Hversdagsleikinn

Hversdagsleikinn er aftur tekinn við og ég hef frá litlu að segja. Það er eiginlega furðulegt að ég skuli nenna að skrifa eitthvað um líf mitt því það er ekki beint öfundsvert eða spennandi. Ég sit heima og vinn að ritgerðinni minni og inn á milli fer ég og klifra eða spila fótbolta. Ég fer næstum því aldrei á skemmtistaði eða bari (setti þó met í ágúst og byrjun september með því að fara eitthvert út þrjár helgar af fjórum. Hafði þá ekki farið slíkt í marga marga mánuði). Ég fer í bíó kannski annan hvern mánuð og þá vanalega ein því vinir mínir annað hvort hafa annan bíósmekk eða búa of langt í burtu til þess að það borgi sig að fara saman. Ég hef farið tvisvar á tónleika og í bæði skipin ein. Enginn vina minna hefur sama smekk og ég. Ég hef aðeins farið tvisvar í fjallgöngu í allt sumar þrátt fyrir að  mér þyki það ákaflega skemmtilegt. En það er af því að ég á engan bíl og það tekur langan tíma að komast í fjöllin með almennings samgöngum. Ég þarf því að treysta á aðra. Ég hafði ekki efni á að ferðast neitt og það eina sem ég fór í sumar var því ferðin mín til Portland og ég fór bara þangað af því að það kostaði ekki nema um 4000 að fara þangað og ég fékk ókeypis gistingu. Ég þekki nú orðið fleira fólk hér sem ætlar að stunda Whistler í vetur en ég er ekki viss um að ég hafi efni á að fara eins oft og ég vildi. Mikið rosalega er ég orðin leið á því að vera fátækur námsmaður. Vildi að ég gæti klárað þessa bölvaða ritgerð í einum grænum og farið að vinna. En ég get bara ekki skrifað þetta skrímsli hraðar.  


Tottenham aðdáandi auðvitað!

Hann er óttalega leiðinlegur í fjölmiðlum karlinn en það er nú enginn ástæða til þess að ráðast á hann. Hann er augljóslega frábær þjálfari, annars hefðu ljónin ekki staðið sig eins vel undanfarin ár og þau hafa gert. Kannski er það þess vegna sem ráðist var á hann. Öfundsjúkur aðdáandi annars liðs. Mig grunar að þarna hafi einhver frá Tottenham verið að verki. Þeir þurfa að taka Victoriu línuna að Seven Sisters til að fara til White Heart Lane, og Euston er einmitt á Victoriu línunni. Ef maður er á norður línunni og ætlar til Tottenham þá skiptir maður einmitt við Euston! Á sama hátt er reyndar hægt að komast að Highbury en í fyrsta lagi þá eru Arsenal aðdáendur auðvitað englar (huhum, ræski mig) og í öðru lagi þá eru þeir betur settir með að tak Picadilly línunna að Arsenal. Látið mig vita það!!!
mbl.is Ráðist á Alex Ferguson
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki Davíð, takk

Það hefur löngum verið hefð á Íslandi að íslenska nöfn konungsfólks, svo og páfans. Þess vegna notum við Karl, Vilhjálmur, Friðrik, o.s.frv. í stað Charles, William, Frederick. Og þetta hefur náð almennri fótfestu. Einnig var alltaf talað um Jóhannes Pál páfa. Stundum hafa fjölmiðlarnir reynt þetta líka með nöfn tónlistarmanna; man t.d. eftir því þegar talað var um Gogga Michaels,  og Pál unga (Paul Young). Slíkt hefur hins vegar aldrei náð almennri notkun eins og það að íslenska nöfn konungsfólksins. Og David Beckham er enginn konungur, ekki einu sinni á fótboltavellinu - góður, en ekki bestur. Og það að þetta skuli gert í frétt sem fjallar einmitt um hvað hann er ofmetinn gerir þetta auðvitað enn fáránlegra.

Auðvitað ætti aldrei að íslenska nöfn fólks. Nöfnin eru hluti af því maður er (nema páfinn sem fær allt annað nafn en það sem hann er skírður) og því á ekki að breyta, þótt í öðrum löndum séu nöfn með svipaðan hljóm. Sjálf er ég oft þreytt á því hversu fáir hér vestra geta borið nafnið  mitt fram á þann hátt sem ég á að venja, það verður alltaf annað hvort kristÍn (með áhersluna á seinna atvkæðið) eða Kristin (með i en ekki í í seinna atkvæði). Þess vegna kynni ég mig stundum bara sem Stínu því fólk klúðrar því ekki.


mbl.is Beckhamhjónin eru „ofmetnasta fólk í heimi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sex ár liðin

Í dag eru liðin sex ár frá árásinni á tvíburaturnana í New York. Ég man þennan dag býsna vel. Vanalega var vekjaraklukkan stillt á útvarpið og þegar við vöknuðum á morgnana var það fyrsta sem maður gerði að hlusta á fréttir. Það var ekkert öðruvísi þennan morgun og við heyrðum um fyrri vélina sem lenti á fyrri turninum. Þetta var slys og maður hugsaði pínulítið til fólksins sem lést en ekkert meira en þegar maður heyrir um náttúruhamfarir víða um heiminn. En þegar við komum upp í skóla og ég komst í tölvuna mína kíkti ég á fréttirnar á netinu og sá þá fréttina um seinni flugvélina. Það var ljóst að ekki hafði verið um slys að ræða. Ég held að enginn hafi unnið sérlega vel þennan dag. Við sátum límd við útvarpið og heyrðum af hinum flugvélunum tveim, og greyið Ariane, fornleifafræðingurinn, sat í símanum og reyndi að fá upplýsingar um eiginmann vinkonu sinnar sem vann í öðrum hvorum turninum. 

Nokkrum dögum seinna fékk ég einhverja kveisu og var heima í tvo þrjá daga og horfði þá mikið á sjónvarpið. Allar rásir voru undirlagðar atburðunum 11. september. Allir umræðuþættirnir fjölluðu um þessa atburði og töluðu við fólk sem þeim tengdust. Talað var við ekkju mannsins sem hringdi úr flugvélinni sem fór niður í Pennsylvaniu. Talað var við sjálfboðaliða. Talað var við fólk sem bjó nálægt og horfði með kíki á þegar fólk í turnunum kastaði sér út um glugga bygginganna því það vildi fremur hrapa til bana en brenna inni. Ég er ekki viss um að augun í  mér hafi þornað almennilega í marga daga.

Almennt finnst mér ríkisstjórn Bandaríkjanna og forustumenn hafa hegðað sér eins og skepnur í áratugi, og þeir hafa að sjálfsögðu valdið dauða hundruða og þúsunda saklausra einstaklinga, t.d. í Írak og Afganistan, og þar á undan í Kóreu, Víetnam, öðrum löndum...en það breytir því ekki að þetta fólk var líka saklaust og átti ekki skilið að deyja vegna heimsku forustumanna landsins. Stundum skil ég ekki illsku fólks.


Þversögn, er það ekki?

Hann Freddi er alveg ágætur í Law and Order og hann er greinilega meinfyndinn í pólitíkinni. Að segja að það verði að finna Bin Laden og taka hann af lífi, en bæta því svo við að það muni þó ekki vera gert án dóms og laga er svolítil þversögn. Það hefur ekki farið fram dómstóll í máli Bin Ladens þannig að bara það að segja að það verði að taka hann af lífi bendir til þess að Thompson sé búinn að gera upp hug sinn. Og dómstóll þar sem fólk er sannfært um hver niðurstaðan eigi að vera áður en réttað er í málinu getur varla verið mjög sanngjarn. Ef Freddi væri betur gefinn hefði hann látið nægja að segja að það þyrfti að ná Bin Laden og rétta yfir honum. 

Ó, tók eftir að Doddi sagði næstum því það sama og ég. O well, great minds think alike. 


mbl.is Thompson: Nauðsynlegt að handsama bin Laden og taka hann af lífi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Niður með rassalausu strákana

Mikið rosalega leiðist mér fatatíska ungra karlmanna í dag. Þegar þeir voru fjórtán ára fóru þeir að vera í þessum stóru ljótu buxum þar sem rassgatið á þeim virtist vera undir hnésbótunum. Nú eru þeir farnir að vera í þokkalega venjulegum buxum en hafa þær svo lafandi að rassgatið er enn í hnésbótunum. Ég veit svo sannarlega ekki hvernig buxurnar  lafa uppi því ég hef séð stráka í buxum sem voru svo neðarlega að ég sá alla brókina. Og mig langar ekkert að skoða brækurnar á þessum mönnum. Algengara er reyndar að beltið sé einhvern veginn reyrt yfir rassinn þannig að maður sér ennþá hluta brókarinnar en síðan kemur einhvers konar flatneskja þar sem rassinn á að vera. Og þetta er auðvitað á sama tíma og konur eiga að vera í öllu þröngu svo líkaminn sjáist sem best. Hvernig stendur á því að karlar geta falið líkamann á meðan konur eiga að sýna hann? Þetta eykur auðvitað ennfremur á óöryggi þeirra kvenna sem ekki hafa fullkominn líkama (og líka þeirra með fullkominn líkama því þær halda að hann sé það ekki) en karlar geta verið alla vega í  laginu og öllum er sama. Ég vil réttlæti á þessi sviði. Komum aftur með venjulegar buxur, hysjaðar upp í mitti (en ekki þó hærra) svo hægt sé að njóta almennilegra kúlurassa aftur. Og konurnar mega losa aðeins um svo að hægt sé að fela örfá aukakíló. 

Sólbrann í september

Ótrúlegt en satt: Ég brann í sólinni í dag. Og það er kominn september (bráðum á ég afmæli).

Imbinn minn

Í sumar fékk ég mér stafrænt sjónvarp og vegna sérstaks tilboðs fékk ég þriggja mánaða aðgang að öllum níuhundruð og eitthvað rásunum (um helmingur þessa stöðva eru útvarpsrásir). Nú eru þessir þrír mánuðir liðnir og ég er dottin niður í grunnstöðvarnar, svipað og ég var með síðastliðinn vetur (hef þó enn útvarpsrásirnar). Ég veit að það er ekki gott að horfa of mikið á sjónvarp hvort eð er en ég er samt fremur sorgmædd núna. Það er ekkert í sjónvarpinu og ég sem hefði vel getað hugsað mér að eyða sunnudagskvöldi fyrir framan imbann. Í staðinn ætla ég að vinna og sjá hvort ég geti ekki klárað þessa grein sem ég hef verið að vinna að. Ekki eins skemmtilegt en óneitanlega gagnlegra.

Fótboltinn hafinn

Þá er fótboltavertíðin hafin á ný. Við lékum okkar fyrsta leik klukkan tíu í morgun og byrjuðum ógurlega klaufalega svo við vorum heppnar að Burnaby liðið sem við lékum á móti náði ekki að skora. Þetta slæma tímabil varði þó ekki í fimmtán mínútur eins og oftast, heldur komumst við í gírinn eftir um fimm mínútna leik og spiluðum bara geysivel. Markatalan varð að lokum 4-1 fyrir okkur með einu marki frá Katee, tveimur frá mér og einu sjálfsmarki. Katie átti stóran þátt í bæði sjálfsmarkinu og fyrra markinu mínu (hitt átti ég alveg ein enda tók ég boltann upp frá miðpunkti og inn).

Gallinn er að það verður ábyggilega bið að næsta leik. Við eigum heimaleik í næstu viku en af því að borgarstarfsmenn eru enn í verkfalli er ekki hægt að spila á neinum velli innan borgarmarka. Ef leikurinn fæst ekki færður í eitthvert nágrannasveitarfélaganna verður honum frestað. Og enginn veit hvenær þetta verkfall endar.

Það sama gerist með æfingarnar hjá okkur. Við æfum klukkan sjö eins og er því um átta er orðið of dimmt til að spila og það má ekki kveikja á flóðljósunum. Helv. verkfall, helv. borgarstjórn. 


Velvet Revolver - Alice in Chains

Jæja, eins og ég lofaði um daginn kemur hér frásögn mín af tónleikunum í gær, Velvet Revolver með sérstökum gestum, Alice in Chains.

Hvort sem þið trúið því eða ekki þá missti ég af fyrstu lögunum með Alice in Chains, sem er svolítið sorglegt af því að ég fór fyrst og fremst á tónleikana til að sjá þá. En það var grillpartý í deildinni hjá okkur svo ég ákvað að sleppa upphitunarbandinu og mæta barra þegar Alice in Chains byrjaði. Nema hvað strætó kom ekki á réttum tíma - alveg eins og þegar ég fór að sjá Godsmack. Sama leið, á sama stað, en næsti strætó á eftir. Vagninn kom ekki fyrr en næstum því tuttugu mínútum yfir átta (upphitunarhljómsveitin byrjaði klukkan hálf átta) og við vorum því ekki komin að Colosseum - þar sem tónleikarnir voru haldnir - fyrr en um hálf níu. Hávaðinn í vagninum var ógurlegur enda vagninn fullur af unglingsstrákum á leið á tónleikana. Þegar fréttist í gegnum farsíma að Alice in Chains væru komnir á svið varð allt vitlaust. Ég dauðvorkenndi gömlum kínverskum kerlingum sem stóðu þarna dauðskelkaðar og vissu ekki hvar þær voru lentar.

Komst loks á staðinn, fann sætið mitt en truflaði ekki eins mikið og þetta lið á Noruh Jones tónleikunum því hávaðinn var yfirgnæfandi. Alice in Chains rokkuðu og hápunkturinn var án efa uppklöppunarlögin tvö, Would og Rooster, bæði af plötunni Dirt. Jerry Cantrell er greinilega aðalmaðurinn í AiC og ég mundi allt í einu eftir því að ég sá hann hita upp fyrir Creed fyrir nokkrum árum, áður en AiC kom aftur saman. AiC voru góðir í gær og ég fann ekki mikið fyrir því að söngvarinn væri annar en maður þekkir frá plötum þeirra. Þeir lögðu hins vegar ekki  mikið í sjóið sjálft. Notuðu ekki mikið myndavélar, ljósin voru ekki mikið notuð og sviðsframkoman var heldur tilbreytingalaus. Söngvarinn þarf að finna sig aðeins betur á sviði. Maður sá það svo vel þegar Scott Weiland hamaðist um síðar um kvöldið. Það versta við AiC var samt að þeir voru allt of stutt á sviðinu. Það var að hluta vegna þess að ég missti af byrjuninni en líka vegna þess að þeir voru þarna bara sem gestir en ekki sem aðalnúmerið. Ég hefði viljað snúa þessu við. Lög AiC eru miklu betri en lög Velvet Revolver.

Eftir um hálftíma bið slökknuðu ljósin á ný og út úr myrkrinu heyrðust tónar frá Rock Superstar, sem ég held að sé Cypress Hill lag. Lagið var flutt í heild sinni án þess að nokkur maður sæist, eða að nokkuð sæist - þarna var algjört myrkur. Að því lagi loknu kviknuðu ljós á bak við tjald og um leið og byrjað var á nýju lagi féll tjaldið niður og meðlimir Velvet Rolver stóðu á sviðinu. Ég veit ekki hvaða lag kom fyrst, eitthvað af Libertine (þekki þau svo fá). Hef séð annars staðar að þeir byrja oft á Let it roll.

Fyrsti hlutinn var helgaður VR sjálfum og skiptust þeir á að spila lög af bæði Libertine og Contraband. Mér fannst hljóðið ekki alveg nógu gott. Hljóðfærin yfirgnæfðu röddina og ég heyrði ekki alltaf í Scott Weiland, sem er synd því hann er fantagóður söngvari. Svo kom frábær kafli þar sem þeir settust allir á stóla og tóku svo lög með Stone Temple Pilots og Guns and Roses. Toppurinn fyrir mig var Interstate love song, en þarna mátti líka heyra lagið Patience sem var hrikalega flott. Ég vona að ég móðgi ekki Guns and roses aðdáendur of mikið þegar ég segi að Scott Weiland er mun betri söngvari en Axl Rose. Og samt líktist hann Axl þegar hann söng G'N'R lögin. Hann hefur bara svo mikið vald á röddinni, mikla breidd, og svo auðvitað fallegri rödd en Axl. Í heild held ég að þeir hafi tekið um þrjú G'N'R lög og tvö eða þrjú STP lög. Af eigin lögum stóðu upp úr lagið Slither sem er glettilega gott og að sjálfsögðu Fall to pieces.

Sviðsframkoma Scott Weiland er alveg mögnuð. Hann hlykkist einhvern veginn um sviðið í Mick Jagger stíl og maður veit ekki alveg hvort þessar hreyfingar eru kynþokkafullar eða undarlegar. Kannski hvort tveggja. Hann skiptir ekki um föt á sama hátt og Jagger en kom fram í svo mörgum lögum (bolur, skyrta, vesti, jakki) að með því að fara úr einni og einni flík (þar til hann var nakinn að ofan) breyttist útllit hans stanslaust. Á höfði hafði hann húfu líkri þeirri sem sést hérna á myndunum. Slash leit út alveg eins og á þessum myndum. Með sítt svart hárið og pípuhattinn.

Ég verð að segja að mér fannst bæði Stone Temple Pilots og Guns and Roses betri hljómsveitir en Velvet Revolver. Tónleikarnir í heild voru skemmtlegir en ég held að ég hafi skemmt mér betur á Godsmack tónleikunum.   


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband