Bara spurning um tíma
3.10.2007 | 15:35
![]() |
Flunitrazepam hefur aldrei fundist í fórnarlömbum nauðgana hérlendis |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Íslenskukennslan að hefjast
2.10.2007 | 17:51
Undanfarin fjögur ár hef ég séð um íslenskukennslu í Íslendingahúsi yfir í New Westminster. Þetta eru yfirleitt tveggja mánaða námskeið þar sem farið er yfir helstu atriði málsins svo sem framburð, algengar kveðjur og þvíumlíkt (yfirleitt engin málfræði nema þegar nemendur spyrja sérstaklega um eitthvað sem tengist málfræðinni - það er sjaldgæft). Enginn lærir að tala íslensku á þessum námskeið en fólk fær að kynnast málinu aðeins. Gallinn er að ég þarf alltaf að byrja á byrjuninni því á hverju ári koma nýir nemendur í tíma. Núna hef ég heyrt frá átta sem ætla að koma. Þremur nýjum og fimm sem hafa komið áður. Þrjár af þessum fimm eru að koma núna í fimmta sinn til mín og tvær þeirra hafa sótt þessa tíma í mörg ár. Frá því löngu áður en ég flutti hingað. Þeim er alveg sama þótt þær kunni allt sem farið er yfir. Þeim þykir bara gaman að koma og tala íslensku.
Fyrsti tíminn er núna í kvöld. Ég er að vona að Rosemary sé orðin nógu frísk til að mæta því þá fæ ég far með henni. Annars þarf ég að nota almenningssamgöngur og það þýðir strætó-lest-strætó og tekur sirka einn og hálfan tíma.
Ég hugsa að ég fari yfir stafrófið og kenni þeim svona nokkrar setningar eins og: Góðan daginn. Ég heiti X. Hvað heitir þú.
Hvað fyndist ykkur bráðnauðsynlegt að kenna útlendingum?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Nýju íþróttarásirnar mínar
2.10.2007 | 16:20
Í sumar skipti ég um sjónvarpsþjónustuaðila. Í stað þess að vera með kapal frá Shaw ákvað ég að prófa stafrænu rásirnar hjá Telus, aðallega vegna þess að ég var þegar með símann minn og internetið hjá Telus og þeir bjóða upp á góða pakka þegar maður tekur allt þrennt saman. Ég er að borga undir fimmþúsund krónum fyrir allt - sjónvarp (um 30 stöðvar), ADSL internet og heimasímann. Fyrstu þrjá mánuðina eftir að ég skipti fékk ég allar rásirnar frá Telus sem eru um 250 sjónvarpsrásir og svipað af útvarpsrásum. Það stóð auðvitað aldrei til að halda þessu öllu enda margt sem ég horfði aldrei á. Ég reyndi því að nota sumarið í að velja úr hvað ég teldi að ég myndi nota. Það var nokkuð ljóst frá upphafi að mig vantaði fleiri íþróttastöðvar því engin íþróttarás var á grunnkaplinum. CBC sýnir reyndar reglulega frá íþróttum en bara svipað og RÚV gerir, t.d. Rogers Sportsnet er t.d. alveg bráðnauðsynleg stöð því þeir sýna alltaf reglulega frá enska boltanum og þar að auki sýna þeir næstum því alla hokkíleikina hjá Vancouver. Ég vildi líka gjarnan bæta við mig pakkanum 'popular choices' þar sem fá má stöðvar eins og Bravo, Showcase og A&E sem ég horfði alltaf mikið á þegar ég var með allar stöðvarnar fyrir þremur árum (þá fékk ég þær ókeypis af því að fólkið fyrir ofan mig borgaði fyrir stöðvarnar og það var bara einn kapall þar sem ég bjó þá).
Ætlunin var að vera án þessa stöðva í einn mánuð og bæta svo þessum tveim pökkum við í næstu viku þegar nýtt tímabil hefst. En í gærkvöldi sá ég að Sportsnet sýndi klukkutímalangan þátt um Canucks og var sérstaklega tekið fram að það ætti að fylgjast með þjálfaranum í einn dag. OK, eins og þið vitið sem nennið að lesa bloggið mitt þá er þetta nokkuð sem ég hreinlega get ekki misst af. Klukkutímaþáttur með Vigneault. Það er betra en að sjá bíómynd með Ralph Fiennes. Þáttinn á að endursýna klukkan eitt í dag svo ég fór að hugsa um hver væri með kapal og væri heima um miðjan dag (klukkan var orðin of margt í gær svo ég gæti hringt í einhvern og beðið þá um að stilla vídeóið). Marion er heima á daginn en er ekki með Sportsnet. Ég held að Lína hafi sagt vera með fullt af stöðvum en hún er ekki heima á daginn. Rosemary er möguleiki! Hún hefur Sportsnet og er oft heima á daginn. En áður en ég hringdi í hana ákvað ég að prófa að hringja í Telus og sjá hversu fljótt þeir tengja nýjar stöðvar. Ég ætlaði að fá mér þessa stöð hvort eð var svo kannski gæti ég fengið hana fyrir hádegið. Svo ég hringdi og var sagt að það gæti tekið upp í 24 tíma að ná þessu í gegn. Svo ég sagði konunni að ég þyrfti endilega að sjá þátt klukkan eitt í dag og að ég væri að leita af vinum sem gætu tekið hann upp fyrir mig en það væri enn betra ef ég væri búin að fá stöðin fyrir þann tíma. Hún sagðist ætla að gera það sem hún gæti. Um tíu mínútum seinna var stöðin komin inn!!!!
Ég er ekki alltaf mjög hrifin af Telus sem fyrirtæki en þarna brugðust þeir mér ekki. Þið vitið hvað ég verð að gera klukkan eitt í dag!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hollustan tekin við
2.10.2007 | 06:22
Ég hef ákveðið að ég þurfi að léttast aðeins. Hef bætt á mig einhverjum kílóum í sumar og finn það á klifrinu. Hef meira að bera núna. Það er ekki gott. Þar að auki á maginn á mér það til að kvarta ef hann fær ekki nógu hollan mat. Það er óþægilegt en sniðugt að mörgu leyti. Það þýðir að ég get varla orðið mjög feit án þess að vera kvalin innan um mig.
Í gær var fyrsti dagur í heilbrigðu mataræði og í dag fór ég og keypti nóg af ávöxtum og grænmeti. Það má næstum borða endalaust af grænmetinu en ávextirnir eru pínulítið hættulegir. Manni finnst alltaf að maður geti borðað svo mikið af þeim af því þeir eru hollir en það er töluverður sykur í ávöxtum. T.d. er mikill munur á kaloríum í melónum annars vegar og t.d. vínberjum hins vegar. Annars eru eplin hrikalega góð núna.
Ef ekkert meir heyrist frá mér um þessa hollustu á næstu vikum þýðir það að ég hef tapað og ekki lést neitt. Annars mun ég segja frá, svona til að fá klapp á bakið. Það getur hjálpað mikið til.
Þetta þýðir að ég þarf líka að fara að drífa mig aftur út að hlaupa. Hef gert of lítið af því að undanförnu. Vona að ég fái einhverja þurra daga svo ég geti hlaupið í skóginum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Ég er víst Bankakaffi
1.10.2007 | 22:36
Tók kaffiprófið sem virðist svo vinsælt hér í bloggheimum. Er ekki viss um að ég eigi að flíka niðurstöðunum en læt það samt vaða.
Hvernig kaffi ert þú eiginlega?
Hér er nákvæmari lýsing:
Þú ert harðduglegur og vinnusamur einstaklingur sem mætir fyrstur allra á kontórinn og ferð síðastur heim. Vinnufélagar þínir líta upp til þín og hugsa með sér í hljóði hvaðan þú fáir alla þessa orku. Þeir vita ekki sem er. Þú færð nefnilega allan dugnaðinn úr bankakaffinu góða. Bankakaffi er samheiti fyrir gamla góða uppáhellinginn en dregur nafn sitt af ókeypis kaffi í bönkum. VARÚÐ: Ef bankakaffi fær að standa á brúsanum of lengi verður það súrt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
En hver var meðalþyngdin árið 1980?
1.10.2007 | 22:15
![]() |
Mælt með lífsstílsbreytingum til að minnka tíðni krabbameins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Villandi fyrirsögn
1.10.2007 | 07:17
Fyrirsögnin á þessari frétt "Fylgi ríkisstjórnarinnar 70% samkvæmt nýrri könnun" er mjög villandi því ekki virðist hafa verið spurt um afstöðu til ríkisstjórnarinnar, heldur hvaða flokk myndi kjósa ef kosið yrði nú. Enda segir í fréttinni sjálfri að samanlagt fylgi ríkisstjórnarflokkanna sé 70%. Það er akkúrat málið, samanlagt fylgi ríkisstjórnarflokkanna er 70%, ekki fylgi ríkisstjórnarinnar sjálfrar, þótt auðvitað megi segja að ríkisstjórnin hefði þetta fylgi á bakvið sig. En það er auðvitað ekki fráheyrt að fólk sem t.d. styður Samfylkinguna en er illa við Sjálfstæðisflokkinn myndi kjósa Samfylkinguna án þess að vera beinlínis stuðningsmenn núverandi ríkisstjórnar. Og svo auðvitað öfugt. Fyrirsögnin ætti því fremur að vera "Fylgi ríkisstjórnarflokkanna 70% samkvæmt nýrri könnun".
Þetta er kannski tittlingaskítur en staðreyndin er að þarna er munur á.
![]() |
Fylgi ríkisstjórnarinnar 70% samkvæmt nýrri könnun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Einu sinni var
1.10.2007 | 05:37
Munið þið eftir frönsku þáttunum Einu sinni var sem sýndir voru í sjónvarpinu einhvern tímann í kringum 1980 (og svo endursýndir um tíu árum síðar)? Þetta voru teiknimyndaþættir um sögu jarðar og voru sömu karakterarnir notaðir aftur og aftur. Aðalstrákurinn hét Pétur en ég man ekki nöfnin á hinum. Mikið vildi ég horfa aftur á þessa þætti. Það er hægt að fá þá á dvd á frönsku en því miður virðist ensk útgáfa ekki vera til.
Síðar voru gerðir sams konar þættir um framtíðina en þeir voru ekki nálægt því eins skemmtilegir.
Ástæða þess að mér duttu þessir þættir í hug er sú að sams konar byrjun var í nýjum Simpson þætti í kvöld.
Hér getið þið séð upphafsstefið úr frönsku þáttunum:
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Sitt lítið af hverju
30.9.2007 | 21:40
Lasin
Ég er svolítið lasin í dag. Fékk einhverja lurðu og hef verið nokkuð slöpp undanfarna daga en ekki beinlínis veik. Er að reyna að sofa þetta af mér. Svaf í eina fjórtán tíma í nótt og held það hafi verið gott fyrir mig. Miklu betri í dag.
Enginn fótbolti
Fótboltanum var frestað í dag enda búið að rigna stanslaust síðan um miðjan dag í gær. Það þýðir að stórir pollar höfðu safnast saman á vellinum og þá má ekki spila. Kannski eins gott fyrir mig, þá get ég látið mér batna í staðinn. En samt leiðinlegt að ekkert skuli hafa orðið úr fótboltanum því við vorum komnar á skrið.
Aðeins meira af hokkíinu
Í gær fór ég í mat til Rosemary og Dougs og við horfðum saman á Canucks-Edmonton leikinn í sjónvarpinu. Hann endaði 5-4 fyrir Canucks. Þetta var síðasti æfingaleikurinn í haust en á föstudaginn hefst NHL deildin fyrir alvöru. Það sem helst skyggði á þennan leik var að Rick Rypien, leikmaður Canucks, skellti Mathieu Roy hjá Edmonton illilega í fjalirnar og sá síðarnefndi var borinn af velli. Rypien fékk fimm mínútnur í boxinu fyrir vikið sem bendir til þess að brotið hafi þótt alvarlegra en venjuleg brot en ekki of alvarlegt. Það sem gerir þetta brott ólíkt broti Downie's aðeins degi áður (en hann fékk tuttugu leikja bann) var fyrst og fremst það að fætur Rypiens voru enn á jörðinni en Downie stökk upp til að höggið yrði sem mest. Þar að auki sá Roy Rypien koma en því var ekki þannig farið í leil Senators og Flyers. Vigneault, þjálfari Canucks, segir að Rypien hafi ekki gert neitt rangt og að það hafi verið rétt hjá dómurunum að reka hann ekki útaf það sem eftir lifði leiks. Þetta er hluti af leiknum. Ég segi enn og aftur, mér þykir þetta ljótur hluti af leiknum en ég er víst í minni hluta.
Úr málvísindadeild
Fréttirnar úr deildinni minni eru fremur dapurlegar. Í dag heyrði ég af skólasystur minni sem missti fóstur og aðeins nokkrum mínútum síðar heyrði ég af einum skólabróður mínum sem er nýhættur með kærustunni sinni. Hún hafði ekki fengið vinnu hér í Vancouver og þau höfðu reynt að halda úti fjarsambandi en það gekk greinilega ekki. Slík eru býsna erfið. En þau eru bæði ung og falleg og verða ábyggilega komin með nýja maka áður en ég skipti um sokka.
Spaugstofan
Ég horfði á Spaugstofuna áðan og fannst þátturinn aðeins betri en sá í síðustu viku. Þar munaði um Ladda sem er alltaf fyndinn. Jafnvel þótt atriðið með Eyjólfi og Magnúsi hafi í sjálfu sér ekki verið svo sniðugt þá get ég ekki annað en hlegið af Ladda sem Magnús. Hann er bara svo hrikalega fyndinn í því hlutverki. Mér fannst líka sniðugt atriðið með konunni sem var í Hagkaup að reyna að versla í Jamie Oliver rétt.
Bloggar | Breytt 1.10.2007 kl. 00:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Breytingar hjá Law & Order
29.9.2007 | 07:24
Og af því að ég var farin að tala um sjónvarpsþætti get ég allt eins haldið áfram um sinn - enda ekki orðin syfjuð þótt komið sé fram yfir miðnætti.
Uppáhaldsþátturinn minn í sjónvarpi hefur lengi verið Law & Order - sá upphaflegi, þótt ég horfi líka alltaf á SVU og stundum á CI. En nú eru framundan heilmiklar breytingar. Vegna þess að Fred Thompson hefur skellt sér í forsetaslaginn mun Arthur Branch láta af störfum saksóknara og aðstoðarsaksóknari, Jack McCoy, leikinn af Sam Waterston, tekur við af honum. Þetta er slæmt mál fyrir okkur aðdáendur Sam Waterstons því við munum sjá mun minna af Jack McCoy í komandi þáttum, enda saksóknarastaðan aldrei verið meira en aukahlutverk í þáttunum. Þó er betra að sjá hann halda áfram í smáhlutverki en að hann hætti í þáttunum, en Sam hefur áður sagt að hann sé orðinn nokkuð þreyttur á McCoy enda búinn að leika hann í ein ellefu ár.
Leikarinn Linus Roache mun koma inn í þættina sem nýr aðstoðarsaksóknari og Jeremy Sisto mun taka við sem félagi Jesse L. Martin. Mér hefur alltaf leiðst Sisto en ég verð að sætta mig við hann ef ég á að geta horft á þættina. Verst er að það er aðeins búið að skrifa upp á samning við Martin um 13 þætti þannig að það má allt eins vera að hann hverfi á braut um miðjan vetur. Með Waterston í smáhlutverki og Jesse Martin farinn er hægt að segja bless við L&O, þættirnir munu aldrei lifa það af.
Það er líka stórundarlegt að það á ekki að hefja nýju þáttaröðina fyrr en í janúar, á meðan flestar aðrar raðir koma til baka í september eða október. Og það má ekki einu sinni horfa á gamla þætti á meðan (nema þá eldgömlu þættina) vegna þess að forsetaframboð Fred Thompson gerir það að verkum að ekki má sýna neitt sjónvarpsefni með honum sem ekki viðkemur beinlínis forsetakosningunum. Fuss og svei.
Við þetta má bæta að leikarinn Adam Beach er genginn til liðs við L&O:SVU og í einni grein sem ég las var hann kallaður Native American. Síðast þegar ég vissi var hann kanadískur (meira að segja frá Manitoba - af Salteaux indjánum) og þótt Kanada sé í Norður Ameríku þá á hugtakið native american eingöngu við um indjána í Bandaríkjunum, ekki þá norðan landamæranna. Alltaf skulu þessir Kanar reyna að ræna hæfileikaríkum Kanadamönnum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)