Annar sigurleikur hjá Presto
26.9.2007 | 06:31
Í kvöld lékum við okkar annan leik í fjórðu deildinni í Vancouver. Þessi leikur átti upphaflega að fara fram 16. september en var frestað vegna verkfalls borgarstarfsmanna. Deildin er að reyna að finna velli fyrir leikina og þess vegna enduðum við á því að spila á þriðjudagskvöldi í Burnaby. Birna kom og spilaði með okkur í fyrsta sinn. Hún er fantagóð.
Við lékum á móti Burnaby Tigers og hófum leikinn mun betur en þær. Það gekk þó ekki að skora lengst af ég er viss um að fyrri hálfleikur var hálfnaður áður en við náðum að pota boltanum inn. Ég tók knöttinn upp hægri kantinn og sendi fyrir markið þar sem Jodi reyndi að sparka boltanum en hann lenti í varnarmanni og barst til Melissu sem þrusaði boltanum inn. Ekkert meira gerðist í þeim hálfleik en bæði lið áttu nokkur ágæt tækifæri.
Eftir hálfleik komu tígrarnir sterkari til leiksins og ég var dauðskelkuð um að við fengjum mark á okkur. Enda gerðist það þegar skammt var liðið á hálfleikinn. Ein þeirra komst ein inn fyrir og skaut boltanum fram hjá Elise í markinu. Næstu tíu mínúturnar eða svo spiluðu þær mun betur en við og boltinn kom varla yfir á þeirra leikhelming. En loksins náðum við að hrista af okkur slenið og fórum að spila almennilega. Annað mark okkar kom svo um miðjan seinni hálfleik. Ég fékk boltann (held ég frá Birnu) og skaut að marki en náði ekki að koma boltanum í gegn, hann barst út aftur, var sparkað til baka og varnarmenn tígrana voru eitthvað klaufalegir og misstu boltann frá sér. Ég var sem betur fer vel vakandi, rauk á boltann og þrumaði honum í netið. Staðan 2-1 fyrir okkur. Um tíu mínútum síðar fékk ég boltann aftur frá Birnu (hún var að spila á miðjunni og náði að stjórna spilinu þar betur en hefur verið gert síðan Connie hætti með liðinu fyrir þremur árum). Ég tók hann upp hægri kantinn (eins og minn er vaninn) en markvörðurinn þrengdi vel að skotinu. Ég var að hugsa um að skjóta samt sem áður en sá þá Benitu koma upp vinstra megin með varnarmann á sér en ég treysti henni til að losa sig við slíka smámuni svo að í stað þess að skjóta að markinu renndi ég boltanum yfir til Benitu sem þrumaði honum inn. Staðan 3-1 og þannig fór leikurinn.
Við spiluðum ágætlega á köflum en það var margt illa gert líka. Vörnin á enn í vandræðum með að hreinsa og miðjan nær ekki alltaf að tengja vörn og sókn. Birna sem er frábær varnamaður færði sig á miðjuna og breytti því. Hún getur þrusað boltanum lengra en flestir aðrir í liðinu og ég vona að hún haldi áfram og að hún taki miðjuna að sér. Það munar svo ótrúlega miklu að hafa sterka manneskju þar.
En við erum ánægðar. Búnar að spila tvo leiki og vinna þá báða. Markahlutfallið er 7-2 þannig að við getum ekki kvartað. Nú er bara að halda uppteknum hætti. Næsti leikur er á sunnudaginn en það er spurning hvort hægt verður að spila þar. Völlurinn er í Vancouver og við vitum aldrei hvenær hann verður dæmdur ónothæfur. Við vitum að hann var notaður um helgina þannig að við vonum að allt verði í lagi. Það er svo slæmt að missa úr. Sérstaklega þegar maður er í góðum gír.
Annars lítur veturinn vel út. Við erum í góðum hóp liða sem við höfum spilað á móti áður og ég myndi segja að aðeins eitt þeirra, North Shore Sains sé betra lið en við. Hin liðin eru öll svona svipuð að getu. Við höfum unnið þau öll en líklega einhvern tímann tapað fyrir þeim líka. Það þýðir að spennandi keppni er framundan. Ég held að það sé raunhæft að setja stefnuna ekki neðar en á annað sætið. Á góðum degi getum við líka unnið North Shore.
Mínir menn í Vancouver Canucks stóðu sig ekki eins vel í hokkíinu um helgina. Töpuðu fyrir San Jose Sharks 1-3 og fyrir Anaheim Ducks 0-5. Það má segja þeim til varnar að þeir spiluðu að mestu með varaliðið sitt. Önnur ástæða þessa var sú að 4 af 6 varnarmönnum Canucks voru meiddir og 3 af 9 sóknarmönnum, og hin ástæðan er sú að Vigneault er enn að prófa ungu strákana því hann er ekki enn viss hverjum hann vill halda í aðal liðinu og hverja hann vill senda til Manitoba í frekari þjálfun. Randy Carlyle hjá Anaheim er hins vegar búinn að gera upp hug sinn og sendi því aðal liðið sitt í leikinn. Miklu munaði líka um það að Luongo stóð ekki á milli stanganna og það munar nú um minna. Almennt voru báðir þessir leikir vonbrigði. Á morgun spila þeir seinni leikinn við San Jose og búist við að meiddu leikmennirnir verði flestir tilbúnir í slaginn. Það er því vonandi að þeir sýni hvað í þeim býr.
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 06:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ekki nógu nákvæm frétt
25.9.2007 | 19:30
Fréttin á mogganum um kanadíska þjófinn sem hlóð mynd af sér á netið er mjög ónákvæm og væri kannski betra fyrir moggann að taka hana frá kanadískum blöðum en úr dönskum blöðum.
Ég er búin að reyna að blogga um fréttina en tengingin datt út. Ég veit ekki hvort ég gerði eitthvað vitlaust eða hvort lokað var á það. Ég prófaði nokkrum sinnum og varð alltaf að henda út færslunum því það kom aldrei tenging á milli. En hér er umrædd frétt ef þið hafið ekki séð hana: http://www.mbl.is/mm/folk/frett.html?nid=1293278v
Í fyrsta lagi, það veit enginn hvort þetta er þjófurinn eða ekki. Þetta gæti t.d. verið einhver sem keypti stolnu tölvuna af þjófnum. Sex tölvur voru teknar við innbrotið og ég efast um að þjófarnir haldi öllum tölvunum til einkanota. Þar að auki náðust myndir af þjófunum tveim á öryggismyndavél fyrirtækisins og þessi náungi virðist hvorugur þeirra. Hér er myndin af þjófunum: http://billmacewen.com/blog/2007/09/24/more-images/
Í öðru lagi hlóð maðurinn myndinni ekki inn á netið sjálfur. Tölvan var útbúin einhvers konar búnaði sem var þannig að um leið og ákveðið forrit var notað til að taka myndir þá sendi forritið myndina beint inn á flickr. Þetta var ekki sett upp sem öryggisatriði heldur var vélinni stillt upp í fyrirtækinu þaðan sem henni var stolið, og gerðu starfsmenn þetta sér til gamans að þegar fólk tók myndir af sér með PhotoBooth þá var myndin strax send á flickr. Ef þið farið á síðuna sem vísað var á í fréttinni (http://www.flickr.com/photos/workspace/) sjáið þið einmitt alls konar fólk á staðnum. Þetta þýðir að þegar maðurinn umræddi notaði forritið til að taka af sér mynd þá var myndin umsvifalaust á flickr síðu fyrirtækisins (Workspace). Hann var því kannski ekki gáfaður en ekki nærri eins heimskur og halda má miðað við fréttaflutninginn hér. Enda er alveg ljóst að ef hann hefði sent myndina sjálfur inn á eigin flickr síðu hefði enginn vitað af því að um þessa tölvu var að ræða. Lögreglan liggur ekki á netinu og skoðar númerið á öllum tölvum sem tengjast netinu. Það var af því að myndin fór inn á þessa ákveðnu síðu sem þetta komst upp.
Það gæti vel verið að þessi maður hafi átt þátt í þjófnaðnum en það er líka alveg mögulegt að hann hafi bara keypt tölvuna af þjófunum. Þetta er svona kanadískt lúkasarmál.Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Um dásemdir baðferða
25.9.2007 | 18:39
Ég held svei mér þá að baðkör komist á topp tíu listann yfir bestu uppfinningarnar. Það er hreint ótrúlega gott að liggja í heitu baði og slaka á. Ég segi nú bara sturta schmurta (eða sturta hvað?). Tek baðkarið fram yfir anyday. Þegar mér líður illa eða er í vondu skapi læt ég oft renna í bað og það er fátt sem hjálpar betur í slíkum tilfellum. Enda var það orðið þannig þegar ég bjó með Tim að ef honum fannst ég ekki nógu kát þá lét hann renna í bað fyrir mig. Sérstaklega þegar ég var eitthvað að gribbast (sem var nú oftast ef ég var orðin of svöng - og þá var stundum betra að borða bara eitthvað).
Í ultimate á sunnudaginn gerði Ryan einhvern fjandann við annan kálfvöðvann á sér. Hann var alla vega draghaltur og gat ekki haldið áfram að spila. Hann dauðskammaðist sín vegna þess að hann sagði að það hefði í raun ekkert gerst. Hann var bara að hlaupa og fékk allt í einu þennan hroðalega verk í vöðvann. Hann keyrði mig heim á eftir og ég sendi hann heim með þau skilagoð að fara í heitt bað til að slaka á. Stundum gerist það að vöðvarnir kreppast saman til að verja eitthvað sem þeir halda að séu meiðsli. Þá er aðalatriðið að teygja á vöðvunum og fá þá svo til að slaka á og verkurinn sama sem hverfur. Þetta hefur komið fyrir mig í fótboltanum og sjúkraþjálfi sem þá var með einni stelpunni í liðinu sýndi mér hvað ætti að gera. Alla vega, í gær þegar við Marion fórum að klifra spurði ég hana að því hvernig Ryan hefði það og hún sagði að hann hlyti að hafa verið hrikalega sár því hann hefði farið í bað þegar hann kom heim og verið þar í þrjá klukkutíma. Við þetta bætti hún: "Ég er alltaf að reyna að draga hann í bað en hann vill ekki sjá það. En þarna fór hann sjálfviljugur." Þegar ég sagði henni að ég hefði skipað honum að fara í bað varð hún hálf móðguð og sagðist ekki skilja af hverju hann fer í bað þegar ég segi það en ekki þegar hún segir það. Kannski hann hafi meiri trú á mínum ráðum við íþróttameiðslum en Marion sem harðneitar að stunda neitt sem inniheldur hlaup.
En það sem ég vildi segja: Baðferðir eru dásamlegar.
Mæli samt með því að fólk hafi vakandi auga yfir baðinu á meðan látið er renna í það. Hef einu sinni látið flæða úr baði yfir öll gólf (parket) heima hjá mömmu og pabba. Það var ekki vinsælt. En í staðinn fékk mamma alveg nýtt gólf og drifið var í breytingum sem hún hafði hvort eð er alltaf viljað láta gera! Þannig að kannski var það lán í óláni að ég gleymdi mér yfir Mogganum frammi í eldhúsi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Bara svona venjulegur dagur.
25.9.2007 | 06:27
Þetta var tíðindalaus dagur. Svaf alveg til níu og tók morguninn rólega. Gerði nokkra hluti sem ég þurfti að gera en gekk ekkert fram af mér. Hitti Marion í Cliffhanger á hádegi og við klifruðum í tæpa tvo tíma. Ég stóð mig þokkalega. Okkar vanalega strákagengi var ekki á staðnum. Með haustinu virðist stundaskrá allra hafa riðlast og maður rekst ekki á sama fólkið lengur á sama tíma. Sumir eru náttúrulega í skóla og eru farnir að mæta í tíma en það á ekkert við um alla.
Eftir að ég kom heim vann ég að nýrri grein sem ég ætla að skrifa byggða á nýjustu hugmyndum mínum um framvinduhorf og um fimm leytið hringdi Tim í mig. Við höfum ekki talað saman lengi þannig að við við höfðum um margt að spjalla. Eftir að ég kvaddi hann fékk ég mér kvöldverð (þessa fínu pítu með íslensku pítusósunni sem Axel og María færðu mér - takk fyrir það), vann svolítið að ritgerðinni og horfði svo á sjónvarp. Í kvöld var sýndur fyrsti þátturinn í nýrri seríu um Mr. Monk. Frábært. Hann var góður að venju. Gott að vetradagskráin er að hefjast.
Sem sagt, ekki frá neinu að segja en bloggaði samt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Íslendingapartý númer tvö
24.9.2007 | 21:32
Hið óopinbera Íslendingafélag Vancouverborgar hélt samkomu númer tvö í gær. Að þessu sinni var haldin grillveisla á Spanish Banks ströndinni, enda hver orðinn síðastur að njóta góða veðursins.
Partýið var skipulagt á Fésbókinni og ákveðið að hver kæmi með sitt. Engin grill eru á ströndinni svo ráðið var að koma með einnota grill. Halldóra og Sveinbjörn voru reyndar þau einu sem fundu slíkt enda sumarið búið og flestar verslanir búnar að læsa niður grillvörum. En þau gripu með sér þrjú, Eiríkur kom með venjulegt kolagrill og Lína og Alex bjuggu til sitt eigið (hafið samband við þau ef þið viljið skoða snilldina). Þetta dugði vel og ekkert vandamál var að grilla ofan í alla. Ég greip með mér þessa fínu nautasteik og borðaði hana með grilluðum aspas og sænsku kartöflusalati (auk þess sem ég stal frá öðrum Íslendingum - nei ég stal því ekki, allt var bara sett á borðið til almenningsnota).
Við vorum heldur fleiri en á Bimini kvöldinu því nú var hægt að koma með börnin. Gunnar og Suzanne komu með Yrsu en unglingurinn Elísabet nennti ekki að mæta. Hallur og Andrea komu með Fönn og Dögun og Eiríkur kom með sinn litla Trausta. Svo voru það Lína og Alex, Halldóra og Sveinbjörn, Birna og svo ég, af þeim sem áður höfðum mætt. Í hópinn bættust svo Katrín, Ómar og Wilhelm. Ómar hafði ég reyndar hitt nokkrum sinnum áður en hann kom hingað í fyrra.
Þetta var hin fínasta veisla. Ég held að allir hafi náð að kynnast nokkuð, maturinn var góður og félagsskapurinn auðvitað súper. Þegar sólin settist kólnaði töluvert og flíspeysur og annar kuldafatnaður var dreginn fram (af þeim sem voru viðbúnir kvöldinu). Það er orðið dimmt fyrir átta núna. Þetta breytist svo ótrúlega hratt. Næsta mánuðinn verður dimmra með hverjum deginum því þegar klukkunni verður breytt í lok október verður orðið dimmt um sex leytið (og þar af leiðandi um fimm leytið um leið og klukkunni er breytt). En kuldinn gerði það að verkum að okkur leið eins og við værum heima á Íslandi. Annars læt ég þetta hljóma eins og við höfum verið óheppin með veður. Það er alls ekki rétt því í raun var veðrið alveg frábært því það var sól og blíða þegar við mættum á svæðið um miðjan dag, eftir alla rigninguna síðustu viku og eins og sjá má á myndum vorum við fremur léttklædd. Það var bara þegar myrkrið skall á sem kólnaði. Það var meira að segja dögg í grasinu og bakpokinn minn var blautur þegar ég setti hann á bakið. En smá kuldi er ekkert fyrir Íslendinga. Þetta var frábær dagur. Og til að toppa þetta allt þá komu tónlistarmenn og söfnuðust saman rétt hjá okkur þannig að við höfðum tónlist til að hlusta á allt kvöldið. Þetta fólk safnast víst saman á hverju sunnudagskvöldi allt sumarið og spilar saman. Og hver sem er getur tekið þátt. Sniðugt.
Ég saknaði þess aldrei sérlega að hafa ekki fleiri Íslendinga í kringum mig en nú þegar ég hef fleiri í nágrenninu er ég ákaflega ánægð. Það er svo margt sem við eigum sameiginlegt og sem greinir okkur frá Kanadamönnunum. Þótt ég verði oft ógurlega pirruð á íslensku þjóðfélagi þá eru Íslendingar upp til hópa gott fólk og ég er ánægð með að geta talað móðurmálið oftar.
Nú er bara spurningin hvað hið óopinbera Íslendingafélag gerir næst.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Ferill Ralph Fiennes
23.9.2007 | 04:15
Í kvöld horfði ég á bíómyndina Land of the Blind sem var óhugnaleg og leiðinleg mynd sem fékk lélega dóma á sínum tíma. Eina ástæða þess að ég leigði myndina var sú að Ralph Fiennes var í aðalhlutverki og hann hefur í mörg ár verið einn af mínum uppáhaldsleikurum. En ég veit eiginlega ekki hvað hefur komið fyrir feril hans.
Hann vakti fyrst athygli fyrir hlutverk sitt sem Amon Goeth í kvikmyndinni Schindler's List og fékk að launum óskarstilnefningu. Konur um allan heim sátu í kvikmyndasölum og skömmuðust sín fyrir að hrífast af hinum óhugnalega Goeth. Í kjölfarið fylgdi hlutverk Charles Van Doren í mynd Roberts Redfords, Quiz show og síðan framtíðamyndin Strange Days. Ári síðar fékk hann aðra óskarstilnefningu, að þessu sinni fyrir hlutverk sitt sem Count Laszlo de Almásy í kvikmyndinni The English Patient og enn var kvenþjóðin heltekin. En þá var toppnum eiginlega náð og myndirnar sem á eftir fylgdu hafa verið blanda af ömurlegum myndum eins og The Avengers og Maid in Manhattan, listrænum en fremur leiðinlegum myndum eins og The End of the Affair, Onegin og Oscar and Lucinda, og góðum en vanmetnum myndum eins og Spider og The Constant Gardner. Ég skil reyndar ekki enn af hverju einu verðlaunin sem hann fékk fyrir Spider voru Evrópsku kvikmyndaverlaunin. Hann var stórkostlegur í þeirri mynd og ég var sannfærð um það þegar ég gekk út af myndinni að hann fengi óskarinn fyrir frammistöðuna þar. Sama má segja um The Constant Gardner og ég man að Jay Leno var sammála mér þar því þegar Ralph kom í viðtal hjá honum um það leyti sem myndin var frumsýnd kvaddi Leno hann með orðunum: See you at the Oscars. Margir aðrir voru sammála þar því hann var tilnefndur til alls fjögurra verðlauna fyrir þá mynd og vann þrjú þeirra. Það kom þó ekki nálægt þeim fjölda tilnefninga sem hann fékk fyrir Schindler's List.
Ég sá Ralph í fyrsta sinn 1993 og var sannfærð um að hann ætti að verða stórstjarna og eftir vinsældir The English Patient virtist allt stefna í þá átt. En síðan gerðist eitthvað. Ég held að það hluti að hafa með hlutverkaval hans að gera. Hann hefur hreinlega ekki valið vel. Það getur varla verið neitt annað því maðurinn er stórkostlegur leikari og ég efa að nokkur geti neitað því, og að auki er hann gullfallegur. Þegar þetta tvennt fer saman við tvær óskarstilnefningar og getuna til þess að velja á milli hlutverka þá ætti að vera hægt að ná toppnum. En það klikkaði hjá Ralph. Hann er þekktur og vel metinn leikari en telst varla stórstjarna.
Kannski eru ekki allir sammála mér hér og sjálfsagt er það spursmál hvað það er nákvæmlega að vera stórstjarna. En enginn efast um að stórstjörnurnar eru fólk eins og Brad Pitt, Tom Cruise (þótt ég skilji ekki af hverju), Nicole Kidman, Julia Roberts, Denzel Washington, ofl. ofl. Þetta fólk fær aðsókn á myndir sínar, alveg sama hversu lélegar þær eru. Það er sjaldgæft að myndir þeirra fari beint á dvd, eða sama sem.
Hversu margir hafa séð nýrri myndir Ralph Fiennes (aðrar en Harry Potter)? Hversu margir sáu t.d. Land of the Blind, The White Countess, Chromophobia? Eða myndirnar sem hann gerði undir lok tíunda áratugarins og í byrjun núverandi áratugar; myndir eins og Sunshine, Onegin, The End of the Affair, Spider, The Good Thief? Ég er aðdáandi Ralph en af þessum myndum sá ég aðeins tvær þær síðastnefndu í bíói. Einfaldlega af því að þær stoppuðu svo stutt í kvikmyndahúsunum að það var hætt að sýna þær áður en ég fór í bíó. Ég varð því að fara á leigurnar.
Ojæja, hann er alla vega nógu stór til þess að fá kvikmyndahlutverk svo maður getur séð hann í nýjum myndum af og til og á þessu ári og hinu næsta fáum við að sjá hann í sex nýjum myndum. Svo ég er svo sem ekkert að kvarta. Ég er bara hissa á því að hann varð ekki stærri.
Alveg að verða hálf-kanadísk
22.9.2007 | 17:53
Ég fór í heljarinnar læknisskoðun í gær sem auk hinnar venjulegu læknisskoðunar (hlustun, kíkja í eyru og háls, berja með hamri í hné ...) innihélt röntgenmynd af brjóstkassa, þvagprufu og blóðprufu (þar sem helst er leitað að syphillis og HIV). Allt tók þetta um klukkutíma og tæplega þrjúhundruð dollara (18.000 krónur). Og ástæðan? Kanadamenn vilja ekki gefa veiku fólki ótakmarkaða landvist. Þessi læknisskoðun var sem sagt hluti af innflytjendaumsókn minni.
Fyrir þá sem ekki vita er hægt að dvelja í Kanada á ferns konar leyfum: 1. Sem ferðamaður (takmarkað við sex mánuði); á tímabundnu dvalaleyfi (svo sem atvinnuleyfi eða námsleyfi, lengd mismunandi eftir aðstæðum); á ótakmörkuðu leyfi (permanent residency - hægt að vinna og fara í skóla og gera það sem manni sýnist eins lengi og maður vill svo framarlega sem maður býr í landinu. Ef maður flytur burt missi maður þessi réttindi eftir tvö ár); sem ríkisborgari.
Ég hef alltaf verið á þessum takmörku leyfum og núna þýðir það t.d. að ég þarf að fara úr landinu um leið og ég er búin í skólanum. Fyrir rúmum tveimur árum sótti ég um breytingu á leyfinu í hið varanlega leyfi, svo ég geti verið hér áfram ef mér sýnist svo, og það er svo mikið að gera á skrifstofunni í London að svona löng er nú biðin orðin. Fyrr í vikunni fékk ég svo loks boð um að fara í læknisskoðun (og um að borga leyfisgjaldið - sem kemur ofan á umsóknagjaldið) og það er í raun það fyrsta sem ég heyri frá þeim um að þeir séu loks farnir að kíkja á umsóknina mína. Nú gætu hlutirnir reyndar farið að gerast hratt. Það tekur um viku að fá læknisgögnin og þá verða þau send með hraði til London. Ég ætla að vera búin að borga gjaldið fyrir þann tíma og eftir það er líklegt að þeir heimti íslenska vegabréfið mitt svo þeir geta gengið lokaskrefið í að veita mér þennan status. Og á meðan þeir hafa vegabréfið get ég ekki farið spönn úr rassi og þess vegna þori ég ekki að kaupa flug heim um jólin. Mun ekki gera það fyrr en ég verð búin að fá passann minn til baka, og komið með 'permanent residency' kortið í hendurnar.
Ég get síðan sótt um kanadískan ríkisborgararétt tveimur árum síðar, ef ég vil, en það gæti verið ágætur kostur ef ég verð hér eitthvað áfram. Nú þegar Ísland leyfir tvöfaldan ríkisborgararétt getur það verið gott mál.
En í fullkomnum heimi fæ ég vinnu við háskóla á Íslandi og kem heim að námi loknu. En ekki hafa nú verið auglýstar margar stöður í málvísindum á Fróni undanfarin tíu ár eða svo.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Fjölskyldulíf í dag
21.9.2007 | 06:36
Kanada og Ísland eru svipuð hvað það snertir að hið gamalkunna fjölskyldumunstur verður sífellt sjaldgæfara. Hér í Kanada er það kallað 'Leave-it-to-Beaver-fjölskyldumunstrið', eftir samnefndum þáttum, en á Íslandi var þetta nú vanalega kallað vísitölufjölskyldan, var það ekki? Hjón með tvö börn.
Nú eru fjölskyldumál orðin svo flókin að það er til að æra óstöðugan. Algengt er að sjá einstæða móður með barn/börn, einstæða feður með barn/börn, fólk í sambúð með barn/börn, hjón eða fólk í sambúð með börn frá fyrri samböndum eða hjónaböndum (stundum þannig að það eru mín börn, þín börn og okkar börn), tveir karlar eða tvær konur með barn/börn, o.s.frv.
Þessi mynd segir allt sem segja þarf:
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þvottabirnir í Stanley garði
20.9.2007 | 23:10
Eins og ég nefndi fyrr í vikunni komu frændfólk mitt, Axel og María, í heimsókn á mánudaginn og voru hér í tvær nætur. Fyrri daginn notuðum við aðallega í að versla en seinni daginn var ætlunin að fara í skoðunarferð um borgina og nágrenni. Nema hvað það mígrigndi um morguninn og við fórum ekki út úr húsi fyrr en eftir hádegið. Veðurspáin hafði verið fyrir rigningu á mánudeginum en fínt veður á þriðjudegi, nema hvað þetta snerist við.
Eitt af því sem við gerðum var að fara í Stanley Park, sem er risastór garður hér í Vancouver. Þar stoppuðum við á útsýnisstað þar sem sjá má yfir í borgirnar í norðrinu. Þar mættum við þessum tveim vinalegu þvottabjörnum. Það er greinilega búið að gefa þeim mat (sem auðvitað er alveg bannað) því þeir voru ekkert hræddir við fólk og fóru bara og betluðu eins og illa uppalinn hundur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Slagsmál á vellinum
20.9.2007 | 22:52
Þeir sem nenntu að lesa færsluna mína í gærkvöldi um hokkíleikinn sem ég fór á hafa væntanlega séð að ég minntist á slagsmálin sem stundum brjótast út í þessum leikjum. Ef þið hafið aldrei séð hokkíleik þá vitið þið kannski að þetta eru alvöru slagsmál. Ekki bara einhverjar hnippingar. Og þið vitið kannski ekki heldur að þetta er hluti af leiknum því dómar leyfa leikmönnum alltaf að slást í svolítinn tíma áður en þeir stoppa þetta. Þessu til sönnunar set ég inn hér svolítið myndband frá leiknum í gær.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)