Fastir bílar, árekstrar og gönguskíði
3.12.2007 | 06:04
Dagurinn í dag var skemmtilegur. Það snjóaði og snjóaði og flyksurnar voru stórar og fallegar og féllu nokkurn veginn beint niður - akkúrat svona snjór eins og ég vil alltaf fá á Þorláksmessu. Þá vil ég líka fara niður í bæ á Akureyri og kaupa síðustu jólagjöfina og fara svo inn á kaffihús og fá mér heitt súkkulaði. Eftir langan á notalegan morgunverð þar sem ég las sunnudagsblaðið upp til agna, fór ég í snjóbuxur og gróf gönguskíðin mín út úr geymslunni. Ég hef ekki farið á gönguskíði síðan ég bjó í Winnipeg því hér þarf maður upp í fjöllin til að fara á gönguskíði og þá vil ég heldur fara á venjulega skíði eða snjóbretti.
Ég labbaði upp sjöundu götu og út á tún sem er þar fyrir ofan. Þar setti ég á mig skíðin og gekk í nokkra hringi á túninu. Fékk leið á því og labbaði því meðfram skóginum. Þar var ákaflega fallegt en ekki þýddi að fara inn í skóginn því þar snjóaði ekki nóg og ég hefði eyðilagt skíðin. Þegar ég kom til baka mokaði ég stéttina og tröppurnar og greip svo myndavélina og fór út að festa dýrðina á starfrænt kort (ekki lengur filmu).
Ég þurfti ekki að labba nema 30 metra til að lenda í spennu. Kínverskur karl stóð fyrir utan bílinn sinn sem lá á ská á götunni. Ég fór til að bjóða fram hjálp mína og komst að því að hann hafði runnið í hálkunni á kyrrstæðan bíl í götunni. Þar varð hann fastur og komst ekki spönn. Ég reyndi að hjálpa við að losa bílinn en ekkert gert. Ég stakk upp á ýmsum aðferðum til þess að losa bílinn en asninn brosti bara og kinkaði kolli og gerði svo ekki rassgat. Ég er viss um að hann skyldi ekkert hvað ég var að segja en var of stoltur til að viðurkenna það. Hann virtist heldur ekkert ætla að gera til að finna eiganda bílsins sem hann keyrði á svo ég hálfpartinn rak hann til þess að fara og banka á dyrnar á nálægasta húsi. Og svo beið ég til þess að tryggja að hann gerði það. Ekki þar fyrir að hann hefði ekki getað stungið af. Var alveg fastur.
Þegar ég loks sneri mér við sá ég annan bíl sem var að keyra upp Sasamat og stoppaði í hálkunni úti á miðri götu. Ég fór líka þangað til að ýta bílnum. Það gekk betur. Hér má sjá nokkrar myndir frá því í dag.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Snjórinn mættur á svæðið
1.12.2007 | 16:37
Ég leit út um gluggann nú rétt áðan og það er allt að verða hvítt. Hér snjóar ekki oft en þegar það gerist fer allt í köku því enginn er með vetrartekk og borgin er mjög hæðótt. Ég er að fara á íslenskan kökubasar í New Westminster núna eftir hálftíma og spurningin er hvernig drekinn Andreu og Halls lætur í hálku.
Ég á að spila fótboltaleik á morgun og í eina skiptið sem það hefur komið fyrir áður að snjór var á jörðu þegar ég átti að spila var leiknum frestað. Það var fyrir tveim árum og ég man að strákur hafði boðið mér á hokkíleik þann dag en ég hafði sagt nei því ég vildi spila minn fótboltaleik. Svo var leiknum frestað og strákurinn var búin að gefa vini sínum miðann. Þannig að ég fékk hvorki að spila fótbolta né horfa á hokkí. Ég ákvað þá að ef ég kæmist ókeypis á hokkí þá myndi ég ekki láta fótboltann sitja fyrir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Frost í Vancouver
30.11.2007 | 15:59
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Stórkostlegur leikur
30.11.2007 | 07:40
Í kvöld fór ég á leik Vancouver gegn Columbus og fékk að launum stórkostlegan leik og varð vitni að því þegar Roberto Luongo sló 32 ára liðsmet með því að halda markinu hreinu þrjá leiki í röð. Hann sló reyndar metið þegar enn voru tíu mínútur eftir af leiknum því að halda markinu hreinu í fleiri mínútur en áður hafði gerst, en það var enn sætara þegar klukkan hafði talið niður og netið var autt þriðja leikinn í röð. Þegar ein mínúta var eftir af leiktíma stóðu allir upp í höllinni og liðið sönglaði 'Bobby Lou Bobby Lou' þar til leikurinn kláraðist og þá varð allt vitlaust. Eftir að leikmenn höfðu óskað markmanni sínum til hamingju og voru komnir inn í klefa voru þrjár stjörnur leiksins kallaðar fram. Síðastur kom Luongo og allt varð vitlaust á ný. Hann var síðan tekinn í viðtal sem var sjónvarpað á stóra skjánum og ég held að ég hafi ekki heyrt neitt af því vegna þess að áhorfendur fögnuðu stanslaus þar til Luongo var farinn af svellinu, og töluvert eftir það.
Þetta var almennt séð mjög skemmtilegur leikur. Columbus hefur spilað mun betur í ár en undanfarin ár og líklega má þakka það þjálfaranum Hitchcock og stjörnunni Richard Nash - sem náði ekki að skora í þessum leik. Aðalástæðan fyrir því er Ryan Kesler sem hefur heldur betur fundið sig sem aðalstoppari liðsins. Hann er settur á allar stórstjörnur sem mæta á svæðið, Jereme Iginla hjá Calgary, Ryan Getslaf hjá Anaheim, Marian Gaborik hjá Minnesota, o.s.frv., og hefur staðið sig eins og hetja. Enginn þessara skyttna hefur náð að skora gegn Vancouver undanfarið.
Ég skal ekki skrifa meira. Verð bara að segja að þetta var stórskemmtilegur leikur og stórkostleg upplifun að fá að vera í höllinni í kvöld þegar Luongo setti metið sitt. Wouldn't have wanted to miss it for the world!
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Eitt sem ég skil ekki
29.11.2007 | 09:37
Mér finnst þetta hið besta mál en þó er ég hugsi yfir einni þessara setninga. Nefnilega þessari hérna:
Er íslenska ekkert mál?
Hvað þýðir þetta nákvæmlega? Er íslenska ekkert mál? Ég veit hvað það þýðir að segja 'er íslenska ekki mál?' en þetta þarna skil ég ekki alveg. Kannski er fattarinn bara ekki í lagi hjá mér og ef svo er...getur ekki einhver útskýrt þessa setningu fyrir mér?
![]() |
300.000 íslenskukennarar virkjaðir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Lukkudýr Ólympíuleikanna 2010 afhjúpuð
28.11.2007 | 08:17
Í dag voru afhjúpuð lukkudýrin þrjú sem eiga að bjarga draslsölunni fyrir Ólympíuleikana 2010. Þetta eru þau Quatchi, sem er stórfótur, Miga, sem er sambland af háhyrningi og Kermode birni, og Sumi, sem eru nokkurs konar þrumufugl. Allar þessar skepnur eiga uppruna sinn í þjóðtrú indjána og ekkert þessa kvikinda finnast í stóru ensk-íslensku orðabókinni (nöfnin á ensku eru sasquatch, sea bear og thunderbird - hins vegar er til íslensk hljómsveit með nafninu Seabear).
Ég hef ekki enn heyrt mikið um það hvað fólki finnst um þessi lukkudýr, sem verða mjög fyrirferðamikil á leikunum, en mér sýnist að almennt hrylli fólki við þeim. Ég mun heyra meira á morgun en ég býst ekki við almennum stuðningi. Og sjálf er ég ekki hrifin.
Hins vegar finnst mér að Mogginn eigi að ráða mig sem sérstakan blaðamann moggans í Vancouver - er alltaf að koma með fréttir héðan!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Velkominn Teitur
28.11.2007 | 07:56
Það yrði nú bara gaman fyrir okkur Íslendingana hér á svæðinu að fá Teit til Vancouver. Maður færi þá kannski oftar á Whitecaps leiki. Kannski hann geti þjálfað okkur í Presto í hjáverkum.
Teitur, hér er frábært að búa og þótt knattspyrnan sé ekki eins vinsæl hér og hokkí og kanadískur fótbolti þá er áhuginn á íþróttinni alltaf að aukast. Og ekki spillir fyrir að til stendur að byggja nýjan heimavöll niðri í bæ.
![]() |
Teitur í viðræðum við Vancouver Whitecaps |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Hokkí, Bjólfskviða og stórkostleg grínleikkona
28.11.2007 | 07:29
Ó hvað það var gaman að horfa á hokkí í kvöld. Vancouver tók á móti Anaheim, núverandi Stanleymeisturum, og hreinlega rúlluðu þeim upp ... 4-0. Todd Bertuzzi kom og spilaði hér í fyrsta skipti síðan honum var skipt fyrir Roberto Luongo í fyrra en setti ekki mark sitt á leikinn. Og hann höfuðkúpubraut engan. Leikmenn Anaheim urðu ótrúlega pirraðir í öðrum leikhluta þegar þeir lentu undir og þeir fóru að spila óheiðarlega og uppskáru 16 brottvísanir í síðustu tveim leikhlutunum. Helmingur marka Vancouver kom þegar þeir spiluðu fimm á móti fjórum þannig að þessar brottvísanir voru Anaheim dýrar. Skemmtilegast var þegar seint í síðasta leikhluta brutust út almenn slagsmál þar sem flestir sem á svellinu voru lentu í stimpingum. Hinn risastóri kanadíski varnarmaður Anaheim, Chris Pronger, greip þá tvo Canucks, hvorn í sína hönd og datt mér í hug: Tekið hef ég hvolpa tvo - hvað skal við þá gera. Pronger var annars óvinsælasti leikmaður kvöldsins eftir að hann hrinti Kesler í svellið þegar Kesler fagnaði marki. Eftir það var púað á Pronger í hvert sinn sem hann snerti pökkinn. Ég held hann hafi bara haft gaman af því. Ég er lúmskt hrifin af Pronger.
Vancouer tryggði sér fyrsta sætið í norðvestur riðlinum en hafa spilað fleiri leiki en Colorado sem er í öðru sæti. Á fimmtudaginn spila þeir á móti Columbus Blue Jackets og þann leik ætla ég að fara á.
Í dag fór ég í bíó að sjá Bjólfskviðu. Michael Feld, vinur okkar Tims frá Winnipeg bauð mér í hádegisverð og bíó á eftir. Hann og Kitty kona hans fluttu hingað til Vancouver þegar þau fóru á eftirlaun. Michael er fyrrum heimspekiprófessor og mjög sérstakur náungi. Ég held að það séu liðin tvö ár síðan hann bauð mér á þessa mynd því hann gerði það eftir að hafa séð Bjólfskviðu Sturlu Gunnarssonar.
Ég varð fyrir vonbrigðum með myndina. Reyndar ekki miklum því ég bjóst ekki við að hún væri sérlega góð. Mér fannstatriðin með Grendel virkilega grótesk og ég leit yfirleitt undan þegar hann var sýndur. Hljóðin í honum voru líka ógurleg og minntu mig á hljóðin á fljúgandi skepnunum í Hringadróttinsögu. Mér fannst Angelina Joli ömurleg (sorry Doddi) og sagan varð mjög undarleg í síðari hluta. Samkvæmt því sem Michael segir, sem hefur lesið Bjólfskviðu, fylgdi fyrri hlutinn sögunni nokkuð vel en sá síðari alls ekki. Það langbesta við myndina var skrokkurinn á Ray Winstone sem leikur Beowulf.
Hápunktur bíóferðarinnar var í röðinni að miðasölunni. Fyrir framan okkur (reyndar einn náungi á milli) var engin önnur en Jane Lynch sem er frægust fyrir að vera í grínhópnum sem leikur í öllum Christopher Guest myndunum. Þetta eru myndirnar Best in Show (ein af mínum uppáhaldsmyndum), A mighty wind, Waiting for Guffman og For your consideration. Þessar myndir eru allar gerðar í heimildamyndastílnum og yfirleitt er ekkert handrit notað heldur bulla leikararnir bara eitthvað. Alveg magnaðar myndir. En Jane Lynch hefur ekki bara leikið í Christopher Guest myndunum. Hún hefur leikið í yfir hundrað myndum og sjónvarpsþáttum, m.a. Two and a half men The new adventures of old Christine, The L word Boston legal, Criminal minds, Talladega Nights: The Ballad of Ricky Bobby, Desperate Housewives, CSI, Veronica Mars, Friends, Arrested Development, Monk, NYPD Blue, 7th Heaven og ekki má gleyma 40 year old virgin. Þar leikur hún yfirmann Steve Carell - þá sem segir honum að hún sé alveg til í að taka frá honum sveindóminn. Hann þurfi bara að nefna það. Alla vega, ég er alveg viss um að þið hafið öll séð hana. Þegar ég kom út af Bjólfskviðu kom hún út af myndinum sem hún hafði farið að sjá og brosti til mín. Alltaf gaman að sjá stjörnurnar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Permanent Resident of Canada
27.11.2007 | 04:32
Í dag fór ég yfir landamærin til Blaine í Washingtonríki, borðaði Mexíkanskan mat og sneri svo við, rétt svo ég geti komið löglega inn í Kanada sem permanent resident (Hálf-ríkisborgari eða svo). Þar var ég spurð nokkurra spurninga, þeir tékkuðu á því að augun á mér væru virkilega blá (í alvöru), stimpluðu passann minn, gáfu mér litla nælu og óskuðu mér til hamingju með að vera orðin Permanent resident. Svo einfalt var það nú.
Marion keyrði mig niðreftir þar sem ég er bíllaus, og ég bauð henni í hádegisverð. Það minnsta sem ég gat gert. Hún var ákaflega ánægð með það að hægt væri að fá Mojito á 99 cent (um 62 krónur). Við úðuðum í okkur tamales, enchilada, tostido og svo djúpsteiktri ostaköku (já, í alvöru - var líka mjög góð). Þetta var sem sagt bara hin notalegasta ferð. Þegar við komum inn í Kanada var farið að rigna (við hverju öðru bjuggust þið?) og þegar við komum inn í Vancouver var farið að snjóa (sem gerist tvisvar á ári eða svo).
Þegar ég kom heim tók ég mynd af mér og notaði svo Photoshop til að setja mig fyrir framan kanadíska fánann (af því að ég á bara lítinn einhver staðar og ég finn hann ekki). Fannst það við hæfi að þetta yrði opinbera myndin af mér sem permanent resident. Fór líka í Canucks peysu því hvað er kanadískara en hokkí?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Hvers vegna kanadíska riddaralögreglan ætti aldrei að leika jólasveininn
24.11.2007 | 20:14
Mikið hefur verið rætt um notkun taser byssna hér í Vancouver undanfarið; ekki bara vegna dauða Roberts Dsiekanskies heldur einnig vegna ungs manns í Chilliwack sem nú liggur milli heims og helju eftir að hafa verið skotinn með taser og barinn með kylfum, tæpum mánuði eftir dauða Dsiekanskies. Þessi umræða hefur líklega kveikt hugmyndina að þessari mynd sem birtist í Vancouver Province fyrir nokkrum dögum. Þetta er sem sagt ástæðan fyrir því að kanadíska riddaralögreglan ætti ekki að taka að sér hlutverk jólasveins fyrir jólin.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)