Jólahátíðin hjá mér
27.12.2007 | 19:40
Jæja, loksins læt ég í mér heyra eftir jóladagana. Ég var án almennilegrar tengingar yfir jóladagana tvo og í gær var ég bara einfaldlega of löt til þess að nenna að blogga. Í stað þess að taka þátt í brjálæðinu sem eru útsölurnar á annan í jólum (hér fóru sumir í röð um átta leytið á jóladagskvöld) þá hékk ég heima á náttfötunum og hafði það náðugt. Borðaði íslenskt sælgæti og horfði á sjónvarpið. Það var ákaflega notalegt. Svona á annar í jólum að vera - ekki biðraðir og slagur í búðum.
Hér kemur löng lýsing og mun ábyggilega enginn nenna að lesa lengra nema mamma og pabbi, og kannski einn og einn vinir. Þið hin getið bara skoðað myndirnar.
Klukkan tíu á aðfangadagsmorgun tók ég strætó niður að lestarstöð og síðan lestina út í Surrey þar sem Tim, maðurinn hennar Juliönnu sótti mig. Hann var ákaflega ánægður með að hafa fengið það verkefni að sækja mig því ástandið á heimilinu var víst rafmagnað. Allir í stressi og systurnar farnar að senda illskuleg skot hvor á aðra. Mér skyldist síðar að ástæða hafi verið fyrir afsökunarbeiðnum því þær rétt svo sluppu við slagsmál. Ég þurfti ekki að horfa upp á þetta því ástandið hafði róast þegar ég mætti á staðinn. Þetta var í fyrsta sinn sem jólin voru haldin hjá Juliönnu en þar sem mamma hennar var með í eldamennskunni hefði svo sem ekki þurft að vera svona mikið stress. Ég hugsaði til jólanna heima þar sem ég man bara ekki eftir stressi á aðfangadag. Kannski af því að það er auðveldara að elda svínið en kalkúninn. En kannski er það líka munur á fólki. Mamma stressar sig ekki oft.
Við borðuðum klukkan eitt í stað sex því litla systurdóttir Juliönnu var á Winnipeg tíma og vitað mál að hún myndi sofna fyrir fimm. Þetta var hluti ástæðunnar fyrir stressinu því til þess að hafa kalkún tilbúinn klukkan eitt þá þarf að elda megnið af nóttinni. Þessi flykki þurfa svo ógurlegan eldunartíma. En þetta gekk allt eftir, þótt kalkúnninn hafi reyndar verið tilbúinn klukkan tíu um morguninn vegna vitlausra reiknina (sem er fyndið af því að Tim er stærðfræðikennari í menntaskóla - það er ekki enn vitað hvort hann reiknaði vitlaust eða hvort honum voru gefnar vitlausar upplýsingur um stærð fugls eða bökunartíma á hvert pund). Maturinn var góður eins og við mátti búast og ég passaði mig á að éta ekki á mig gat.
Klukkan fjögur fórum við í messu í babtistakirkju sem vinir Tims og Julönnu tilheyra. Þau voru víst margbúin að biðja þau skötuhjú að koma með sér þangað. Við vorum nú ekki sérlega hrifin af messunni. Kannski er maður orðinn svo vanur gömlu lútersku þyngslunum að svona létt og skemmtileg poppmessa passar bara ekki inn í dæmið. Ég saknaði alla vega tónunar prestsins og þess þegar prestur og söfnuður kallast á. Og eins hefði ég viljað heyra sálmana í sínum hefðbundnu útgáfum. Það var eiginlega bara Heims um ból sem sungið var á hefðibundinn hátt. Annað var svona ekki alveg eins og maður vildi hafa það. Ég var mest pirruð yfir útsetningunni á What child is this, sem vanalega er sungið undir Greensleeves laginu, og sem að þessu sinni var nær óþekkjanlegt. Mér fannst eins og þeir hefðu ákveðið að syngja bara bakröddina í laginu en ekki aðalröddina, og það var ekki flott. En það var samt skemmtilegt að prófa að fara í öðru vísi messu. Ég hafði áður prófað að fara í jólamessu hjá
kanadísku sameinuðu kirkjunni, hjá ensku biskupakirkjunni og hjá kanadísku lúterskirkjunni (sem er töluvert ólík okkar lútersku kirkju). Að mörgu leyti var ég hrifnust af messunni hjá ensku biskupakirkjunni - hún var svo falleg og hátíðleg. Ef ég verð hér úti um næstu jól eða þarnæstu þá held ég að ég fari í messu hjá kaþólsku kirkjunni. Hef trú á að það gæti verið skemmtilegt.
Um sex leytið opnuðum við pakkana og þið hefðuð átt að sjá fjöldan á jólagjöfum á þessu heimili. Ég held að Julianna, systir hennar og mamma, gefi hver annarri sjö eða átta pakka. Og þá ekki smávægilega. Það er aðeins komið eitt barnabarn, hún Bryndís litla, og ég held að Julianna hafi gefið henni úlpu, stígvél, náttföt, kjól, og fjölda leikfanga. Þau þurfa greinilega fleiri börn því þessi er á hraðferð við að verða gjörspillt. En það er svo sem verið að reyna. Bæði Julianna og systir hennar eru með mælinn á fullu og svo eru karlarnir dregnir upp í rúm þegar tíminn er réttur. Ætli það verði ekki komin þrjú börn að ári.
Ég var mjög ánægð með mínar gjafir. Toppurinn var málverk eftir níu ára gamlan bróðurson minn, Arnar. Ákaflega falleg og sólrík mynd í stíl Stefáns frá Möðruvöllum. Ég fékk líka ákaflega fallegt lopavesti frá mömmu og pabba, sem hefðu ekki átt að gefa mér neitt því þau gáfu mér myndavél í sameiginlega afmælis- og jólagjöf. En mamma er svo gjafmild og elskar það að gleðja fólk. Og það tókst líka vel. Ég var ákaflega ánægð með vestið mitt og held að ég sé bara fín í því. Þau gáfu mér líka nýja diskinn með Álftagerðisbræðrum sem ég hef alltaf gaman af. Við fyrstu hlustun finnst mér þessi diskur þó ekki eins góður og hinir fyrri og veldur fyrst og fremst skorturinn á einsöng. Þeir hafa allir svo fallegar raddir að mér finnst alltaf skemmtilegt að heyra í einum í einu. Þarna eru næstum engir einsöngvar. Ég hafði meira gaman af DVD disknum sem kom með. Ég var búin að gleyma því hversu fyndinn hann Óskar er. Stundum er nóg að horfa á hann glenna sig aðeins til að fara að hlæja. Kannski er það meðal annars vegna þess að það minnir mig á ættarmót fyrir nokkrum árum þar sem Óskar fór á kostum á harmonikkunni. Hann er giftur frænku minni og var virkilega lífið og fjörið á því ættarmóti. Ég mun ekki fara nánar út í sögur enda vita allir að what happens at ættarmót stays at ættarmót!!!!
Næst vil ég fá jóladisk frá Álftagerðisbræðrum og þar vil ég heyra Óskar syngja Ó helga nótt. Fáir syngja það lag vel. Ég er einmitt núna að hlusta á hann syngja í þættinum sem sýndur var á Aðfangadag og þar sem hann syngur með karlakór Reykjavíkur.
Ég fékk líka disk Ljótu hálvitanna (sem ég hef aðeins byrjað að hlusta á og haft gaman af - þeir eru snillingar þessir strákar og skemmtilegt að hlusta á hann Sævar minn sem var alltaf svo skemmtilegur þegar við vorum saman í bekk í denn. Svo fékk ég líka diskinn með Ellen (frá Geira bróður og fjölskyldu) en hef ekki komist í að hlusta á hann. Ég fékk tvær bækur, bókina um Karítas eftir Kristínu Mörju, og svo bókina um íslenska hugsun (frá Gunna og fjölsk. og Geira og fjölsk.). Það eina sem vantaði þar var nýja bókin hans Arnalds Indriða. Ég er ekki enn búin að ná því að ég skuli ekki hafa fengið þá bók í jólagjöf. Það er ekki eins og það hafi ekki allir vitað að hann er uppáhaldshöfundurinn minn. Ég var búin að hlakka ógurlega til þess að byrja að lesa bókina strax að kvöldi aðfangadags og kláraði bókina um Morse í tæka tíð. En nei, enginn Arnaldur til mín
En pabbi sagðist hafa fengið hana í jólagjöf þannig að þegar hann er búinn að lesa hana ætlar hann að senda mér bókina svo ég geti lesið hana. Ég verð því að bíða um sinn.
Ég fékk líka rúmföt frá stelpunum hans Hauks bróður, sokka með íslenska hestinum á frá Rosemary (sem fór til Íslands í sumar), skíðagrímu frá Rut sem ég get annað hvort notað til þess að ræna banka eða ef ég fer á skíði í Alberta þar sem slík gríma er nauðsyn, gjafakort í Le Chateau frá Juliönnu og Tim og annað frá mömmu hennar Juliönnu, og reyndar gaf Julianna mér líka gjafakort í Starbucks því hún veit að ég vinn hvergi eins vel og þar. Ég fékk líka bók og konfekt frá Dianne Brynjólfson og fjölskyldu og svo krem og kerti í gjafaskiptum hjá Brynjólfsson fólkinu. Jólasveinninn gaf mér svo litla jólakúlu með engli innan í. Mamma og pabbi sendu mér svo líka gullfallegtkort eftir Önnu Ó Guðmarsdóttur með fallegri hugsun til dóttur. Þetta er svona í stíl við Hallmark kortin, ef einhver kannast við þau.
Ég gisti hjá Juliönnu og þeim á jólanóttina og vaknaði eldsnemma þegar Bryndís var komin á kreik. Um sex leytið held ég, eða fyrr. Náði að sofna aftur en skreið svo upp í sófa og kláraði að prjóna trefil handa Juliönnu sem ég hafði ekki náð að klára í tæka tíð. Svo var borðaður stór og góður pönnukökumorgunverður og eftir það tók Bryndís upp sína pakka en hún hafði verið sofnuð þegar við hin opnuðum okkar. Það var svo sem alveg í stíl við kanadískar hefðir því hér eru pakkar vanalega opnaðir á jóladagsmorgunn. En af því að Julianna er af íslenskum og þýskum ættum hafa þau alltaf opnað á aðfangadag eins og Evrópubúar.
Eftir hádegið komu Dianne og Gerry og sóttu mig og ég keyrði með þeim til Kathie systur Dianne þar sem Brynjolfson fólkið kom saman. Þar borðaði ég aðra kalkúnsmáltíð og je minn hvað þessi kalkúnn var góður. Held ég hafi aldrei smakkað svona safaríkan kalkún áður. Hann var alveg fullkominn. Ég hefði auðvitað frekar viljað borða nýtt svín eða reikt svín eða jafnvel hangikjöt en ég verð að sætta mig við kanadískar hefðir. Hér borða allir kalkún meira og minna.
Ég spjallaði svolítið við Ben, pabba Brynjolfson systranna, sem fullu nafni heitir Brynjólfur Bolli en það er of erfitt nafn fyrir Kanadabúa. Hann var sá eini sem talar íslensku svo við spjöllum alltaf á okkar ástkæra ilhýra þegar við hittumst.
Um ellefu leytið fannst mér tími til að fara heim enda vildi ég ná síðasta hraðstrætó heim en þeir hætta að ganga á miðnætti. Það sem við tekur er venjulegur strætó sem stoppar á 200 metra fresti og svo þarf ég að skipta um vagn á miðri leið og gæti þurft að bíða í hálftíma eftir hvorum vagni. Ég náði að húkka far með Richard, sem er vinur Patricks, mannsins hennar Kathie. Ég bað hann bara að keyra mig á lestarstöðina en hann þessi elska sagðist ekki vilja hugsa til þess að ég væri í lestinni um miðja nótt og keyrði mig alla leið heim. Það er ekkert smá almennilegt því þetta er um klukkutíma keyrsla. Og han býr sjálfur í Surrey einhvers staðar ekkert langt frá Kathie og Patrick. Ég var ekki komin heim fyrr en um miðnætti og hann átti þá eftir klukkutíma akstur heim til sín. Þetta er eins og AKureyringur skutlaði einhverjum í Varmahlíð eða að Reykvíkingur skutlaði einhverjum upp í Borgarnes. Svona rétt fyrir svefninn. Það er þó gott að vita til þess að það er til gott fólk.
Og þá er ég eiginlega komin hringinn því ég var búin að segja ykkur frá leti minn í gær.
En svona hafa jólin sem sagt verið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Gleðileg jól og farsælt komandi ár
24.12.2007 | 08:20
Ég vil óska öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári. Ég vil sérstaklega þakka öllum sem hafa komið í heimsókn hingað á bloggið mitt og eins þeim sem ég hef heimsótt. Vonandi heldur bloggvináttan og önnur vinátta áfram á árinu 2008.
Ég spái því hér með að 2008 verði einstaklega gott ár og að margt skemmtilegt og notalegt muni gerast.
Á morgun (síðar í dag - það er víst komið fram yfir miðnætti) mun ég fara til Juliönnu vinkonu minnar og Tims mannsins hennar og þar er víst planið að borða eitt stykki kalkún, fara svo í kirkju og loks að taka upp pakkana. Julianna er hálfíslensk og hálfþýsk og maðurinn hennar er hálffinnskur þannig að það verður haldið upp á aðfangadag.
Ég gisti svo hjá þeim niðri í Surrey og fer svo til Brynjólfssons fólksins, frændfólks míns, á jóladag og borða þar annan kalkún (ekki þó ein). Ég býst við að taka síðustu lest heim þaðan og sofa í eigin rúmi að kvöldi jóladags og fara svo í göngutúr á ströndinni að morgni annars í jólum með Rosemary og Doug.
Ég efast um að ég nái að blogga þar til þá (annars veit maður aldrei) svo ég býð ykkur enn og aftur gleðilegra jóla og við sjáumst (skjáumst) eftir nokkra daga.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
Aðalmálið er ekki...
21.12.2007 | 20:34
Það er kannski að bera í bakkafullan lækinn að blogga um þessa frétt en mér finnst ég verða að minnast á eitt atriði hér sem virðist fara ógurlega fyrir brjóstið á mörgum.
Fyrst vil ég þó taka eftirfarandi fram:
1. Ég held að það hefði verið betra fyrir Femínistafélagið að koma boðskap sínum á framfæri á aðeins nærgætnari hátt.
2. Óskin hefði átt að vera um að FÓLK hætti að nauðga, ekki bara karlmenn, því þótt karlmenn séu gerendur í rúmum 90% tilfella eða svo (án þess að ég hafi neinar tölur fyrir framan mig), þá eru konur gerendur í sirka 10% tilfella og við hljótum öll að vilja að þær hætti líka að nauðga.
En hér kemur að því sem hefur pirrað mig mest í umræðunni. Fólk virðist vilja lesa út úr þessari ósk Femínistafélagsins að þau séu að ásaka alla karlmenn um það að vera nauðgarar. Ég get ekki verið sammála þessu. Lítið á eftirfarandi ósk:
Ég óska þess að allir hætti að reykja.
Finnst þeim sem ekki reykja þessi ósk ósæmanleg? Finnst þeim vegið að sér? Finnst ykkur þessi fullyrðing gefa það í skyn að allir reyki? Ekki mér. Mér finnst merkingin einfaldlega eiga við þá sem reykja því eingöngu þeir sem reykja geta hætt að reykja. Við hin getum það einfaldlega ekki (nema við byrjum fyrst að reykja).
Mér finnst það sama með óskina frá Femínistafélaginu. Þeir hljóta að eiga við þá karlmenn sem nauðga (og ættu auðvitað að eiga við alla sem nauðga eins og ég nefndi áður). En það að allir karlmenn taki þetta til sín og fari að móðgast og þykjast vera ásakaðir um að vera nauðgarar er auðvitað bara útúrsnúningur. Það ætti að ekki að vera aðalmálið í þessari umræðu.
Ég vona að engum verði nauðgað um þessi jól (hvorki af karli né konu), ég óska þess að allir fái nóg að borða, að enginn verði fyrir ofbeldi, hvorki líkamlegu né andlegu, og ég vona að allir hafi einhvern til þess að faðma og kyssa og óska gleðilegra jóla.
![]() |
Ekki um jólakort að ræða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
Ræðumennirnir miklu og barátta blökkumanna í Bandaríkjunum
20.12.2007 | 07:31
Í kvöld fór ég á formsýningu myndarinnar The Great Debaters með Denzel Washington sem einnig leikstýrði. Ég fæ reglulega tölvupóst frá blaðinu Georgia Strait sem er dreift ókeypis út um alla borg. Þeir eru alltaf með alls konar getraunir sem fyrst og fremst nýtast sem kynning á ýmsum listaviðburðum og ég tek alltaf þátt ef mér lýst vel á það sem í boði er. Í fyrradag fékk ég tölvupóst um að ég hefði verið dregin út sem sigurvegari (einn af mörgum) og fékk í verðlaun tvo miða á myndina.
Ég hef aldrei áður lenti í því að þurfa að fara í gegnum leit við það eitt að fara í bíó. En af því að þetta var forsýning og myndin verður ekki tekin til reglulegrar sýningar fyrr en á jóladag, þá þurfti að sjá til þess að enginn væri að laumast með neinar upptökuvélar inn á sýninguna. Þannig að leitað var í töskunum okkar og svo þurftum við í gegnum málmleitartæki líka. Það mátti ekki einu sinni fara inn með farsíma með myndavél. Farsíminn minn er með litla myndarvél - hundlélega að vísu en það skiptir víst engu máli - svo ég faldi hann í töskunni og harðneitaði svo að hafa farsíma með mér. Það var betra en að láta þá geyma símann á meðan á sýningu stæði.
Áður en myndin hófst var spurningarkeppni þar sem gefnir voru miðar á forsýningu Hnetubrjótsins en ég vissi ekki neitt svaranna enda voru allar spurningarnar um hnetubrjótinn og ég veit sama og ekkert um það verk því ég hef alltaf sofnað þegar ég hef reynt að horfa á það í sjónvarpinu.
Myndin var býsna góð. Hún hafði ekki fengið neitt sérstaklega góða dóma á Rotten Tomatoes svo ég bjóst ekki við of miklu, en myndin kom á óvart og ég skemmti mér konunglega. Ég myndi segja að ræðukeppnin sjálf sé bara rammi myndarinnar. Í raun er verið að fjalla um baráttu blökkumanna fyrir jafnrétti og jafnframt um samband föður og sonar (leiknir af Forrest Whittaker og Denzel Whittaker sem eru ekki feðgar). Forrest Whittaker er alltaf góður og Denzel Washington klikkar aldrei. Ungu leikararnir þrír standa sig líka ákaflega vel. Það sem mér fannst kannski einn stærsti galli myndarinnar voru ræðurnar sem haldnar voru. Þær voru ákaflega amerískar eins og við mátti búast, ákaflega væmnar. Innihaldið var áhrifaríkt þar sem það tengist siðferði og réttlæti, en sem ræður í keppni voru þetta ekki góðar ræður. En í raun var mér alveg sama því eins og ég segi þá var ræðukeppnin þarna sem rammi utan um málin sem skiptu máli.
Myndin hafði ekki eins sterk áhrif á mig og margar aðrar sem fjalla um sama eða svipað efni, svo sem Mississippi Burning, enda hafði barátta blökkumanna náð nokkrum árangri þarna 1935 þegar þessi mynd gerist, en maður hefur alltaf gott af því að sjá hvernig sumt fólk þarf að berjast fyrir þeim réttindum sem okkur þykja sjálfsögð.
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 18:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Sorgarfréttir
19.12.2007 | 00:02
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Tónlist ársins
18.12.2007 | 19:21
Það er svo skrítið að ég hef aldrei heillast mikið af söngkonum og það hafa vanalega verið karlmenn sem skipa efstu sæti vinsældarlista míns. Þegar ég lít til baka yfir síðustu mánuði verð ég hins vegar að segja að nokkrar stórkostlegar söngkonur hafa vinninginn þegar spilun er annars vegar. Þá er ég ekki endilega að segja að bestu plötur ársins komi frá konum heldur fyrst og fremst að ég uppgötvaði nokkrar frábærar söngkonur á árinu.
Ég ætla nú að eyða svolitlum tíma í að segja ykkur frá þessum söngkonum, þótt sjálfsagt komi hér lítið á óvart. Þessi stutti listi er ekki í neinni sérstakri röð.
Ane Brun. Ane Brunvall er norsk söngkona sem hefur verið að gefa út plötur síðan 2002. Ég heyrði fyrst í henni í auglýsingu í sjónvarpinu og varð svo heilluð af laginu að ég gafst ekki upp fyrr en ég fann út hver söng það. Hef síðan hlustað mikið á hana og er sérstaklega hrifin af lögunum Song nr. 6 (sem hún syngur með Kanadamanninum Ron Sexsmith - setti það lag í spilarann), Are they saying goodbye, To let myself go, Lift me (ásamt hljómsveitinni Madrugas). Þetta er mjög falleg og notaleg tónlist og erfitt að fá leið á henni.
Katie Melua. Ég kynntist Katie fyrst í gegnum moggann því ég las einhverja frétt um veru hennar á Íslandi og varð forvitin. Ég hafði aldrei heyrt minnst á hana áður og geri ráð fyrir að hún sé ekki mjög stór hér vestanhafs. Það er svo sem ekkert nýtt. Ég reyni yfirleitt að fylgjast með því sem er að gerast í Evrópu til að uppgötva tónlist sem ég heyrði annars ekkert. Ég hef t.d. tvisvar sinnum farið á tónleika með Muse í pínulitlum tónlistarsölum fyrir skít á priki af því að þeir hafa ekki náð að slá almennilega í gegn hér. Sama með Travis og fleiri bönd. Tónlist Melua er alveg stórkostleg og ég er ekki viss um hvaða lög ég ætti helst að nefna. Ég er reyndar mjög hrifin af Blame it on the moon, Thank you stars, Nine million bicycles og svo mörgum fleiri.
Feist. Feist er kanadísk söngkona sem ég kynntist fyrst á Bluesfest í Ottawa í fyrra. Martin, minn fyrrverandi, er mjög hrifinn af henni og dró mig á tónleika með henni. Ég man að það var á sama tíma og Great big sea var að spila á stóra sviðinu og mig langaði eiginlega meira að sjá þá en ákvað að hlusta á Martin sem gat ekki hætt að lofa þessa ungu söngkonu. Ég varð ekki fyrir vonbrigðum því hún var stórkostleg. En það var þó ekki fyrr en með nýja disknum hennar nú í ár, Reminder, sem ég virkilega sá hversu góð hún er. Það er erfitt að velja lög af Reminder en ég get sagt ykkur frá því að eftir að lagið 1234 var notað í auglýsingu fyrir iPod Nano sló Feist virkilega í gegn. Þetta er reyndar alls ekki besta lagið á disknum en reyndar er diskurinn allur mjög góður. Feist spilar líka reglulega með kanadísku hljómsveitinni Broken Social Scene sem er virkilega spennandi hljómsveit og þess virði að hlusta á. Í spilaranum hér til hliðar má heyra lagið La meme histoire úr myndinni Paris, je t'aime, en ég held að Feist syngi bara lagið - held að hún hafi ekki samið það.
Regina Spector. Ég heyrði fyrst í Reginu Spector hér á blogginu. Einhver bloggaði um hana og setti inn tóndæmi. Mér fannst hún strax frábær og fór að hlusta meira á hana. Ég hef reyndar ekki hlustað eins mikið á hana og fyrrnefndar konur en margt af því sem hún er að gera er samt sem áður frábært. Ég skil eiginlega ekki af hverju ég hafði ekki heyrt í henni fyrr. Lagið Samson er t.d. alveg magnað.
Amy Winehouse. Mig langaði eiginlega ekkert að hlusta á Amy Winehouse því ég heyrði bara leiðinlegar fréttir af henni. En ég hef nú alltaf litið þannig á að maður megi ekki láta listamennina skyggja á listina (annars hefði ég aldrei hlustað á t.d. Oasis) svo ég tékkaði á henni og var að segja að hún er að gera alveeg frábæra hluti. Raddbeitingin minnir stundum of mikið á Pink (ekki það að ég sé ekki hrifin af Pink, mér finnst bara eins og verið sé að stæla hana) en að öðru leyti er tónlistin hennar mjög flott. Vonandi að hún hætti í þessu bölv. rugli og einbeiti sér að flottri tónlist. Ekki þar fyrir að stundum koma bestu verkin frá fólkinu í mesta ruglinu. Held t.d. að besti sólótími Johns Lennons hafi verið týnda helgin.
Kimya Dawson. Ég er bara nýbúin að uppgötva Kimyu Dawson og það var í gegnum myndina Juno þar sem hún á stóran hluta laganna. Kimya er allt öðru vísi söngkona en þær sem hér eru nefndar á undan. Hún er t.d. ekki góður söngvari en lögin eru flott og textarnir magnaðir. Hún er aðalsöngkonan í hljómsveitinni The Moldy Peaches sem eiga lög eins og Anybody but you sem er nokkurs konar þema myndarinnar. Ég mæli eindregið með að þið tékkið á Dawson.
Af karlmönnum hef ég undanfarið mest hlustað á kanadíska blúsarann Colin James, bandaríska blúsarann Eric Lindell, svo og nýju plötuna með Paul McCartney. Í sumar og í haust hlustaði ég líka mikið á þyngri tónlist eins og Alice in Chains, Godsmack, Mad Season og System of a down, og eins var hljómsveitin Death Cab for Cutie mikið á fóninum.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Jólapakkar og fleira
15.12.2007 | 06:52
Þetta var hinn mesti rólyndisdagur. Ég vaknaði snemma, tók mér góðan tíma í lestur morgunblaðsins (ekki þó moggans), setti súkkulaði á nokkrar smákökur, skaust með kökur til Rosemary sem er nýkomin úr uppskurði, fór svo á fund með Hotze, öðrum umsjónarkennara minna. Það var góður fundur og hann segir að ég sé á réttri leið. Ítrekaði líka að ég verð ekki að útskýra allt. Ég hef tilhneigingu til þess að verða pirruð ef ég á ekki svör við öllu.
Eftir þann fund fór ég á kaffihús með Akimi sem er einn framherjanna í fótboltaliðinu mínu. Hún byrjaði með okkur í haust og er alveg fínasta manneskja. Ég fæ oft far með henni á leiki og æfingar og ég held við gætum orðið góðar vinkonur. Við erum líka á svipuðum aldri.
Á leiðinni heim af kaffihúsinu kom ég við á pósthúsinu að sækja pakka sem hafði verið sendur heim í gær en enginn var heima svo þeir fóru með hann aftur. Þetta var jólapakkinn frá mömmu og pabba, drekkhlaðinn jólagjöfum og súkkulaði. Ég er búin að vera að háma í mig fyllta konfektmola frá Nóa Siríusi. Er örugglega búin að bæta á mig þessum sjö kílóum sem ég var búin að missa. En svona í alvöru, mikið er konfektið frá Nóa Siríusi gott. Og mamma og pabbi eru algjörir snillingar því þau keyptu kassa sem hefur bara fylltu molana - uppáhaldið mitt. Þá eru þeir allir jafngóðir. Ég fékk líka Ópal og Tópas og lakkrís og Siríus rúsínusúkkulaði. Það eina sem þau klúðruðu var appelsínusúkkulaðið. Ég er svo hrifin af appelsínusuðusúkkulaði frá Mónu en fékk í stað þess appelsínurjómasúkkulaði frá Lindu. En þeim fyrirgefst þessi yfirsjón algjörlega því ég fékk allt annað sem mér líkar. Mikið er gott að eiga svona yndislega foreldra sem sjá til þess að maður fá það sem mann langar í. Ég veit líka að ég fæ enn meira nammi því tveimur dögum fyrr kom pakkinn frá Geira bróður og hann er alltaf svo rausnarlegur og sendir mér góðar gjafir og hann sendir líka alltaf nammi með að auki. Að þessu sinni var því pakkað inn en svona þokkalegt þukl kemur upp um slíkt.
Ég er ennþá algjört barn þegar kemur að jólagjöfum. Ég þarf alltaf að þukla pakkana og reyna að geta hvað er í þeim. Að þessu sinni var það reyndar ekki of erfitt. Þarna má finna bækur, geisladiska, lopapeysuvesti (OK, fattaði það ekki á þuklinu, mamma var búin að segja mér það) og svo tvo undarlega pakka sem ég get ekki alveg áttað mig á. Mig langar að opna þá strax en verð að stilla mig.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Samþykkt grein, kökubakstur og fleira
14.12.2007 | 07:39
Ég fékk góðar fréttir í dag. Hljóðfræðigreinin sem ég skrifaði með Bryan var samþykkt af tímaritinu Journal of the Acoustic Society of America: Express Letters. Þetta er önnur ritrýnda greinin sem ég fæ birta á þessu ári þannig að ég er að vonum ánægð. Það er líka eins gott því ég tók mér frí frá ráðstefnum svo ég gæti einbeitt mér að ritgerðinni og hef því litlu bætt við ferilskrána þetta árið. En birtar greinar eru auðvitað mun betri fyrir ferilskrána en ráðstefnur.
En ég ætti nú að fara og skrifa útdrátt að svo sem einum fyrirlestri því ég held að þetta nýja efni sem ég hef verið að vinna að gæti verið gott efni á ráðstefnu. Ég stefni alla vega að því að tala á fundi Málfræðifélags Kanada því sú ráðstefna verður hér í Vancouver í vor.
Hér var annars slydda í allan dag en náði þó varla að festa snjó. Þetta er búið að vera hið undarlegasta veður hér að undanförnu. En spáin er fyrir rigningu alla næstu daga sem er mun kunnuglegra veðurfar hér á vesturströndinni.
Ég er annars að baka smákökur. Er búin með eina sort og er með aðra í ofninum. Þarf hins vegar að fara að sofa því klukkan er orðin hálftólf.
Vancouver tapaði í kvöld fyrir San Jose eftir að hafa snilldarlega unnið Stanley meistarana í Anaheim í gær. San Jose hefur einfaldlega betra lið. Hef trú á því að það verði San Jose og Detroit sem berjast um vesturtitilinn í vor og að sigurliðið þar muni svo spila á móti Ottawa. Vancouver er með gott lið en ekki eins gott og þessi þrjú.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Flott auglýsing
13.12.2007 | 06:07
Uppáhaldsauglýsingin mín þessa dagana er nýja auglýsingin fyrir Jeep Liberty. Ég hlæ í hvert sinn sem ég sé hana og er farin að raula lagið í þokkabót. Svona eiga góðar auglýsingar að vera:
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Athyglisverð íslensk tónlist
12.12.2007 | 18:39
Um jólin í fyrra reyndi ég mikið að kaupa disk með Seabear þar sem þáverandi kærasti minn hafði fundið þau á MySpace og langaði mikið í tónlistina þeirra. Ég fann diskinn hins vegar hvergi. Hélt að hann hefði kannski verið svo vinsæll að hann hefði selst upp svona snögglega. En sumir starfsmenn búðanna sem ég leitaði í (ég fór í margar margar búðir) höfðu ekki einu sinni heyrt minnst á bandið.
Síðan gleymdi ég öllu um þetta þangað til ég sá þessa frétt núna. Fór og hlustaði á lagið, og nokkur önnur lög, og sit nú og bölva því að hafa ekki fundið þennan disk á sínum tíma. Stórkostleg tónlist. Verð að komast yfir diskinn.
Ég átti reyndar almennt í vandræðum með að kaupa þá íslensku tónlist sem Martin bað um þarna í fyrra. Fann að lokum Shadow Parade, Lights of the highway (frábærir diskar báðir), Pétur Ben (býsna góður diskur líka), Hafdís Huld (ágætur diskur, Martin var sérstaklega hrifinn af honum (disknum)), Lay Low (góður diskur en ég hef samt hlustað minna á hann en fyrstu tvo diskana) og Icelandic Airwaves (Martin hlustaði mikið á þennan disk en ég var ekki eins hrifin). Fyrstu tvo diskana fann ég bara í einn búð hvorn (og ekki sömu búðinni). Það voru alla vega þrír diskar sem ég fann alls ekki. Ég held að Lights of the highway sé algjörlega vanmetin grúbba. Ég get hlustað endalaust á diskinn þeirra.
![]() |
Seabear vinsæl á YouTube |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)