegar tvær mínútur voru eftir tók Vignealt Luongo út úr markinu og setti fjórða framherjann inná. Þetta er alltaf hættulegur leikur því það er auðvelt að skora í autt markið, en aðalmálið er að halda pökknum og vona að aukamaðurinn hjálpi til við að skora. Enda er þarna um allt eða ekkert að ræða. Og ótrúlegt en satt, þetta dugði því Naslund náði að hamra pökknum í netið og staðan 2-2 þegar mínúta var eftir. Bæði lið börðust en þannig endaði venjulegur leiktími og farið var í framlengingu. Vancouver hefur ekki gengið vel í vítakeppnum í vetur, aðeins unnið fjórar af ellefu þannig að þeir spýttu í í von um að vinna leikinn í framlengingu (fimm mínútur með fjóra menn á vellinum í stað fimm). Þegar framlengingin var hálfnuð fékk Vancouver vítaskot þegar leikmaður Chicago sparkaði markinu úr stað þegar Vancouver var með pökkinn og Daniel Sedin, aðalmarkaskorari liðsins tók vítið. Þið megið þó vita að það er miklu erfiðara að skora úr vítum í hokkí en í fótbolta og það er miklu algengara að mistakast skotið en að takast það. Daniel ætlaði að draga pökkinn til hliðar og fram hjá markverði en kom ekki einu sinni skoti á markið. Svo framlenging hélt áfram en ekkert mark var skorað. Vítakeppni varð staðreynd. Við Mark giskuðum á að Vigneault myndi velja Naslund, Burrows og Linden til að taka vítin og við höfðum rétt fyrir okkur í tveimur tilfellum. Naslund tók fyrsta víti en skaut framhjá. Luongo varði þá frá aðalskorara Chicago sem hafði fram að þessu skorað fimm mörk úr sex vítaskotum. Þá var sendur á svæðið unglingurinn Ryan Shannon sem Vancouve fékk í haust frá Anaheim en sem hefur að mestu spilað með Manitoba. Mark kallaði upp yfir sig þegar hann sá Shannon. Hvernig í fjandanum stæði á því að Shannon ætti að taka víti, en ég sem hef endalausa trú á þjálfaranum var ekki eins stressuð. Vigneault veit hvað hann er að gera.

Shannon leggur af stað, tekur svo stóran sveig til vinstri kemur síðan hratt inn að markmanninum, snýst svo í hringi og skýtur pökknum í markið um leið og hann fellur niður og á markmanninn. Ótrúlegt skot og ótrúlegt mark. Markmaðurinn var hins vegar ekki hrifinn og barði Shannon í hausinn sem var alveg sama, fagnaði bara sínu marki. Ég skil hins vegar ekki af hverju  markmaðurinn fékk ekki áminningu. Það er líka búist við að Chicago muni kvarta þar sem Shannon datt á markmanninn í lokinn. En markið stóð. Og fleiri mörk voru ekki skoruð. Luongo varði skotin tvö frá Chicago sem eftir voru og Linden klikkaði á því að skora, þannig að mark táningsins Shannons varð sigurmark leiksins og stigin tvo voru okkar.

Við Mark löbbuðum út í strætó og hann hélt austur eftir til New West og ég vestur eftir til Point Gray. Við vorum ákaflega hamingjusöm með úrslitin og sammæltumst um að horfa aftur saman á leik.

Hér fyrir neðan má sjá Shannon reyna nákvæmlega eins skot á Marty Turco hjá Dallas Stars í fyrra en þar tókst honum ekki að skora. Sem betur fer gekk betur nú. 
 

 


 


Af hverju væla boltamenn svona?

Mér hefur alltaf fundist það athyglisvert í boltanum hvernig menn eru alltaf að afsaka sig og sína. Þetta gera knattspyrnustjórar iðulega og oft leikmenn sjálfir. Ég sé að ýmsir bera þetta sérstaklega upp á Man Utd. en ég hef nú tekið eftir þessu hjá mjög mörgum knattspyrnustjórum og aðstoðarstjórum og að sjálfsögðu hjá aðdáendum (og ég tek fram að ég er ekki að verja Man Utd. hér. Ég er Arsenal manneskja og  mér er því eðlilega ekki vel við Man Utd. en málið er að Arsenal gerir þetta jafnmikið og United og önnur lið).

Ástæða þess að ég nefni þetta er sú að ég fylgist mikið með hokkíinu í NHL deildinni og þar bara hreinlega heyrir maður ekki svona væl. Liðið mitt var í vikunni með fimm af sex varnarönnum meiddum og liðið var því skipað ungum strákum úr varaliðinu. Við aðdáendur notuðum þetta auðvitað sem afsökun en þjálfari og leikmenn neituðu að gera það. Þegar þeir töpuðu enn einum leiknum bentu þeir einfaldlega á að þeir hefðu ekki spilað eins vel og hitt liðið og ekki langað eins mikið að sigra. Þegar þjálfarinn var spurður að því hvort það væri ekki slæmt fyrir liðið að missa svona marga menn sagði hann bara að maður kæmi í manns stað. Þeir kvarta heldur ekki þegar þeir eru látnir spila fjóra leiki á fimm dögum eins og t.d. núna.

Eina skiptið sem ég hef heyrt þjálfara Canucks kvarta yfir ósanngirni var á tímabili í haust þegar liðið var látið spila sjö leiki á ellefu dögum þar sem fyrst komu tveir útileikir tvo daga í röð í miðvestur ríkjunum, næsta dag var flogið heim til Vancouver og leikinn einn heimaleikur, þeir flugu svo næsta dag til LA spiluðu þar einn leik, fengu einn dag frí, spiluðu svo tvo leiki á tveim dögum í Kaliforníu, og flugu svo til Edmonton og léku þar þriðja leikinn á fjórum dögum. Þannig að á ellefu dögum var aðeins einn dagur þar sem hvorki var leikið né flogið fjögurra til fimm tíma flug.

Og svo væla menn í enska af því að liðið þurfti að leika landsleik stuttu fyrir deildarleik. Iss piss, við hlustum bara ekki á svona. 

Ég hef skrifað um þetta áður, ég veit það, en aldrei er góð vísa of oft kveðin. Knattsyrnumenn og -stjórar ættu að taka hokkíið sér til fyrirmyndar og sætta sig við tap án þess að þurfa að koma með afsakanir. 


mbl.is Landsleikirnir tóku sinn toll
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nágrannaerjur

Það ríkir stríð í húsinu mínu en sem betur fer hefur mér tekist að vera Sviss og halda mig fyrir utan það. Það eru þrjár íbúðir hér. Ég er í risinu, Rita á miðhæðinni og Alison í kjallaranum. Rita hefur stjórn mála því hitastiginu er stjórnað í hennar íbúð og við Alison getum ekkert gert. Það er dýrt að kynda og Rita er annað hvort fátæk eða nísk (en býr þó í langstærstu íbúðinni) þannig að hún heldur hitanum niðri. Verst er að hún lækkar hitann yfir daginn þegar hún er lítið heima þannig að það er ískalt í húsinu sem er verst fyrir mig því ég vinn heima og stundum eru fingurnir loppnir af kulda. Ég keypti mér lítinn rafmagnshitara og suma daga gengur hann allan daginn. Sagt er að hitinn rísi og samkvæmt því ætti að vera hlýjast hjá mér en ég held að gluggarnir og þakið séu ekki mjög þétt því það er alls ekki hlýtt hérna. Stundum fer hitinn niður í fimmtán stig inni í íbúðinni en oft hangir hann í kringum sautján átján. Ég vil hafa tuttugu stig inni hjá mér, að minnsta kosti. Kannski er það Winnipegreynsla mín. Fólk í Winnipeg hefur alltaf hlýtt inni hjá sér því það er svo kalt úti og maður vill geta komið inn úr kuldanum, rifið sig úr köldu fötunum og samt verið hlýtt samstundis.

Þegar ég fæ nóg fer ég niður til Ritu og bið hana að hækka hitann sem hún gerir en þó með smá röfli. Stundum er hún ekki heima og þá verð ég bara að vefja mig í teppi þar til ég næ á henni. En þetta er ekki oft vandamál því þessi litli hitari nær að gera sitt gagn. 

Málið er verra hjá Alison. Í fyrsta lagi er hún í kjallaranum og þar verður að sjálfsögðu kaldara yfir höfuð. í öðru lagi hefur hún bara tvö blásaragöt eins og ég. Rita hefur eitt í hverju herbergi. Hitinn hér er í stokkum þannig að honum er blásið út um göt á gólfinu (hjá mér og Ritu) eða á veggnum (hjá Alison). Hjá Ritu hitast því öll herbergi jafnt en hjá okkur Alison þarf hitinn að dreifast frá þessum tveim ristum og út um afganginn af íbúðinni. Alison er verr sett en við af því að hennar ristar eru í veggnum upp undir lofti og þaðan stígur hitinn upp. Það sem gerir svo málið enn erfiðara er að það er ekki gott á milli hennar og Ritu (veit ekki af hverju) þannig að Rita hundsar vanalega Alison þegar hún biður hana um að hækka hitann. Um síðustu helgi var virkilega kalt úti og Rita hækkaði ekki hitann á húsinu (hann var settur í kringum 18 stig). Hjá Alison var því sirka fimmtán stigi hiti inni svo hún hringdi upp til Ritu og sagði henni að það væri virkilega kalt í íbúðinni. Rita svaraði einfaldlega: Too bad, og skellti á. Að lokum varð Alison að fara upp til Ritu (það er innangengt á milli íbúða þeirra) og hækka hitann sjálf. Rita varð auðvitað fokill og sagði að Alison yrði þá að borga hærri hitareikning. Alison endaði á því að skrifa bréf til húseigendanna (eftir að hafa reynt að hringja) til að kvarta yfir þessu. 

Hún hefur ekki heyrt frá eigendunum en Rita talar ekki við Alison (hvort sem það er vegna síðasta rifrildis eða vegna þess að eigendurnir töluðu við hana) og hefnir sín á Alison með því að sturta niður í klósettinu í hvert sinn sem Alison fer í sturtu. Það þýðir að allt kalda vatnið fer beint í klósettið og Alison fær bara heitt vatn úr sturtunni. Þetta er auðvitað stórhættulegt. Fyrsta árið mitt í Kanada bjó ég einmitt í húsi þar sem þetta kom iðulega fyrir.

Ég hef sem betur fer náð að halda mér fyrir utan þetta enda þarf Rita á mér að halda. Ég skipti um perur fyrir hana og opna fyrir hana dósir og þvíumlíkt. Henni er því vissara að vera ekki með leiðindi við mig. Hún reyndi reyndar að vaða yfir mig fyrst þegar ég flutti inn en ég lét hana vita frá upphafi að ég léti ekki ráðskast með mig þannig að við höfum átt ágætt samband. Ég vona að það haldi áfram því ég nenni ekki að standa í neinum deilum. Ég vona hins vegar að þær hinar nái að sætta ágreininginn því það er ekki gott þegar nágrannar eiga í deilum.


Lasin

Ég er með kvef. Höfuðið er fullt af grænni drullu sem lekur út úr nösunum, fyllir ennisholurnar og veldur höfuðverk og þreytu. Ég er ekki sérlega ánægð með þetta en það er ekki eins og mér hafi komið þetta á óvart. Ég var búin að vera að berjast við veikindi í rúma viku og hélt að ég hefði unnið baráttuna en á miðvikudagskvöldið fékk ég hálsbólgu og hún versnaði á fimmtudag og föstudag. Hún er núna búin að ég lendi alltaf í sama farinu. Fyrst hálsbólga, svo kvef með hnerra sem síðan breytist í hósta. Er búin að hnerra af og til í allan dag þannig að ég verð líklega farin að hósta á morgun.

Sleppti innflutningspartýi hjá Sonju í gær út af þessu og kaffiboði hjá Rosemary í dag. Á morgun á ég svo að spila fótboltaleik en veit ekki hvort ég verð orðin nógu góð til að spila. Annars eru engar líkur á að leikurinn verði spilaður. Það er búið að rigna í allan dag og á að rigna í alla nótt og allan morgundaginn. Það má ekki leika á völlunum þegar svoleiðis stendur á því það eyðileggur grasið.

Ætti hins vegar að vera orðin nógu góð annað kvöld til að fara og hitta Mark vin minn. Hann er frá Winnipeg og er mikill Canucks aðdáandi. Við ætlum því að fara eitthvert á bar og horfa á leikinn með öðrum æstum aðdáendum. Liðið verður hreinlega að vinna á morgun því þeir töpuðu í kvöld og eru að síga aftur úr í baráttunni. Við verðum að ná að vera á meðal átta efstu í vor þegar úrslitakeppnin hefst því annars verður hokkívertíðin stutt í ár. Gallinn er að liðið hefur átt í svo miklum meiðslum að stríða, að þeir hafa aldrei leikið í vetur með alla sex varnarmennina sína. Á tímabili í kvöld voru allir fimm strákarnir á vellinum (fyrir utan markmanninn) strákar úr Manitoba Moose - sem sagt algjört varalið. Þeir eru góðir en skortir alla reynslu og það sást í kvöld. En ég vona að gangi betur gegn Chicago á morgun svo við Mark höfum um eitthvað skemmtilegt að tala. 

Ég verð líka að vera nógu frísk á morgun til að geta unnið vel. Ég þarf að halda fyrirlestur í deildinni á miðvikudaginn og ég verð líka að klára abstract fyrir ráðstefnu fyrir lok vikunnar. Vann aðeins við það í dag en var of máttlaus til að sitja lengi við tölvuna. Núna í kvöld er ég orðin miklu hressari og get setið lengur við og ætti því að vera að vinna núna í stað þess að blogga. En ég þoli ekki að vinna of seint á kvöldin. Á morgun verð ég frískari og þá sest ég við skriftir. Lofa sjálfri mér því.

 


Talarðu ensku?

Ég fann þetta hérna á You Tube. Margt sniðugt þar.

 

 

 Þetta minnir mig á brandara sem ég heyrði þegar ég var í menntó. Tveir gamlir menn sátu á bekk þegar ungur bakpokaferðalangur stoppaði hjá þeim. Hann spurði: Excuse me, but do you speak English? Þeir gömlu litu hvor á annan og síðan aftur á unga manninn og hristu höfuðið. Hann sagði þá: Taler du dansk? Aftur hristu þeir gömlu höfuðið. Sá ungi var ekki af baki dottinn og spurði: Sprachen sie Deutsch? En ekki skildu gömlurnar það. Parlez vous francaise? Nei, ekki gerðu þeir það heldur. Að lokum gafst ungi maðurinn upp og gekk í burtu. Þá leit annar gamli á hinn og sagði: Heldurðu að við hefðum kannski átt að læra eitthvert erlent tungumál? Hinn hristi höfuðið og sagði: Til hvers? Þessi maður kunni fjögur tungumál og ekki hjálpaði það honum!!!


Athyglisverð endurtekning

Það er svolítið fyndið að heyra þessar fréttir um að enska knattspyrnusambandið ætli að láta spila leiki í ensku deildinni utan Englands, og að þær fréttir berist í fjölmiðla áður en talað er við leikmenn og knattspyrnustjóra. Ástæða þess að mér finnst þetta fyndið er sú að það er innan við mánuður síðan nákvæmlega sama staða kom upp í NHL deildinni. Þar hefur verið ákveðið að spila fleiri NHL leiki utan Norður Ameríku og er helst talað um Svíþjóð og Rússland í því samhengi. Þar var farið að alveg eins og hjá þeim ensku því ekkert var rætt við leikmenn eða þjálfara um þetta. Formaður Sambands NHL leikmanna kom þá í fjölmiðlum og kvartaði yfir því að þetta skuli ekki hafa verið rætt við leikmenn áður en þetta var tilkynnt.

Í haust voru reyndar leiknir tveir leikir í London, báðir á milli Stanleybikarshafanna Anaheim Ducks og nágranna þeirra í LA Kings. Þótt þetta heppnast vel en mér skilst þó að leikurinn hafi að mestu farið framhjá Lundúnabúum sem vissu almennt ekki að því að stórleikur í hokkí færi fram í borginni. Reikna má með því að þeir ensku myndu auglýsa þessa leiki betur. 


mbl.is Sir Alex öskuillur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjónninn sem eitraði fyrir mér

Þjónn á alþýðuhúsi (pöbb) fór illa með mig á þriðjudagskvöldið. Julianna var í bænum og við ákváðum að fá okkur kvöldverð saman áður en hún héldi suðreftir til White Rock. Við fórum á pöbb sem kallast Nevermind því það var leikur í gangi og við vildum fylgjast með honum.

Ég ákvað að forðast þetta týpíska pöbbfæði – hamborgara, kjúklingavængi, o.s.frv. – og prófa eitthvað nýtt. Þeir voru þarna með einhvern asískan rétt, eitthvað dæmi grillað á teini og seszhuan baunir í meðlæti. Ég er alltaf hrifin af seszhuan baunum svo ég ákvað að skella mér á þetta. En ég varð samt að hafa allan vara á því ég er með ofnæmi fyrir fiski. Ég verð ekki hættulega veik en mér verður óglatt og stundum verð ég náhvít í andliti ef ég læt þennan þjóðarmat Íslendinga ofan í mig. Svo ég spurði þjóninn hvort þetta væri ekki örugglega kjötréttur. Jújú, hann jánkaði því, svo ég pantaði. 

Maturinn kemur og virðist þetta óþekkta kjöt vera kjúklingur. Vel grillaður á teini á kafi í einhverri sterkri sósu. Bráðnaði í munni. Ég hafði meira að segja orð á því við Juliönnu að ég hefði aldrei áður fengið kjúkling sem væri svona mjúkur undir tönn. Ég var ekki búin að borða mikið af matnum þegar mér fór að líða illa. Svona eins og mér líður þegar ég borða fisk. Ég fór að velta því fyrir mér hvort það væri fiskisósa í réttinum. Það er alltaf sett fiskisósa í Thailenska rétti en yfirleitt ekki í kínverska. En maturinn var góður þótt hann væri vel kryddaður og ég hélt áfram. En mér leið ekki vel. Og þetta lagaðist ekki. Tveimur tímum eftir kvöldmat var mér enn óglatt og ég skyldi það ekki. Vanalega hef ég reyndar hætt að borða mat þegar ég fatta að það eru fiskiafurðir í honum og kannski leið mér óvenju illa þarna af því að ég borðaði allan matinn. En þetta var samt óvenjulegt.  Ég lagaðist þó að lokum og gleymdi þessu.

En í dag var ég að spjalla við Marion og sagði henni þá frá því að ég hefði fengið þennan undarlega mat á Nevermind og ég héldi að það hlyti að hafa verið fiskisósa í þessu. Hún spurði mig hvað ég hefði borðað og ég sagði að það hefði verið kjúklingur í einhverri kryddsósu, maó maó eða eitthvað svoleiðis. "Piri piri?" spurði Marion. "Nei", sagði ég, "pottþétt mai mai eða eitthvað". "Uh, mahi mahi?" spurði hún. "Já, einmitt. Það var það sem það kallast." Marí horfði á mig og sagði: "Það er fiskur. Hawaískur fiskur." Helvítis þjónninn. Ekki furða þótt ég hefði orðið lasin. Hann plataði mig til að borða fisk. Eins gott að ég er ekki með hættulegt ofnæmi. Þá hefðu nú getað orðið vandræði. En þetta bragðaðist ekki eins og fiskur og leit ekki út eins og fiskur og þegar mér var sagt að þetta væri ekki fiskur....þá borðaði ég fjandann. Og þjáðist svo fyrir. Ég er hrædd um að ég muni passa mig á mahi mahi í framtíðinni.  

P.S. Ég athugaði með mahi mahi á Wikipedia og þar stóð þetta m.a.: Mahi-mahi have a chicken-like taste and texture...


Á ferð um Hellisheiði og Þrengsli í vondu veðri - raunasaga

Þegar ég var á fyrsta ári á háskólanum bjó ég með bróður mínum sem þá var sjómaður á einu skipanna frá Þorlákshöfn. Hann var vanur að lána mér bílinn sinn á meðan hann var á sjó og í staðinn keyrði ég hann stundum til Þorlákshafnar eða sótti hann þangað. Eitt þessa skipta var veður óvenju slæmt. Það var búið að snjóa nokkuð mikið og heilmikil blinda. Við höfðum ekki áttað okkur á því hversu slæmt veðrið var í raun fyrr en við vorum komin á Hellisheiðina. Bróðir minn bað mig að keyra ekki til baka þetta kvöld heldur gista í Þorlákshöfn. Sagði að ég gæti ábyggilega fengið að gista hjá móður eins skipsfélaga hans. Tilhugsunin um að fara og gista hjá ókunnugu fólki höfðaði ekki til mín og ég sagði að það yrði ekkert mál fyrir mig að keyra heim. Þetta væri ekki svo slæmt.

Ég skilaði Hauk niður á bryggju og lagði í brekkuna upp Þrenglsin. Ég var á lítilli Toyota Corolla á góðum dekkjum. Aflmikill bíll. Uppáhaldsbíllinn minn af öllum þeim sem ég hef keyrt um ævina. Neðarlega í brekkunni sat bíll fastur en Toyotan hélt áfram upp brekkuna, hægt og silandi. Brekkan var allt of löng til að ætla að taka hana á blússinu. Áfram hélt ég og keyrði framhjá fleiri bílum sem sátu fastir. Það var ekki alltaf auðvelt enda sátu þeir oft fastir á miðri götu, en ég náði að komast fram hjá. Ég fann hvernig dekkin gripu í svellið og varð gripið æ verra sem ofar dró. Ég var orðin skíthrædd um að komast ekki upp, sérstaklega þegar ofar í brekkunni sat enn einn bíllinn fastur. Toyotan var farin að missa kraft og bíllinn rétt mjakaðist áfram - en áfram héldum við - fram hjá fasta bílnum - og allt í einu var ég komin alla leið upp brekkuna. Ég andaði léttar og tók eftir því hvernig axlirnar á mér höfðu verið fastar í sömu stellingu alla leið upp. Ég hélt áfram yfir að Hellisheiðarveginum og reyndi að slaka á. Það versta var búið.

Það snjóaði stöðugt og snjórinn varð þykkari á veginum. Það sást lítið út um gluggann en ég pírði augun og hallaði mér fram til að sjá til þess að ég væri enn á veginum. Ekkert væri verra en að fara útaf núna. Ég var komin vel fram hjá Bláfjallaveginum þegar bíllinn sat fastur. Það var sama hvað ég reyndi, hann færðist ekki fet. Ég beitti öllum akureyskum ráðum en ekkert dugði. Ég hafði ekki tekið eftir því að ég færi út af veginum en ég var viss um að ég hlyti að hafa gert það. Ég gæti ekki verið svona föst á miðjum vegi. Það reyndist þó vera staðan. Snjórinn var hreinlega svo mikill þarna að lítil dekk Toyotunnar náðu ekki upp úr. Eftir stutta stund var bankað á gluggann hjá mér og maður spurði hvort ég væri með skóflu. Nei. Væri ég með kaðal? Nei. Ég fékk skammir fyrir að leggja í heiðina án skóflu og kaðals og tók skömmunum þokkalega vel. Enda hafði maðurinn rétt fyrir sér. Hvað hafði ég verið að hugsa. Sem betur fer hafði hann skóflu og kaðal og eftir stutta stund var búið að moka frá dekkjunum og bílinn dreginn úr versta skaflinum. Landslag þarna hlýtur að hafa verið tilfallið fyrir skaflamyndun því um leið og ég var laus varð vegurinn næstum því auður það sem eftir var leiðarinnar og ég komst átakalaust heim.

Ég minni því alla á að leggja hvorki í Hellisheiðina né Þrengslin án þess að vera á vel útbúnum bíl með skóflu og kaðal og hlý föt að auki. Best er að vera alls ekki á ferðinni þegar veður er slæmt. 


mbl.is Ætla yfir þrátt fyrir lokun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband