Teitur Þórðar til Vancouver!

Ég var að lesa það í blaðinu mínu að Teitur Þórðarson verði næsti þjálfari Vancouver Whitecaps, sem spilar í næst-efstu deildinni í Norður Ameríku. Það er vonandi að Teitur nái að lyft Whitecaps í þær hæðir sem þeir voru í fyrir einum tuttugu árum þegar knattspyrnan var á toppnum hér í Vancouver og Swangard leikvangurinn var þéttsetinn á hverjum leik.

Velkominn til hinnar fögru Bresku Kólumbíu Teitur!


Stína fúla

Ég er í hálffúlu skapi í kvöld. Hér eru nokkrar ástæðnanna fyrir því.

  • Í kvöld töpuðu Canucks fyrir Kings sem eru í neðsta sæti deildarinnar.
  • Ég fékk ekki tölvupóst sem ég hélt ég myndi fá í dag.
  • Ég hef ekki komist til að klifra í heila viku (það var verið að færa klifursalinn í nýtt húsnæði) og óvíst hvenær ég kemst næst.
  • Ég er búin að missa einbeitinguna í hollustunni (er farin að borða óhollar og dett í snakk á kvöldin - er hrædd um að ég muni bæta aftur á mig).
  • Hef ekki þorað út að hlaupa í langan tíma því það er búið að vera kalt og ég er enn með vott af kvefi.
  • Finn ekkert ódýrt fargjald til Íslands um jólin og mun því líklega enn á ný eyða þeim fjarri fölskyldunni. Það er í fjórða skiptið á síðastliðnum fimm árum.
  • Langar að baka smákökur en er hrædd um að ég muni detta í þær sjálf og ná á mig öllum 16 pundunum sem ég missti.
  • Langar oftar á skauta en fæ engan með mér. Get ekki gert allt ein.
  • Langar í rómantík en gengur ekkert.
  • Er orðin endanlega þreytt á almenningssamgöngum eftir að hafa staðið í heilan klukkutíma í kuldanum á laugardagskvöldið (á milli eitt og tvö um nóttina) eftir fótboltann, bíðandi eftir strætó.
  • Er fúl yfir að þurfa að borga fimm þúsund krónur fyrir rafmagn og hita og samt vera kalt heima hjá mér.
  • Finnst að ég eigi að fá að hitta Alain Vigneault en er nú búin að búa í sömu borg í rúmt ár án þess að rekast á hann.
Ég ætla að fara að sofa. Kannski verður morgundagurinn bjartari.

I'd like to teach the world to sing...

Er eitthvað sem kemur manni betur í jólaskap en þetta?

 


Jólalög - hvað finnst ykkur?

Ég er farin að hlusta á jólalög.

Uppáhalds jólalagið mitt er alltaf O holy night (Ó helga nótt) og í gær hlóð ég niður nokkuð mörgum upptökum af því og bar saman. Sumum henti ég út strax, eins og útgáfunum með Destiny's child (gat ekki einu sinni hlustað á byrjunina), Rebu McIntyre (of mikið kántrí) og Sufjan Stevens (veit ekki einu sinni hvað það var).

Þá voru eftir þrjár útgáfur, Amy Grant, Il Divo og Josh Grobin. Il Divo útgáfuna vantar alla sál. Raddirnar eru fallegar en mér fannst svolítið eins og þarna væru vélmenni að syngja. Útgáfan með Josh Grobin er mun betri en þó finnst mér sú útgáfa ekki alveg nógu sterk. Til dæmis þegar hann syngur 'o night divine' í síðara skiptið þá fer hann ekki hátt upp. Kannski er það bara af því að ég er vön því að söngurinn fari upp þar sem ég er ekki nógu ánægð með þetta, en aðallega vegna þess að ég fæ vanalega gæsahúð á þessum stað í laginu þegar vel er gert! Góð útgáfa en ekki alveg eins góð og ég vildi hafa hana. Hrifnust er ég af útgáfu Amy Grant. Vel sungið og mikil tilfinning í  laginu.

Ég hlustaði ekki einu sinni á útgáfur N'Sync99 Degrees og fleiri sem mátti finna á netinu. Hafði einhvern tímann heyrt þær áður og ekki líkað. En það eru ábyggilega til fjölmargar aðrar útgáfur. Hvað finnst ykkur besta útgáfan af þessu lagi?

Annars hef ég aldrei heyrt þetta lag eins vel sungið eins og þegar Óskar Pétursson söng það með Karlakór Akureyrar fyrir nokkrum árum. 

Það er annars skrítið hvað hefur áhrif á okkur. Mér finnst t.d. að það eigi alltaf að enda jólasöng á Heims um ból, það lag má aldrei koma fyrr í dagskránni (þoli ekki þegar það er sett inn í miðja geisladiska). í Norður Ameríka er oft endað á White Christmas, sem er ágætist lag (sérstaklega með Bing Crosby) en mér finnst það algjört nónó að setja það á eftir Heims um ból.

Ég er hrifin af lögum eins og Away in a manger og It came upon a midnight clear sem bæði eru undurfalleg en virðast ekki hafa náð vinsældum á Íslandi (eða er það rangt hjá mér?). Og ég mun alltaf elska Last Christmas, kannski af því að ég var á réttum aldri þegar Wham var upp á sitt besta. 

Af íslenskum jólalögum fer mest fyrir laginu Þú komst með jólin til mín með þeim Björgvini Halldórssyni og Rut Reginalds. Ég hef ekki hugmynd af hverju. Kannski af því að ég er svo sammála textanum. Jólin eru bara svo miklu betri þegar maður deildir þeim með fólki sem maður elskar. Og þá sérstaklega þegar maður er ástfanginn. Ég er líka undarlega hrifin af laginu Þú og ég með Höllu Margréti og Eiríki Haukssyni. Nú er ég að hlusta á Guðs kristni í heimi með frænda mínum heitnum Vilhjálmi Vilhjálmssyni. Villi var án efa með eina fallegustu rödd allra íslenskra tónlistarmanna. Platan hans og Ellýjar er líka alltaf skemmtileg.

Annars er eitt fallegasta jólalag sem ég hef heyrt finnska lagið Sylvia's Christmas song (Sylvian joululaulu). Við sungum þetta í Skandinavíukórnum í Winnipeg fyrir nokkrum árum. Þetta var uppáhaldslag Yrju, gamallar finnskrar konu sem söng með okkur. Í hvert sinn sem við sungum lagið á æfingu sagði Yrja alltaf: It's so beautiful. Annað eða þriðja árið sem ég söng með kórnum veiktist Yrja af krabbameini. Allur kórinn heimsótti hana á sjúkrahúsið þegar hún lá banaleguna. Við sungum m.a. þetta lag og allur hópurinn grét. Ég veit ekki hvernig við komumst í gegnum lagið - sjálf kom ég varla upp hljóði fyrir ekka. Það var í síðasta sinn sem við sáum hana. Hún dó nokkrum dögum síðar. Fyrir nokkrum árum spurði ég finnska konu um þetta lag og hún sagði mér að þetta væri líklega vinsælasta finnska jólalagið. Kannski er lagið mér svo kært því þarna er verið að hugsa til jóla bernskuáranna, jólanna í heimalandinu þegar maður sjálfur býr annars staðar. Ég set inn enska textann og svo Youtube útgáfur með Elli Vallinoja (sem þó er aðeins af hröð fyrir minn smekk) og Antony Parviainen (sem er svolítið þungarokksleg en að sumu leyti flottari).

 

Sylvia´s Christmas song

Now Christmas did come to the north country here;
Christmas came to the snow covered strand.
Now candles are burning and shedding good cheer
Across all the broad, far flung land.
But hanging on high from the cross beam above,
A bird cage now holds captive my pretty dove,
Which, pining away, makes no sound, high or low;
Oh, who will take heed of the prisoner´s woe?

Oh, star, glowing bright, may your light shine on high,
O´er the northland´s remote wintry scene.
And then, when your radiance fades in the sky,
Your mem´ry will linger in dreams.
So dear none can I ever anywhere find
As my native country, the land of my kind!
And thanks do I offer with Sylvia´s song,
Resounding forever so splendid and strong.

(Transl. by Paul Sjöblom, © WSOY)


 

 
 

Ástin

Stjörnuspáin (sem reyndar er enn og aftur heilræði fremur en spá) fyrir meyjuna er svo falleg í dag að ég varð endilega að setja hana inn hér svo enginn missi af henni:

Ástin gefur af sér lífið, gefur því pláss til að anda og dansgólf. Finndu ástæður til að elska, jafnvel þótt hjartað hafi brostið nokkrum sinnum.


Starbucks klikkar ekki

Ég hef átt erfitt með að festa mig við lærdóminn upp á síðkastið. Þar að hluta til vegna þess að ég hef þurft að standa í alls konar snatti - kaupa jólagjafir, koma þeim heim (það kostaði mig 5000 krónur að senda smá pakka heim - hafði sem betur fer komið sumu á Gunnar sem þurfti að skjótast heim um daginn), sinna bankamálum, sækjum um nýtt SIN númer (social insurance number - nokkurs konar kennitala - þurfti nýtt út af breyttri stöðu í landinu), o.s.frv. Aðalástæðan var samt ábyggilega bara sú að ég átti erfitt með að einbeita mér og lenti alltaf í því að lesa bara fréttir eða blogga eða eitthvað.

Ég hafði þrisvar sinnum á undanförnum tveim vikum reynt að fara á Starbucks að læra því veit að þar á ég auðveldara með að einbeita mér, en þar var alltaf fullt þegar ég kom svo ég endaði á að fara á önnur kaffihús, en endist bara aldrei eins lengi þar. Held það sé af því að kaffið er ekki eins gott. Í dag fannst mér ég hreinlega verða að komast inn á Starbucks svo ég þráaðist við þegar ég mætti á staðinn og sá allt fullt. Pantaði mér kaffi og ákvað að troða mér bara hjá einhverjum ef á þyrfti að halda. Akkúrat þegar kaffið kom losnaði uppáhaldssætið mitt svo ég skellti mér niður, tók upp tölvuna og fór að skrifa. Ég hafði pantaði mér piparköku latté (gingerbread latté) með dásamlegu kryddbragði og af því að ég borðaði rautt kjöt í gær var maginn nú fullur af járni og koffíni. Akkúrat það sem ég þarf til þess að komast af stað (ég er búin að vera í heilsuátaki í tvo mánuði og borðaði sama og ekkert kjöt á þeim tíma - var fyrir vikið allt of þreytt. Rosemary vinkona mín er fyrrum hjúkka og hún skipaði mér að fá mér rautt kjöt af og til. Annars borða ég mikið spínat - það virðist bara ekki duga).

En sem sagt, dagurinn hefur verið mjög góður það sem af er og ég skrifaði næstum því stanslaust í fjóra klukkutíma (sem er mikið þegar maður er að vinna að svona verkefni), náði að útskýra hluti sem ég þurfti að útskýra betur, breytti röð á ýmsu og bætti svo við texta. Kaflinn fór úr 20 síðum í 26. Myndi segja að ég væri þá sirka hálfnuð  með hann.

Um eitt leytið var ég orðin svöng svo ég fékk mér samloku og hélt áfram að læra. Stuttu síðar fóru barristurnar á staðnum að bjóða upp á alls konar smakk. Þær komu með eggnog latté (mæli ekki með því - maður á bara að drekka eggnog eitt og sér), tertubita (sem var góður) og piparmyntu mokka úr hvítu súkkulaði (sem var hrikalega gott). Ég fór ekki heim fyrr en batteríið var hér um bil búið í tölvunni (hafði ekki sæti nálægt innstungu).

Ég ætla að reyna að vinna aðeins meira í dag en jafnvel þótt það klikki þá er ég ánægð.

P.S. Og Canucks unnu síðustu tvo leiki og eru nú einir í fyrsta sæti í norðvestur riðlinum (en Minnesota á einn leik til góða og getur jafnað aftur) og í öðru sæti í vesturdeildinni. Bara Detroit hefur staðið sig betur (og Detroit ætti náttúrulega að vera í austurdeildinni - ég meina, hafið þið sér hvar Michigan er á landakorti?)


Að hittast eða að hittast ekki

Það sem ég vil helst fá að vita er hvers vegna Íslendingar eru allt í einu farnir að 'hittast'? Ég tók eftir þessu þegar ég var heima um jólin í fyrra og leit í slúðursíður blaðanna - þar voru hinir og þessir farnir að 'hittast'. Fólk virðist ekki vera saman lengur. Ég skil ekki af hverju þessi notkun þykir allt í einu nauðsynleg. Íslendingar hafa átt í ástarsamböndum í rúm þúsund ár og höfum við haft ágætis orð fyrir það. Nú þarf allt í einu að fara að nota orð sem þýða í raun allt annað. Ég hitti vini mína t.d. oft, bæði karla og konur, og vil helst ekki að það sé skilið þannig að ég sé að 'hitta' allt þetta lið.

Kannski er hér verið að reyna að koma með eitthvað svipað og það sem í enskunni kallast 'to date', að deita, en það er nú svo óskilgreint hugtak líka að það er engin ástæða til að reyna að komast því á. Fyrir tveim árum fór ég t.d. á tvö stefnumót með manni áður en okkur var báðum ljóst að þarna var engin framtíð, en ég komst að því síðar að við hefðum 'deitað'. Það sagði hann. Ég hélt við hefðum bara farið tvisvar í kaffi. Sama orðatiltæki var notað af fyrrverandi kærasta mínum þegar við vorum búin að vera saman í sex mánuði. Mér fannst ástæða til þess að halda þessu aðskildu og nota eitt orð um það ef maður fer á örfá stefnumót og annað ef maður er kominn í samband, þótt það sé kannski ekki orðið mjög alvarlegt ennþá. 

Þetta með hittinginn virðist svipað. Ég tók einmitt eftir því í blöðunum þarna um jólin að fólk virtist vera að hittast ef sést hafði til þeirra tvisvar á veitingastað, og það virtist vera að hittast ef það var búið að vera saman í tvo mánuði. Ekki það sama að mínu mati. Og almennt ljótt að nota þetta orð á þennan hátt. Minnir mig á þegar mamma spurði mig einu sinni hvort ákveðin stelpa 'ætti vin'. Ég vissi vel að hún meinti hvort hún ætti kærasta, en ég ákvað að þykjast ekki skilja því ég sá enga ástæðu til þess að tala ekki beint út. Held ég hafi sagt mömmu að hún ætti fullt af vinum, en engan kærasta. 

Og ef þetta fólk í fréttinni var áður saman og er nú byrjað saman að nýju, af hverju segir gaurinn að þau séu farin að hittast aftur?  

Ég tek það fram að þótt ég hafi bara tekið eftir þessari hittings-notkun í fyrra þá getur auðvitað vel verið að þessi hún hafi verið orðin algeng löngu áður; en þegar ég flutti frá Íslandi 1999 þá man ég ekki eftir að hafa heyrt þetta. 

Og almennt nenni ég ekki að æsa mig yfir þróun tungumálsins, en mér leiðist svona málbreytingar alveg ógurlega. 


mbl.is Fyrrum herra Ísland endurheimtir ástina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki gott fyrir heilsu mína

Úff, ég ældi pínulítið upp í mig Sick

Þið verðið að fyrirgefa mér en ég fæ bara alltaf æluna upp í kok þegar ég heyri minnst á Beckham eða hans músarlegu frú. Þau voru einmitt hér í Vancouver tvisvar í síðasta mánuði - fyrst þegar hann spilaði með LA Galaxy gegn Vancouver Whitecaps í, að mér skilst, ömurlegum leik, og síðan þegar frúin reyndi að syngja með kryddsystrum. Ég fór á hvorugan atburðinn og hefði líklega þurft að borga mér fyrir það. Og ef ég hefði farið, hefði ég líklega haft með mér magn af Pepto Bismol! 


mbl.is Beckham tilbúinn til að vera „andlit Englands" 2018
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um smákökur

Á íslenska kökubasarnum um síðustu helgi keypti ég poka af kleinum. Borðaði fjórar þeirra í dag og þær voru nokkuð góðar, en samt ekki eins góðar og mömmu kleinur. Mömmu kleinur eru einfaldlega bestar. Það fær mig til þess að hugsa um jólasmákökurnar sem ég ólst upp við. Mér fannst alltaf Þingeyingar og Gyðingakökur bestar (þvílík nöfn!) en ég man að Jón Ingvi vinur minn elskaði sykurkökurnar. Ég var ekki eins hrifin af þeim. Og ég var aldrei hrifin af vanillukrönsum sem eru  mjög vinsælar hér og kallast 'shortbread cookies'. Og svo voru það smjördeigskökur með súkkulaðispæni í þeim. Ég man ekkert hvað þær hétu en þær voru uppáhaldið mitt á tímabili. Ég hef stundum bakað þær sjálf eftir að ég fékk uppskriftina hjá mömmu. Man ekki heldur hvað hétu smjördeigskökurnar sem voru með súkkulaðidropa ofan á. Mér fannst súkkulaðidropinn alltaf bestur og átti það til að éta hann ofan af.

Sjálf baka ég alltaf Sörur og yfirleitt sirka tvær sortir í viðbót. Það breytist ár frá ári hverjar hinar sortirnar eru. Stundum baka ég marenstoppa með dökkum súkkulaðispæni - þeir eru mjög góðir. Ég er ekki búin að ákveða hvað ég baka í ár! 

En það er alls ekki hollt að fara að hugsa um smákökur rétt fyrir svefninn. Mig gæti dreymt sætabrauð og kannski fer ég í matarleit um miðja nótt. Reyndar á ég engin sætindi - bara kleinurnar - þannig að það eru ekki miklar líkur á að ég leggist í sælgætisát. Nema ég borði það sem eftir er í Nutella krukkunni!!! 


Um dauðarefsingar og framsal fanga á dauðadeild

Dauðarefsing er ekki lögleg í Kanada og er engin umræða um að breyta því. Hins vegar hefur ein breyting verið gerð sem tengist dauðarefsingum. Hingað til hafa kanadísk stjórnvöld gert allt sem í þeirra valdi er til þess að fá heim kanadíska fanga sem sitja á dauðadeildum annarra landa. Þetta kostar auðvitað alveg óhugnanlegan pening en hefur þótt réttlætanlegt þar sem þeir hafa ekki viljað sætta sig við það að kanadískir ríkisborgarar verði teknir af lífi af stjórnvöldum annarra landa.

Nú hefur lögunum hins vegar verið breytt þannig að ekki verði farið fram á að fá fanga heim frá lýðræðislöndum þar sem sannað þykir að fanginn hafi fengið sanngjörn réttarhöld. Það þýðir t.d. að ekki er beðið um heimsendingu fanga frá Bandaríkjunum, þar sem dauðarefsing ríkir í fjölmörgum fylkjum. Reyndar segja þeir að þetta sé ekki undantekningarlaust og að hvert mál verði skoðað fyrir sig. Þykir hins vegar ljóst að fjöldamorðingjar munu fá að taka út sína refsingu. 

Þetta er mjög umdeild ákvörðun hér í landi og berjast ákveðnir hópar við að fá þessa breytingu tekna til baka.

Sjálf er ég ekki viss um það hvað mér finnst. Ég er á móti dauðarefsingum en mér finnst ekki endilega sjálfsagt að Kanada standi í því að fá heim kanadíska glæpamenn sem hafa brotið af sér erlendis. Það kostar mikinn pening og þann pening mætti nota í að bæta réttarkerfið heimafyrir. Mér finnst líka að ef þú brýtur lög í ríki eða landi þar sem dauðarefsing ríkir þá eigir þú ekki endilega rétt á því að heimaland þitt standi að baki þér. En af því að ég er á móti dauðarefsingum almennt þá finnst mér líka að ríki eigi að reyna allt sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir að fólk sé tekið af lífi. Kannski les ég eitthvað eða heyri eitthvað sem hjálpar mér að taka afstöðu, en eins og er veit ég ekki hvað ég á að halda.

Það er annað mál í réttarkerfinu sem fær mig til að hugsa. Nú er ljúka réttarhöldum yfir svínabóndanum Robert Picton sem er sakaður um að hafa drepið 26 konur hér nálægt Vancouver. Kviðdómur er að störfum. Að þessu sinni var Picton aðeins ásakaður um morð á sex þessa kvenna en aðstandendum hinna 20 hefur alltaf verið lofað öðru réttarhaldi. Nú hefur þetta réttarhald hins vegar staðið yfir í heilt ár og hefur kostað skattgreiðendur marga milljarða. Það er því spurning um það hvort það borgi sig að saksækja Picton fyrir morðin sem eftir eru - þ.e. ef hann fær lífstíðardóm fyrir þessi fyrstu sex. Aðstandendum kvennanna finnst hins vegar að þeirra konur fái ekki réttlæti ef hann er ekki saksóttur fyrir öll morðin. Ég veit það ekki. Ef hann er á bak við lás og slá það sem eftir er ævinnar, er það ekki réttlæti fyrir allar konurnar...sama hverjar þeirra voru tilteknar í dómnum? Ég skil aðstandendurna en ég skil líka stjórnvöld. Það mætti taka þessa peninga og bæta hag þeirra kvenna sem búa í austurhluta miðborgarinnar, en öll fórnarlömb Pictons voru gleðikonur úr því hverfi.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband