Um siðferðisreglur slagsmála

Bræður mínir sem raða sér nú á mismunandi ár á milli fjörutíu og fimmtíu sögðu mér einu sinni frá því að þegar þeir voru unglingar voru slagsmál all algeng, en ákveðnar siðareglur áttu þó við. Í fyrsta lagi var slegist maður á mann. Það er, tveir tóku þátt í slagsmálunum – það kom yfirleitt ekki fyrir að fleiri en einn réðust á sama einstaklinginn. Í öðru lagi var fyrst og fremst slegist með hnefum og liggjandi manneskja var ekki barin, hvað þá að sparkað væri. Þetta átti sér að sjálfsögðu undantekningar en yfirleitt þótti það heigulsháttur að brjóta þessar óskrifuðu reglur. Ég veit ekki betur en að þetta hafi enn verið svo þegar ég var unglingur. Alla vega man ég ekki eftir að hafa séð slagsmál þar sem fleiri en tveir tóku þátt.

Staðan í dag er allt öðruvísi – bæði heima á Íslandi og annars staðar. Ég var í háskóla eða á síðustu árum menntaskóla þegar tvær eða þrjár stelpur réðust á unglingsstúlku og spörkuðu svo í höfuðið á henni að hún hefur aldrei komið til. Ég var orðlaus þá og ég er orðlaus enn í hvert sinn sem ég heyri slíkar fréttir.

Og eitt það hræðilegasta við þessar árásir unglinga á aðra, er það að yfirleitt eru þær tilefnislausar. Hver sem er gæti því lent í þessu. Og þó eru það helst aðrir unglingar sem eru fórnarlömbin. Stelpurnar þarna um árið útskýrðu árás sína þannig að vinkonu þeirra væri illa við umrædda stelpu. Og þess vegna ákváðu þær að berja hana. 

Í morgun las ég frétt í blaðinu um það að fjórir unglingspiltar réðust á fimmtán ára gamlan strák sem gerði það eitt að labba fram hjá þeim á leiðinni heim til vinar síns. Þegar hann vildi ekki slást við þá hellti einn þeirra yfir hann bensíni og kveikti í. Hann er nú á sjúkrahúsi en talið er að hægt sé að bjarga honum.

En árásirnar eru ekki endilega svo alvarlegar. Á hrekkjarvökunni stoppaði strætóbílstjóri (kona) við biðstöð og kastaði sælgæti til unglinganna sem þar biðu (sem ætluðu þó ekki að taka þennan strætisvagn). Þetta voru nokkrar stúlkur og allt í einu réðust þær inn í strætisvagninn, drógu bílstjórann út og börðu. 

Þessi óheillaþróun fór af stað í Kanada heldur fyrr en á Íslandi og frá því 1970 hafa að meðaltali 40-50 unglingar verið ákærðir um morð á hverju ári. 2005 reis sú tala í 72 og 2006 fór hún yfir 80. Enginn veit hvað hægt er að gera í málunum.

Sem betur fer hafa þessar hræðilegu árásir á Íslandi yfirleitt ekki endað með morði en það er lítið betra þegar fórnarlambið er lokað í eigin heimi það sem eftir er ævinnar.  

Flestir unglingar eru yndislegt fólk og ég hef mikið unnið með sextán til nítján ára gömlu fólki. Og finnst það alveg dásamlegt. En einhvern veginn hafa siðferðisreglurnar breyst þannig að skemmdu eplin inn á milli gera hluti sem skemmdu eplunum áður fyrr hefði ekki einu sinni dottið í hug. Ég veit ekki hvort eiturlyfjum er um að kenna eða einhverju öðru. Og nú ætla ég að fara og skrifa ritgerðina mína í stað þess að blogga um eitthvað sem ég get ekkert ráðið við.


Allt á kafi í snjó

Marion hringdi í mig áðan og var að velta því fyrir sér hvort við ættum að hætta okkur út til að klifra. Ég var ekki alveg með á nótunum. Skildi ekki af hverju við ættum ekki að gera það. Hún sagðist vera að velta því fyrir sér hvort strætó gengi yfir höfuð. Mín enn ekki með á nótunum kíkti út um gluggann og sá að það var allt á kafi í snjó. Ég hafði svo sem tekið eftir snjó á húsþökum en hafði ekki litið á göturnar, enda vísa gluggarnir mínir ekki á þá áttina. En flestum skólum var víst lokað vegna ófærðar. Heimasíða strætó segir ekkert um að vagnarnir gangi ekki svo ég geri ráð fyrir að maður komist í klifrið þótt það taki kannski lengri tíma en vanalega. Hins vegar hringdi Marion aftur núna rétt áðan og sagði mér að hún hefði gleymt klifurdótinu hjá foreldrum sínum í Chilliwack. Svo ég mun ráðast ein í snjóinn. Klæði mig bara vel.

Gungan Harper

Þegar ég las fyrirsögnina á þessari frétt "Kanadamenn hóta að draga herlið sitt frá Afganistan" hélt ég rétt sem snöggvast að Stephen Harper væri loksins farinn að átta sig almennilega á stöðu mála, en svo sá ég að hann er bara að hóta að draga herliðið heim ef önnur lönd sendi ekki sín lið inn í Kandahar.

Ég hef búið í Kanada í átta ár og setið í gegnum stjórnir þriggja forsætisráðherra, og hafa þeir farið versnandi með hverjum. Þegar ég flutti hingað sat 'framsóknarmaðurinn' Jean Chretien við stjórnvöldin og þegar maður komst yfir það að hlæja að framburði hans (frankófón með andlitslömun - ekki sniðugt að hlæja að honum en erfitt að gera það ekki) var augljóst að það var heilmikið í hann spunnið. Hann þorði t.d. vel að standa uppi í hárinu á Bandaríkjamönnum.

Þegar hann hætti tók við flokksbróðir hans Paul Martin sem var ekki hálfkvistur á við Chretien. Hann kom mér þó á óvart þegar hann neitaði að senda herlið til Íraks og reitti Bandaríkjamenn til reiði. Þetta varð svo slæmt á tímabili að Kanadamenn lentu í því að bílar þeirra voru rispaðir ef þeir fóru yfir landamærin. Fjöldi Ameríkumanna taldi að Kanada væri óvinveitt þjóð. Ég er ekki að grínast. Það var gerð könnun og ég held að þeir hafi verið nálægt 25% sem héldu að Kanadamenn væru óvinir Bandaríkjanna - bara af því að þeir tóku ekki þátt í innrásinni í Írak.

Paul Martin tapaði svo síðustu kosningum og formaður íhaldsmanna, Stephen Harper tók við. Þótt Martin hafi ekki verið góður þá versnaði ástandið til muna. Harper er enginn leiðtogi og frá upphafi hefur hann kúrað sig í rassgatinu á Bush. Það hefur t.d. verið mikill þrýstingur á hann að draga heim herliðið í Afganistan en hann hefur ekki neitt gert í málum. Þessi hótun er það fyrsta sem hann gerir í þá átt, og þá er hún ekki einu sinni byggð á réttum forsendum. Svei þér Stephen Harper.


mbl.is Kanadamenn hóta að draga herlið sitt frá Afganistan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfselskan í hinni verstu mynd

Alveg er það með ólíkindum hvað sumt fólk getur verið sjálfselskt og sjálfhverft. Það er dálkur í morgunblaðinu mínu þar sem fólk getur leitað ráða hjá sérfræðingi um ýmislegt sem hefur með sambönd að gera, hvort sem er sambönd við elskhuga, maka, börn, systkin, foreldra, o.s.frv. Í blaðinu í morgun var bréf frá manni sem segir frá því að hann hafi hitt stóru ástina í lífi sínu þegar hann var ennþá giftur. Hann skildi við konuna sína og hafnaði ósk hennar um hjónabandsráðgjöf. Vandamál hans núna er það að eiginkonan fyrrverandi neitar að skilja að hún er ekki lengur hluti af fjölskyldunni (hans orð). Sem dæmi um það þá heimsótti hún fyrrverandi tengdamóður sína þegar hún lá á dánarbeðinu (hér datt andlitið af mér), hún fór meira að segja í jarðaförina (skömmin), og hún heldur áfram að gefa systkinabörnum mannsins jólagjafir (þvílík frekja). Og ekki nóg með það, hún tók að sér heils dags vinnu (hvernig vogar hún sér) og ætlast nú til þess að unglingsdóttir þeirra hjóna komi til pabba síns eftir skóla á daginn, í tvo tíma á dag, þar til móðirin kemur heim (frekjukerling, veit ekki að hún á að sjá um börnin en ekki pabbinn). Pabbinn fær börnin tvö í kvöldmat í hverri viku (duglegur) og segir að það sé allt í lagi með þau, svo stelpan þurfi ekkert að koma til hans á hverjum degi. Bendir á að nýja kærastan sé þreytt þegar hún kemur heim á kvöldin og því sé erfitt fyrir hana að standa unglingsveseni.

Aaaaaaaaa, mig langar að garga. Sem betur fer var mannfýlunni bent á að hann væri alveg ótrúlega sjálfselskur og að allt sem eiginkonan fyrrverandi gerði væri eðlilegt en hans skoðun væri það ekki. Ég veit að mig myndi langa að kyrkja þennan mann. Ég vona að exið sjái hversu heppin hún er að losna við hann. 


Um stafsetningu

Margir kvarta undan stafsetningunni okkar og þá kannski helst yfir notkuninni á y, svo og því hvort skrifa eigi eitt n eða tvö. En við getum samt þakkað fyrir að íslensk stafsetning er nokkuð auðveld og þótt maður þurfi að  læra býsna margar reglur þá er samt sem áður hægt að læra þær.

Enskan er öllu verri. Þar þarf maður í raun að læra framburð hvers einasta orðs sem verður á vegi manns því stafsetningin hjálpar í engu (né hjálpar framburðurinn stafsetningunni). Þetta frábæra ljóð sýnir vel hversu geðveik ensk stafsetnng er.

I take it you already know
Of tough and bough and cough and dough?
Others may stumble but not you
On hiccough, thorough, slough and through.
Well done! And now you wish perhaps,
To learn of less familiar traps?

Beware of heard, a dreadful word
That looks like beard and sounds like bird.
And dead, it's said like bed, not bead-
for goodness' sake don't call it 'deed'!
Watch out for meat and great and threat
(they rhyme with suite and straight and debt).

A moth is not a moth in mother,
Nor both in bother, broth, or brother,
And here is not a match for there,
Nor dear and fear for bear and pear,
And then there's doze and rose and lose-
Just look them up- and goose and choose,
And cork and work and card and ward
And font and front and word and sword,
And do and go and thwart and cart-
Come, I've hardly made a start!
A dreadful language? Man alive!
I'd learned to speak it when I was five!
And yet to write it, the more I sigh,
I'll not learn how 'til the day I die.

                                         -TSW

                                                 

Ef þið eruð ekki viss um hvernig á að bera þetta fram þá getið þið heyrt flutninginn hér:

 

 

 


Gamla myndin að þessu sinni - þrír villingar úr Þverholtinu

Það er löngu kominn tími á aðra mynd úr myndasafni mömmu og pabba. Þessi mynd er ein af mínum uppáhaldsmyndum. Þarna eru villingarnir, bræðir mínir þrír, staddir í brekkunni fyrir ofan íþróttavöllinn á Akureyri, sautjánda júní 1965 eða 1966. Frá vinstri má sjá Gunna, Geira og Hauk. Strákarnir auðvitað uppástrílaðir og vel greiddir enda mamma ekki þekkt fyrir annað en að klæða sín börn vel og enginn mátti fara út úr dyrum án þess að vera með vel greitt hárið. Þeir eru nú algjörar dúllur þessir strákar. Synd að það skuli ekki hafa haldist, hehe Wink

 

 

strákarnir á 17 júní

 

 


Einn þessa letidaga þar sem lítið er gert

Stundum verður maður hreinlega að liggja í leti. Í dag gerði ég næstum ekki neitt. Kláraði reyndar bókina sem ég var að lesa en það var ekki skólabók svo ég er ekki viss um að það telji.

Ég sendi reyndar eintak af þriðja kafla ritgerðarinnar til kennara míns, borgaði alla reikninga sem ég hafði ekki borgað og fór út á pósthús að auki. Kom við á útsölu í búð í hverfinu sem er að loka. Fékk þessar rosalega fínu buxur á $25 í stað $70 dollara. Góður afsláttur. Og buxurnar, sem eru svona venjulegar svartar fínar buxur, pössuðu ótrúlega vel. Það var ákaflega ánægjulegt því ég á erfitt með að fá sparibuxur sem passa mér. Það virðist alltaf gert ráð fyrir því að allar konur séu grannar í mitti með breiðar mjaðmir, og ef maður er ekki svoleiðis þá er lítið hægt að gera. Flestar buxur eru eins og pokar utan á mér.

Þegar ég kom heim horfði ég svolítið á hæfniskeppnina í hokkíinu. Nú er svokölluð stjörnuvika því á morgun mun vestrið leika gegn austrinu. Það þýðir að bestu leikmenn allra liða spila hver gegn öðrum. Þarna eru vissulega samankomnar flestar stjórstjörnurnar og leikurinn á morgun ætti að vera athyglisverður. Við munum reyndar ekki sjá bestu markverðina því Luongo frá Canucks og Brodeur frá New Jersey Devils komust ekki. Í dag léku ungu strákarnir, nýliðarnir í deildinni, og vann austrið með yfirburðum. Við verðum því að hefna þess með því að vinna aðal  leikinn á morgun.

Áðan horfði ég á DVD spóluna mína Little Miss Sunshine. Þessi mynd er alveg dásamleg og jafn góð í annað sinn og hún var við fyrsta áhorf. Ég sá aðra frábæra mynd áðan sem ég sá í gegnum PayPerView (nema hún var ókeypis). Þetta var norsk/kanadíska teiknimyndin Danska ljóðskáldið. Myndin er ekki nema fimmtán mínútur en það eru yndislegar fimmtán mínútur. Ég mæli með því að þið horfið öll á þessa litlu mynd.

Nú langar mig í popp og kók. Ég held ég láti það eftir mér. 


Síðast

Ég fór á tónleikana þegar þeir voru haldnir í háskólabíói. Það hlýtur að hafa verið fyrir tíu eða fimmtán árum. Þá var verið að fagna tuttugu og fimm eða þrjátíu ára afmæli plötunnar.

Ég man að ég var ekkert sérlega spennt fyrir tónleikunum. Mér finnst Bítlarnir frábærir og Sgt. Peppters er náttúrulega snilld, en ég hef aldrei verið sérlega hrifin af því að hlusta á aðra flytja verk Bítlanna. Aðallega af því að enginn getur gert það eins vel. Eina Bítlalagið sem hefur verið flutt betur af einhverjum öðrum en Bítlunum er With a little help from my friend í útgáfu Joe Cockers.

En það voru sögusagnir fyrir tónleikana um það að eftirlifandi Bítlar yrðu þarna allir, og tilhugsunin um að sjá Paul var öðru yfirsterkari. Svo ég keypti miða og fór.

Auðvitað voru engir Bítlar þar, veit ekki einu sinni hvort þeir höfðu íhugað að koma, eða hvort þeim var boðið, en tónleikarnir reyndust alveg magnaðir samt sem áður. Lögin voru almennt vel flutt og enginn reyndi að gera eitthvað ógurlega sérstakt. Almennt voru tónlistarmennirnir þokkalega trúir upphaflega útgáfunum sem oftast er langbest. Ég man að einn af hápunktunum var þegar lagið Within you withoutyou var flutt - sem er svolítið skrítið því mér hefur alltaf þótt það langleiðinlegasta lagið á plötunni. En það var bara svo flott að sjá liðið sitja á gólfinu með allar græjur, meira að segja sítarinn sjálfan, og skapa þessi ógurlegu hljóð sem koma þarna í byrjun lagsins. Mér hefur aldrei fundist þetta eins flott og þegar ég sá þá spila.

Ég man hins vegar hversu hissa ég var þegar þeir voru klappaðir upp í lokin. Ég meina, tónlistarmennirnir höfðu nýlokið við að flytja A day in the life og þeir náðu meira að segja þessum tvöfalda píanótóni í lokin og platan var búin. Hvernig gátu þeir farið aftur upp á svið og spilað eitthvað annað. Það væri eins og að syngja eitthvert lag í messu á eftir Heims um ból. Hreinlega óhugsandi. Enda voru tónlistarmennirnir sammála mér og létu ekki eftir áheyrendum að spila fleiri lög. Flott hjá þeim. En það var þó gott að fólki líkuðu tónleikarnir.

Ég er viss um að þessir tónleikar verða líka flottir og mæli með að fólk fari á þá. 


mbl.is Bítlalög í Höllinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stína hin unga

Ég fór í partý í kvöld heima hjá Hotze, umsjónarkennara mínum. Partýið var haldið til heiðurs Angeliku Kratzer sem er þekktur merkingarfræðingur. Hún hélt fyrirlestur hér í dag. Í partýinu hitti ég Stefan en hann er austurrískur málfræðingur sem kennir hér við enskudeild. Við komumst að  þeirri niðurstöðu að við hittumst að meðaltali einu sinni á ári. Það er ekki mjög mikið þar sem við erum við sama skóla. Hann tók með sér meðleigjendur sína tvo, Ken frá Svíþjóð (Málmey nánar tiltekið - hann þekkir konu sem sér um fjármálin fyrir Henning Mankell) og Jack frá Ástralíu. Það kom í ljós að þeir félagar eru báðir fæddir á ári apans svo ég hafði orð á því að ég væri fædd á ári hanans. Þeir fóru að ræða hversu gömul ég væri þá og Ken hélt ég væri fædd 1977. Jack sagði að ég hlyti að vera fædd síðar því merkin kæmu á tólf ára fresti og ég hlyti því að vera fædd 1981. Ég hló við og þakkaði þeim innilega fyrir hólið. Það er ekki amalegt þegar ungir menn halda að maður sé um eða undir þrítugu. Þegar þeir föttuðu að ég væri ekki fædd 1981, eða 1977, sagði Jack að ég hlyti þá að vera fædd 1969, sem er rétt. En þeir ítrekuðu að ég liti samt út fyrir að vera undir þrítugu svo mér þykir voðalega vænt um þá núna. Þótt ég sé almennt ekkert viðkvæm fyrir aldrinum þá er nú samt gott þegar karlmenn skafa af manni tíu ár.

Og sólin skín sem aldrei fyrr

Veðrið í Vancouver hefur verið dásamlegt alla vikuna - sól og blíða en hrollkalt (þegar maður er kominn úr æfingu - í raun hangir þetta aðeins neðan við frostmark). Skemmtileg tilbreyting frá grámanum og rigningunni sem maður er vanur. En samt er búið að fresta fótboltaleiknum sem ég átti að spila á morgun. Ég veit ekki hvort það er vegna þess að það er spáð slyddu eða vegna þess að jörðin í Delta er frosin (Delta er hér suður af Vancouver, alveg niðri við landamæri). Það verður hugsanlega hægt að finna nýjan völl sem höndlar frost og snjó betur en mér þykir það ekki líklegt. Alla vega ekki ef snjóar. Það er ekki talið leikandi á völlum þegar maður sér ekki línurnar. Ætli ég verði ekki að hreyfa mig á einhvern annan hátt.

Ég sit núna á háskólabókasafninu og reyni að læra. Það gengur þolanlega en mætti þó ganga betur. Ég held að það sé af því að ég er orðin of svöng. Ætli ég rölti ekki út í SUB (nemendabyggingu) og fái mér eitthvað í gogginn. Það eru tæpir tveir tímar þar til ég þarf á fyrirlestur. Angelika Kratzer, frægur merkingarfræðingur, er hér í heimsókn og ætlar að að tala um það sem hún er að vinna að. Það ætti að vera áhugavert. 

Í morgun kenndi ég tvo tíma í inngangi að málfræði. Annar hópurinn hefur tuttugu manns og hinn átta. Svolítið ójafnt. Það skrítna er að meðal þessa átta er aðeins einn nemandi sem hefur ekki ensku að móðurmáli en í stóra hópnum eru aðeins sex af tuttugu með ensku að móðurmáli. Skrítin skipting. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband