Leikarinn Stína
9.10.2007 | 22:54
Nú er leiklistarferill minn að hefjast. Búin að fá hlutverk í bíómynd!!!!!
Nei, ég er ekki að grínast en kannski að ýkja pínulítið. Núna áðan fékk ég hringingu frá náunga að nafni Al. Hann vinnur við bíómynd sem mun að litlum hluta gerast á Íslandi. Svo þá vantar Íslendinga til að tala inn á myndina - búa til svona bakgrunnshljóð. Kona í klúbbnum hafði gefið upp nafnið mitt og ég mun vera fulltrúi íslenskra kvenna í myndinni. Þeir voru búnir að finna einn karlmann en vantaði annan svo ég hringdi í Hall og bauð honum vinnu (fyrir þeirra hönd). Svo framarlega sem Hallur þarf ekki að vera heima með dóttur sína á morgun þá erum við sem sagt upprennandi leikarar núna. Veit ekki hver sá þriðji er. Náunginn nefndi nafnið en ég skildi nú ekki alveg hvað hann var að reyna að segja!
Frekari fréttir á morgun.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Hvað fer vel saman?
9.10.2007 | 21:07
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Að eiga við leigusala
9.10.2007 | 19:40
Mér er haldið í gíslingu. Sökudólgarnir eru Goldman fólkið - leigusalarnir mínir. Leiguverð hefur hækkað svo mikið í borginni á síðustu árum að maður þorir ekki að gera neitt sem gæti leitt til þess að maður missti húsnæðið. Ég borga tæpar 50.000 krónur á mánuði en meðalverð á tveggja herbergja íbúðum í hverfinu mínu er líklega komið upp í sirka 80.000 krónur. Ég er með samning þannig að leigusalinn getur ekki hækkað verðið nema um ákveðnar prósentur á ári og því borga ég minna en ég þyrfti að borga ef ég væri að byrja að leigja núna. Þetta gerir það að verkum að leigusalar í borginni nota hvaða tækifæri sem þeir finna til þess að losna við núverandi leigjendur og fá nýja, því þá geta þeir búið til nýjan samning við nýju leigjendurna og hækkað verðið eins og þeim sýnist.
Á föstudaginn gerðist það að ég fékk símtal frá karlfjandanum þar sem hann sagði að það hefði ekki verið innistaða fyrir leigutékkanum sem ég sendi honum. Það var mér að kenna. Ég fæ styrk frá Rannís inn á íslenska reikninginn minn og þarf svo alltaf að millifæra hingað í hverjum mánuði. Ég gleymdi því í þetta sinn. Var svolítið rugluð og fannst ég vera búin að færa en það var bara ekki rétt. Þessi misstök kostuðu mig 4000 krónur (bankinn tók 40 dollara og leigusalinn 20) plús símtal frá herra Goldman. Hann bað mig um að senda nýjan tékk upp á þar sem ég bætti þessum 20 dollurum við leiguna. Ég gerði það umsvifalaust. Þetta var sem sagt á föstudag. Í gær var þakkagjörðarhátíð og flestar opinberar stofnanir lokaðar. Þar af leiðandi engin póstþjónusta. Í gær fékk ég svo annað símtal frá Goldman (á símsvarann) um að ég yrði að hringja í hann sem fyrst. Svo ég í morgun og þá kvartaði hann yfir því að vera ekki búinn að fá tékkann. Ég benti mannfjandanum á að ég hefði sent hann á föstudaginn. Og hvað segir hann: En ég er ekki búinn að fá hann. Svo ég bendi mannfýlunni auðvitað á að það væri ekki kominn neinn póstur síðan þá. Hann hlyti að vita að það væri engin póstþjónusta á þakkagjörðarmánudeginum. Mikið rosalega geta sumir verið vitlausir (og gráðugir). Og þessi maður var læknir.
Jæja, þetta er ekki búið. Ég ákvað að nota tækifærið og kvarta yfir risastóru holunni á veggnum sem liggur úr eldhúsinu og út. 20x12 sentímetrar. Fimm rottur geta farið þarna í gegn á sama tíma. Og nú þegar verkfall ruslakarla hefur staðið í yfir 80 daga, og rottum hefur fjölgað meir en kanínum, þá hafa komið tilkynningar frá borginni um að fólk skuli passa sig á öllum inngönguleiðum í húsin. Nú þegar hefur kólnað flýja rotturnar inn í hitann og neyta allra leiða. Ég hafði ekki viljað kvarta yfir þessu þar sem ég vil helst ekki tala við fólkið, en fyrst karlinn var í símanum ákvað ég að láta mig hafa það. Þetta er þeirra mál. Þau eiga að sjá um að þetta sé fyllt inn. Ég varð að segja herra Goldman tvisvar sinnum frá þessu og hann náði því samt ekki um hvað ég var að tala. Konan hans hringdi fimm mínútum síðan. Og hvað haldiði að hún hafi sagt: Þú ert nú klár manneskja. Þú ættir nú að geta bjargað þér aðeins!!!!!! Djöfulsins kerlingadruslan. Hvað hef ég oft kallað til viðgerðarmann á þessum þremur árum? Tvisvar. Einu sinni þegar eldavélin hætti að virka (leigusalar eiga að sjá um hún sé í lagi) og einu sinni vegna þess að það var ekki hægt að spenna gluggann í svefnherberginu opinn. Það er allt og sumt. Öðru hef ég bjargað sjálf. Mér finnst að þegar eldhúsið hefur 12x20 sentímetra gat út um vegginn þá sé það leigusalans að sjá um að fylla þetta (þetta er frá einhverri viftu sem áður var sett út). Og samt samþykkti ég að ég skyldi laga þetta ef kerlingafýlan kæmi með timbrið sem þyrfti til þess að laga þetta. Mig langaði að segja henni að éta táfýlusokka karlsins síns en ég þorði ekki að vera með leiðindi. Vil ekki gera neitt sem gefur þeim ástæðu til þess að henda mér út.
Já, svona er Vancouver í dag.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Þakkagjörðarhátíð
8.10.2007 | 15:06
Í dag er þakkagjörðarhátíð í Kanada, um mánuði á undan kananum í suðri. Hátíðin hér er býsna mikilvæg en kannski ekki eins stór eins í Bandaríkjunum þar sem fólk þeytist þvert yfir landið til að geta verið með fjölskyldunni á þessum degi. En að öðru leyti er þetta svipaður dagur. Hátíðin er haldin til að fagna haustuppskerunni og þar af leiðandi er haustgrænmeti eins og grasker og annað rótargrænmeti mjög vinsælt. Graskersbaka er t.d. algengasti eftirrétturinn á þessum degi. Að öðru leyti er borðaður kalkúnn með ýmsu ómissandi meðlæti: fyllingu, trönuberjasultu, kartöflustöppu, yam-kartöflustöppu, rósakáli og brúnni sósu. Mér þótti þetta ekkert sérstakur matur þegar ég flutti út fyrir átta árum en nú finnst mér þetta glettilega gott. Yam-kartöflurnar eru mitt uppáhald en maður bakar þær fyrst, stapar svo og blandar saman við það smjöri og púðursykri (sykrinum má sleppa ef maður vill halda óhollustunni í lágmarki).
Ég fór í mat til Brynjólfssons fólksins sem eru fjarskyldir ættingjar. Þeir einu sem ég á í Kanada (nema maður fari mjög langt aftur). Þau bjóða mér alltaf í mat á stórhátíðum. Yfirleitt muna þau reyndar ekki að bjóða mér fyrr en í fyrsta lagi daginn áður (núna um það bil fimmtán mínútum áður en ég var að ná strætó til að komast til þeirra) svo mér var sagt í gær að ég væri hér með boðin í mat á öllum þakkagjörðarhátíðum, jólum og páskum. Hér með væri það mitt starf að hringja og fá upplýsingar um hjá hvaða systur borðað væri (þær eru fjórar systurnar en vanalega er borðað hjá annað hvort Kathy eða Dianne).
Í gær var maturinn hjá Dianne og ég greip strætó niður að Heather götu þar sem Carol greip mig með það sem eftir var ferðarinnar. Það er hérumbil nauðsynlegt þar sem Dianne og fjölskylda búa í White Rock í suður Surrey - hérumbil niður við landamærin. Ég hef einu sinni farið þetta með strætó og það tók um tvo klukkutíma. Á einkabíl má reikna með um 50 mínútum.
Ég passaði mig á að éta ekki alveg yfir mig þar sem ég er að reyna að léttast (en það er þó erfitt þegar svo margt er á borðum því þótt maður taki bara pínulítið af öllu þá er þetta samt svo mikill matur), og ég drakk vatn með matnum en hvorki gos né vín (má hvort eð er alveg missa sín). Leyfði mér samt graskeraböku með rjóma á eftir. Iss, ég er nú ekki beinlínis í megrun þannig að það er allt í lagi að leyfa sér gott af og til.
Núna á eftir er ég hvort eð er að fara í fjallgöngu með Línu og Axel þannig að ég mun brenna af mér bökuna.
Bloggar | Breytt 9.10.2007 kl. 03:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Ofsavondur
6.10.2007 | 19:37
Af hverju er myndin Superbad þýdd sem Ofsavondur? Undarlegt alveg. Ég hélt að þeir sem væru bad boys væru kallaðir slæmir strákar en ekki vondir strákar. Mér finnst töluverður munur á orðunum vondur og slæmur. Vondur er einhver sem er vondur að eðlisfari. Sá sem er afvegaleiddur er miklu fremur slæmur. Mér finnst líka merking orðsins ofsavondur helst tengjast einhverju sem er svakalega reiður. En kannski eru aðrir ekki sammála mér.
Myndin Superbad er um þrjá stráka sem reyna að kaupa áfengi fyrir partý svo þeir geti gengið í augun á kvenfólki. Þessir strákar eru langt frá því að vera vondir - þvert á móti. En þeir eru að reyna að vera svolítið slæmir með því að redda búsinu.
Mér leiðast heimskulegar þýðingar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Ekki merkilegt
6.10.2007 | 19:32
![]() |
Manchester United efst eftir stórsigur á Wigan |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Góður árangur - húrra fyrir mér.
6.10.2007 | 16:37
Jæja, þá er fyrsta vika í hollustu búin (reyndar byrjaði ég ekki á hollustunni fyrr en á sunnudaginn í síðustu viku en ákvað að hafa vikuna frá laugardegi til laugardags. Þá get ég kannski leyft mér aðeins óhollari mat á laugardagskvöldi þar sem það er fyrsti dagur í nýrri viku en ekki síðasti.)
Ég hef sem sagt passað mig aðeins á því sem ég læt ofan í mig; reynt að borða mikið af grænmeti og ávöxtum og forðast mat sem inniheldur mikinn sykur eða fitu. Þetta hefur alls ekki verið erfitt. Í gær borðaði ég til dæmis alveg meiri háttar mat sem var hálf kjúklingabringa með sinnepssósu og meðlætið voru grænar baunir með pecan hnetum (ekki það sem Íslendingar kalla grænar baunir, peas, heldur grænu baunirnar sem eru langar og mjóar - set inn mynd til útskýringa) og brussel sprouts (sem mörgum finnst ógeðslegt en mér finnst glettilega gott. Hollur og bragðgóður matur.
En sem sagt, í morgun vigtaði ég mig og komst að því að ég hafði misst 7 pund, eða rúm 3 kíló. Slatti af þessu er ábyggilega vatn og maður léttist alltaf mest þegar maður byrjar. Aðalatriðið er að halda áfram að borða vel og hreyfa sig með og þá ætti maður að geta lést um sirka tvö pund á viku án þess að það sé of lítið eða of mikið.
Sjáum hvað verður í næstu viku. Á mánudaginn er þakkagjörðarhátíð með sínu kalkúnaáti (eða Tyrkja eins og Vestur-Íslendingarnir kölluðu kalkúninn). Kalkúnninn sjálfur er ekki svo óhollur, en það er fyllingin og yam-kartöflurnar (sem Íslendingar halda að heiti sætar kartöflur en það er ekki rétt - sætar kartöflur eru gular en ekki appelsínugular) sem eru bestar stappaðar með smjöri og púðursykri. Ég ætla að leyfa mér þokkalega máltíð það kvöld.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Ánægð með lýsinguna
5.10.2007 | 16:34
Ég er ánægð með stjörnuspána fyrir mig í dag þótt í raun sé þetta ekki spá heldur persónulýsing. En sú er líka heldur betur góð.

Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Hugsa sér frið
4.10.2007 | 16:49
Í morgun fékk ég tölvupóst frá Beatles.com þar sem minnt var á Friðarturninn hennar Yoko í Viðey. Var þar gefin upp slóðin http://www.imaginepeace.com/ og allir hvattir til þess að fara á síðuna og fylgjast með. Þar er meðal annars hægt að senda friðarkveðjur og svo eru allir kvattir til að koma á síðuna þann níunda október, á afmælisdag Johns, þegar súlan verður afhjúpuð. Nú þegar hafa komið yfir 20.000 manns þarna og þar sem tölvupósturinn fór út í dag til allra Bítlaáhugamanna má búast við enn fleiri heimsóknum á næstu dögum.
Þótt þetta sé átak um frið þá er þetta verkefni allt saman ótrúleg landkynning fyrir Ísland. Yoko talar svo fallega um landið í myndbandi á síðunni; hún talar um hversu hreint landið sé, hversu hreint loftið sé, og um það hvernig maður yngist um tíu ár við það að koma til Íslands. Og að sjálfsögðu er íslenska eitt tuttugu málanna sem valin voru til þess að senda friðarkveðjur á súlunni - þótt ég viti ekki af hverju nafnháttur var valinn (hugsa sér frið) í stað boðháttar (hugsaðu þér frið). Reyndar held ég að ég hefði valið sögnina ímynda í staðinn (ímyndaðu þér friði) sem er öllu nær enskunni (imagine peace). En það skiptir ekki öllu máli. Það sem skiptir máli er hugsunin á bakvið verkið, og minningin um John.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Gengur vel með ritgerðina
3.10.2007 | 23:17
Núna á tæpri viku hef ég fundað með öllum nefndarmönnum mínum (sem eru hér í Vancouver) og þau hafa öll verið ánægð með það sem ég hef verið að gera undanfarnar vikur. Gunnar sagði að hugmyndir mínar hljómuðu skynsamlega og Hotze taldi að ég væri pottþétt á réttri leið. Það sama sagði Lísa sem ég hitti á föstudaginn var. Það er gott fyrir mig að heyra því ég þarf oft á hvatningu að halda.
Ég er búin að naga gulrætur og rófur að undanförnu. Sem betur fer finnst mér hvorttveggja mjög gott þannig að þetta er engin pína. Hef almennt reynt að borða mjög hollt, þótt ég hafi fengið mér einn súkkulaðimola í gær. En það breytir því ekki að mig langar ógurlega í óhollustu. Helst saltkex. Kannski mig vanti almennt svolítið af salti - ég er svoddan saltstaukur. Þar að auki drekk ég vatn eins og mér sé borgað fyrir það og er eins og jójó á milli stofunnar og baðherbergisins. Vatn fer beint í gegnum mig. En þetta virkar. Á laugardaginn skal ég segja ykkur hversu vel.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)