Allt saman Akureyringar
29.10.2010 | 23:44
420 bílar á dag um Héðinsfjarðagöng | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Stjörnumorðinginn
29.10.2010 | 00:05
Randy og Evi Quaid sækja um hæli í Kanada | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
The Winnipeg Icelander eftir Guttorm Guttormsson
26.10.2010 | 03:20
Ég hef verið að fara í gegnum kassa með dóti frá Winnipegárum mínum. Þar er margt spennandi og sumt hlutir sem ég var búin að gleyma að ég ætti. Ég fann líka myndir af fólki sem ég var búin að gleyma að ég hefði þekkt, svo sem fólk úr Skandinavíukórnum o.s.frv. Eitt af því sem ég rakst á var mynd af Magnúsi Elíassyni, sem lést fyrir nokkrum árum. Á hátíðarstundum átti hann það til að fara með eftirfarandi ljóð Guttorms Guttormssonar, sem var nokkurs konar þjóðskáld Vestur Íslendinga í Manitoba - og þar mun þekktari en Stefán Fjallaskáld. Ef ske kynni að enn væru til Íslendingar sem ekki hafa lesið þetta dásamlega ljóð þá læt ég það flakka:
The Winnipeg Icelander
Eg fór on' í Main street með fimm dala cheque
Og forty eight riffil mér kaupti
Og ride út á Country með farmara fékk,
Svo fresh út í brushin eg hlaupti.
En þá sá eg moose, út í marshi það lá,
O my- eina sticku eg brjótti!
Þá fór það á gallop, not good anyhow,
Var gone þegar loksins eg skjótti.
Að repeata aftur eg reyndi' ekki at all,
En ran like a dog heim til Watkins.
En þar var þá Nickie með hot alcohol.
Já, hart er að beata Nick Ottins.
Hann startaði singing, sá söngur var queer
Og soundaði funny, I tell you.
Eg tendaði meira hans brandy og beer,-
You bet, Nick er liberal fellow.
Og sick á að tracka hann settist við booze,
Be sure, að hann Nickie sig staupti.
Hann hafði' ekki í lukku í mánuð við moose
Af Mathews hann rjúpu því kaupti.
-Í Winnipeg seg'r ann að talsverðan trick
Það taki að fira á rjúpu
Og sportsmann að gagni að gefa 'enni lick,
En God - hún sé stuffið í súpu.
Við tókum til Winnipeg trainið-a fly,
Nick treataði always so kindly.
Hann lofði mér rjúpuna' að bera' upp í bæ
Eg borgaði fyrir það, mind ye.
Svo dressaði Nick hana' í dinnerin sinni
Og duglega upp 'ana stoppti,
Bauð Dana McMillan í dinnerinn sinn,
Eg drepti 'ana, sagði' ann, á lofti.
-Guttormur Guttormsson
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Winnipeg er ekki öll þar sem hún er séð
25.10.2010 | 07:43
Þegar ég heyrði um þetta var það fyrsta sem kom í hug: 'hvar í borginni ætli þetta hafi verið'. Það kom mér ekki á óvart þegar ég las að þetta hafi gerst í norðurhlutanum. Norðurhlutinn, sérstaklega austan Rauðárinnar hefur lengi verið versti hluti bæjarins og þar verið mest um fátækt og glæp. Íslenska hverfið í Winnipeg tilheyrir reyndar norðurhlutanum og það svæði er ekki sérlega gott, en er þó ekki þar sem svæðið er verst.
Það er reyndar ótrúlegt að trúa því að Winnipeg hefur lengi verið nefnd morðborg Kanada því þar fara fram hlutfallslega flestu morðin. Ég held það hafi reyndar breyst og sé nú Vancouver og nágrenni. Skyldi það vera tilviljun að flest morð eru þar sem ég bý???
Hluti þess að ástand mála er slæmt í Winnipeg hefur með það að gera að þar er mjög hátt hlutfall atvinnulausra indíána sem margir hverjir hafa leiðst í glæpi. Það gerist líka með borgirnar að þær laða að sér þá indíána sem eiga í vandræðum með drykkju og eiturlyf en yfirleitt er reynt að halda slíku utan verndarsvæða og á sumum stöðum er áfengisnotkun með öllu bönnuð á verndarsvæðunum. Það þýðir því að sjálfsögðu að þeir sem ekki ráða við fíknina yfirgefa svæðin og leita til borgarinnar. Winnipeg er langstærsta borgin á milli Toronto og Calgary og þangað leitar því fólk af stóru svæði. Maður þurfti ekki að ganga lengi um borgina til að verða þess var hversu ástandið var slæmt. Ég var bara búin að vera nokkra daga í Winnipeg þegar ég varð fyrst vitni sorginni sem ríkir í kringum´áfengisneyslu hinna innfæddu því ég var að hjálpa konu sem lá dauðadrukkin á bakka Rauðár og var að því komin að falla í ána þegar miskunnarsamur samverju kom að. Ég kom að stuttu síðar og sameiginlega náðum við tvö að koma konunni undir læknishendur.
Í Winnipeg eru líka mjög virk glæpagengi (rétt eins og hér í Vancouver) og ég man hversu hissa ég var fyrst þegar ég heyrði minnst á Winnipeg mafíuna. Og þar var ekki verið að vísa í neina listamafíu eins og stundum er talað um heima. Nei, þetta var alvöru mafía sem drap fólk sem ekki gerði það sem þeim var sagt. Stuttu eftir að ég flutti til Vancouver tók Tim, minn fyrrverandi, einn nemanda sinn í hús því strákurinn hafði gert eitthvað sem mafíunni líkaði ekki og því var heimili hans vaktað. Það átti að drepa hann. Ég man ekki hversu lengi strákur faldi sig heima hjá Tim, á mínu fyrrverandi heimili, en það voru einhverjir dagar. Tim hjálpaði svo stráknum að komast úr borginni og löngu síðar kom mamma hans til Tims og þakkaði honum fyrir og sagði að líklega hafi hann bjargað lífi stráksins.
Já, það virðist kannski koma á óvart að borg sem virkar eins vinsamleg og Winnipeg skuli lenda í svona skotárás eins og þessari sem varð í gær, en ég er svo sem ekkert svakalega hissa. Þar kraumar margt undir niðri. Ekki þar fyrir að það er brjálað fólk í öllum borgum og friðsami nágranni manns getur reynst vera morðingi eða nauðgari.
Það sem gerir mig kannski mest hissa er þegar hræðilegir hlutir hafa gerst og svo er talað við nágrannana sem segjast ekki trúa því að eitthvað svona hafi gerst í þeirra hverfi. Af hverju í ósköpunum er fólk svona hissa? Fyrst slæmir hlutir gerast, þá geta þeir allt eins gerst í okkar hverfi eins og í hverfi einhvers annars?
Og með það er ég farin í háttinn og vona að ekkert gerist verra í hverfinu mínu en rigningin sem nú fellur niður.
Leitað að byssumanni í Winnipeg | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Valdamenn í vanda
19.10.2010 | 06:46
Þessi fyrirsögn gæti sjálfsagt átt við um marga en þessi færsla er um undarlegan fréttatíma í sjónvarpinu í kvöld. Það er eins og menn í valdastöðum í Kanada séu gengnir af göflunum. Í einum og sama fréttatímanum var fjallað um
- Herforingja í kanadíska hernum sem játaði í dag nauðgun og morð á tveim konum og yfir áttatíu innbrot í íbúðir kvenna þar sem hann stal nærfötum og tók svo myndir af sjálfum sér í nærfötunum. Þessi mynd sem ég set inn hérna er ekki sú fyndnasta sem var sýnd en sú eina sem ég fann á netinu. Í þrettán tilfellum var um að ræða heimili kvenna undir átján ára aldri og meðal annars tók hann mynd af nærfataskúffu tólf ára gamallar stúlku og runkaði sér á rúmi hennar.
- Þrír drukknir lögreglumenn stukku út úr leigubíl og réðust á blaðaburðamann og misþyrmdu honum. Ég hef ekki séð neina ástæðu gefna fyrir verknaðnum. Þetta er sennilega í fjórða eða fimmta sinn á þessu ári í Vancouver að lögreglumenn eru sakaðir um drykkju og misþyrmingar.
- Nú standa líka yfir réttarhöld gegn landamæraverði sem ítrekað framdi líkamsleit á konum sem keyrðu yfir landamærin. Hótaði hann því að þeim yrði vísað úr landi ef þær sættu sig ekki við leitinu. Fór hann síðan með konurnar á almenningssalerni nálægt landamærunum þar sem þær þurftu að afklæða sig áður en hann þuklaði þær. Ég er næstum því hundrað prósent viss um að ég talaði við þennan mann í eitt þeirra skipta sem ég hef keyrt yfir landamærin. Ég var samt svo heppin að ég er með kanadískt landvistarleyfi en þær konur sem hann valdi voru þær sem ekki höfðu dvalar eða atvinnuleyfi heldur voru eingöngu hér tímabundið.
- Við þetta má svo bæta að unglingastjarnan Justin Bieber sem er hér í borginni þessa dagana lenti í einhverjum ryskingum við tólf ára dreng á leisertag stað um helgina. Verið er að rannsaka málið en enn er ekki vitað hvað nákvæmlega gerðist.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ritgerðin
13.10.2010 | 06:18
Ég verð að biðjast afsökunar á því hversu sjaldan ég blogga þessa dagana. Þetta er eiginlega ekki bloggleti heldur tímaskortur. Ég vinn nú að því hörðum höndum að ljúka doktorsnáminu og sit því við tölvuna daginn út og daginn inn, þ.e. þegar ég er ekki í hljóðkerfistímum þar sem ég er aðstoðarkennari. Eina leiðin til þess að fá borgað á meðan ég er í náminu. Þetta þýðir að þegar ég er þreytt á skriftunum þá er bloggun ekki beinlínis besta leiðin til afslöppunar. Það er fremur að ég grípi í gítarinn eða fari út og hreyfi mig. Já, eða þá bara að ég fleygi mér í hægindastólinn og horfa svolítið á imbann.
Ég er nú búin að skrifa alla kaflana nema lokaorðin og hinir ýmsu kaflar eru nú hjá kennurunum mínum sem lesa yfir og gera athugasemdir. Lisa og Hotze, merkingarfræðingarnir og umsjónarkennarar mínir, hafa lesið kaflana yfir í mismunandi mynd en nú er sem sagt farið að nálgast lokaumferð. Ég hef unnið þetta þannig undanfarið að ég sendi Lisu kafla, hún sendir mér athugasemdir til baka, ég geri breytingar, sendi kaflann til Hotze, fæ hann til baka og geri athugasemdir og sendi svo til Gunnars. Staðan er nú þannig að kafli tvö er nýkominn til baka frá Gunnari og ég þarf því að taka athugasemdir hans til greina og get svo sett kaflann í uppkastsútgáfuna. Kafli þrjú er hjá Gunnari núna en ætti að koma til mín í vikunni. Kafli fjögur er nýkominn til mín frá Hotze, svo ég þarf að gera þær athugasemdir og senda hann svo til Gunnars. Kafla fimm sendi ég núna áðan til Hotze. Lisa er sem sagt búin að fara yfir alla kaflana og Hotze á aðeins eftir að fara yfir einn. Gunnar greyið sem er síðastur í röðinni á eftir að fara yfir þrjá.
En þegar ég er búin að fá síðasta kaflann frá Gunnari og laga, þá er uppkastið tilbúið að ritgerðinni í heild. Þá þurfa alla vega Hotze og Lisa að lesa ritgerðina yfir í heild og koma með lokaathugasemdir áður en gengið er frá ritgerðinni og hún send í dómnefnd. Kerfið virkar þannig að einn dómnefndarmaður utan háskólans les ritgerðina yfir og segir til um hvort hún sé tilbúin í vörn eða ekki. Ef ekki þá verður maður að gera breytingar, en ef ritgerðin er tilbúin í vörn þá er vörnin haldin. Þar verður dómnefnd með sex dómurum. Nefndarmennirnir þrír, dómnefndarmaðurinn utan háskólans, og svo tveir aðrir dómnefndarmenn. Annar er úr málvísindadeildinni en sem hefur ekki unnið með mér að skriftum, og hinn þarf að vera úr annarri deild innan háskólans. Þetta fólk ákveður svo hvort ég hafi staðið mig nógu vel eða ekki.
Ef ég stenst vörn þá fæ ég ákveðinn tíma (frá einum mánuði til sex) til þess að gera lokabreytingar og síðan er ritgerð skilað.
Að lokum kemur svo rúsínan í pylsuendanum sem er útskrift og doktorstitillinn.
Vá, ég trúi því ekki að þetta sé í raun að nálgast.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Eru engar lágmarkskröfur um íslenskukunnáttu á Netmogganum?
10.10.2010 | 23:30
Þetta sagði stjörnuspáin fyrir meyjuna í dag:
Meyja: Það er einhver draugagangur í kring um þig. Meyjan getur sýnt af sér hvoru tveggja og eðlilegt að þessi öfl togist á. Hann á gott með að hlusta á það sem aðrir segja fyrir vikið.
Ég les stjörnuspána bara að gamni því það er ljóst að hvort sem eitthvað er til í stjörnuspeki eða ekki þá er ekki hægt að gera trúanlega spá á hverjum degi fyrir alla sem fæðast innan ákveðins merkis.
En það breytir því ekki að mér finnst maður geta gert lágmarkskröfur til þess að einhver skólakrakki þýði ekki bara úr ensku án þess að reyna að gera þetta skiljanlegt á íslensku. Þegar ég les þetta get ég ekki annað en hugsað:
- 'Hvoru tveggja' hvað er það sem meyja getur sýnt? Fyrsta setningin segir að það sé einhver draugagangur í kringum mann...getur þá meyjan sýnt af sér draugagang? En hvað er þá hitt sem meyjan getur sýnt af sér?
- Hvaða öfl togast á? Draugagangurinn og eitthvað annað?
- Og hver er 'hann'? Meyjan? En meyjan er kvenkynsorð og ætti því að vísa til meyju með 'hún'. Eða er verið að vísa til 'hans draugagangsins'? Á draugagangurinn auðvelt með að hlusta á aðra?
Ja hérna. Þvílíkt hnoð. Það er í raun ekki heil hugsun í þessu. Ég held að tíu ára gamla bróðurdóttir mín myndi skrifa betur. Svei mér þá ef sú sjö ára myndi ekki standa sig betur líka.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Mikill fótboltadagur
3.10.2010 | 17:46
Í gær voru tveir fótboltaleikir hjá mér - annan spilaði ég, hinn horfði ég á.
Klukkan eitt spiluðum við stelpurnar í Presto við Cocquitlam United, lið sem við höfðum aldrei spilað við og þekktum ekki. Við vissum líka lítið um þær því tveim af þrem leikjum þeirra hefur verið fresta hingað til svo við vissum aðeins um úrslits eins leiks. Þar töpuðu þær 2-1 fyrir liði sem við unnum 3-2 í síðustu viku. Reyndar var niðurstaðan 3-2 ekki lýsandi því við hefðum átt að vinna þann leik stærra. En alla vega, þetta gaf okkur traust á að við ættum að geta unnið þetta lið, en við töluðum um að passa okkur samt á vanmati.
Við stelpurnar spiluðum þennan leik frábærlega. Enginn veikur punktur var sjáanlegur. Og við uppskárum fljótlega. Siobhan skoraði fyrstu tvö mörkin með því að stinga af varnarmenn sína. Annað markið skoraði Adrienne eftir góða hornspyrnu frá mér. Sjálf skoraði ég fjórða markið eftir aukaspyrnu frá Adrienne. Vörnin ýtti öllum alltof hátt upp. Heimskulegt af þeim því þær hefðu átt að vera búnar að sjá að bæði ég og Siobhan vorum hraðari en þeirra varnarmenn og því ekki gáfulegt að gefa svona stórt autt svæði. Adrienne setti boltann bara á milli varnarmanna og markmanns og ég hljóp hraðar en vörnin og átti því auðvelt með að komast fyrst að boltanum. Reyndar hélt markmaðurinn að hún ætti séns á að komast þangað fyrst og hljóp út en ég náði boltanum, lék á markmann og skaut í autt netið. Ég átti líka stoðsendinguna í fimmta markinu. Hljóp upp hægri kant, alveg upp að endalínu, sendi boltann fyrir markið, hitti Lucy, varnarmaður reyndi að losna við boltann en hann endaði í markinu.
Staðan var 5-0 í hálfleik og dómarinn stakk upp á að sjá hversu lengi við gætum verið með boltann án þess að skora. Í fjórðu deild þykir ekki skemmtilegt að valta alveg yfir hitt liðið. Sérstaklega vegna þess að reglurnar eru þannig að ekki má skrá meira en fimm marka sigur hvort eð er. Svo við reyndum þetta. En svei mér þá, það er erfiðara að reyna að skora ekki en að reyna að skora, þegar hitt liðið spilar ekki vel. Við skoruðum óvart tvö eftir þetta. Fyrra markið kom úr hornspyrnu frá Adrienne. Hún sendi háan bolta fyrir markið, boltinn hitt Lucy og fór af henni og inn. Lucy var með sektarsvip og sagðist alls ekki hafa reynt að skora. Síðara markið kom frá Alichiu sem sendi boltann í markið úr þröngu færi. Hún sór fyrir að hafa reynt að koma boltanum inn. Sagðist hafa haldið að færið væri of þröngt. Undir lok leiks skoruðu hinar stelpurnar eitt, enda vorum við farnar að slaka of mikið á. Þá var líka búið að færa alla úr sínum stöðum. Ég var á miðjunni, Adrienne miðjumaður var komin í vörnina, sóknarmennirnir spila aldrei sókn, o.s.frv. Lokatölur 7-1 og munu skráðar sem 6-1 til að virða 5-0 regluna
Bíllinn minn er enn á verkstæði svo ég tók hjólið. Skellti því fyrst á strætó fyrstu tuttugu og eitthvað kílómetrana en hjólaði svo þaðan á völlinn. Eftir leik hjólaði ég svo á lestarstöðina, skellti hjólinu á lestinu og fór yfir á Swangard fótboltavöllinn - heimavöll Vancouver Whitecaps, sem Teitur Þórðar þjálfar. Jana hafði hringt í mig um morguninn og sagst hafa aukamiða. Ég skipti um föt þar (vilti ekki drepa alla á svitalykt) og horfði svo á leikinn með Jönu, Óla Leifs og Dísu, konunni hans Teits. Þetta var síðasti leikurinn áður en úrslitakeppnin hefst. Whitecaps þurftu að vinna leikinn með þriggja marka mun til þess að vinna vesturdeildina og spila á móti Minnesota í fyrstu umferð úrslita. En það tókst ekki, leikurinn endaði 2-2 og þeir enduðu því í öðru sæti í vesturdeildinni og fimmta í USSF deildinni. Þeir hefja því úrslitaspilið við Portland sem endaði í fjórða sæti. Það hefði verið auðveldara að mæta Minnesota en þeir þurfa hvort eð er að vinna öll liðin ef þeir vilja vinna bikarinn að það skiptir ekki öllu hvaða leið þeir fara.
Þetta er síðasta ár Whitecaps í USSF deildinni. Á næsta ári færast þeir upp og munu spila í meistaradeildinni, MLS. Þetta hefur haft mikil áhrif á þá undanfarna leiki því leikmenn hafa komið og farið. Teitur er búinn að vera að prófa fjölda stráka og sumir hafa bara spilað örfáa leiki áður en þeir eru sendir í burtu. Þetta er öðruvísi kerfi en í Evrópu. Þeir geta hreinlega prófað hina og þessa og valið svo hverja þeir vilja nota á næsta ári. En þeir verða líka að ákveða það fljótlega. Vegna þessa hefur liðið ekki verið eins stöðugt eins og hjá flestum öðrum liðum í deildinni og það hefur haft sín áhrif að leikmenn þekkja ekki hver annan vel eða hvernig þeir spila.
En alla vega, góður fótboltadagur í gær með 7-1 sigri Presto og 2-2 jafntefli Whitecaps.
P.S. það sem skyggir á var tap Arsenal fyrir Chelsea í dag. En bjóst ekki við sigri. Það virðist vanta hálft liðið hjá Arsenal og af því að Chelsea er með frábært lið í ár þá er ljóst að lasið og meitt lið mun ekki leggja þá að velli.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hvernig væri að sýna smá virðingu?
1.10.2010 | 00:15
Þykir orðið alveg eðlilegt á Íslandi að tala um ungar konur sem kerlingar? Bera karlmenn enga virðingu fyrir konum lengur?
Ég veit alla vega að í þessi tæp þrjátíu ár sem ég bjó á Íslandi var orðið kerling virkilega neikvætt orð sem fyrst og fremst var notað um leiðindakvenmenn sem komnir voru til ára sinna.
Og já ég geri mér grein fyrir því að tungumál þróast og breytast, en hver er nákvæmlega tilgangur þess að nota niðrandi orð ef ekki í niðrandi merkingu? Og hvers vegna virðast karlmenn alltaf nota verri orð um konur en konur nota um karlmenn?
Við gerðum einu sinni könnun við HÍ þar sem safnað var saman niðrandi orðum um bæði kynin og svo var litið á hvers eðlis þau voru. Í fyrsta lagi þá voru miklu miklu fleiri niðrandi orð til um konur en um karla. Í öðru lagi vísuð flest þessi niðrandi orð til útlits kvennanna (að þær væru feitar eða ljótar) eða til lauslætis þeirra. Niðrandi orð um karlmenn (sem voru ekki svo mörg) vísuðu helst til gáfnaskorts. Það endurspeglar kannski þjóðfélagið eins og það var. Karlmenn áttu að vera gáfaðir (og helst ríkir) en konur áttu að vera fallegar og hreinlífar. Það hefur alltaf þótt verra að vera lauslát kona en lauslátur karlmaður. Er meira að segja til lauslátur karlmaður...er hann þá ekki kallaður kvennaljómi?
Annars skilst mér að þetta sé að jafnast út. Konur eru orðnar launahærri og þurfa ekki eins mikið á ríkum karlmönnum að halda og því eru þær líka farnar að velja eftir útliti. Ætli það eigi eftir að endurspeglast í orðavali um karlmenn?
Segir konur þurfa að hætta í mömmuleik | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Er ég núna hálfmaraþonhlaupari?
30.9.2010 | 07:02
Á sunnudaginn hljóp ég hálft maraþon í fyrsta skiptið. Hafði áður hlaupið mest 18k en þá joggaði ég það svona bara í rólegheitunum ein og með sjálfri mér. Á sunnudaginn fór ég í keppni. Ekki það að ég hafi verið að keppa við neinn nema sjálfa mig, en það er ágætis hvatning að skrá sig í hlaup. Þannig hafði ég að einhverju að stefna.
Ég var ákveðin í því að vera undir tveimur og hálfum tíma, en vildi helst vera undir tveimur og korteri. En ég er ekki hröð þegar ég hleyp langar vegalengdir. Eins og ég er nú mikill spretthlaupari ef ég þarf ekki að hlaupa langt. Þegar ég var í frjálsum í gamla daga hljóp ég aldrei lengra en 400m - það var reyndar mín besta grein. Man alltaf eftir því þegar ég hljóp 400 í fyrsta sinn. Var að keppa á UMSE móti fyrir hönd Reynis á Árskógsströnd og þá vantaði einhvern til að hlaupa 400 metrana. Ég hafði aldrei gert það áður, bara hlaupið 100 metra, og vissi ekkert hvað ég var að gera. En ég lofaði að hlaupa þetta svo félagið hefði einhvern í hlaupinu. Áður en ég fór í startholurnar spurði ég einhvern mér reyndari hvernig maður hlypi eiginlega 400. "Hlauptu þetta bara eins og þú værir að hlaupa 100 metra" var svarið og ég gerði svo. Skaust úr startholunum og hljóp svo eins og vitleysingur. Eftir tvöhundruð metra var ég orðin þreytt en heyrði másið í næstu stelpu fyrir aftan mig sem ýtti á keppnisandann og einhvern veginn hélt ég þetta út alla leið í markið. Fyrst. Gallinn var að það voru tveir riðlar og sú sem vann seinni riðilinn var hraðari en ég. Ég lenti í öðru sæti. Hef oft velt því fyrir mér hvernig þetta hefði farið ef við tvær hefðum verið í sama riðlinum.
En ég var að tala um hálfa maraþonið. Ég náði takmarkinu. Hljóp þetta á tveim tímum og ellefu mínútum. Ég leit á klukkuna þegar ég var búin að hlaupa nítján kílómetra og þá voru akkúrat liðnir tveir tímar. Ég vissi þá að ég myndi ná að vera undir tveim og korteri því það var ekki séns að það myndi taka mig fimmtán mínútur að hlaupa tvo kílómetra. Ekki fyrst ég átti enn svolitla orku eftir í mér. Ég miða kílómetrann vanalega við sex mínútur því ég hleyp 10k á undir klukkutíma. Þannig að sex mínútur er rausnarlegt. Á sunnudaginn hljóp ég síðustu tvo kílómetrana á ellefu mínútum.
Best var að það hafði rignt daginn áður og alla nóttina og fram á morgun en hætti áður en hlaupið hófst. Þegar ég var komin í markið fór að mígrigna á ný. Það rigndi fram eftir degi en hætti áður en ég spilaði fótbolta.
Já, ég spilaði fótbolta um kvöldið - sama dag og ég hljóp hálft maraþon. Ég veit, ég veit, brjálæði, þið þurfið ekki að segja mér það. Annars held ég að það hafi bara verið gott að hlaupa svona á undan leiknum því ég skoraði tvö mörk og setti upp það þriðja í 3-2 sigri okkar. Stelpurnar sögðu að ég ætti að hlaupa 21 kílómetra fyrir hvern leik. Við sitjum nú á toppi deildarinn með þrjá sigra eftir þrjá leikihöfum skorað ellefu mörk og fengið á okkur sex.
Vondu fréttirnar eru þær að bíllinn minn dó á sunnudaginn. Þegar hlaupið var búið og ég tilbúin til að keyra heim - þá startaði bíllinn ekki. Ég varð að láta draga hann á verkstæði (og þurfti að borga sirka 8000 krónur fyrir það) og í morgun sagði bifvélavirkinn minn að vélin væri ónýt. Þetta er níu ára gamall bíll og ég hef farið ákaflega vel með hann. Því miður á það sama ekki við um fyrri eiganda sem hafði trassað ýmislegt. En sumir eru heppnir og aðrir ekki. Ég er í síðari hópnum. Nú hef ég ekki efni á að kaupa nýja vél svo best er að finna einhvern sem vill kaupa bílinn eins og hann er - kannski einhvern bifvélavirkja sem getur gert þetta sjálfur. Æ æ æ.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)