Það er ekki leikið á næturnar í NBA deildinni
2.12.2010 | 08:08
Fjórða tap Lakers í röð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Náði ekki markmiðinu - ekki á réttum tíma alla vega
1.12.2010 | 07:37
Mér tókst ekki ætlunarverkið. Ég ætlaði að skila ritgerðinni fyrir lok mánaðarins og hef unnið að krafti undanfarið til að ná því en það tókst því miður ekki. Jafnvel þótt ég ynni fram á nótt í gærkvöldi og færi á fætur eldsnemma í morgun. Það er bara einfaldlega að svo mörgu að huga þegar maður skilar doktorsritgerð. Það sem eftir stendur enn eru formúlurnar í ritgerðinni. Einföld setning eins og 'The Canucks play well' fær nokkurn veginn þessa meðferð:
GEN [e] ([Hockey-game(e) ⋀ Agent (e, Canucks)]; ∃e[Play-hockey(e) ⋀ Agent(e, Canucks) ⋀ Manner (e, well) ⋀ M(e)=e])
Og þetta er býsna meinlaus formúla miðað við margar aðrar. Sjáið t.d. þessa, sem þýðir 'The Canucks are playing well':
[[PROG]]w,g,c (λe.CHAR(e,[GENe[[Hockey-game(e,w) ⋀ Agent (e, Canucks)]; ∃e[Play-hockey(e,w) ⋀ Agent(e, Canucks) ⋀ Manner (e, well) ⋀ M(e)=e]]]))
= λt∃e∃e∃w:<e,w> ∈ CON(g(e),w) ⋀ CHAR(e, GENe[[Hockey-game(e,w) ⋀ Agent (e, Canucks)]; ∃e[Play-hockey(e,w) ⋀ Agent(e, Canucks) ⋀ Manner (e, well) ⋀ M(e)=e ⋀ g(t) ⊆ τ(e)]]]])
Þessar formúlur eru flóknar og auðvelt að gera mistök og það er enn aðeins of mikið ósamræmi í þeim. Ég þarf að laga það áður en ég get skilað ritgerðinni. Ég á fund með umsjónakennara mínum á fimmtudaginn og ég stefni nú á að skila á föstudaginn. Þá er ég alla vega bara þrem dögum á eftir áætlun sem er kannski ekki svo slæmt.
En það var svolítið erfitt að sætta sig við það í kvöld þegar ljóst var að ég næði ekki að klára í dag. Þegar maður er búinn að setja sér markmið vill maður ná þeim. Það að ná ekki að klára á tilteknum degi er auðvitað ekki svo slæmt. Aðalatriðið er að þetta er að verða búið. Vonandi næ ég að skila á föstudaginn og þá get ég náð að slappa af í desember. Þá get ég leyft mér að fara í jólaskap.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Um hlutverk slúðurfréttamiðla í fjármálabrjálæðinu
23.11.2010 | 21:36
Oft þegar Íslendingar ferðast til útlanda grípa þeir með sér slúðurblöð eins og Séð og heyrt eða Hér og nú til að lesa í fluginu. Stundum lenda þessi blöð svo hjá Íslendingum erlendis sem heimsóttir eru. Ég á nokkur þessa blaða frá síðustu þrem árum vegna þess að ég nennti aldrei að lesa allt sem í þeim var en tími ekki að henda fyrr en ég væri búin að lesa allt. Hef verið að glugga í þau upp á síðkastið, svona þegar ég þarf pásu frá lærdómnum.
Það er alveg stórmerkilegt að lesa þessi blöð núna svona þegar maður veit hvað gerðist. Ég veit ekki hvort blöðin endurspegla þjóðfélagið en þau sýna að minnsta kosti hvernig lífernið var á ákveðnum hóp Íslendinga, og hvernig litið var á fólk innan þess hóps sem einhverjar stórstjörnur. Þegar maður gluggar í erlend blöð í sama stíl, svo sem Enquirer, People og Star, eru þau blöð uppfull af slúðri um leikara og söngvara. Stundum líka einstaka íþróttamenn, ef þeir eru stór nöfn, og örfáa ríkisbubba eins og Donald Trump og eiganda Virgin, sem ég man ekki þessa stundina hvað heitir. Íslensku blöðin eru hins vegar uppfull af sögum af bankamönnum og fjárfestum, forstjórum og öðrum ríkisbubbum. Jú, og íþróttamönnum, hvort sem þeir eru sérlega góðir eða ekki. Í hverju hefti eru myndir frá árshátíðum fyrirtækja, og eitt heftið hafði meira að segja heilsíðugrein um væntanlega árshátíð og hverjir væru líklegir til að mæta þar. Þessar greinar eru svo skreyttar talblöðrum sem segja 'flott', 'sæt saman' og 'heitt par'. Ein greinin var um hverfi í Garðabæ þar sem safnast hefur saman fjöldi ungs, ríks fólks sem ýmist var í pólitík eða vann í banka. Það er kannski ekki skrítið að þetta ævintýri endaði eins og það gerði. Það var búið að ala upp í fólki svoddan þvílíku aðdáunina á þeim sem voru á kafi í fjármálum og farið var með þetta fólk eins og guði.
Eitt af því fyndnasta sem ég sá var mynd af Evu Bergþóru, fyrrum fréttakonu, og manni hennar, þar sem þau sátu í réttarsal þar sem verið var að rétta yfir manni hennar vegna fjármálaóreiðu. Þ.e. hann og pabbi hans voru ákærðir fyrir brot á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda. Og hver var fyrirsögnin? 'Flott á fremsta bekk'. Maðurinn var sakaður um fjármálaóreiðu og blaðamanni fannst merkilegast hversu flott þau voru. Ef þetta er ekki aðdáun á fjármálaglæpamönnum þá veit ég ekki hvað.
Ég vildi helst skrifa meir um þetta en verð að drífa mig í skólann.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Góðar fréttir
18.11.2010 | 19:27
Gott að heyra að gamli Arsenal maðurinn Robert Pires skuli vera kominn til baka í ensku úrvalsdeildina. Fyrir tæpum mánuði bárust þær fréttir að fimmtudeildarliðið Crawley Town hefði áhuga á leikmanninum og það var ákaflega skemmtilegt að sjá viðbrögð Arsène Wenger við þeim fréttum, en Pires hefur verið að æfa með Arsenal undanfarið. Wenger sagði að þetta væru stærri fréttir en samningur Rooneys við ManU. sem segir kannski meira um það hvað Wenger fannst um Rooney fréttina. Set hér inn bút úr viðtalinu við Wenger aðallega vegna þess að mér finnst svipurinn á honum óborganlegur. Þar að auki er alltaf gaman að sjá Wenger glotta.
Pires genginn í raðir Aston Villa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Íslenska mannkindin
14.11.2010 | 19:06
Þegar ég var sirka fjórtán ára voru Milletúlpurnar geysivinsælar. Þessar bláu, glansandi, fóðruðu úlpur sem voru rauðar að innan. Það var hálfgerður brandari ef einhver vissi ekki hver einhver var að maður sagði: Æi, hann er alltaf í gallabuxum og blárri Milletúlpu, og svo hló maður hrossahlátri, enda voru allir klæddir þannig. Og innan undir úlpunni var maður í blárri hettupeysu frá Adidas (ef maður var heppinn) eða Hummel (ef maður var ekki eins heppinn). Adidas peysurnar voru með hvítri rönd á annarri ermi en Hummel á báðum.
Íslendingar eru alltaf eins. Eitthvað kemur í tísku og allir klæðast því sama, eða allir kaupa sömu græjurnar eða eru með sömu klippinguna. Þegar ég kom heim fyrir sirka fjórum árum voru allar konur á Íslandi með sömu hárgreiðsluna: örstuttan topp sem klipptur var þvert yfir ennið, næstum eins og notuð hafi verið skál. Þegar ég nefndi þetta við fólk þá kannaðist enginn við þetta og flestir harðneituðu því að það væri einhver tíska í gangi. En samt voru næstum allar konur með þessa klippingu. Mér fannst eins og ég væri stödd í bókinni 'Yfirvaraskeggið' eftir Cormier, þar sem enginn vildi kannast við að sögumaður hafi nokkurn tímann verið með yfirvaraskegg. Kannski þarf maður að búa erlendis til að sjá þetta eins greinilega, ég veit ekki. Þetta með Milletúlpuna var mér alltaf mjög greinilegt þótt ég væri sjálf í blárri Milletúlpu.
Sumarið 2007 fór Gunnar Hansson sem hér býr í sumarfrí til Íslands. Þegar hann kom til baka spurði ég að því hvað tískubóla hefði nú heltekið Ísland enda erum við vön því að spyrja hvort annað þeirrar spurningar þegar annað hefur verið á Íslandi. Hann sagði að það væru verðbréf og fjármálamarkaðir. Hvar sem hann hefði komið í heimsókn þar var verið að tala um peningamál. Hið ótrúlegasta fólk var farið að kaupa verðbréf og var að fjárfesta í hinu og þessu. Hann sagði að það væri fyrst og fremst peningar sem þjóðin væri að hugsa um. Ári síðar hrundi allt.
Og síðast eða þar síðast þegar ég kom heim þá voru allir komnir með flatskjá sjónvarp. Allir. Alla vega allir sem ég kom til (mamma sagðist hafa komið í þrjú hús um daginn á sama deginum þar sem allir voru með gömlu sjónvörpin sín þannig að þetta hefur greinilega ekki náð á alla staði). Þegar ég nefndi þetta við einhvern var svarið: 'Nú, þetta eru einu sjónvörpin sem hægt er að kaupa núna'. En bíddu, eyðilögðust sjónvörp alls þessa fólks á þessu eina og hálfa ári eða svo sem ég var í burtu? Var einhver galli í sjónvörpunum. Er þetta ekki stuttur endingartími? Ég myndi sjálf kaupa flatskjá ef ég væri að kaupa sjónvarp í dag, enda rétt að það er ekki hægt að kaupa neitt annað. En sjónvarpið sem ég keypti 2003 þegar ég flutti til Vancouver er enn í fínu lagi og engin ástæða til að kaupa nýtt bara til að fá flatskjá.
Ég las grein um þetta fyrirbæri í dag. Þar var höfundur að velta því fyrir sér af hverju við förum í biðröð bara til að geta keypt kaffi á Tim Hortons (kanadísk kaffi og kleinuhringjakeðja sem er mjög vinsæl hér), eða af hverju við borgum fimm dollara fyrir latté frá Starbucks. Sagt var að það væri kindin í okkur. Við hópuðumst saman eins og kindahjörð. Ef við sæjum aðra gera eitthvað, sérstaklega ef þeir væru nokkrir saman, þá gerðum við það sama. Og ég sver að Kanadamenn eru ekki nálægt því eins slæmir hvað þetta snertir eins og Íslendingar. Kannski er það vegna einangrunar íslensku sauðkindarinnar. Hún hefur ekki breyst síðan um landnám og kannski hefur það áhrif á íslensku mannkindina. Nema það sé íslenski smalahundurinn sem hefur staðið sig svona vel í að smala okkur öllum saman í einn hóp svo við vitum vart lengur hvar við endum og næsta mannkind byrjar.
Bloggar | Breytt 15.11.2010 kl. 18:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Alveg ákaflega illa skrifuð frétt
11.11.2010 | 17:02
Ég er yfirleitt ekki í því að blogga um fréttir, nema þegar þær eru svo illa skrifaðar að ég á ekki til orð. Hér er eitt svoleiðis dæmi. Hér er fyrsta málsgreinin í fréttinni:
Maður frá Sádí-Arabíu myrti 17 ára gamlan son sinn ásamt móður drengsins og henti líki hans í brunn sem er ekki í notkun. Síðan fór maðurinn beint til lögreglunnar og tilkynnti um hvarf sonar síns.
Og hér er önnur málsgreinin:
Hinn 56 ára gamli maður sem býr í bænum Yanbu í Sádí-Arabíu kyrkti son sinn með hjálp móður drengsins og henti honum í brunninn áður en hann fór til lögreglunnar.
Í fyrstu málsgrein kemur sem sagt fram:
- Maðurinn er frá Sádí-Arabíu
- hann myrti 17 ára gamlan son sinn
- ásamt móður drengsins
- henti líkinu í brunn
- fór svo til lögreglunnar
- tilkynnti lögreglunni um hvarf sonarins
Í málsgrein númer tvö kemur fram:
- Maðurinn er 56 ára
- býr í Yanbu í Sádi-Arabíu
- kyrkti soninn
- móðirin hjálpaði honum
- henti syninum í brunn
- fór svo til lögreglunnar
Sem sagt, í báðum málsgreinunum kemur fram að maðurinn er frá Sádí Arabíu og að hann myrti son sinn með hjálp móður drengsins. Í báðum kemur svo fram að hann henti síðan líkinu í brunn og fór til lögreglunnar.
Það hefði verið hægt að segja:
56 ára gamall maður frá Yanbu í Sádí-Arabíu kyrkti 17 ára gamlan son með hjálp móður drengsins. Hann henti líkinu síðan í brunn sem ekki er í notkun og fór svo til lögreglunnar og tilkynnti um hvarfið.
Hér hafa allar upplýsingar úr báðum málsgreinum komið fram og ég notaði aðeins tveim orðum fleira en fyrsta málsgreinin í fréttinni ein og sér.
Þar að auki er útilokað að misskilja hlutverk móðurinnar, en þegar ég las fréttina í blaðinu hélt ég fyrst að maðurinn hefði drepið bæði dreng og móður, og skyldi því ekki af hverju hann henti bara drengnum í brunninn en ekki móðurinni. Blaðamenn þurfa alltaf að lesa vel yfir og sjá til þess að a) fréttin sé liðlega skrifuð, b) að ekki megi misskilja fréttina auðveldlega og svo auðvitað c) að fréttin sé rétt stafsett (sem ekki er vandamál þarna að þessu sinni).
Við sem erum að blogga okkur til gamans eigum að fylgja sömu reglum, en ef okkur verður á þá hefur það samt ekki nálægt því sömu áhrif því fáir lesa flest blogg en Mogginn hefur stóran lesendahóp. Við hljótum því að geta sett hærri kröfur til þeirra sem hafa atvinnu af því að skrifa fyrir blað.
Myrtu son sinn og hentu í brunn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þetta er allt að koma
11.11.2010 | 06:29
Klukkan þrjú í dag sendi ég ritgerðina mína til allra í nefndinni. Nú munu þau þrjú lesa hana yfir og segja til um hvort hún sé tilbúin í dóm.
Ritgerðin er nú 236 blaðsíður og dæmin eru 524. Þetta er sem sat heil bók, sem er ástæðan fyrir því að þetta tekur svona langan tíma. Ég er nú búin að vinna stanslaust síðan Ólympíuleikum fatlaðra lauk í lok mars. Sumarfríið mitt var dagsferð til Seattle. Síðustu daga hef ég unnið fram á kvöld hvern einasta dag og ég er hreinlega búin að vera.
Nú ætti ég að fá nokkra daga frí (nema ég þarf að fara yfir heimaverkefni í hljóðkerfisfræði) og svo kemur síðasta stóra lotan þegar kennararnir þrír eru búnir að fara yfir ritgerðina. Þá fæ ég einhverja daga til að gera breytingar áður en ég skila ritgerðinni.
Helst langar mig á sólarströnd að hvíla mig. Mexíkó væri frábær. En slíkt er ekki í boði. Á meðan ég veit ekki hvað er handan við hornið get ég ekki tekið neinar ákvarðanir.
Ég er búin að senda inn nokkrar atvinnuumsóknir á ýmsa staði og það kemur í ljós hvort eitthvað kemur úr því. Aðallega eru þetta kennarastöður í Bandaríkjunum og ekki eru miklar líkur á að ég fái neina þeirra þar sem fáar stöður eru í boði og margir að útskrifast. En ég sótti líka um vinnu í Vancouver og aðra í London. Nú þegar róast í ritgerðinni get ég farið að leita að alvöru.
En aðallega hlakka ég til að geta setið og lesið eða slappað af án þess að vera með samviskubit yfir því að vera ekki að skrifa. Allt mun breytast þegar þessi ritgerð er frá.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
ritgerð, fótbolti, hokkí...
7.11.2010 | 07:02
Ég hef sett mér markmið fyrir mánudaginn: doktorsritgerðin í heild sinni verður send á dómnefndina mína. Greyin, það þýðir að næstu daga þurfa þau að lesa tæpar 250 síður í merkingarfræði. Og ritgerðin er bara 250 síður vegna þess að ég nota leturstærð 11 og hef aðeins eitt og hálft línubil. Ég er að reyna að bjarga trjám með því að þjappa þessu saman. Og nei, ég má ekki nota eitt línubil. Það eru takmörk á uppsetningu.
Ég er enn að bíða eftir athugasemdum frá tveim kennurum mínum en er að vona að ég fái þær á morgun svo ég geti tekið þær til greina áður en ég sendi þeim uppkastið á mánudaginn. Annars er ýmislegt sem ég þarf að laga á morgun og mánudagsmorguninn áður en ég get sent þetta út, en ekkert óyfirstíganlegt.
Síðan tekur við bið, sem ég get reyndar notað í að laga formúlurnar í ritgerðinni, en í raun er samt ekki margt sem ég get gert annað. Þegar ég fæ ritgerðina til baka frá þeim öllum mun ég taka til greina lokaathugasemdir og svo er þetta sent til utanaðkomandi dómara (sem ég veit ekki hver er) og sá mun segja til um það hvort ritgerðin sé tilbúin í vörn eða ekki. Sá fær fjórar til sex vikur og á meðan get ég aðeins beðið. Það er tími sem ég ætla að nota í afslöppun, lestur bóka, líkamsrækt, svefn...mikið hlakka ég til.
Okkur stelpunum í Presto gengur vel í vetur. Við erum búnar að spila sjö leiki og höfum unnið sex og tapað einum. Við sitjum í öðru sæti með sömu stigatölu og liðið í fyrsta sæti en markahlutfallið er aðeins lakara hjá okkur. Munar tveim mörkum. Við eigum hins vegar enn eftir að spila á móti neðsta liðinu í deildinni en þær hafa nú þegar gert það, svo kannski getum við bætt stöðu okkar þar.
Hokkíliðinu mínu, Vancouver Canucks gengur líka vel þessa dagana og í kvöld unnu þeir Detroit Red Wings, sem er með betri liðum í deildinni. Þetta var sjötti sigur minna manna í röð og þeir eru nú í efsta sæti í norðvestur riðlinum og í þriðja sæti vesturdeildarinnar. Ah, það er svo miklu skemmtilegra þegar vel gengur.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Um lögleiðingu marijúana
5.11.2010 | 03:38
Í gær var kosið í Kaliforníu um lögleiðingu marijúana. Tillagan var felld og þar með önduðu margir marijúanaræktendur í BC léttar. Hér í fylkinu er ræktað alveg ógrynnin af jurtinni og talið er að um 70% sé smyglað til Bandaríkjanna, aðallega til Washington og Kaliforníu. Sumir telja reyndar að útflutningur þangað myndi aukast ef dópið yrði lögleitt en aðrir segja að þá færu Bandaríkjamenn að rækta sitt eigið í auknum mæli. Ekki eins og þeir geri það ekki núna, en ekki í sama magni og hér.
Ég hef ekki prófað að reykja marijúana og hef ekki áhuga, en flestir sem ég þekki hér á vesturströndinni hafa reykt einu sinni eða oftar og ég þekki nokkra sem reykja þetta daglega. Lögreglan lítur vanalega framhjá marijúanareykingum enda stónað lið yfirleitt rólegt og auðvelt í umgengni og því vildi löggan yfirhöfðuð frekar að fólk reykti en að það drykki áfengi. Ég las meira að segja í viðtali við lækni um daginn að hann fengi daglega fólk á slysó sem hefði slasað sig á fylleríi, en það kæmi varla fyrir að nokkur lenti á slysó eftir að hafa reykt smá gras. Sumir vilja meira segja ganga svo langt að segja að marijúana sé betra fyrir þig en sígarettureykingar. Ekki veit ég um það og það er auðvitað ljóst að allur reykur er skaðlegur, og það er kolvitlaust að ætla að halda því fram að það sé skaðlaust að reykja marijúana. Reykurinn fer ofan í lungun. Það er ekki gott fyrir neinn.
En ég verð að viðurkenna að ef ég þarf að vera í sama herbergi og einhver sem er að reykja, þá vildi ég frekar að það væri gras en sígarettur. Hvers vegna? Ekki lyktarinnar vegna, mér þykir lyktin af marijúana vond, en helsti munurinn er tíminn. Sígarettureykingafólk tekur sér tíma til að reykja og oft liggur sígarettan í öskubakkanum og reykir sig sjálf og lyktin og reykurinn liðast um allt. Þeir sem reykja gras draga reykinn oftast að sér þrisvar fjórum sinnum og svo er slökkt í. Þetta tekur kannski tvær mínútur.
Mikið er rætt um lögleiðingu efnisins hér í BC, og því fylgdust margir með kosningunum í Kaliforníu. Sumir hafa meira að segja bent á að glæpastarfsemi hér á svæðinu er að stærstum hluta byggð í kringum marijúana og önnur eiturlyf. Meðal þeirra raka sem gefin eru fyrir lögleiðingu lyfsins er það að lögleiðingin myndi grafa undan ólöglegri sölu og þar með glæpagengjum. Ég held reyndar að það sé ekki rétt því þótt marijúana verði lögleitt þá er það alltaf kókaín, heróín, e-töflur, o.s.frv. Glæpir munu ekki leggjast af þótt grasið verði lögleitt. Hitt er annað mál, ef marijúana er raunverulega ekki hættulegra en sígarettur þá skil ég ekki af hverju sígarettur eru löglegar en grasið ekki.
Hvað finnst Íslendingum?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Aukin notkun veikra lýsingarorða
3.11.2010 | 16:58
Undanfarna mánuði hef ég tekið eftir athyglisverðri breytingu á notkun lýsingarorða á netinu, og þá sérstaklega á meðal kvenna. Þær nota veik lýsingarorð ein og sér án nafnorðs. Veik lýsingarorð eiga að standa með ákveðnum nafnorðum og ættu aldrei að standa ein og sér. Ef notuð eru lýsingarorð án nafnorðs þá höfum við þau í sterkri beygingu:
Hún er lítil - sterk beyging
Hér er lítil kona - sterk beyging
Hér er litla konan - veik beyging
En á Facebook, t.d., sé ég aftur og aftur athugasemdir við myndir sem hljóða svona:
Sætu
Sæta
Flotta
Flottustu
Sætustu
Þetta er að sjálfsögðu ekki eina notkunin. Sem betur fer er það ennþá algengt líka að nota sterku beyginguna og skrifa 'sætar' eða 'sætastar' en þessi notkun veikra lýsingarorða er samt alveg ótrúlega algeng.
Hafa aðrir tekið eftir þessu? Einhverjar hugmyndir um hvaðan þetta kemur?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)