Ný sjónvarpstíð hafin

Síðari hluti september er vanalega sá tími þegar sjónvarpsstöðvarnar koma með nýtt sjónvarpsefni, hvort sem er nýir þættir í gömlum seríum eða glænýjar seríur. Þetta hefur glatt mig ákaflega og í þessari viku hef ég séð nýja þætti frá Law & Order:SVU, Shark, Without a trace, Ghost Whisperer og Ugly Betty. Ég veit að Supernatural kemur til baka í næstu viku, svo og Desparate housewifes, en hins vegar eru þættirnir um Veronicu Mars búnir að vera. Það er mikil synd því þeir þættir voru með því besta í sjónvarpinu.

Í kvöld sá ég líka nýjan þátt, Moonlight, og satt að segja er ég ekki viss um að ég muni horfa á fleiri þætti í þeirri röð - nema ef vera skyldi vegna þess að það má alveg horfa á aðalleikarann. Þetta er þáttur um einkaspæjara sem er...og haldið ykkur nú...vampíra! Jebb, ég er ekki að ljúga þessu. Minnir þetta eitthvað á Angel og Buffy? Í fyrsta þættinum er kona drepin og tvö tannför finnast á háls hennar. Vampírur borgarinnar óttast þetta mjög því þær vilja að sjálfsögðu ekki að fólk fari að trúa á vampírur og setja þannig líf tegundarinnar í hættu. Mín spá er sú að þetta verði ekki langlífir þættir. 

Fyrr í vikunni sá ég annan nýjan þátt sem var mun skemmtilegri. Sá heitir Reaper og er dökkur grínþáttur. Hann fjallar um ungan mann sem kemst á því á tuttugu og eins árs afmælinu sínu að áður en fæddist seldi foreldrar hans djöflinum sál frumburðar síns. Nú á hann sem sagt að vinna fyrir djöfulinn við það að finna sálir sem sloppið hafa úr helvíti, og senda þær aftur niðurávið. Þetta var þrælfyndinn þáttur og lofar ágætu. 

Já, það verður athyglisvert að sjá hvað sjónvarpsstöðvarnar koma með í þetta skiptið. 


Rauða kindapeysan mín

Ég fór á tvo fundi uppí skóla í dag og í tilefni dagsins fór ég í rauðu kindapeysuna mína frá Ósóma. Ég held að ég hafi verið eina manneskjan í rauðu. Veit ekki af hverju. Fékk hins vegar komment á að peysan væri flott!
mbl.is Fólk hvatt til að mæta í rauðum bolum á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íþróttir og fjármálaheimurinn

Tvö mál úr réttarsölum Bresku Kólumbíu hafa fyllt síður blaðanna í allt sumar. Annars vegar er það málið yfir svínabóndanum og fjöldamorðingjanum Robert Picton og hins vegar málið um eignaréttinn yfir fyrirtækinu Orca Bay, sem á hokkíliðið Vancouver Canucks og GM Place höllina.

Fyrra málið er óhugnanlegt og ég er löngu hætt að lesa um smáatriðin þar enda ekki erfitt að kúgast við þann lestur. Síðara málið hef ég hins vegar drukkið með morgunverðinum. Málahættir eru þessir:

Árið 2003 tóku þrír auðjöfrar í Vancouver, Tom Gagliardi, Ryan Beedie og Francesco Aquilini, sig saman og buðu í félagið Orca Bay, þá í eigu bandaríska auðjöfursins Sam McCaw. Lítið gekk í samningsmálum og nokkrum mánuðum síðar dró Aquilini sig út úr samstarfinu. Gagliardi og Beedie héldu áfram viðræðum við Stan MacAmmon, aðalsamningamann McCaws en ekkert gekk. Ár var liðið og aðilar höfðu ekki náð saman. Gagliardi og Beedie trúðu því að McCaw vildi ólmur selja og myndi því sætta sig við lægra verð og þeir héldu því áfram að reyna að ná verðinu niður. Einhvern tímann um sumarið 2004 reyndi Aquilini að koma aftur inn í samstarfið en var hafnað. Það var svo í nóvember 2004 að Aquilini gerði McCaw boð í 50% eignahluta í Orca Bay og á innan við tveim vikum höfðu þeir náð samkomulagi. Síðar keypti Aquilini afganginn af félaginu og er því eini eigandi liðsins og bygginganna.

Í vor kærðu svo Gagliardi og Beedie þá Aquilini og McCaw og ásökuðu þá um óheiðarlega viðskiptahætti. Vilja þeir m.a. meina að af því að Aquilini var um tíma hluti af boði þeirra þá hafi hann vitað of mikið um smáatriði í tilboðum þeirra og hafi því ekki átt rétt á að bjóða á móti þeim. Þeir vilja líka halda því fram að viðræður milli Aquilini og McCaw hafi hafist áður en McCaw sagði þeim Gagliardi og Beedie að hann væri hættur viðræðum við þá. Þessu hafa Aquilini og McCaw alltaf neitað en margt bendir til þess að þeir séu að fela sannleikann. Hvorugur þeirra síðarnefndu kom mjög vel út úr vitnaleiðslum. Hitt er annað mál að í upphafi sökuðu þeir Gagliardi og Beedie Aquilini um ýmislegt sem þeir hafa síðar dregið til baka, þannig að það virðist ljóst að hér er leikið af hörku og ekki hikað við að skjóta aðra í bakið.

Þetta mál hefur verið fyrir rétt síðan einhvern tímann síðasta vor og nú virðist loks vera að styttast í málalok. Ég get ekki séð að neinn hér sé góði gæinn en að mörgu leyti vona ég að þeir Gagliardi og Beedie tapi málinu. Í fyrsta lagi vegna þess að ég held að það sé ekki gott fyrir liðið ef allt í einu skiptir um eigendur núna. Í öðru lagi sýnist mér að þeir séu ekkert betri gæjar en Aquilini og yrðu ekkert betri fyrir félagið. Og í þriðja lagi virðist Aquilini hafa gert ýmislegt gott með félagið. Alla vega stóðu kanúkarnir sig betur í fyrra en þeir hafa gert í mörg ár. Ég held reyndar að þar hafi gert gæfumuninn þjálfarinn Vigneault og frábærir samningar framkvæmdastjórans Nonis. En þessir menn eru auðvitað báðir starfsmenn Aquilinis og hann hefur alla vega haft vit á að hafa hæfileikamenn í mikilvægustu stöðum.


George er enn saknað

Þótt George heitinn Harrison hafi líklega verið í síðasta sæti hjá mér á vinsældalista Bítlanna þýðir það ekki að hann hafi ekki verið snillingur. Hann var án efa frábær gítarleikari, vel frambærilegur söngvari og átti það til að vera magnaður lagasmiður. Lögin Something, Here comes the sun og While my guitar gently weeps eru t.d. alveg meiri háttar lög og án efa með því besta sem hann gerði.

Fyrir nokkrum árum las ég bók um George og lærði þar ýmislegt. Líf hans var mjög athyglisvert að mörgu leyti, og kannski sérstaklega árin eftir að Bítlarnir hættu. Hann varð mjög þunglyndur og hreint út sagt sérvitur. Eitt sinn á tónleikum hundskammaði hann meira að segja áhorfendur og var með  leiðindi. Fólk gekk út. Það verðu athyglisvert að sjá þessa mynd.

Þegar ég sá Paul spila í Air Canada höllinni í Toronto 13 apríl 2002 var ekki langt liðið frá dauða George. Honum til heiðurs tók Paul því upp ukulele (en mér skilst að George hafi spilað mikið á ukulele sér til gamans - það sést m.a. í Anothology þáttunum) og spilaði lagið Something á meðan myndir af George voru sýndar á stórum skjá. Ég held að það hafi ekki verið þurr vangi í höllinni. 

 


mbl.is Martin Scorsese gerir mynd um George Harrison
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Harkan að aukast

Hokkí-tímabilið hefst ekki fyrir alvöru fyrr en í næstu viku en nú þegar hefur komið upp alvarlegt atvik í leik sem minnir á atvikið fyrir þremur árum þegar Todd Bertuzzi hálsbraut einn leikmanna Colarado. Að þessu sinni var það nýliði Philadelphia Flyers, Steve Downie, sem lét öxlina vaða í höfuð leikmanns Ottawa Senators, Dean MacAmmond sem borinn var af leikvelli. Ekkert brotnaði en hann fékk slæman heilahristing og þar sem það er í annað skiptið sem það gerist (var laminn af öndinni Chris Pronger í vor) er óvíst með framtíð hans í hokkíinu. Málið er að þetta er ekki beinlínis Downie að kenna. Hann er ungur strákur sem er að reyna að vinna sér sæti í liðinu með því að sýna líkamsstyrk. Anaheim Ducks spiluðu mjög harkalegan leik í fyrravetur og uppskáru bikarinn og það virðist hafa haft áhrif á önnur lið sem hafa reynt að koma harðari til leiks í æfingaleikjunum undanfarið. Ég sá það svo sannarlega í leik Calgary og Vancouver um daginn. Það má því búast við breyttum leik í vetur - svona meira í stíl við hvernig leikið var á níunda áratugnum

Hér getið þið séð atvikið í leiknum í gær:
 

 
Hér má sjá annað vídeó þar sem tekin eru saman verstu atriðin í hokkíinu undanfarin ár. Takið eftir að fréttin hefst á árás Bertuzzis á Steve Moore og endar á athugasemd þess sama Bertuzzi fjórum árum áður þegar félagi hans hjá Canucks var sleginn í höfuðið með kylfu:
 

Breyttar áherslur við krabbameinsskoðun

Ég sá athyglisverða frétt í sjónvarpinu áðan. Kanadíska krabbameinsfélagið hefur sent út þau skilaboð til kvenna að mánaðarleg sjálfsskoðun sé ekki sérlega gagnleg og aðalatriðið sé fyrir konur að þekkja brjóst sín vel. Ég segi nú að ég er ekki alveg með það á hreinu hvernig við eigum að þekkja brjóstin án þess að skoða þau reglulega. Og af því að ég skil þetta ekki almennilega þá hvet ég ykkur til þess að lesa greinina sjálf. Hana má finna á vef CBC hérna. Kannski þið náið þessu betur en ég.

Dauði á Smashing Pumpkins

Smashing Pumpkins léku hér á PNE Forum á mánudagskvöldið og því miður gerðist sá sorglegi atburður að tvítugur tónleikagestur lét lífið. Ekki er vitað nákvæmlega hvað gerðist. Hann var í þvögunni fyrir framan sviðið og tveir menn drógu hann út úr þvögunni og kölluðu á hjálp. Sjúkraliðar komu að skömmu síðar en náðu ekki að bjarga manninum. Hann dó á sjúkrahúsi skömmu síðar.

Fréttum ber ekki saman um aðstæður á tónleikunum. Tónleikahaldarar segja að þvagan hafi verið róleg og lítið hafi verið um svo kallað 'crowd-surfing'. Margir tónleikagestir hafa aðra sögu að segja og vilja meina að töluvert hafi verið um slíkt. Hallur og Birna fóru á tónleikana (þau sendu mér sms stuttu fyrir tónleikana og sögðu mér að enn væri hægt að fá miða en ég fattaði ekki að tónleikarnir voru það kvöld og athugaði ekki málið fyrr en klukkan ellefu um kvöldið). Birna sagði mér að hún hefði skamma stund staðið í þvögunni en að henni þrengdi of mikið svo hún lét öryggisverðina draga sig út úr og flúði í staðinn upp í tröppur. Hallur stóð hins vegar allan tímann fyrir framan sviðið en varð ekki var við það sem gerðist.

Það er alltaf sorglegt þegar svona gerist. Ungur maður fer á tónleika og lifir það ekki af. Þetta er annað dauðaslysið sem verður á Smashing Pumkin tónleikum. 


Jafnréttið á fyrri tímum

Það er skemmtilegt að sjá hvernig jafnréttið var í raun á sjötta áratugnum. Hér má sjá tvær myndir. Sú efri er af kassa utan af orustuleik og sú neðri er stækkuð mynd af sama kassa þar sem fókusinn er á efra horn til hægri. Sjáið hvað mamma og Sigga eru að gera á meðan pabbi og Palli leika sér!

 

 


Reynsla mín af Stamford Bridge

Sumarið 1998 fór ég til Englands og var þar í nokkra daga. Mig langaði mikið á leik með Arsenal en á þessari viku sem ég var þarna spiluðu þeir engan heimaleik, aðeins einn leik á útivelli gegn Chelsea. Oft fá aðkomuliðin aðeins um 2000 miða á hvern leik og þessir miðar fara yfirleitt alltaf til þeirra sem eiga ársmiða á leiki félagsins. Það var því ekki nokkur leið að fá sæti í gegnum Arsenal. Ég hringdi því í íslenska ferðaskrifstofu sem mér var sagt að seldi miða á leiki í ensku úrvalsdeildinni. Ég fékk næstum því hjartaáfall þegar mér var sagt hvað miðarnir myndu kosta því það var vel yfir tíuþúsund kall. Ég fékk hóstakast og náði að stynja upp úr mér einhverri spurningu um hvers vegna verð væri svona svívirðilega hátt og fékk að vita að ferðaskrifstofan fengi miðana frá söluaðila sem keypti þá af klúbbnum. Það hvarflaði ekki að mér að kaupa miða á þessu verði svo ég ákvað að prófa annað ráð. Ég skrifaði beint til Chelsea og bað um miða á leikinn, ásamt því að gefa þeim upp upplýsingar um vísakortið mitt. Um viku seinna fékk ég miða á ódýrasta stað fyrir skít á priki (um 2000 krónur).

Eini gallinn við þetta var auðvitað að ég sat innan um 40.000 Chelsea aðdáendur með hjartað í buxunum yfir því að ef Arsenal skoraði myndi ég kannski gleyma mér og stökkva upp af fögnuði. Það reyndist ónauðsynlegur ótti því leikurinn fór 0-0. Kannski eins gott fyrir mig. Þar að auki hefði ég aldrei séð mark ef það hefði verið skorað því í hvert sinn sem boltinn nálgaðist annað hvort markið stóðu allir upp og ég sá ekki baun.

En það var auðvitað magnað að fara á leik og ég prófaði meira að segja að borða pylsurnar þeirra sem eru beinlínis pylsa í brauði með sirka fjórum hráum laukum, vaðandi í olíu. Athyglisvert. 


mbl.is Chelsea lækkar miðaverðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki annar þjófanna

Og enn gerir mogginn ráð fyrir að þetta sé annarra þjófanna:

"Svo virðist því sem annar þjófurinn hafi útvegaði lögreglu betri myndir af sér með þessum sérstaka hætti."

Skoðið myndirnar af þjófunum: http://billmacewen.com/blog/2007/09/24/more-images/ 
og berið svo saman við myndina af manninum á flickr: http://www.flickr.com/photos/workspace/1431892021 

Þessi maður er hvorugur þjófanna. Alveg eins og ég sagði í gær hér þá hefur þessi maður keypt tölvuna af þjófunum. Það að hann er góðkunningi lögreglunnar kemur ekkert á óvart enda segja menn að þetta tattú á honum sé fangelsistattú, og þar að auki hefur hann ábyggilega vitað þegar hann keypti tölvuna að hún var illa fengin, en í guðanna bænum hættið að klifa á því að þetta sé annar þjófanna.


mbl.is Meintur þjófur, sem birti mynd af sér á netinu, gaf sig fram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband