Stórleikur í Vancouver

Við rúlluðum Calgary upp eins gömlu teppi og hentum þeim út. 4-0 var staðan að leik loknum eftir að fyrrverandi öndin Ryan Shannon skoraði fjórða markið þegar 21 sekúnda var eftir af leiknum. Það varð allt vitlaust í byggingunni enda ekki amalegt að sjá ungu strákana í liðinu klára dæmið svona.

Vigneault hvíldi marga af hinum eldri og reyndari leikmönnum og gaf ungu strákunum tækifæri enda er enn barist um síðustu sætin í liðinu. Þeir sem ekki standa sig verða sendir til Manitoba og látnir spila í AHL deildinni þar til þeir eru tilbúnir í NHL deildina. Og strákarnir sýndu að þeir voru traustsins verðir. Alex Edler, hinn ungi leikmaður Manitoba sem kom inn fyrir Vancouver í nokkrum leikjum í fyrra, skoraði fyrsta markið stuttu fyrir lok annars leikhluta og rétt eftir að flautað var til þriðja leikhluta skoraði Jason Jaffray mark númer tvö. Hann er glænýr leikmaður með liðinu, var keyptur í júlí í sumar. Michael Grabner, annar ungur leikmaður bætti þriðja markinu við sex mínútum síðar og Ryan Shannon innsiglaði svo sigurinn eins og áður sagði.  Þá stóð varamarkvörðurinn Schneider sig einstaklega vel, varði sjö skot og hélt markinu hreinu. 

En þrátt fyrir að mörkin hafi öll komið frá hinum óreyndari leikmönnum mátti sjá frábæra takta hjá leikmönnum eins og Ohlund, Burrows, Naslund og Cowan. Og meistaramarkvörðurinn Luongo varði 14 skot áður en hann fór af velli til að hleypa Schneider að. Mér fannst lítið bera á Taylor Pyatt, sem er synd því hann var frábær í úrslitakeppninni í vor, Daninn Jannik Hansen átti þokkalegan leik en ég tók lítið eftir Matt Cooke. Það þýðir þó ekki að hann hafi spilað illa, ég þekki þá bara ekki enn alla í sundur.

 van-calg01Um leið og ég gekk inn í salinn hríslaðist um mig þessi tilfinning sem maður fær þegar maður veit að eitthvað frábært er að fara að gerast. Stemmningin á hokkíleikjum í Kanada er alltaf skemmtileg þó svo að þessu sinni hafi hún varla komist í hálfkvist við það hvernig var ábyggilega hér í úrslitakeppninni í vor. En fólk var í stuði og ánægt með að hokkíið væri aftur byrjað. Ég hafði nokkra öskurapa fyrir aftan mig sem görguðu af og til og voru algjörlega laglausir þegar þeir reyndu að syngja um 'the good old hockey game', en það var bara fyndið og tilheyrði einhvern veginn.

Undarlegast var að í hvert sinn sem slagsmál brutust út á ísnum (og jú, það er ekki óalgengt) varð allt vitlaust og múgurinn gargaði. Ekkert virtist skemmtilegra en tveir, eða fleiri leikmenn að berja hver annan. Þetta er það eina sem ég skil ekki í sambandi við hokkí. En þetta er hluti af leiknum því dómararnir leyfa þeim að berja svolítið hver á öðrum áður en þeir stoppa slagsmálin. Sumir halda því fram að það séu minni meiðsli í hokkíleikjum þar sem slegist er en í hinum þar sem leikmenn verða frústreraðir en fá ekki útrás. Skemmst er að minnast þess þegar Todd Bertuzzi hálsbraut andstæðing sinn í leik. Hann fékk rúmlega árs brottvísun og var að auki dreginn fyrir rétt í skaðabótamáli. Stuðningsmenn slagsmála segja að ef Bertuzzi hefði fengið að slást pínulítið við hinn (þeir voru búnir að atast hver í öðrum allan leikinn), hefði þetta aldrei gerst. Ég veit það nú ekki...ég held að það sé alveg hægt að halda hokkíinu þokkalega meinlausu rétt eins og t.d. fótbolta. En þetta var nú útúrdúr.

En almennt var bara frábært að vera á þessum leik í eigin persónu og sjá leikmennina spila á vel pússuðum ísnum fyrir neðan eftir að hafa horft á þá í sjónvarpinu síðastliðinn vetur. Og að sjálfsögðu spillti ekki fyrir að sjá Vigneault með eigin augum. Hann er alveg jafnmikil dúlla og ég hélt. Og hann hlýtur að vera ánægður með sína menn í kvöld. Þeir sýndu þessu Alberta gengi svo sannarlega hvar Davíð keypti ölið! 

 Sett inn að lokum lag með uppáhalds grínsveitinni minni, The Arrogant Worms. Ég veit ekkert hver setti inn þessar einföldu teikningar, ekki þeir, en það er textinn sem skiptir máli Njótið:


Gestir á sjöundu

Það er fjölmennt á sjöundu götu í nótt. Axel og María, frændfólk mitt frá Íslandi er í heimsókn og gista hér hjá mér. Ég er svo góð frænka að ég sendi þau inn í herbergi og sef sjálf á sófanum í stofunni.

Dagurinn var fínn. Ég vann vel í morgun þegar þau voru að keyra upp frá Seattle, þar sem þau eru í heimsókn hjá frænku Maríu. Við hittumst síðan í Metrotown molanum og skelltum okkur í verslun. Það var nú ekki margt keyrt. Þaðan keyrðum við yfir til Vancouver (Metrotown er í Burnaby) og stoppuðum á leiðinni í fótboltaverslun þar sem ég fékk nýja takkaskó. Axel, þessi elska, tilkynnti þegar ég reyndi að borga skóna, að þetta væri afmælisgjöfin þeirra til mín og þar með var kortinu skilað til mín aftur og ég fékk ekki að borga. Þau buðu mér svo út að borða á eftir og við fengum frábæran mat á Earls. Maríu fannst reyndar karrí rétturinn sem hún fékk of sterkur en Axel var himinlifandi yfir borgaranum sínum.

En nú þarf ég að fara að sofa því í stofunni er ég enn nær vinnumönnunum sem munu vekja mig í fyrramálið með hamarshöggum. 


Stór dagur á miðvikudaginn

Ég er farin að hlakka ógurlega til miðvikudagsins því þá mun ég í fyrsta skipti SJÁ THE VANCOUVER CANUCKS MEÐ EIGIN AUGUM!!!!!!!Happy

Já ég á miða á leikinn Vancouver-Calgary sem hefst klukkan sjö á miðvikudagskvöldið. Að sumu leyti hefði verið skemmtilegra að fara á leikinn á mánudaginn því þá munu  þeir leika á móti Anaheim, Stanley Cup sigurvegurunum frá því í vor, sem hafa frábært lið (og þá hefði ég líka fengið að sjá Teemu Selanne og Chris Pronger), en frændfólk mitt kemur í heimsókn á morgun og ég vil frekar eyða kvöldinu með þeim. Og þar að auki er miklu líklegra að Vancouver vinni Calgary og ef ég kemst aðeins á einn leik vil ég heldur að það sé leikur þar sem líkur á sigri er góðar. Svona er það bara.

Spurningin er hins vegar hversu mikið ég mun sjá af leiknum. Það er hugsanlegt að ég sitji bara uppi í blóðnösunum með kíkinn og horfi á þjálfarann í leikmannaboxinu. Ég er ekki enn búin að gleyma því hversu glæsilegur hann var í smókingnum í vor þegar hann tók við bikarnum sínum. Kannski ekki furða þegar ég set þessa mynd hérna reglulega á síðuna mína. Og ekki má gleyma risastóra plakatinu sem ég límdi í loftið fyrir ofan rúmið mitt...hehe, góð hugmynd annars. Hvar ætli ég fái svoleiðis?


Ný fjárútlát

Alveg er það merkilegur andskoti hvernig maður þarf alltaf að eyða hellings pening á sama tíma. Í byrjun september varð ég að borga fyrstu útborgun af skólagjöldunum, svo kom tölvan sem ég hafði pantaði (af því að gamla tölvan dó), samanlagt um 230.000. Reikningarnir þennan mánuðinn eru líka háir.

En eins og það sé ekki nóg - í dag fór ég og spilaði ultimate með nýja liðinu hans Ryans (sumar-ultimate liðið okkar spilar ekki á veturna) af því að fótboltaleiknum mínum var frestað vegna verkfalls (grasið ekki verið slegið í tvo mánuði og völlurinn þótti ekki nothæfur). Það var blautt á því það rigndi í nótt, og ég var rétt farin að labba um þegar ég fann að ég var orðin blaut í fæturna. Ég athugaði málið og er þá ekki komin svona svaka rifa á hægri takkaskóinn. Ég get sett þrjá fingur í gegn og kæmi ábyggilega þeim fjórða ef ég reyndi. Það er ekki séns að hægt sé að gera við þetta. Ég verð að kaupa nýja skó. Og þokkalegir takkaskór eru ekkert ódýrir.

Ég þarf helst að fá nýja fyrir þriðjudagskvöldið því þá förum við á æfingu hjá knattspyrnusambandinu með svona alvöru þjálfara sem mun meta liðið og koma með tillögur um hvað við þurfum að æfa betur. Hann mun einnig aðstoða okkar þjálfara og sýna honum hvert hans verk er. Verð að geta spilað almennilega þá.

Sem sagt, verslunarleiðangur framundan. 


Vinnudagur

Dagurinn í dag hefur verið rólegur og gagnlegur en ekki sérlega skemmtilegur. Ég ætlaði mér að sofa út en bölvaðir iðnaðarmennirnir virðast vinna í húsinu hér við hliðina hvern einasta laugardag núna. Ég get aldrei sofið út því þeir eru alltaf mættir eldsnemma á morgnana með hávaða og læti. Stundum vinna þeir bara í nokkra klukkutíma en byrja samt alltaf snemma. Ég held líka að þeir geri allt það hávaðasamasta um leið og þeir mæta og dunda sér svo við hljóðlegri vinnu þegar líður á. Rétt svona til að tryggja að enginn í nánasta nágrenni fái að sofa mikið lengur en þeir.

Ég skreið sem sagt á fætur í morgunsárið, lagaði svolítið til, bloggaði um afmælisveisluna mína og fór svo að vinna. Ég er að reyna að ljúka grein sem ég er að vinna að með Bryan, hljóðfræðikennaranum mínum. Þarf að ljúka mínum hluta ekki síðar en á þriðjudaginn því Bryan þarf svo að lesa einu sinni yfir áður en við sendum inn greinina, og hann fer úr bænum á fimmtudaginn.

Það er reyndar ekki mikið eftir. Ég er fyrst og fremst að prófarkalesa greinina og einnig þarf ég að sjá til þess að hún sé í samræmi við staðla tímaritsins sem við ætlum að reyna að koma henni í. Það er fremur nýlegt rit sem heitir Journal of the Acoustic Society of America Express Letters (eða JASA Express Letters). Þetta er tímarit sem er fyrst birt á netinu, áður en það er prentað, og því er biðin eftir birtingu ekki eins löng. Ég þarf á fleiri birtingum að halda eins fljótt og hægt er því ég þarf að huga að vinnu fljótlega. Ef maður sækir um prófessorsstöður í háskólum þarf að sækja um með um það bil árs fyrirvara. Umsóknafrestur fyrir stöður sem hefjast næsta september rennur oftast út í nóvember eða um það leyti.

Ég vann líka svolítið að öðru verkefni sem ég er að hugsa um að taka að mér sem svona pínulítið aukaverkefni. Veitir ekki af peningunum. En áður en ég get tekið verkefnið að mér þarf ég að sýna fram á að ég sé hæf til þess. 

Núna er verið að sýna The Mexican í sjónvarpinu. Ég skrifa þetta blogg í hvert sinn sem gert er auglýsingahlé. Þetta er ágætismynd - það eina sem horfandi var á í kvöld. Mikið rosalega sakna ég hinn tvöhundruð stöðvanna sem ég hafði í sumar. En bráðum koma allir vetrarþættirnir aftur og þá getur maður farið að horfa á Aðþrengdar eiginkonur og alla hina þættina.


Athyglisverð staða í forsetaslagnum

Repúblikanar hafa yfirleitt hlotið mun fleiri atkvæði en demókratar frá heitttrúuðu kristnu fólki og í undanförnum forsetakosningum hafa þeir t.d. fengið um sjötíu prósent atkvæða fólks úr evangelísku kirkjunni. Margir þessa, sérstaklega í hinu djúpa suðri myndu fremur sitja heima á kjördag en kjósa kandídat sem brýtur gegn lífsgildum evangelísku kirkjunnar. 

Nú eru Repúblikanar því komnir í vanda. Þeir tveir sem berjast um tilnefningu eru hinn þrígifti Rudi Giuliagni og hinn tvígifti Fred Thompson. Hvorugur þeirra fer reglulega í kirkju. Sá eini trúaði sem kemur til greina er mormóni og það myndi aldrei sitja vel í suðrinu.

Demókratar, hins vegar, munu annað hvort tefla fram Hillary Clinton eða Barak Obama, sem bæði eru enn gift æskuástinni sinni og bæði fara í kirkju á hverjum sunnudegi. 

Munu hinir heitttrúuðu kjósa trúlausa Repúblikana, trúaða Demókrata (sem þó eru hlynntir fóstureyðingum og giftingum samkynhneigðra) eða munu þeir sitja heima á kjördag? Að mínu mati er ljóst að ef þeir taka annan eða þriðja kostinn þá verður næsti forseti Bandaríkjanna Demókrati. 


Afmælisveislan fína

Jæja,þá er ég vöknuð og komin langleiðina með að þrífa eftir partýið. Það var minna að þvo upp en ætla hefði mátt því gestir áttu það til að skreppa fram í eldhús og þvo nokkra diska þegar þannig lá á þeim. Nei, ég held það sé ekki tákn um að þeim hafi leiðst svona heldur finnst fólki hér almennt hræðilegt að maður skuli sjálfur þurfa að halda sínar afmælisveislur. Þeim finnst að maður eigi bara að slappa af og hafa það gott á meðan aðrir sjá um að þræla. Það hljómar eiginlega vel en ég er svo mikill Íslendingur í mér að ég er vön að sjá bara um mínar veislur sjálf enda þykir mér gaman að baka og bjóða heim fólki.

Dagurinn hófst laust fyrir níu þegar ég skreið á fætur og fór til Rosemary vinkonu minnar í morgunverð. Ég sef vanalega ekki svona lengi en ég hafði komið seint heim kvöldið áður eftir fanta matarboð hjá Halli og Andrea og dundaði mér svolítið í tölvunni þar á eftir, þannig að ég var óvenju syfjuð. Þar að auki var ekki mikill hávaði í vinnumönnunum við hliðina.

Rosemary bauð upp á ekta ammmmrískan morgunverð með bláberjapönnukökum, beikoni og morgunverðarpylsum. Glettilega gott. Þaðan hjólaði ég svo upp í skóla og hitti Lísu kennara minn á kaffihúsi þar. Hún er í rannsóknaleyfi og fer því helst ekki upp í deild (þá yrði hún dregin í vinnu). Hún er samt ennþá í nefndinni minni enda annar tveggja umsjónakennara. Ég hafði hugmynd um lausn á einu vandamáli í ritgerðinni minni og vildi ræða það við Lísu. Henni leist vel á hugmyndina og hjálpaði mér að formúlera hana þannig að við vorum ánægðar með árangurinn.

Ég kom heim og lagaði til, talaði við mömmu og pabba, skrapp svo út í búð að versla - tvisvar, af því að ég gleymdi sumu fyrst. Klukkan var orðin fjögur þegar ég fór í að þrífa íbúðina - eins vel og hægt er á einum klukkutíma. Klukkan fimm hófst matarundirbúningur og á tveimur klukkutímum bakaði ég marens, bjó til tvo heita rétta, bakaði bananaköku, og bjó til rice crispies toppa og túnfisksalat. Og ég náði meira að segja að ryksuga (sem ég hafði geymt þar til síðast) og fara í sturtu innan þessa tveggja tíma. 

Fyrstu gestirnir komu klukkan sjö og allir voru komnir fyrir átta. Þetta var svona sambland af gamla genginu sem er boðið í allar veislur hjá mér (Julianna og Tim, Marion og Ryan, og svo Gunnar, Suzanne og Yrsa), og nýju íslensku (og næstum því íslensku - lesist austurrísku - vinunum, Lína og Alex og svo Hallur, Andrea, Fönn og Dögun). Við getum sagt að þetta hafi verið hámarksfjöldi gesta fyrir íbúðina. Það mætti auðvitað hrúga inn fleirum ef fólk stæði og dreifðist út um allt en þarna gátu allir verið inni í stofu og setið, annað hvort á stólum eða á gólfinu.

Stelpurnar litlu voru að hittast í fyrsta sinn og þótt Yrsa og Dögun væru næstum jafnaldra (hálft ár á milli) tók það þó nokkurn tíma fyrir þær að ná saman. Yrsa er auðvitað óvön því að heyra börn tala íslensku og Dögun er nýbyrjuð á leikskóla og er farin að babla á sinni eigin ensku (sem fæstir skilja ennþá en það mun koma). Þær voru þó farnar að hoppa á rúminu mínu svona undir lok kvöldsins. Svo setti ég bara Wallace and Gromit í tölvuna og litlu gellurnar lágu uppi í rúmi og horfðu á sjónvarp.

Laust fyrir miðnætti voru allir farnir heim (enda partýið þá búið að standa í fimm klukkutíma og Rita fyrir neðan hefði kvartað ef eitthvert næturbrölt hefði verið í gangi) og ég skreið í kojs. 

Fleiri myndir má sjá á Flickr síðunni minni:

http://www.flickr.com/photos/stinamagga/ 


They say it's your birthday – It's my birthday too, yeah!

Það er komið fram yfir miðnætti sem þýðir að afmælisdagurinn minn er tæknilega runninn upp. Reyndar rann hann upp á Íslandi fyrir næstum níu klukkutímum þannig að í raun er afmælisdagurinn minn löngu kominn. Held reyndar að ég hafi ekki fæðst fyrr en um hálftólf leytið að morgni þannig að enn eru tveir og hálfur tími þar til þetta er opinbert.

Ég hugsa að ég baki eitthvað á morgun. Er búin að nefna það við fólk að það ætti að kíkja við. Sýni kannski einhverjar myndir úr því partýi. Set inn nokkrar gamlar myndir á meðan.

 

stína lítil

 

Held að þessi fyrsta sé örugglega ein af elstu myndunum sem til er af mér.  Mamma og pabbi geta líklega svarað því hvort svo er. Ætli ég sé ekki tveggja þriggja mánaða þarna.

 

3áraafmælið

Mynd númer tvö er tekin fyrir akkúrat 35 árum (ó mæj - rosalega er ég orðin gömul). Ég hef áður sett þessa mynd inn á netið enda þykir mér hún skemmtileg.

 

 

afmæli0002

 

Þriðja myndin er úr öðru afmæli, líklega tíu ára afmælinu. Þarna erum við Jón Ingvi greinilega að skemmta liðinu. Hann er konan og ég er karlinn. Á bak við má greina Kalla, Sillu og Huldu en ég er alls ekki viss um hver hin tvö eru. Það er hugsanlegt að þetta sé Lilja þarna lengst til vinstri en hver er á milli Sillu og Huldu?

Að lokum getið þið séð hann Palla minn syngja til mín. Alla vega held ég að hann sé að syngja þetta til mín. 

 


100.000 flettingar

Nú eru flettingar á síðuna mína komnar yfir 100.000. Ég tók eftir því í vikunni að sú tala var að nálgast og var að vona að það myndi gerast á afmælisdaginn, svona eins og afmælisgjöf til mín frá lesendum Moggabloggsins. En í staðinn fékk ég afmælisgjöfina svolítið snemma. Takk kærlega öll fyrir að nenna að koma hérna við hjá mér af og til.

Nýja tölvan

Eins og ég sagði frá fyrr í sumar þá dó skjárinn á gömlu iMac tölvunni minni og þar sem skjár og tölva eru sambyggð þá var í raun ekkert hægt að gera. Ég hefði getað keypt nýjan skjá og tengt við tölvuna en það virtist bara ekki þess virði þar sem geisladrifið var þegar farið og ég hefði því líka þurft að kaupa USB fjöltengi. Við það má bæta að ég hafði ætlað mér að kaupa vefmyndavél og þær eru fjandi dýrar fyrir makkann. Hefði ég keypt makkaskjá, vefmyndavél og fjöldtengi hefði ég líklega verið að horfa í tæplega þúsund dollara. Nýr makki með 20 tommu skjá og 2.4 GHz kostaði um 1700 dollara. Og þetta er náttúrulega miklu betri tölva með Intel örgjörva, ótrúlega skýrum, stórum skjá og meiri hraða en ég hafði áður. Ég hef setið við í kvöld og sett upp tölvuna. Ég er reyndar ekki búin að fá íslensku stafina til að virka í öllum forritum (ekki enn í Word þar sem ég virkilega þarf á þeim að halda) en það ætti að takast um leið og ég fæ einhverja hjálp.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband